Dag fimm var stefnan sett á Árósaheimsókn. Mamma og pabbi fóru til Kaupmannahafnar í veg fyrir flugið þennan dag og komu ekki með okkur til Árósa. Við Jón Lárus höfðum komið einu sinni þangað áður en samt eiginlega ekki að marka því við fórum ekkert niður í miðbæ, gistum bara hjá vinkonu ferðafélaga í úthverfi, vorum á Danmerkurtúr frá Kaupmannahöfn á námsárunum. Þetta hefur verið sumarið 1991 svo það var ekki beinlínis stutt síðan við komum á svæðið.
En nú skyldi bætt úr því. Hittum Fífu og Atla á lestarstöðinni í Kolding og tókum lestina norðurúr. Finnur baðst undan Árósaferð, langaði bara til að hvíla sig í rólegheitum einn dag. Það var látið eftir honum.

Þetta Aperol Spritz sett fékkst á lestarstöðinni. Við keyptum ekki.
Lestarferðin, tæpur klukkutími, stoppað á öllum krummaskuðunum, svo sem ekki í sérlegar frásögur færandi.
Komin til Árósa, smástund að oríentera okkur á lestarstöðinni, hvar skyldi farið út til að hitta á miðbæinn, þó Fífa hefði komið þangað áður. Tókst nú samt.
Öll orðin svöng. Fórum á matartorg ekki ósvipað mathöllinni á Hlemmi. Þar fékk fólk sér hitt og þetta, ég ætlaði að fá mér andaborgara en á endanum var ekkert kjöt til á borgarabúllunni annað en svín. Og ég sem er eiginlega alveg hætt að borða svín. Nennti samt ekki í aðra röð svo tosað svín í borgarabrauði og sætkartöflufranskar skyldi það vera. Alveg ágætt. Hin fengu sér mexíkóskt og danskt og austurlenskt og ég klikkaði alveg á að taka myndir!
Aftur út á göngugötu. Veðrið var alveg ljómandi (enda spáin betri fyrir Árósa en Kolding, hluti ástæðunnar fyrir að við færðum okkur til þennan dag), mestan part sól. Freyja var að spá í að kaupa sér hlaupaskó og þau fóru flest inn í íþróttavörubúð, ég settist bara úti enda hef ég alveg mínus áhuga á íþróttavörubúðum. Ekki leist Freyju á neina af skónum svo þau komu bara út aftur og við héldum áfram.
Gengum út að listasafni borgarinnar, risastóru húsi sem skartar regnbogahring Ólafs Elíassonar á þakinu.

Þetta er reyndar alls ekki listasafnshúsið en hringurinn sést vel.
Okkur dauðlangaði til að fara upp og ganga hringinn með litaða glerinu en það var ekki í boði að fara bara upp heldur eingöngu að kaupa sér aðgang að safninu og við hvorki tímdum því (alls ekki ódýrt) né tímdum að eyða þessum góða veðurdegi inni á listasafni. Svo við horfðum bara á listaverk Ólafs utanfrá.
Þá lá leiðin í Pakhus 64, listamannakollektíf þar sem einir 8 listamenn og tveir arkítektar reka saman vinnustofurými og kaffihús.

Þarna var hægt að ganga uppi á þaki. Mjög skemmtilegt útsýni að ofan (myndin af regnbogahringnum var tekin þaðan)
Þessar brauðristar voru snilld:

Í beinu framhaldi af svæðinu var að finna hálfgerða Kristjaníu, heilmikið hippasvæði þar sem allt angaði af marijúana og bönd spiluðu úti um allt, það var gaman að kíkja þangað en okkur fannst við samt vera allt of miklir túristar að kíkja á skrítnu hippana og fórum frekar fljótt út af svæðinu. Þetta var samt magnað að rekast á, hef ekki séð svona nokkuð ansi lengi:

Áfram rölt, nú var stefnt á eitthvað kaffihús þar sem átti að fást alveg ógurlega gott kaffi. Það reyndist smá göngutúr, ekki að við værum að flýta okkur samt. Krakkarnir fengu sér kaffi en okkur Jón Lárus langaði meira í bjór/hvítvínsglas svo við fórum út á meðan og leituðum að pöbb. Það reyndist hægara sagt en gert. Ekkert sem okkur leist á nema einn þokkalegur en þar fyrir utan var eitthvað band að spila alveg rosalega háværa músík (sem hvorugt okkar kunni að meta) svo við enduðum á því að bíða bara eftir krökkunum og fá okkur bara drykk þegar við kæmum aftur niður á göngugötu.
Það stóðst síðan auðvitað. Fundum ágætis stað. Engin mynd.
Ég hoppaði inn í apótek til að kaupa mér lesgleraugu í stað þeirra sem brotnuðu í París. Nei ég var ekki búin að vera gleraugnalaus í marga daga (úff) en annað parið sem ég átti voru þröng og ég fékk hausverk af þeim og hin rispuð. Hoppið tók samt óratíma, fann fín gleraugu en það tók hálfvitalega langan tíma að fá afgreiðslu! Þoldi það samt því ég hafði bara hvergi annars staðar fundið neina gleraugnastanda.
Þau hin biðu sallaróleg úti á torgi í sólinni.
Dómkirkja þeirra Árósinga er ekkert lítil eða ljót:

Hér sjást systurnar og rétt í kollinn á Atla, fyrir framan kirkjuna.
Orgelið – okkur vantar svona klukku fyrir ofan orgelið í Dómkirkjunni svo prestarnir geti séð ef þau eru búin að tala of lengi!

Þá var þetta nú bara að verða ágætt, búin að vera á röltinu mestan part dagsins og kominn tími á að koma okkur til baka til Kolding.
Lestarferðin ekki meira í frásögur færandi en þangað.
Heim á hótel, rólegheitakvöld með bækur og vonda netið á íbúðahótelinu (hvað er með það?)
Nýlegar athugasemdir