Sarpur fyrir janúar, 2010

er nú ekki fullsnemmt

að byrja að selja páskaegg í janúar?

Í Nóatúni áðan, við kassann, var semsagt kassi af páskaeggjum númer eitt frá Nóa. Á kassanum stóð Gleðilega páska.

Jáneitakk!

Reyndar hefur síðan fyrir jól verið hægt að fá páskaegg frá (að ég held) Mónu frekar en Góu – reyndar undir nafninu jólakúlur. Keypti ekki þannig…

átti erindi

niður á Höfuðborgarstofu áðan, rölti auðvitað bara niðureftir, tekur því ekki að taka bílinn svona smávegalengd. Yndislegt veður en frekar fátt á gangstéttunum á leiðinni. Fékk skýringuna hjá um það bil þriðja hverjum glugga, sérstaklega þó þegar gengið var framhjá krám og veitingastöðum á leiðinni. Öskur og stunur eins og bylgjur.

Sérkennilegt þetta hópefli.

ekki var ég

nú svo drukkin á árshátíð Hljómeykis um síðustu helgi að ég geti kennt því um en einhvern veginn tókst mér að gleyma skónum mínum uppfrá! tja reyndar veit ég alveg hvernig ég fór að því, notaði tónleikaskóna líka sem inniskó í búðunum, tíndi til dótið mitt á sunnudagsmorgninum klædd í inniskó sem eru svo sem líka útivænir, bárum töskurnar og nótnapokann út í bíl, settumst inn og keyrðum í bæinn.

Svo í fyrramorgun þegar ég ætlaði út í leikfimi fann ég hvergi götuskóna mína. Hugsaði svo sem ekki meira út í það akkúrat þá, dreif mig bara út í einhverjum skódruslum, kom heim, settist við tölvuna og fór að athuga póstinn. Þá hafði auðvitað einn kórfélagi tekið eftir skóm í anddyri en þó ekki tekið þá með.

Vill til að Væla systir er á leiðinni upp í Hálskolt um næstu helgi, ekki að vita nema ég geti doblað hana til að kippa skónum mínum með heim. (blikk, blikk…)

árshátíð

svei mér þá, skemmtilegasta sem ég hef farið á var um helgina. Hljómeyki fór í Skálholt og hélt tónleika, óóótrúlega skemmtilega, uppleggið var að velja tónlist sem hefur verið samin fyrir Skálholt og við flutt – þar er heldur betur úr mörgu að velja, enda höfum við pantað og flutt ný verk þar á hverju ári í yfir 20 ár. Valkvíðafestival. Allavega völdum við verk eftir Jón Nordal, Báru Gríms, Elínu Gunnlaugs og Óliver Kentish, allt frábær stykki, undirrituð fékk meira að segja að syngja sóló í uppáhalds íslenska verkinu sínu, Óttusöngvum að vori eftir Jón Nordal.

Uppeftir á föstudagskvöldi, æft frá átta til tíu í kirkjunni, til þess að gera snemma í bólið, vaknað til að æfa aftur klukkan tíu, pása frá eitt fram að tónleikum klukkan fjögur.

Má vel segja að árshátíðin hafi byrjað á þessum yndislegu tónleikum, ágætlega mætt miðað við árstíma og að þetta var ekki mikið auglýst, vel tekið undir (klappað, meira að segja – ekki alveg algilt í þessari kirkju)

Þá út í sumarbúðir, já fer svo sem ekki að lýsa mat og skemmtiatriðum nema hvað í kórnum eru kokkur og þjónar og kjötvinnslumaður, neituðu annarri aðstoð við matinn – fáránlega góð þriggja rétta máltíð göldruð á borð, ég á ekki myndir, myndavélin mín er dáin (mu).

En þetta verður svooo gert aftur. Ójá.

endurtekningar

mér finnst alltaf spes svona orð sem endurtaka sig. Haricotbaunir og salsasósa (baunabaunir og sósusósa) til dæmis – svo heyrði ég um daginn að naan þýðir bara brauð þannig að þá tölum við hér um baunabaunir, sósusósu og brauðbrauð. Spes.

Kunnið þið fleiri svona dæmi?

uppskeruhátíðin

það er alltaf gaman á tónsmíðatónleikum í Listaháskólanum en ég er bara ekki frá því að mér hafi aldrei þótt jafn skemmtilegt og áðan, 10 krakkar að sýna afrakstur haustsins, 11 ólík verk, þar af lengsta örverk sem ég hef á ævi minni vitað.

Kærar þakkir fyrir mig krakkar, bæði tónskáld og flytjendur, nú er að vona að hinn helmingurinn (tónleikarnir á morgun) verði jafn skemmtilegir. Hlakka verulega til. Hef ekki áhyggjur af vöntun á sköpunarkrafti, ónei nóg af honum.

vill einhver

segja mér hvað er í gangi þarna? Summoning of Backpacks? Charms galdur farið úrskeiðis?

fór

í vínbúð í dag sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Keypti tvo bjóra til að eiga með píadínunum og Útsvari í kvöld (nei nú skrökva ég, bjórinn er búinn en komin með rauðvín í glas fyrir Útsvarið). Þetta heldur ekki í frásögur færandi þó ég sé nú samt að segja frá því.

Allavega.

Á eftir mér kemur eldri kona með vodkaflösku. Fær uppgefið verðið á henni. Segir: Já þeim þykir ekki leiðinlegt að hækka þetta! Afgreiðslumaðurinn tekur undir og konan fer að tala um að hún verði væntanlega að fara að brugga.

Mig dauðlangaði að snúa mér við og spyrja með þjósti hvort þau héldu virkilega að stjórnvöld væru að þessu að gamni sínu?

Væl!

engin færsla

frá áttunda til þrettánda janúar, nei ég er nú ekki alveg svona sjokkeruð vegna væntanlegrar vonandi Ástralíufarar. Það dæmi kemur í ljós allt saman.

Eru ekki örugglega allir búnir að hringja í Rauðakrosssímann vegna Haiti?

Annars er það bara vanagangurinn hér, vinnan komin á fullt, önnur langa helgin eftir jól smollin inn (hí á ykkur), eitt námskeið í viðbót í ræktinni, uppgötvaði að ég þarf að henda mér af stað í kvartettaskrif, ekki alveg reiknað með verkinu mínu í maí en væri skemmtilegt ef ég gæti sent allavega einn kafla til Tékklands.

Fer samt varla þangað að hlusta, Noregur og Ástralía duga svona í vor.

Nei, nenni ekki að skrifa um vesen og vandræði. Nei trúi enn ekki að við þurfum ekki að borga Ísbjörgu og já ég held að Íslendingar hafi ekkert breyst, hlusti enn bara á þá sem hafa eitthvað jákvætt að segja.

ástralía

já mér býðst að fara til Ástralíu – þetta er svolítið spes, við hjónin erum á leið til Noregs í mars til að hlusta á fyrsta flutning Guðbrandsmessu í útlandinu, get eiginlega ekki sleppt því en svo, eins og Smettisvinir vita var verið að velja lag eftir mig til flutnings á ISCM (International Society for Contemporary Music) í Sydney í maí.

Mig hefur alltaf langað til að fara Down under en auðvitað kostar þetta helling, væntanlega gæti ég fengið einhverja styrki en klárt mig langar nú helst að taka bóndann með – ég er ekki viss um að það komi mörg tækifæri eða svipuð spörk í rassinn um að fara þarna hinu megin á hnöttinn og þá er frekar súrt að fara ein. Hátíðin borgar fyrir mig uppihald og gistingu í þrjá daga, en varla fer maður til Ástralíu fyrir þrjá daga?

Svo er pælingin – ég kemst yfirleitt ekki á svona contemporary music hátíðir, þyki of lagræn – verður maður ekki að nota tækifærið og fara til að hitta önnur tónskáld og stjórnendur og flytjendur og reyna að koma sér aðeins á framfæri? Músíkin mín er flutt svolítið erlendis en mér þætti náttúrlega ekkert verra ef það væri meira. Út frá þessu sjónarmiði væri eiginlega best að fara ein því maður tengist allt öðruvísi við fólk þegar maður er einn heldur en með viðhengi, hugsa maður sé latari að fara á hótelbarinn á kvöldin til að finna kollega þannig.

Æh ég veit ekki.

Allavega búin að skrá mig á styrkjanámskeið ÚTÓN á þriðjudagskvöldið…

töff mynd

já ég veit hún er fótósjoppuð…

ef þetta rugl

kæmi sér ekki svona hroðalega illa fyrir okkur öll myndi ég hlakka yfir skelfingunni hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkunum. (sjá hér). Þeir hafa pottþétt ekki reiknað með að forsetinn myndi neita að skrifa undir og ætluðu að fleyta sér áfram á „réttlátri reiði“ yfir því að hann skrifaði ekki undir. Nú þora þeir ekki fyrir sitt litla líf að taka við keflinu.

Nú þegar viðbrögð umheimsins koma í ljós heyrist ööörlítið minna í liðinu sem skrifaði undir áskorunina? Hræðsluáróður jújú, en ég hugsa að Bretum og Hollendingum, gömlu herraþjóðunum (sem sjá örugglega enn eftir því að vera ekki lengur með öll sín gömlu yfirráð) þyki neitt að því að kremja eitt stykki litla óþekka smáþjóð undir hælnum.

Hvernig væri nú að handhafar forsetavalds krotuðu undir skjalið – er ekki karlinn á leiðinni til útlanda?

að vanda

er ekkert svo erfitt að fara að kenna aftur – ekki verra þar sem nettengingin í Suzukiskólanum er búin að hegða sér óvenju vel í dag, lítið um að ég detti úr sambandi.

Verð samt að viðurkenna að það er ágætt að LHÍ byrjar ekki fyrr en eftir viku, nema reyndar einkatíminn.

Kóræfing í kvöld, fljótlega tónleikar í Skálholti með uppáhaldsverkum, hlakka verulega til. Óttusöngvarnir eru náttúrlega tóm snilld, hefði reyndar alveg verið til í að syngja allt verkið á ný, vonandi aftur síðar.

tepoki dagsins í húsi.

smá sýnishorn

af flugeldunum á Hallgrímstorgi núna um áramótin:

gleðilegt ár

kæru lesendur, takk fyrir frábær samskipti öll þessi bloggár (já og sumir auðvitað mikið lengur).

Ætla ekki í annál, bara hreinlega nenni því ekki. Strengi heldur engin nýársheit frekar en fyrri daginn.

Gamlárskvöld var púra snilld, stórfjölskyldan mætti í matarboð á Njálsgötuna eins og reyndar síðustu 11 ár – fyrir þeim 11 árum þegar Freyja var þriggja ætluðum við sem oft áður í Garðabæinn til momsies & popsies í mat og skaup og flugeldagláp en þá fékk Freyja gubbupest. Var að skríða saman en eiginlega ekki nógu góð til að fara í boð. Frekar en að sleppa öllu saman hringdum við mamma okkur saman og ákváðum að áramótaboðið yrði þetta árið hjá okkur.

Svo var auðvitað svo svakalega mikið fjör og flott uppi við Hallgrímskirkju að það kom ekkert til greina annað en boðið yrði héðan í frá hjá okkur.

Tengdafjölskyldan slóst svo í hópinn árið eftir og síðan þá hafa allir mætt hingað. Egilsstaðafjölskyldan auðvitað ekki eins oft og hinir en þó stundum líka.

Verður nú samt að viðurkennast að lætin á Hallgrímstorgi í ár voru sirka þriðjungur af því sem þau voru fyrir tveimur til þremur árum. Gerir ekki nokkurn hlut til. Flott samt.

Hrátt tvíreykt hangikjöt með melónu og piparrótarsósu í forrétt. Pínu fallegt:

Jamm, Wellingtonsteikin í aðalrétt og Charlotte au chocolat í desert voru alltílæ líka – en ég á ekki myndir af þeim…


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

janúar 2010
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa