Sarpur fyrir mars, 2011

alveg er ég viss um

að fullt af Neiurum er búið að fela mig á smettinu, búin að vera allt of aktíf að plögga já í málinu sem má ekki nefna.

En nóg um það, bloggið á að vera frísvæði.

Byrjuðum á Béfætinum, níundu sinfóníunni á æfingunni á mánudaginn var. Við Hljómeykisfyrstusóprönur fundum tæpast fyrir hæðinni enda í fínu formi eftir Schnittke. Hlakka annars verulega til að fara á fyrstu æfingu í Hörpu eftir rétt ríflega mánuð. Fór þangað um daginn að skoða, Eldborgin er að verða ansi hreint flott bara, myndin sem ég tók var því miður ónýt en þetta svæði verður líka skemmtilegt:

Svo stendur til að endurtaka Schnittke, erum að reyna að koma saman dagsetningu (plís plííís!). Það var ótrúlega magnað að flytja þetta, ég er búin að setja þrjá af fjórum köflum á netið. Hér fer sá fyrsti. Tek samt fram að það að horfa og hlusta á upptökur af þessu er ekkert nálægt upplifuninni af tónleikum, fullt af fólki sem kom í Guðríðarkirkju er búið að segjast koma aftur í bænum. Ein keyrði meira að segja upp í Skálholt daginn eftir fyrri tónleikana og hlustaði á þá síðari.

Já, kaflinn…

nærri kominn

apríl, magnað! Er annars ekki vorið örugglega komið? Svona burtséð frá páskahretinu. Tíu vikna önnin í LHÍ búin, hljóðfærafræði mannsraddarinnar kúrsinn minn byrjar á morgun, hvorttveggja öruggir vorboðar hér á bæ. Séð allavega 4 kvarta yfir hundaskít undan snjónum og bóndinn sá götusópa að verki. Einnig pottþéttir vorboðar. Fuglar hvað?

Og sveimérþá ef það er ekki séns á að páskaliljurnar mínar verði útsprungnar um páskana, aldrei þessu vant. Krókusar og vetrargosar byrjaðir að blómstra. Ekki samt alveg komnir svona langt:

Lokadagur og heim

Eins og það var nú þægilegt að byrja ferðina á að þurfa ekki að vakna snemma og flýta sér grútsyfjaður út á völl er frekar óþægilegt að þurfa að tékka út af hótelinu fyrir hádegi (sekt ef maður kemur mínútunni eftir tólf) þegar flugið fer ekki fyrr en níu um kvöldið. Vöknuðum á skikkanlegum tíma, fórum út í morgunmat og svo aftur upp á herbergi að pakka í rólegheitum. Einhverjar drifu sig strax klukkan 10 í meiri búðir, við vorum eiginlega komnar með nóg. Næstum nóg allavega.

Heilmikil rekistefna með töskumál, ég var skíthrædd um að stóra taskan mín væri komin langt yfir þessi 23 kíló sem má vera. Vorum búnar að fá skilaboð um að vélin væri gersamlega stappfull og það yrði ekki gefinn gramms afsláttur af leyfilegri þyngd jafnvel þó maður væri bara með eina tösku, yfir 23 kíló = sekt. Samt var í lagi að vera með tvær töskur sem hvor vó 23 kíló. Spes. Ég var semsagt bara með eina og þó ég hefði ekki misst mig algerlega í verslunarleiðöngrum var hún vel troðin og ansi þung. Bryndís var með tvær, sú minni greinilega miklu léttari og leyfði mér náðarsamlegast að hlaða. Hún fékk að bera allar bækurnar og skóna en það þyngsta voru náttúrlega vínflöskurnar og ekki að ræða það að ég setti þær yfir. Best að hætta bara á að skemma mín föt og dót ef flöskur myndu taka upp á því að brotna í meðförum flugvallarstarfsfólks eða álíka.

Jæja, út skráðum við okkur, ekki penní aukalega á herberginu (reyndar hissa á því þar sem ein ferðafélagsveran hafði fengið að hringja hjá okkur, síminn í hennar herbergi virkaði ekki) en kvartaði ekki. Töskur í geymsluherbergi hótelsins yfir daginn, nóg að vera á hálfgerðum hrakhólum fram til sjö um kvöldið þó ekki þyrfti maður að dragnast með níðþungan farangur líka. Selvfølgelighed færslunnar afstaðin.

Eitthvað vorum við búnar að ætla okkur að hitta á hinar, enn í Prudential en á endanum nenntum við ómögulega þangað úteftir, fórum frekar að skoða Faneuil Hall Market Place. Auðvitað var það svo langskemmtilegasta svæðið, dauðsáum eftir að hafa ekki verið mikið meira þar. Bryndís sá sparitösku sérstaklega merkta henni í búð. Tímdi henni samt tæpast, frekar dýr. Sett í salt.

Löbbuðum niður að höfn, hefðum viljað fara í siglingu en hafnarskottúrarnir byrja víst ekki fyrr en í maí, þannig að það var út úr myndinni.

Skutumst upp á Washington Street, fengum okkur borgara á Wendy’s stað – úfffff hvað það voru mikil vonbrigði, mundi eftir að Wendy’s höfðu verið langskemmtilegustu skyndibitastaðirnir þarna í fornöld þegar ég fór síðast til BNA, borgarinn var ágætur svo sem en staðurinn verulega sjabbí. Dauðsá eftir að hafa eytt dýrmætri svengd í stóra matarlandi á svona rusl. Stefndum síðan á Macy’s vöruhúsið, enn vantaði Bryndísi allavega eitt ef ekki tvö ilmvötn. Var ég búin að nefna að meðal afraksturs ferðarinnar hjá henni voru 7 svuntur og 5 mismunandi ilmvötn, annars?

Í búðinni skildu leiðir, hún fékk annað ilmvatnið sem hana vantaði og ég fékk – húrra, sumarjakka, eða reyndar stutta sumarkápu. Og ég sem var annars búin að gefa upp von um að finna slíkt. Búin að leita alveg slatta, fann annaðhvort dökkbláa eða svarta jakka eða þá beige og ég þoli ekki beige! Þarna var hins vegar enn bleikari kápa en jakkinn minn slitni heima. Vérí happí, sérstaklega þegar afgreiðslustúlkan straujaði eitthvað Macy’s kort og ég fékk 25% afslátt af henni alveg óumbeðið.

Aftur til Faneuil Hall. Svakalega flottur matarmarkaður, verst að vera ekki svengri eftir árans borgarann! Röltum þarna um í góða stund, eitt ilmvatnið til keypt í Abercrombie & Fitch (draumabúð dætra minna en ekki ódýr).

Settist og horfði á einhvern Houdiniwannabe sem var rígbundinn og hengdur upp á fótunum en tókst auðvitað að losa sig, á meðan Bryndís keypti sér töskuna. Hlakka til að sjá hana í notkun (Bryndís, átt inni matarboð, þó ekki væri nema fyrir að halda á heilum bókaflokki og þrennum skóm fyrir mig til Íslands. Verður að koma með töskuna!)

Alveg hef ég gleymt að segja frá aðaltískunni í Boston. Gúmmístígvélum í öllum stærðum og gerðum, litum og lögunum. Örugglega ekki langur tími þar til við förum að sjá svonalagað hér heima:

Snemmbúinn kvöldmatur á Wagamama, ágætt en kannski pínulítið ofmetið. Gæti haft eitthvað með að gera að í innihaldslýsingunni á salatinu mínu var ekki minnst á engiferinn (þetta rauða) sem ég tíndi svo allan ofan af, svo var líka fullmikið fyrir minn smekk af baunaspírum.


Samt ekki vont, hreint ekki vont og bjórinn var góður:

Nújæja, kominn tími á að drífa sig aftur upp á hótel, höfðum ætlað að hitta hinar klukkan sex í anddyrinu. Nokkrar voru komnar og við lögðum alveg undir okkur herbergi með hægindastólum næsta klukkutímann eða svo, endurraðað í töskur og fært á milli, smá bjór og hvítvín og enn meiri hlátur. Allar vorum við orðnar tilbúnar til að fara heim. Leigubílar út á völl, taskan mín vó 23 kíló og 100 grömm, fékk að færa örlítið í viðbót yfir (fjúkk). Nokkuð nákvæmt bara.

Inn í flugstöð, dæmigert, ekki miklar raðir samt, fór að leita að Tax-free booth, fann enga en fór í gjaldeyrisskiptibás, þurfti reyndar að bíða þar í óratíma eftir einhverjum manni sem var að skipta svo miklum peningum að ég gapti bara. Ekki dettur manni í hug að vera með svona seðlahrúgur á sér, ég myndi aldrei þora það. Nema hvað þegar ég loksins komst að, gat afgreiðslumaðurinn frætt mig um að State of Massachusetts borgar bara alls ekki til baka söluskatt. Hefði þurft að fljúga gegn um New York til þess eða þá fara til NH þar sem ég hefði getað keypt tölvuna skattfrjálsa. Garg.

En lítið við því að gera. Komst á netið í blessaðri tölvunni minni, sniðugt hjá þeim á Logan að maður getur komist frítt á net með því að taka svo sem eins og eina netkönnun frá fyrirtæki eða horfa á nokkrar auglýsingar fyrst. Hef hvergi komist á alveg frítt net á flugvelli nema reyndar í Abu Dhabi en þetta kemst næst því. Þarna datt inn afmælisdagurinn minn heima á Íslandi þótt ekki væri kominn sá fjórtándi að staðartíma. Var samt skálað fyrir mér.

Draslast út í vél, sátum svolítið á tvist og bast en gerði ekkert til, ég fékk hálfa svefntöflu hjá Önnu og tók hana um leið og ég var búin að koma mér fyrir í sætinu. Náði að lesa smástund og fylgjast með að við tókum á loft en svo gersamlega hrundi ég út, enda alls óvön svefnlyfjum. (man ekki eftir að hafa tekið slík áður, fyrir utan reyndar tvær svæfingar). Rumskaði varla fyrr en við lendingu en var þá nokkurn veginn stálslegin. Ég sem aldrei get sofið almennilega í flugvélum! Hefði viljað vita af þessu í Ástralíufluginu fyrir tæpu ári.

Leifsstöð, keyrt með okkur frá rana og að aðalbyggingu, lúxus, smotterí í fríhöfn, rauða hliðið með tölvuna og þetta smá auka vín úr fínu vínholunni, Jón Lárus sótti mig, keyrðum Bryndísi heim, hinar fóru í rútunni (nibb hefði ekki verið pláss fyrir eina til í bílnum, ekki séns! Stórar töskur, munið þið?)

Ahhbú ferð. Eftirmáli, ætlaði að reyna að halda mér alveg uppi þennan mánudag, var að kenna frá hálfþrjú til hálfsjö en gat ekki alveg, leyfði mér að sofna í einn og hálfan tíma um morguninn en fór svo að kenna og að sofa á nokkurn veginn eðlilegum tíma. Allt svefntöflunni að þakka, það er ég viss um.

og loksins

var komið að því að ég gerði eitthvað í þessari námsferð! Allir hinir kennararnir voru búnir að fara og sitja Suzukitíma sem mér fannst eiginlega ekki vera það sem ég þyrfti mest á að halda.

Reif mig á lappir snemma um morguninn og fór í heimsókn í New England Conservatory. Fékk að sitja tónheyrnartíma og skoðaði aðeins, skemmtilegt að sjá þennan fína skóla. Fékk slatta af nýjum hugmyndum en líka sönnun á því að ég er ekki að gera svo vitlausa hluti í minni kennslu. Gaman. Kíkti á Symphony Hall líka:

Meðan á þessu stóð voru hinir kennararnir að hitta Suzukigúrú mikinn, það var víst líka ansi magnað.

Seinnipartinn – já getið hvað nema meiri – verslunarferðir! Ég var samt eiginlega búin að kaupa allt sem ég ætlaði nema reyndar skó á stelpurnar og sumarjakka á sjálfa mig í staðinn fyrir bleika gallajakkann sem þeir sem þekkja mig hafa bókað séð mig í – en var orðinn ansi hreint slitinn. Fengum okkur síðbúinn hádegismat á írskum pöbb, reyndi aftur við Buffalóeitthvað og aftur voru vængirnir svo níðsterkir að ég þurfti að taka mér pásu frá því að borða af og til, til að leggja í næsta bita.

Prudential Mall upp á nýtt og bókabúðin aftur. Keypti ekki mikið í þetta skiptið, eina bók fyrir flugið heim (sem ég nýtti svo reyndar ekki), fann Art Supply búð (hmm, reyndar á sömu slóðum og ég hafði verið um morguninn, smáspöl frá verslunarmiðstöðinni) og keypti gjöf fyrir elsta ungling. Hitti Bryndísi aftur í bókabúðinni, klyfjaða ilmvötnum. Kolféllum svo fyrir sömu svuntunni á standi úti á gangi og keyptum okkur eins, þessi mynd á þeim:

Bjór og aðra ostaköku á Cheesecake Factory (já, ekki hlakkaði ég svo sem til að koma heim og stíga á v….na), sem betur fer höfðum við vit á að deila henni.

Crate&Barrel aftur, ég væflaðist fram og til baka og upp og niður og pældi í blessuðum eftirréttadiskunum en svei mér þá ef ég stóðst ekki freistinguna enn og aftur. Keypti bara eitt pínulítið mæliglas. Meðan við vorum inni í búðinni kom inn einhver klikkaður maður og hrifsaði stóran búrhníf af standi rétt við dyrnar. Öryggisverðir komu að honum og annað starfsfólk reyndi að láta á engu bera til að skapa ekki panikástand í búðinni, hringjandi í 911 í hálfum hljóðum, ég hugsa að fólkið uppi á lofti og innst í búðinni hafi ekki endilega orðið vart við þetta (ekki stór búð). Einhvern veginn tókst þeim að koma gaurnum út, hníflausum, áður en lögreglan kæmi. Búðarstjórinn var alveg í öngum sínum, sagði okkur að fara endilega til vinstri þegar við fórum út, því sá klikkaði hafði haldið til hægri. Ég sagði okkur helst ætla í leigubíl og hann stökk strax út á götu og veiddi bíla fyrir okkur (vorum 5 og komumst ekki í einn). Ljótu lætin. Ég var samt aldrei neitt hrædd, var ekkert í neinu návígi við hann, maður bara færði sig innar í búðina og sá að hlutirnir voru nokkurn veginn undir kontról. Ævintýri samt.

Hótel, afhlaða, síðasta búðarferð dagsins. Höfðum síðan mælt okkur mót hjá skrifstofustelpunum um kvöldið og fólk skyldi sýna afrakstur dagsins. Bryndís átti alveg eftir að kaupa gjafir handa einum.

Yfir til þeirra sem var farið að lengja eftir okkur (samtal fært í stílinn)

Anna: Hmm, ætli Bryndís og Hildigunnur fari ekki að koma?
Arnheiður: Veit ekki, best að senda SMS
*sent* Erud thid a leidinni?
*svar* Erum ad versla a Lyd, komum eftir sma.
Arnheiður les upp svarið
Anna: Ha? Hvað er þetta Lyd? Gata? Búð? Af hverju erum við að missa?
Arnheiður: Hmm veit ekki, kannski eru þær bara að kaupa sér vatn?

Til baka til okkar sem vorum búnar að versla á Lyd – og skó á stelpurnar mínar. Upp á hótel, rétt inn í herbergi og svo til þeirra, með smá bjór og flögur, já og Haagen-Dazs jarðarberjaís, namm! Tekið með kostum og kynjum og hvítvínsglasi. Byrjuðum að sýna afraksturinn, þar á meðal frakka og gríðarflotta fjólubláköflótta skyrtu á Lýð, kærasta Bryndísar. Sem Arnheiður þekkir frá fornu fari og var farin að hafa áhyggjur af að Bryndís ætlaði ekki að kaupa neitt fyrir…

Síðar um kvöldið komu allir kennararnir líka upp á þetta herbergi, kjaftað lengi fram eftir kvöldi og ég hef sjaldan hlegið jafn mikið á ævinni. Snilldardagur.

og annar…

já sko, það var ekkert spennandi veður og ég hata söfn…

sem sagt áfram skal verslað.

Prófuðum morgunmatarstaðinn úti á horni, alveg þokkalegasti matur og taaaalsvert ódýrari en hóteldótið. Stóðst auðvitað ekki samanburð en fyrir svona sjöttapart af verðinu gerði það nú lítið til. Stefndum í Target ásamt Önnu og Arnheiði á skrifstofunni.

Leigubíll í Target, fjórar fraukur, varla búið að kveikja ljósin þegar við mættum á svæðið. Hmm. Ljósin voru ekki kveikt fyrr en við vorum eiginlega búnar – ekkert rafmagn og búðin var á vararafstöðinni og hreint alls ekki fulllýst. Starfsfólkið gekk þarna um með vasaljós til að sjá almennilega til. Verslunaróðu Íslingarnir voru nú ekkert að láta þetta á sig fá of mikið og stímdu um gangana. Ekki fékkst dótið sem Finnur hafði beðið mig að kaupa, satt að segja kannaðist starfsfólkið bara ekkert við hvorki NeoCubeCyberCube, sem Finnur vildi annars meina að væri heitasta nýja dótið í heiminum þessa dagana. (Komst svo að því þegar ég kom heim að þetta er ekki selt í búðum, bara á netinu – hefði viljað vita það þarna úti). Keypti því fullt af fötum fyrir hann í staðinn, hann átti nánast ekkert sem passaði á hann lengur greyið. Ekki að föt komi í staðinn fyrir flottasta dót í heimi svosem, í hausnum á 10 ára stráklingi. Bætt úr því síðar.

Alveg er ég ekki að hugsa um að telja upp allt dótið sem við keyptum þarna nema hvað sumar hinna drógu heim einhver ókjör af sjampói og snyrtivörum sem kosta þarna aðeins brot á við hér heima. Ég nennti nú ekki að kaupa birgðir sem myndu duga meðal klippistofu í mánuð þannig að ég lét föt á guttann duga þarna, hafði fengið dót fyrir unglingana daginn áður.

Við lok búðarferðar var sest inn á Starbucks og innihald poka borið saman yfir einum kaffibolla (jamm þeir gátu lagað kaffi, rafmagnið datt inn akkúrat þegar ég settist, var fyrst). Heita súkkulaðið var ætt en ekki mikið meira en það.

Svo reyndist þrautin þyngri að fiska leigubíl til baka á hótelið. Enga leigubíla að sjá lengi vel og þegar einhverjir komu voru þeir pantaðir. Bað einn bílstjórann að kalla á bíl fyrir okkur en það var ekki við það komandi, benti bara á hliðina á bílnum og sagði mér að hringja í númerið sem stæði þar. Nema hvað, áður en ég gerði það vorum við veiddar upp í bíl, stór og feitur náungi (ekki akfeitur samt) var greinilega að fiska keyrslu, rétti okkur nafnspjald, þekkti að við værum Íslendingar, væntanlega af vandræðaganginum í okkur frekar en tungumálinu. Sagði að besti vinur sinn héti Einar og byggi í Reykjavík, allt gert til að við tryðum á að hann væri ekki einhver klikkhaus sem myndi keyra með okkur út í sveit og ræna af okkur veskjunum eða eitthvað þaðan af verra. Önnu leist engan veginn á þetta en við slógum nú samt til eftir að hafa fengið tilboð í akstur á hótelið (hann spurði hvort við værum ekki á Hilton niðri í miðbæ – aðal Íslendingahótelið). Reyndist síðan hinn viðkunnalegasti, ég sat frammi í hjá honum og spurði út úr um fjölskylduhagi, hann átti 4 börn og 3 barnabörn, yngsti strákurinn hans var að brillera í háskóla og hitt og þetta fleira. Okkur var allavega skilað á hótelið eins og lofað hafði verið. Áhættuævintýri dagsins aflokið.

Ekki dugði þetta nú sem búðaferð, ónei. Leigubíll í Prudential Mall, fyrst í húsbúnaðarbúð, Crate&Barrel, kolféll fyrir ógurlega flottum eftirréttadiskum:

en stóðst freistinguna og keypti bara hrikalega flottan uppþvottabursta og ofnhanska, nokkuð sem okkur var farið að vanta illilega. Svo var splittað upp, ég fór í bókabúðina (fjúkk), gramsaði þar góða stund, keypti meira fyrir Finn, eitt wasgui púsl og svo heilan bókaflokk.


þessa bók og fjórar til. Vonandi góðar (lofa reyndar góðu).

Höfðum mælt okkur mót til að borða saman á Haru, þetta gæti mögulega verið besta sushi sem ég hef nokkurn tímann fengið. Og hef ég þó oft fengið gott…

Skál!

Löbbuðum heim á hótel eftir ógurlega skemmtilegum verslunargötum með litlum búðum (að mestu leyti). Rákumst á risastóran búðarglugga með allavega hundrað gömlum saumavélum, ég hefði verið til í að elsta dóttirin sæi þær, er með dellu fyrir svona gömlu dóti:

Skipt um föt og svo aftur í leigubíl, nú í leikhúsið, sáum danssýninguna Burn the Floor, alveg fínt, flottir dansarar en kannski orðið örlítið þreytt undir lokin, vantaði aðeins meiri tilbreytingu eða söguþráð eða eitthvað.

Hótelbarinn, pizzur og bjór og spjall fram eftir. Ógurlega skemmtilegur félagsskapur.

Fyrsti í shopping spree

Vaknaði auðvitað klukkan 2 eins og var viðbúið (klukkan 7 að íslenskum tíma. Ég vakna ALLTAF klukkan sjö!). Gat sem betur fer sofnað aftur, en klukkan 5 rumskuðum við Bryndís og það var ekki fræðilegur að við gætum sofið meira, enda klukkan orðin 10 að okkar líkamsklukku. Lágum bara og lásum í rólegheitunum þar til var kominn tími á sturtu og slíkt.

Ákváðum að splæsa í morgunmat á hótelinu þennan daginn, höfðum ekki rekist á neinn morgunmatarstað kvöldið áður. Rándýr morgunmatur en nokkuð góður, ég hef samt fengið talsvert flottara hlaðborð. Prófaði Eggs Benedict sem mig hefur lengi langað til að smakka, ekki slæmt en það var lítið bragð af hollandaisesósunni sem var með. Appelsínusafaglasið var hins vegar held ég það besta sem ég hef á ævi minni fengið.

Klukkan auðvitað ekki orðin nema rúmlega átta þegar við vorum búnar, höfðum mælt okkur mót við hinar í ferðinni klukkan 9 þannig að við ákváðum að taka einn rúnt í bænum, röltum okkur niður að höfn. Ákváðum samhljóða að langa ekkert í hvalaskoðun eða rúnt um höfnina, hefði verið voða gaman ef það hefði verið, tja, svona 20 gráðum heitara. Ekki í þriggja gráðu hita takk.

Hittum hinar, en svo var ákveðið að vera ekki í samfloti, mér hafði verið bent á að fara í Apple búðina í Cambridgeside Galleria þannig að við Bryndís stímdum þangað, einhverjar áttu enn eftir að borða morgunmat, aðrar vildu fara í aðra verslunarmiðstöð. Þegar við komum upp á herbergi hringdi síminn hennar Bryndísar, þá var það dóttir samkennara sem átti afmæli þennan dag en sú var ekki með síma sem virkaði í Ameríku. Við rukum út, héldum við vissum hvar hún ásamt annarri (líka símalausri) ætlaði að fá sér morgunmat og sveimérþá ef við fundum þær ekki bara. Skiluðum kveðju og knúsi og fórum síðan út, í áttina að næstu lestarstöð til Cambridge.

Eða það héldum við allavega.

Tókst að ganga okkur upp að hnjám og lesa rammvitlaust á kortið, gegn um kínahverfið, semsagt í allt aðra átt en til stóð. Kortið sem við vorum með var engan veginn nógu nákvæmt, óttalegt túristakort af miðbænum sem sýndi bara nöfnin á aðalgötunum. Frekar villandi. Á endanum tókst okkur samt að rata á blessaða stöðina, ekki er nú ódýrt í lestirnar þarna, fimm dollarar farið en það þarf þó ekki að borga þjórfé þar.

Enduðum í mollinu, lestin stoppaði þar rétt hjá, smástund að rata inn samt. Eftir smá HáogEmm innkaup og mms sendingar til dætranna til að vita hvað þær vildu, var það Applebúðin og litla sæta nýja tölvan mín. Ekki slæmt, ekki slæmt, reyndar svolítið dýrari en ég hélt en lét mig nú samt hafa það. Visakortinu mínu var reyndar neitað, væntanlega of há einstök upphæð, gat ekki staðið í því að fara að hringja heim í bankann eða valitor til að fá heimild, hefði nú samt gert það ef ég hefði ekki átt fyrir vélinni á debetinu, sem gekk hnökralaust í gegn.

Tyllti mér svo fyrir utan apple búðina og kíkti á netið. Facebook þekkti mig ekki, kannaðist hvorki við vélina né staðsetninguna þannig að ég þurfti að bera kennsl á eina 5-6 fbvini af myndum. Var heppin, þurfti bara að sleppa því að þekkja einhverja tvisvar af þremur skiptum sem mátti – þegar maður er með marga fb“vini“ sem maður þekkir ekki að ráði, eins og ég, er auðvelt að klikka á svonalöguðu.

Bryndís vinkona kom röltandi á tilsettum tíma og við fórum og fengum okkur að borða á ostakökufabrikkunni (hvaðan ætli hamborgaradittó hafi annars stolið nafnhugmyndinni?).

„Oggulítill“ hádegismatarskammtur:

nei, ég kláraði ekki af diskinum, varð jú að hafa pláss fyrir helminginn af þessari:

Nibb, gat ekki klárað helminginn af henni heldur.

Lentum hjá alveg hroðalega ýtnum sléttujárnssölumanni, slétti hárið á mér þannig að það varð sjampóauglýsingaflatt og varð svo frekar móðgaður þegar ég vildi ekki kaupa járnið hjá honum þrátt fyrir 50% off only for you today my friend! Eins gott að vera ekki of mikill sökker.

Smá meira búðavesen, keypti pantanir fyrir stelpurnar. Bryndís fór að leita að ákveðinni búð sem átti að vera í miðstöðinni, vantaði ilmvatnið þaðan, ég hlammaði mér frekar á bekkinn fyrir framan apple búðina til að nýta mér netið. Fór svo að lengja eftir henni eftir svona klukkutíma, búðin hafði ekki fundist en alveg óvart skotist inn í eina til tvær í viðbót.

Orðið ágætt Cambridgemegin, ég hefði reyndar getað hugsað mér að kíkja á háskólasvæðið en eftir að við fórum út um aðalinngang kringlunnar atarna, áttavilltu íslendingarnir beygðu í vitlausa átt og gengum allan hringinn kring um hana, fundum engan leigubíl, enduðum aftur á lestarstöðinni og beint heim í ógurlegu ískrandi skrapatóli. Skiptum yfir í lestina sem við vissum að stoppaði rétt hjá hótelinu og upp. Uppgötvaði að mér hafði einhvern veginn tekist að glutra einum innkaupapokanum, sem betur fer ekki með neinu dýru né merkilegu, smá nammi til að taka með heim, korti fyrir afmælisbarnið og batteríapakka. Néver mænd.

„Rétt aðeins“ út aftur, ég ætlaði að skjótast í vínbúð sem bóndinn var búinn að finna á netinu og átti að vera með gríðargott úrval. Merkt á kortinu alls ekki langt frá hótelinu, fínt mál bara. Bryndís fór í apótek á meðan og ætlaði að gera stórinnkaup, ég sagðist koma við þar á leið til baka og sjá hvort hún væri þar enn.

Upp á State Street, vínbúðin var á númer 29. Leist ekkert á blikuna, sá númer 53, væri ansi langt í búðina en léti mig nú hafa það samt. 53 já, 51 og þar við hliðina 29. Ekkert súrt en frekar óskiljanlegt.

Hefði ég ekki vitað að þetta væri rétta sjoppan hefði mér örugglega aldrei dottið í hug að fara þar inn til að leita að einhverju af viti. Ólíkari búð við til dæmis Lavinia í París er erfitt að ímynda sér. Pínulítil og þröng og dimm uppi, smáskilti sem á stóð: meira úrval niðri. Ég veiði sölumann og segist vera með óskalista og væntanlega þurfi ég að fara niður. Hann fylgir mér niður og til eigandans.

Svona leit út í búðinni, niðri:


ósköp venjulegt, talsvert druslulegra og þrengra uppi en þegar maður snéri sér við var útlitið þetta:

Lítið var reyndar til af listanum en þeir áttu litlabróður eins vínanna og sýndu mér. Ég spyr: Er þetta gott vín? Hann: Ekki hugmynd, við fengum bara einni úthlutað. Ég: Ókei, tek hana!

Ein rósakampavín og tvær hálfflöskur af sauternes, nammi. Út.

Apótekið á leiðinni til baka, ég kíki lauslega inn, sé hvergi vinkonuna, kippi með mér korti, nammi og batteríum í stað þeirra sem ég týndi fyrr um daginn stend við kassann þegar síminn hringir. Hleypi nokkrum fram hjá mér en ákveð síðan að reyna að klára símtalið og afgreiðsluna, legg frá mér símann meðan ég er við kassann, borga og rýk út, tekst að gleyma pokanum með sama dótinu AFTUR, afgreiðslumaður kallar eftir mér hvort ég vilji nú ekki taka vörurnar með, hlátur fyrir aftan mig. Jújú, það vildi ég, kláraði síðan símtalið á leiðinni heim, frekar mikið utan við mig.

Upp á hótel, engin Bryndís. Hmmm. Sendi sms um að ég sé komin upp á herbergi. Svona 2 mínútum seinna stingur hún sér inn um dyrnar alveg í kasti, þá hafði hún verið fyrir aftan mig í röðinni í apótekinu, hlegið að mér að ætla að gleyma sömu vörunum tvisvar sama daginn – og ég tók ekki eftir neinu!

Bjór og fótabað með salti og flögur og kók og súkkulaðiegg í kvöldmat (enn saddar eftir risahádegismatinn á Cheesecake Factory – hvernig eru kvöldmatarstærðirnar þar eiginlega úr því smáskammtarnir eru svona rosalegir?) Fengum síðan heimsókn frá afmælisbarni dagsins og fleirum, svefninn var vel þeginn á réttum tíma.

ferðasaga frá punktum

jamm, allavega fyrsta daginn, tók ekki tölvugarminn minn með þar sem planið var að kaupa tölvu úti – tók heldur ekki dedicated travel diary með (rauða stílabók sem ég skrifaði ferðapunkta þar til ég fattaði (fyrir svona tveimur ferðum síðan) að ég væri jú með tölvu meðferðis og gæti auðvitað skrifað beint á hana).

Allavega, maður er gersamlega óvanur að ferðast til útlanda án þess að þurfa að vakna grútmyglaður klukkan fjögur að nóttu, geta sofið út og pakkað í rólegheitum og gengið frá lausum endum fyrir ferð. Átti nokkrar bækur ólesnar, kippti með.

Rútan út á völl, maður er steinhættur að tíma að láta keyra sig (ekki sækja samt), Bryndís vinkona náði í mig til að keyra niður á bsí í veg fyrir rútuna. Hittum þar tvær aðrar ferðafélögur, mokuðum okkur upp í rútu og upp á völl.

Svona úr því klukkan var ekki sex um morgun fannst mér í fína lagi að fá sér bjór á vellinum í stað heita súkkulaðisins sem er annars standard flugvallardrykkurinn minn. Veit ekki með ykkur en ég man vel þá tíma þegar barinn í flugstöðinni (og fjárinn, líka gömlu flugstöðinni inni á varnarsvæðinu, svona er maður nú orðinn gamall) var fullur af íslendingum sem ætluðu SVO að fá sér fyrsta bjórinn í ferðinni. Góð breyting, satt að segja.

Bjórinn er samt betri en óspennandi heita súkkulaðið sem Kaffitár býður upp á. Sjá hér meðal annars.

Keypti mér Auðnina eftir Yrsu, nibb var greinilega ekki með nógu margar bækur. Líka sudokubók, reyndar pínu fyndið að bókin sem ég keypti mér í Noregsferðinni fyrir nánast nákvæmlega ári, kláraðist kvöldið áður en ég fór af stað til BNA. Alveg óvart.

Út í vél, einn samkennara lenti í tékki, þurfti nánast að berhátta sig fyrir framan röð af svipbrigðalausu fólki, jakk! Fékk afsökunarbeiðni þegar (auðvitað) ekkert fannst hættulegt. Ljóta ruglið! En í vélina komumst við á endanum. Pakkaði mér inn í Etihad teppið sem við fengum í einni vélinni í Ástralíuferðinni, gamli Icelandair lofthálspúðinn reyndist götóttur og ónothæfur en sem betur fer fékk ég annað teppi og tvo kodda, verður alltaf svo kalt við gluggann. Enda, við lok flugferðar voru þessar líka fögru frostrósir á glugganum. Nei, ekki söngkonurnar. Ísingin.

Nema hvað, flogið af stað nokkurn veginn á tíma. Flugið gekk smurt, hundvond samloka reyndar og skjárinn minn var bilaður en Auðnin reyndist bráðspennandi. Sérstaklega yfir þessu landslagi:

Grænland

Lent klakklaust á Logan, út, gegn um Immigration, ég var bráðheppin með eftirlitsmann, spurði hve langt væri síðan ég hefði komið síðast til Bandaríkjanna. Þegar ég nefndi þessi ríflega 25 ár varð hann alveg steinhissa, hvernig stæði eiginlega á því að ég hefði ekki komið síðan! (what kept you?!) Vildi síðan vita hvort ég semdi rapptónlist, þegar ég sagðist vera tónskáld. Ég spurði til baka hvort ég liti út fyrir það. Bað mig svo bara vel að lifa og að skemmta mér vel í ferðinni.

Ekki allir voru svona heppnir, sumar okkar lentu á ógurlega fúlum eftirlitsmönnum. Heppin ég.

Leigubílar upp á hótel, inn með farangurinn, mundi eftir að gefa vikapiltinum (stór og feitur og svartur og eldri en ég) þjórfé og aftur út að finna eitthvað ætilegt. Enduðum á írskum pöbb á þarnæsta horni við hótelið, allt morandi í þeim í Boston auðvitað. Buffalókjúklingasalatið mitt var svo níðsterkt að mig sveið í eyrun af því en gott var það.

Leiðindafyrirbæri þetta þjórfé annars. Hví er ekki hægt að borga fólki mannsæmandi laun og láta síðan standa á matseðli og annars staðar hvað hlutirnir kosta mann í raun og veru?

Aftur á hótelið, himnaríki að fara í örstutt fótabað, skríða undir sæng og leysa smá sudoku í nýju bókinni minni.

Þessir koddar á Hilton eru ÆÐI – mig langar í svoleiðis!

þá er maður

stunginn af til Boston hvorki meira né minna.

Búin að stinga niður myndavélinni og stefni á að kaupa mér nýjan lappa í ‘Merkíunni þannig að ekki er útilokað að einhvers konar ferðasaga birtist. Þó ekki fyrr en eftir helgi einhvern tímann, víst rándýrt net á hótelinu og ég nenni ómögulega að blogga á kaffihúsi þarna úti, frekar að njóta félagsskaparins. Sleppa alveg allri netnotkun segið þið? naaah þori ekki alveg að lofa því samt!

Hafið það nú sem allra best og passið upp á ykkur meðan ég er í burtu!

hver pantaði

eiginlega þennan snjó? Ekki ég allavega. Botninn datt úr kuldaskónum hennar Freyju í skíðaferðalaginu á Dalvík um daginn (já bókstaflega – sólinn á öðrum skónum datt af. Arfaslöpp ending, keyptir í haust) Hentum þeim í gáminn við bústaðinn sem við fórum í þá helgina, veiddum Freyju úr rútunni í Borgarnesi. Vildi til að Finnur hafði tekið með sér sandala til að nota sem inniskó og Freyja komst í kuldaskóna hans til að vera í á leiðinni heim.

Ætlaði að reyna að sleppa við að kaupa nýja kuldaskó þar til í haust, ég er ekki alveg viss um að það gangi, ef veðurspáin helst…

sérkennileg

tilhugsun að vera að fara til Bandaríkjanna – þangað hef ég þrívegis komið en það eru orðin meira en 25 ár síðan. Öll skiptin lenti ég í Boston, ekki reyndar beint flug þangað í þá daga þannig að ég fékk einnig að kynnast JFK betur en mig langaði til.

Hef hins vegar aldrei stoppað neitt í Boston, alltaf keyrt niður til Attleboro þar sem fjölskylda þáverandi kærasta bjó og býr enn að ég viti.

Maður er svo nettengdur og netháður, ég ætlaði að fletta gaurnum upp en hann finnst ekki á óravíddum internetsins, nema reyndar á einhverri find-your-school-mate síðu og ég tími ekki að borga mig inn þar til að fá uppgefið netfang og/eða síma. Svo áfjáð er ég ekki að hafa samband…

Allavega legg í hann eftir 2 daga og kem aftur að morgni afmælisdagsins míns.

mér finnst

ég alltaf vera eitthvað svo ótrúlega ráðsett þegar ég þvæ gardínur. Fáið þið sömu tilfinninguna?

Kannski finnst mér þetta samt bara vegna þess að það gerist svo sjaldan. Allavega var gardínustöngin í skrifstofunni orðin ansi vel rykug þegar bóndinn klifraði þangað upp í dag til að kippa niður draslinu. Væntanlega eitthvað með tölvuna og allar græjurnar kring um hana og stöðurafmagn.

Heyrði einu sinni sögu um kokkálaða eiginkonu (hmm gengur það orðalag kannski bara á hinn veginn?) sem þurfti að flytja af heimili sínu og þangað flutti síðan viðhaldið. Setti rækjur inn í fínu gardínustangirnar. Getið ímyndað ykkur ólyktina sem fór að berast um húsið. Besti hluti sögunnar var að fyrrverandi ásamt viðhaldi fluttu úr húsinu og létu konunni það eftir – en tóku með sér stangirnar.

Gæti náttúrlega verið tóm lygi eða eitthvað úr smiðju Roald Dahl samt.

ekki að ræða það!

að ég sé að verða veik rétt fyrir Bostonferðina!

Neibb.

Finnur og Fífa eru bæði lasin og ég er með hausverk. Reyndar byrjaði sá í gær og ég hef ekki fundið neitt meira, segið mér að þá sleppi ég við pestina. Takk!

nóvember?

svei mér þá, ekki er ég að ruglast? kominn heill hellingur af knúppum á nóvemberkaktusinn góða:

svona var hann semsagt í nóvember sem leið. Hvort hann verður eins flottur marskaktus og nóvemberdittó remains to be seen.

síðasta röflið

Ég er búin að ákveða að þessi færsla hér verði síðasta skipti sem ég röfla um te. Lofa ekki að röfla ekki um eitthvað annað (og nei, er ekki hætt að blogga).

Hvernig stendur eiginlega á því að svo víða þar sem er boðið upp á heita drykki er oftastnær kaffi, misgott auðvitað en fyrir okkur sem ekki drekkum kaffi er iðulega bara boðið upp á eitthvað blóma- og/eða ávaxtate?

Ekki vil ég mæla á móti því að þeir sem drekka slíkt fái drykkinn sinn en hvernig væri að eiga líka ósköp venjulegt svart te? English Breakfast, Ceylon, Earl Grey? Endalausar brómberja/ginger-lemon/goji-berry/sítrónugras/kamillu sitt í hverjum pakkanum og á móti þessum ósköpum er keyptur einn pakki af English Breakfast. Sem klárast iðulega langfyrst.

Við kaffileysingjarnir þurfum nefnilega líka smá örvandi til að komast gegn um daginn.

Hvernig fyndist kaffifólki að það væri bara boðið upp á koffínlaust kaffi á vinnustaðnum?

En allavega, ég er hætt að væla yfir þessu og búin að setja niður solid no nonsense Earl Grey pakka til að taka með í vinnuna…

fyrst styttist

í Ameríkuferð já ansi hratt, skrepp til BNA með suzukikennurunum eftir rúma viku (nei, staðan er ekki svo góð en við vorum búin að fjárfesta í ferðinni löngu fyrir boðaðan niðurskurð til tónlistarskóla og lítið vinnst með að fara ekki).

Svo styttist í tónleikana okkar í Hljómeyki með kórkonsertinum eftir Schnittke. Vá hvað það verður hrikalega gaman, þetta verk hefur aldrei verið flutt hér (úúú frumflutningur á Íslandi!) væntanlega vegna erfiðleikagráðu 3. kaflans. Mesta furða hvað hann kemur til. En verkið er ógurlega flott og harðbannað að missa af því! Taka frá 26. eða 27. mars takk.

Ekki nóg með það, það styttist líka í opnun Hörpu. Náði með þrjóskunni að veiða þrjá miða þann 4. maí fyrir bóndann, yngri ungling og litla gutta, við eldri úllíngur verðum víst á sviðinu.

Heilmargt að hlakka til næstu 2 mánuði. Svo er líka páskar þarna einhvers staðar að þvælast.

En fyrst er ég að hugsa um að hlakka til að halda upp á bjórdaginn með einum fyrrum bönnuðum núna á eftir…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

mars 2011
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa