Archive for the 'ýmislegt' Category

Leynivika

Nei ég var ekki leynivinur né átti slíkan en leynigiggin voru tvö þessa viku.

Í hádeginu á miðvikudag var hún Hallveig systir leynigestur hjá Gerrit á hádegistónleikum í Fríkirkjunni. Meðal annars söng hún Ekkóaríuna úr Jólaóratoríu Bachs (maður þorir ekki annað en að nefna höfund, það var jú verið að frumflytja glænýja jólaóratoríu eftir Sigurð Sævarsson í Hallgrími um daginn, en þetta var semsagt úr þeirri þekktu). Þar vantaði ekkóið og ég fékk þann heiður að bergmála. Gríðarlega skemmtilegt að vera leynigestur hjá leynigesti.

Svo í dag, föstudag var annað leynigigg. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Áskirkju hafa verið að flytja Messías síðustu daga í Hörpu. Hljómeyki var með í því giggi í fyrra en ekki í ár en þegar til stóð að Sinfónían yrði með flashmob uppákomu í Kringlunni var kallað í Hljómeyki til að taka þátt. Þetta var ógurlega mikið leyndarmál, ég meira að segja neitaði að segja fjölskyldunni frá þar til ég reyndar laumaði þessu út við Jón Lárus í morgun.

Svo kom póstur í dag þar sem lýst var hvernig við skyldum fara að. Tvítekin uppákoma, hljómsveitin laumaðist smátt og smátt inn til að spila Pastoralsinfoniuna úr fyrsta þætti Messíasar, án endurtekninga og síðan tóku kórarnir undir í Hallelújakórnum. Í lokin bættist meira að segja Kór Neskirkju við ofan af svölum.

Allt var þetta tekið upp á vídeó, hlakka til að heyra. Þetta var gríðarlega mikil stemning, eiginlega meiri en ég gerði ráð fyrir, hélt að þetta myndi hverfa upp í Kringlugeiminn en það semsagt gerðist bara ekki neitt og ég fékk þvílíka gæsahúð þegar Neskirkjukórinn þrumaði lokapartinn með okkur ofan af svölum.

Þetta hlýtur að detta inn á youtube, vísa í það þegar það kemur.

Uppfært. Ekki enn á þérröri en hér

og hér líka. Eins og ég sé er hljóðið ekki samferða myndinni en annars skemmtileg myndataka. Takið sérstaklega eftir ræstitækninum!

Þar kom þetta:

Flashmob í Kringlunni

síðan já

á ég bloggsíðu? og er hennar saknað? Af öðrum en mér? (komment vel þegin eftir þessa smjaðursbeiðni – sem kemur reyndar til vegna komments við síðustu færslu).

Jújú, ég er á lífi, líka utan við facebook. Fór til Svíaríkis um daginn á stóra tónlistarhátíð, ferðasagan er ekki alveg fullskrifuð en í hinni tölvunni, kannski næ ég fljótlega að færa hana yfir í þessa og þá gætu alveg fjórar færslur litið dagsins ljós.

Þangað til, köttur:

 

Makindi

meiri neytendamál

fórum á jólahlaðborð með mínum elskulegu Hafnarfjarðarkennurum í kvöld. Allt of langt síðan ég hef gert eitthvað með þeirri skemmtilegu grúppu. (ekki ólíklegt að fimmþúsundkrónaleigubíllinn heim spili einhverja rullu þar sem oftast eru gillin í firðinum hinum fagra (nei ekki Skagafirði, það eru til fleiri fagrir!))

Í kvöld var hins vegar jólahlaðborð og það var haldið á Óðinsvéum. Sem eru um 100 metrum frá húsinu mínu. Enginn leigubílakostnaður. Ekki einu sinni nauðsyn á því að biðja unglinginn að skutla okkur og sækja. Sem hefði reyndar ekki verið hægt núna, hún er ekki skráð bílstjóri á beinskipta bílaleigubílinn (sjá færslu fyrir neðan)

Nevermænd. Óðinsvé á horni Þórsgötu og Óðinsgötu. Fínt mál. Ljómandi ágætt hlaðborð, ekki fáránlega mikið úrval heldur bara temmilegt en maturinn langoftast fínn, ekkert upp á þjónustuna við borð að klaga, diskarnir alltaf farnir áður en maður kom með næsta skammt.

Vínið hins vegar… Það þarf enginn að reyna að segja mér að það að selja fólki rauðvínsglas á þúsundkall og reyna að troða því í hvítvínsglös i þrjú skipti af fjórum sé nein tilviljun! Neibb. Tókst í fyrsta skiptið en ekki seinni þrjú. Klárt maður hellir lægra í rauðvínsglös en það var samt ekki málið þarna. Jón fékk einu sinni afsökunina: Það er ekki til glas. Hmm, hvað tekur margar sekúndur að skola úr einu tómu glasi? Eitt skiptið var reyndar glasið af réttri stærð óumbeðið…

Versla við Bílaleigu Akureyrar – Europcar

Einu sinni skrifaði ég póst þar sem ég andskotaðist yfir ömurlegri þjónustu hjá Hljómsýn og Litsýn sjá hér. (heh nei mér finnst ekkert að því að auglýsa það upp á nýtt). Þetta er sú færsla hjá mér sem dúkkar alltaf upp með innlit í hverri einustu viku og er komin með yfir 8000 flettingar. Mikið langt frá því að vera góð auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki og ég vil allavega trúa því að þeir hefðu grætt á því að allavega borga fyrir viðgerðina á bannsettum heyrnartólunum – sem NB eru síðan búin að brotna hinum megin og sambandið er heldur ekki gott í þeim.

Allavega í dag fékk ég alveg öfuga þjónustu.

Forsagan er ekki sérlega skemmtileg reyndar. Við systurnar vorum að baka sörur hér heima, ekki í frásögur færandi per se, eldri unglingur var að fara í síðasta prófið sitt í menntaskóla, ég þurfti að skjótast með yngri ungling úr skólanum til að spila í ráðhúsinu, allavega púslast hlutirnir þannig að sú eldri tekur bíl systurinnar í prófið. Systur minnar bíl, sko ekki sinnar!

Mín systir tekur síðan minn bíl til að sækja sína dóttur (var einhver að tala um flækjustig?) Nema hvað, hún hringir í mig 5 mínútum seinna, ég á kafi í síðustu sörubotnum í ofn og þá er bara búið að klessukeyra aftan á bílinn minn á ljósum, jeppakall að spila angry birds á símann sinn (tja eða tékka á sms eða álíka) og tók ekki eftir því að það væri komið rautt ljós og stopp bílaröð fyrir framan sig. Beint aftan á, af fullum krafti. (allir krossa putta og tær og handleggi og fætur og snúa tungunni við að Hallveig hafi ekki fengið slæman hnykk. Takk!)

Hringt í 112, þessir gaurar mæta á svæðið, áreksturinn er skólabókardæmi um aftanákeyrslu og Hallveig í 100% rétti ef maðurinn hefur nokkurn tímann séð slíkt tilfelli. Mér skipað að fara á bílaleigu og taka bíl, reyndar fyrsti dagurinn á mína ábyrgð þar sem lögregluskýrsla berst ekki fyrr en daginn eftir og þá fer skoðun fram. Ég næ síðan í Hallveigu á slysó (henni skipað að koma aftur daginn eftir þar sem meiðsli koma oft ekki strax fram í svona málum), hún skutlar mér síðan á næstu bílaleigu.

Sem er semsagt Bílaleiga Akureyrar – Europcar í Skeifunni.

Ég inn, jújú, þeir skipta við Vörð, ég tryggi þar og af þægilegri tilviljun var jeppakallinn (sem var NB í sjokki og hinn almennilegasti) líka tryggður þar.

Erum að ganga frá bílaleigu og ég (sem hef alltaf heyrt og reyndar nýtt mér áður) að fólk eigi að fá sambærilegan bíl í svona tilfellum. Það hefur hins vegar greinilega breyst, kannski um hrun, tryggingafyrirtæki borga núna bara minnsta bíl. Ég tek fram í sakleysi mínu að ég þurfi að koma sellókassa í skottið. Þau: Uuuuuuu? hmmm? tjaaa! neeeei! Ætluðu að láta mig hafa eitthvað smábílkríli (Volkswagen Polo ef ég man rétt). Mér líst lítið á það þannig að þau benda mér á að tala við tryggingafélagið og benda reyndar á ákveðinn aðila þar sem sé liðlegur. Ég fæ hins vegar ekki samband við hann, er víst með kúnna hjá sér og lendi á talsvert óalmennilegri manni sem vill lítið fyrir mig gera og biður mig bara vinsamlegast taka tillit til að svona aukaútgjöld komi sko niður á iðgjöldum allra (við erum að tala hér um rétt rúmlega 2000 krónur á dag í 5 daga NB). Fæ ekkert meira út úr honum, að hluta til skiljanlegt því hann var auðvitað ekkert búinn að fá um málið. Hef líka oft fengið mjög fína þjónustu hjá Verði þannig að ég ætla ekki að fara að tala þau niður – í bili…

Allavega, gefst upp á símtalinu en þarna er eigandi eða vaktstjóri hjá Bílaleigu Akureyrar hins vegar kominn fram í afgreiðslu og heyrir símtalið mitt. Spyr hvort tryggingarnar hafi viljað gera eitthvað fyrir mig og ég gef nú lítið fyrir það. Hann skipar þá stelpunni sem var að afgreiða mig að skella á mig fimm flokkum dýrari bíl en rukka bara fyrir þann ódýrasta. Bílaleigan taki muninn bara á sig.

Einhvern veginn held ég að bílaleiguna muni meira um þennan sirka 11 þúsund kall en Vörð.

Hins vegar græddi hún ánægðan kúnna – og vonandi líka 8000 innlit og jákvæðni. Svona á þetta að vera, takk fyrir mig.

silast í jólafrí

smátt og smátt, kúrsarnir í LHÍ búnir í ár, fyrir utan tónsmíðaeinkatímana, Messías búinn (muuuu, reyndar) ásamt tónleikum áhugamannabandsins, get ekki verið með í verkefnum kammerkórs Dóm núna fyrir jólin þannig að er komin í bæði kór- og hljómsveitarfrí. Semsagt eiginlega bara kennslan eftir hádegi á mánudögum og miðvikudögum eftir, fyrir utan íhlaupavinnu ýmiss konar.

Þýðir reyndar eiginlega bara að ég hef smá tíma núna til að setja kraft í tónsmíðaverkefnið fyrir Fílharmoníu. Sem er hið besta mál. Búin með (og búin að skila) upphafs- og lokaköflum, annar kaflinn mjög langt kominn og þriðji líka en tveir nánast alveg eftir.

Annars bara heitt kakó, maltesín og smákökur frá Fróni frænda og jólakort frá Knúzinu.

bókstafahljómar og ég

hafa hingað til ekki verið sérlega góðir vinir. Væntanlega vegna þess að ég spila hvorki á gítar né píanó og þyrfti að hafa talsvert fyrir því að spila eftir slíkum.

Þessa dagana erum við stórfjölskyldan hins vegar að heiðra minningu sameiginlegrar ömmu, Hildigunnar Halldórsdóttur, sem var öflugur textasmiður, á til dæmis Óskasteina, Foli foli fótalipri, Hér búálfur á bænum er, og mikið mikið fleiri texta sem margir kannast við, sérstaklega þeir sem vinna með börnum.

Amma hefði orðið 100 ára 22. janúar á næsta ári, hefði hún lifað. Textarnir hennar eru búnir að vera að safna STEFgjöldum í áratugi, mamma og systur hennar hafa samviskusamlega lagt þetta allt saman inn á bók þannig að nú er kominn svolítill sjóður. Hann skal nota í að gefa út bók og disk með lögum og textum (amma samdi líka nokkur bráðfalleg lög).

En til að lögin nýtist sem best er gott að hafa hljóma með nótunum. Og þar kom að okkur. Enginn í familíunni er sérfræðingur í að setja slíka hljóma þó ýmsir séu flinkir í að spila eftir þeim. Tónskáldið dæmdist auðvitað í hópinn sem skyldi setja hljóma. Þannig að ég settist niður og raðaði niður nokkrum hljómum.

Auðvitað var það svo talsvert minna mál en ég var búin að mikla fyrir mér. Sérstaklega þegar mér var bent á hvernig ég gæti skráð hljómhvörf, sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að gera.

Hugsa samt að mínir hljómar séu svolítið frábrugðnir hinna…

Hér er sýnishorn, glænýtt lag reyndar líka:

kvartanir, kvartanir

Yfir því hefur verið kvartað að þessi bloggsíða sé eyðileg og tómleg og viðurkennir höfundur það fúslega að hér gerist ekki margt.

Það er ekki vegna þess að það gerist ekkert í lífinu. Þar gerist alveg slatti. Síðast í gær sótti ég um stóran styrk til Tónlistarsjóðs, er að vonast til að geta kynnt Guðbrandsmessuna mína, besta verkið mitt hingað til imnsho í útlöndum. Finnst það eiga það skilið. Svo er stóra stelpan mín búin að syngja á 7 stykkjum Bjarkartónleikum, þar af hef ég farið á tvenna, ekkert stolt mamma neineinei (lygi auðvitað, hvað haldið þið?). Stefnt á New York í febrúar ef atvinnuleyfi fæst fyrir hópinn.

Smíðar á næsta tónverki mjakast áfram, búin að skila rúmum 5 mínútum af 20 slíkum, 4 mínútna kafli til viðbótar mjög langt kominn, annar líka á leiðinni. Spennandi, alltaf spennandi. Í dag var haft samband út af orgelverki í viðbót. Spurning hvenær tími fæst í slíkt.

Guttinn minn var góður við mömmu sína í gær, eitt uppáhaldsfaganna hans í skólanum er heimilisfræði. Hann eldaði spakettí carbonara, óvenjulega útgáfu með kjúklingabitum í viðbót við beikonið. Stóð þarna í skólaeldhúsinu og horfði á matinn, svo mikið var afgangs að hann hefði aldrei getað torgað því öllu sjálfur og hugsaði – já til mömmu sinnar. Fékk tvo þunna plastpoka, setti annan ofan í hinn og pastað í þann innri og tölti heim til að gefa mér hádegismat. Þessi elska.

Nóg í bili, lofa að láta ekki líða svona voðalega langt þar til næst…

smellir

Man nokk vel eftir því þegar ég var krakki og var kennt að á tónleikum ætti ekki að heyrast í manni þar sem það gæti auðveldlega truflað fólk í kring. Nokkuð sem ég hef innrætt mínum ungum líka með góðum árangri. Það sem ég þoldi verst, mögulega fyrir utan skrjáf í konfektpokum (hvað var líka eiginlega með að selja konfekt í hörðum sellófanpokum í leikhúsi og óperu?) voru heldri frýr sem þurftu alltaf að vera að taka upp gleraugun sín og setja niður aftur og létu smella í gleraugnahulstrunum.

Nú er ég ein þessara frúa sem þarf að nota gleraugu til að geta lesið prógrammið.

En ekki að ræða það að ég láti heyrast til mín smella í gleraugnahulstri! Né heldur skrjáfa í nammipoka…

kemst ekki yfir

að ég skuli hafa drattast og skráð mig í leikfimina aftur í dag, ekki að ég nenni því ekki (ótrúlegt en satt) en ég bara HEF EKKI TÍMA TIL ÞESS núna að klippa 3 morgna í viku í sundur fyrir eitthvað sprikl.

Hef bara svo fjári gott af því samt…

Lofa síðan að hvorki skrifa staf né status um ræktina. Enda slíkir statusar nærri jafn leiðinlegir og fjölpóstar eða auglýsingapóstar.

Tókst síðan að bakka á bíl fyrir utan hjá Bárusprikli en sem betur fer var það auðkúlan mín í dekkið á hinum bílnum. Hjúkk!

fékk spes póst

í gær, einhverjir Ítalir sem hafa fundið upp á því að setja á stofn auglýsingasíðu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Vilja að ég linki á þá sem er sjálfsagt mál, benda fólki á nokkrar bloggsíður, flestar á íslensku sem er frekar sérstakt. En þetta lítur nú bara vel út hjá þeim, sjá hér

sunnudagur

að vera vakinn um níuleytið á sunnudagsmorgni af litlum tíu ára gutta sem er búinn að steikja french toast fyrir alla fjölskylduna og leggja á borð – er eitthvað mikið betra til?

Hjá sumum er desember ekkert minna pakkaður en aðrir mánuðir en hér á bæ er þetta að verða ansi þægilegt bara, komið jólafrí í áhugamannabandinu (já tónleikarnir í gær gengu bara mjög vel, takk), líka Hljómeyki, Listaháskólinn klárast í nýhafinni viku og 2 vikur eftir af hinum skólunum.

Spurning um að fara að kíkja á jólakort og -gjafir?

sölumaðurinn

hann sonur minn er fyrsta barnið mitt sem hefur minnsta vott af sölumannsgeni. Ekki veit ég hvaðan.

Hann hringdi út kertasölu í gærkvöldi og við báðum hann í leiðinni um að nefna klósettpappír/eldhúsrúllur/lakkrís sem systir hans er að selja, svona til að fækka nú aðeins sníkjuhringingunum til frændgarðsins.

Nokkur sýnishorn:

Skyldi nokkuð vera þörf fyrir lakkrís hjá ykkur?
Væri hægt að vekja áhuga þinn á klósettpappír?
Er nokkuð skortur á klósettpappír hjá ykkur?

(já semsagt, salan á fullu…)

stjörnurnar

Átti erindi Vatnsendaveg í gærkvöldi, bóndinn var á vínsmakki (þar sem eiginkonur gauranna eru ekki velkomnar :þ) og við yngri krakkarnir voru í góðu yfirlæti í Garðabænum á meðan.

Sóttum Jón upp úr klukkan 10, ég hef ekki áður keyrt Vatnsendaveginn í koldimmu að ég muni og það var ótrúlega stjörnubjart. Fann útskot, stoppaði bílinn og við Freyja og Finnur fórum út og dáðumst að stjörnuhimninum. Auðvitað var smá ljósmengun frá hverfunum í kring en þetta var samt mögnuð upplifun, maður sér stjörnurnar sjaldan svona vel.

Það er reyndar leitun að stað á landinu þar sem ekki er einhver ljósmengun, tja allavega stað í sæmilegu ökufæri. Maður sér ljós frá bæjum og þorpum fáránlega langt, á dimmum nóttum, sérstaklega þegar er svona stillt veður eins og í gærkvöldi. Synd, því maður nýtur bæði stjarna og norðurljósa mikið betur ef ekki er annað ljós að trufla.

Frábær upplifun samt.

aðalfundir í hrúgum

jámm, er svona smátt og smátt að reyna að losa mig úr einhverjum ábyrgðarstöðum hér og þar. Á morgun ein formennska frá – kannski losna ég meira að segja frá því að sitja í stjórn, ef einhver er til í að bjóða sig fram (krossa putta).

Tími nú samt ekki að losa tökin á Hljómeyki, það er eiginlega inngróið. Væri kannski vit samt að láta einhverjum öðrum eftir formennsku þar – ef einhver er til í slíkt. Svosem búin að sitja feikinógu lengi.

Svo er nú spurning, eiginlega á ég að vera verkefnisstjóri fyrir Norræna tónlistardaga á næsta ári. Er eitthvað vit í því? Borgar sig ekki að keyra sig í kaf…

(hvers vegna í ósköpunum ætli ég sé annars ekki með neinn póst í kategóríunni „félagsstörf“?)

jón spæjó

Ekki á hverjum degi sem við hér heima leysum mál fyrir lögregluna en í gær datt Jóni Lárusi í hug að bíllinn sem er búinn að standa hér fyrir utan síðan fyrir helgi og safna á sig sektarmiðum í bunkum gæti verið þar vegna þess að – ja eigandinn vissi ekki hvar hann væri. Ekki alveg eðlilegt að safna svona sektum eins og enginn sé morgundagurinn. Jón segir frá þessu á sinni síðu, hér.

Fletti upp á síðu lögreglunnar og viti menn, þar var bíll sem svaraði til lýsingarinnar. Jón var í vinnunni og mundi náttúrlega ekki númerið þannig að þegar hann kom heim tékkaði hann á því og jújú, passaði. Hringdi í löggz en þá var náttúrlega búið að loka. Fann síðan síðu þar sem var auglýst eftir kagganum og sendi póst. Svo núna í morgun hafði ekki borist svar við póstinum þannig að Jón hringdi aftur í löggunúmerið þegar skiptiborðið opnaði. Vel tekið við því og nú er búið að ná í bílinn.

Maður hefði annars haldið að stöðumælaverðir ættu að hafa augun hjá sér hvað svona varðar, tæpast alveg eðlilegt að bílar standi bara og safni sektum. Reyndar var einn leigubíll hér fyrir utan í smá tíma um daginn, kominn með 4-5 miða. Spes. (hver veit svo sem hvort honum hafði líka verið stolið?)

Þar sem ég var

að hamast við að skanna gamlar Hljómeykisgreinar til að koma inn á heimasíðuna sem ætti fljótlega að opna, rakst ég á nokkurra ára gamla grein um enn eldri framtíðarsýn eftir Gísla Halldórsson, ömmubróður minn.

Greinin er bráðskemmtileg, ég ætla ekki að líma hana hér inn þar sem hún yrði ólæsileg hér á síðunni og ég kann ekki að gera svona dót sem stækkar þegar maður smellir á myndina á flickr (ekki viss um að það sé hægt) en hér má lesa. Fullt af dóti sem hefur gengið nokkuð nákvæmlega upp, auðvitað annað sem ekki virkaði. Fyndnast eiginlega að hann lýsir eiginlega helst veruleikanum hér fyrir svona þremur árum…

ég vildi

óska að einhver hefði tekið mynd af kórnum á tónleikunum á föstudaginn, venjulega erum við íklædd svörtu með einhverju rauðu skrauti (nokkuð sem er reyndar orðið frekar þreytt, þar sem allir virðast vera komnir með þetta trend, við vorum með þeim fyrstu en samt held ég ekki trendsetters, fleiri sem duttu inn á sama tíma), en föstudagurinn var eins og fólk veit, bleiki dagurinn þannig að sú hugmynd kom upp að í stað rauðs kæmi fólk með bleikt skraut.

Rautt er frekar auðveldur litur, maður einhvern veginn veit hvað hárautt er, ég er ekki viss um að það sé neinn annar litur sem er svona afgerandi, nema þá helst svartur. Ekki einu sinni alveg viss með það, spurning hve kolsvart og svo virkar svartur misdökkur eftir glansstigi. Bleikur getur hins vegar verið afskaplega mismunandi, ég nefndi hot pink og fagurfölbleikan þegar ég var að ákveða hvað ég ætti að velja mér bleikt fyrir tónleika. Smettisvinir voru sammála, hot pink væri málið, þannig að ég rændi naglalakki frá yngri dóttur og skaust svo í Skarthúsið eftir einhverju aðeins meiru (næla og eyrnalokkar).

En semsagt, ég væri verulega til í að vita hvernig þetta bleika konsept, með öllum möguleikum af bleikum leyfðum, kom út. Veit samt ekki til að það hafi verið tekin mynd af okkur.

vikufrí

Listaháskólinn bara hefði ekki getað valið betri tíma til að senda fyrsta árið til Ísafjarðar í vinnuviku – við að syngja með Sinfóníunni (morgunæfingar) og svo er eldri unglingur að fara í hálskirtlatöku á morgun þannig að það er ógurlega gott að geta verið mikið heima. Tek mér líka frí úr kennslunni í Hafnarfirði á morgun til að geta verið hjá henni þannig að eina kennslan í vikunni var í gær. Ansi stutt kennsluvika það.

Svo er samt spurning hvort maður nái að nota tímann og semja. Má allavega reyna…

Draumurinn

Já takk – svona vildi ég gjarnan fá. Þá mætti leggja niður Reykjavíkurflugvöll á nóinu…

mætti halda

að við værum ekkert að pæla í fermingunni núna eftir nokkra daga – í dag hentum við okkur á kaf í þrif hér heima. Nei við höldum ekki veisluna heima. Fimmta uppþvottavélin af rykugum bjórglösum rúllar í augnablikinu.

(já við eigum slatta af bjórglösum, sjá:)

Jú, bökuðum hlaða af flatkökum til að smyrja og ég skaust í bakarí til að panta snittubrauð. Ætli maður geti fengið þau skorin í bakaríinu?


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa