Archive for the 'hljómeyki' Category

enn meira plögg

maður er eiginlega bara hættur að blogga öðru en Hljómeykis- og Áhugamannakonsertauglýsingum en þúst… einhvern veginn er maður ekki í bloggstuði.

Allavega verður Hljómeyki með æðislega tónleika með renaissancemúsík mánudaginn 26. mars, daginn áður spilar Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í fyrsta skipti í Hörpu (vonandi ekki það síðasta samt).

Meira er nær dregur, en hér er eitt verkanna sem Hljómeyki mun flytja, yndislegt lag eftir Hans Leo Hassler, flutningur frá því fyrir mörgum árum með Benna:

Ad Dominum

Messías

var víst búin að lofa og hér efndir þó seint sé.

Messías í flutningi Hljómeykis, Kórs Áskirkju og Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 2. des verður í kvöld klukkan 19.00 á rás 1.

Hlusta má hér.

hraðamet

Kokkteillinn virkaði, veit ekki hvað af dótinu gekk svona heiftarlega frá hæsinni, kannski blandan, en allavega mætti röddin á svæðið í gær og betri í morgun.

Söng semsagt með, gekk ágætlega í morgun en tók samt eitt stykki samþjappaðan raddreddsterakúr. Held hann hafi gert nákvæmlega ekkert fyrir mig, fann engan mun frá í morgun. (nú er að vita hvort ég get sofnað í nótt…).

Titillinn já. Sett var hraðamet á Messíasi hér á landi í kvöld. Stjórnandinn, Matthew Halls, þandi kórinn til síns ýtrasta (og vel það stundum) í kóloratúr. Það fyrirgafst honum hins vegar fyrir að vera sá hinn almest inspírerandi stjórnandi sem ég hef á ævinni unnið með. Hreyfingarnar, útgeislunin, snerpan alveg magnað allt saman. Hefði helst viljað endurtaka þetta á morgun og hinn! Hann harðbannaði okkur að skrifa inn styrkleika- og hraðabreytingamerkingar því það yrði allt saman spontan. Gríðarlega töff.

Hlakka til (að mestu leyti) að heyra þetta á jóladag – stillið endilega á Rás 1 og njótið, þið sem voruð ekki í salnum. Vildi óska að það hefði verið sjónvarpsupptaka…

talandi um fjölhæfni

hjá kórnum þá eru verkefni Hljómeykis í vetur eftirfarandi:

Október: Nordic Music days (ný norræn kórtónlist)
Nóvember: Todmobile tónleikar (rokktónlist)
Desember: Messías eftir Handel (barokktónlist)
Febrúar: LOTR sinfónían (kvikmyndatónlist)
Mars: Hassler og Schütz (renaissance)
Maí: Rómeó og Júlía eftir Berlioz (rómantíska tímabilið)

Þurfum helst að troða einhverri klassík í janúar eða apríl til að vera með megnið af tónlistarsögunni.

todmobile

Þegar ég var í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík hér forðum daga (úff hvað mig langar ekki að rifja upp hvað er langt síðan) voru bæði Þorvaldur Bjarni og Eyþór Arnalds með mér í tónsmíðabekknum (ásamt fleirum auðvitað). Þannig að ég var sjálfskrifaður Todmobileaðdáandi eiginlega frá því áður en grúppan var stofnuð.

Í kvöld, loksins, fékk ég svo að troða upp með bandinu, fyrsta skipti ever sem Todmobile hefur haft kór á tónleikum. Komum fram í fimm lögum af um 20, hrikalega skemmtilegt, stemningin í Eldborg ólýsanleg. Þetta verður sko ekki í síðasta skipti, pant Hljómeyki vera áskriftarkór!

Nú erum við annars búin að syngja bæði með Sólstöfum og Todmobile á innan við ári. Stefnubreyting? Nei fjölhæfni…

krítík

Maður er nánast alveg hættur að fá gagnrýnendur á tónleika hjá sér, sjávarútvegs„aðallinn“ sem heldur Morgunblaðinu uppi með valdi hefur væntanlega lítinn áhuga á menningu og listum og ég veit ekki hvað Jónas Sen fær að fara á marga tónleika á vegum Fréttablaðsins, ekki sérlega marga. Helgi Jóns fer á tvenna til þrenna í viku, við vorum svo heppin í Hljómeyki að okkar tónleikar voru einir þeirra sem hann fór á hér fyrir nokkrum vikum. Umfjöllun hans má heyra hér: Schnittke umfjöllun

Hins vegar fékk ég skemmtilegt bréf inn um raflúguna í morgun frá gagnrýnanda Moggans:

Sæl Hildigunnur.

Frumheyrði stykki í RÚV 1 fyrripartinn í dag sem kom mér hressilega á óvart.
Ekki fyrir „nie erhörte Klänge“ né „gjörnýtingu á möguleikum hljóðfærisins“
heldur heillandi ferskleika og skemmtilega samtvinnun í anda þeirrar
millimúsíkur sem brúar bezt gjána milli popps og framúrstefnu.

Það var fyrir kvennakór og selló, og reyndist í afkynningu vera eftir þig –
hvað kom mér enn meir á óvart! Að vísu afspyrnuvel flutt (Graduale Nobili
og Bryndís Halla). En mér er sama. Verkið kom þrælskemmtilega út; heiðtært
og gáskafullt í senn.

Það vantar meira af svona lögðu hér, ef ný tónlist á að komast aftur inn á heilbrigða
þróunarbraut, burt frá steingeldum akademisma í frjótt jarðsamband við
venjulega hlustendur.

Bravó!

Með hvatningarkveðju,
SMNV,
RÖP

Fékk góðfúslegt leyfi til að birta bréfið hér, takk fyrir það. Ekki leiðinleg sending atarna.

ó

Hörpuævintýri ríflega hálfnað – í þessari viku, mæting á síðustu tónleika vikunnar eftir rúman hálftíma.

Skrýddi mig upp í skósítt svart og ermasítt ásamt perlufesti og eyrnalokkum. Okkur hafði verið uppálagt að vera bara með lítt áberandi skraut og enga liti, allar Hljómeykis/Áskonurnar hlýddu þessu samviskusamlega en þegar við komum í upphitun tókum við eftir því að langflestar Óperukórskonurnar voru með perlufestar. Hvítar, sem er auðvitað ekki litur, ég hafði samt hugsað um hvort ég ætti að skrýðast perlufesti en hætti við, gæti skorið mig úr. Hefði semsagt ekki gert það. Spurði eina Óperukórsfraukuna hvers vegna við hinar hefðum ekki verið látnar vita af perlufestaákvörðun en þá er þetta víst standard á tónleikum Óperukórsins og ekkert þurft að tala um það sem sé.

Þannig að á fyrstu tónleikunum skiptumst við í Óperukórinn og Óperlukórinn.

En vá annars hvað þetta er GAAAMAN!

fyrst styttist

í Ameríkuferð já ansi hratt, skrepp til BNA með suzukikennurunum eftir rúma viku (nei, staðan er ekki svo góð en við vorum búin að fjárfesta í ferðinni löngu fyrir boðaðan niðurskurð til tónlistarskóla og lítið vinnst með að fara ekki).

Svo styttist í tónleikana okkar í Hljómeyki með kórkonsertinum eftir Schnittke. Vá hvað það verður hrikalega gaman, þetta verk hefur aldrei verið flutt hér (úúú frumflutningur á Íslandi!) væntanlega vegna erfiðleikagráðu 3. kaflans. Mesta furða hvað hann kemur til. En verkið er ógurlega flott og harðbannað að missa af því! Taka frá 26. eða 27. mars takk.

Ekki nóg með það, það styttist líka í opnun Hörpu. Náði með þrjóskunni að veiða þrjá miða þann 4. maí fyrir bóndann, yngri ungling og litla gutta, við eldri úllíngur verðum víst á sviðinu.

Heilmargt að hlakka til næstu 2 mánuði. Svo er líka páskar þarna einhvers staðar að þvælast.

En fyrst er ég að hugsa um að hlakka til að halda upp á bjórdaginn með einum fyrrum bönnuðum núna á eftir…

dómur

jámm, kom dómur í morgunblaði nokkurra landsmanna – en ég kvarta reyndar ekki í þetta sinnið:

og svo auðvitað

eru þvílík fráhvarfseinkenni frá Gershwin. Alltaf tómlegt þegar svona intensíft verkefni eru búin, hugsa að flestir kannist við slíkt. Mjög vel þess virði samt, allavega þegar verkefnið er jafn skemmtilegt og þetta.

Framundan í Hljómeyki eru svo auðvitað fullt af verkefnum, tónleikar með lögum um ástina (ekkert væmið samt, lofa) í nóvember, tónleikar og upptökur í Skálholti og á Myrkum músíkdögum í janúar með verki Sigurðar Sævarssonar sem við sungum í Skálholti í sumar, kórkonsertinn eftir Schnittke í maí og svo eitt mjög spennandi lokaverkefni á starfsárinu sem segist frá síðar.

Sporting Life

heitir einn karakterinn í Porgy and Bess, einn af vonduköllunum í óperunni. Söngvarinn sem syngur hans hlutverk er æði (líka sú sem syngur Serenu, Porgy og Bess sjálf eru mjög fín en ég er enn hrifnari af þessum tveimur).

Hann setur meðal annars spurningar við sannleika Biblíunnar (enda vondurkall, munið þið). Arían er hrikalega skemmtileg, kórinn tekur undir og við þurfum að herma algerlega eftir því sem hann gerir og vitum ekkert fyrirfram hvernig hann syngur frasana. Fáránlega skemmtilegt, þið sem komið á tónleikana eða hlustið í útvarpinu, endilega hlusta eftir kórnum í aríunni It Ain’t Necessarily So, og sjá hvernig okkur tekst til. Þetta er ekki löngu eftir hlé ef ég man rétt.

Porgy og Bess

Hljómeyki og Kór Áskirkju ásamt svolitlu af aukafólki er að syngja með Sinfóníunni í frægustu jazzóperu tónlistarsögunnar. Stjórnandinn með þekktari túlkendum Gershwin, enda jazzpíanisti með meiru. Við æfðum með honum á mánudagskvöldið, hann var gersamlega með á hreinu hvað hann vildi og hætti ekki fyrr en við náðum stöðunum. Það var gríðarlega gaman.

Fyrsta æfing með Melabandinu í fyrramálið, ég get ekki beðið! Víst mjög flottir sólistar, allir útlenskir nema okkar eigin kórsólistar, Hallveig systir og Einar Clausen sem fá nokkrar strófur.

Eitthvað pínulítið eftir af miðum á föstudaginn, ég held það sé orðið uppselt á fimmtudagskvöldið. Ekki missa af þessu. Dat’s an aawdahh!

hrikalega er gaman

að vera farin að æfa Rakhmaninov aftur og ekki síður að hafa dótturina með.

Höldum tónleika hér í bænum 17. maí (spurning hvort við eigum að syngja rússneskuna með norskum hreim kannski?), ég veit nú reyndar ekkert hvort ég hef neitt í það að gera að syngja með á þeim tónleikum, verð nýlent frá Ástralíu – ýkjulaust, lendum um fjögurleytið í Keflavík og tónleikarnir eru klukkan átta – en ég tók vatnsglastestið og fann út að ég var ekki ómissandi, fékk fyrir mig fínan sópran úr Mótettunni til öryggis.

Verð hins vegar sannarlega með um hvítasunnuna þegar Hljómeyki syngur verkið á Dalvík.

smá forsmekk

af tónleikunum annað kvöld má heyra hér:

In Paradisum eftir Duruflé. Lokakaflinn úr Requiem og lokakaflinn á tónleikunum okkar. Bannað að klappa eftir þetta, ég er ekki antiklappmanneskja en þarna á það bara ekki við.

Sérstaklega vegna þeirra sem við tileinkum tónleika okkar að þessu sinni.

ekki var ég

nú svo drukkin á árshátíð Hljómeykis um síðustu helgi að ég geti kennt því um en einhvern veginn tókst mér að gleyma skónum mínum uppfrá! tja reyndar veit ég alveg hvernig ég fór að því, notaði tónleikaskóna líka sem inniskó í búðunum, tíndi til dótið mitt á sunnudagsmorgninum klædd í inniskó sem eru svo sem líka útivænir, bárum töskurnar og nótnapokann út í bíl, settumst inn og keyrðum í bæinn.

Svo í fyrramorgun þegar ég ætlaði út í leikfimi fann ég hvergi götuskóna mína. Hugsaði svo sem ekki meira út í það akkúrat þá, dreif mig bara út í einhverjum skódruslum, kom heim, settist við tölvuna og fór að athuga póstinn. Þá hafði auðvitað einn kórfélagi tekið eftir skóm í anddyri en þó ekki tekið þá með.

Vill til að Væla systir er á leiðinni upp í Hálskolt um næstu helgi, ekki að vita nema ég geti doblað hana til að kippa skónum mínum með heim. (blikk, blikk…)

árshátíð

svei mér þá, skemmtilegasta sem ég hef farið á var um helgina. Hljómeyki fór í Skálholt og hélt tónleika, óóótrúlega skemmtilega, uppleggið var að velja tónlist sem hefur verið samin fyrir Skálholt og við flutt – þar er heldur betur úr mörgu að velja, enda höfum við pantað og flutt ný verk þar á hverju ári í yfir 20 ár. Valkvíðafestival. Allavega völdum við verk eftir Jón Nordal, Báru Gríms, Elínu Gunnlaugs og Óliver Kentish, allt frábær stykki, undirrituð fékk meira að segja að syngja sóló í uppáhalds íslenska verkinu sínu, Óttusöngvum að vori eftir Jón Nordal.

Uppeftir á föstudagskvöldi, æft frá átta til tíu í kirkjunni, til þess að gera snemma í bólið, vaknað til að æfa aftur klukkan tíu, pása frá eitt fram að tónleikum klukkan fjögur.

Má vel segja að árshátíðin hafi byrjað á þessum yndislegu tónleikum, ágætlega mætt miðað við árstíma og að þetta var ekki mikið auglýst, vel tekið undir (klappað, meira að segja – ekki alveg algilt í þessari kirkju)

Þá út í sumarbúðir, já fer svo sem ekki að lýsa mat og skemmtiatriðum nema hvað í kórnum eru kokkur og þjónar og kjötvinnslumaður, neituðu annarri aðstoð við matinn – fáránlega góð þriggja rétta máltíð göldruð á borð, ég á ekki myndir, myndavélin mín er dáin (mu).

En þetta verður svooo gert aftur. Ójá.

að vanda

er ekkert svo erfitt að fara að kenna aftur – ekki verra þar sem nettengingin í Suzukiskólanum er búin að hegða sér óvenju vel í dag, lítið um að ég detti úr sambandi.

Verð samt að viðurkenna að það er ágætt að LHÍ byrjar ekki fyrr en eftir viku, nema reyndar einkatíminn.

Kóræfing í kvöld, fljótlega tónleikar í Skálholti með uppáhaldsverkum, hlakka verulega til. Óttusöngvarnir eru náttúrlega tóm snilld, hefði reyndar alveg verið til í að syngja allt verkið á ný, vonandi aftur síðar.

tepoki dagsins í húsi.

tónleikarnir

vá hvað það var hrrrikalega gaman í dag, við bara VERÐUM að flytja Raua Needmine aftur, þannig er það bara!

Er að flytja tónleikana yfir á lesanlegt format fyrir net, var að horfa í lesaranum mínum, á svo eftir að klippa sundur, allt í einni töku.

Ég er allavega í sæluvímu, hef ekki fengið jafnmikla útrás lengi. Öskraði úr mér allan kreppupirring og annað álíka bögg.

Misstuð af miklu, þið sem komuð ekki. Takk fyrir komuna, þið sem mættuð.

hroðalega margt

sem ég þarf að muna á morgun (sunnudag sko, sem er fræðilega séð orðinn í dag)

Taka með mér Bölvun járnsins (og hinar nóturnar sem búálfarnir eru nú búnir að skila) til að passa nú vel í messu i fyrramálið (nei annars, þarf bara að kíkja betur á einn frasann fyrir tónleikana.

Taka með mér aukabjöllu á æfinguna klukkan eitt

Muna eftir posanum sem ég leigði í (gær)fyrradag

Tékka á statífum í fyrramálið – vona þau séu í Seltjarnarneskirkju ekki í Neskirkju þar sem næstu tónleikar SÁ verða

Tékka á hvað margir vilja koma og borða með okkur eftir tónleika, á æfingunni klukkan 1 á morgun.

Panta mat fyrir þá sem vilja.

Klára að plögga fyrir tónleikana klukkan 16:00 í Guðríðarkirkju, Grafarholti (merkingar útumallt þegar maður beygir inn í Grafarholt, nánast ekki séns að villast)

Er örugglega að gleyma einu eða tveimur atriðum, jámm.

Uppfært. Passar – eitt til tvö atriði

Muna kaffibaunir

Muna vídjóvél og statíf.

Uppfærsla #2

Kerti í Seltjarnarneskirkju (enn verið að selja)

Ætli þetta sé búið?

brjáluð helgi

framundan.

Fyrramál, æfing í Guðríðarkirkju frá tíu til tvö, þá rjúka niður í Suzukiskóla og sjá stráksa spila á tónleikum sem byrja klukkan tvö, þá beint upp í Kringlu, drengjakórinn er með köku- og allsherjarbasar þar, við eigum vaktina frá þrjú til sex eða þangað til allt er búið. Leyfi mér að vona að allt verði búið fyrir klukkan þrjú. Skutla stráksa til ömmu sinnar og koma mér heim, erum að fara á óperusýninguna um kvöldið.

Nema dagurinn verði svona: Æfing frá tíu til tvö – fá að fara fyrr og taka Söngvaseiðssýningu, mæting eitt, þá tekur Jón Lárus tónleika Finns (verður þar reyndar hvort sem er) og basarinn og skutlið til ömmu. Eiginlega auðveldari þannig, dagurinn.

Sunnudagur. Mæting klukkan níu um morguninn í Seltjarnarneskirkju, spiluð eitt stykki Haydnmessa í morgunmessu, heim, mæting í Guðríðarkirkju klukkan eitt, æfum Rauðan hring og kíkjum væntanlega eitthvað á Bölvunina líka. Tónleikar þar klukkan fjögur (muuuuna að mææææta aaaaalliiiir), búnir rúmlega fimm, þá verður væntanlega eitthvað gert eftir tónleika.

Verður bara þægilegt að mæta í vinnuna á mánudaginn…


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa