Archive for the 'graduale' Category

Uppáhalds atriðið

á Jólasöngvum Langholtskóra er hér, nýsett inn, njótið:

safnanir

nei, ekki að selja neitt – núna – en mér líst þannig á að við verðum mikið að spamma fólk í vetur. Freyja er að selja klósettpappír fyrir ekki færri en 3 aðila fyrir ferðir, ein söfnunin búin, önnur fljótlega af stað og sú þriðja, veit ekki alveg. Ætla að reyna að reka eftir því að sú selji eitthvað annað en endilega klósettpappír, eldhúsrúllur, kaffi og lakkrís (hmm, klósettpappír og lakkrís í sömu sölu…). Gradualekórinn stefnir á Bandaríkjaferð, kammerhópinn langar að fara á námskeið í Póllandi og svo er 9. bekkur í Austurbæjarskóla að fara á skíði til Dalvíkur (sú söfnun er við það að verða búin – það á reyndar eftir að vera með kaffihús á afmæli Austurbæjarskóla í næstu viku, en það þarf allavega ekkert að hringja í fjölskyldu og vini eða spamma hér og á smettinu fyrir það).

Finnur verður síðan væntanlega með kerti kring um jólin eins og í fyrra. Fífa vinnur smá með skóla og ætlar takk fyrir að borga fyrir sig sjálf í Gradualeferðina. Ekki slæmt – nóg samt. Veit ekki hvort Nobili fer líka í ferð næsta sumar en það hefur amk. ekki frést af neinni sölu í kring um það.

Flandur er á þessum krökkum annars.

humm maður á nú eiginlega ekki

að toppa gleðilegs-sumars-færsluna með einhverri leiðinlegri sölufærslu en ég var að uppgötva að á morgun rennur út fresturinn til að skila pöntunum fyrir tvisvaráári pappírs- og lakkríssölu stelpnanna í Graduale.

Þær eru semsagt að selja:

Papco klósettpappír tveggja laga 48 rúllur, 3.400
sama, nema þriggja laga, (mæli með þessum) 30 rúllur 4.100
Papco eldhúsrúllur tveggja laga, 24 rúllur á 3.400
Lakkrís, 500 g á 1.000

Heimsending á höfuðborgarsvæðinu lofað. Ætti að koma í næstu viku.
Látið endilega vita, þetta eru ágætis vörur og góður kór til að styrkja…

vá hvað

Carmina Burana var flott í kvöld hjá Sinfó, Hallveigu, Jóni Svavari, Rumon, Óperukórnum og Gradualekórnum – hlustaði á æfingu í morgun og svo í útvarpinu í kvöld, get ekki beðið eftir að fara á tónleikana á morgun.

Klökknaði alveg við að sjá báðar stelpurnar mínar þarna uppi á sviði og standa sig svona líka vel, ekki stórt hlutverk sem stúlknakórinn syngur en mjög flott og mikilvægt í verkinu, þær fengu víst fyrirskipun um að syngja eins gróft og þær gátu, ekki eins og þessar skóluðu raddir sem þær eru margar, búnar að læra í mörg ár, fengu að máta belting og allt. En maður verður víst að ráða yfir nokkrum söngstílum, gaman að prófa svona líka.

Hraðinn hjá Rumon gríðarlegur, ég verð að viðurkenna að ég kann mjög vel að meta það, enda hraðafíkill en ég hef á tilfinningunni að óperukórinn sé ekki alveg alls staðar vanur svona miklum hraða og snöggum skiptingum, það er eina sem ég gat sett út á flutninginn. Held samt ég geti nánast fullyrt að þetta er alveg í anda Orff og verksins. Love it!

jólasöngvar

Langholtsins í kvöld, fyrstu voru í gærkvöldi, ég hef Freyju grunaða um að vanta járn, hún hvítnaði öll upp á tónleikunum og varð að fara heim í hléi, systir hennar náði að skutla henni og vera komin á tíma fyrir seinni partinn. Gef henni slátur í matinn í kvöld og sjáum nú til, vonandi heldur hún út (veit nú ekki hvort það er alveg svo fljótvirkandi samt). Hlakka allavega helling til að heyra í þeim í kvöld, ég fer á seinni tónleikana klukkan 11 til nærri hálftvö…

ekki fyrr

eru öll kertin (nánast, Harpa, þarf að koma þínum á sinn stað og svo ætlaði ein vinkona að kaupa fleiri) en næsti seljapakki mætir á svæðið. Nú er það hinn hefðbundni klósettpappír, eldhúsrúllur og (nýtt, nýtt) lakkrís sem Gradualestelpurnar eru að selja. Tvær svoleiðis stelpur hér á bæ núna.

Má alveg leggja inn pöntun hér (þriggja laga klóstpappír 30 rúllur á 4100, 500 grömm af lakkrís 1000 24 rúllur af eldhúsbréfi 3300) en annars eru þær bara komnar á að selja þetta sjálfar takk. Ein söluherferð tvisvar á ári er feikinóg fyrir foreldrana!

félagsmálatröllið

já, tókst náttúrlega að vera kosin formaður foreldrafélags Gradualekórsins á fundinum áðan. Hvers vegna getur maður ekki haldið sér saman? (ókei það var reyndar búið að undirstinga mig með það, með loforði um að þetta sé ekki mikil vinna – fjáröflunarnefnd og ferðanefnd eru ekki á formanns könnu sem betur fer).

Á leiðinni út af fundi tókst mér svo líka að fá festa pöntun á verki fyrir karlakór. Eins gott maður! var ekki farið að lítast á blikuna, ekki nema eitt verk í gangi…

Svo er ég loksins búin að panta mér tíma hjá lungnasérfræðingi, ég hef ansi sterkan grun um að ég þurfi á smá sterameðferð að halda. Lækningaráðgjafinn minn á emmessenninu tók undir þá greiningu. Fer á mánudaginn, mamma kennir fyrir mig einn tíma, var heppin að það hafði losnað tími hjá sérfræðingnum. Er nefnilega bara ekki að skána nokkurn skapaðan hlut.

dagur 1. Þangað

Keppnisferð Grallara til Olomouc í Tékklandi, maí-júní 2009

Dagbók skal haldin að vanda. Hefði verið hægt samhliða en meira gaman eftirá, lengir ferðina og þá þarf ég heldur ekki að fylla litlu vélina af myndum og þannig. Höldum vananum, mjaka þessu inn eftirá. Engar myndir fyrsta daginn, mynda- og vídjóvélarnar voru ekki dregnar upp fyrr en daginn eftir.

Sveimérþá, hvað á eiginlega að þýða að boða kórinn inn í kirkju klukkan 4 að nóttu þegar mæting á völlinn er 05:20? Það tekur ekki alveg tvo tíma og 20 mínútur að keyra til Kebblaíkur. (tja, miðað reyndar við ýmsar tímasetningar í ferðinni er þetta væntanlega ekki alvitlaust). Daginn áður, þegar Jón Lárus flaug út á sama tíma höfðum við sett klukkuna á 4:05, sko til að vakna, ekki mæta neinsstaðar…

Rétt mundi eftir að henda niður hlussumillistykkinu fyrir myndavélarhleðslutækið, er með breskri kló. Hvert ég henti því niður var aftur góð spurning (er ekki enn búin að finna það þó ég sé komin heim).

Köttsa hafði ekki kúrt uppi í hjá mér um nóttina eins og hún er vön, heldur ekki Fífu né tómu rúmunum krakkanna, ekki uppi í sófa eða í körfunni í þvottahúsinu. Hmm! Leist ekki á að fara af stað og halda að kisa væri týnd! Sem betur fer sýndi hún sig áður en við Fífa fórum af stað svo við gátum klappað henni smá. Vorum búin að fá riseigandann til að sjá um hana, þar til krakkarnir gætu tekið við eftir helgina.

Nújæja, af stað skyldi haldið, ekki gengi ef fararstjórinn væri (mikið) seinni en kórinn út á völl. Tókst auðveldlega, við Fífa vorum búnar að ganga frá bílnum á rándýra gæslustæðið og tékka okkur inn þegar kórinn og kórstjórinn sýndu sig á svæðinu. Gekk nokkuð átakalaust að fá sæti í vélinni, reyndar skil ég ómögulega fídusinn við sjálfsinnritun þegar maður þarf síðan að standa í sömu röð og hinir til að skila töskunum. Sáum ekkert borð sem var bara baggage drop off, allir fóru í aðalröðina.

Byrjaði áætlun: Láta Fífu í friði.

Venjuleg aðalfundarstörf – neinei fríhafnarstörf, varla þörf á að telja upp, kaupa sjampó og rauðvínsflösku, eitthvað að lesa, danskt kellingablað til að eiga eitthvað að sofna yfir, heitt súkkulaði og croissant á Kaffitári. Súkkulaðið þar er drekkandi ef maður biður um smá salt samanvið og sleppir rjómanum. Enginn Mokkastandard samt, ónei.

Flug ekki viðburðaríkt, Æslander hætt að dæla í mann ókeypis mat og lánar ekki teppi lengur. Við Fífa vorum með nesti en ég splæsti á mig teppi og uppblásnum kodda, kom sér síðan oft vel í ferðinni, hellings rútuferðir. Steinsofnaði undir teppinu. Gott.

Lent í Frankfurt, Jón Lárus og Grétar bílstjóri tóku á móti okkur. Grétar hafði keyrt með okkur áður, þegar Hljómeyki fór í keppnina í Riva del Garda, níu árum fyrr. Ætluðum að stoppa og fá okkur kvöldmat í Plzen en enduðum á að stoppa á landamærastöð. Það var vesen. Enginn hraðbanki! Hvað er með að hafa engan hraðbanka? Vildi til að við JLS höfðum keypt slatta af evrum sem okkar eigin gjaldeyri og þær voru notaðar til að kaupa mat ofan í allt liðið. Eins gott. Settum hámark á hópinn, 100 tékkneskar krónur fyrir mat og drykk á mann. Fékk skrítnasta svínasnitsel ævinnar, ekkert panerað og með sirka hálfum lítra af sveppasósu. Hreint ekki bragðvont samt, súrkál og soðið franskbrauð með.

Áfram til Prag, Þórir ræðismaður tók á móti okkur og lóðsaði áfram, gistum á hosteli í miðbænum, kojur og læti (jámm kojur og jámm læti, við JLS vorum í 12 manna herbergi með yngstu stelpunum í hópnum. Ég er eiginlega orðin of gömul fyrir svona). Þegar allir voru komnir í þessi 4 herbergi sem hópurinn hafði (Jónsi kórstjóri fékk sérherbergi reyndar – það var eitt af þessum fjórum) fór Þórir með okkur í smá rúnt um miðbæinn svo stelpurnar myndu fá pínu hugmynd um hvert skyldi halda þegar þær fengju lausan tíma. Þaddna er H&M, hér er MacDonalds – og svo framvegis.

Einn bjór + með Jónsa í lokin og svo bólið. Stelpurnar í okkar herbergi voru örugglega álíka fúlar að hafa okkur með og við að vera í flatsæng, mesta furða að þær kvörtuðu ekki. Fóru hins vegar að æfa raddirnar sínar þar til ég þaggaði niður í þeim, enda klukkan orðin hálfeitt, mæting fyrir æfingu og messu snemma morguninn eftir og við væntanlega ekki ein á hótelinu.

Gott að fara að sofa. Hvenær er það ekki, annars?


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa