Sarpur fyrir júlí, 2009

skuldahalar

okkur ofbauð magnið af fellihýsum, tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum sem við mættum í gær. Byrjuðum að telja undir Hafnarfjalli og það voru heilir 60 slíkir skuldahalar sem við náðum að telja á leið í bæinn. Hafa örugglega farið langt yfir hundraðið alla leiðina þó þéttleikinn hafi væntanlega verið mestur þarna (ég er ekki einu sinni alveg viss um það, alveg frá Bröttubrekku var mjög mikil umferð og reyndar slatti alla leiðina). Hvernig ætli þetta hafi litið út í dag þá úr því það var svona mikið í gær, fimmtudaginn fyrir helgina?

þvílík vinna

að fara í gegn um alla brandarana sem ég hef misst af þessa rúmu viku! Náði að hreinsa upp Skálholtsvikuna á mánudaginn og er að rúnna út þessa núna.

Ekki einu sinni byrjuð á Fréttablöðunum, bóndinn hneggjar yfir Gelgjunni hér inni í eldhúsi, og það eru fleiri góðar seríur þar. Svo ég haldi áfram að dissa Moggann þá er hann bara með tvær góðar seríur, önnur er Kalli og Kobbi (harðneita að kalla það Kalvin og Hobbes), sem maður náttúrlega kann utanað og svo Grím og Gæsamömmu sem er fín. Hitt er rusl. Hvernig stendur á því, með svona margar góðar seríur, að kaupa bara rusl?

Allavega, Bound and Gagged var með eina ansi góða hér:

(hmm, minnir mig á að lesa Gelgjuna á netinu, mér hefur ekki tekist að gerast áskrifandi þar þó ég hafi reynt, grrr!)

fríið

á Vestfjörðum (og þar með netfríið) búið í bili.

Vorum í Dýrafirðinum okkar elskulega, einn ganginn enn, hlakka til að hlaða inn myndunum 300 sem við tókum.

Systirin og mágur voru með okkur stóran hluta tímans, þau hafa æðiber í rassi og drógu okkur í alls konar ferðir og aktívítet sem við hefðum örugglega ekki nennt, svo sem ferð á Ingjaldssand (samkvæmt Páli Ásgeiri er sá staður skilgreiningin á orðinu afskekkt – ég held að þarna hafi einhvern tímann staðið bærinn Afskekta og þaðan komi orðið), yfir Hrafnseyrarheiðina að „óþörfu“ til að skoða Dynjandi (jájájá!) almennilega, kajakróður í botni Önundarfjarðar og fleira. Hrikalega skemmtilegt.

Fréttablaðið var ekki upp að drífa á svæðinu, kemur víst með höppum og glöppum í Bónus á Ísafirði en við sáum það aldrei, keyptum Moggann þrisvar eða fjórum sinnum og þessi tilraunaáskrift gerir það sannarlega ekki að verkum að ég flýti mér að gerast áskrifandi. Tókst varla að kveikja upp í arninum með sneplinum og meira að segja sudokurnar voru fáránlegar, gersamlega ekkert að marka skilgreininguna á hvað er létt og hvað er erfitt.

Það var nú samt í danska kellingablaðinu mínu sem gallaða sudokan var birt, reyndi þrisvar við hana og alltaf kom vitleysa, get ekki kennt mogga um það.

Allavega, gott að vera í fríi en alltaf best að koma heim. Verst að vera ekki heima nema tæpa tvo sólarhringa áður en ég þarf að þeytast upp í Skálholt og vera fram á mánudag…

nenni ómögulega

að hugsa eða hlusta um kreppur og pólitíkur og aðrar álíka leiðindaskjóður. Er að pæla í netfríi í nokkra daga (HAHAHAHAHAH). Sjáum samt til hvernig það gengur.

nýja uppáhaldsiðjan

hans sonar míns er að biðja okkur um óvenjuleg orð á íslensku og fletta þeim upp í orðabókinni. Pínu skemmtilegt og hann náttúrlega eykur orðaforða sinn með þessu. En maður þarf að brjóta heilann þvílíkt til að finna eitthvað sem hann þekkir ekki.

ekki er nú

mikið verið að skoða blogg þessa dagana – allavega ekki mitt. Ræfilslegar innlitstölur. Skil þetta reyndar ósköp vel, ekki hangir maður í neti á svona dögum eins og eru búnir að vera núna undanfarið.

Hjálpar væntanlega ekki heldur hvað maður er búinn að vera mikill ræfilsskrifari…

þvo, þurrka

það er ekki oft sem ég sakna þess að eiga ekki þurrkara en í dag myndi ég sakna þess ef ég ætti ekki útisnúrur :þ

styttist í Skálholti

í þetta skiptið, maður er bara þegar farinn að hlakka til næsta árs dvalar. En fyrst Dixitið, ójá. Svo bara heim, spurning um að fara Grafning og Hengil til að sleppa við megnið af umferðinni í bæinn.

dixit

dixit Dominus…

tónleikar klukkan fimm á morgun – nei á eftir, víst komið miðnætti, Skálholtshátíð, messa klukkan 2, syngjum þar, tónleikar klukkan 17:00

Þið vitið hvað þið þurfið að gera til að vera ekki ferköntuð, er það ekki?

Hvíld

Lygnt geymir vatnið
leið mína yfir fjallið,
felur hana rökkri
og ró í nótt.

Vær geymir svefninn
söknuð minn í lautu,
með degi rís hann aftur
úr djúpsins ró.

(Snorri Hjartarson, 1966)

Í kvöld flytur Hljómeyki lag Huga Guðmundssonar við þetta fallega ljóð Snorra Hjartarsonar, til minningar um Halldór Vilhelmsson.

Einnig flytjum við verkið Rauðan hring, eftir Þuríði Jónsdóttur og glænýtt verk eftir Atla Ingólfsson sem heitir ekki Uppstilling kórs (það er það sem stendur framan á nótunum mínum en ég man ekki titilinn í augnablikinu)

Mæli með tónleikunum, snilldar veður í Skálholti, bara drífið ykkur af stað. Klukkan átta…

búið að skemma

sturturnar hér í skálanum, það voru settir upp nýir og fínir sturtuklefar með blöndunartæki með hitastilli (efast reyndar um að það fáist öðruvísi núna). Þetta þýðir að það rétt drýpur úr sturtunum, allavega eftir að einhver sturtar niður úr klósettunum. Hér er semsagt lítill þrýstingur á kalda vatninu.

Sé fram á sund á hverjum degi. Sem betur fer er úrval sundlauga hér í kring.

ffffffffff

sssssss þþþþþþ hvo hvu hví hve, xo xu xí

smell

blístr

Skálholt

hér kem ég. Og við öll í Hljómeyki og gott betur.

Tónleikar með verkum Atla Ingólfssonar og Þuríðar Jónsdóttur á fimmtudagskvöldið klukkan 8, tónleikar sem ég veit ekki mikið um á föstudagskvöldinu, líka klukkan 8, (,,The Jörgen Jörgensen travelling show”
kammertónlist frá tímum ríkis Jörundar hundadagakonungs eftir Rossini, Haydn, Boccherini o.fl 200 ár eru síðan hann ríkti við Austurstrætið í Reykjavík). Händel og Haydn tónleikar á laugardeginum klukkan 3 og 5, mæli sérstaklega með þeim klukkan 5, skosk þjóðlög í útsetningu Haydns. En klárt, auðvitað mætir maður á báða tónleikana á laugardeginum, kominn uppeftir og alltsaman.

Svo endurtökum við Dixit Dominus síðan í janúar, ég held það verði bara ennþá betra en þá, og tókst það þó alveg ljómandi vel, full Neskirkja. Verður mjög spennandi að heyra þetta í Skálholtskirkju. Þeir tónleikar eru klukkan 5.

En klára að pakka…

urrg

memory card error á litlu myndavélinni minni. Sem betur fer voru ekki margar eða mikilvægar myndir á kortinu – held ég…

til hamingju

Nobilistelpur með silfur og brons í Llangollen keppninni!

sjá silfurframmistöðuna hér, fyrsta lagið á ég…

mikið á hann Gósi gott

að gifta sig í þessu…

Tæpast hægt að hugsa sér yndislegra veður að gifta sig, og það í Garðakirkju. Verulega fallegt brúðkaup, til hamingju bæði tvö, Gósi og Katrín.

það er semsagt til dæmis þetta sem ég treð ekki upp á grannana frekar en þeir vilja.

Ætlaði að taka þessa sinfóníu með áhugamannabandinu þegar ég stjórnaði þeim en var eindregið ráðlagt frá því – þetta er nebbla ekki fyrir klaufa eins og þið kannski sjáið.

Bandið getur spilað margt vel, en það er ekki víst að við ráðum við þetta, það er satt…

hljóðmengun

hvernig stendur á því að fólki finnst sjálfsagt að koma með græjur út í garð og stilla uppáhaldsmúsíkina sína á fullt blast, þegar það fer út í sólbað? Fórum í Skipasund áðan að sækja okkur sumarblóm, þar sat gaur í næsta garði með eitthvað leiðinda rokk á fullu, samkvæmt húsráðendum hafði þetta verið allan daginn í gær og aftur í dag. Svo heim, sátum úti á palli svolitla stund, einhver í nágrenninu blastaði kántrísöngkonu, reyndar ekki alveg eins hátt og í Skipasundinu en nógu hátt samt.

Frekar pirrandi og tillitslaust, ekki nokkur ástæða til að hafa músíkina hærri en svo að maður sjálfur njóti hennar en trufli ekki aðra. Já eða taka æpoddana eða önnur slík tæki í notkun – mér dettur til dæmis ekki í hug að allir hafi jafn gaman af Mahler og Prokoffieff og ég.

ef tvöfalt fertugsafmæli

eins og við fórum í um daginn er áttræðisafmæli þá var ég núna áðan í hundraðogfertugsafmæli.

Voða flott brönsj í Turninum, aldrei komið þar áður (geeeeeeðveikt útsýni, ýmsar byggingar sem sáust frá nýju sjónarhorni) boðið kom afmælisbörnunum algerlega á óvart, fólk táraðist yfir ræðunum þó ekkert væri áfengið. Alveg eins og svona veislur eiga að vera.

Takk fyrir mig.

æfingaakstur

jámm, komið að því, við Jón Lárus fórum í kennslu í dag með Fífu, víst alveg bannað að missa sig við barnið (hvernig förum við að þessu?!?!).

Hún keyrir annars ágætlega, varkár og vakandi og er með fína tilfinningu fyrir breiddinni á bílnum. Hugsa að við verðum ekkert með hjartað í buxunum með henni.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júlí 2009
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa