Sarpur fyrir nóvember, 2022

Krakow dzień trzeci

Þriðja daginn var ekki mikið prógramm – að við héldum. Eitthvað var af tímum í skólanum en átti eiginlega að spila eftir eyranu svolítið. Svo við vorum bara róleg í morgunmatnum klukkan átta eins og daginn áður. Jón pantaði sér svipaðan morgunmat nema í þetta sinn ekki krakáskan heldur miðjarðarhafsdittó en ég fór bara í hrærð egg með bökuðum sveppum, brauðkarfa með smjöri og sultu og ávaxtaskál voru líka á sínum stað. Hafði líka pantað freyðivínsglas með morgunmatnum en endaði á að sáröfunda Peter og Ferenc af nýkreista appelsínusafanum sínum og langaði ekkert sérlega í freyðivínið. Þrátt fyrir reyndar að hafa sofið talsvert betur en nóttina áður. 

Upp á herbergi. Þá komu skilaboð frá Peter. Boð á fyrirlestur um kvikmyndatónlist. Eftir 10 mínútur. Flest liðið var ekki einu sinni mætt niður í morgunmat. Ég greip samt boltann þar sem þetta er jú mitt fag. Skrölti þessa 10 mín leið í skólann og náði þangað akkúrat um leið og fyrirlesturinn byrjaði. 

Reyndist bráðskemmtilegur og ég meira að segja uppgötvaði forrit sem ég mun bókað geta notað mér. Gat sýnt þeim stikluna af Veðrabrigðum, heimildamynd eftir Ásdísi Thoroddsen, sem ég gerði músík við fyrir nokkrum árum, fjallar meira að segja um pólska samfélagið fyrir vestan. Gott og gaman, bara sveimérþá!

Hitti á Jón Lárus sem hafði farið sneypuför til að finna vínbúð sem hann var annars búinn að spotta, hann hafði ekki rambað á hana daginn áður meðan við vorum í fyrri skólaheimsókninni, leitað síðan betur og fundið á kortinu en svo var ekki opið í henni fyrr en klukkan tólf! Svo hún missti af okkar viðskiptum í þessum túr.

Römbuðum inn í verslanagang sem heitir Pasaz 13, þar var mjög spennandi veitingastaður og líka gríðarlega flott vínbúð. Dvöldum þar í góða stund, féllum fyrir hálfflösku af Billecart Salmon rósakampavínsflösku og langaði líka í Barolo vín sem var þarna til sölu en ákváðum að hinkra smá. Mjög skemmtileg kona að afgreiða, var ánægð með valið á Billecart Salmon hjá okkur. Heim á hótel, út aftur að finna okkur hádegismat. Erum svolítið hrifin af pólskum mat sem heitir bigos, fæst stundum í krukkum í Pylsumeistaranum. Vorum búin að spotta stað sem seldi slíkt – reyndar alveg magnað hvað þetta fékkst á fáum stöðum. Inn á staðinn, pöntuðum okkur bæði bigos og ætluðum að fá bjór með en uh? Hann seldi þá ekki bjór. Örugglega stúkumaður því ég hef ekki á tilfinningunni að það sé dýrt eða erfitt að fá vínveitingaleyfi í Kraká. Allt morandi í trúartáknum á staðnum líka, myndir af Karol Józef Wojtyła eða Jóhannesi Páli páfa sem kom jú frá Kraká á sínum tíma og mikið var af styttum af og allskonar, í bænum. 

Bigosið var þokkalegt en náði ekki krukkumatnum frá Pylsumeistaranum, ónei. Líka mest kál en lítið kjöt, aðallega pylsur. Var kannski svipað og það sem við gerum sjálf heima. Allavega ekki betra. Þetta reyndist matarlegur lágpunktur ferðarinnar. Og staðurinn ekki einu sinni huggulegur. En hei, það þarf jú að setja lágpunkt til að kunna að meta allt hitt almennilega.

Jón Lárus hafði tékkað á Baroloflöskunum á CellarTracker forritinu sem hann er með aðgang að og það fékk mjög flottar einkunnir svo við röltum okkur aftur niður á torg og splæstum í tvær til að taka með heim, í stað þeirra sem ætlunin hafði verið að kaupa í vínbúðinni lokuðu. Okkar kona í Pasaz 13 vínbúðinni var mjög sátt við okkur og valið á víninu: já! Besti árgangur á Ítalíu í mörg ár og þetta er frábært vín! Ætlið þið að drekka þetta hér eða fara með? Við, uh? skildum ekki alveg. Hún, sko það er hægt að kaupa vín hjá mér og drekka það á veitingastaðnum hér við hliðina. Við: ah skil, en nei reyndar ekki í þetta skiptið.

Pöntuðum svo reyndar borð fyrir laugardagskvöldið á viðkomandi veitingastað þar sem við höfðum séð ansi hreint spennandi matseðil. 

Út og einn Zywiec af krana var næst á dagskrá. Einn uppáhalds bjór okkar heima, fæst ekki alveg alltaf en samt oftast. Ljómandi staður á torginu auglýsti Zywiec. Við þangað. Mig langaði ekki í bjór en Jón keypti sér einn dökkan, svakalega góðan. Kom í ógeðslega flottu glasi svo við fengum að kaupa glas af þeim eftirá. Sátum þarna í góðu yfirlæti í heillanga stund. Hlýtt og notalegt með hitara og vel þegið í þreytunni.

Upp á hótel, smotterí keypt af jólagjöfum á leiðinni. Smá örmögnunarhvíldartími (úff hvað ég var orðin hundleið á þessari pest!) Orðluskammturinn tekinn. Jón Lárus skaust svo út í bæjarrölt, nennti jú ekki að hanga inni á hótelherbergi í þrjá tíma yfir sofandi konunni sinni. Enda ekki ástæða til.

Allur hópurinn borðaði síðan saman um kvöldið á veitingahúsi sem heitir Art og er beint yfir götuna frá okkar hóteli. Skólinn splæsti í fordrykk og vatn. Við vorum pínu erfiðir gestir því við vorum mikið í því að velja óvenjulegar vínflöskur sem þurfti að grafa eftir í vínkjallara hótelsins svo vínframreiðslan tók góða stund. Ég var nærri búin með matinn minn áður en okkar flaska kom á staðinn. En góð var hún, og maturinn reyndar líka fjári fínn, við Jón Lárus fengum okkur bæði hálfa steikta önd með rósmarínkartöflum og súkkulaðikirsuberjasósu. 

Þarna sá ég trikk sem ég ætla að reyna að herma eftir. Kerti búið til úr salvíusmjöri, kveikt á kertinu og það bráðnaði og svo átti að dýfa brauði úr brauðkörfunni með matnum í brædda smjörið. Mjög flott. Erum að spá í að kópíera þetta einhvern tímann og bjóða fólki að dýfa brauði í kertavaxið…

Í salnum var ekki sérlega góð hljóðvist og ég, með mína takmörkuðu orku, var nærri búin að gefast upp og fara upp á hótel um níuleytið þegar Guðný Guðmunds, fiðlusnillingur ferðarinnar, stakk upp á að við færum hringinn á borðinu og öll segðu frá hvað þau hefðu verið að gera um daginn. Fuglabjargið semsagt hljóðnaði og næsti allavega hálftíminn fór í að lýsa deginum. Sum okkar höfðu farið á vinnudag (t.d. ég, um morguninn), önnur, sem höfðu klárað sína vinnuskyldu daginn áður höfðu farið í skoðunarferð í Auschwitz, enn önnur í bæinn eða í spa á hótelinu svo dagarnir voru mjög fjölbreyttir og gaman að fá fókus á okkur öll 17 í ferðinni. 

Veitingahússgengið var á endanum mjög sátt við okkur, þrátt fyrir að sommelier hefði þurft að hafa fyrir lífinu þetta kvöld, við fórum ekki yfir götuna og inn á hótel fyrr en um ellefuleytið. 

Krakow dzień drugi

Krakow dzień drugi

Hef sofið betur en það slapp nú samt til. Við höfðum pantað morgunmat klukkan átta, erum yfirleitt vöknuð fyrir sjö og orðin viðþolslaus af hungri klukkan átta. Og nú vaknaði ég reyndar hálfsjö sem er meira að segja hálfsex að okkar líkamsklukku. Svo það var vel þegið að detta niður í morgunmat á slaginu átta. Við vorum fyrst af hópnum niður. 

Þokkalega hátt til lofts í fordyrinu:

Morgunmaturinn var risastór! Höfðum bæði pantað Krakowy morgunmat sem samanstóð af tveim tegundum af kæfum, osti í sneiðum, góðum bita af hvítmygluosti, fullt af skinku, tómatsneiðum, gúrkubitum og heitreyktum silungi. Og fyrir utan nú þetta kom bæði ávaxtaskál og stór skál með brauði og önnur með sætabrauði á borðið. Okkur féllust hendur!

En það tókst nú að skilja ekki vandræðalega lítið eftir á diskum og skálum. Fínn nýkreistur appelsínusafi og stór bolli af alveg ljómandi kaffi fylgdi.

Eitthvað datt inn af ferðafélögum á meðan við vorum að eiga við þetta stóra verkefni. En þegar við gátum ekki meira fórum við aftur upp, bað og smá slökun. Engin sturta á okkar herbergi en alveg voðalega fínt baðkar ásamt fíneríi frá L’occitane. Svo út til að skoða konungshöllina þarna steinsnarinu frá hótelinu. Veðrið var púra dásemd, 16° og sól. Keyptum okkur ekki inn að skoða höllina né kirkjuna á kastalasvæðinu en ætluðum okkur að skoða drekahelli, Smocza Jama sem er undir kastalanum, við ána. Nema hvað svo var hellirinn bara lokaður, er ekki opinn frá nóvember til apríl Vorum semsagt tveimur dögum of seint á ferð. Gætum neyðst til að koma hingað aftur að sumri til.

Aftur á hótelið rétt undir hádegi. Langaði í einn bjór til að deila og römbuðum inn á hótelbarinn. Barþjónninn benti okkur þá á að það mætti fara með drykki upp á þakbarinn á hótelinu. Við þangað. Fínt útsýni að kastalanum, en eiginlega ekki niður í bæ. Samt mjög notaleg stund, áttum þakbarinn alein.

Svo var komið að skólaheimsóknaskyldunni. Rektor tónlistarháskólans bauð okkur öllum í kaffi og köku og spjall klukkan tólf. Já. Kaffi og köku. Klukkan tólf! Hádegismatur í furðulegra lagi. Vildi til að við vorum ekki orðin sérlega svöng eftir þennan risa morgunmat. Kaffihádegismatarkökuboðið var uppi á öðrum rúftopbar, í skólanum. Mig langar í svona þakbar í Skipholtinu. Ætli skólaskrifstofan verði ekki alveg fyr og flamme að splæsa í pall og handrið á leiguhúsnæðinu okkar í Skipholti annars?

Svona var útsýnið:

Klukkan eitt var síðan kóræfing sem við mættum á þrjú saman, hlustuðum á flottan háskólakór æfa requiemið eftir Duruflé, sem við í Dómkórnum sungum við góðan orðstír í kirkju Duruflés sjálfs í París 2018. Mjög fínn skólakór og ótrúlegt að geta hent svona verkum í kór sem er að miklu leyti skipaður nýnemum. Tók því miður enga mynd af þeim, bara vídeó sem ég get ekki sett hér inn þar sem ég kaupi ekki aðgang að wordpress.

Mælti mér mót við Jón Lárus klukkan þrjú og við fórum upp á hótel aftur. Höfðum pantað mat á hótelveitingahúsinu fimm ferðafélagar, klukkan sjö. Mig var hins vegar farið að svengja, kakan og kaffið dugðu skammt svo við duttum inn á kebab stað á leið á hótelið og keyptum okkur einn níðsterkan kebab til að deila og einn bjór. Földum innanklæða (djók) á leið upp á hótelherbergi. Reddaði málinu fram að mat.

Sem reyndist mökk góður! Fimmrétta smakkseðill sem endaði eiginlega í níu réttum, einn auka forréttur í boði hússins, brauðkarfa með vegan lard (skil reyndar ekki alveg það konsept en gott var það), þeyttu smjöri með ólífuolíu og hummus, auka milliréttur og svo líka auka desert. Brill félagsskapur og umræður og já, matur á mat ofan! Held þetta sé rétt röð, nema ég víxla reyndar desertunum því sá fyrri er flottari á litinn!

Eftir mat fóru þau hin á hótelbarinn en ég var búin áðí svo við Jón Lárus fórum upp á hótelherbergi og hrundum í bólið. Gluggarnir á herberginu okkar voru ekki á útvegg heldur snúa inn í alrýmið í hótelinu og ég var nærri búin að loka þeim rétt upp úr ellefu því það var stuð á fólki á barnum en honum var greinilega lokað klukkan ellefu svo það hljóðnaði fljótt. Frábær dagur. 

Krakow dzień pierwszy

Jei. Ferðablogg!

Þangað. Lítið sem gerðist í Kraká sjálfri þennan dag en best að hafa daginn með svo ég nái nú upp í fimm daga (meira af vilja en mætti).

Meira af vilja en mætti má reyndar segja að sé mottó ferðarinnar. Hund fjandi lasin með leiðinda kvefpestina sem allir eru með heima, hef eiginlega varla vitað aðra eins kvefpest þar sem einkennin koma bara aftur og aftur og aðal orð síðustu tveggja vikna er örmögnunarþreyta. Skal nú samt ekki skrifa eingöngu eða aðallega um það.

Ekki snemmmorgunflug, Wizz air vél skyldi í loftið klukkan ellefu tuttugu. Finnur skutlaði mömmogpabba út á völl um hálfníuleytið. Vorum búin að tékka inn á netinu að vanda, héldum að við gætum farið með tvær fluffutöskur ásamt bakpokanum inn í vél, Jón fékk síðan bakþanka og við merktum og læstum annarri. Það dugði síðan ekki til því við máttum heldur ekki fara með hina inn í vél þó hún væri vel innan uppgefinna stærðarmarka þá leyfði inntékkunaraðili það bara ekki neitt. Sem betur fer er litla druslutaskan með innbyggðan lás svo við læstum henni bara og hentum í inntékkaðan farangur (vorum búin að borga fyrir tvær slíkar sko). Fattaði síðan í miðju flugi að hún væri ómerkt og fór að reyna að rifja upp hvað væri í henni sem ekki mætti missa sín en svo eru þær jú samt strikamerktar svo þær ættu að komast til skila á endanum. Svo kom hún auðvitað á bandinu eins og hún átti að gera.

En ég er komin fram úr mér. Smørrebrød og mímósa á Nord ásamt vinnufélögunum. Því skólaheimsóknaferð til Krakár með LHÍ genginu var ástæða ferðar. Ljómandi á Nord að vanda. Wizz vélin fékk síðan svei mér þá rana með A númer, enda á ekki mesta pressutíma í flugstöðinni. Frekar næs. Fórum af stað á tíma. Flugið rétt um fjórir tímar – geeeet ekki sagt að ég hlakki til að komast alla leið til Ástralíu í mars (ok þarna fór ég aftur fram úr mér og heiftarlega í þetta sinn!)

Krakárflugvöllur er lítill og nettur og ekki mjög ásettur, svipaður og Prag sýnist mér, enda fer fólk almennt í lestum eða rútum milli staða í miðEvrópu og þetta er ekki millilendingarvöllur. Allar töskur skiluðu sér tiltölulega fljótt og vel og svo tók hann Ferenc Utassy á móti okkur fyrir utan og mokaði okkur upp í rútu til að komast á hótelið.

Ferenc er, fyrir þau sem ekki vita, músíkant sem hefur svolítið snúið sér að því að fararstýra, sérstaklega Íslendingum í mið og austur Evrópu. Hann bjó á Íslandi í fjölda ára, var organisti í Garðabæ og talar lýtalausa íslensku, fyrir nú utan að vera bráðgóður og meinfyndinn fararstjóri.

Hann fór í rútuferðinni að lýsa fyrir okkur hótelinu, sem er mjög miðsvæðis í Kraká, innan við gamla virkisvegginn og bókstaflega steinsnar frá gömlu konungshöllinni. Heitiir Copernicus og er gamall kastali, alveg bilað flott. 

Við lentum á fyrstu hæð (semsagt eins og annarri heima) í mjög flottu herbergi, lofthæð alveg örugglega amk. fimm metrar, geggjaðir bitar í lofti, aaafskaplega þægilegt rúm (sem var fagnað mjög), ég er ekki frá því að þetta sé flottasta hótel sem við höfum gist á. Fimm stjörnu pakki. Þurftum að merkja við hvað og hvenær við myndum vilja borða morgunmat (ekki hlaðborð heldur borið á borð). 

Ferenc bauð þegar fólk hafði komið sér fyrir á herbergjunum, upp á 10 mín rölt út á aðaltorgið og sagði okkur frá því sem fyrir augu bar á leiðinni plús torginu sjálfu. Komin þangað um sjöleytið. Hér er Maríudómkirkjan að utan.

Hópurinn splittaðist upp, öll svöng en of snúið að fara að leita að einhverju sem við gætum öll borðað saman. Við Jón Lárus lentum á fínum pizzustað með góðum bjór, fínni þjónustu þó þjónninn væri ekki sérlega sleipur í ensku og svo bara upp á hótel og hrunið í bólið (örmögnunin, munið þið). 


bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

nóvember 2022
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa