Sarpur fyrir maí, 2011

meiri rauð ljós

Röflaði fyrir nokkrum vikum um fólk sem keyrði yfir á rauðu ljósi bara sisvona. Ekki hjálpaði röflið svo sem, mér finnst þetta ekkert vera að skána. Slæmt, en ennþá verra sá ég í fyrradag og svo aftur í dag.

Sat í bílnum mínum á rauðu ljósi á gatnamótum Álfheima og Langholtsvegar, og sé allt í einu tvo litla gutta, á að giska fimm eða sex ára. Ekki fóru þeir nú mikið eftir ljósinu, ruku á hlaupahjólunum sínum beint yfir á rauðu, bíll var að fara yfir á grænu og snarnegldi niður. Ekki munaði miklu að hann færi á þá. Guttarnir voru snöggir að hverfa, ég keyrði síðan á eftir bílnum og bílstjórinn var greinilega í sjokki, gaf stefnuljós í eina átt og beygði síðan í aðra, sá síðan að hann stöðvaði bílinn, væntanlega til að jafna sig.

Þakkaði fyrir að ekki fór verr.

Nema hvað, í dag var ég nýbúin að keyra dótturina á æfingu í Langholtskirkju (fyrri daginn var ég að sækja hana), sit aftur á rauðu ljósi á nákvæmlega sama stað. Koma ekki aftur tveir litlir, veit ekki hvort það voru þeir sömu, yfir Langholtsveginn á rauðu, small yfir á rautt á gönguljósinu mín megin og grænt hjá mér – og þeir beint fyrir mig! Vildi til að ég var með opin augun, ekki síst vegna fyrra atviksins, og var ekki farin af stað! Flautaði á þá, þegar þeir voru farnir yfir og hristi framan í þá vísifingur – hefði auðvitað átt að reyna að stoppa bílinn og tala við þá en gerði það reyndar ekki, enda þegar ég hefði verið búin að finna stæði hefðu þeir væntanlega verið horfnir.

Ef lesendur hér búa í Langholtshverfi og eiga lítinn strákling á þessum aldri, VINSAMLEGAST athuga að hann fari eftir ljósinu. Og auðvitað að líta í kring um sig jafnvel þó það sé grænt!

nákvæmt gos

já var ekki verið að tala um títtnefndan heimsendi klukkan átján? Gosið byrjaði klukkan sjö í gærkvöldi – en við erum jú klukkutíma á undan. Ótrúleg nákvæmni í gangi.

Keypti mér farmiða til Stokkhólms í gærkvöldi, á að fara 12. júní og til baka þann 16. Stelpurnar líka á faraldsfæti, hvor með sínum kórnum, hér eru margir puttar krossaðir.

Komumst til Ástralíu í fyrra þrátt fyrir Eyjó greyið, nú er að vita hvað Grímsvötn gera.

heimsendir

jamm eftir tæpa þrjá daga. Eða hvað? hvenær dags verður þetta annars? Og verður þetta á sama tíma um allan heim? 21. maí kemur ekki á sama tíma alls staðar. Kannski veltur heimsendir með sólinni.

Eða eru þetta kannski bara heimsendir – réttir frá Nings? Eða álíka?

(mynd stolið héðan. Góð hugmynd annars).

Var að hugsa um

að leyfa öðrum að komast að í húsinu langþráða núna um helgina. Tókst ekki alveg, hlustaði á litlusystur vígja Kaldalón í gær og laumaðist að heyra yngri dótturina syngja í Silfurbergi áðan. Annars er nú spurning um að okkar fjölskylda sé búin að vera nægilega frek á tímann þarna alveg í bili.

Þvílík örtröð fólks niðurfrá báða dagana. Bílum lagt auðvitað gersamlega úti um allt, þetta var ekki alveg eins svakalegt og menningarnótt eða þorláksmessa en def næsti bær við. Öngþveiti á götunum, ösnuðumst til að fara að versla vestur á Granda og festumst auðvitað, bæði á leiðinni þangað og heim aftur (Bilbo kvót hvað?)

Silfurberg er ekki besti salurinn, skil ekki alveg hvers vegna allir þessir mislitlu krakkar fengu ekki Norðurljósin en væntanlega hefur meiningin verið að vígja alla salina. Kannski hefði verið hægt að hafa eina opna ráðstefnu? Stelpurnar voru allavega flottar, sungu tvö lög bæði útsett af mér…

hátíð

já, formleg opnunarhátíð Hörpu, enn syngjum við systkinin og dóttirin nema reyndar hefur bróðurdóttir tekið við af Tobba bró – hann sendir dóttur sína í Raddir Íslands.

Ég var eiginlega búin að gefa Fífu miðann minn en svo bauðst henni að syngja líka með og treystir sér ekki í að sitja alla þessa löngu tónleika fyrir seinna hlé og fara svo upp á svið að syngja, þannig að ég ákvað að nota miðann minn bara sjálf, mun sem sagt sitja í sal og hlusta í fyrsta skipti í kvöld. Heilmikið bland í poka (bland í Hörpu?) prógramm og reykvélar hjá nýgildingunum, við fundum fyrir því á æfingunni í gær, allt í þoku þegar við komum inn. Vonandi verður hægt að loftræsa salinn í seinna hléi.

Svo er nú að detta ekki fram af svölum 3 með lága handriðinu.

Gæti skrifað röflfærslu um hitt og þetta, til dæmis PR mistök númer 1 upp í 200 (getið hver þau voru) og fæðina sem visir.is virðist leggja á húsið en ég er að hugsa um að gleðjast – og vona það verði ekki brjáluð mótmæli fyrir utan í kvöld. Pínu hrædd um það nefnilega.

Allavega kom frétt á þýskri sjónvarpsstöð, hægt er að sjá okkur Hallveigu systur og Fífu á 4:15 – meira að segja skýrt!

Og enn heldur

ævintýrið áfram – maður var kominn með fráhvarfseinkenni frá Níundu en smá skammtur eftir. Formleg opnun Hörpu á föstudaginn, hellingur og glás af spennandi efni, alls konar músík, mikið breiðara svið (já Bubbi, nýgilda tónlistin fær sinn skammt, þú getur andað léttar). Endað á lokakafla Beethoven og síðan þjóðsöngnum sem við syngjum ásamt Röddum Íslands og væntanlega tekur salurinn undir.

Í stað Óperukórsins kemur Kór íslensku óperunnar, nei ekki sami kórinn sko, talsvert minni (20 í stað um 70) þannig að við verðum eitthvað færri á sviðinu. Verður mjög forvitnilegt að finna mun á kaflanum hjá Askenasí og Sakari. Fyrsta æfing núna eftir hálftíma.

Ef þið eigið ekki miða er um að gera að horfa á þetta í sjónvarpinu, jámm bein útsending…

ó

Hörpuævintýri ríflega hálfnað – í þessari viku, mæting á síðustu tónleika vikunnar eftir rúman hálftíma.

Skrýddi mig upp í skósítt svart og ermasítt ásamt perlufesti og eyrnalokkum. Okkur hafði verið uppálagt að vera bara með lítt áberandi skraut og enga liti, allar Hljómeykis/Áskonurnar hlýddu þessu samviskusamlega en þegar við komum í upphitun tókum við eftir því að langflestar Óperukórskonurnar voru með perlufestar. Hvítar, sem er auðvitað ekki litur, ég hafði samt hugsað um hvort ég ætti að skrýðast perlufesti en hætti við, gæti skorið mig úr. Hefði semsagt ekki gert það. Spurði eina Óperukórsfraukuna hvers vegna við hinar hefðum ekki verið látnar vita af perlufestaákvörðun en þá er þetta víst standard á tónleikum Óperukórsins og ekkert þurft að tala um það sem sé.

Þannig að á fyrstu tónleikunum skiptumst við í Óperukórinn og Óperlukórinn.

En vá annars hvað þetta er GAAAMAN!

þegar maður

er svona upptekinn í einhverju eins og vígslu þessa langþráða húss með tónleikunum á morgun, hinn og hinn (já og 13. líka) ásamt listráðsfundum og fleiru er venjulega vinnan þvílíkt að þvælast fyrir manni. Finnst gersamlega fáránlegt að þurfa að kenna á morgun og hvað eru þessir tónsmíðanemar að vilja upp á dekk með að heimta tímana sína??? (humm, kannski gáfulegt reyndar að athuga hvort sá sem á að koma í fyrramálið sé til í fimmtudagsmorguninn í staðinn, reyndar).

En ætli maður láti sig nú ekki hafa það samt. Reyndar er morgundagurinn næstsíðasti kennsludagurinn í Hafnarfirði fyrir sumarfrí, fyrir utan reyndar síðustu vikuna þar sem verða upptökupróf fyrir þá sem þurfa og svo auðvitað frágangur. Sama gildir í Suzukiskólanum, kenni þar næsta mánudag. Svo bara sólbað á pallinum eþaggi? Eða allavega bjór og útiarinn.

Harpa á Hörpu

Auðvitað, auðvitað vígjum við hina langþráðu Hörpu í viðeigandi mánuði!

Fyrsta æfing hjá kórnum, með Askenasí í kvöld, mögnuð upplifun, hálfur risastóri kórinn með myndavélar á lofti, ég tók nú bara nokkrar símamyndir. Synd að segja að þær séu sérlega góðar, ekki útilokað að ég fái lánaða myndavélina yngri unglings á æfinguna á morgun. Þá fáum við líka hljómsveitina með okkur. Í dag spilaði hann Daði minn hljómsveitarpartinn á píanóið, ekki get ég sagt að ég hafi öfundað hann að þurfa að hamra þennan þrælsnúna píanópart fyrir framan einn frægasta konsertpíanista í heimi – en Askenasí hrósaði honum í hástert og var reyndar afskaplega vingjarnlegur við okkur öll saman. Vissi að sjálfsögðu nákvæmlega hvað hann vildi, ég er pínu stressuð að kórinn muni einn stað sem hann setti inn grundvallartempóbreytingu – í 160 manna kór er ekki alveg víst að allir muni slíka staði. Vonandi eru samt allir nógu pró.

Svakalega þurrt loft, ég sáröfundaði söngkonuna við hlið mér sem hafði haft vit á að vera með vatnsbrúsa með sér. Klikka ekki á því á morgun og hinn. Þarf að hlaupa ansi hratt á morgun til að ná æfingu, færi síðasta kennslutímann minn til en ekki þann næstsíðasta sem á að vera búinn tíu mínútum fyrir mætingu niðurfrá – reyni að flýta mér með prófið sem þau eiga að taka (ætli sé í lagi að spila dæmin fjórum sinnum í stað fimm og tónbilin bara einu sinni? iiiiii djók!)

Enduðum svo þessa fyrstamaí æfingu á að syngja hátíðaútgáfu Maístjörnunnar. Magnað!

Nánari fréttir síðar.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

maí 2011
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa