Sarpur fyrir janúar, 2012

ánægð

já ég er gríðaránægð með upphaf Myrkra, fallegir gítartónleikar í hádeginu, skemmtileg blanda úr tónleikum hátíðarinnar í Víðsjá (58’08 og áfram) í dag og glæsilegir Sinfóníutónleikar. (linkur kemur þegar hann dettur inn hjá RÚV) Sérstaklega er ég hæstánægð með að nú virðist aftur vera farið að mega skrifa skemmtilega tónlist, nefni þar til sögunnar Huga Guðmunds og kennara hans frá Kaupmannahöfn, Hans Abrahamsen.

Á morgun kennir ýmissa grasa, Guðrún Jóhanna og Javi með hádegistónleika, Duo Landon klukkan þrjú (flytja meðal annars fiðludúetta undirritaðrar), Nordic Affect klukkan fimm, (verk Huga frá í útvarpinu flutt aftur), Caput með portrettónleika Önnu Þorvalds klukkan átta, Áshildur og mikið fleiri flautur klukkan tíu (heyrðu já, bráðskemmtilegt verk af þeim tónleikum var líka flutt í Víðsjánni, í lokin) og að síðustu Duo Harpwerk klukkan miðnætti með glæný verk eftir nemendur Listaháskólans og fleiri. (kannski hefði ég eiginlega átt að telja það með laugardagstónleikunum, fræðilega séð kominn laugardagur auðvitað).

Ég mun semsagt búa í Hörpu á morgun. Gott að fólk er hætt að taka sig endalaust alvarlega í faginu mínu og það má semsagt taka mark á manni þó maður sé ekki grafalvarlegur og depressífur!

Myrkir músíkdagar

hér er maður á kafi, bólakafi í hátíð nýrrar tónlistar á Íslandi, Myrkum músíkdögum, haldnir að mestu í Hörpu. Hellingur af spennandi tónleikum, 22 tónleikar í allt, byrjar í hádeginu á fimmtudaginn. Ég er búin að vera að setja upp og samræma prógrömm sem dreifa á fyrir hverja tónleika fyrir sig, ótrúlega mikil vinna en nálgast að verða tilbúin. Svo á eftir að ljósrita…

Dagskrá má finna hér.

Ég á eitt verk á hátíðinni, ekki kórverk (sem er reyndar frekar skrítið miðað við að það eru tvennir kórtónleikar) heldur strengjaverk, allir 10 fiðludúettarnir mínir. Hlakka til að heyra þá aftur, ásamt bráðskemmtilegum dúettum Atla Heimis sem við fengum nasaþefinn af síðast þegar mínir voru fluttir.

Vel má nefna að tónlistarnemar fá ókeypis á alla tónleika hátíðarinnar gegn framvísun nemendaskírteina (hmm, veit reyndar ekki til þess að gefin séu út nemendaskírteini í öllum tónlistarskólum…)

En mikið hlakka ég til þegar prógrömmin verða tilbúin!

100 ár

Snillingurinn hún amma mín heitin, Hildigunnur Halldórsdóttir, hefði orðið hundrað ára í gær, hefði hún lifað.

Af því tilefni stendur til að gefa út bók, eftir hana liggur ógrynni af textum og nokkur lög, við völdum í sameiningu um 40 texta/lög og verið er að vinna að málinu. Upptökur í bígerð með vorinu (einhverjar væntanlega í sumar jafnvel), teikningar að verða tilbúnar, uppsetning laganna líka.

Textarnir hafa mallað og safnað STEFgjöldum í áratugi, lengi vel kom nú ekki mikið inn á hverju ári en svo gerðist þetta:

og þá fóru hlutirnir að gerast.

Segið svo að það sé ekki gagn að progrokk stundum!

Væntanlega koma síðan meiri fréttir af bókinni. Stay tuned.

ófærðin

Ég er búin að vera kvartandi og kveinandi yfir hryggjunum hér á Njálsgötunni. Svo keyrðum við Leifsgötu áðan og ég er steinhætt að kvarta! Úff hvað ég vildi ekki þurfa að keyra, hjóla né ganga þar þessa dagana.

Það er samt alveg kvartandi smá, hér í miðbænum hefur nefnilega alls ekkert verið rutt, hvorki götur, gangstéttir né aðrir stígar að ég fái séð. Lífshættulegir klakabunkar á þeim gangstéttum sem ekki er hiti í (veeerulega ánægð með að hafa splæst í hita fyrir utan hjá okkur þó það hafi verið sárt í veskinu hérna fyrir 6-7 árum). Enda flaug ég á hausinn um daginn.

Samt ótrúlega fyndið að heyra viðtöl í útvarpinu þá morgna sem snjónum kyngdi sem mest niður. Fólk (fréttamenn ekki síst) alveg brjálað yfir að það skuli ekki vera allt orðið hreint sama morgun…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

janúar 2012
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa