Sarpur fyrir apríl, 2006

og hér kemur fjórða og aðalfærsla dagsins

tja, fimmta, reyndar, gleymdi fiskinu eftir hamingjuóskum þarna í morgun.

Þurfti að skjótast út, einmitt beint eftir að ég henti inn afmælisfærslunni. Átti ekki að verða mikið mál, skjótast með nótur vestur í Sörlaskjól, hann Örn hennar Mörtu frænku spilar með okkur í Hljómeyki á tónleikunum þann 14. maí. Víst betra að vera með nótur. Hitt erindið var að kaupa snittubrauð fyrir heita brauðið, standardinn, fjölskyldan fer í setuverkfall ef við klikkum á því.

Fyrra erindið gekk að óskum, Söngkonan og píanistinn sátu úti í garði að njóta nýfengins sumars í Reykjavík, ég afhenti nótur og tyllti mér í smástund hjá þeim. Var síðan ekki til setunnar boðið, best að drífa sig að kaupa snittubrauðið, heim og halda áfram að undirbúa afmæli. Veit ekki alveg hvers vegna ég fór í Melabúðina, þar var ekki til snittubrauð frekar en ég gat búist við (eitt af fáu sem fæst ekki þar, ekki bakarí á staðnum). Næsta stopp Björnsbakarí við Hringbraut. Þar var svo fullt að ég komst ekki inn um dyrnar. Neibb, ekki nennir maður því. Aftur inn í bíl. Bernhöftsbakarí, annað tveggja hverfisbakaría okkar. Þar voru inni svona 7-8 kúnnar. Meðal annars einn kolsvartur, er ekki í röðinni, stendur úti á miðju gólfi. Ekki málið. Ég aftast í röðina eins og vera ber.

Eftir svona 2-3 mínútur þegar röðin hnikaðist til, gengur sá dökki að röðinni og segir kurteislega, á ensku: Ég held að ég hafi verið á eftir þér, við þann á undan.

Nema hvað, gaur sem stóð beint fyrir aftan þennan verður þetta litla trylltur. Öskrar á hinn: Talaðu íslensku, helvítið þitt!!! Sá svarti verður hvumsa við, skilur ekkert í þessum látum, frekar en við hin þarna inni. Segir, áfram kurteislega og áfram á ensku: Afsakið, ég skil ekki þennan æsing, ég held að ég hafi verið á undan þér inn.

Tekur ekki rasistafíflið upp stól og býst til að ráðast á hinn. (sveiflar meðal annars stólnum nærri framan í mig) Varð nú ekki nema blusterið, þorði greinilega ekki í hann í alvöru, sá svarti bauð hinum út fyrir ef hann vildi í slag. Það gekk nú ekki eftir. Stelpugreyið sem var ein að afgreiða var búin að reyna að reka þennan klikkaða út (tók sérstaklega fram að hún vildi að hann færi, en ekki hinn). Hljóp síðan inn og hringdi í lögregluna (ég var komin með símann fram, reyndar, en sá að hún var að fara að hringja).

Sá svarti fór út, gekk í burtu með barnavagn. Hinn var kyrr inni í smástund spyrjandi okkur hin: Sástu hvað hann gerði, fíflið??? Enginn gaf neitt út á það. Ekki þorði ég að segja nokkurn hlut, hinir líklega ekki heldur.

Hálfvitinn fór síðan út, ég líka (brauðlaus), sá að hann var að svipast um eftir þeim svarta. Ég inn í bíl, inn á Skólavörðustíg, keyrði smáhring og sá þá báða hjá fiskbúðinni Freyjugötu. Mætti lögreglubíl með blikkljósum á leiðinni í bakaríið. Ég til baka í bakaríið. Lét vita hvar þeir voru og að það væri lítið barn í pakkanum. Lögregluþjónarnir beint þangað. Ég aftur í bílinn. Keyrði upp Spítalastíg og sá þá að lögreglan var komin til þeirra.

Svo veit ég ekki meira. Var ekkert að hringsóla meira í kring um þá.

Brauðraununum var síðan ekki einu sinni lokið. Ákvað að fara í Sandholt, hitt hverfisbakaríið, misminnti aðeins staðsetninguna, fattaði það reyndar eiginlega strax en úr því ég var komin áfram Njálsgötuna og gat ekki beygt í átt að Laugavegi fyrr en á Barónsstíg gerði ég það bara.

Þá var auðvitað allt stopp. Laugavegur lokaður við Frakkastíg og ég mjakaðist áfram 2-3 metra á mínútu eða svo. (ennþá með hjartsláttinn eftir Bernhöftsævintýrið). Held ég hafi verið kortér frá Barónsstíg að Frakkastíg. Inn í Sandholt, þar voru bara til snittubrauð með ólifum eða hvítlauk en engin hrein eins og ég hafði annars ætlað að kaupa. NEVERMÆND!!!

heim eftir örugglega einn og hálfan tíma í stað 20 mínútna sem ég bjóst við að sendiferðin tæki…

og #3

afmælið gekk bara mjög vel, Finnur fékk að bjóða fjórum strákum úr leikskólanum, einn mætti reyndar ekki, svo var samtíningur vina og frændfólks. 10 krakkar í allt. Bionicle uppskeran fín, heilir 5 kallar Eitt í tvítaki, verður farið og skipt í hina gerðina, svo sé sko hægt að búa til einn stóran…

Veðrið sem betur fer gott, eftir hressingu og pakkaopnun var hægt að henda öllu liðinu út að leika, bæði róló og leikskólalóð hér innan 50 metra radíuss. Mikið fegin að krakkarnir eru allir vor/sumarbörn, engin nóvember/desember/janúarafmæli þar sem búast má við öllum veðrum. Mjög oft hægt að senda liðið út og fá rólegheit fyrir ömmuogafapakkann að drekka kaffið í friði.

Nú er verið að raða saman þessum kalli, tvítakið sko. Í beinni útsendingu: Maaaammmaaaa! Paaabbiii; Ég er kominn á blaðsíðu 3! Viltu sjá?

blogg #2

Jón Lárus þvoði húsið í dag. Það munar strax, vorboðinn ljúfi, fyrstu túristar að taka mynd af húsinu okkar, birtust í dag.

vá!

nú á ég efni í margar færslur.

Fyrst aðalfundur og árshátíð Tónskáldafélagsins í gærkvöldi. Tveir nýir félagar teknir inn, til hamingju Þóra og Hugi. Fundurinn annars tíðindalítill, smá hikst á einu máli en þar sem fundarstörf eru trúnaðarmál er best að vera ekkert að tjá sig um það neitt. Er í farvegi, vonandi góðum.

Hins vegar er ekkert trúnaðarmál að maturinn sem boðið var upp á hefur ekki verið svona góður í mörg ár. Norðurlandameistari nýbakaður (skilst mér), Ólafur Haukur minnir mig hann heiti (rétt Nanna?) sá um kræsingarnar. Þrenns konar forréttir, hrár, léttsaltaður og kryddaður lax og laxahrogn, þorskur með kóríander og parmaostsflögum (ég sleppti honum, gott að vera varaður við) og besta tómatbasilmozzarellablanda sem ég hef fengið utan Ítalíu. Aðalrétturinn ekki slor heldur, kengúrulundir með blómkálsfrauði, snilldar kartöfluböku og rósmarínsósu. Kengúru hef ég ekki smakkað fyrr. Þessi hefur nú ekki hoppað yfir sig, amk var ekki til seigur biti í steikinni.

Eftirréttir þrír líka, créme brulée, pistasíuís og svo ferskir ávextir með sírópi.

maður fór ekki svangur út.

Vín frá honum Adda með þessu öllu saman. Stóð vel fyrir sínu að vanda. Sérstaklega fannst mér þetta gott, ekkert síðra en Laughing Magpie, heldur dýrara vín frá sama framleiðanda, hverju Þorri og Steingrímur hafa hrósað upp í hástert.

Ekki veit ég alveg hvers vegna, en ég var ekki í gífurlegu drykkjarstuði þarna í gærkvöldi. Gæti haft eitthvað með það að gera hvað var fjári gaman hjá okkur Jóni Lárusi og Hallveigu í grillinu, bjórnum, rauðvíninu og Hotandsweetinu kvöldið áður. Svo beið náttúrlega afmælisveisla í dag. Verð að segja að það var bara ljómandi gott að vera svona óþunnur daginn eftir Tónskáldafélagspartí, það er nebbla ekki vaninn. Right, Tryggvi?

hann Finnur

litli gaurinn minn er sex ára í dag.

Til hamingju, elsku kallinn minn 🙂


í tölvunni
Originally uploaded by hildigunnur.

silvia night

mér sýnist ég vera að fara að útsetja júrólagið okkar elskaða og dáða fyrir strengjakvartett. Fjööööör 😀 Náði í Þorvald í morgun og fékk leyfi og hint, hann ætlar meira að segja að senda mér rytmatrakkið þannig að þær geta spilað ofan á það. Best að fara að pikka upp línurnar, hljómagangurinn gæti varla verið einfaldari, ekkert Bohemian Rhapsody þarna á ferð, bassalínan meira og minna endurtekin út í gegn. Þetta gæti orðið gaman.

vegamót

vinkonuhittingur út að borða í hádeginu. Reynum yfirleitt að fara eitthvert sem við höfum ekki farið áður en í dag var það bara tried and true. Vegamót rokka. Troðfullt, þurftum að bíða eftir borði en samt kom maturinn fljótt og vel. Verð að viðurkenna að ég er ekki mjög ævintýraleg í matarvali á Vegamótum, ég held að ég hafi fengið mér Louisana kjúklingastrimla síðustu 5 skipti sem ég fór þangað. Líka núna. Mæli hiklaust með því. Mmmm

(nei, ég þekki ekkert fólkið sem á né rekur Vegamót 😉

Þá bara að tölta (angandi af einum litlum Viking bjór) með drenginn í víólutíma. Vill til að kennarinn er ekki siðavandur og hneykslunargjarn bindindispostuli…

og áfram

halda teiknimyndasögurnar, úr því mér dettur ekkert betra í hug:

og úr því

að ég er ekki búin að skrifa neitt nema sýna brandara og linka á eitthvað í allan dag er best að bæta einum við: Tékkið endilega á þessari útgáfu af Sverðdansinum

Mahna Mahna

svo er þetta líka svolítið gott. Sveimérþá ef ég set það ekki í fastan tengil hér til hliðar hjá mér.

Tvær góðar í dag:

tölvan

er enn eitthvað smá lengi að hugsa, ég er nú að prófa hinar og þessar tengingar. Hef skjáinn grunaðan, gæti verið að bæði usb tengin í honum séu orðin léleg.

Það sem ég er meðal annars að prófa er að skipta um lyklaborð, á tvö við tölvuna. Finnur tók strax eftir þessu: Mamma, ertu með nýtt lyklaborð? Ertu að hlaða hitt?…

Nú liggur á

að góðir og gegnir Reykvíkingar kjósi VG og haldi framsóknarmanninum með guluna úti.

AMEN

(titillinn er tengill)

Enter alltaf snilld.

í dag

dembi ég óundirbúni lokaprófi í skriflegri tónheyrn á Suzukikrakkana. Hehe. (Reyndar allt í lagi, þar sem þau þurfa engan sérstakan undirbúning undir það)

þetta er ekki auðvelt að birta. Blogger í veseni í dag, greinilega. Ætli þeir fari ekki að vakna þarna á vesturströndinni, til að laga þetta?

þó páskarnir séu búnir

verð ég bara að koma með þessa mynd sem ég fann hjá dr Betu, vinkonu Halls og Ásdísar:

húsasmiðjan

mikið hrrrikalega er húsasmiðjuheimasíðan sorrí! Ekki séns að sjá neitt út úr vöruúrvalinu. Dælt beint út úr viðskiptahugbúnaðinum á netið, engir tenglar, engar myndir, ekkert! Ojbara!

kötturinn

er orðinn feitur í friinu, túnfiskur, rjómi og aðrar trakteringar. Eins gott að fara að koma á einhverri reglu á heimilinu.

búið að vera snilldarfrí, eins og þið sjáið…

orð skulu standa

erum að hlusta á þátt dagsins. Verið að reyna að finna merkingu orðsins lagstofn. Mér datt í hug lead sheet, en Jón kom strax með: Nú, það sem maður leggur til grundvallar þegar verið er að semja júróvisjónlag…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

apríl 2006
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa