Sarpur fyrir júní, 2018

Kolding lige den første dag

Ekki er það nú oft sem við Jón látum ekki líða nema viku milli utanlandsferða. Parísarferð rétt yfirstaðin og þá var kominn tími á mikið lengur planaða ferð til að vera við útskriftina hennar Fífu okkar úr samskiptahönnun við Kolding Designskole.

Ferðin byrjaði vel. Eða þannig. Freyja hafði ætlað með okkur en ein besta vinkona hennar, hún Khadija hafði unnið íslandsmeistaramót kaffibarþjóna og var einmitt að fara að keppa á alþjóðamótinu í Amsterdam þennan dag þannig að Freyja hafði breytt flugmiðanum sínum til að geta farið að styðja hana.

Við höfðum ætlað að fara bara öll saman á bílnum og við hin að hinkra bara 40 mín aukalega á vellinum þó flugið okkar væri aðeins seinna. Við Jón Lárus og Finnur fengum síðan sms um miðja nótt upp á að fluginu okkar væri frestað, fyrst til ellefu og síðan til tólf. Freyju flug var hins vegar á tíma.

Rútufyrirtækin klippa greinilega á netsölu tveimur til þremur tímum fyrir brottför viðkomandi rútu svo Freyja gat ekki fest sér rútumiða þegar hún vaknaði. Keyrði hana í veg fyrir rútuna, Jón Lárus kom með, í því falli að það þyrfti mögulega að keyra hana út á völl, vildi ekki að ég þyrfti að keyra sársyfjuð út á völl og alein til baka. En til þess kom ekki, nóg var af sætum í rútunni bara ef keypt var á staðnum.

Heim aftur. Steinsofnuðum bæði, þó við værum bæði á því að það yrði ekkert hægt að sofna aftur.

Vaknað um sjöleytið. Finnur fékk sjokk og hélt við værum búin að missa af fluginu!

Það vorum við samt alls ekki. Mæting tíu svo við vorum í góðum tíma. Smurðar flatkökur með osti í nesti eins og við eigum vanda til.

Út um níu, þorðum ekki að vera síðar, meiri umferð en venjulega þegar mæting er fimm fyrir flug sjö. Bensín á Atlantsolíu í Kaplakrika (samkeppnisstöð vegna Costco bensíns) og svo út eftir. Jón lagði meðan við Finnur kláruðum inntékk og skelltum töskunum okkar (matrúshkutöskunum, taska innan í tösku því Fífa ætlaði að senda dót með okkur heim) á baggage drop. Mjög þægilegt og ekki nokkur lifandis bið.

Innritun fín. Ekki Segafredo frekar en síðast. Langaði ekki í smørrebrød á Nord. Þriðji Lagardére staðurinn prófaður, þokkalegustu kjúklingaborgarar og franskar. Synd að segja að umhverfið sé huggulegt samt. Ég væri hreinlega til í BörgerKing eða MakkDé á svæðið. Sveimérþá! Þar veit fólk alveg að hverju það gengur.

En það var skálað í þessu, ástæðan gefin upp síðar. Enn smá leyndó.IMG_0402

Jón tók í fyrsta skipti eftir VíÆPí hliðunum í flugstöðinni, A1 og A2. Hver flýgur eiginlega á þeim hliðum? Olíufurstar í einkaheimsókn?

Go to gate. A14. Allt of snemmt kallað út. Á A gangi er hvergi hægt að setjast niður svo fólk plantaði sér bara strax í röðina. Og stóð þar. Von úr viti. Upp á endann. Loksins var byrjað að hleypa fólki inn í vél. Þó gleymdist að ýta á Boarding takkann, það stóð enn Go to gate á skiltinu lengi eftir að röðin var farin að mjakast inn.

Mikið sem ég myndi ekki sakna þessa. Hitastig 9°C.

IMG_0403

Vélin fór ekki nema 10 mín síðar í loftið en lofað hafði verið í seinkunartilkynningunni. Mesta furða!

Fengum stelpu sem var að ferðast ein og var í röðinni okkar til að færa sig í gluggasæti svo Finnur gæti setið með okkur í röðinni. Besta mál.

Hlustaði á 3. sinfóníu Mahlers á leiðinni út. Var í skemmtaranum, mesta furða. Stutt flug en löng sinfónía. Tíminn er afstæður.

Lent í Bílalundi. Eða var það biðlund? Þurftum allavega að sýna smá biðlund. Töskurnar okkar mættu svikalaust á svæðið (reyndar ekki á bandinu sem var merkt frá Íslandi en sosum ekkert mál þegar þær byrjuðu að dælast upp á þarnæsta bandi og fólk sá) en svo var það bið eftir strætó númer 166 sem stoppar beint fyrir utan flugstöðina og færir okkur ýkjulaust beint fyrir utan dyrnar hjá Fífu og Atla. Við erum að tala um innan við 100 metra frá stoppustöð. Tekur klukkutíma og var bara næs, með útsýni yfir danska akra og engi.

Loks var beygt fyrir horn hjá Kolding Designskole. Þar beið Fífa okkar á stoppustöðinni til að lóðsa okkur heim til sín.

Þessi stendur fyrir utan stúdentagarðana:

IMG_0407

Það tók alveg tvær mínútur eða svo og þar beið Atli með mat handa okkur. Sátum í góða stund í góðu yfirlæti og svo fóru þau tvö í gistingu, höfðu eftirlátið okkur sína íbúð þessa nótt þar sem pantanir okkar á íbúðahóteli og flugi stóðust ekki á (höfðum verið búin að panta hótel fyrir þó nokkru síðan en þegar átti að fara að panta flugið munaði fáránlega miklu að fljúga frá þriðjudegi til þriðjudags en miðvikudagsdittó svo þau redduðu málinu svona. Lokadagurinn í hótelinu var bara afskrifaður. Reyndar, þar sem á að skila þessu hótelherbergi fyrir tíu um morguninn var svo sem bara allt í lagi að eiga aukadaginn þar og vera í rólegheitunum.

Slaka og sofa.

 

 

 

París Dóm ferð, cinquième jour

Kemur ekki leiðinlega heimferðarfærslan í lokin? Það verður jú að binda endahnút á þetta allt saman.

Sofna hálfþrjú og vakna sjö pínu þunn, hvernig hljómar það? illa? Mesta furða samt hvað ég var hress. Er hægt að venja sig á að sofa lítið?

Kannski sveif ég bara enn á euphoriu dagsins áður en ég var allavega eiginlega stálslegin og tilbúin í heimferð. Hefði samt verið ótrúlega gott að eiga einn heilan dag eftir tónleika áður en haldið væri heim. Athuga það næst, það er jú ekkert mál að fresta um dag. Já eða meira. Næsta kórferð er plönuð að ári í kórakeppni í Austurríki. (nei ekki ein af þessum sem allir kórarnir fá annað hvort silfur eða gull og monta sig svo af verðlaunum þegar heim er komið!) Og þegar fólk er komið þangað er jú upplagt að leigja sér bíl og keyra niður til Ítalíu til dæmis. Mmmm, Ítalía! orðið meira en tvö ár síðan hún var heimsótt. Það er of langt.

Það var ansi lítið tekið af myndum þennan dag svo ekki verður færslan skrautleg.

Lokamorgunmatur á hótelinu. Ávaxtaskálin sem ég nefndi fyrsta morguninn hafði ekkert sýnt sig aftur. Heldur ekki þennan morgun. Annars engar fréttir af morgunmatnum nema að þar var skemmtilegt fólk, að vanda. Það er bara skemmtilegt fólk í þessum kór. Einhver höfðu haft vit á því að framlengja ferðina en ekkert þeirra ætlaði nú samt að dvelja áfram á þessu hóteli.

Tékkað út í góðum tíma og við settumst niður í lobbí til að bíða eftir rútunni. Fólk hafði sett farangurinn við dyrnar en þar byrjaði líka halli til að hjólastólar kæmust niður. Ætli hafi ekki verið komnar sirka 8 töskur þarna þegar Páll bassi ætlaði að bæta sinni við og allt klabbið rann af stað. Stefndi í farangursstórslys nema ég náði að rétta út höndina og stöðva þetta í fæðingu. Frekar fyndið.

Rútan mætt. Betra pláss í þessari, það þurfti ekki að hlaða þriðjungi tasknanna inn í bíl.

Heldur fljótari út á völl en þaðan og á hótelið nokkrum dögum fyrr. Fólk búið að tékka sig inn en á þessum velli virtist það ekki skipta nokkru máli, öfugt við á CDG þar sem var sér röð fyrir inntékkað fólk. Ég hef nú samt á tilfinningunni að tékkinn fyrirfram hafi flýtt fyrir röðinni, hún gekk allavega ágætlega hratt fyrir sig.

Reyndi að fá Jón Lárus til að samþykkja að við fengjum okkur að borða fyrir utan hlið, þar voru mikið fleiri veitingahús en hann vildi endilega bara fara í gegn og vera búinn að því. Sem var svo sem líka ágætt, maður er alltaf slakari eftir þær biðraðir og rífuppúrtöskum og ves.

Bakpokinn minn fór í sér tékk, væntanlega hafa öryggisverðirnir hikstað á sleglinum sem ég tók með, svona í því tilfelli að það yrði hægt að redda suspended cymbal fyrir Sálm 150, það nefnilega á helst að vera slíkur í verkinu, ég fékk slagverksstrák til að spila það með okkur í Hallgrímskirkju á upphitunartónleikunum áður en við fórum út en það má alveg flytja verkið án symbals og það tókst semsagt ekki að redda slíkum í París. Fékk töskuna afhenta án athugasemdar þegar liðið í tékkinu var búið að virða fyrir sér slegilinn nægilega vel.

Hefði samt verið gott að borða fyrir utan því veitingahúsið inni var óttalega óspennandi. Fengum okkur einhverjar frekar bragðlausar grillaðar bagettur, rósavínsglas og ég keypti mér sítrónujógúrt sem ég hefði alveg getað sleppt.

Jón Lárus fór síðan og leitaði upp lounge. Það var hins vegar ljómandi. Það er alveg fáránlega gott að komast í þögn frá ysnum (er þetta orð til með ákveðnum greini í þágufalli eiginlega?) á flugvöllum. Og að hlaða símann. Sátum þar í rólegheitum í klukkutíma eða svo í félagsskítamode.

Niður að hliði þegar tími var kominn til. Vélin reyndist ein af þessum glænýju Boeing 737 Max sem Icelandair var að kaupa um daginn.

IMG_0387

Ferðakortið í skemmtaranum var samt bilað svo það var ekki hægt að fylgjast með hvert við vorum komin. Ég ætla ekki að klikka á því næst að taka með Sennheiserana mína en ekki snúruna í þá eins og ég gerði núna! Ekki það ég svaf mestalla leiðina sem betur fer.

Jón keypti sér dólgatvennu:

IMG_0381

en lét samt ekkert flugdólgslega.

Öll vélin þurfti að fara út að framan þó við fengjum ekki rana. Frekar mikið stórfurðulegt því það voru settar tröppur upp við vélina að aftan en það var ekki opnað þeim megin samt. Líka bilað?

Mér finnst að rútur úr vélum sem fá ekki að tengjast við inngöngurana eigi að fá að lenda mikið nær miðju flugstöðvar í stað þess að vera hlaðið inn algerlega úti á enda, við ystu hlið. Það hlýtur að vera hægt að koma því þannig fyrir.

Var skíthrædd um að það yrði eitthvað vesen á vellinum heima, búin að heyra of margar sögur af rugli með farangur, allur farangurinn úr öllum vélunum yrði á öllum böndum og tómt kaos. Það varð samt ekkert þannig. Þegar ég var búin að kaupa eitrið mitt í fríhöfninni (nei ekki tóbak eða áfengi, ég er að tala um lakkrís!) röltum við inn að bandi en allt í einu tók Jón Lárus á rás, hafði séð töskuna okkar vera komna næstum því inn aftur til að fara hringinn á bandinu. Náði henni!

Liðið okkar og já, meira og minna allt gengið knúsað og kysst, sem betur fer var kórinn ekki kominn í sumarfrí (æfing á miðvikudaginn var og sungið við hátíðarmessu á morgun 17. júní). Samt fráhvarfseinkenni!

Ég er kyrfilega kattamegin í tilverunni. Gæti örugglega kallast crazy cat lady nema ég á bara einn kött, ekki marga. Ég verð samt að fá að segja dæmisögu sem ég heyrði einu sinni sem stangast kannski pínulítið á við lífsviðhorfið mitt.

Þegar fólk eignast barn, þá fær það iðulega hvolp. Sem snýst í kring um það. Mammamammamamma, pabbipabbipabbi, best í heimi, aðdáunin óskilyrt og endalaus.

Svo verða börnin að unglingum. Þá breytast þau í ketti. Hrumpf! Jú ég skal samþykkja að eiga hjá þér húsaskjól og fá að éta en ekki halda að þú hafir eitthvað yfir mér að segja! (ókei staðalímyndir, kettir eru sko ekkert svona í alvöru, löngu sannað. Unglingar ekki endilega alltaf heldur. Samt nær því en kettirnir).

Svo þegar þú heyrir setninguna: Æ mamma, sestu, ég skal færa þér kaffið! þá veistu að þú ert búin að fá hvolpinn þinn aftur!

Freyjan mín sótti okkur út á völl. Með bananamúffur sem hún hafði bakað og kalt vatn með ísmolum í, í einangrunarbrúsa, handa okkur. Hún er best ❤

Svo beið fullur kassi af þessu mín heima. Næsta verkefni í hinum kórnum. Life goes on!

IMG_0382

Skref? nah.

París Dóm ferð, quatrième jour

Þá rann upp bjartur og fagur tónleikadagur. Ég held ég hafi ekkert nefnt í þessum færslum að það hafði verið spáð regni meira og minna allan tímann en á meðan við vorum þarna ýttist regnspáin alltaf lengra og lengra á undan okkur, eina rigningin sem kom var þarna kvöldið áður og svo ekkert fyrr en við vorum kyrfilega búin að skrá okkur inn á flugvöllinn á brottfarardegi.

Ekki kvarta ég!

Tókum því rólega, morgunmatur, sturta og afslöppun þar til kæmi að því að gera sig til fyrir tónleika. Undir ellefu röltum við niður í lobbí, hittum þar Eyrúnu og Ástráð og ákváðum að deila með þeim leigubíl niður í Latínuhverfi þar sem kirkjan stendur. Ekkert vit í að þreyta okkur söngvarana, átök dagsins biðu. Leigubíllinn minnti á þá bresku, stór bíll sem hefði tekið allavega 6 manns og fólk sat gegnt hvert öðru aftur í bílnum. Hin þægilegasta ferð, lítil umferð á þessum tíma dags og viku. Út við Panthéon, kirkjan er bara þar við hliðina. Vel þess virði að kíkja inn ef fólk er á ferðinni.

Enn ein veitingahússheimsóknin. Fengum okkur flest salade périgourdine, semsagt salat frá héraðinu Périgord sem er draumahéraðið okkar Jóns að heimsækja síðan við fengum meyrasta og besta kjöt ævinnar, andahjörtu ættuð þaðan í boði Parísardömunnar í ferðinni 2012. Í salatinu voru andafóörn og bringur það sem var kjötkyns. Þetta var afskaplega gott. Ekkert okkar kórgengisins fékk sér vott af áfengi auðvitað, ekki fyrir konsert! Jón gat fengið sér bjór og gerði það líka. Ætti að ráða við að ýta á upptökutakkann á vídjóvélinni, sem var hans hlutverk á tónleikunum. Ég tók loforð af okkur hinum að ná honum eftir tónleika, þá skyldum við sko skála!

Mæting í kirkjuna hálfeitt. Orgelið skartaði sínu fegursta í sólinni.

IMG_0370

Upphitun í rólegheitunum, pallar settir saman – já ég er ekki búin að tala neitt um kórpallana! Þeir voru leigðir af pallaleigu, ekkert ódýrir en miðað við það sem við erum vön voru þeir frekar fornfálegir. Ég á ekki mynd af þeim, spurning um að reyna að finna slíka. Öruggir voru þeir þó en það tók óratíma að setja saman og taka sundur. Þetta þurftum við að gera fyrir og eftir báðar æfingarnar og svo tónleikana. Vildi til að í föruneytinu var Eyþór Árnason sviðsstjóri í Hörpu, fagmaður fram í fingurgóma í svona vinnu og verkstýrði hann hópnum af alkunnri snilld.

Edit. Fékk mynd af pöllum og pallameistara:

Eyþór og pallarnir

Tónleikarnir voru klukkan þrjú. Getum ekki sagt að kirkjan hafi verið stappfull enda allt of gott veður en það voru þó þarna að minnsta kosti ríflega hundrað manns að hlusta. Gekk feikivel. Ég get víst ekki deilt vídeóum til afspilunar hér á síðunni því ég er bara með ókeypis wordpress og þau eru hætt að styðja það nema fólk kaupi sér aðgang en ég get jú vísað í þau og hér koma nokkur:

Ubi caritas, eftir Duruflé

Sálmur 150 eftir sjálfa mig (jájá, það má nú pínu mont)

Englar hæstir, uppáhalds Þorkelssálmurinn minn!

Kári stjórnandi og einsöngvararnir, Sigríður Ósk og Jón Svavar stóðu sig öll með mestu prýði.

Get því miður ekki hlekkjað á Duruflé Requiemkafla þar sem við erum ekki komin með  leyfi frá organistanum til að setja það á netið. Efast ekkert um að leyfið fáist þegar til kemur, því hann var svo glaður með okkur að hann talaði um að koma til Íslands og spila með okkur einhvern tímann!

Kirkjuvörðurinn fúli frá fyrsta deginum fékk svo þvílíka uppreisn æru! Þegar tónleikarnir voru búnir ætlaði hann ekki að verða eldri, hann var svo hrifinn af þessu hjá okkur. Sagði að það væri til upptaka með Duruflé sjálfum að stjórna og frú Duruflé við orgelið og þetta hefði bara verið alveg eins gott hjá okkur og flutningurinn hefði verið ótrúlega franskur. Hann hélt svo áfram að skella stólum illúðlega í gólfið en honum fyrirgafst nú samt hitt og þetta, þrátt fyrir hranalegheitin.

Ég á eftir að lifa leeengi á þessum tónleikum.

kocc81rmynd-4.jpg

Nújæja. Er ekki annars aðalatriðið á tónleikadag að skála? – neidjók, en það skiptir samt heilmiklu máli að taka kúfinn af tónleikaspennunni og slaka á.

Við áttum pantaðan mat tæpum tveimur tímum seinna, veitingahúsin þarna opna ekkert fyrir kvöldmat fyrr en klukkan sjö, við höfðum reyndar getað hnikað opnun til hálfsjö í húsinu sem við höfðum pantað hjá, fyrir svona stóran hóp er það nú hægt. En fram að því var spurning um að skála. Og það gerðum við svikalaust!

IMG_0376

IMG_0375

Ása Briem bættist þarna í fereykið sem var annars orðið frekar samhangandi í ferðinni. Rósakampavín skyldi það vera í boði undirritaðrar. Hópurinn sat annars meira eða minna allur þarna á tveimur samliggjandi krám, og glösum var lyft oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en ekki oftar en góðu hófi gegndi samt.

Þegar klukkan nálgaðist hálfsjö gekk hópurinn sem leið lá að veitingahúsinu Bouillon Racine sem ég veit ekki hvort er kennt við Jean Racine sem Fauré skrifaði um svo ógnarfallegt lag. Staðurinn er ótrúlega fallegur, ef ég þekki rétt þá er þarna art nouveau stíll sem er í raun frekar sjaldgæfur því hann varð ekki langlífur, stríðið breytti stemningu og smekk. Virkilega þess virði að fara þangað og borða.

Ég mæli samt með því að fara ekki í alveg svona stórum hópi! Yfirþjóninum leist ekkert á að leyfa öllum að panta vín af seðli og ákvað að bjóða upp á sérstakt víntilboð, hvíta flösku og rauða flösku per þrjá gesti. Við Jón ákváðum að fara frekar í freyðivínið sem við vorum búin að sjá á seðli. Það var allt í góðu. Tilboðið var hins vegar ekki tilbúnara en svo að þjónarnir byrjuðu á því að koma með súpuna áður en nokkurt vín kom á borð. Löngu áður en nokkurt vín kom á borð. Um var að ræða tvær kaldar súpur sem við höfðum mátt velja milli, gazpacho og svo avocadosúpu með lauk og geitaosti og basilolíu:

IMG_0385

Furðulegur matur. Ekki vondur, alls ekki, en skrítinn. Ég kláraði ekki af mínum diski. Takið annars eftir hnífapörunum. Geggjuð!

Vildi til að það var ekki hætta á að súpan kólnaði þar sem það leið áreiðanlega kortér þar til vín kom á borðið. Útskýringarlaust var á okkar borð strax borin fram ein rauð og ein hvít flaska, sett sitt hvoru megin á borðið (við vorum átta við borðið svo þetta var fyrir sex okkar, sem höfðu pantað tvö tilboð). Hvers vegna ekki komu tvær hvítar hef ég ekki ímyndunarafl til að skilja. Hinn endinn á borðinu byrjaði semsagt á rauðvíni með súpunni, en þegar við spurðum þá höfðu öll sex átt að fá sér úr hvítu flöskunni sem var sett okkar megin. Alveg án þess að það væri neitt útskýrt að önnur hvít kæmi eftir smástund svo þessari ætti að deila.

Hlógum slatta að ruglinu. Við Jón Lárus náttúrlega drukkum okkar fína freyðara truflunarlaust.

Ingunn og Þröstur sátu á móti okkur. Með skemmtilegra fólki!

IMG_0382

og við hornborðið var stuð:

IMG_0380

Úr rættist og aðalréttur var borinn fram. Langflest höfðu pantað sér andalæri. Reyndust gríðarlega ljúffeng og ekki nokkurn hlut furðuleg. Klikkaði á að taka matarklámmynd af öndinni! Rauðvínið, já og freyðivínið smellpassaði með.

Ræður og skálar og Pétur Húni tróð upp með sínar matarvísur, með alveg óþarfri afsökun til okkar Skúla og Jóns Lárusar og Jóns Svavars sem hefðu jú heyrt þær áður. Hann gerir þetta svo fjári vel drengurinn að það gerir ekki spor til að heyra oft!

Í desert hafði ég pantað mér rétt sem heitir fljótandi eyja. Þeyttar eggjahvítur á vanillusúpu. Þessi eyja var ansi hreint ferköntuð:

IMG_0386

en alveg svakalega góð!

Við náðum að syngja nokkur lög, ég hélt við værum farin að pirra fólk í kringum okkur þar sem við vorum ekki ein á staðnum en það var öðru nær, við þurftum að taka aukalag. Kórinn þyrfti annars að kunna fleiri stuðlög fyrir svona tilefni!

Þrælflókið reyndist að borga vínið, maturinn var borgaður í heild og það var einfalt en þjónarnir höfðu ekki nokkra yfirsýn yfir vínpantanirnar. Á seðilinn okkar Jóns var til dæmis sett heil rauðvínsflaska aukalega og ég held alveg örugglega að ég hefði tekið eftir því ef ég hefði drukkið hálfa rauðvínsflösku í viðbót við hálfu freyðivínsflöskuna. Sveimérþá! Eitthvað stóð víst út af í lokin en ég er eiginlega viss um að það var ekki vegna þess að eitthvert okkar hefði reynt að koma sér undan að borga, ég skrifa það alveg bókað á stjórnleysið og vandræðaganginn í vínþjónaliðinu.

Út af veitingahúsinu um tíuleytið eða svo. Við vorum alls ekki hætt að fagna. Sungum eitt eða tvö lög úti á götu fyrir utan meðan fólk tíndist út eins hratt og því gekk að fá að borga fyrir vínið. Ekki sáum við fúllyndi á nokkurri manneskju yfir því, hins vegar stungust hausar út um glugga á mörgum hæðum á mörgum húsum og fylgdist fólk glatt með þessum ofurkáta hópi.

Næsti pöbb, stór staður, gátum öll setið þar úti, þar var sungið meira og meira og troðið upp, Einn makinn í ferðinni, hann Óli-hennar-Mörtu tók opinbert inntökupróf í kórinn og byrjar í haust, Skúli söng lagið sitt um gúmmístígvélin alveg án þess að afsaka sig við okkur sem hefðum heyrt það áður, Ragnar söng Bjórkjallarann og við gauluðum þýðinguna mína á Champs Elysées, lagi Joe Dessin, þýðinguna gerði ég fyrir árshátíð kórsins í vor og hún var hálfgert einkennislag okkar þarna úti. Fólk stoppaði í hrönnum fyrir utan og mikið tekið af vídjóum, ég hugsa að við höfum að minnsta kosti tvöfaldað áheyrendahópinn frá kirkjunni þarna um kvöldið.

Lestin upp á hótel um hálfeittleytið. Og við vorum enn ekki búin að fagna nóg. Við Jón buðum genginu okkar og tveimur til, Kristínu Björgu og Sif, sem höfðu verið samferða í lestinni í herbergispartí og héldum þar vöku fyrir næsta herbergi með kjaftagangi, hlátrasköllum og almennum óspektum til klukkan tvö. Þá vorum við (flest) hrunin en eitthvað af kórliðinu hélt þó lengur út. Mér finnst samt ekkert slæmt úthald hjá okkur gamlingjunum að partíast frá fimm til tvö! Og svona til að róa fólk (les aðallega mömmu) þá, þrátt fyrir allar þessar lýsingar á glasalyftingum og óspektum þá sást í raun ekki vín á nokkurri manneskju, enginn var með læti, leiðindi eða vesen. Bara gaman.

Ræfilgangur í skrefunum þennan daginn. Bara 8076. Klikkuðum á því að fara á stað sem við gætum dansað. Eða nei, það hefði ekkert verið hægt að toppa þennan dag! Hamingjan!

París Dóm ferð, troisième jour

Þriðja daginn skiptist hópurinn niður. Við Jón Lárus vorum búin að lofa að fara með þau sem vildu, að ganga Promenade plantée, plöntugönguleið sem ég lýsi hér. Liggur frá því utan við Périférique og alla leið að Bastillutorginu. Slatti ætlaði með okkur, annar heldur stærri hópur ætlaði með leiðsögukonu gærdagsins í Mýrina og eitthvað af fólki ætlaði bara að eiga rólegan morgun heima. Nú eða fara á markað eða hvað veit ég?

Lögðum í hann upp úr tíu. Tókum metro niður á Nation torgið. Vissum nokkurn veginn hvert við ætluðum að ganga til að grípa leiðina. Síminn hans Jóns var í rugli svo kortið virkaði ekki nógu vel. Við gengum og gengum og vorum alveg steinhætt að skilja í þessu. Vorum komin nánast niður að Signu þegar við fundum eitthvað sem leit út eins og aflagða upphækkaða lestarsporið sem leiðin liggur á. En þá komumst við alls ekki upp. Skildum gersamlega ekki neitt í neinu, við vorum komin mikið lengra en vissum fyrir víst að við hefðum ekki gengið undir neina upphækkun. Skoðuðum kort og klóruðum okkur í hausnum. Fundum átt til að fara í, götu sem átti að liggja alveg meðfram leiðinni. Upp tröppur, þar var ekkert nema aðrar götur.

Vindur þá að sér okkur maður sem sér á okkur vandræðaganginn og spyr hvort við séum að leita að einhverju sérstöku. Jújú, Promenade plantée. Ekki málið, segir gaurinn og bendir okkur að fara áfram eftir þarnæstu götu og beygja fyrir horn og þar væri stígurinn. Við vorum orðin ansi þvæld og nokkur okkar ákváðu bara að fara upp í lest og veiða útimarkað sem þau ætluðu líka að ná þennan dag. Þrjú eftir hjá okkur. Enginn kannaðist við að vera fúll enda var þetta alls ekki búinn að vera leiðinlegur göngutúr. Held ég.

Ákváðum að úr því við værum búin að finna þetta, gætum við tekið okkur pásu og fengið okkur að borða. Rötuðum inn á líbanskt veitingahús, Beyit Jedo, sem ég gæti bara vel ímyndað mér að hafi verið besta veitingahúsið í ferðinni, allavega pottþétt það óvænt-besta.

 

Þrjóski hópurinn! Kristín Björg og systkinin Helga Dögg og Sissi. Sem minnir mig á að ég steingleymdi í færslu gærdagsins að nefna að við Sissi, sem er samtónfræðinörd, eyddum allri leigubílaferðinni upp á hótel um kvöldið í að tala um hvað Duruflé skrifaði stundum undarlegan hryn og hvernig væri hægt að skrifa hann á mikið gegnsærri hátt!

Ég er almennt frekar lítið fyrir hummus en úff hvað það var gott þarna! Lamb, kjúklingur og falafel pottþétt. Og espressoinn! Eina virkilega góða kaffið sem ég smakkaði í París í þessari ferð, sveimérþá!

 

Mæli með þessu!

Nújæja, loksins fórum við að finna stíginn. Þá áttuðum við okkur loksins á hvað hafði farið svona illa með okkur. Stígurinn er alls ekki allur upphækkaður. Við höfðum gengið yfir hann á breiðri brú, hálftíma inn í tveggja tíma göngutúrinn meðan við vorum að leita að honum. Þegar við gengum hann árið 2012 komum við nokkrum gatnamótum austar að honum og þá var hann kominn upp á hæðir. Ég held ég viti hvers vegna við Jón Lárus erum ekki leiðsögufólk…

Nújæja en hvað hann var fallegur þegar hann loksins fannst. Öll gagntekin. Við vitum þetta þá næst!

 

 

Þessar styttur voru magnaðar:

IMG_0361

og ég veit ekki hver kom þarna með stóru hjólsögina!

IMG_0360

Komin að Bastillutorginu ákváðum við að rölta Rue du Fouberge Saint-Antoine eins og fyrra skiptið eftir þessa sömu göngu (sjá færsluna sem ég vísaði í efst). Mig nefnilega var farið að sárvanta nýja tösku, mín var eiginlega komin í hengla. Ekki fann ég sömu búðina og sú græna var keypt í en tókst samt að finna sæmilegustu skjóðu.

Skildu leiðir með okkur og systkinunum eftir tösku- og skóbúðina. Við Jón höfðum ætlað okkur að tékka á allra allra mesta uppáhalds veitingahúsinu okkar, ekki bara í París heldur bara hvar sem er held ég, Po.za.da (lýsi heimsókninni okkar á hann hér). Klukkan var samt orðin ríflega tvö svo okkur fannst ólíklegt að það væri opið. Þegar við vorum í París 2012 var hann bara opinn í hádeginu og á kvöldin. Svo við settumst bara á hornpöbb og fengum okkur sitt hvorn bjórinn. Þarna voru sams konar Pelforthglös og á staðnum fyrsta daginn. Nú spurði ég að því hvort ég mætti kaupa glas en fékk það ekki, þau áttu ekki mörg. Bögg. Ég sagði þjóninum að fjarlægja tómu glösin svo ég freistaðist ekki til að stinga öðru þeirra ofan í tösku.

Allt í einu heyri ég öskur hinu megin við götuna. Lít upp og sé litla stelpu, svona tveggja ára, hlaupa út á götu og í veg fyrir sendiferðabíl. Hjartað sleppti úr nokkrum slögum! Sem betur fer var sendibílstjórinn, ungur maður sem leit út fyrir að vera frá Alsír eða álíka, með viðbrögðin í lagi og náði að snarstoppa og það amaði ekkert að barninu! Stúlkurnar sem voru með litlu stelpuna voru auðvitað í algjöru áfalli en náðu að jafna sig og setja barnið í kerruna. Á meðan þær voru að bjástra við það komu tvær aðrar stelpur að, þær höfðu alls ekki getað séð atvikið almennilega, að minnsta kosti ekki nærri jafn vel og ég. Þær tóku til við að húðskamma vesalings sendibílstjórann. Sem var algerlega út í hött því hann gat nákvæmlega ekkert að því gert að barnið hljóp í veg fyrir hann og eins og ég sagði áður þá brást hann hárrétt og eldsnöggt við. Hann varð auðvitað alveg öskureiður yfir þessum óverðskulduðu skömmum. Æpti eftir stelpunum tveimur og fór svo áfram yfir gatnamótin. Ég náði að grípa augnaráð hans og gaf honum tvo þumla upp og æpti: Trés bien, trés bien! Hann slakaði sjáanlega á, brosti til mín og keyrði burtu, mikið rólegri.

En úff. Þetta hefði getað farið svo miklu miklu verr!

Þá var það bara lestin upp á hótel. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að gera sömu mistök og daginn áður, að vera búin að ganga mig upp að öxlum fyrir æfinguna. Náði að leggja mig og sofna í klukkutíma sem bjargaði málum algerlega.

Önnur kvöldæfing í kirkjunni beið. Við fórum niður og ætluðum ekkert endilega að veiða eitthvað samferðafólk en þá voru Ástráður, Eyrún og Helga Rut nýfarin út og við hlupum eftir þeim og náðum þeim. Lestin niður á Nation og þaðan að Hótel de Ville með línu 1, þá gengið yfir brýrnar, það var ógurlegur troðningur fyrir framan Notre Dame svo við kræktum fyrir torgið. Já það minnir mig á að við sáum ekki Point Zéro í þessari ferð. Fyrsta skipti í okkar Parísarferðum held ég.

Eitthvað þyrftum við að láta ofan í okkur matarkyns. Úr nógu er nú að velja í Latínuhverfinu. Settumst á Le Saint Severin. Pöntuðum okkur crépes, við Jón með geitaosti (chévre). Það fengum við bara alls ekki heldur eitthvað sem hét forestiere, með kjúklingi og sveppum. Nenntum ómögulega að röfla yfir því, hefðum reyndar alls ekki náð því að fá pöntunina leiðrétta. Frekar slöpp þjónusta, fyrir utan að koma með crépes með rammvitlausum fyllingum þá gekk hún bæði seint og illa. Við Jón urðum eftir til að borga, hin fóru af stað á undan okkur, til að við yrðum nú ekki öll sein á æfinguna.

Það hefði svo auðvitað ekki skipt neinu máli því byrjunin á henni tafðist slatta vegna messu sem var í kirkjunni. Svo ég kom ekkert seint.

3A5DBC67-6820-47FE-A31A-9F2FD13FD193

Horft inn í kórinn. Sko kirkjukórinn. Nei sko kórinn í kirkjunni! nei döh 😮

Æfingin gekk fínt fyrir sig. Þreytan talsvert minni, jafnvel þó ég hefði reyndar gengið miklu meira þennan dag en daginn áður munaði að hafa hvílt um miðjan dag. Ég get enn ekki lýst því hvað er gaman að syngja þarna. Tala nú ekki um að enda á sterkum tóni og hlusta á hann hljóma í óratíma! Við bara verðum að koma þarna aftur. Búin að leggja það fyrir í Hljómeyki líka.

Í færslu morgundagsins koma upptökur, þær eru allar komnar inn á minn jútjúbreikning og ég er að byrja að dæla þeim inn á nýstofnaðan reikning Dómkórsins. Rétt búin að setja upp Hljómeykisreikning og þá ætla ég ekki að byrja á því að hafa allt Dómkórsdótið fast inni á mínum eigin. Því ofvirka ég er auðvitað búin að taka að mér óumbeðin að vídeóast fyrir hann líka eins og ég er búin að gera í Hljómeyki í örugglega 15 ár. (nei SÁ ég er ekki að fara þangað!)

Æfing búin. Við Jón vorum ekki sérlega svöng eftir crépurnar svo við ákváðum að fara ekki að borða með genginu heldur bara upp á hótel. Áttum jú rétt örlítið átekna rauðvínsflösku.

Á leiðinni niður á lestarstöð (hinu megin við Signu, það var allt of flókið og margar skiptingar að taka lestina rétt hjá kirkjunni) fór að rigna. Svo fór að hellirigna. En ég hafði stungið regnhlífinni niður í bakpoka til vonar og vara svo það gerði ekki nokkurn hlut til. Það var ekki kalt og eiginlega bara þó nokkuð rómantískt að labba tvö saman um götur Parísar klukkan hálftólf að kvöldi undir einni skærgulri regnhlíf.

Nú er ég búin að vera að monta mig af heiðarleikanum að ræna ekki bjórglösum. Ég viðurkenni það samt hér og nú að ég rændi tveimur litlum ræfilslegum vínglösum sem geta ekki einu sinni eiginlega kallast rauðvínsglös með neinu réttlæti, daginn áður. Það var bara ekki fræðilegur að drekka rauðvínið okkar úr plasttannburstaglösunum sem hótelið útvegaði. Og enginn hótelbar til að labba „óvart“ út með glös og skilja svo bara eftir við brottför (það telst nú ekki glasastuldur, bara lán). Við höfðum dottið inn í hinar og þessar búðir til að sjá hvort við fyndum glös en hvergi fundið nema í Lavinia og þar kostuðu glösin minnst 8 evrur stykkið og við hreinlega tímdum því ekki fyrir þrjú kvöld.

Hótel. Rauðvín og rólegheit. Sofa.

Skrefatalning dagsins var glæsilegt persónulegt met, allavega síðan ég fékk úrið. Reyndar bara örugglega frá upphafi. 27010 skref! 18 og hálfur kílómetri. Hreyfing í 289 mínútur. Vó!

 

París Dóm ferð, deuxième jour

Fyrstu færsluna skrifaði ég að morgni annars dags á hótelinu. Hina dagana var ekki fræðilegur að splæsa tíma í slíkan óþarfa þannig að best að rusla í færslur núna í kulda og trekki heima á Íslandi (brrr!)

Allavega. Vaknaði fáránlega eldsnemma eins og ég er farin að gera allt of mikið af á þessu miðaldraskeiði. Hálfsjö, semsagt hálffimm á minni líkamsklukku. Skrifaði færslu fyrir daginn áður. Tókst að vekja ekki Jón Lárus fyrr en um áttaleytið en þá var stímt niður í morgunmat.  Hann reyndist bæði góður og tja, minna góður. Kaffið var gersamlega ódrekkandi að mínu mati. Te skyldi það vera restina af ferðinni. Eggjasuðugræja var þarna ágæt og vél til að kreista sinn eigin appelsínusafa var massíf snilld. Einn vondur ostur og einn góður ostur og bakki af einhverju sem ég get svarið að var Bónusskinka! Já eða álíka lúxus. Þennan morgun var skál með niðurskornum ferskum ávöxtum í einhverjum vökva, giska á bara safann af vatnsmelónunum og rauða greipinu helst. Það var ljómandi.

Skutumst út til að taka út eitt Franprix og eitt pínulítið Carrefour rétt hjá hótelinu. Ekki um auðugan garð að gresja. Keyptum þó eina rauðvín fyrir kvöldið og snakkpoka. Mér sýndist ég sjá pakka af espressosúkkulaði en það var þá hylkjapakki fyrir nespressoskömmina.

Þetta listaverk var fyrir neðan hótelhúsalengjuna. Víðar en í Breiðholti sem lífgað er upp á annars niðurnídd hverfi með list!

IMG_0325

Aftur inn á hótel. Þennan morgun var planað að fara í fjögurra tíma túristarútuferð um helstu áfangastaði borgarinnar. Þó við hefðum nú eiginlega verið búin að taka út TúristaParís fyrir nokkuð mörgum árum ákváðum við að fara með, málið var jú að vera með hópnum. Félagsskíta skyldi enginn geta kallað okkur! Jón Lárus er annars ansi góður að blandast í hópa og þarf ekkert endilega að hanga utan í mér þegar við erum að partíast eitthvað með mínum hópum. Kostur atarna.

Nújæja, rútuferðin reyndist bara hin ágætasta. Mér fannst gædinn okkar, Laufey nokkur listfræðingur búsett í París, svolítið lengi í gang en það rættist síðan mjög vel úr og svei mér þá ef við komum ekki á tvo til þrjá staði sem við höfðum ekki vitað af og heyrðum hitt og þetta nýtt. Við erum búin að fara í marga snilldartúra með Kristínu Parísardömu en fólk hefur jú alltaf mismunandi áherslur. Sem er gott.

Gamla Óperuhúsið er svolítið mikið fallegra en það nýja! Ég ætla ekki að birta mynd af því nýja. Var búin að skrifa: Gúglið bara Opera Bastille ef þið viljið sjá ljótt hús! en svo gerði ég það sjálf og myndirnar eru allar frá svo flottum sjónarhornum að þið mynduð ekkert skilja hvað ég er að eipa!

IMG_0326

Lokaklukkutíminn eða svo í ferðinni var samt eiginlega orðinn of mikið. Fjögurra tíma inndæling á efni er ekki alveg málið. Hefði verið fínt að vera þrjá tíma úr því það var ekki hægt að skipta ferðinni í tvennt.

Við vorum löngu búin að ákveða að fara í Lavinia, uppáhalds vínbúðina okkar í París (já og víðar reyndar). Ótrúlega flott vínbúð með stórkostlegu úrvali. Eyrún og Ástráður, kunningjar okkar slógust í för með okkur og við löbbuðum uppeftir, skimandi eftir stað til að fá okkur að borða. Fundum fínan stað með allskonar, Café le Plume, ég fékk alveg ansi hreint gott lamb.

Það er svo eiginlega best af öllu að uppfæra kunningja í vini. ❤

IMG_0335 2

Lavinia var á sínum stað eins og við svo sem vissum. Allt til sem var á innkaupaseðlinum. Keyptum ekki svona:

IMG_0336 2

Okkur dauðlangaði svo að fara á rooftop bar. Við Jón vissum af slíkum á annarri hvorri eða báðum byggingum Galeries Lafayette á Avenue Haussmann. Við þangað. Upp alla rúllustigana á níundu hæð eða svo. Þá var lokað öðru megin á þakinu og hinu megin var band fyrir eins og það væri annað hvort fullt eða alveg að loka. Reyndist hvorttveggja en við náðum nú samt að fá að setjast og fá okkur einn drykk með því fororði að það ætti að loka eftir hálftíma. Gerði ekkert til.

Jón Lárus stímdi svo heim á hótel með Laviniagóssið og harðneitaði að koma aftur til að vera á kóræfingunni. Ekkert skil ég í honum!

Við hin höfðum góðan tíma, fórum niður af þakinu upp úr sex og æfingin átti ekki að byrja fyrr en hálfátta. Ákváðum að labba bara alla leið niður í Latínuhverfi frekar en að taka metró. Mistök! Göngutúrinn var reyndar ljómandi fínn, veðrið geggjað en við vorum þegar búin að ganga alveg slatta, París er stór og þetta er góður spotti.

Hoppaði inn í apótek til að leita mér að nýjum gleraugum, mín höfðu farið í sundur. Var sem betur fer með önnur uppi á hóteli. Fann bara gersamlega forljót gleraugu í mínum styrk svo annað hvort þurfti ég að syngja allt utan að um kvöldið eða þá láta gleraugun mín tolla á öðrum arminum á æfingunni. (ok ég kann prógrammið næææstum því utan að en samt ekki alveg).

Lentum í kirkjunni, inn um hliðardyr, hvílík dásemdarbygging!

IMG_0348

Þarna kom auðvitað gallinn við göngutúrinn í ljós. Við áttum jú eftir að standa upp á endann á tveggja og hálfs tíma æfingu! Verður að viðurkennast að það var örlítið erfitt! Æfingin gekk annars að óskum. Unaður að syngja í kirkjunni, hvílíkur hljómur! Mikill en mjúkur og ótrúlega fókuseraður. Organistinn sem var að spila með okkur var gersamlega frábær, vissum það reyndar fyrir. Vincent Warnier, mjög þekktur franskur organisti sem spilar við þessa kirkju. Smellið endilega á nafnið, þá kemur upp vídeó af honum að impróvisera á orgelið í kirkjunni!

Húsvörðurinn var hins vegar fúll og skellti stólum á fætur á fólki og annað í þeim stíl. Eins og við værum alveg rosalega fyrir honum, að þurfa að vera að æfa þarna! (þetta var NB tíminn sem okkur var úthlutaður í kirkjunni, hefðum sjálf gjarnan viljað vera fyrr um daginn).

Við vorum að flytja Requiem eftir Maurice Duruflé. Unaðslegt stykki. Duruflé var organisti í akkúrat þessari kirkju, St-Etienne-du-Mont í fleiri fleiri áratugi og konan hans, Marie-Madeleine Duruflé, née Chevalier  á eftir honum (og reyndar með honum líka, stundum var hann að stjórna en hún að spila). Hún var ekki síðri spilari en hann, jafnvel betri, til er upptaka af verkinu þar sem hann stjórnar en hún spilar og þetta er gersamlega þrælsnúið stykki fyrir orgelið. Alveg svolítið flókið fyrir kórinn en mjög virtúósískt skrifað fyrir orgelið. Yrði ekki hissa þó hann hefði skrifað partinn fyrir hana.

Æfðum Requiemið með organistanum og a cappella prógrammið á eftir, ég veit ekki um þau hin en mínar lappir voru gersamlega að fara með mig! En söngurinn gekk fínt.

Eftir æfinguna voru öll orðin svöng og við stímdum á torg sem nokkur hinna höfðu setið á fyrir æfingu, þar var slatti af stöðum og við hlytum að geta fundið eitthvað. Nema hvað, þau fyrstu fóru inn á einn staðanna og voru spurð: Borð fyrir fjögur? Þau svara í bríaríi, nei frekar svona fjörutíu! Nema hvað, þjónninn bara: Já ekkert mál, komið bara hingað innar!

Þetta reyndist pottþéttasta þjónusta ferðarinnar. Eldsnöggir þjónar á ferð og flugi og klúðruðu hvorki matar- né drykkjarpöntunum, allt kom hratt og vel. Ég pantaði mér borgara. Hann reyndist reyndar vera með KÓRÍANDER!!! urr! en það var reyndar lítið mál að hreinsa hann af, lá allur á sama stað í lokinu og ég sleppti bara að borða lokið. Borgarinn var annars rosalega góður þegar ég var búin að hreinsa grænu skelfinguna í burtu. Það ætti að skylda veitingastaði til að vara fólk við því að þetta sé í matnum!

Sátum þarna lengi vel, ég var farin að hafa áhyggjur af því að Jón Lárus yrði steinsofnaður þegar ég kæmi loksins heim á hótel því við vorum bara með eitt herbergiskort. Hann var síðan til í að hinkra, þegar ég sendi honum sms um að það færi að styttast í mig.

Nenntum ómögulega að taka lestina austurúr svo leigubíll skyldi það vera, skreiddumst á hótelið klukkan ríflega eitt, alveg að leka niður.

Það fauk ekki mikið af rauðvínsflöskunni sem við höfðum ætlað að drekka um kvöldið. Jón hafði reyndar opnað hana en fékk sér bara eitt glas. Tappi í og sofa!

17211 skref. FittBittinn ánægður með mig!

 

 

 

París Dóm ferð premier jour

Jæja enn eitt ferðabloggið. Nú stefndi Dómkórinn elskulegur í tónleikaferð til Parísar.  Freyja skutlaði foreldrunum í þægilega morgunflugið út á völl gegn því að hafa bílinn meðan við værum í burtu. Þar var bara semímikið kaos, hef séð það verra. Allavega vorum við eldsnögg gegn um baggage drop og öryggistékk. Segafredo fékk að vera í friði, urðum fyrir vonbrigðum þar síðast með óupphitað skinkuhorn í pappírspoka og kaffi/heitt súkkulaði í pappamálum í stað almennilegra bolla. Fyrir valinu varð kaffi og risastór laxasmörrebröd á Nord. Dýrt en alveg ágætt og mjög vel útilátið. Ýmsir kórfélagar tylltu sér hjá okkur og fólk flutti sig svolítið milli sæta, strax byrjað að hrista saman hópinn. Besta mál.  Flug gekk vel, lagt af stað kortéri of seint en samt lent á réttum tíma. Captain Kangaroo var ekki við stýrið svo lendingin var fín. Allir flýttu sér út úr vél og inn í flugstöð til að hafa tíma til að bíða eftir töskum hjá færibandinu. Allur farangur skilaði sér. Út fórum við, enda Orlyflugvöllur ekki staður til að hanga á lengur en þörf er á. Frekar en svo sem flestir flugvellir.

Þurftum að bíða góða stund eftir rútunni sem átti að fara með okkur á hótel, Anna Þóra kórformaður var heillengi í símanum að finna út úr því hvað ylli. Hún reyndist standa og bíða eftir okkur á rammvitlausum stað. Sendi skilaboð til Kristínar Parísardömu sem ætlaði með okkur í göngutúr um Pére Lachaise kirkjugarðinn. Loks kom rútan. Ágætis bíll með loftkælingu (eins gott) sem tók okkur öll (líka eins gott) en farangursplássið var fáránlega lítið, fullt af fólki þurfti að taka töskurnar sínar inn í bílinn. Mjög spes að gera ekki ráð fyrir farangri fyrir alla sem rútan tekur!

IMG_0311

Hótelið reyndist á frekar óspennandi stað, hverfið reyndar í vexti en akkúrat þetta horn á því ekki komið í uppsveifluna. Við höfum svo sem verið á betra hóteli, samt hreint og snyrtilegt. Glatað reyndar að það enginn bar á hótelinu, það er eiginlega svolítið mikilvægt í svona ferðum að geta hist á hótelbarnum á kvöldin. En hótelið var á góðu verði svo það varð bara að afsakast.

Gáfum okkur ríflega klukkutíma til að fá okkur eitthvað smá í svanginn. Við nokkur fundum þokkalegasta veitingastað ekki langt frá hóteli. Pizzur (alltílæ) og salöt (góð). Pelforth brune í geggjuðum glösum. Sá eftir því að hafa ekki sníkt/keypt glas. (nei ég ræni ekki glösum!). Kannski spurning um að fara þangað aftur í ferðinni og bæta úr því.

Til baka á hótelið. Það var nánast heiðskírt og vel hlýtt. Þessu hafði ekki verið spáð! Ég hafði þess vegna ekki tekið með mér sólarvörn. Lapsus maggioris. Kristbjörg kórfélagi reddaði málinu svo sólarexemsjúklingurinn slyppi við roða og kláða.

Parísardaman mætti á svæðið og leiddi okkur að Pére Lachaise. Þar fundum við hin og þessi leiði tónlistarfólks, Chopin og Morrison og Rossini og svo var Heyr himnasmiður sunginn í gegn við gröf Poulencs.

Allt í einu vindur sér að okkur vörður. Þá var klukkan alveg að verða sex og kirkjugarðurinn er bara opinn til klukkan sex! Öfugt við eiginlega alla garðana í París sem loka við myrkur. Við vorum semsagt rekin út úr garðinum. Við vorum þegar þarna var komið sögu öll orðin bæði þyrst og þreytt. Kristín hafði ætlað að fara með okkur áfram í lengri göngu um Bellevillehverfið og segja betur frá hinu og þessu en svo var enginn í stuði til þess, fólk langaði bara að setjast og fá sér bjór eða vínglas.

Dreifðum okkur á nokkur veitingahús á sama horninu, svo var meiningin að fara upp í Montmartre, þau sem vildu. Við höfðum margkomið þangað svo við nenntum ómögulega. Sátum eftir ein 6-7 manns.

Við Kristín:

IMG_0319

Hin skildu ekkert í rólegheitunum í okkur, stóðu og biðu þar til einni hugkvæmdist að koma til baka og spyrja hvað tefði. Höfðu semsagt ekkert áttað sig á að við ætluðum ekki með uppeftir.

Þessum var heitt:

IMG_0316

Við sem eftir vorum röltum okkur í rólegheitunum til baka, fundum snilldarveitingahús á tískugötu og sátum þar lengi vel, í lokin partí og hlátursköst vel fram eftir í einu herberginu.

Eins gott að einn af ókostum hótelsins var ekki hljóðeinangrunin milli herbergja…

13818 skref troðin þennan daginn. Ekki slæmt.


bland í poka

teljari

  • 375.561 heimsóknir

dagatal

júní 2018
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa