Sarpur fyrir maí, 2019

Kolding, ottende og allersidste dag. Hjem.

Jæja. Heim. Ekki líklegt að við myndum dvelja meira í Kolding. Fífa að flytja sig um set til að taka mastersnám í Barcelona. Atli yrði eftir að klára sitt nám.

Vaknað um morguninn og ruslað saman dótinu okkar, lítið mál. Fórum á stúdentagarðana og ræstum krakkana. Við vorum að taka tvær stórar töskur með dóti frá Fífu heim.

Strætó út á völl. Hljómar eins og enn ein boring leiðin en eitt mjög fyndið kom upp. Við vorum búin að raða öllum töskunum okkar fjögurra plús þeim tveim frá Fífu í stöðuplássið fyrir miðjum strætó. Settumst síðan í sætin þar beint fyrir ofan.

Nema hvað, ekki höfðum við raðað þeim nógu þétt til að þær tylldu á sínum stað. Fljótlega eftir að við höfðum komið okkur fyrir þurfti bílstjórinn að bremsa frekar snöggt – og töskurnar okkar, allar með tölu, rúlluðu hver eftir annarri, fremst í vagninn og stóðu þar eins og þær væru að glápa á bílstjórann. Sem betur fer hafði hún húmor fyrir þessu, reyndar skellti allur vagninn upp úr! Við líka. Vildi óska að ég hefði verið með símann uppi við og náð af þessu vídeói.

Sóttum þær og skorðuðum nú kyrfilega í plássinu.

töskurnar

Ég hafði verið búin að átta mig á því fyrr í ferðinni að mér hafði láðst að kaupa töskukvóta til baka. Svo við byrjuðum á því þegar við komum á völlinn að bæta við kvóta. Það var ódýrara en við héldum. Ætluðum samt að taka eins mikið inn og við gætum, allar litlar töskur sem mætti fara með í handfarangur. Nema hvað, það var ekki hægt að innrita sig sjálf í kassa svo við þurftum að fara á innritunarborð. Þar var hinn almennilegasti maður sem bauð okkur að tékka inn töskurnar okkar allar með tölu þrátt fyrir að vera ekki búin að borga fyrir inntékkað. Vélin ekki full og nóg pláss í lestinni. Þáðum það með þökkum.

Flugið var ósköp þægilegt og ekki frásagnarvert og sama gilti með Leifsstöð og heimferð. Góð ferð.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

maí 2019
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa