Krakow dzień pierwszy

Jei. Ferðablogg!

Þangað. Lítið sem gerðist í Kraká sjálfri þennan dag en best að hafa daginn með svo ég nái nú upp í fimm daga (meira af vilja en mætti).

Meira af vilja en mætti má reyndar segja að sé mottó ferðarinnar. Hund fjandi lasin með leiðinda kvefpestina sem allir eru með heima, hef eiginlega varla vitað aðra eins kvefpest þar sem einkennin koma bara aftur og aftur og aðal orð síðustu tveggja vikna er örmögnunarþreyta. Skal nú samt ekki skrifa eingöngu eða aðallega um það.

Ekki snemmmorgunflug, Wizz air vél skyldi í loftið klukkan ellefu tuttugu. Finnur skutlaði mömmogpabba út á völl um hálfníuleytið. Vorum búin að tékka inn á netinu að vanda, héldum að við gætum farið með tvær fluffutöskur ásamt bakpokanum inn í vél, Jón fékk síðan bakþanka og við merktum og læstum annarri. Það dugði síðan ekki til því við máttum heldur ekki fara með hina inn í vél þó hún væri vel innan uppgefinna stærðarmarka þá leyfði inntékkunaraðili það bara ekki neitt. Sem betur fer er litla druslutaskan með innbyggðan lás svo við læstum henni bara og hentum í inntékkaðan farangur (vorum búin að borga fyrir tvær slíkar sko). Fattaði síðan í miðju flugi að hún væri ómerkt og fór að reyna að rifja upp hvað væri í henni sem ekki mætti missa sín en svo eru þær jú samt strikamerktar svo þær ættu að komast til skila á endanum. Svo kom hún auðvitað á bandinu eins og hún átti að gera.

En ég er komin fram úr mér. Smørrebrød og mímósa á Nord ásamt vinnufélögunum. Því skólaheimsóknaferð til Krakár með LHÍ genginu var ástæða ferðar. Ljómandi á Nord að vanda. Wizz vélin fékk síðan svei mér þá rana með A númer, enda á ekki mesta pressutíma í flugstöðinni. Frekar næs. Fórum af stað á tíma. Flugið rétt um fjórir tímar – geeeet ekki sagt að ég hlakki til að komast alla leið til Ástralíu í mars (ok þarna fór ég aftur fram úr mér og heiftarlega í þetta sinn!)

Krakárflugvöllur er lítill og nettur og ekki mjög ásettur, svipaður og Prag sýnist mér, enda fer fólk almennt í lestum eða rútum milli staða í miðEvrópu og þetta er ekki millilendingarvöllur. Allar töskur skiluðu sér tiltölulega fljótt og vel og svo tók hann Ferenc Utassy á móti okkur fyrir utan og mokaði okkur upp í rútu til að komast á hótelið.

Ferenc er, fyrir þau sem ekki vita, músíkant sem hefur svolítið snúið sér að því að fararstýra, sérstaklega Íslendingum í mið og austur Evrópu. Hann bjó á Íslandi í fjölda ára, var organisti í Garðabæ og talar lýtalausa íslensku, fyrir nú utan að vera bráðgóður og meinfyndinn fararstjóri.

Hann fór í rútuferðinni að lýsa fyrir okkur hótelinu, sem er mjög miðsvæðis í Kraká, innan við gamla virkisvegginn og bókstaflega steinsnar frá gömlu konungshöllinni. Heitiir Copernicus og er gamall kastali, alveg bilað flott. 

Við lentum á fyrstu hæð (semsagt eins og annarri heima) í mjög flottu herbergi, lofthæð alveg örugglega amk. fimm metrar, geggjaðir bitar í lofti, aaafskaplega þægilegt rúm (sem var fagnað mjög), ég er ekki frá því að þetta sé flottasta hótel sem við höfum gist á. Fimm stjörnu pakki. Þurftum að merkja við hvað og hvenær við myndum vilja borða morgunmat (ekki hlaðborð heldur borið á borð). 

Ferenc bauð þegar fólk hafði komið sér fyrir á herbergjunum, upp á 10 mín rölt út á aðaltorgið og sagði okkur frá því sem fyrir augu bar á leiðinni plús torginu sjálfu. Komin þangað um sjöleytið. Hér er Maríudómkirkjan að utan.

Hópurinn splittaðist upp, öll svöng en of snúið að fara að leita að einhverju sem við gætum öll borðað saman. Við Jón Lárus lentum á fínum pizzustað með góðum bjór, fínni þjónustu þó þjónninn væri ekki sérlega sleipur í ensku og svo bara upp á hótel og hrunið í bólið (örmögnunin, munið þið). 

0 Responses to “Krakow dzień pierwszy”



  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s




bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

nóvember 2022
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: