Síðasti dagurinn sem við hefðum mömmu og pabba hjá okkur, þau flugu til og frá Köben og komu degi fyrr en við svo þau áttu þennan lokadag í Kolding.
Stefnan var sett á blómagarðinn á svæðinu. Svona þegar Fífa myndi vakna eftir útskriftarpartíið. Ekki snemma. Rólegheit frameftir morgni á hótelinu þar til heyrðist frá henni. Atli var að vinna.
Við Jón, Freyja og Finnur röltum svo yfir í íbúð til Fífu með viðkomu í búð til að skila pantflöskum og kaupa hænsnasalat, sem er eiginlega einu fastainnkaupin okkar Jóns í búðum í DK. Svona salöt fást ekki hér, veit ekki hvers vegna. Tja nema stundum þegar Hagkaup eru með danska daga. Danir kunna hins vegar ómögulega að búa til almennileg laxasalöt!
Þaðan gengum við sem leið lá sirka tvo og hálfan kílómetra í blómagarðinn. Höfðum verið í sambandi við mömmu og pabba sem treystu sér ekki alveg í svona langa göngu. Hringdum þegar við nálguðumst garðinn og þá röltu þau út til að veiða sér leigubíl á svæðið.
Okkur tókst nú samt að vera svolítið á undan svo við tylltum okkur á veitingahúsið á svæðinu í einn bjór eða svo. Fengum mjög dæmigerðan rauðköflóttan danskan dúk á borðið þó við segðumst ekkert þurfa slíkt fínerí.
Mamma og pabbi mætt. Kaffi og bjórglas handa þeim. Pabbi togaði dúkinn til, svo hann næði aðeins inn á borðið sem þau drógu til, til að vera með okkur. Jón Lárus hélt að hann væri að fá aðsvif þegar allt í einu voru rauðhvítu köflurnar komnar á hreyfingu fyrir framan hann!
Ég skaust svo inn þegar öll voru búin með drykki og laumaðist til að borga fyrir mömmu og pabba líka, fyrir utan mitt gengi. Var fegin því, síðar um daginn!
Inn í garðinn fórum við, mamma og pabbi voru búin að kaupa sig inn og svo komum við aðeins seinna og konan í afgreiðslunni: ha líka Íslendingar? jújú skildi það betur þegar ég sagði henni að við værum öll í einum hóp, Krakkarnir fengu fínan námsmannaafslátt.
Fyrst í lítinn dýragarð þar sem var hægt að sjá hina og þessa fugla og furðudýr og svo kiðlinga og alpacadýr. Freyju var ekki alveg sama eins og sjá má hér!
Grasagarðurinn státaði af alveg ótrúlega fallegum rósagarði!
Þarna var líka hið fallegasta smáhúsasafn. Lego hvað? Kolding endurgert í miniature á alveg magnað flottan hátt! Pínulitlir múrsteinar brenndir og púslað saman.
Það var lítið að gera svo við fengum rúnt um vinnustofurnar með áhugasömum safnverði. Þar sáum við brennsluofninn í gangi og þessa oggulitlu múrsteina koma út úr lítilli vél og bíða svo brennslu. Hvert hús tekur mörg ár í vinnslu og er ótrúleg fínvinna. Veit ekki hvort ég hefði þolinmæðina í þetta!
Amma og afi tóku svo bíl aftur til baka en við hin gengum í íbúðina til Fífu, komum við í bakaríi og fengum okkur snarl hjá Fífu. Svo splittaðist hópurinn niðri í bæ, flest ætluðu á enska pöbbinn til að horfa á Ísland spila við Nígeríu en við Finnur íþróttaáhugaleysingjarnir fórum bara upp á hótel. Um kvöldið stóð til að fara fínt út að borða á besta staðinn í Kolding þar sem Atli er á námssamning og ætlaði að elda ofan í okkur það besta sem Kolding hefur upp á að bjóða.
Leikurinn fór eins og hann fór. Við Finnur vorum sátt inni á hóteli hvort í sinni tölvunni. Röltum okkur síðan stystu leið upp í Koldinghus þar sem Madkælderen, veitingastaðurinn hans Atla er. Tekið á móti okkur með spurningu um hvort við ættum pantað borð og á hvaða nafni þá. Jaaa, Atli! men vær så særlig velkomne!
Hin birtust stuttu síðar, fyrst Jón Lárus, Fífa og Freyja og svo amma og afi. Maturinn? Magnifico! Takk Atli! sem var allsráðandi í eldhúsinu þetta kvöldið, honum til aðstoðar var bara annar nemi sem var annars aðallega búinn að vera á hádegisvaktinni svo hann var bara í að hlýða því sem Atli skipaði honum fyrir.
Þetta fengum við að borða:
Það er skemmtilegt við þennan stað að yfirkokkurinn býr ekki aleinn til alla réttina og skipar svo öllum fyrir heldur er sest niður í hverjum mánuði og öll sem vinna við eldamennskuna fá að koma með sitt innlegg í hvernig matseðill næsta mánaðar muni vera samansettur. Og svona var semsagt júnímánuður. Þau bjóða bara upp á svona smakkseðil, ekki hægt að panta mismunandi rétti af seðli. Með í pakka hvers kvölds er síðan vín eins og hver getur í sig látið, þrjár tegundir af hvítu, rósa og rauðu. Þau sem ekki vilja vín fá sérstakan safaseðil, Finnur var í þeim pakka, þó hann sé löglegur í drykkju í Danmörku hefur hann samt engan áhuga á víni svo hann fór í safapakkann. Þar kenndi ýmissa grasa. Bókstaflega! Skrítnasti safinn sem hann drakk var úr ferskum grænum baunum. Ekki að allra smekk en okkur (hinum) fannst hann alveg merkilega góður!
Yndislegt kvöld, myndirnar mínar allar mjög grainy og asnalegar svo engar myndir þarna neðan úr kjallaranum.
Áður en við fórum, laumaðist pabbi fram og borgaði pakkann fyrir okkur öll saman, okkur alveg að óvörum.
Takk fyrir okkur, elsku Atli Már og pabbi og mamma! ❤
Nýlegar athugasemdir