Röflaði fyrir nokkrum vikum um fólk sem keyrði yfir á rauðu ljósi bara sisvona. Ekki hjálpaði röflið svo sem, mér finnst þetta ekkert vera að skána. Slæmt, en ennþá verra sá ég í fyrradag og svo aftur í dag.
Sat í bílnum mínum á rauðu ljósi á gatnamótum Álfheima og Langholtsvegar, og sé allt í einu tvo litla gutta, á að giska fimm eða sex ára. Ekki fóru þeir nú mikið eftir ljósinu, ruku á hlaupahjólunum sínum beint yfir á rauðu, bíll var að fara yfir á grænu og snarnegldi niður. Ekki munaði miklu að hann færi á þá. Guttarnir voru snöggir að hverfa, ég keyrði síðan á eftir bílnum og bílstjórinn var greinilega í sjokki, gaf stefnuljós í eina átt og beygði síðan í aðra, sá síðan að hann stöðvaði bílinn, væntanlega til að jafna sig.
Þakkaði fyrir að ekki fór verr.
Nema hvað, í dag var ég nýbúin að keyra dótturina á æfingu í Langholtskirkju (fyrri daginn var ég að sækja hana), sit aftur á rauðu ljósi á nákvæmlega sama stað. Koma ekki aftur tveir litlir, veit ekki hvort það voru þeir sömu, yfir Langholtsveginn á rauðu, small yfir á rautt á gönguljósinu mín megin og grænt hjá mér – og þeir beint fyrir mig! Vildi til að ég var með opin augun, ekki síst vegna fyrra atviksins, og var ekki farin af stað! Flautaði á þá, þegar þeir voru farnir yfir og hristi framan í þá vísifingur – hefði auðvitað átt að reyna að stoppa bílinn og tala við þá en gerði það reyndar ekki, enda þegar ég hefði verið búin að finna stæði hefðu þeir væntanlega verið horfnir.
Ef lesendur hér búa í Langholtshverfi og eiga lítinn strákling á þessum aldri, VINSAMLEGAST athuga að hann fari eftir ljósinu. Og auðvitað að líta í kring um sig jafnvel þó það sé grænt!
Nýlegar athugasemdir