tja, fimmta, reyndar, gleymdi fiskinu eftir hamingjuóskum þarna í morgun.
Þurfti að skjótast út, einmitt beint eftir að ég henti inn afmælisfærslunni. Átti ekki að verða mikið mál, skjótast með nótur vestur í Sörlaskjól, hann Örn hennar Mörtu frænku spilar með okkur í Hljómeyki á tónleikunum þann 14. maí. Víst betra að vera með nótur. Hitt erindið var að kaupa snittubrauð fyrir heita brauðið, standardinn, fjölskyldan fer í setuverkfall ef við klikkum á því.
Fyrra erindið gekk að óskum, Söngkonan og píanistinn sátu úti í garði að njóta nýfengins sumars í Reykjavík, ég afhenti nótur og tyllti mér í smástund hjá þeim. Var síðan ekki til setunnar boðið, best að drífa sig að kaupa snittubrauðið, heim og halda áfram að undirbúa afmæli. Veit ekki alveg hvers vegna ég fór í Melabúðina, þar var ekki til snittubrauð frekar en ég gat búist við (eitt af fáu sem fæst ekki þar, ekki bakarí á staðnum). Næsta stopp Björnsbakarí við Hringbraut. Þar var svo fullt að ég komst ekki inn um dyrnar. Neibb, ekki nennir maður því. Aftur inn í bíl. Bernhöftsbakarí, annað tveggja hverfisbakaría okkar. Þar voru inni svona 7-8 kúnnar. Meðal annars einn kolsvartur, er ekki í röðinni, stendur úti á miðju gólfi. Ekki málið. Ég aftast í röðina eins og vera ber.
Eftir svona 2-3 mínútur þegar röðin hnikaðist til, gengur sá dökki að röðinni og segir kurteislega, á ensku: Ég held að ég hafi verið á eftir þér, við þann á undan.
Nema hvað, gaur sem stóð beint fyrir aftan þennan verður þetta litla trylltur. Öskrar á hinn: Talaðu íslensku, helvítið þitt!!! Sá svarti verður hvumsa við, skilur ekkert í þessum látum, frekar en við hin þarna inni. Segir, áfram kurteislega og áfram á ensku: Afsakið, ég skil ekki þennan æsing, ég held að ég hafi verið á undan þér inn.
Tekur ekki rasistafíflið upp stól og býst til að ráðast á hinn. (sveiflar meðal annars stólnum nærri framan í mig) Varð nú ekki nema blusterið, þorði greinilega ekki í hann í alvöru, sá svarti bauð hinum út fyrir ef hann vildi í slag. Það gekk nú ekki eftir. Stelpugreyið sem var ein að afgreiða var búin að reyna að reka þennan klikkaða út (tók sérstaklega fram að hún vildi að hann færi, en ekki hinn). Hljóp síðan inn og hringdi í lögregluna (ég var komin með símann fram, reyndar, en sá að hún var að fara að hringja).
Sá svarti fór út, gekk í burtu með barnavagn. Hinn var kyrr inni í smástund spyrjandi okkur hin: Sástu hvað hann gerði, fíflið??? Enginn gaf neitt út á það. Ekki þorði ég að segja nokkurn hlut, hinir líklega ekki heldur.
Hálfvitinn fór síðan út, ég líka (brauðlaus), sá að hann var að svipast um eftir þeim svarta. Ég inn í bíl, inn á Skólavörðustíg, keyrði smáhring og sá þá báða hjá fiskbúðinni Freyjugötu. Mætti lögreglubíl með blikkljósum á leiðinni í bakaríið. Ég til baka í bakaríið. Lét vita hvar þeir voru og að það væri lítið barn í pakkanum. Lögregluþjónarnir beint þangað. Ég aftur í bílinn. Keyrði upp Spítalastíg og sá þá að lögreglan var komin til þeirra.
Svo veit ég ekki meira. Var ekkert að hringsóla meira í kring um þá.
Brauðraununum var síðan ekki einu sinni lokið. Ákvað að fara í Sandholt, hitt hverfisbakaríið, misminnti aðeins staðsetninguna, fattaði það reyndar eiginlega strax en úr því ég var komin áfram Njálsgötuna og gat ekki beygt í átt að Laugavegi fyrr en á Barónsstíg gerði ég það bara.
Þá var auðvitað allt stopp. Laugavegur lokaður við Frakkastíg og ég mjakaðist áfram 2-3 metra á mínútu eða svo. (ennþá með hjartsláttinn eftir Bernhöftsævintýrið). Held ég hafi verið kortér frá Barónsstíg að Frakkastíg. Inn í Sandholt, þar voru bara til snittubrauð með ólifum eða hvítlauk en engin hrein eins og ég hafði annars ætlað að kaupa. NEVERMÆND!!!
heim eftir örugglega einn og hálfan tíma í stað 20 mínútna sem ég bjóst við að sendiferðin tæki…
Nýlegar athugasemdir