Archive for the 'minning' Category

Minning

Í dag verður borinn til grafar minn mentor, kollegi og kæri vinur Þorkell Sigurbjörnsson.

Einn af okkar grand old men í tónsmíðunum, eftir hann liggur gríðarlegt magn tónverka, þar á meðal perlur sem við þekkjum öll. Hann var einn okkar framsæknustu nútímatónskálda en gat þar fyrir utan samið verk í öllum mögulegum stílum.

Hann var besti kennari sem ég hef haft í tónlist, ég endurtek iðulega frasa frá honum við nemendur mína. Hafði djúpa innsýn í galdra tónanna. Hann var líka mikill húmoristi og beittur rýnir sem fólk tók mikið mark á. Innsæis hans og þekkingar verður sárt saknað innan Tónskáldafélagsins, Tónverkamiðstöðvar og alls staðar þar sem hann kom að málum.

Ég votta Barböru, Misti, Siggabirni, Sigfúsi, Hnokka og öðrum tengda- og barnabörnum mína dýpstu samúð. Minningin mun lifa.

án titils

Lauffallið ristir rauðar rúnir í þokuna hljóð orð leita hvíldar angist og ást leita einskis og alls hjá þér móðir eilíf og söm

hvert lauf hvert ljóð.

Snorri Hjartarson

Hvíld

Lygnt geymir vatnið
leið mína yfir fjallið,
felur hana rökkri
og ró í nótt.

Vær geymir svefninn
söknuð minn í lautu,
með degi rís hann aftur
úr djúpsins ró.

(Snorri Hjartarson, 1966)

Í kvöld flytur Hljómeyki lag Huga Guðmundssonar við þetta fallega ljóð Snorra Hjartarsonar, til minningar um Halldór Vilhelmsson.

Einnig flytjum við verkið Rauðan hring, eftir Þuríði Jónsdóttur og glænýtt verk eftir Atla Ingólfsson sem heitir ekki Uppstilling kórs (það er það sem stendur framan á nótunum mínum en ég man ekki titilinn í augnablikinu)

Mæli með tónleikunum, snilldar veður í Skálholti, bara drífið ykkur af stað. Klukkan átta…

In memoriam

Einn sá gegnheilasti og besti maður sem ég hef þekkt um ævina lést í nótt aðeins sjötugur að aldri eftir erfið veikindi.

Halldór Kristinn Vilhelmsson, einn besti baritónsöngvari sem þjóðin hefur átt, listasmiður mikill, yndislegur eiginmaður, faðir og afi. Ég man ekki eftir mér án þess að Halldór hafi verið hluti af lífinu, eiginmaður systur mömmu minnar og söngfélagi fyrst foreldra minna og svo sjálfrar mín til fjölda ára.

Ég finn ekki orð, þau eru fátækleg á svona stundu. Elsku Áslaug, Siggi, Hilda, Marta og fjölskyldur, við hér heima samhryggjumst innilega.

Takk fyrir allar samverustundirnar öll þessi ár, og hvíl í friði Halldór minn, ef einhver hefur unnið til þess þá ert það þú.

Björn Stefán Lárusson in memoriam

Í dag lést föðurbróðir Jóns Lárusar, á hjartadeild Landspítalans.

Bjössi frændi, eins og hann var alltaf kallaður, var sá fyrsti úr tengdafjölskyldu minni sem ég hitti. Hann bjó í íbúð tengdaforeldra minna (prestshjóna austur í Odda) á Skúlagötu í Reykjavík, þar bjó svo Jón Lárus líka á meðan hann var í menntaskóla og síðar háskóla.

Bjössi tók fyrst eftir okkar sambandi með því að allt í einu var farin að heyrast klassísk tónlist innan úr herbergi Jóns, nokkuð sem ekki hafði farið mikið fyrir. Ekki leist honum nú illa á það, enda hafði hann takmarkaðan áhuga og álit á nýmóðins tónlist, svo sem jazzi, rokki, poppi eða þaðan af nýrri stefnum. Gott að einhver ætlaði að ala strákinn upp á almennilegri músík, fannst honum.

Björn var ótrúlega víðlesinn og fróður maður, einnig skarpgreindur og það var afskaplega skemmtilegt að tala við hann. Nokkrum árum yngri hefði hann væntanlega brillerað í spurningakeppnum ýmiss konar, enda sóttist fólk eftir að fá að vera með honum í liði í spurningaspilum. Oftar en ekki hrókur alls fagnaðar í samkvæmum, fylginn sér í pólitískum umræðum, ekki vorum við alltaf samstíga þar, en hann hlustaði ávallt á annarra rök, og tók mark á þeim, þó þau mögulega samrýmdust ekki hans skoðunum.

Fyrir utan einlægan tónlistaráhuga og gleði hafði hann mikið yndi af málaralist, stundaði söfn hér á landi og fór í margar utanlandsferðir til að skoða spennandi myndlistarsýningar. Víðförull var hann einnig, fór bæði langt í vestur og austur.

Björn var heilsulítill mestallt sitt líf, fékk flogaveiki ungur að árum. Hann kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Vann í Slippfélaginu meðan honum entist heilsa.

Ég votta Stefáni tengdaföður mínum, eina eftirlifandi bróðurnum, samúð mína, svo og öllum öðrum aðstandendum. Læknar og hjúkrunarfólk hjartadeildar og gjörgæslu Landspítalans eiga skilið bestu þakkir fyrir góða aðhlynningu og virðingu.

Bjössa frænda verður sárt saknað.

sungum í dag

yfir henni Lóu, Guðbjört Lóa Sæmundsdóttir var náfrænka Jóns Lárusar, yndisleg stúlka sem var búin að berjast hetjulega við krabbamein síðustu 4 árin.

Athöfnin var yndisleg, vel valin tónlist, hjartnæm minningarorð, gengið út í sólskinið, allt lagðist á eitt að gera stundina sem fallegasta. Léttir örlítið á, þó erfitt sé.

Sæmundur, Halla og Salvör, við hugsum til ykkar. Lóa mín – hvíl í friði…

Útför

Í dag er jarðsett yndisleg kona, Guðrún Ásbjörnsdóttir, tónlistarkennari og vinkona fjölskyldu okkar í fjöldamörg ár.

Hvíl í friði, elsku Guðrún.

Svo ég taki nú

af öll tvímæli; mér þykja atburðir dagsins hræðilegir og sorglegir, þrátt fyrir „auglýsinguna“ hér tveimur færslum neðar.

Við Íslendingar eigum ekki mörg hús með jafn langa og merkilega sögu og þessi tvö, þá sérstaklega húsið sem Pravda var í. Stórkostlegur missir af þeim og svona húmor kannski bara mín leið til að takast á við hann.

Mér þykir leitt ef ég særi fólk, það er ekki meiningin.

sungum við

útför Hallgerðar Gísladóttur í troðfullri Neskirkju í dag. Mjög falleg athöfn, yndisleg tónlist valin, og bjart í kirkjunni.

Blessuð sé minning merkrar konu.


bland í poka

teljari

  • 373.341 heimsóknir

dagatal

júní 2021
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa