Sarpur fyrir apríl, 2010

aska inn, aska út

flogið frá Kef, flogið frá Ak, bara ekki flogið ekki neitt. Já, verður helst að vera flogið frá London Heathrow líka takk.

Veðrið í Sydney á sunnudag-mánudag upp að 26° C. Já takk, má notast við það.

Ansi hreint gott svar frá Vísindavefnum hér. Engin vissa um hvort Kötlugos fylgir, hvað þá hvenær, Katla hefur gosið með 13-200 ára millibili – nennir einhver að líma hormónaplástur fyrir munninn á forsetanefnunni með hræðsluáróðurinn?

Að skemmtilegri hlutum – ég fór á myndlistarsýningu í Garðabæ í dag, þar er pabbi með tvær myndir, eina unna úr þara og svo þetta þrívíddarglerlistaverk:

Flot, ik? Frekar mikið stolt af pabba mínum!

humm maður á nú eiginlega ekki

að toppa gleðilegs-sumars-færsluna með einhverri leiðinlegri sölufærslu en ég var að uppgötva að á morgun rennur út fresturinn til að skila pöntunum fyrir tvisvaráári pappírs- og lakkríssölu stelpnanna í Graduale.

Þær eru semsagt að selja:

Papco klósettpappír tveggja laga 48 rúllur, 3.400
sama, nema þriggja laga, (mæli með þessum) 30 rúllur 4.100
Papco eldhúsrúllur tveggja laga, 24 rúllur á 3.400
Lakkrís, 500 g á 1.000

Heimsending á höfuðborgarsvæðinu lofað. Ætti að koma í næstu viku.
Látið endilega vita, þetta eru ágætis vörur og góður kór til að styrkja…

gleðilegt sumar

Víst ekki laust við að sumar og vetur hafi frosið saman – látum það vita á gott.

Pönnukökurnar komnar á bláröndótta diskinn (sagði víst bláköflóttan á smettinu áðan en það er bara ein blá rönd á þessum). Góður samt. Þeytararnir í uppþvottavélinni, það gæti hafa verið mistök, ungviðið vill pönnukökur NÚNA en mamman segir neibb, ekki fyrr en allt er til og það verður jú að vera þeyttur rjómi, á pönnukökunum á sumardaginn fyrsta er það ekki?

ahhh

hvað er þægilegt að vera komin í þriðjudagsfrí – ég náði meira að segja að bæta við næstum því mínútu í framvindu í blessaðri sinfóníunni sem liggur annars eiginlega undir skemmdum, svo langt síðan ég kíkti á hana síðast.

Styttist í hinu líka, bæði Suz og Hafnarfjarðarkrakkarnir byrjuð í tónheyrnarprófum nema framhaldsstigið sem fer ekki í vorpróf, ég er alltaf með símat (nei, ekki símaat) í tónheyrnarkúrsunum.

Vantar eitt verkefni úr hljóðfærafræðikúrsinum til að geta gengið frá einkunnum þar.

Svo bara að rúlla upp öllum frágangi ekki síðar en í lok næstu viku. Puttar krossaðir.

nýju fötin keisarans

Var ekki ástandið hér eins og í hinu fræga ævintýri Hans Kristjáns Andréssonar?

Nema að því leyti að barnið var sem hrópandinn í eyðimörkinni. Eða var það tréð þarna í skóginum?

eigingirni

Ég ætla að vera eigingjörn núna og vonast til að gosið hætti rétt svo að við komumst í Ástralíuferðina!

Eða nei, klárt maður vonast nú til að þetta fari að sjatna svona almennt auðvitað. Og að Katla gamla bara hvíli sig lengi og vel í viðbót. Játakk.

Unaðsleg helgi að baki annars, þessar helgar þar sem ekkert er að gera eru bestar. Finnur var reyndar í æfingabúðum, skiluðum honum upp að Hallgrímskirkju fyrir klukkan fimm á föstudag, svo var Freyja í sellótíma og ég á einum fundi í gær, jú og söng við eina messu í dag. Tilfinningin er samt róleg helgi, getið ímyndað ykkur hvernig þetta er oftast nær…

Að gefnu tilefni

“Vegna stefnu Pálma í Fons gegn Svavari Halldórssyni fréttamanni RÚV geri ég hér með orð Svavars (fréttatexta) að mínum og hvet alla til að birta eftirfarandi fréttir:
Frétt 1:
Pálmi Haraldsson notaði skuldaviðurkenningu frá Baugi sem veð þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun. Baugur og eigendur hans voru ráðandi hluthafar í Glitni og viðskiptafélagar Pálma. Bankinn hefur ekkert fengið greitt og peningarnir eru týndir.
Pálmi Haraldsson í Fons kom víða við í góðærinu. Hann átti Iceland Express, Skeljung, Securitas, flugfélagið Sterling og hluti í FL Group og bresku verslunarkeðjunni Iceland. Meðal helstu viðskiptafélaga hans var Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hann átti meðal annars Gaum og réði ríkjum í Glitni.
Fons, félag Pálma, átti hlutabréf í Högum og Debenhams sem Pálmi seldi félaga sínum Jóni Ásgeiri í Baugi, snemma árs 2007. Á móti fékk Pálmi skuldabréf á Baug. Allir pappírar virðast hafa verið útbúnir í samræmi við lög og reglur. Pálmi fór með skuldabréfið í Glitni og lagði það að veði fyrir tveggja og hálfs milljarða króna láni sem hann fékk greitt út í peningum. Á þeim tíma var Baugur Jóns Ásgeirs í miklum vanskilum við Glitni Jóns Ásgeirs, en skuldabréfið þótti samt sem áður fullnægjandi trygging. Hlutabréfin hurfu síðar úr Baugi yfir í önnur félög Jóns Ásgeirs en allir gjalddagar voru framlengdir inn í framtíðina. Félögin þrjú í þessari fléttu fóru öll á hausinn eitt af öðru, Glitnir, Baugur og Fons. Þessa sögu má lesa úr lánasamningum, viðaukum og allskyns skjölum sem fréttastofa hefur undir höndum.
Allar skuldaviðurkenningar liggja ógreiddar í búum hinna gjaldþrota fyrirtækja. Einu alvöru peningarnir í þessum viðskiptum voru 2500 milljónir króna, sem fóru úr Glitni og í hendur Pálma Haraldssonar, en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.
Frétt 2:
Ekki verður hægt að ganga að Pálma Haraldssyni vegna gjaldþrots Fons, þar sem hann er ekki í persónulegum ábyrgðum. Kröfur í þrotabú félagsins nema 38 milljörðum króna og ljóst að stór hluti tapast. Pálmi segist geta gert grein fyrir því hvað varð um tveggja og hálfs milljarðs króna ógreitt lán frá Glitni.
Fréttastofa sagði frá því gær að 2.500 milljónir króna sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu. Lögmaður Pálma hefur hótað fréttamanni málsókn, verði fréttin ekki dregin til baka og beðist afsökunar. Pálmi segir að féð hafi verið notað til að greiða lán Fons hjá Landsbankanum og kaup á sjóðsbréfum Glitnis og hefur látið fréttastofu í té færslunúmer þessu til sönnunar. Ómögulegt er hins vegar út frá þeim að staðfesta orð Pálma. Fréttastofa hafði í gær eftir heimildarmönnum, sem hún metur áreiðanlega, að féð virðist hafa horfið og finnist ekki í þrotabúi Fons.
Þeir hafa staðfest það aftur í dag. Lánið hefur aldrei verið borgað. Af frétt gærdagsins hefði mátt skilja að Pálmi hafi sjálfur tekið umrætt 2.500 milljóna lán persónulega, en ekki eignarhaldsfélag hans, Fons, sem nú er í skiptameðferð. Hér með er áréttað að Fons tók lánið, en Pálmi var þar aðaleigandi, annar tveggja prókúruhafa og einn skráður í framkvæmdastjórn, samkvæmt fyrirtækjaskrá.
Kröfur í þrotabú Fons nema um 38 milljörðum króna og ólíklegt að nokkuð fáist upp í almennar kröfur.
Pálmi Haraldsson var hins vegar ekki í neinum persónulegum ábyrgðum og því fellur ekki blettur á hans kennitölu við gjaldþrot Fons. Hann á enn miklar eignir víða um lönd í gegnum önnur félög sín.
Fyrirtækjaveldi Pálma virðist hafa fengið góða fyrirgreiðslu hjá Glitni fyrir hrun. Fréttastofa hefur undir höndum gögn um fjögur lán sem tekin voru frá því í desember 2007 og fram á mitt ár 2008.
Samanlögð upphæð þeirra nemur um 22 milljörðum króna. Þrotabú Glitnis gerir tæplega 24 milljarða króna kröfu í þrotabú Fons og fyrirséð er að það muni taka milljarðaskell. Títtrætt 2.500 milljóna lán hefur aldrei verið greitt og féð finnst ekki í þrotabúi Fons.
Frétt 3:
Eignarhaldsfélaginu Sundi var tryggt með leynisamningi við Baug að það gæti losað sig við fimmtungs hlut sinn í Northen Travel Holding á hærra verði en hann var keyptur. Að auki fékk Sund sérstaka þóknun fyrir viðvikið, samtals 475 milljónir króna.
Í desember 2006 seldi FL-Group lággjaldaflugfélagið Sterling fyrir 20 milljarða inn í nýtt félag, Northern Travel Holding. Það var í eigu stórra hluthafa Glitnis, seljandans FL, og Fons Pálma Haraldssonar og síðan Sunds, sem var í eigu fjölskyldu Óla heitins í Olís. Hið síðastnefnda lagði til 2500 milljónir og eignaðist um 22% í nýja félaginu. Baugur, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, skuldbatt sig jafnframt til að kaupa aftur bréfin af Sundi, samkvæmt leynilegum baksamningi. Fons stofnaði svo nýtt félag 2008, M21 sem fékk lán hjá Glitni til að kaupa Sunds-bréfin, fyrir 2750 milljónir. Hlutabréfin sjálf voru látin duga sem veð og lánið er enn ógreitt. Sund fékk að auki sérstaka 222 milljóna króna þóknun fyrir ómakið. Mál þetta er til rannsóknar hjá yfirvöldum. Fons bólgnaði út og greiddi eigendum sínum rúma fjóra milljarða í arð, en Fons, Northern Travel Holdins, Baugur og Glitnir eru nú öll farin á hausinn. Skiptastjóra Fons hefur tekist að rekja slóð milljarðanna fjögurra til Lúxemborgar, en síðan ekki söguna meir. Um þá snýst eitt fjölmargra riftunarmála sem hann hefur höfðað. Þetta má allt saman lesa út úr skýrslu endurskoðenda, leynisamningnum sjálfum, lánasamningum og fleiri skjölum. Allt var þetta hluti mikillar viðskiptafléttu þar sem Sterling flugfélagið gekk ítrekað kaupum og sölu, og allir virðast hafa grætt, ja nema Glitnir.
Eftirmáli, þulur les: Ekki náðist í Pálma Haraldsson við vinnslu þessarar fréttar og Jón Ásgeir Jóhannesson vildi lítið tjá sig um málið.”

ótrúlegur ignorans

Varð frekar hissa áðan, fékk komment á gríðarlega lítið virku ensku bloggsíðuna mína, færslu síðan í september síðastliðinn. Stelpugrey sem syngur í kór á Hawaii, kórinn syngur bara trúarlega (væntanlega þá kristilega) tónlist og ekki nóg með það, kórstjórinn heldur því fram að öll kórtónlist sem samin hafi verið sé trúarleg.

Uhh nei…

Þarf að finna einhver útvalin verk fyrir hana til að hlusta á, helst á ensku, ég hugsa að svona lokaður hugi geti ekki hugsað sér að láta kórinn sinn syngja á Öðrum Málum En Ensku.

jáh

ferming yfirstaðin, gekk allt saman ljómandi vel.

Freyja fermdist í Hallgrímskirkju, bara ósköp falleg athöfn, ég var ánægð með ritningargreinina sem hún valdi (það sem þér viljið að aðrir gjöri ykkur skuluð þið og þeim gjöra), fermingarbróðir spilaði ógurlega vel á saxófón.

Svo heim og síðasti veisluundirbúningur. Að maður hélt. Búin að gera lista yfir það sem þyrfti að taka með á veislustað. Kristján Óli frændi, stjúpsonur Óla bróður hafði líka fermst um morguninn í Áskirkju, við slógum saman veislunum og vorum í safnaðarheimili Áskirkju. Hellingur og glás af veitingum enda þrjár fjölskyldur sem stóðu að börnunum.

Auðvitað þurfti svo að senda eina ferð til að sækja svosem eins og þrennt sem hafði gleymst/ekki athugast að þyrfti að taka með. (nýttist svo ekki nema einn hlutanna þriggja – og svo gleymdist sá, fíni Raadvad brauðhnífurinn okkar, þarf að tékka á honum á morgun).

Veislan tókst feikivel, þrjár vinkonur Fífu voru ómetanleg hjálp í eldhúsinu og framreiðslu, annars hefðum við þurft að vera á haus í að fylla á kaffikönnur og bæta við á kökuborðið.

Kökur, kökur, flatbrauð, kökur, tvær týpur af fermingartertum, tengdamamma gerði aðra týpuna og pabbi Kristjáns Óla lét gera hina (held ekki að þau hafi gert hana sjálf, má leiðrétta mig ef það er rangt)


Freyju kaka frá ömmu hennar


hér Kristjáns Óla


Freyju kaka frá Ingvari, pabba Kristjáns, og familíu


og svo Kristjáns Óla kaka frá sömu.

Nóg af fermingartertum. Fyrir utan nú peruterturnar, karamelluterturnar, súkkulaðihnetukökurnar, vorrúllurnar, kleinur og snúða, heitt brauð, flatkökur með hangikjöti (heimabakaðar sko!) laxarúllur og hvað veit ég, örugglega að gleyma einhverju. Ætluðum að hafa franskar súkkulaðikökur en þær náðu aldrei inn í ofn, hvað þá meira.

Freyja spilaði svo Á vængjum söngsins ásamt frænda sínum sem hoppaði inn í meðleik með þriggja daga fyrirvara. Glæsilegt.

Bóndinn bloggar svo líka um daginn hér.

Þreyttur, já, þreyttur núna!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

apríl 2010
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
252627282930  

sagan endalausa