Sarpur fyrir nóvember, 2015

Roma giorno uno – Là

Rómarferð, langþráð. Fjölskyldan fór til Ítalíu 2007 og var fyrstu 5 dagana í Róm, í hitabylgju mikilli í júlí. Undirrituð hreifst gríðarlega af borginni og hefur langað mikið til að koma þangað aftur. Þannig að þegar Íslenski flautukórinn falaðist eftir stjórnanda í Rómarferð, á Flautissimo flautuhátíðina sló ég að sjálfsögðu til.

Æfingar og tónleikar heima, gekk nokkuð vel þó það sé skrítið að stjórna hópi fólks sem allt kann verkin betur en stjórnandinn sjálfur (þau höfðu spilað öll verkin áður nema mitt eigið nýja stykki).

Svo var haldið af stað. Jón Lárus kom með, Freyja skutlaði út á völl, við hittum slatta flautuleikara og nokkra maka í Leifsstöð á leið út til London. Keypti koparlitar lakkrískúlur og obligatoríska súkkulaði-og-croissantskammtinn í flugstöðinni. Hitti mökk af tónskáldum á leið til Bratislava á tónlistarhátíð. Örugglega gaman þar líka.

Flugið lítt fréttnæmt, náði samt tveimur góðum blundum sem er sjaldgæft en mátti vel notast við það.

Á Gatwick skildu leiðir, við höfðum einhverra hluta vegna pantað Rómarflug sem var tveimur tímum seinna en þau hin. Væntanlega hefur það sparað einhverja þúsundkalla. Pínu súrt því hópurinn hittist á sérvaldri trattoriu um kvöldið í tíu rétta máltíð en við náðum því semsagt ekki. Lítið við því að gera.

Á Gatwick tókum við allra allra síðasta tékk á breskum hamborgurum og svei mér þá ef hamborgaramenningin hefur ekki haldið innreið sína í breskar flughafnir. Þessi var allavega hörkufínn:

IMG_1721

Allar græjur líka til staðar til að gera kokkteilsósu með, ég hef aldrei notað Colmans sinnep í kokkteilsósu. Gæti vanist því!

Eftir mat voru enn tveir og hálfur tími í að við gætum tékkað okkur inn þannig að við sátum sem fastast á Wetherspoon, drógum upp bækur og keyptum okkur bjór og rósavín. Tíminn flaug.

IMG_1725

Þau á Wetherspoon eru reyndar með ágætis smekk í bjór:

IMG_1724

Einhvern veginn hafði okkur tekist að bóka EasyJet flugið þannig að við værum með forgangstékkinn og fremst í vélinni. Hef ekki græna glóru hvers vegna! en það var ekkert mjög óþægilegt.

Það sem var enn betra var þó að þegar við bókuðum herbergið á hótelinu voru öll ódýru herbergin búin þannig að við neyddumst til að bóka eitthvað aðeins dýrara. Það reyndist síðan vera business dæmi og við vorum sótt á flugvöllinn og skutlað beint upp á hótel. Hef svo Jón Lárus grunaðan um að hafa hnippt í gengið og beðið þau um að hafa fjólublátt þema í herberginu…

IMG_1726

Þrælþægilegt rúm, legið í því á skrifandi stundu, með rauðvín í vatnsglasi. Róm, hér erum við!


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

nóvember 2015
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930  

sagan endalausa