Sarpur fyrir desember, 2012

Bílnúmeri stolið

Þegar við komum út í morgun – tja við tókum reyndar ekki eftir neinu nema að húddið á bílnum var grútskítugt af einhverju torkennilegu. Náðist frekar auðveldlega af og við keyrðum af stað í útréttingar. Byrjuðum hjá Pylsumeistaranum, lögðum beint fyrir framan. Keyptum slatta af pylsum og út. Nema hvað að þá rek ég augun í þetta:

Image

Tilkynnti til lögreglu, hvað veit maður hvað á að gera við svona lagað? Stela bensíni kannski.

Allavega, ef þið rekið augun í bíl með númerinu JZ-732 og bíllinn er ekki steingrá Mazda 6, endilega látið vita!

Jólin, jólin!

Gleðileg jól allir, nær og fjær, uppi og niðri, í suðri og norðri og vestri og austri og hafið það gott um hátíðarnar!

Outgoing.

jólabréf

Í ár verður skrifað jólabréf. Nei, ég er búin að skrifa jólabréfið. Nokkur slík komin niður í aboutslakes, fræmírks límd á og á leiðinni út í póstkeis.

(smá viðbót við umsleiks in póstkeis, sumir hér hljóta að þekkja vísunina)

Allavega ætlaði ég að prenta út jólabréfið í lit þar sem ég límdi nokkrar myndir inn í það og þær komu vægast sagt ekki vel út í svarthvítu. Ég á sko ekki litaprentara heldur eldgamlan en alveg frábæran laserprentara sem er búinn að spara mér ansi mikið síðan ég keypti hann fyrir örugglega 10 árum. Kostar sáralítið í rekstri en semsagt, enginn litur.

Lét mig dreyma um að fá að kaupa prentun í ITM en vélin sú er í dauðateygjunum þannig að Fífa (sem vinnur þar íhlaupavinnu) aftók að það kæmi til greina. Hmm. Ekki tímdi ég að fara í prentsmiðju (kannski hefði það bara ekki verið neitt dýrt, hvað veit ég? Tékkaði ekki) Fífa kom til bjargar og stakk upp á háskólanum, við þangað í gærmorgun en þá var próf í tölvustofunni og ekki að ræða það að fara þangað inn, prentarinn frammi á gangi álíka lítið litvæddur og Brotherprentarinn minn gamli og sveimérþá að tilraunaprentunin kom verr út þar en heima. Og ég sem var búin að bæta helling af prentkvóta á inneignina hennar.

Grrr.

Sótti hana svo í vinnuna áðan klukkan sex og hmm, gæti nú bara ekki vel verið að tölvustofan væri enn opin? Trúðum ekki að það væru allavega próf þetta seint.

Galtómt, opið, prentað. Þarf samt að biðja hana um að prenta sirka sjö í viðbót (Fífaaaa???) undirmat jólakortaþörfina.

Nei birti bréfið ekki hér. Fyrr en eftir jól þegar allir viðtakendur eru búnir að fá það í hendur plús smá prívatskrif til sumra.

Leynivika

Nei ég var ekki leynivinur né átti slíkan en leynigiggin voru tvö þessa viku.

Í hádeginu á miðvikudag var hún Hallveig systir leynigestur hjá Gerrit á hádegistónleikum í Fríkirkjunni. Meðal annars söng hún Ekkóaríuna úr Jólaóratoríu Bachs (maður þorir ekki annað en að nefna höfund, það var jú verið að frumflytja glænýja jólaóratoríu eftir Sigurð Sævarsson í Hallgrími um daginn, en þetta var semsagt úr þeirri þekktu). Þar vantaði ekkóið og ég fékk þann heiður að bergmála. Gríðarlega skemmtilegt að vera leynigestur hjá leynigesti.

Svo í dag, föstudag var annað leynigigg. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Áskirkju hafa verið að flytja Messías síðustu daga í Hörpu. Hljómeyki var með í því giggi í fyrra en ekki í ár en þegar til stóð að Sinfónían yrði með flashmob uppákomu í Kringlunni var kallað í Hljómeyki til að taka þátt. Þetta var ógurlega mikið leyndarmál, ég meira að segja neitaði að segja fjölskyldunni frá þar til ég reyndar laumaði þessu út við Jón Lárus í morgun.

Svo kom póstur í dag þar sem lýst var hvernig við skyldum fara að. Tvítekin uppákoma, hljómsveitin laumaðist smátt og smátt inn til að spila Pastoralsinfoniuna úr fyrsta þætti Messíasar, án endurtekninga og síðan tóku kórarnir undir í Hallelújakórnum. Í lokin bættist meira að segja Kór Neskirkju við ofan af svölum.

Allt var þetta tekið upp á vídeó, hlakka til að heyra. Þetta var gríðarlega mikil stemning, eiginlega meiri en ég gerði ráð fyrir, hélt að þetta myndi hverfa upp í Kringlugeiminn en það semsagt gerðist bara ekki neitt og ég fékk þvílíka gæsahúð þegar Neskirkjukórinn þrumaði lokapartinn með okkur ofan af svölum.

Þetta hlýtur að detta inn á youtube, vísa í það þegar það kemur.

Uppfært. Ekki enn á þérröri en hér

og hér líka. Eins og ég sé er hljóðið ekki samferða myndinni en annars skemmtileg myndataka. Takið sérstaklega eftir ræstitækninum!

Þar kom þetta:

Flashmob í Kringlunni

Messías

Í fyrra söng Hljómeyki í frábærri Messíasaruppfærslu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þar erum við ekki með í ár en Messíasarlaus er ég nú samt ekki, Kór Neskirkju ásamt Sinfóníuhljómsveit áhugamanna reddar málunum. Tvennir tónleikar, hinir fyrri voru í gær og síðan aftur á sunnudaginn kemur.

https://fbcdn-profile-a.akamaihd.net/hprofile-ak-snc6/276979_238460729614869_1684600601_n.jpg

Troðfull Neskirkja í gær, standing ovation og hrópað og klappað. Ógurlega skemmtilegt enda var gríðarmikil stemning á tónleikunum. Þann níunda verður stemningin allt öðruvísi en örugglega ekki verri, þar sem það verða sing-along tónleikar og fólk getur mætt með nótur og sungið af hjartans lyst. Býst við fullri kirkju af kórnördum og þakið ætti að fjúka af.

Verstur fjárinn að geta ekki bæði sungið og spilað! Það er ekki nokkur leið, allavega ekki sópran og aðra fiðlu (já ég er tekin við leiðarastöðu í annarri fiðlu, allavega fram á vorið).

Mæli allavega sterklega með þessu á sunnudaginn, veit ekki betur en þetta sé fyrsta skipti hér á landi sem boðið er upp á svona sing-along klassíska tónleika. Og ansi margir hafa jú sungið Messías gegn um tíðina. Mamma og pabbi eru búin að festa sér miða og finna til nóturnar.


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

desember 2012
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa