Sarpur fyrir maí, 2012

Svona fór fyrir þeimSvona fór fyrir þeim, originally uploaded by hildigunnur.

Já, fínu dýru heyrnartólin sem reyndust drasl, sjá hér. Endanlega dottin í sundur – og við erum seriously ekki svona miklir böðlar á græjur. Ekki láta ykkur detta í hug að kaupa Able Planet heyrnartól.

Tónskáld mánaðarins

Já ég vissi reyndar að það stæði til, og hef þurft að senda smá um sjálfa mig – en vá, bara vá, ég vona ég þurfi ekki að taka samanburðinn þarna neðst sem háð. Held reyndar ekki.

Sjá hér

Svo er að vita hvort þetta skilar áhuga á músíkinni minni. Hef allavega eitthvað til að vísa í!

hvað er með

að vera búinn að lemja niður eyrnabólgu og hellast svo beina leið út í kvef? Eiginlega mancold! Ekki að maður hafi minnsta tíma til þess núna.

Mætti allavega á Káræfingu (kóræfingu hjá Kára) áðan þrátt fyrir mancoldið þar sem ég sleppti þeirri síðustu vegna eyrnanna.

Fundastúss í gangi og skólalok, enginn tími, enginn tími fyrir veikindi. Já og tónleikar. EssÁ að spila með Selkórnum í Hörpu á laugardaginn. Krakkarnir að spila á tvennum tónleikum á laugardaginn. EssÁ með eigin tónleika á sunnudaginn eftir rúma viku. Tónsmíðatónleikar Listaháskólans á sunnudaginn eftir rúma viku. Árekstrar? tja mesta furða hvað það lítur út fyrir að sleppa. 

galvaníseraða fjöðrin

Við húsið okkar er ansi fallegt járnhlið, snúið og skrautlegt. Jón Lárus málar það með Hammerite á hverju ári og það lítur ágætlega út en hreyfanlegi hlutinn á því á til að ryðga og búa til leiðinlega tauma. Reyndar smá saga um fjöðrina á hliðinu (já semsagt ekki fuglsfjöður). Má lesa hér meðal annars, þar sést líka mynd af hliðinu. 

Allavega vorum við (les aðallega Jón Lárus) orðin frekar leið á þessum ryðtaumum og ákváðum að gera eitthvað í málinu. Galvaniseruð eða zinkhúðuð fjöður myndi ekki ryðga svona. Leitum uppi hverjir taka að sér að meðhöndla svona stykki og eini staðurinn sem slíkt er gert hér, að við gátum séð, er í ytri byggðum Hafnarfjarðar. Gat nú verið.

Við þangað, fyrir nokkrum vikum, jújú sjálfsagt að vinna þetta fyrir okkur, ég skýst svo og sæki stykkið miðvikudaginn eftir, þegar ég er að kenna í Hafnarfirði.

Spyr hvað þetta kosti. Gaurunum þykir viðvikið frekar fyndið, það væri synd að segja að fjöðrin sé stór né flókin. Jú, þeir hreinsuðu af henni málningu og dýfðu í zink (eða álíka), formaðurinn harðneitaði að gera reikning en ég mætti borga þeim tvöþúsundkall í kaffisjóðinn. 

Sjálfsagt mál

Nema ég var auðvitað ekki með tvöþúsundkall í lausu með mér. Þúsundkall átti ég. Gaurinn: Ekkert mál, láttu mig hafa hann og þú skýtur til okkar öðrum við tækifæri. Ég: Kúl, geri það næst þegar ég á leið í Hafnarfjörð.

Ekki tókst það nú reyndar alveg, var búin að fara tvisvar að kenna en í bæði skiptin á hraðferð og ekki tími til að keyra þarna nánast að álmonsterinu en í dag gekk þetta upp.

Enginn á skrifstofunni, ég rölti mér inn að vinnuskemmu og rekst þar á formanninn. Rifja upp fyrir honum viðvikið með fjöðrina og segi að hér sé afgangurinn, í kaffisjóðinn.

Vildi ég hefði verið með myndavélina uppi við til að geta sýnt ykkur upplitið á manninum…

já eyrun

tókst að ná bólgunni niður með tetrjáolíunni minni, uppgötvaði þetta undraefni fyrir nokkrum árum þegar yngri krakkarnir voru eyrnabólgukeis. Bráðbakteríudrepandi, mér tókst semsagt að ná þeim út úr vítahringnum bólga-læknir-sýklalyf-læknir-rör-lagast-bólga aftur. Dugar að dreypa olíunni á snyrtipinna (nei ekki af hnakkataginu, þetta sem hét einu sinni eyrnapinnar og er nú orðið bannað að nota til að hreinsa eyru) og rétt væta inn í eyrnagöngin áður en þau fóru að sofa. Hefði haldið að þetta væri tilviljun, ég er alveg voðalega hikandi að trúa á snákaolíur en þetta er jú trjáolía, ekki snáka, nema vegna þess að þetta svínvirkaði á þau bæði tvö, strax og forever after (allavega hingað til).

Notaði ráðið semsagt á mína bólgu (sem var bara í ytra eyra, eins og eyrnalæknirinn sagði þegar ég fór og lét tékka í dag hvort ekki væri örugglega allt í orden, „bara ómerkileg ytrieyrnabólga!“ – en farin) Á innra eyra virkar þetta tæpast nema það sé gat, röra eða ekkiröra.

Get allavega mælt með þessu efni. Má líka nota á bólur. Og blöðrubólgu. Ekki drekka það samt, held það geti drepið mann eins og bakteríurnar. 

eyrnabólga

mér finnst að maður eigi ekki að fá svoleiðis lagað á gamals aldri! Allavega er með sjálfgreinda eyrnabólgu, byrjaði á þriðjudaginn og ég hreinlega fattaði ekkert hvað var í gangi, aum í vinstra eyra, með hellu og öll asnaleg. Í gær datt þetta ofan af himnum, bólga í ytra eyra. Tea tree olían mín í notkun, talsvert betri í dag en ekki alveg góð samt. Hugsa að þetta verði orðið þokkalegt á morgun – vona það allavega. Nemandi minn með útskriftartónleikana sína, bara í annað skipti sem ég útskrifa tónsmíðanemanda. Eins gott að mæta á svæðið! Skutlaði Dananum og Færeyingnum úr Mpiri kórnum sem gista hjá mér fram á mánudag upp í Hella- og Fólakirkju áðan, kom við í ríki og bónus á leiðinni heim og var svo búin á því að ég lagði mig og sofnaði í klukkutíma. Foj!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

maí 2012
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa