Sarpur fyrir maí, 2010

Dagur #10. Sigling og fleira

Jón Lárus vaknaði klukkan 6, alveg sérkennilegt hvernig þotuþreytan fer mismunandi í okkur, fór út að skokka um 7leytið og vakti mig svo rúmlega klukkan 8. Var búinn að láta renna svolítið í baðkarið til að sjá hvort hringiðan færi í öfuga átt þegar maður léti renna niður, það reyndist hún líka gera, sjá hér. Morgunmatur og sturta, og svo út.

Byrjuðum á því að finna út hvenær heppileg lest færi til Leura, í Bláfjöllum. Það reyndist klukkan rúmlega níu um morgun, ferðin tekur víst rúmlega 2 tíma. Meiningin að fara daginn eftir í Bláfjallaskoðunarferð.

Síðan gengum við til Darling Harbour, mun styttra frá hótelinu en Circular Quay, á leiðinni þangað komum við í Chinese Friendship Garden, þar gaf batteríið í vídjóvélinni upp öndina auðvitað – ég bara verð að fara að athuga með að fá aukabatterí í hana – allar myndir það sem eftir var dags voru teknar á símann minn.

Kínverski garðurinn er yndislegur, sáum ekki eftir aðgangseyrinum þangað inn. Aldrei að vita nema við förum aftur þangað, ekki langt frá hótelinu. Ógurlega flott eðla bjó þar á tehúsi sem við settumst inn í, gaman að fylgjast með henni.

Jón Lárus hafði lesið í ferðabókinni okkar um veitingahús í Darling Harbour, í hverju ættu að fást Hokkien núðlur. Fengum einu sinni sósukrukku með Hokkiensósu, ein albesta austurlenska krukkusósa sem ég hef á ævi minni smakkað, svo hætti hún auðvitað að fást hér heima. Núðlurnar á staðnum náðu ekki einu sinni upp í þessa sósu þarna, enda er þetta hokkien dæmi víst ansi vítt. Hins vegar var andarfjórðungurinn sem var með algjört sælgæti. Sáum ekki eftir þessum mat.

Niður að höfn, tímdum ekki í Sydney Aquarium 35$ á mann, kannski síðar. Tókum svo leigubát (water taxi) inn í Circular Quay, vorum bara tvö í bátnum og fengum fínasta spjall við leigubátsstjórann (hlýtur það ekki að vera starfsheitið?) Spurði að sjálfsögðu um eldfjallið…

leigubátur

Komin í Circular gengum við yfir í The Rocks, fórum aftur í Tónverkamiðstöð þeirra Ástrala, ég keypti einn disk með verki sem við höfðum heyrt á kórtónleikunum. Sá nóturnar líka en sleppti því að kaupa, best að leyfa stjórnanda vorum að heyra þetta fyrst. Nóturnar eru líka gefnar út af Ricordi í London, ekkert mál að panta þær bara ef vilji er fyrir hendi.

Ætlaði að kaupa annað verk líka á nótum, strengjakvartett eftir minna þekkt tónskáld en hann var þá ekki búinn að leggja verkið inn, væntanlega frekar glænýtt. Fékk emailadressu hjá tónskáldinu og ætla að hafa samband við hann. Hmm, kannski maður ætti að fletta manninum upp á smettinu?

Eftir miðstöðina heimsóttum við míkróbrugghús staðsett í elsta hóteli Sydney, alla leið efst uppi á Klettunum. Hreint ekki verst, þá Sydney Observatorium, mjög skemmtilegt stjörnuskoðunarsafn, þar heyrðum við líka þjóðsögu frá aboriginal frumbyggjum Sydney.

Þessi skilti sáum við á leiðinni til baka:

Svo var nú bara stímt inn á hótel, við bæði orðin dauðþreytt þó klukkan væri bara fimm. Klukkutíma til baka með smá stoppum reyndar, keypti töskuna sem ég féll fyrir nokkrum dögum fyrr, duttum inn í eina af alflottustu fornbókabúðum sem ég hef séð – allar bækur flokkaðar eftir stafrófsröð höfunda. Fann nú samt ekki það sem ég var að leita að (meiri Nix) en sáum Culinaria bók á nánast engu verði, ekki að vita nema við föllum fyrir henni, verði hún enn til í lok vikunnar.
Hótel, Jón Lárus “eldaði” kvöldmat, skar afganginn af nautasteik gærdagsins í þunnar sneiðar, örfáar flögur með og svo ost og múffukökur sem við höfðum keypt á leiðinni. Smá net og sofa.

Dagur #9. Fyrsti í túrist

Góð tilfinning að vakna og þurfa hvergi að mæta yfir daginn, geta bara gert það sem manni sýndist. Vorum reyndar bæði frekar illa haldin af harðsperrum eftir brimbrettið daginn áður. Hittum slatta af hátíðargestum í morgunmatnum en þeir voru nánast allir á leið heim, allir töluðu þeir líka um að vonast til að komast heim fyrir eldgosi.

Eftir morgunmat og smá netinnlit lögðum við í hann, markmiðið var Harbour Bridge, Óperuhúsið og Grasagarðurinn. Byrjuðum á brúnni, tók um klukkutíma að ganga þangað, reyndar með góðum stoppum, til dæmis Queen Victoria Building, hrikalega flottum búðakjarna, sáum þar skó sem mig dauðlangaði í (veit reyndar ekki hvenær ég hefði átt að ganga í þeim eða hvort ég eigi nokkurn skapaðan hlut sem passi við þá), en þar sem þeir kostuðu 600 ástralíudollara eða um 72 þúsund krónur var það eiginlega frekar langt út úr myndinni.

Margt mjög flott þarna í kjarnanum, steindir gluggar (sjá flickr síðuna) og æðisleg klukka sem sýndi dag, mánuð og ár í viðbót við tímann og svo var skip sem sigldi í kring um klukkuna, um öll heimsins höf. Klikkað flott.

klukka

Brúin klikkaði heldur ekki á því að vera glæsileg, milli brúarstólpa eru 500 metrar en við gengum talsvert lengra en bara þann kílómetra fram og til baka, ekki hægt að koma upp hjá stólpunum. Frábært útsýni, tók nokkrar myndir af Óperunni og fleiru á leiðinni. Sáum hús sem ég gæti vel hugsað mér að hafa sem sumarhús – svona næst þegar við eigum svo sem eins og milljarð sem við vitum ekki hvað við eigum að gera við.

húdið

Niður af brúnni, fengum okkur að borða á þaki veitingahúss í The Rocks með útsýni yfir höfnina og óperuhúsið. Steikur á tídollar, reyndust risastórar, með frönskum, klettakáli með balsamediki og unaðslegri sveppasósu, héldum að við værum að kaupa okkur eitthvað smotterí en þetta snarbreyttist í aðalmáltíð dagsins. Gátum hvorugt klárað steikina, ekki boðið upp á neina hundapoka á staðnum, ekki séns að við létum henda þessum eðalsteikum þannig að við grófum upp hreinan plastpoka úr bakpokanum og pökkuðum þeim til síðari nota. Hefði heldur lítið litist á meltinguna í undirritaðri ef hún hefði étið allan þennan klump.

lunch

Gengið meðfram Hringlaga höfn (sem er reyndar langtífrá hringlaga) að Óperuhúsinu. Tók stutt vídjó af aboriginal að spila á didgeridooið sitt og henti síðan nokkrum smápeningum í töskuna hans. Fyndið þegar hann ropaði Thank you í hljóðfærið.

Áfram að Óperuhúsinu og hringinn í kring um það, hættum reyndar við að fara í göngutúrinn um húsið í bili, fannst of gott veður til að fara inn í rúman klukkutíma. 25° og sól er bara pottþétt hitastig fyrir mig, ekkert betra að hafa heitara. Spáð aðeins kólnandi seinnipart vikunnar þannig að við ákváðum að sniðugra væri að fara þá. Húsið var myndað í bak og fyrir, auðvitað.

óperuhúsið

Grasagarðurinn beið okkar hins vegar handan við hornið, þangað fórum við og sáum ótrúlega mikið af exótískum plöntum og þar fyrir utan fullt af leðurblökum, stór leðurblökubyggð í garðinum. Magnað. Tók heil ókjör af myndum þarna líka, verst að vera ekki með betri myndavél.

leðurblaka

Heim á hótel, reiknuðum út að gengnir hefðu verið amk. 10 kílómetrar þennan daginn, slatti af þeim tröppur þannig að ekki var alveg laust við að við værum orðin þreytt í fótunum. Dim sum og öðru kínversku smotteríi kippt með sem kvöldmat, kosturinn við að vera á hóteli í Kínahverfinu sá að alls staðar var spennandi take-out matur, dim sum var annar réttur sem við þekktum bara úr Restaurant City. Óhemju gott að koma inn, ég fór í náttfötin og upp í ból að skrifa ferðasögu þó klukkan væri ekki nema sex. Fór svo nánast ekkert úr rúminu, kíktum á netið og fengum okkur smá ost og rauðvínsglas. Bara gott. Héldum okkur vakandi til klukkan 11 og hrundum svo út.

Hef annars steingleymt að setja hér inn stefið sem ABC classic útvarpsstöðin (klassíska deild stærstu útvarpsstöðvar í Ástralíu) notaði í upphafi útsendinga – stöðin tók upp alla tónleikana á hátíðinni, sumir voru sendir beint út, aðrir síðar, frábær stuðningur við svona hátíð.

Þræltöff stef, hlustið bara:
ABC ISCM theme by cyradis

Dagur #8. Síðasti í hátíð

Vaknað eldsnemma (þeas Jón Lárus vaknaði klukkan sjö og vakti mig hálfátta), morgunmatur og tekið sig til fyrir ferð út á strönd, hittumst 8 stykki niðri í anddyri og tókum tvo leigubíla á hina frægu Bondi strönd.

Ég held ég hafi aldrei komið á svona frábærlega flotta strönd áður, enda telst þetta víst ein af tíu bestu ströndum í heimi – ekki veit ég nú svo sem samt hvernig slíkt er mælt. Um kílómetra löng, 100-150 metra breið og tandurhrein, ekki arða af drasli. Sjórinn líka ótrúlega hreinn, sérstaklega miðað við að þetta er inni í miðri stórborg. Víst fullt af svona ströndum þarna. Sandurinn var pínu kaldur, enda ekki nema 17 gráðu hiti til að byrja með, mér finnst samt betra að hafa sandinn aðeins of kaldan en allt of heitan.

Sjórinn var yndislegur, ekkert sérlega heitur en svo sem bara svipaður hiti og í ítalskri sundlaug, pínu kalt að koma ofan í en vandist eins og skot. Svíinn í hópnum var mesta kuldaskræfan.

Anna, lókal kona sem var viðloðandi hátíðina var okkur þarna til aðstoðar, lánaði brimbretti og hjálpaði til – Kjartan var ansi hreint lunkinn á brettinu, við Jón Lárus vorum bæði búin að prófa minna og breiðara bretti og ætluðum að fá Önnu síðan til að hjálpa okkur með það stærra en þá lenti hún í smá óhappi, var reyndar gríðarlega heppin að tveir úr hópnum tóku eftir því að hún hafði flækst í snúrunni sem festir brettið við fótinn á manni og redduðu henni upp úr. Hver veit hvernig hefði farið, hún fékk talsvert högg á höfuðið og var ansi aum í smá tíma. Jafnaði sig samt vel, sem betur fór. En við eigum semsagt eftir að prófa almennilegt bretti.


nokkrir úr hópnum á leið út í öldurnar

Einum fremur bragðlausum ís síðar tókum við leigubíl upp á hótel ásamt flestum hinna, þau voru að fara heim til Evrópu en við á tónleika, rútan frá hótelinu átti að leggja af stað klukkan eitt. Kvöddum Kjartan með virktum í anddyrinu, öfundaði hann hreint ekki af því að vera að fara heim og það í óöruggt flug, dauðkveið fyrir því að festast kannski í Abu Dhabi ef ekki yrði flogið til London. Við ákváðum nú að hafa áhyggjur af því síðar, Eyjó gamli hefði nú viku til að jafna sig smá.

Tónleikarútan, sama gamla skrapatólið og hafði verið hópferðafarartæki allan tímann, lagði af stað upp úr eitt í unaðslegu veðri, hitinn hafði með morgninum mjakast upp í um 23 gráður og sólin skein í heiði. Ríflega klukkutíma akstur upp í Bláfjöll, þar komumst við næst kengúrum sem við höfðum gert (skilti við vegina um kengúruumferð). Þetta voru þeir tónleikar sem ég hafði hlakkað einna mest til, náttúrlega fyrir utan mína eigin tónleika. Kammerkór Sydneyborgar með spennandi prógramm.


Mjög flott orgel var í kirkjunni.

Það klikkaði heldur aldeilis ekki, gríðargóðir tónleikar. Ég ákvað strax að reyna að útvega nótur að einu verkinu eftir Ross Edwards, kíkja í tónverkamiðstöð Ástralíu og athuga hvort þau ættu verkið.
Í hléi tókum við fólk tali og sem oftar þurftum við að segja frá hvaðan við kæmum og hvað við ætluðum að gera í vikunni sem eftir væri. Fólkið reyndist hið almennilegasta (eins og reyndar nánast allir Ástralir sem við hittum) og buðu okkur að fara með okkur í útsýnisferð um Bláfjöll, þyrftum bara að koma okkur þangað uppeftir með lestinni. Ekki spurning að við tókum þau á orðinu, fengum netfang og símanúmer til að vera í sambandi síðar í vikunni.

Rúta aftur á hótelið, steinsofnuðum bæði á leiðinni. Þeir segja að það taki sólarhring fyrir klukkutímann að tímajafna sig fullkomlega, samkvæmt því náðu flestir ráðstefnugestirnir því alls ekki en við ekki fyrr en á fimmtudegi í seinni vikunni.

Út í kvöldmat, ákváðum að fara eitthvað austurlenskt út að borða enda hótelið í miðju kínahverfinu. 50 metra frá innganginum duttum við niður á kóreskan veitingastað sem okkur leist vel á, þar á matseðli var fyrirbæri sem heitir Dolson Bibimbap sem ég hafði aldrei heyrt um nema í leiknum Restaurant City sem ég spila á smettinu. Varð auðvitað að panta mér hann, því miður náði ég ekki að taka mynd af honum áður en þjónninn hrærði öllu saman, hann er borinn fram mjög flottur, allt grænmetið og kjötið sitt í hverju lagi í skálinni, hrá eggjarauða í miðju og svo er sett matskeið eða svo af rauðri kryddsósu og allt hrært saman á borðinu. Mjög góður matur.


Dolsot bibimbap.

Jón pantaði sér rétt sem hét Sewoo bokkumbap en það var talsvert venjulegri réttur, steikt hrísgrjón með grænmeti og rækjum. Líka mjög fínt. Fengum nokkra forrétti í skálum en þjónustan var svo hröð þarna að okkur vannst enginn tími til annars en rétt að smakka á þeim.
Pakksödd upp á hótel að slaka á eftir langan og mikinn dag. Jón Lárus skaust síðan út til að athuga hvort Formúlukeppni helgarinnar væri send út á næsta sportbar, það reyndist ekki vera, tveir risaskjáir, á öðrum vélhjólakappakstur og hinum ástralskt rugby. Keypum okkur sólarhringsaðgang að netinu á hótelinu (með aumingjalegu 200 Mb niðurhali inniföldu) til að hann gæti fylgst með tölulegu upplýsingunum – og ég kíkt svo á netið á eftir.


Formúlufíkill í aksjón.

Sérkennilegt, stundum er maður þreyttur en ekkert syfjaður, efast ekkert um að margir lesendur kannist við þann pakka, að farast úr þreytu en geta ekki sofnað. Þessi öfuga tilfinning – að vera syfjuð en ekki þreytt er frekar ný fyrir mér. Eiginlega bara mjög þægileg tilfinning, nema reyndar þegar maður vill ómögulega sofna, eins og stundum á tónleikunum í vikunni, það var bara ekkert við augnlokin ráðið. Gersamlega slökkt á manni.

Dagur #7. Út úr bænum

Þennan dag vorum við allan í burtu frá Sydney, tónleikar og fundir í Campbelltown, um 40 km fyrir sunnan og vestan borgina. Tókum rútu ásamt delegates klukkan 11 og keyrðum í frábæru veðri, sól og 23° hita til Campbelltown sem er víst ekkert sérlega skemmtilegur bær, var búið að segja okkur. Kom líka í ljós að það stóðst, allavega að einu leyti.

Kom reyndar ekki neitt þannig gríðarlega að sök þar sem við vorum eiginlega eingöngu í listasentri staðarins, hádegismatur og tónleikar klukkan eitt, gríðarlega flottir strengjakvartettstónleikar með áströlskum kvartettum, sérstaklega var sá fyrsti skemmtilegur.

Þetta flotta selló hékk uppi á vegg í sentrinu:

Þá var aðalfundur ISCM samtakanna í Civic Center bæjarins, við Jón Lárus nenntum nú ekki að hanga yfir því nema að litlu leyti. Fórum út og fengum okkur einn bjór. Á leiðinni niður í bæ lendir Jón Lárus hins vegar í (sem betur fer ekki alvarlegri) líkamsárás – hann segir betur frá því á síðunni sinni hér.

Bjórinn fengum við þegar við vorum búin að jafna okkur, hef nú reyndar setið á huggulegri bar, billjarðstofa og ekkert sérlega skemmtilegt lið en gátum sest út á svalir með fínu útsýni og í ágætis næði. Búin með bjórinn settumst við í ljómandi skemmtilegan garð og lásum þar til Kjartan sendi okkur sms um að spennandi hluti fundarins væri að byrja. Uppreisn og kosningar og læti, fór því miður ekki nógu vel að því er við vildum en ég er nú ekki að hugsa um að fara út í ISCM pólitík hér.
Bráðfínar kynningar á næstu hátíðum, Zagreb í Króatíu á næsta ári, Belgía með keflið 2012, Austurríki/Slóvakía með samvinnu 2013, Pólland 2014 og Slóvenía og Ítalía bítast um hátíðina 2015, það verður ekki ákveðið fyrr en á næsta ári. Nokkur framboð komu fyrir hátíðarnar 2016-2018, við vorum að pæla í hvort við ættum að stefna á hátíð hér heima en það liggur svo sem ekki á – ekki víst að fólk hefði tekið vel í slík framboð með eldfjallið logandi.

Blóm fyrir utan sentrið:

Öllum smalað í rútuna eftir að fundi var slitið (örugglega hálftíma seinna en búist var við). Aftur í Arts Center hvar boðið var upp á fingramat í kvöldverð, sem betur fer nóg af honum, allir voru orðnir sársvangir eftir langan dag.

Sá þarna gest með það alsíðasta hár sem ég hef á ævinni séð:

Seinni tónleikar kvöldsins voru vægast sagt ekki eins skemmtilegir og þeir fyrri. Flottur hópur frá Belgíu að spila en ésúsminn hvað flest verkin voru óhugnanlega leiðinleg! Varð þeirri stund fegnust þegar tónleikarnir voru búnir og við fórum í rútuna heim á hótel. Fórum beint í háttinn (við hávær mótmæli Færeyinganna sem vildu djamma) en þar sem planið var að fara á ströndina snemma morguninn eftir var var ekkert vit í að vera í einhverju rugli. Kíktum nú samt á netið í smástund, Jón Lárus hafði sofið nær allan seinni hluta tónleikanna og í rútunni heim var hann ekki sérlega syfjaður…

Dagur #6. Tónleikar

Taaalsvert skárri í maganum, ekki alveg góð en nægilega til að fara á stjá. Hittum Kjartan í anddyrinu, höfðum auðvitað frétt af stórfréttum að heiman, handtökum og látum. Get ekki sagt að við höfum grátið þær fréttir, það kom að þessu, loksins. Vonandi sem flestir bara og sem þyngstir dómar – leitt ef ég hljóma hefnigjörn en fólk á ekki að komast upp með svona lagað!

Philippa framkvæmdastjóri hátíðarinnar kom til okkar og spurði hvort við vildum koma á opið málþing, slógum til þó ekki væri til annars en að hitta aðeins fleira af fólkinu á hátíðinni. Málþingið reyndist hin besta skemmtun, skemmtilegir fyrirlesarar og vitrænar spurningar og athugasemdir úr sal.

Fundum loksins matvörubúð eftir málþing, keyptum reyndar ekkert þar sem við vorum á leiðinni beint á tónleika. Fundum líka risastóran draslmarkað, manni hefði fundist maður vera í Kolaportinu nema fyrir áströlsku mynstrin á bolunum og fleiru – og svo var gígantískur ávaxta- og grænmetismarkaður í staðinn fyrir rækjur og harðfisk. Fullt af afurðum sem maður hefur ekki græna glóru um hvað er, sumt merkt með nafni, annað ekki.


Fleiri á flickrsíðunni minni.

Keyptum smá bjór í ísskápinn – mig langaði bara í lítinn bjór og kippti með mér Urquell, 25 cl. Án þess að skoða hvað hann kostaði. Eftirá sá ég að hann hafði kostað nánast þúsundkall íslenskar. Nei, ekki á bar, í drykkjabúð (Ástalir leyfa ekki áfengi í almennum matvörubúðum en það er ekkert Ríki í dæminu, bara einkareknar drykkjabúðir, stundum og stundum ekki tengdar börum. Þessi var það ekki). Við reyndum að gúgla alcohol tax australia þegar við komum upp á hótel en það var ekki sérlega augljóst hver hann er, en hann má vera frekar fáránlega hár til að rúlla upp skattinum á bjór hér heima og fjórfalda síðan verðið. Já, það verður örugglega bót alls að leyfa einkasölu áfengis á Íslandi!

Tónleikar í Útvarpshúsinu klukkan eitt, frábært verk eftir Kristian Blak, annað ekki síðra eftir Hubert Stuppner, mig langar í það verk á upptöku. Þrjú önnur verk, eitt fyrir shakuhatchi flautu og strengi (annars voru þetta bara strengjatónleikar), það var alveg ágætt en hin tvö voru alveg óhugnanlega leiðinleg, pirrandi svona kortérs verk sem gersamlega ekkert gerist í . Ég reyndar var alveg búin að sjá á prógrammnótunum að þetta yrði ekki sérlega skemmtilegt – verk sem er innblásið og snýst um mismunandi hunangstegundir og sexhyrningslögun hunangssella bara hreinlega getur ekki verið skemmtilegt. Hitt gaf sig út fyrir að vera tónaminnisleikur eins og krakkar spila iðulega í tölvuleikjum, bara 5 tónar og mismunandi samsetningar þeirra. Bara 5 tónar allir í sömu legu NB. Ænei. Hugmyndin reyndar góð, verð ég að viðurkenna.

En Stuppner í lokin reddaði málunum, verkið hét 6 Mahler-myndir, unnið út frá stefjum Mahlers og hellings húmor í kring um þau, alveg án þess að það væri neitt ripoff af Mahler sjálfum. Væri til í að heyra meira eftir þetta tónskáld, sem var NB eina tónskáld tónleikanna sem ekki var á staðnum.

Hótel og skipta um föt fyrir mína tónleika, ákvað að fara ekki í fínu peysunni frá mömmu, mér yrði allt of heitt. Löbbuðum á stað sem við vissum um að hafði opið net, keyptum okkur hvítvínsglas (ég) og bjór (Jón) og sitthvora sítrónumarenskökuna. Eins gott að hvítvínið, bjórinn og kakan voru góð því ekki virkaði netið. Ástralir virðast vera frekar aftarlega í netnotkun, við sáum engan annan en okkur að reyna að nota netið og þegar við kvörtuðum var beinirinn endurræstur, okkur var sagt að það tæki kortér þar til hann virkaði. Dugði ekki til, ekkert gekk. Átti að vera ágætis hraði á þessu neti reyndar 54 Mb/sek en hjálpar ekki ef það virkar ekki neitt. Jón Lárus rak líka augun í afgreiðslukerfi í annars ljómandi fínni bókabúð, keyrandi á MS Dos. (Bókabúðin var annars fín – mig dauðlangaði í svona 6 bækur þar. Hver veit hvort ég freistist í eina eða tvær í vélina).

Tónleikar gengu gríðarlega vel, frábær barnakór, svei mér ef hann bara nær ekki Skólakór Garðabæjar hér í denn! Tók upp lagið mitt á vídjó, nú er bara að fá leyfi til að henda því inn á þúrörið.
(leyfi ekki komið en ekki nei heldur – lauma þessu inn)

Út að borða á “besta ítalska stað í borginni” með Kjartani og portúgalska sendifulltrúanum á eftir, frábærlega vel heppnaður dagur í allt.

Dagur #5 Lasin

Þetta vona ég að sé leiðinlega færslan. Vaknaði klukkan hálfsjö, stórskrítin í maganum, fór nú samt niður í morgunmat, upp aftur og tókst að steinsofna. Verri þegar ég vaknaði og nú með niðurgang. Efast um að það hafi verið matareitrun þar Jón Lárus var í fína lagi og við höfðum alltaf borðað sama matinn. Sendi hann út til að kíkja á netið – uppgötvaði síðan að ég komst á net á Safari, var bara Firefox sem virkaði ekki, væntanlega einhver spes stilling sem ég átta mig nú samt ekki á hver getur verið. Keypti mér tvo tíma og notaði annan af þeim til að tékka á póstinum og aðeins á smettið. Hélt svo bara áfram að lesa.

Vorum með heil ókjör af bókum með okkur, síðustu Stieg Larsson bókina, Bryson: A short history of almost everything, Ben Goldacre: Bad Science, Hafmeyjuna eftir Camillu Läckberg (jájá veit að sumir lesendur þola hana alls ekki en mér finnst hún bara ágæt), tvær af demigod bókunum eftir Rick Riordan, Stone Soup teiknimyndasögubók og eins og þetta sé ekki nóg þá rakst ég á Drowned Wednesday, þriðju bókina í Keys to the Kingdom flokknum eftir Garth Nix á tvo ástralíudollara í kassa fyrir utan bókabúð og stóðst ekki að kaupa. Eins og ég segi – nóg að lesa með í för.

Jón Lárus kom síðan heim hálffúll, opna netið á pöbbnum hafði ekkert virkað. Var glaður að heyra að ég hafði náð inn á hótelinu.

Tókst að klára tvær af léttlestrarbókunum á þessum lasinndegi, best að reyna að eiga eitthvað smá annað en Bryson og Goldacre eftir í flugið.
Það er kannski hægt að setja eitthvað út á hótelið hér, örlítið farið að eldast, baðinnréttingarnar frá 1960 eða svo og það sést, aðeins farið að flagna upp veggfóðrið á ganginum og herbergið mætti alveg við umferð af málningu. En rúmið var hrikalega gott, hvorki of mjúkt né of hart, líkt og rúmið hans bangsa litla. Herbergið mitt á hinu talsvert fínna Hotel Norge fyrr á árinu var mun smartara og flottara allt saman, en rúmið var af bangsamömmugerðinni, maður seig niður í miðjuna og ég fékk í bakið. Frekar aðeins minni flottheit en gott rúm, takk fyrir! Sérstaklega úr því ég eyddi nánast heilum degi í því. Engar myndir teknar þennan daginn.

Dagur #4. Æfing

Vaknaði klukkan hálfsex við að samkennari minn hringdi í mig, ekki vitandi hvar ég væri, skellti síðan á, skelfingu lostin þegar ég sagðist vera í Ástralíu. Fyndið. Gat svo auðvitað ekkert sofnað aftur, Jón Lárus hafði vaknað klukkan hálffjögur þannig að það var eiginlega bara nokkuð gott að hafa náð að sofa til hálfsex.

Niður í morgunmat, ljómandi ef spes, enskur og asískur heitur matur, pylsur og kartöflukökur, hrærð og soðin egg, tómatar og bakaðar baunir, núðluréttur, hrísgrjón og alls kyns sósur og heitt og súrt grænmeti, síðan jógúrt, ferskir ávextir (aðallega melónur) og múslí. Frábær brauðrist en bara sulta ofan á brauðið, engar skinkur eða ostar. Kaffi/te og múffukökur í desert – hmm hættulegt. Upp aftur að reyna að leggja okkur smá, væri best að værum alveg laus við þotuþreytu strax þennan dag. (HAHAHAHA)

Ég steinsofnaði og svaf örugglega í allavega 2 tíma ef ekki aðeins lengur þannig að nú var ég eiginlega alveg búin að ná mér upp. Jón Lárus sofnaði hins vegar ekki en fór í staðinn út að skokka. Drifum okkur síðan út undir hádegi, ætluðum á tónleika klukkan 1 í Sydney Conservatory of Music eða The Con eins og það er kallað. Lentum í hrikalegri hellidembu á leiðinni, urðum auðvitað að kaupa okkur regnhlíf (réttupphönd (o/) í kommentakerfinu þið sem munið eftir að taka út með ykkur regnhlífina sem þið keyptuð í síðustu útlandaferð þegar hellirigningin kom ykkur á óvart). Í regnhlífabúðinni rak ég augun í handtösku sem mig langaði í. Nei, keypti hana ekki – þá.

Fundum The Con, gríðarlega fallegt gamalt hús rétt fyrir innan Óperuhúsið eina og sanna, reyndar nútímaleg bygging sambyggð en nokkuð smekklega tengd við, sem betur fer. Æpti ekki á mann neitt. Fyrri tónleikar dagsins voru píanótónleikar, 4 verk 2 skemmtileg og 2 síðri, sofnuðum nú samt ekki neitt. Seinasta verkið var verulega flott, ungt bandarískt tónskáld sem spann út frá peningasvindli og alls konar “get rich quick” áætlunum, rafhljóð með, meðal annars frá kauphöllum og fleiru. Gæti hugsað mér að eiga upptöku af því.
Eftir tónleikana röltum við um fínu hverfin aðallega The Rocks, (101 Sydney), talsvert skemmtilegra en hverfið þar sem hótelið okkar er, en auðvitað dýrara líka.

Fundum staðinn sem Þorbjörn bróðir og Helga mágkona sátu og borðuðu, með útsýni yfir Óperuna, stendur til að stíma þangað í næstu viku einhvern tímann, þegar hátíðin er búin. Varla tími þessa viku, yfirleitt alltaf tónleikar klukkan 1, 6 og 8, og iðulega einhverjar móttökur og þannig á milli – maður verður jú að blanda geði við hin tónskáldin og ráðstefnugestina, annars væri lítið vit í að fara á ráðstefnu.
Rákumst á mest spennandi vínbúð Sydney, Jón hafði lesið um hana og ætlaði sannarlega að leita að henni en svo hrösuðum við bara um hana. Keyptum okkur 2 flöskur til að taka með heim.

Þegar klukkan fór að nálgast fimm, fórum við þar sem okkur hafði verið sagt að kórinn ætti að vera að æfa verkið mitt. Sem betur fer ákváðum við ekki að detta þangað inn á mínútunni fimm, vorum 20 mínútum fyrr á ferðinni, því kórinn æfði alls ekki þarna. Þetta var risastórt hús á besta stað með alls konar listaskrifstofum.

ÁTM

Ástralska tónverkamiðstöðin var þarna með heila hæð (heh, tónlistarhús), ballettinn, fílharmónían, já fullt af stofnunum, svona listamiðstöð. Greinilega gert vel við listir þarna. Æfingin var hins vegar aðeins lengra, í æfingaaðstöðu fílharmóníunnar. Vorum lóðsuð þangað og náðum á slaginu fimm.

Sydney Childrens Choir er yndislegur kór og stjórnandinn greinilega snillingur í að ná því besta út úr krökkunum, vissi alveg hvað hún vildi og kunni aðferðirnar við að ná því út. Kórinn söng lagið nánast óaðfinnanlega – hlakkaði verulega til að heyra tónleikana á föstudeginum.

Rukum beint eftir æfingu aftur í The Con, þar voru slagverks- og saxófóntónleikar að byrja. Inn á þá, nokkur ansi góð verk, sérstaklega það fyrsta sem var allt í plasti. Spilað á ruslatunnur með hárgreiðum og hitt og þetta annað. Æsingurinn var svo mikill í plastinu að settið hrundi um koll í lokin og flytjendur og salur fóru að skellihlæja. Þessi konsert (eins og reyndar píanókonsertinn daginn áður) var kynntur af ansi skemmtilegum útvarpsmanni á klassísku rásinni. Jóni Lárusi tókst að sofna á þessum tónleikum, en ég hélt mér nú vel uppi, enda hafði ég talsverðan svefn fram yfir hann. Eftir tónleikana var öllum boðið í smá móttöku á Árórubar (eða var það suðurljósabar?), þangað fórum við og fengum rauðvínsglas og smárétti og heillangt skemmtilegt spjall við kollega – og svo útvarpsmanninn góða. Hann varð spenntur að hitta á mig og vildi endilega að ég bæri fram nafnið á verkinu inn á diktafóninn sinn. Ég náttúrlega ýkti errin svolítið: Carrrmen Frratrrrum Arrvalium, hljómaði víst eins og hálft eldfjall.

eggin

Allir sem við töluðum við, frá afgreiðslumanninum í vínbúðinni góðu, gegn um diplómata frá Nýju Gíneu og tónskáldi frá Eistlandi til útvarpsmannsins töluðu um eldsumbrotin – vínafgreiðslumaðurinn vissi meira að segja meira en við, hafandi ekki komist á net í 2 daga – og allir spurðu hvort hefði verið vandræðum bundið að komast í burtu. Ekki vildum við nú meina það, en vonuðumst til að það yrði ekki vesen að komast heim aftur…
Allir Sydneybúar sem við hittum voru annars hinir almennilegustu og indælustu, ég kann mjög vel við andann í þessari borg. Fólk stekkur til óumbeðið að hjálpa rugluðu túristunum úti á götu og afgreiðslufólk í búðum er ótrúlega hjálpsamt og vingjarnlegt.
Eftir móttökuna gengum við þessa tvo og hálfan kílómetra heim á hótel, fáránlega gott að komast í náttföt og ból og skrifa ferðasögu með rauðvín í vatnsglasi.

smá pása

frá ferðasögunni til að monta mig af stráksa mínum og hinum guttunum í Drengjakórnum.

Hér er myndband úr Kastljósinu í gær sem sýnir þá:

Finnur er í nærmynd á 1:16

Dagur #3 Syfja

Ég hreinlega átta mig engan veginn á hvenær þriðji maí hætti og sá fjórði byrjaði, þeas hvaða tíma ég ætti að miða við. En einhvern tímann nætur svissaði nú yfir.

Þessi leggur var nokkurn veginn svona:
Abu Dhabi-Muscat-Goa-síðan sveigt fram hjá indónesískri lofthelgi af einhverjum ástæðum-norðaustur Ástralía-Sydney. Flugum nánast beint yfir Uluru (Ayer’s Rock) en það var kolniðamyrkur þannig að við hefðum ekki séð hann þó við hefðum verið vakandi.

Horfði á Sound of Music, hef ekki horft á þá gömlu mynd í örugglega 30 ár – held eiginlega að mér þyki okkar Borgarleikhúsútgáfa bara betri ef eitthað. Góð aðferð samt til að eyða þremur tímum af þessum 14. Ein bók kláruð og byrjað á annarri.

Eitthvað hafði klikkað í talningunni á morgunmatnum, það vantaði eina 2 bakka og auðvitað var það ég sem lenti í því – fékk bakka ætlaðan starfsmanni og engan heitan – eða þó, fékk reyndar heita ávaxtaköku, mjög góða en undarlega sem morgunmat. Jón Lárus gaf mér svo helminginn af sínum heita bakka.

Lent í Sydney, nokkuð áfallalaust gegn um vegabréfaskoðun og toll, leigubíll niður á hótel, frekar sjabbí en unaðslegt að komast í sturtu og hrein föt! Kvöddum Kjartan sem var á leið á fund, lögðum okkur í örstutta stund, ætluðum að reyna að halda út eins lengi og hægt væri yfir daginn, Einhver nettenging var í herberginu en mér tókst ekki að tengjast við innskráningarsíðuna, og svo virkaði fína adapter græjan ekki fyrir tengilinn á tölvu bóndans (MUU) pinnarnir á klónni voru of sverir. Netið á herberginu var síðan rándýrt, lúshægt (11 MB á sek) 20 ástralskir dollarar per sólarhring. Ætli Ástralir viti ekki hvað hotspot er, annars? Þessi netþjónusta virðist vera víða á hótelum og ef hótelið er dýrara þá er netþjónustan líka dýrari.

En röfl búið. Eftir þessa smáhvíld skoðuðum við kortið og röltum okkur síðan út og að við héldum í áttina að höfninni. Sólin í norðri snarruglaði okkur hins vegar, fórum í rammvitlausa átt og áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir nokkur hundruð metra. Niður að óperuhúsi voru um tveir og hálfur kílómetri þannig að mér leist ekkert á að labba kannski 6 km svona dauðþreytt, við fórum aftur á hótelið, náðum í allar hátíðarupplýsingarnar og eyddum dágóðum tíma í að skoða hvar atburðirnir væru. Langflestir voru í þokkalegu göngufæri, þar á meðal allir tónleikar dagsins. Þeir fyrstu áttu að vera klukkan eitt, þegar þarna var komið var klukkan um ellefu. Ákváðum að rölta á tónleikastaðinn, sem var tæpan kílómetra í burtu.

Á leiðinni svipuðumst við um eftir kjörbúð, í herberginu var ágætis ísskápur og gott væri að geta sparað að þurfa að fara út að borða tvisvar á dag. Á svæðinu var hins vegar afskaplega lítið um búðir, aðallega litlar austurlenskar búðir (fundum síðar út að við vorum í miðju kínahverfi Sydney), og nokkrar 7-11 búðir. Allt rándýrt.

Tónleikastaðurinn var fremur auðfundinn, þetta reyndist vera í Útvarpshúsi þeirra Ástrala. Vorum klukkutíma of snemma, settumst á kaffihúsið í útvarpshúsinu og fengum okkur sitt hvorn bjórinn.

Aðeins út aftur, þotuþreytan var við það að ná tökum á okkur.
Ég held að þessir tónleikar hafi verið mjög skemmtilegir, 21 örstutt píanóverk eftir jafnmörg tónskáld og flutt af jafnmörgum píanónemendum í Tónlistarháskóla Sydneyborgar. Við steinsofnuðum bæði, hinsvegar, þannig að við getum lítið sagt. Vona við höfum ekki hrotið – tónleikarnir voru í beinni útsendingu á klassísku rás útvarpsins.

Ákváðum að þetta þýddi ekki neitt, keyptum okkur eitthvað að drekka og tvö risastór kjúklingalæri á kínverskum skyndibitastað, fórum upp á hótel, borðuðum og ætluðum síðan að leggja okkur í 3 kortér. Kortérin breyttust í klukkutíma, vöknuðum aftur þremur tímum seinna, svo var spurning um að halda sér vakandi eins lengi og hægt væri fram á kvöld. Vorum hvorugt á því að gera neitt um kvöldið – ekki séns. Lágum bara uppi í rúmi og lásum þar til við ultum út af um hálfellefu um kvöldið.

Dagur #2. Fluuuuug

Annar dagurinn hófst og endaði á flugi, tvö löng flug þann dag og ekki langur tími á milli. London-Abu Dhabi var “bara” 7 tímar, ansi mikil þrengsli þar sem vélin var nokkuð vel setin. Maturinn og þjónustan voru hins vegar alveg til fyrirmyndar, fengum matseðil og gátum valið þar úr þremur mismunandi aðalréttum, tveir forréttir (salat og rækjuréttur á hrísgrjónabeði – merkilegast að það var ferskt kóríander í grjónunum en svo lítið að ég gat samt borðað, allt hitt bragðið var svo gott að það yfirgnæfði sápubragðið), Jón Lárus og Kjartan völdu báðir kjúkling en ég lax, reyndar hikandi en sá ekki eftir því, laxinn var hárrétt eldaður, meyr og safaríkur með spínati og sítrónusósu og kartöflubátum. Aprikósuterta á vanillusósu í eftirrétt (nei, ekki vanillusósa á aprikósutertu). Já og það voru ekki plasthnífapör heldur stál – það hefur maður ekki séð lengi í flugi.

In-flight entertainment system (hvurn dauðann er það eiginlega á íslensku?) var á svipuðu róli og í Icelandair vélunum nema reyndar talsvert mikið meira úrval af myndum og sérstaklega sjónvarpsþáttum. Horfði á einn Bones þátt, aldrei séð þá áður þó ég haldi upp á Kathy Reichs. Hljóðið við skjáinn hans Jóns Lárusar bilaði, létum endurræsa kerfið hjá honum og þótti merkilegt að það var keyrt á Linux Red Hat. Hjálpaði hins vegar ekki upp á bilaða hljóðið, ég bauðst til að skipta við Jón þar sem ég ætlaði að leggja mig.

Í vélinni var svo möguleiki á hleðslu fyrir tölvur, reyndar ekki net – ég hefði samt ekki verið neitt sérlega hissa þó það hefði verið.
Nógu var dælt í okkur af vökva, vatn eins og hver vildi, safar og gos og vín og drykkir, höfðum nú samt vit á að kafa ekki djúpt í slíkt. Fékk mér samt eitt rauðvínsglas, helst til að hjálpa mér að sofna. Ég hef nú sofið betur í flugvél samt, ansi hreint óþægilegt þegar plássið er svona lítið.

Flugleiðin var nokkurn veginn: London-Búkarest-Ankara-Shiraz-Abu Dhabi. Ætli bandarísku flugfélagi hefði verið hleypt til að fljúga yfir Íran? Ekki er ég alveg viss um það.
Klukkan sjö um morguninn eða svo var aðflug að Abu Dhabi. Sáum manngerðu pálmablaðseyjuna í Dubai út um flugvélargluggann, þrátt fyrir heilmikið mistur. Magnað, þrátt fyrir ljóta sögu bak við það. Var því miður ekki með myndavélina uppi við, ræni hér einni af netinu.

Ákvað að þar sem klukkan heima væri 4 um nótt væri kannski ekkert sniðugt að senda statusupdate heim og hræða Fífu.
Flugstöðin í Abu Dhabi var líklega sú flottasta sem ég hef komið inn í. Allt í marmara og skreytingum og hvergi skítugt né druslulegt – sjálfkrafa sápuskammtari á klósettunum og meira að segja sturtað niður fyrir mann, ég veit reyndar ekki hvað ég var hrifin af því, er manísk með að vera búin að loka settinu þegar ég sturta niður.

Keyptum okkur vatn og kaffi og flögur í flugstöðinni, allt var frekar (ef ekki mjög) dýrt þarna, mér hafði verið sagt að það væri hægt að gera mjög góð kaup í gulli í Abu Dhabi en úr því við vorum ekki í neinum gullhugrenningum létum við innkaup alveg eiga sig þarna. Höfðum hneykslast á því að finna ekki opið net á kaffihúsi flugstöðvarinnar en síðan þegar við komum niður í biðsal var þetta fína ókeypis netsamband þar. Held nú líka að ríku olíufurstarnir hafi efni á að splæsa fríu neti á ferðalanga. (hmm ekki gera nú reyndar olíufurstarnir í Noregi það samt).

Umhverfið var sérkennilegt, allt gulgrátt, ég hef aldrei komið í eyðimörk áður. Endalaust sandrok úti um allt, reyndar mesta furða að það barst enginn sandur inn í flugstöðina.
Í inntékki í Sydneyvélina reikna ég með að minnst hafi verið um öryggisfanatisma í ferðinni – (fordómaviðvörun) væntanlega reikna þeir ekki með að neinn sprengi neitt hjá sér, þeir flytja slíkt út en nota ekki heima hjá sér.

Við Jón Lárus höfðum fengið sæti nánast aftast í Sydneyvélinni, aðeins stærri Airbusvél og við sátum í 45. röð við glugga og næst við.
Vélin ætlaði ekki að komast af stað í sandrokinu, fyrst biðröð, þá eitthvað tæknivesen (eins gott að maður er ekki flughræddur) og síðast meiri biðraðir.
Flugturninn er ansi flottur þarna:

Álíka mikið pláss milli sætaraða en þessi vél var ekki nándar nærri eins full. Ég dreif fljótlega í því, eftir að sætisbeltaljósið hafði verið slökkt, að veiða okkur miðjuröð til að geta lagt okkur, það reyndist sniðugt því ansi margir voru á höttunum eftir sama. Bjargaði þessari 14 tíma ferð algerlega. Fengum ágætis meðvind þannig að þessi töf í byrjun kom ekki að sök.

Ástralía dagur #1 Hálfa leið

Jæja, komið að ferðasögu á blogginu – klárt hún er aðallega fyrir sjálfa mig, ef ykkur leiðist þá bara hættið að lesa…

Venjubundið morgunvakn um fimmleytið, sturta, ræsa krakkana til að kveðja að heimtingu þeirra kvöldið áður. Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélagsins og ferðafélagi okkar til Ástralíu náði í okkur í leigubíl og keyrðum út á völl, afskaplega þægilegt, Fífa slapp við skutlið suðureftir sem við vorum annars búin að panta.

Líka alvanalegur morgunmatur, heitt súkkulaði og croissant, eilítið verslunarspree, ekkert að ráði samt, aðallega bækur að lesa á leiðinni. Ætluðum að láta færa okkur upp í Economy Comfort, spurði um það við hliðið en fékk afskaplega morgunfúla afgreiðslufrauku sem hvæsti á mig að það þyrfti að gerast í Saga Lounge. Úti í Noregi hafði ég hins vegar verið send á hliðið til uppfærslu – hvurnig á maður að vita svonalagað. Nevermænd, of seint að fara til baka, yrðum að “þola” venjulegt farrými.

Tekið á loft í skýjuðu en eftir smástund var flogið kringum Eyjó gamla, fengum frábært útsýni yfir fjall og gos. Kom að því að við sæjum þetta, höfðum ekkert farið að þvælast austur til að sjá.. Ótrúlega magnað að sjá þetta þó í fjarlægð væri. Kannski maður kíki nú austur með krakkana í sumar ef þetta heldur áfram.

Við Jón Lárus borðuðum helminginn af nestinu okkar í vélinni, dæmigerðir Íslendingar sem geta ekki verið án þess að borða flatkökur og hangikjöt, iii djók.

Nenntum ekki að draga upp bækurnar og byrja að lesa, það er svo stutt flug til London. Smá hindranir í fluginu, þeas. lendingunni, allt í fína heima en þurftum að hringsóla í góða stund áður en við gætum lent, síðan var flugvél fyrir við rampinn, svo vantaði einhvern til að lóðsa vélinni upp að rampi, þá bilaði eitthvað í rampinum. Komumst loks inn en seinna um daginn sáum við Æslander vélina fara á loft greinilega talsvert of seint. Augljóslega enn verið að vinna úr goshnútnum.

Sendi Fífu sms með status til að láta vita að fyrsti flugleggur væri afstaðinn og hefði gengið vel.

Lent í London, kalt og rigning þannig að við ákváðum að hanga bara í flugstöðinni í stað þess að fara inn í borgina. Fórum yfir á Terminal 4, hvaðan Abu Dhabivélin átti að fljúga um kvöldið. Almennilegur afgreiðslumaður Etihad Airways afgreiddi okkur og hafði áhyggjur af því hvort við byggjum nálægt eldfjallinu og hvort heimili okkar væru í hættu.

10 tímar á flugvelli er hins vegar laaaaangur tími. Fengum okkur borgara og risavaxnar franskar á fyrsta veitingahúsinu sem við fórum inn í, bragðaðist ekki alveg eins vel og hann leit út samt,

Fórum síðan að leita að einhvers konar business lounge, bökkuðum út úr ríkmannlegu Etihad lounge en fundum að lokum eitthvað lounge sem priority passinn gaf aðgang að gegn greiðslu – það kostaði hins vegar 20 pund fyrir 3 klukkutíma og 40 fyrir níu tíma. Tímdum ómögulega 80 pundum fyrir okkur tvö, rándýrt, þannig að settumst á Starbucks með kaffibolla í staðinn. Flugstöðin var nærri tóm. Keyptum bækur og smá apóteksvörur rákumst svo á uppáhalds súkkulaðið okkar og ákváðum að kaupa á leiðinni heim.
Loungið var fínt, vel 20 pundanna virði. Bæði mun rólegra og svo drykkir og léttur matur eins og hver gat í sig látið, ágætis tómatsúpa og brauð. Gátum ekki hlaðið tölvurnar okkar þar reyndar – hefði alveg verið hægt nema við vorum ekki með réttar klær. Kíkti á netið eins og hleðslan leyfði. Út fórum við eftir tímana 3 sem við höfðum keypt, þá var sest inn á pöbb og einn bjór treindur þar til tími var kominn til að fara út að hliði. Fundum þar innstungu og mig langaði svoooo til að geta hlaðið vélina mína að þegar ég rak augun í raftækjaverslun beint á móti pöbbnum skaust ég þangað og fann þessa líka fínu græju, allsherjar adapter nánast frá öllum löndum í öll til baka. Þar sem við höfðum hvort sem er ætlað að kaupa okkur aðlagara í Ástralíutengla var þetta náttúrlega algjör snilld. Hlóð vélina mína þar til við stóðum upp af pöbbnum. Kjartan gat náttúrlega ekki verið minni maður og keypti eins tengigræju.

Hafði rekið augun í hrrrrrrikalega flotta fjólubláa handtösku í Harrods bási fyrr um daginn en ekki lagt í að gá hvað hún kostaði. Varð samt eiginlega að vita það, þannig að ég kíkti á leiðinni í vélina. Taskan kostaði rúmlega 1260 pund. Já nei takk! Svo illilega vantaði mig ekki tösku að ég tímdi 250 þúsund kalli í hana.

Loks kom að Abu Dhabi fluginu, um 10leytið um kvöldið. Þokkalega stór Airbusvél, 7-8 sæti yfir ganginn en því miður er ekki hægt að segja að það hafi verið mikið pláss fyrir fæturna á manni. Hefði ekki viljað vera langleggjuð í vélinni, ég rak hnén í sætið fyrir framan og þá er nú mikið sagt.

Upp á annað var reyndar ekki að klaga í fluginu, nánar á morgun.

flottir víólukrakkar

spiluðu á vortónleikum Suzukiskólans í Grensáskirkju um daginn.

Hér er tíáringurinn gríðarlega einbeittur:

Takk Meinhorn fyrir að taka myndir fyrir mig…

mikið er nú gaman

að sjá fram á að fara lasin í laaaaaaaaanga flugið í fyrramálið!

Haus stútfullur af kvefi og rödd ekki til staðar en ég er allavega ekki með hita (hananú, ætli ég vakni þá ekki með hita í nótt)?

Ætla nú samt ekkert að hætta við…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa