Archive for the 'frí' Category

silast í jólafrí

smátt og smátt, kúrsarnir í LHÍ búnir í ár, fyrir utan tónsmíðaeinkatímana, Messías búinn (muuuu, reyndar) ásamt tónleikum áhugamannabandsins, get ekki verið með í verkefnum kammerkórs Dóm núna fyrir jólin þannig að er komin í bæði kór- og hljómsveitarfrí. Semsagt eiginlega bara kennslan eftir hádegi á mánudögum og miðvikudögum eftir, fyrir utan íhlaupavinnu ýmiss konar.

Þýðir reyndar eiginlega bara að ég hef smá tíma núna til að setja kraft í tónsmíðaverkefnið fyrir Fílharmoníu. Sem er hið besta mál. Búin með (og búin að skila) upphafs- og lokaköflum, annar kaflinn mjög langt kominn og þriðji líka en tveir nánast alveg eftir.

Annars bara heitt kakó, maltesín og smákökur frá Fróni frænda og jólakort frá Knúzinu.

páháskafrí

alveg að detta inn – er reyndar með tónsmíðanema á morgun og hinn, stöðupróf nýnema í LHÍ á mánudaginn, kóræfingu mánudagskvöld, búin að lofa að spila í útskriftarverki á þriðjudaginn, æfingar fyrir það annað kvöld (svo beint á kóræfingu), sunnudag og mögulega mánudag, önnur kóræfing á mánudaginn, fyrir Hörpuvígslu, og svo er ég að reyna að koma saman stjórnarfundum. Er síðan bókað að gleyma einhverju.

Hver var að nefna páskafrí?

Er samt ekkert að kvarta, allt verður þetta gaman, hlakka sérstaklega til að hitta umsækjendur næsta árs í Listaháskólanum, alltaf spennandi að sjá nýjan hóp af flottu fólki.

fyrst styttist

í Ameríkuferð já ansi hratt, skrepp til BNA með suzukikennurunum eftir rúma viku (nei, staðan er ekki svo góð en við vorum búin að fjárfesta í ferðinni löngu fyrir boðaðan niðurskurð til tónlistarskóla og lítið vinnst með að fara ekki).

Svo styttist í tónleikana okkar í Hljómeyki með kórkonsertinum eftir Schnittke. Vá hvað það verður hrikalega gaman, þetta verk hefur aldrei verið flutt hér (úúú frumflutningur á Íslandi!) væntanlega vegna erfiðleikagráðu 3. kaflans. Mesta furða hvað hann kemur til. En verkið er ógurlega flott og harðbannað að missa af því! Taka frá 26. eða 27. mars takk.

Ekki nóg með það, það styttist líka í opnun Hörpu. Náði með þrjóskunni að veiða þrjá miða þann 4. maí fyrir bóndann, yngri ungling og litla gutta, við eldri úllíngur verðum víst á sviðinu.

Heilmargt að hlakka til næstu 2 mánuði. Svo er líka páskar þarna einhvers staðar að þvælast.

En fyrst er ég að hugsa um að hlakka til að halda upp á bjórdaginn með einum fyrrum bönnuðum núna á eftir…

Dagur 12. Bláfjöll

Þennan dag skyldi smalast upp í lest í tvo tíma og Bláfjöll staðarins, Blue Mountains, heimsótt. Þau bera nafnið af algerlega óskyldri ástæðu og Bláfjöll Íslands, hinum bláleitu Eukalyptustrjám sem vaxa þar úti um allt. Reyndar eru það eiginlega dalirnir frekar en fjöllin sjálf sem eru bláir.

En best að fara ekki fram úr sér, lestarferðin var svo sem ekki viðburðarík, við sáum meira út úr efri hæðinni á tveggja hæða lestinni en ég var hrædd um, munandi eftir löngum lestarferðum í Evrópu þar sem ekkert sást út um gluggana nema tré nánast alla leiðina. Útsýnið reyndist oft á tíðum ljómandi fallegt þó ekki í bæjunum þar sem lestarteinarnir liggja iðulega gegn um iðnaðarhverfi, hafi maður séð umhverfi lestarstöðvar teinamegin einhvers staðar hefur maður séð þau öll.

Komum upp í Leura í Blue Mountains upp úr ellefu, þar tók maður að nafni Paul Simpson á móti okkur og keyrði á kaffihús þar sem við áttum stefnumót við Jo Truman, kærustuna hans. Þetta fólk höfðum við semsagt hitt á tónleikum sunnudaginn áður og tekið tali. Hann er músíkáhugamaður mikill en spilar ekki sjálfur, snemmeftirlaunaður, hún talsvert þekkt söngkona í nútímatónlist, bjó og vann lengi vel í Evrópu en saknaði heimalandsins og flutti til baka fyrir fjórum árum. Þau höfðu boðist til að fara með okkur í túristaferð um helstu staði á þessu svæði í Bláfjöllum.

Jo

Paul

Eftir kaffið þeirra og tebollann minn á kaffihúsinu lögðum við í hann. Kíktum reyndar fyrst í ógurlega skemmtilega litla bóka- og diskabúð, Paul benti mér á disk með verkum Zoltán Kodály, alveg án þess að vita hvað ég held mikið upp á hann – keypti diskinn prontó, keyptum líka kort með mynd eftir Jo, hún selur svona kort í þessari búð og reyndar víðar á svæðinu. Síðan tók the bush við.

skógarstígur

Gengum góðan spöl út í skóginn þar til allt í einu blasti við risastórt gljúfur fullt af skógi, fengum sögur af því að fólk hefði týnst þarna og því trúi ég bara ansi hreint vel. Rosalegar vegalengdir og trén há þannig að engin leið að oríentera sig. Það er víst hægt að fá einhvers konar gps beacon til að láta vita af sér ef maður týnist en ekki allir hafa vit á því. Frekar en að allir hafi vit á því að vera almennilega búnir á hálendi Íslands. Venjuleg gps tæki virka ekki sérlega vel þarna undir trjákrónunum.

dalir

Allt fullt af eukalyptustrjám og tetrjám og auðvitað alls konar öðrum plöntum, til dæmis þjóðarblómi Ástrala. Það má sjá hér ásamt lýsingu:


(tekið skal fram að þetta er ekki eðlileg rödd Pauls heldur er hann hér að ýkja ástralska hreiminn…)

Keyrðum aðeins lengra og fórum þar á meiri túristastað, Echo Point, náðum smá ekkói, þar var allt morandi í túristum hins vegar. Samt flott. Einn útsýnisstað í viðbót sáum við, nánast ekkert fólk þar á ferli, þar var líka túristasenter með sögu fjallanna, skemmtilegt að lesa. Kom mér verulega á óvart að það er svo mikil mengun í vatninu alla leið þarna uppfrá að það er engan veginn óhætt að drekka vatn úr ám eða lækjum án þess að sjóða það og setja hreinsitöflur. Mikill er máttur mannsins!

Þetta er mikið skógareldasvæði, Jo og Paul útskýrðu fyrir okkur að eukalyptustrén spreyi um sig olíu þannig að þegar eldur kviknar er eldsmatur gríðarmikill, jafnvel loftið fyrir ofan trén logar. Þess vegna getur eldurinn farið fáránlega hratt um og fólk þarf að vera mjög svo vart um sig á svæðinu. Sumar plönturnar þarna hreinlega þurfa eld til að geta fjölfaldað sig, það er alveg magnað.

Hafði vonast til að koma auga á kengúrur en þær var hvergi að sjá. Þær eru víst feimnar og hvekktar á mannfólkinu (sló óvart inn mannfólinu og var alvarlega að hugsa um að láta það bara standa) þarna að maður þarf að vera mjög heppinn til að sjá þær. Það er víst reyndar öðruvísi innar í landinu, í Canberra og á sléttunum til dæmis en þangað komumst við ekki. Leit út fyrir að við myndum bara ekki sjá eina einustu kengúru í ferðinni. Ekki gott.

Fórum og fengum okkur hádegismat á sveitakrá, hrikalega góða borgara og ekki síðri ís, við laumuðumst til að borga hádegismatinn fyrir gestgjafa okkar, við hávær mótmæli þeirra þegar þau föttuðu það. En minna gat maður nú ekki gert!

Í lok heimsóknarinnar fórum við öll heim til Paul, hlustuðum á frábæra músík í tja kannski bestu græjum sem ég hef séð í heimahúsi, SuperAudiodæmi. (hmm svona þegar ég hugsa út í það þá minnir mig að heimabíómagnarinn okkar ráði við SuperAudio – en væntanlega eigum við ekki diskaspilara, þarf að tékka á því hvort þarf sérstaka spilara eða hvort magnarinn sé aðalmálið). Lýsti fyrir okkur hátölurum frá sama fyrirtæki og magnarinn okkar (Musical Fidelity, breskar græjur) sem væru víst æðislegir en kostuðu “bara” rúmlega 12.000 pund. (sirka tvær og hálf milljón). Ég myndi kaupa mér nýrri bíl ef ég ætti tvær og hálfa…

Paul og Jo keyrðu okkur svo í veg fyrir lestina og við kvöddum þau með virktum, ég sendi þeim síðan diska með íslenskri tónlist (reyndar akkúrat búin að útbúa pakkann – fer í póst á morgun).

Takeout á malasískum veitingastað og upp á herbergið okkar kalda og klakafulla. Náðum nú samt strax upp hita. Ferðasaga, net og sofa.

ohhhh

hvað það er mikil snilld að vera komin í jólafrí. Tókst næstum því að klára lag í morgun, þarf samt helst að gera annað með, þetta er fullstutt fyrir peninginn sjáiði. Eru ekki tveggja laga syrpur bara fínar?

Jólaskemmtun hjá Finni á morgun, hann leikur í Kardemommubænum í bíósalnum í Austurbæjarbíói, klárt maður mætir þangað. Jólasöngvarnir hjá stelpunum um helgina, sungið fram á nótt, þangað verður mætt líka. En þetta er nú allt bara partur af jólapakkanum.

Hmm, kannski ég ætti nú samt að skila þessari einu einkunn sem ég á eftir að skila í lhí áður en ég segist vera farin í frí. Það er reyndar bara tveggja mínútu vinna eða svo.

frí, frí, frííííí…

næstum

því komin í jólafrí, tveir kennsludagar eftir (mánudagur og miðvikudagur), á mánudaginn og í fyrri tveimur tímunum á miðvikudag er koma-með-nammi-og-spila-skástrik-horfa-á-jútjúb dagur. Kenni samt venjulega seinni tvo tímana á miðvikudaginn.

Það er svooooo kominn tími á jólafrí.

Já karlakórslag. Hmm, búin með helminginn af kórnum og veit hvernig ég ætla að hafa undirspilið – svona nokkurn veginn.

fríið

á Vestfjörðum (og þar með netfríið) búið í bili.

Vorum í Dýrafirðinum okkar elskulega, einn ganginn enn, hlakka til að hlaða inn myndunum 300 sem við tókum.

Systirin og mágur voru með okkur stóran hluta tímans, þau hafa æðiber í rassi og drógu okkur í alls konar ferðir og aktívítet sem við hefðum örugglega ekki nennt, svo sem ferð á Ingjaldssand (samkvæmt Páli Ásgeiri er sá staður skilgreiningin á orðinu afskekkt – ég held að þarna hafi einhvern tímann staðið bærinn Afskekta og þaðan komi orðið), yfir Hrafnseyrarheiðina að „óþörfu“ til að skoða Dynjandi (jájájá!) almennilega, kajakróður í botni Önundarfjarðar og fleira. Hrikalega skemmtilegt.

Fréttablaðið var ekki upp að drífa á svæðinu, kemur víst með höppum og glöppum í Bónus á Ísafirði en við sáum það aldrei, keyptum Moggann þrisvar eða fjórum sinnum og þessi tilraunaáskrift gerir það sannarlega ekki að verkum að ég flýti mér að gerast áskrifandi. Tókst varla að kveikja upp í arninum með sneplinum og meira að segja sudokurnar voru fáránlegar, gersamlega ekkert að marka skilgreininguna á hvað er létt og hvað er erfitt.

Það var nú samt í danska kellingablaðinu mínu sem gallaða sudokan var birt, reyndi þrisvar við hana og alltaf kom vitleysa, get ekki kennt mogga um það.

Allavega, gott að vera í fríi en alltaf best að koma heim. Verst að vera ekki heima nema tæpa tvo sólarhringa áður en ég þarf að þeytast upp í Skálholt og vera fram á mánudag…

síðasti áfangi að sumarfríi

aaaalveg að klárast, bara raða nokkrum prófum í möppu og svo er tónheyrnarliðið að koma í kaffihúsatíma, síðasti tími vetrarins alltaf þannig. Algjört æði. Verst að það gengur enn ekki alveg nógu vel með kammerverkið – er að hugsa um að hafa tvo kafla, langt komin með annan en óttalega hugmyndasnauð með hinn. Og ætlaði að skila núna í maí…

bústaður

fórum um helgina upp að Hreðavatni í fullkomna afslöppunarferð með krakkana mínus ungling (sem var heima að unglingast). Gerðum nánast ekkert nema slaka á, erfiðasta sem við tókumst á við var að fara í sund. Fór að dæmi pabba og smíðaði vísu í gestabókina (sem ég hef reyndar aldrei séð fyrr en núna, þó við höfum gist í þessum sama bústað tvisvar áður)

Gott er að koma á Hreðavatns hlað
hent er upp grilli með brosi á fési
legið í sófa með sudokublað
sundlaugin heimsótt í Borgarnesi.

(já, veit, þetta er óttalegt hnoð, ég þarf að æfa mig í svona vísnasmíð – þó ég sé með fáránlega öflugt brageyra þá er ég hreint ekki flink að henda fram vísum. Þarf víst æfingu eins og annað)

Snilldarhelgi en samt gott að koma heim eins og alltaf.

pááskafríííí

allir komnir í slíkt – nema reyndar helst ég, tveir fundir í næstu viku, en það er sosum ekkert of slæmt.

Hafið það nú gott um helgina, mín kæru.

jólafrí…

ójá. Frekar næs.

komin

já, fórum í bústað um helgina, þvílík snilld. Ekki hugsað um kreppu nema á meðan við hlustuðum á útsendingu frá Austurvelli (takk RÚV, útvarpsstjóri skoraði feitan punkt þarna), annars var þetta kærkomin hvíld, bara elduðum góðan mat, fórum í sund, spiluðum trivial og leystum krossgátur og sudokur.

Við Finnur unnum Jón Lárus og Freyju í Trivial, Finnur lét okkur gapa með því að fá köku út á að þekkja Little Richard í fullorðinsspurningu sem mamma hans áttaði sig ekki á.

Unglingurinn fékk hins vegar leyfi til að vera heima um helgina. Kom að því…

áttundi og síðasti

dagurinn kominn á ensku síðuna. Veit ekki hvort ég held áfram að skrifa ferðadagbækurnar á ensku, efast reyndar um það, en kannski stundum, hver veit?

dagur sjö

hér.

dagur sex

er hér.

önnur

færslan, annar dagurinn í ferðinni kominn, héddna, ef einhver vill. Fallegar myndir, allavega…

læti

Ekki er ég alveg viss um að við náum að sofna snemma í kvöld, hér fyrir utan eru þvílík læti, bílflautur og hróp og köll, enda við alveg niðri í miðbæ Kaupmannahafnar – og stúdentaútskriftir hér hafa greinilega verið í dag. Allir nýstúdentar Stórkaupmannahafnarsvæðisins og þó víðar væri leitað virðast vera að keyra hér framhjá í skreyttum vögnum, þeytandi bílflautur og aðrar flautur, blístrandi og fagnandi. Ekki er ég að kvarta, þetta er ógnar fjör, veit nú samt ekki hvort við förum að fara aftur út núna, ég er allavega frekar þreytt. Verst (tja, best, kannski upp á nætursvefn) að snúa ekki að Tívolí og sjá flugeldasýninguna.

mikið get ég ekki

beðið eftir að komast til Tékklands, ekki á morgun heldur hinn! Þetta er besta spáin sem ég fann, er að hugsa um að nota hana.

Annars er prógrammið hjá okkur:

Laugardagur: Flogið til Kaupmannahafnar og þaðan til Prag, gefst ekki tími til að fara inn í Köben milli fluga. Sótt á völlinn í Prag og keyrt til Pilzen. Væntanlega fengið sér einhvern góðan bjór.

Sunnudagur: Frí. Eitthvað munum við væntanlega finna okkur að gera.

Mánudagur: Frí fram til klukkan 17:00, þá æfing á verkunum. Verkin eru: 5 fuglar, einn Davíðssálmur, nokkur þjóðlög.

Þriðjudagur: 11:00, samtalsþáttur í tékkneska ríkisútvarpinu (held ég). 13:00, fyrirlestur um tónlist mína í tónlistarháskólanum (glúbb). 20:00, æfing

Miðvikudagur: æfing og tónleikar.

Fimmtudagur: flogið til Kaupmannahafnar. Ekki hugmynd um hvað við ætlum að gera þar, nema væntanlega hitta einhverja vini og kunningja og heimsækja gamlar slóðir. Gist hér.

Föstudagur: sama, pantað borð á Reef N’Beef um kvöldið. Pínu spennandi.

Laugardagur: Væflast um borgina eða eitthvað. Flogið heim um kvöldið.

Og nei, húsið verður EKKI autt, þaddna, ef einhver er að lesa og leita að þannig…

var að panta

hótel í Kaupmannahöfn, verðum þar í tvo daga þegar við komum frá Plzen. Gersamlega niðri í miðbæ, alger snilld. Hefðum væntanlega getað gist hjá vinum eða kunningjum, en það er nú bara svo ansi fínt að vera á eigin vegum.

Hlakka ekki smá til.

dagur #5 – heimferð

eins gott að klára þetta áður en ég legg af stað í næstu ferð (í fyrramálið, sko)

Vaknað (nú, skrítið…), síðasti morgunmatarskammtur, upp að pakka, tókst að troða öllu draslinu í töskuna, mesta furða reyndar, 6 flöskur úr Lavinia í tveimur kössum, slatti af gjöfum, þó mér tækist að gleyma bolnum hennar Fífu og einu öðru í poka bak við tjöldin í herberginu. Lok og læs – opna aftur, gleymdi að tæma ísskápinn (nokkrir ostar, gesiérkrukka og pylsa, eins gott). Taskan níðþung, auðvitað, ég var handviss um að þurfa að borga hellings yfirvigt.

Tékkað út, ég hafði notað eitt ítem úr minibarnum, einn lítinn 1664 bjór, kostaði heilar 3.50 evrur, borgaði, fékk útprentaða kvittun á þykkan ljósgulan rifflaðan gæðapappír, alveg hugsa ég að blaðið hafi verið bjórsins virði. Diljá hafði drukkið eina hálfslíters vatnsflösku, okkur fannst svolítið skondið að hann kostaði 8 evrur, jafnvel þótt hann væri stærri en bjórinn.

Hér sjást Ásdís og Mary bíða eftir nokkrum hinna í lobbíinu.

Stærsti hluti hópsins tölti síðan niður að óperutorgi, þar sem hægt var að taka rútu á flugvöllinn. Nokkrar ákváðu samt að taka leigubíl, nenntu ekki niðureftir. Veðrið var mjög fínt og allir með töskur á hjólum, þannig að göngutúrinn var nú ekki sérlega erfiður. Rútan stóð síðan þarna tilbúin fyrir okkur, rúlluðum af stað og þrátt fyrir að rútan fari á átján mismunandi terminala 2 áður en hún stoppar við terminal 1 þar sem við fórum, hittum við náttúrlega hinar í innrituninni, múhaha. Slapp við yfirvigt, var ekki nema kílói yfir, fjúkkitt.

Einhvern veginn tókst mér að missa af hvar maður setti umslagið með taxfree dótinu þannig að umslagið kom með mér heim. Vill til að ég er að fara út aftur. Sýnist reyndar að maður hljóti að skila taxfree kvittuninni áður en maður fer inn í gegn um tékk, sérkennilegt það.

Eitthvað var lítið af búðum niðri, það við sáum, þannig að við fórum bara upp, þar hlyti að vera eitthvað taxfree verslunarsvæði og kannski veitingastaðir. Olli hinsvegar þvílíkum vonbrigðum, búðin oggupínulítil og ómerkileg, ég hafði ætlað að kaupa gauloises fyrir þennan vin, reiknaði með að það hlytu nú að fást franskar sígarettur á vellinum, en nei, breskar og bandarískar. Undarlegt. Þarna var líka einn ræfils kaffibar með einum afgreiðslumanni fyrir margar vélar sem voru að fara. Ásdís var ekki alveg sátt við þetta, enda er hún með platínukort og á rétt á að fara í lounge. Við vorum líka búin að sjá miklu flottari búðir annars staðar á vellinum. Hún spurði hvort hún mætti ekki fara þar inn, en fékk þau svör að þar sem við séum í Schengen, fáum við bara litla og ómerkilega búð og ekkert fínt svæði til að bíða eftir vélinni.

Get bara ómögulega skilið hvað það kemur málinu við, ef einhver veit röksemdafærslu fyrir þessu má hann/hún gjarna láta mig vita.

Nú, keypti samt einn ost í pínubúðinni, þrátt fyrir að hafa verið settur í „lofttæmdar“ umbúðir tókst mér að finna lyktina af honum alla ferðina. Afsakaði mig við sessunaut minn en sem betur fór hafði hún ekki tekið eftir neinu (þetta var sami osturinn og ég tók síðan með mér í ostapartíið góða).

Leifsstöð gekk fyrir sig eins og venjulega, keypt ein gin og smá nammi, ætt í rauða hliðið og borgað af aukavíninu – dettur ekki í hug að svindla á því, hreint ekki svo mikið sem maður þarf að borga ef maður er með þokkaleg vín með sér (borgar sig samt ekki að kaupa tveggja evru ruslvín, þá er maður farinn að borga fáránlega mikið miðað við gæði á víninu). Tollvörðurinn var vinalegur og skemmtilegur, það er yfirleitt bara mjög fínt að eiga við þá í rauða hliðinu.

Fékk far með Arnheiði í bæinn ásamt Önnu og Bryndísi, hún hafði geymt bílinn á vellinum, síðan með Önnu, hennar maður kom að ná í hana til Bryndísar og ég fékk að fljóta með vestureftir. Takk stelpur, og takk fyrir ferðina, allir vinnufélagar. Sérstakar þakkir til Örnólfs og Helgu sem komu heim með bolinn minn og:

hnífapörin sem ég keypti – í sætu búðinni…


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa