Archive for the 'lasleiki' Category

eyrnabólga

mér finnst að maður eigi ekki að fá svoleiðis lagað á gamals aldri! Allavega er með sjálfgreinda eyrnabólgu, byrjaði á þriðjudaginn og ég hreinlega fattaði ekkert hvað var í gangi, aum í vinstra eyra, með hellu og öll asnaleg. Í gær datt þetta ofan af himnum, bólga í ytra eyra. Tea tree olían mín í notkun, talsvert betri í dag en ekki alveg góð samt. Hugsa að þetta verði orðið þokkalegt á morgun – vona það allavega. Nemandi minn með útskriftartónleikana sína, bara í annað skipti sem ég útskrifa tónsmíðanemanda. Eins gott að mæta á svæðið! Skutlaði Dananum og Færeyingnum úr Mpiri kórnum sem gista hjá mér fram á mánudag upp í Hella- og Fólakirkju áðan, kom við í ríki og bónus á leiðinni heim og var svo búin á því að ég lagði mig og sofnaði í klukkutíma. Foj!

Hóst. Hóst.

gat nú verið! 5 dögum áður en við eigum að syngja Messías með Sinfóníunni og daginn fyrir fyrstu æfingu með enska stjórnandanum byrjar mín að hósta. Skrítin í röddinni og illt í hálsinum á mánudeginum, ákveð að syngja ekkert á kvöldæfingunni heldur sitja úti í sal og hlusta. Tókst næææstum því, tók undir í eina kaflanum sem ég er ekki alveg með á tæru (eða þeas var ekki á mánudaginn – lærður núna).

Vakna svo auðvitað í morgun alveg þegjandi hás. Muuu.

Fór á hljómsveitaræfinguna, sat reyndar inni í kór en það var ekki spurning um að syngja eða ekki. Steinþagði.

Heim og kveinkaði mér á smettinu. Fékk auðvitað fullt af ráðleggingum.

Þannig að nú sit ég með trefil og hitapoka, sötrandi hálsbólgudrykk frá kaffisigrúnu, royal jelly töflur (í stað própólis, var ekki til í heilsubúðinni og heilsuhúsið lokað í dag vegna vörutalningar!), bé vítamín, dé vítamín (þetta tvennt reyndar sérstakar söngvararáðleggingar frá sérfræðingnum í heilsubúðinni sem gaf mér dé vítamínskot upp á 500 einingar, hvað sem það nú er) sniffandi tetréolíu og búin að spreyja mig með avamys nefspreyinu drengsins (það reyndar í stað þess að skola nefið með saltvatni).

Svo er bara að krossa putta. Þið megið gjarnan gera það með mér, takk. Held mig heima á morgun, ekki bara út af tónleikunum, væri ekki beinlínis sniðugt að fara að kenna með röddina í þessu ástandi. Þarf yfirleitt bara að kynna mig þegar ég hringi í skólana og tala með minni fínu rámu bassarödd, til að þau grípi þetta…

sumarkvöldin

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, þó veðrið sé nú ekki glanslegt ennþá stendur það örugglega til bóta. Og það fljótlega.

Það eru nefnilega mörg ár síðan við gátum sungið með réttu vísuna góðu sem endar: Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur.

Kveðjur úr pestarbælinu sem er þó pínu minna slíkt en í gær – ekki að vita nema mér takist að rísa upp og halda afmælisveislurnar sem til standa á morgun.

Bill Gates syndrome

já eða bara kennaraveiki, ég er með hana. Verða ekki veik nema í fríum. Búið að vera snarbrjálað að gera, fyrir utan það sem ég lýsti hér í þarþarsíðasta bloggi (eða svo) bættust við inntökuviðtöl í tónlistardeild LHÍ, var þar í rosalegri törn allan gærdaginn, fyrir tónleikana. Tekur á, þó það sé spennandi að hitta allt þetta flotta fólk.

Gætum mögulega brotið ákveðið blað á næsta skólaári, meira um það síðar.

En allavega þá hrundi ég alveg í nótt, vaknaði titrandi og skjálfandi, veit ekki hvað ég var með mikinn hita, um miðja nótt. Heldur skárri í morgun en góð, nah. Súri pakkinn.

En tónleikarnir í gær voru annars æði, voða stolt af nemöndinni minni, flott útskriftarverk.

ekki að ræða það!

að ég sé að verða veik rétt fyrir Bostonferðina!

Neibb.

Finnur og Fífa eru bæði lasin og ég er með hausverk. Reyndar byrjaði sá í gær og ég hef ekki fundið neitt meira, segið mér að þá sleppi ég við pestina. Takk!

skil ekkert í

hvers vegna kötturinn er ekki búinn að vera með nefið stanslaust við magann á mér að furða sig á látunum – hef sjaldan eða aldrei vitað annað eins garnagaul og núna í þessari bannsettu magapest. Jámm ekki enn orðin alveg góð, fór að kenna í gær og gafst upp um miðjan dag, elsku Þóra mín samkennari og Hljómeykisfélagi sá aumur á mér og tók fyrir mig seinni tvo tímana. Ákvað svo í dag að vera gáfuð og halda mig heima og ná þessum fjára algerlega úr mér.

Er að dútla við að skanna gamlar blaðaúrklippur í staðinn. Verst að skanninn minn er ekki alveg nógu stór, nær ekki heilum blaðsíðum.

Önnur færsla eftir smá, um skemmtilega grein sem ég fann.

Dagur #5 Lasin

Þetta vona ég að sé leiðinlega færslan. Vaknaði klukkan hálfsjö, stórskrítin í maganum, fór nú samt niður í morgunmat, upp aftur og tókst að steinsofna. Verri þegar ég vaknaði og nú með niðurgang. Efast um að það hafi verið matareitrun þar Jón Lárus var í fína lagi og við höfðum alltaf borðað sama matinn. Sendi hann út til að kíkja á netið – uppgötvaði síðan að ég komst á net á Safari, var bara Firefox sem virkaði ekki, væntanlega einhver spes stilling sem ég átta mig nú samt ekki á hver getur verið. Keypti mér tvo tíma og notaði annan af þeim til að tékka á póstinum og aðeins á smettið. Hélt svo bara áfram að lesa.

Vorum með heil ókjör af bókum með okkur, síðustu Stieg Larsson bókina, Bryson: A short history of almost everything, Ben Goldacre: Bad Science, Hafmeyjuna eftir Camillu Läckberg (jájá veit að sumir lesendur þola hana alls ekki en mér finnst hún bara ágæt), tvær af demigod bókunum eftir Rick Riordan, Stone Soup teiknimyndasögubók og eins og þetta sé ekki nóg þá rakst ég á Drowned Wednesday, þriðju bókina í Keys to the Kingdom flokknum eftir Garth Nix á tvo ástralíudollara í kassa fyrir utan bókabúð og stóðst ekki að kaupa. Eins og ég segi – nóg að lesa með í för.

Jón Lárus kom síðan heim hálffúll, opna netið á pöbbnum hafði ekkert virkað. Var glaður að heyra að ég hafði náð inn á hótelinu.

Tókst að klára tvær af léttlestrarbókunum á þessum lasinndegi, best að reyna að eiga eitthvað smá annað en Bryson og Goldacre eftir í flugið.
Það er kannski hægt að setja eitthvað út á hótelið hér, örlítið farið að eldast, baðinnréttingarnar frá 1960 eða svo og það sést, aðeins farið að flagna upp veggfóðrið á ganginum og herbergið mætti alveg við umferð af málningu. En rúmið var hrikalega gott, hvorki of mjúkt né of hart, líkt og rúmið hans bangsa litla. Herbergið mitt á hinu talsvert fínna Hotel Norge fyrr á árinu var mun smartara og flottara allt saman, en rúmið var af bangsamömmugerðinni, maður seig niður í miðjuna og ég fékk í bakið. Frekar aðeins minni flottheit en gott rúm, takk fyrir! Sérstaklega úr því ég eyddi nánast heilum degi í því. Engar myndir teknar þennan daginn.

mikið er nú gaman

að sjá fram á að fara lasin í laaaaaaaaanga flugið í fyrramálið!

Haus stútfullur af kvefi og rödd ekki til staðar en ég er allavega ekki með hita (hananú, ætli ég vakni þá ekki með hita í nótt)?

Ætla nú samt ekkert að hætta við…

svefnleysi já…

ætlaði aldrei að sofna í fyrrinótt, gleymdi líka svona hinu og þessu, fyrst upp að taka sjöttu steratöfluna (tók óvart bara 5 um miðjan dag), niður aftur, æh upp aftur, gleymdi að taka bakflæðilyfið, niður aftur, einu sinni enn upp, man ekki lengur til hvers, lá uppi í og hugsaði í fullri alvöru (um hálftvöleytið) hvort ég ætti nú ekki að hengja upp úr þvottavél sem væri pottþétt búin en gerði samt ekki alvöru úr því.

Fínt að það eru bara 2 dagar af 6 töflum. Ekkert te í kvöld er ég hrædd um.

meiri sterar

jamm, lungnalæknirinn fyrirskipar annan sterakúr og áframhald af bakflæðidótinu. Segir þurfa þolinmæði, þetta muni koma á endanum. Fór í myndatöku í gær og það sést ekkert að lungunum – eins og læknirinn var reyndar búinn að spá. Hringdi síðan í mig (inn í miðjan leikfimitíma) og sagði mér að byrja aftur á lyfjunum. Varaði við meiri matarlyst (urrg, tók eftir því síðast), að ég gæti orðið uppstökkari (hmm, veit ekki með það, þarf að spyrja fjölskylduna), erfiðleikum með svefn (ekki sem verst síðast nema þegar ég asnaðist til að fá mér tebolla eitt kvöldið).

Ég vona bara ég fái frekar dugnaðarkast, klári karlakóralagið og komist vel af stað með strengjakvartettinn fyrir Tékkland. Já og svo má alveg við því að þrífa smá hérna fyrir jólin – ágætt að fá pínu steraspark til þess (já já ég veit það þarf ekki að stressa sig þannig fyrir jólin en einhvern tíma árs verður víst að þrífa almennilega inn í hornin og upp á skápum, hví ekki núna?)

og enn

er lasleiki, nú kom Freyja heim úr skólanum slöpp og með höfuðverk, duglega skottan mín er ekki vön að þykjast vera lasin. Vonandi að hún sé ekki komin með flensu.

Á maður annars að panta svínaflensusprautu? Spyr lungnalækninn á eftir.

lakknirinn

á morgun, vonandi bót minna meina! Skýst úr kennslunni, mamma allsherjarreddari ætlar að kenna einn tíma fyrir mig, takk mamma. Þykist heppin að fá tíma hjá fína lungnalækninum sem ég slysaðist til að panta mér tíma hjá hér fyrir fjórum-fimm árum í fyrri lungnabólgunni.

Þetta má vel fara að verða búið, takk.

Sýning á Söngvaseið í dag, alltaf jafn gaman. Tvær planaðar eftir og hver veit hvort þær verði ekki fleiri?

félagsmálatröllið

já, tókst náttúrlega að vera kosin formaður foreldrafélags Gradualekórsins á fundinum áðan. Hvers vegna getur maður ekki haldið sér saman? (ókei það var reyndar búið að undirstinga mig með það, með loforði um að þetta sé ekki mikil vinna – fjáröflunarnefnd og ferðanefnd eru ekki á formanns könnu sem betur fer).

Á leiðinni út af fundi tókst mér svo líka að fá festa pöntun á verki fyrir karlakór. Eins gott maður! var ekki farið að lítast á blikuna, ekki nema eitt verk í gangi…

Svo er ég loksins búin að panta mér tíma hjá lungnasérfræðingi, ég hef ansi sterkan grun um að ég þurfi á smá sterameðferð að halda. Lækningaráðgjafinn minn á emmessenninu tók undir þá greiningu. Fer á mánudaginn, mamma kennir fyrir mig einn tíma, var heppin að það hafði losnað tími hjá sérfræðingnum. Er nefnilega bara ekki að skána nokkurn skapaðan hlut.

já nefnilega

spurning um hvort þetta var svínið sjálft eftir allt saman? Þarf víst ekki að vera neinn hiti að ráði, talað um andþyngsli og verk í lungum, jahá. Passar allt saman. Fann greinina í svarhala hjá Ellu.

Kannski var ég heppin að vera búin að vera í púli í leikfimi í 2 mánuði fyrir veikindi, samkvæmt greininni hjálpar það helling.

Maður spyr sig.

Alveg góð, nei ekki enn en líður miklu miklu betur takk.

trúði

ekki mínum eigin hálsi í gærkvöldi – fór að finna fyrir hálsbólgu. Nokkuð sem ég er ekki búin að vera með, þrátt fyrir hósta og svolitla raddbandabólgu. Sem er NB ekki farin enn, grrr. Mundi síðan seint og um síðir eftir tveimur ráðum – gurgla með pensími og taka íbúfen og fara að sofa. Bólgan er nánast farin, finn einn auman hálskirtil þegar ég ýti þar á en ekkert vont að kyngja eða neitt. Hjúkk. Veit ekki hvort virkaði eða bara hvorttveggja.

Er síðan að fara með yngri ungling, hún á að spila á tónleikum á eftir. Búin að æfa voða vel, ég vona það gangi eftir því.

mjakast

þetta mjakast allt – sleppi væntanlega morgundeginum úr kennslunni líka, kenni svo ekki á fimmtudögum og föstudögum þannig að þá hef ég 4 daga til að ná mér almennilega.

Spurning samt að dobla bóndann til að taka helgina – stráksi að fara í æfingabúðir með drengjakórnum og við erum skráð með einn hóp. Líst ekki á að þurfa að garga yfir hóp.

(reyndar eru þetta pollrólegir strákar sem við verðum með í hóp, fjórir 9 ára guttar – en samt…)

Vá hvað ég má samt svo ekki við að fá svínaflensuna í beinu framhaldi. Allir puttar og tær krossuð!

hvað er

með að búa til nammi – ja reyndar hálstöflur – með sápubragði?

Bað Jón Lárus að kaupa Läkerol með lakkrísbragði, hann kemur heim með ágætis pakka, svartan, en það var sko ekki lakkrísbragð fyrir fimmeyring heldur nánast púra sápubragð. Jakk. Pakkanum hefur verið hent.

Og nei, ekki orðin góð, ég ætlaði að reyna að ná að kenna á morgun en ég er orðin ansi hreint svartsýn á það. Tæpast miðvikudaginn heldur, ég ætla EKKI að fara of snemma út núna og næla mér í lungnabólgu takk.

Mamma og pabbi komu færandi hendi með rafmagnshitapokann sem er þjóðnýttur í fjölskyldunni við svona skemmtileg tækifæri. Farin í bólið með hann.

gaah

röddin lítið skárri en í gær – ég er ekki með neina hálsbólgu lengur að ég finni fyrir, bara hás. Baaad!

segið svo að

Facebook sé ekki snilld! Kvartaði yfir því áðan að það fékkst ekkert íbúfen eða önnur bólgueyðandi lyf í Lyfju þegar stelpurnar skutust fyrir mig þangað áðan. Eftir svona 3-4 mínútur var búið að redda málum, hefði getað sótt íbúfen á 4 staði – styst hér yfir í næsta hús.

Og mikið hrikalega er nú þægilegt að hafa unglinginn með bílpróf – ég lánaði henni bara bílinn í dag og hún fór fyrir mig í 2 sendiferðir í staðinn. Best. Þær báðar reyndar, fóru saman í Lyfjusendiferðina. Sem var reyndar vesen, Freyju fannst ég segja Lyfjaver í símann (reyni alltaf að versla þar ef ég get), þangað komnar var auðvitað lokað enda klukkan að verða hálfátta í kvöld, hringt í mömmu. Nei, Lyfja var það. Þangað komnar: Hringja aftur í mömmu. Sagðirðu stóran pakka eða sterkan pakka? Sterkan sagði ég. Komnar að kassanum: Ekki til íbúfen. Ég: Bara eitthvað bólgueyðandi. Komnar út: hringt einu sinni enn. Ekkert bólgueyðandi til. Ég: Ókei, komið þið heim að borða…

kenna

neeeei, ekki á morgun og tæpast hinn daginn. En þá ÆTLA ég að vera búin að ná þessu úr mér! Aðalfundur hjá okkur í Hljómeyki á föstudaginn, sýning á laugardag, af hvorugu má ég missa, takk.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa