Sarpur fyrir júní, 2006

diskurinn

enn um Landsbankagjöfina (ætli þetta sé svona inverse afmælisgjöf)? Hann bara batnar við hverja hlustun. Lögin fín og textarnir eftir hann Braga Valdimar tóm snilld eins og venjulega.

Hef aldrei heyrt um höfundinn (saxófónisti sem heitir Eyjólfur Þorleifsson) en svei mér þá ef hann er ekki bara efni í nýjan Jón Múla ef hann heldur áfram að pússa. Og þetta var mikið hrós ef einhver áttar sig ekki…

útlandarigning

það er svoleiðis hér fyrir utan gluggann minn núna. Ég er ekki á leiðinni út.

svo vorum við Jón Lárus að fá sendan disk frá Landsbankanum, sem Vörðufélagar. Óvenjulega smekkleg gjöf, þessi fíni djassdiskur. Alltaf að fá sendar einhverjar gjafir, það liggur við að ég sé með samviskubit yfir þessu, þar sem við notum þessa reikninga svo til ekki neitt, launin mín eru lögð inn á minn reikning og ég færi þau beint yfir á Netbankareikninginn minn, allt nema lífeyrissparnaðinn sem er tekinn út af þessum.

En bara liggur við.

húsmæðraorlofið

er farin að hlakka gífurlega til að komast í Skálholt. Jú, þetta er heilmikil vinna, maður syngur meira og minna allan daginn en þvílíkur lúxus, allt eldað ofan í mann (yfirleitt snilldarmatur), tvisvar í vikunni þarf að taka þátt í uppvaski og frágangi. Mhmmm. Heitir pottar og (vonandi) smá sól.

leiðinlegt

var búin að skrifa hundleiðinlegt blogg um heimilisstörf dagsins en ákvað að sleppa mínum kæru lesendum við þann lestur. Er þó að affrysta ísskápsómyndina (uss, ljótt að segja, fengum þennan fína ísskáp í brúðargjöf frá tengdó – en það eru 17 ár síðan og hann er bara búinn).

Snilldarveður, eitthvað annað en spáin. Humm. Grill? Og það er ekki til að fá manninn til að sjá um eldamennskuna, ólíkt greininni hennar Möggubestrar í Blaðinu í dag; minn kall eldar oft inni líka.

já, og

La Vida reddaði síðustu afmælisgjöfinni. Stórhættuleg búð, enda stóðst ég ekki að kaupa eitthvað handa okkur þar líka.

jíha

og það er miðvikudagur, þau kvöld eru lögð undir gláp á ómerkilegt sjónvarpsefni. Já, ég játa, ég horfi bæði á Project Runway og ANTM. Catty bitching á fullu í báðum þáttum, Nicky Hilton heiðursgestur, já, þetta er hár standard, maður! Frábært.

ferfalt afmæli

kaffi á eftir, búin að redda 3 afmælisgjöfum en á eftir þá síðustu. Eins gott að þau baki 4 afmæliskökur 😀

annars er allt klárt fyrir Skálholt. Ekki alveg glöð með suma bassana mína, ekki góð latína að láta mann ekki vita fyrr en á síðustu stundu (og einn meira að segja ekki fyrr en ég hringdi til að tékka á því hvort hann yrði ekki pottþétt með, þar sem ég var ekkert búin að heyra frá honum og hann hafði ekki mætt á æfingar). Reddast samt, ég var með hjartað í buxunum að hringja í þann síðasta, sem hafði ekki verið viss um að hann gæti, en ætlaði að reyna allt. Sem betur fór gat hann svo reddað þessu og verður með. Það er nefnilega ekki svo gott að fá fólk til að fórna viku af sumarfríinu sínu þegar það er bara vika til stefnu. Langflestir búnir að gera áætlanir, eðlilega. Hrumpf.

En ég læt mína fjóra traustu duga, hefði helst viljað hafa fimm. Eins gott að flotta músíkin sem við erum að syngja skiptist nær ekki neitt, það hefði verið verra.

upplestur

smá plögg, endilega kíkja á þetta:

drattaðist

í ræktina um hádegisbil og er þess vegna núna alveg að leka út af. Enginn sem ég þekki á við þetta vandamál að stríða, en ég verð alltaf alveg hrrrikalega þreytt. Vill til að ég er ekki að kenna núna, átti stundum í rosalegum vandræðum að halda mér uppi í kennslunni.

Getur einhver ímyndað sér hvernig stendur á þessu?

ég get svo svarið

að ég á ekki eftir að grennast í dag. Eins gott að eiga ekki talandi vigt eins og Grettir.

Engin ósköp fyrri hluta dags en svo voru tvö barnaafmæli síðdegis. troðið í mann á báðum stöðum. Hvað er með að búa til allt of mikið af mat í svona boð?

Reyndar var þetta ósköp pent og passlegt (og náttúrlega gekt gott, allt saman) hjá Ragnheiði Dóru litlufrænku en hrúgurnar af mat á seinni staðnum – úff! Við vorum síðust út og á okkur var troðið ókjörin öll af afgöngum. Ekki viss um að við þurfum að elda annað kvöld. Að minnsta kosti er hádegismaturinn á morgun í hendi.

Formúlan var tekin upp fyrir okkur en svo gerði ég hin gígantísku mistök að fara inn á netmoggann og sá hvernig þetta endar. Súrt. Og súrt :-/

París

here we come 😀

Pöntuðum ferð fyrir okkur hjónin og nýfermda unglinginn, síðustu helgina í september. Nú er bara að hlakka til. Eigum eftir að finna húsnæði og svoleiðis, ekki ólíklegt að ég leiti á náðir Parísardömunnar með að finna eitthvað gott.

hvað er með

að merki Apótekarans sé eiginlega alveg eins og Bónusmerkið. Lyf og heilsa eiga Apótekarann, (Karl Verners og kompaní, ég held að Baugur eigi ekkert í þeim, án þess að vera viss, reyndar) Bleikur (mannlegur) apótekaragrís á gulum grunni.

Sem minnir mig á að það er sárt að Lyf og heilsa eru líka búin að kaupa Lyfjaver. Muuuu! Einu sinni keyptum við alltaf allt apótekadótið í Hringbrautarapóteki. Svo keypti Lyf og heilsa það og lagði niður. Jón Lárus vann slatta fyrir Lyfjaver, sérstaklega þegar þeir voru mestanpart í pökkun og þannig, við færðum viðskiptin þangað. Svo var það líka keypt. Hvað er með Samkeppnisstofnun?

Ekki mörg apótek eftir sem Lyf og heilsa eða Lyfja eiga ekki. Rimaapótek (fulllangt), Árbæjarapótek (líka verulega úr leið) og hvað heitir nú aftur apótekið við Réttarholtsveg? Eða Sogaveg. Það er erfitt að vera conscientious neytandi á lyfjamarkaði þessa dagana. Sérstaklega með Lyfju Laugavegi í tveggja mínútna göngufæri frá okkur…

omg

var að komast að því áðan að ég var að djamma með syni góðs vinar míns (og stjúpsyni enn betri vinkonu) í Köben og ég FATTAÐI það ekki.

er maður að verða gamall, eða kannski bara alls ekki?

veður

maður er fljótur að gleyma súra veðrinu undanfarið um leið og sólin sýnir sig. Hvítvínsveður, segir Nanna, þar er ég sammála, ein hvít komin í ísskápinn og spennandi tilraunauppskrift á planinu fyrir kvöldið. Þarf að fara út og kaupa bókhveiti í krepurnar. Hmm. Hvort ætli sé betra að steikja krepur á pönnukökupönnu eða stóru teflonpönnunni (fyrir nú utan stærðina)

það er einhver

að halda tónleika á klukkur Hallgrímskirkju í augnablikinu. Mikið fegin að þær skuli ekkert pirra mig, eins og suma…

mig grunar

svo grimmt að nú eigi að fresta blessuðu tónlistarhúsinu, fréttir og skoðanakannanir upp á hvern dag. Það á sko að bjarga fjárhag þjóðarinnar og koma slyðruorðinu af stjórnvöldum með þessu. Aulinn í Botnleðju tekur undir og auðvitað fíbblin á Vefþjóðviljanum (þann vef reyni ég alltaf að lesa af og til þar sem það er öllum hollt að kynna sér málflutning þeirra sem eru á öndverðri skoðun. Get hins vegar aldrei lesið mjög lengi, ég fer alltaf í svo skelfilega vont skap af því).

Svo þegar þessu hefur verið frestað má halda áfram með álveravæðinguna af fullum krafti, því við frestuðum jú tónlistarhúsinu.

Hvers vegna heyrist aldrei þessi söngur þegar byggð eru endalaus íþróttamannvirki út um allt?

Heilbrigð sál í hraustum líkama, jú við erum búin að hlaða undir hrausta líkamann í hundrað ár, nú er komið að heilbrigðu sálinni.

Ég skora á nýjan borgarstjóra og fjármálaráðherra, já og menntamálaráðherra, þó ég styðji ekki þeirra flokk, til að hlusta ekki á þetta, heldur halda sínu striki.

Algjör skylda

að skella sér hingað. Jamm!

búin :-D

aaalveg búin núna. Alltaf mega tilfinning að ganga frá nýju verki. Nú þarf ég bara að prenta út og rukka. Reyndar búin að senda flytjendunum nótur, það er ekki smá þægilegt að geta bara geymt skjölin í .pdf formati og sent þau beint þegar þau eru tilbúin. Ekkert vesen (og allt í góðu lagi…)

Þá er að fara út í góða veðrið (loksins), langþráð sumarhátíð á Grænuborg, stelpurnar fóru fyrir mig til að labba með Finni í skrúðgöngunni svo ég gæti nú klárað. Ætti að ná í skottið á þeim.

klukk

langt síðan einhver svona leikur hefur gengið. La parisienne klukkaði mig.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Almáttugur! Það veit ég ekki. Fullt af bókum sem hafa haft mikil áhrif á mig, Lord of the Flies, To Kill a Mockingbird, nú verð ég að fara að drattast til að lesa Draumalandið svo ég geti nefnt hana.

2. Hvernig bækur lestu helst?

Viðurkennist hér með: Ég er léttmetislesari að mestu, krimmar og sf/fantasy í uppáhaldi. Les samt allan fjárann. Ljóð í vinnunni.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Hmm. Meint hvaða bók ég kláraði síðast eða hvaða bók ég er að lesa núna? Síðasta bók sem ég kláraði var líklega Svo fögur bein, eftir Alice Sebold. Sífellt með tárin í augunum, alltaf að leggja hana frá mér því ég gat ekki lesið meira. Svo gat ég heldur ekki annað en tekið hana upp aftur og kláraði á endanum. Núna er ég að lesa The Devil’s Feather eftir Minette Walters. Ekki komin langt en bókin lofar góðu.

EKki nokkur leið að velja bara fjóra til að klukka, gæti tekið 20. Klukka Hallveigu, Syngibjörgu, Önnu K, Jón Lárus og Þorbjörn. Já og hún Freyja er að panta klukk, bæti henni við.

næstum því

búin með fiðludúettaseríuna, á svona hálfa mínútu eftir af áttunda dúett. Reyndar hrúgast á mig verkefnin, ég hef varla undan. Kom mér út úr útvarpsþættinum, maður verður að hafa smá vit fyrir sér. Best að halda mig á eigin vígvelli. Næsta verkefni líklegast píanótríóið.

Sinfónían svo alltaf í gangi með.

þetta er skemmtileg vinna 🙂


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2006
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
252627282930  

sagan endalausa