Sarpur fyrir júlí, 2009

skuldahalar

okkur ofbauð magnið af fellihýsum, tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum sem við mættum í gær. Byrjuðum að telja undir Hafnarfjalli og það voru heilir 60 slíkir skuldahalar sem við náðum að telja á leið í bæinn. Hafa örugglega farið langt yfir hundraðið alla leiðina þó þéttleikinn hafi væntanlega verið mestur þarna (ég er ekki einu sinni alveg viss um það, alveg frá Bröttubrekku var mjög mikil umferð og reyndar slatti alla leiðina). Hvernig ætli þetta hafi litið út í dag þá úr því það var svona mikið í gær, fimmtudaginn fyrir helgina?

þvílík vinna

að fara í gegn um alla brandarana sem ég hef misst af þessa rúmu viku! Náði að hreinsa upp Skálholtsvikuna á mánudaginn og er að rúnna út þessa núna.

Ekki einu sinni byrjuð á Fréttablöðunum, bóndinn hneggjar yfir Gelgjunni hér inni í eldhúsi, og það eru fleiri góðar seríur þar. Svo ég haldi áfram að dissa Moggann þá er hann bara með tvær góðar seríur, önnur er Kalli og Kobbi (harðneita að kalla það Kalvin og Hobbes), sem maður náttúrlega kann utanað og svo Grím og Gæsamömmu sem er fín. Hitt er rusl. Hvernig stendur á því, með svona margar góðar seríur, að kaupa bara rusl?

Allavega, Bound and Gagged var með eina ansi góða hér:

(hmm, minnir mig á að lesa Gelgjuna á netinu, mér hefur ekki tekist að gerast áskrifandi þar þó ég hafi reynt, grrr!)

fríið

á Vestfjörðum (og þar með netfríið) búið í bili.

Vorum í Dýrafirðinum okkar elskulega, einn ganginn enn, hlakka til að hlaða inn myndunum 300 sem við tókum.

Systirin og mágur voru með okkur stóran hluta tímans, þau hafa æðiber í rassi og drógu okkur í alls konar ferðir og aktívítet sem við hefðum örugglega ekki nennt, svo sem ferð á Ingjaldssand (samkvæmt Páli Ásgeiri er sá staður skilgreiningin á orðinu afskekkt – ég held að þarna hafi einhvern tímann staðið bærinn Afskekta og þaðan komi orðið), yfir Hrafnseyrarheiðina að „óþörfu“ til að skoða Dynjandi (jájájá!) almennilega, kajakróður í botni Önundarfjarðar og fleira. Hrikalega skemmtilegt.

Fréttablaðið var ekki upp að drífa á svæðinu, kemur víst með höppum og glöppum í Bónus á Ísafirði en við sáum það aldrei, keyptum Moggann þrisvar eða fjórum sinnum og þessi tilraunaáskrift gerir það sannarlega ekki að verkum að ég flýti mér að gerast áskrifandi. Tókst varla að kveikja upp í arninum með sneplinum og meira að segja sudokurnar voru fáránlegar, gersamlega ekkert að marka skilgreininguna á hvað er létt og hvað er erfitt.

Það var nú samt í danska kellingablaðinu mínu sem gallaða sudokan var birt, reyndi þrisvar við hana og alltaf kom vitleysa, get ekki kennt mogga um það.

Allavega, gott að vera í fríi en alltaf best að koma heim. Verst að vera ekki heima nema tæpa tvo sólarhringa áður en ég þarf að þeytast upp í Skálholt og vera fram á mánudag…

nenni ómögulega

að hugsa eða hlusta um kreppur og pólitíkur og aðrar álíka leiðindaskjóður. Er að pæla í netfríi í nokkra daga (HAHAHAHAHAH). Sjáum samt til hvernig það gengur.

nýja uppáhaldsiðjan

hans sonar míns er að biðja okkur um óvenjuleg orð á íslensku og fletta þeim upp í orðabókinni. Pínu skemmtilegt og hann náttúrlega eykur orðaforða sinn með þessu. En maður þarf að brjóta heilann þvílíkt til að finna eitthvað sem hann þekkir ekki.

ekki er nú

mikið verið að skoða blogg þessa dagana – allavega ekki mitt. Ræfilslegar innlitstölur. Skil þetta reyndar ósköp vel, ekki hangir maður í neti á svona dögum eins og eru búnir að vera núna undanfarið.

Hjálpar væntanlega ekki heldur hvað maður er búinn að vera mikill ræfilsskrifari…

þvo, þurrka

það er ekki oft sem ég sakna þess að eiga ekki þurrkara en í dag myndi ég sakna þess ef ég ætti ekki útisnúrur :þ


bland í poka

teljari

  • 371.383 heimsóknir

dagatal

júlí 2009
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa