Sarpur fyrir júlí, 2016

Danmörk dagur 7 – Alls ekki Danmörk! Malmö!

Næstsíðasti dagurinn rann upp, bjartur heitur og fagur í úthverfi Malmö. Ekkert leiðinlegt við það. Morgunmatur í boði Reins. Spjölluðum aðeins og gúgluðum hvernig væri best að leita að blessuðum/bannsettum bakpokanum, fundum einhver símanúmer og reyndum að hringja en Danirnir ekkert sérlega mikið í því að ansa í svoleiðis síma á sunnudagsmorgni, tja reyndar ekki allan sunnudaginn. Sendum póst á netfang sem við fundum og ákváðum að ýta þessu veseni úr hausnum og njóta síðasta heila dagsins í ferðinni. Rein sagði Bryndísi líka vera snilling í að redda svonalöguðu og það yrði ágætt að fá hana heim um kvöldið og ráðfæra okkur.

Garðurinn þeirra Reins og Bryndísar og barna er algjör paradís, pallur og ekki bara pottur heldur heil sundlaug, mætti halda að við værum í Flórída, ekki Malmö. Munur að vera hljóðfæraleikari í Svíþjóð! almennilegt!

Verstur fjárinn að eiga ekki mynd af tréhúsinu sem Finnur svaf í báðar næturnar. Það er flott.

Þegar gengið var vaknað dobluðum við Rein til að skutla okkur í búð til að kaupa inn svo við lægjum nú ekki uppi á fjölskyldunni í tvo heila daga. Það var ekki meiningin. Keypt inn fyrir kvöldið og morguninn – við aularnir höfðum svo auðvitað ekki fattað að maður kaupir ekki svo glatt vínflösku með matnum á sunnudegi í Svíþjóð. Hvítvínið með humrinum í hættu! Tja reyndar ekki mikilli, við splæstum bara flösku sem við höfðum ætlað að taka með okkur heim, í staðinn og Rein átti nógan bjór og eitthvað smá vín líka.

Til baka og svo gerðum við satt að segja ekkert fram eftir degi. Nema lesa og spjalla á pallinum:

pallur

nema sá sem er ekki sólarfíkill (og virðist heldur ekki nást í neitt voðalega góðan fókus):

úllíngur

þar til líka hann dróst út – í laug:

sundlaugin

sem var nóta bene himnesk!

meira að segja kettirnir fóru út og lögðust í leti! Sif og Snúður eru sómalíkettir, allt of vogaðir, passa sig ekki á bílum og mega þess vegna ekki fara út nema í bandi:

Snúður og Sif

Tókst mesta furða að vera ekki tölvuleysispirruð og -stressuð.

Um kvöldið var svo farið út á götuhátíðina. Rein er konunglegur fiðlari (ýkjulaust, er með stimpil upp á það að hann spili fyrir sænsku hirðina) og kippti með sér þjóðlagahljóðfærinu út og svo var farið í ratleik sem við unnum ekki en urðum okkur samt ekki til skammar og síðan grillað fyrir gengið. Mikið gaman:

Loksins kom svo Bryndís heim og við spjölluðum lengi fram eftir kvöldi. Engin mynd tekin, en þeim mun meira spjall og skálað og hlegið frameftir. Flugið daginn eftir var að kvöldlagi þannig að ekkert stress.

Danmörk dagur 6 – Köben

Lokadagurinn í Kolding runninn upp. Ekki var ferðin alveg búin, þessi dagur var planaður í Kaupmannahöfn og svo væri ferðinni heitið yfir sundið til Malmö í tvo daga.

Planið hafði verið að heimsækja Irme vinkonu okkar, konu á aldur við mömmu og pabba, hafði verið nánast eins og aukamamma mín þegar við vorum í námi í Danmörku. Þá var sko ekkert Skype og Facebook, rándýrt að hringja milli landa, við mamma leyfðum okkur símtal sirka einu sinni í mánuði. Þegar ég átti svo von á Fífu var ansi hreint gott að eiga aukamömmu til að ráðfæra sig við.

Nema hvað, þegar ég heyrði í henni tveim dögum fyrr sagðist hún eiga hópmiða í Tívolí og geta boðið 4 með sér inn í garðinn. Krakkarnir voru svo auðvitað spennt fyrir að fara í Tívolí, Finnur hafði aldrei farið þangað áður. Slatta auðveldara líka heldur en að rusla öllum upp í lestina til Birkerød og þaðan í stórum leigubíl heim til Irme.

Ég doblaði elstu krakkana til að koma með, við vorum jú með stóran bíl og þau myndu síðan bara taka lestina til baka til Kolding.

Tékkað út af hótelinu, eitthvað hafði bókunin farist fyrir þannig að það var ekki skráð í afgreiðslukerfið að við værum búin að borga bæði herbergin. Sem betur fer gátum við sýnt fram á bæði pósta frá sölusíðunni og úttekt á vísareikningunum þannig að gaurinn varð að trúa okkur.

Komumst loks í bílinn, talsvert tetrisafrek að koma öllum farangrinum fyrir þar sem við gátum ekkert notað aftursætin eins og á leiðinni til Kolding, af stað, náðum í Fífu, Atla og Finn heim til F&A og svo bara bless bless Kolding. Ekki í síðasta skiptið takk, þangað væri ég til í að fara aftur áður en krakkarnir klára námið.

Aksturinn til Kaupmannahafnar gekk smurt og þægilega, enda varla annað hægt á lúxuskerrunni. Þegar við vorum að renna inn á Amager datt mér í hug að það hefði auðvitað verið langlangþægilegast að keyra bara yfir til Malmö með dótið okkar, skilja það eftir hjá Bryndísi vinkonu okkar, sem við ætluðum að gista hjá tvær síðustu næturnar, keyra svo til baka til Kastrup til að skila bílnum og vera farangurslaus í Kaupmannahöfn. Þetta var hins vegar fullseint í rassinn gripið, við vorum ekki með símanúmerið hjá Rein manni Bryndísar og ég mundi ekki heimilisfangið sisvona. Þannig að við vorum ekkert að vasast í þessu og keyrðum bara beint í bílastæðahúsið til að skila. Hefðum reyndar átt að taka okkur þessar mínútur sem hefði tekið að finna út úr málinu, það hefði sannarlega sparað okkur mökk stress og vesen seinna um daginn. En komum betur að því síðar í færslunni.

Áttum auðvitað ekki aukatekið orð til að lýsa kagganum, við strákinn sem tók við bílnum. Hann var ekki farinn að prófa hann einu sinni sjálfur og gat ekki beðið að taka rúnt á honum og prófa alla spennandi takkana!

Drögnuðumst með farangurinn niður í lestina til Hovedbanegården, þar tróðum við dótinu í tvö stór geymsluhólf, gott að vera laus við það. Enn var um hálftími þar til við ætluðum að hitta Irme. Allir orðnir svangir, við röltum yfir á Ráðhústorgið til að fá okkur að borða, ekki sniðugt að þurfa að borða mikið í Tívolí sjálfu. Þar var þá fjölmenningarhátíð í gangi, þjóðdansar á sviði, alveg fáránlega mikill hávaði í músíkinni, sjóðheitt, við orkuðum ekki að labba langt þannig að þó það hafi örugglega verið fullt af alls konar spennandi mat í básum enduðum við flest á pylsuvagni. Tróðum í okkur pylsum og vorum svo dauðfegin að fara úr hávaðanum. Irme sendi mér sms og sagðist vera komin inn í Tívolí, myndi svo koma út og hitta okkur við innganginn þegar við kæmum.

Allt stóðst það, inn í Tívolí, tylltum okkur á pöbb í skugga.

Krakkarnir stefndu svo auðvitað á tækin en við Jón Lárus og Irme tókum bara góðan rúnt um garðinn, settumst niður þegar okkur langaði og röltum áfram eftir löngun. Troðfullt af fólki enda laugardagur og veðrið eins og best varð á kosið.

Pöbb númer tvö:

Frábær Tívolíferð sem endaði á smurbrauði á einum staðnum til.

Kvöddum Irme og upp á lestarstöð, sóttum draslið okkar í hólfin og sögðum bless í bili við Fífu og Atla sem fundu síðan lestina sína til baka til Kolding.

Við skildum ekki bofs í því hvers vegna við fundum hvergi á plani neinar lestir út úr landinu. Vorum orðin svolítið stressuð þegar við föttuðum síðan að við þyrftum bara að taka lestina til Kastrup og skipta þar því eftir hryðjuvesenið um vorið voru bara engar beinar ferðir, þurfti alltaf að skipta um lestir við landamæri. Ókeiii. Við þangað. Var búin að kaupa miða fyrir okkur öll fram og til baka frá Hovedbanegården til Malmö, slapp til að við næðum helgarmiða, sparaði alveg slatta pening.

Drösla farangrinum inn í lest. Drösla farangrinum út úr lest. Drösla farangrinum á hinn brautarpallinn, þar voru opinberu landamærin til Svíþjóðar og þurfti að sýna passa. Styttist í lest. Ég: Jón Lárus, hvar er bakpokinn okkar??? Jón: Það veit ég ekki!!! Í bakpokanum voru BÁÐAR TÖLVURNAR OKKAR!

Bakpokinn hafði gleymst í lestinni frá KBH til Kastrup. Uppi á farangursgrind fyrir ofan sætin okkar. OMG!

Við Jón í dauðastressi upp aftur, búið að loka farmiðasölunni, fundum bara upplýsingar fyrir flugvöllinn sjálfan, þar var engar upplýsingar að fá um DSB týntogtröllumgefið. Fengum bara símanúmer og var sagt að það væri frekar að reyna að fá upplýsingar um þetta daginn eftir.

Til baka, eiturpirruð auðvitað. Krakkarnir höfðu beðið á brautarpallinum og voru fegin að sjá okkur aftur, þó bakpokalaus værum.

Þýddi lítið að pirra sig á þessu þannig að við reyndum að slappa af eins og við gátum. Vildi til að við erum bæði mjög öflug í að bakka upp tölvurnar og vinna á netinu þannig að við vissum að það væru engin gögn týnd. Nóg samt.

Yfir til Malmö. Drösla næstum því öllum farangrinum upp af lestarpallinum og skima eftir Malmö Live, nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsi (og hóteli) Malmö. Það var auðfundið:

malmö live

Magnað hús. Hittum Rein sem var að spila konsert þar um kvöldið og gat farið með okkur túr um húsið. Hann sagði konsertsalinn vera enn betri en Eldborg sem ég trúi náttúrlega mátulega :þ

Náðum svo að troða farangri, krökkum og okkur sjálfum upp í bílinn hans og heim í hús. Finnur fékk að sofa uppi í tréhúsi úti í garði en við hin fengum herbergi inni. Vínglas og ostar, gott og rólegt spjall við Rein (Bryndís hafði tekið gigg á Jótlandi og kæmi ekki heim fyrr en daginn eftir) og úff hvað var gott að fara að sofa!

 


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júlí 2016
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa