Krakow dzień trzeci

Þriðja daginn var ekki mikið prógramm – að við héldum. Eitthvað var af tímum í skólanum en átti eiginlega að spila eftir eyranu svolítið. Svo við vorum bara róleg í morgunmatnum klukkan átta eins og daginn áður. Jón pantaði sér svipaðan morgunmat nema í þetta sinn ekki krakáskan heldur miðjarðarhafsdittó en ég fór bara í hrærð egg með bökuðum sveppum, brauðkarfa með smjöri og sultu og ávaxtaskál voru líka á sínum stað. Hafði líka pantað freyðivínsglas með morgunmatnum en endaði á að sáröfunda Peter og Ferenc af nýkreista appelsínusafanum sínum og langaði ekkert sérlega í freyðivínið. Þrátt fyrir reyndar að hafa sofið talsvert betur en nóttina áður. 

Upp á herbergi. Þá komu skilaboð frá Peter. Boð á fyrirlestur um kvikmyndatónlist. Eftir 10 mínútur. Flest liðið var ekki einu sinni mætt niður í morgunmat. Ég greip samt boltann þar sem þetta er jú mitt fag. Skrölti þessa 10 mín leið í skólann og náði þangað akkúrat um leið og fyrirlesturinn byrjaði. 

Reyndist bráðskemmtilegur og ég meira að segja uppgötvaði forrit sem ég mun bókað geta notað mér. Gat sýnt þeim stikluna af Veðrabrigðum, heimildamynd eftir Ásdísi Thoroddsen, sem ég gerði músík við fyrir nokkrum árum, fjallar meira að segja um pólska samfélagið fyrir vestan. Gott og gaman, bara sveimérþá!

Hitti á Jón Lárus sem hafði farið sneypuför til að finna vínbúð sem hann var annars búinn að spotta, hann hafði ekki rambað á hana daginn áður meðan við vorum í fyrri skólaheimsókninni, leitað síðan betur og fundið á kortinu en svo var ekki opið í henni fyrr en klukkan tólf! Svo hún missti af okkar viðskiptum í þessum túr.

Römbuðum inn í verslanagang sem heitir Pasaz 13, þar var mjög spennandi veitingastaður og líka gríðarlega flott vínbúð. Dvöldum þar í góða stund, féllum fyrir hálfflösku af Billecart Salmon rósakampavínsflösku og langaði líka í Barolo vín sem var þarna til sölu en ákváðum að hinkra smá. Mjög skemmtileg kona að afgreiða, var ánægð með valið á Billecart Salmon hjá okkur. Heim á hótel, út aftur að finna okkur hádegismat. Erum svolítið hrifin af pólskum mat sem heitir bigos, fæst stundum í krukkum í Pylsumeistaranum. Vorum búin að spotta stað sem seldi slíkt – reyndar alveg magnað hvað þetta fékkst á fáum stöðum. Inn á staðinn, pöntuðum okkur bæði bigos og ætluðum að fá bjór með en uh? Hann seldi þá ekki bjór. Örugglega stúkumaður því ég hef ekki á tilfinningunni að það sé dýrt eða erfitt að fá vínveitingaleyfi í Kraká. Allt morandi í trúartáknum á staðnum líka, myndir af Karol Józef Wojtyła eða Jóhannesi Páli páfa sem kom jú frá Kraká á sínum tíma og mikið var af styttum af og allskonar, í bænum. 

Bigosið var þokkalegt en náði ekki krukkumatnum frá Pylsumeistaranum, ónei. Líka mest kál en lítið kjöt, aðallega pylsur. Var kannski svipað og það sem við gerum sjálf heima. Allavega ekki betra. Þetta reyndist matarlegur lágpunktur ferðarinnar. Og staðurinn ekki einu sinni huggulegur. En hei, það þarf jú að setja lágpunkt til að kunna að meta allt hitt almennilega.

Jón Lárus hafði tékkað á Baroloflöskunum á CellarTracker forritinu sem hann er með aðgang að og það fékk mjög flottar einkunnir svo við röltum okkur aftur niður á torg og splæstum í tvær til að taka með heim, í stað þeirra sem ætlunin hafði verið að kaupa í vínbúðinni lokuðu. Okkar kona í Pasaz 13 vínbúðinni var mjög sátt við okkur og valið á víninu: já! Besti árgangur á Ítalíu í mörg ár og þetta er frábært vín! Ætlið þið að drekka þetta hér eða fara með? Við, uh? skildum ekki alveg. Hún, sko það er hægt að kaupa vín hjá mér og drekka það á veitingastaðnum hér við hliðina. Við: ah skil, en nei reyndar ekki í þetta skiptið.

Pöntuðum svo reyndar borð fyrir laugardagskvöldið á viðkomandi veitingastað þar sem við höfðum séð ansi hreint spennandi matseðil. 

Út og einn Zywiec af krana var næst á dagskrá. Einn uppáhalds bjór okkar heima, fæst ekki alveg alltaf en samt oftast. Ljómandi staður á torginu auglýsti Zywiec. Við þangað. Mig langaði ekki í bjór en Jón keypti sér einn dökkan, svakalega góðan. Kom í ógeðslega flottu glasi svo við fengum að kaupa glas af þeim eftirá. Sátum þarna í góðu yfirlæti í heillanga stund. Hlýtt og notalegt með hitara og vel þegið í þreytunni.

Upp á hótel, smotterí keypt af jólagjöfum á leiðinni. Smá örmögnunarhvíldartími (úff hvað ég var orðin hundleið á þessari pest!) Orðluskammturinn tekinn. Jón Lárus skaust svo út í bæjarrölt, nennti jú ekki að hanga inni á hótelherbergi í þrjá tíma yfir sofandi konunni sinni. Enda ekki ástæða til.

Allur hópurinn borðaði síðan saman um kvöldið á veitingahúsi sem heitir Art og er beint yfir götuna frá okkar hóteli. Skólinn splæsti í fordrykk og vatn. Við vorum pínu erfiðir gestir því við vorum mikið í því að velja óvenjulegar vínflöskur sem þurfti að grafa eftir í vínkjallara hótelsins svo vínframreiðslan tók góða stund. Ég var nærri búin með matinn minn áður en okkar flaska kom á staðinn. En góð var hún, og maturinn reyndar líka fjári fínn, við Jón Lárus fengum okkur bæði hálfa steikta önd með rósmarínkartöflum og súkkulaðikirsuberjasósu. 

Þarna sá ég trikk sem ég ætla að reyna að herma eftir. Kerti búið til úr salvíusmjöri, kveikt á kertinu og það bráðnaði og svo átti að dýfa brauði úr brauðkörfunni með matnum í brædda smjörið. Mjög flott. Erum að spá í að kópíera þetta einhvern tímann og bjóða fólki að dýfa brauði í kertavaxið…

Í salnum var ekki sérlega góð hljóðvist og ég, með mína takmörkuðu orku, var nærri búin að gefast upp og fara upp á hótel um níuleytið þegar Guðný Guðmunds, fiðlusnillingur ferðarinnar, stakk upp á að við færum hringinn á borðinu og öll segðu frá hvað þau hefðu verið að gera um daginn. Fuglabjargið semsagt hljóðnaði og næsti allavega hálftíminn fór í að lýsa deginum. Sum okkar höfðu farið á vinnudag (t.d. ég, um morguninn), önnur, sem höfðu klárað sína vinnuskyldu daginn áður höfðu farið í skoðunarferð í Auschwitz, enn önnur í bæinn eða í spa á hótelinu svo dagarnir voru mjög fjölbreyttir og gaman að fá fókus á okkur öll 17 í ferðinni. 

Veitingahússgengið var á endanum mjög sátt við okkur, þrátt fyrir að sommelier hefði þurft að hafa fyrir lífinu þetta kvöld, við fórum ekki yfir götuna og inn á hótel fyrr en um ellefuleytið. 

0 Responses to “Krakow dzień trzeci”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

nóvember 2022
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: