Sarpur fyrir september, 2018

Kolding den syvende og næstsidste dag. Endnu ingenting.

Jamm. Slökun enn og aftur. Snilldarveður, svona þegar við nenntum að rífa okkur á fætur og fara út. Ekkert prógramm planað frekar en fyrri daginn (ýkjulaust, daginn áður)

Finnur ætlaði reyndar að kaupa sér leikjatölvu og Atli tók hann að sér upp úr hádegi þegar hann losnaði úr vinnunni, gaurarnir fóru í Elgiganten (Elko heitir Rafrisinn þarna úti í DK). Við Jón og stelpurnar pökkuðum aftur í bakpoka og fórum í garðinn góða við vatnið:

Systur í garði

Systur njóta lífsins!

Finnur og Atli mættu á svæðið að góðri stundu liðinni. Við hin vorum búin að sökkva okkur niður í bækur þangað til. Hvorugur þeirra gauranna er sérlegur áhugamaður um sól svo við tolldum ekki mjög lengi á svæðinu eftir að þeir komu. Vorum reyndar líka hin alveg búin að fá nægju okkar af að sitja í sólbaði. Hefði mögulega hjálpað að hafa sundlaug (já eða kannski sundföt, sundlaug svæðisins var jú ekki langt frá).

Komum við í bestu ísbúð Kolding á hinni stuttu leið upp á hótel. Varla hægt að kalla það krók. Þokkalegur ís. Fékk mér sjeik sem var reyndar allt of þunnur. En hei. Ís!

Hótel. Annar fótboltaleikur (einu sinni fórum við til Parísar og lentum þar óvart á kafi í sumarólympíuleikum. Þarna var hinstrakeppni í fótbolta). Mér var svo gersamlega algerlega sama hver ynni.

Pizzur um kvöldið á stað sem var tengdur Madkælderen þar sem Atli er á samning. Fengum pláss úti á terrasse og ágætis pizzur.

 

 

Heim. Sofa. Heimferð daginn eftir.

Tilbage til Kolding den sjette dag. Næsten ingenting

Sunnudagur í Kolding við vatnið. Geggjað veður, 27 stiga hiti og sól. Kom að því!

Við gerðum eiginlega ekkert þennan dag. Slökun par excellence. Við skruppum í Føtex og keyptum bjór, ekki þennan samt:

Brynhildarbjór

duttum svo bara í garð og rósavín, tókum með okkur glös í garðinn við vatnið. Eins og hefur komið fram áður á þessari síðu þá erum við ekkert mikið fyrir að drekka vínið okkar úr vondum glösum.

Á leið úr Føtex sá ég loks þennan svan, þau hin voru löngu búin að taka eftir honum. Applebúð með forljótum glugga“skreytingum“ á jarðhæð. Ætti að banna þetta! og er ég þó Applekona út í fingurgóma!

Svanurinn

En garðurinn sveik ekki:

Garðmynd 1

né heldur útsýnið til kastalans:

Kastalinn

Við höfðum þegar við komum þarna síðast fundið okkur fínan stað milli trjáa og runna til að setja niður picnicteppi í skugga fíns eikartrés en þarna fundum við bara alls ekki staðinn! Skildum ekki neitt í neinu en Fífa fræddi okkur þá á því að svæðinu hafði verið breytt, runnarnir okkar rifnir upp og tréð höggvið til að gera pláss fyrir framlengingu á sundlaugarsvæði staðarins sem var þarna beint fyrir sunnan. Gerði svo sem ekkert til, bekkirnir sem við fundum aðeins lengra borguðu alveg fyrir möguleikann á picnicteppi. Samt spes. Ekkert skemmtilegt picnicsvæði þarna eftir við suðurenda svæðisins.

Føtexgóss í kvöldmatinn ásamt rósavínsflösku sem ekki hafði klárast á föstudeginum. Ekki slæmt. Gæti verið verra. Horft á einhvern leik á hótelinu. Íslendingar dottnir út. Antisportistinn man ómögulega hvaða leikur það var, horfði samt frekar en að vera ógurlegur félagsskítur. Saadan er det bare.

Einhverjir flutningar stóðu yfir í húsinu á móti. Kona og köttur fylgdust vel með því sem var að gerast:

Kona og kisa í glugga

 

Kolding – nej Århus, den femte dag

Dag fimm var stefnan sett á Árósaheimsókn. Mamma og pabbi fóru til Kaupmannahafnar í veg fyrir flugið þennan dag og komu ekki með okkur til Árósa. Við Jón Lárus höfðum komið einu sinni þangað áður en samt eiginlega ekki að marka því við fórum ekkert niður í miðbæ, gistum bara hjá vinkonu ferðafélaga í úthverfi, vorum á Danmerkurtúr frá Kaupmannahöfn á námsárunum. Þetta hefur verið sumarið 1991 svo það var ekki beinlínis stutt síðan við komum á svæðið.

En nú skyldi bætt úr því. Hittum Fífu og Atla á lestarstöðinni í Kolding og tókum lestina norðurúr. Finnur baðst undan Árósaferð, langaði bara til að hvíla sig í rólegheitum einn dag. Það var látið eftir honum.

aperolsett

Þetta Aperol Spritz sett fékkst á lestarstöðinni. Við keyptum ekki.

Lestarferðin, tæpur klukkutími, stoppað á öllum krummaskuðunum, svo sem ekki í sérlegar frásögur færandi.

Komin til Árósa, smástund að oríentera okkur á lestarstöðinni, hvar skyldi farið út til að hitta á miðbæinn, þó Fífa hefði komið þangað áður. Tókst nú samt.

Öll orðin svöng. Fórum á matartorg ekki ósvipað mathöllinni á Hlemmi. Þar fékk fólk sér hitt og þetta, ég ætlaði að fá mér andaborgara en á endanum var ekkert kjöt til á borgarabúllunni annað en svín. Og ég sem er eiginlega alveg hætt að borða svín. Nennti samt ekki í aðra röð svo tosað svín í borgarabrauði og sætkartöflufranskar skyldi það vera. Alveg ágætt. Hin fengu sér mexíkóskt og danskt og austurlenskt og ég klikkaði alveg á að taka myndir!

Aftur út á göngugötu. Veðrið var alveg ljómandi (enda spáin betri fyrir Árósa en Kolding, hluti ástæðunnar fyrir að við færðum okkur til þennan dag), mestan part sól. Freyja var að spá í að kaupa sér hlaupaskó og þau fóru flest inn í íþróttavörubúð, ég settist bara úti enda hef ég alveg mínus áhuga á íþróttavörubúðum. Ekki leist Freyju á neina af skónum svo þau komu bara út aftur og við héldum áfram.

Gengum út að listasafni borgarinnar, risastóru húsi sem skartar regnbogahring Ólafs Elíassonar á þakinu.

Regnbogahringur

Þetta er reyndar alls ekki listasafnshúsið en hringurinn sést vel.

Okkur dauðlangaði til að fara upp og ganga hringinn með litaða glerinu en það var ekki í boði að fara bara upp heldur eingöngu að kaupa sér aðgang að safninu og við hvorki tímdum því (alls ekki ódýrt) né tímdum að eyða þessum góða veðurdegi inni á listasafni. Svo við horfðum bara á listaverk Ólafs utanfrá.

Þá lá leiðin í Pakhus 64, listamannakollektíf þar sem einir 8 listamenn og tveir arkítektar reka saman vinnustofurými og kaffihús.
Manngengt þak

Þarna var hægt að ganga uppi á þaki. Mjög skemmtilegt útsýni að ofan (myndin af regnbogahringnum var tekin þaðan)

Þessar brauðristar voru snilld:

brauðristar

Í beinu framhaldi af svæðinu var að finna hálfgerða Kristjaníu, heilmikið hippasvæði þar sem allt angaði af marijúana og bönd spiluðu úti um allt, það var gaman að kíkja þangað en okkur fannst við samt vera allt of miklir túristar að kíkja á skrítnu hippana og fórum frekar fljótt út af svæðinu. Þetta var samt magnað að rekast á, hef ekki séð svona nokkuð ansi lengi:

hjólalás

Áfram rölt, nú var stefnt á eitthvað kaffihús þar sem átti að fást alveg ógurlega gott kaffi. Það reyndist smá göngutúr, ekki að við værum að flýta okkur samt. Krakkarnir fengu sér kaffi en okkur Jón Lárus langaði meira í bjór/hvítvínsglas svo við fórum út á meðan og leituðum að pöbb. Það reyndist hægara sagt en gert. Ekkert sem okkur leist á nema einn þokkalegur en þar fyrir utan var eitthvað band að spila alveg rosalega háværa músík (sem hvorugt okkar kunni að meta) svo við enduðum á því að bíða bara eftir krökkunum og fá okkur bara drykk þegar við kæmum aftur niður á göngugötu.

Það stóðst síðan auðvitað. Fundum ágætis stað. Engin mynd.

Ég hoppaði inn í apótek til að kaupa mér lesgleraugu í stað þeirra sem brotnuðu í París. Nei ég var ekki búin að vera gleraugnalaus í marga daga (úff) en annað parið sem ég átti voru þröng og ég fékk hausverk af þeim og hin rispuð. Hoppið tók samt óratíma, fann fín gleraugu en það tók hálfvitalega langan tíma að fá afgreiðslu! Þoldi það samt því ég hafði bara hvergi annars staðar fundið neina gleraugnastanda.

Þau hin biðu sallaróleg úti á torgi í sólinni.

Dómkirkja þeirra Árósinga er ekkert lítil eða ljót:

Systur og dómkirkja

Hér sjást systurnar og rétt í kollinn á Atla, fyrir framan kirkjuna.

Orgelið – okkur vantar svona klukku fyrir ofan orgelið í Dómkirkjunni svo prestarnir geti séð ef þau eru búin að tala of lengi!

orgel og klukka

Þá var þetta nú bara að verða ágætt, búin að vera á röltinu mestan part dagsins og kominn tími á að koma okkur til baka til Kolding.

Lestarferðin ekki meira í frásögur færandi en þangað.

Heim á hótel, rólegheitakvöld með bækur og vonda netið á íbúðahótelinu (hvað er með það?)


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

september 2018
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa