Vaknaði auðvitað klukkan 2 eins og var viðbúið (klukkan 7 að íslenskum tíma. Ég vakna ALLTAF klukkan sjö!). Gat sem betur fer sofnað aftur, en klukkan 5 rumskuðum við Bryndís og það var ekki fræðilegur að við gætum sofið meira, enda klukkan orðin 10 að okkar líkamsklukku. Lágum bara og lásum í rólegheitunum þar til var kominn tími á sturtu og slíkt.
Ákváðum að splæsa í morgunmat á hótelinu þennan daginn, höfðum ekki rekist á neinn morgunmatarstað kvöldið áður. Rándýr morgunmatur en nokkuð góður, ég hef samt fengið talsvert flottara hlaðborð. Prófaði Eggs Benedict sem mig hefur lengi langað til að smakka, ekki slæmt en það var lítið bragð af hollandaisesósunni sem var með. Appelsínusafaglasið var hins vegar held ég það besta sem ég hef á ævi minni fengið.
Klukkan auðvitað ekki orðin nema rúmlega átta þegar við vorum búnar, höfðum mælt okkur mót við hinar í ferðinni klukkan 9 þannig að við ákváðum að taka einn rúnt í bænum, röltum okkur niður að höfn. Ákváðum samhljóða að langa ekkert í hvalaskoðun eða rúnt um höfnina, hefði verið voða gaman ef það hefði verið, tja, svona 20 gráðum heitara. Ekki í þriggja gráðu hita takk.
Hittum hinar, en svo var ákveðið að vera ekki í samfloti, mér hafði verið bent á að fara í Apple búðina í Cambridgeside Galleria þannig að við Bryndís stímdum þangað, einhverjar áttu enn eftir að borða morgunmat, aðrar vildu fara í aðra verslunarmiðstöð. Þegar við komum upp á herbergi hringdi síminn hennar Bryndísar, þá var það dóttir samkennara sem átti afmæli þennan dag en sú var ekki með síma sem virkaði í Ameríku. Við rukum út, héldum við vissum hvar hún ásamt annarri (líka símalausri) ætlaði að fá sér morgunmat og sveimérþá ef við fundum þær ekki bara. Skiluðum kveðju og knúsi og fórum síðan út, í áttina að næstu lestarstöð til Cambridge.
Eða það héldum við allavega.
Tókst að ganga okkur upp að hnjám og lesa rammvitlaust á kortið, gegn um kínahverfið, semsagt í allt aðra átt en til stóð. Kortið sem við vorum með var engan veginn nógu nákvæmt, óttalegt túristakort af miðbænum sem sýndi bara nöfnin á aðalgötunum. Frekar villandi. Á endanum tókst okkur samt að rata á blessaða stöðina, ekki er nú ódýrt í lestirnar þarna, fimm dollarar farið en það þarf þó ekki að borga þjórfé þar.
Enduðum í mollinu, lestin stoppaði þar rétt hjá, smástund að rata inn samt. Eftir smá HáogEmm innkaup og mms sendingar til dætranna til að vita hvað þær vildu, var það Applebúðin og litla sæta nýja tölvan mín. Ekki slæmt, ekki slæmt, reyndar svolítið dýrari en ég hélt en lét mig nú samt hafa það. Visakortinu mínu var reyndar neitað, væntanlega of há einstök upphæð, gat ekki staðið í því að fara að hringja heim í bankann eða valitor til að fá heimild, hefði nú samt gert það ef ég hefði ekki átt fyrir vélinni á debetinu, sem gekk hnökralaust í gegn.
Tyllti mér svo fyrir utan apple búðina og kíkti á netið. Facebook þekkti mig ekki, kannaðist hvorki við vélina né staðsetninguna þannig að ég þurfti að bera kennsl á eina 5-6 fbvini af myndum. Var heppin, þurfti bara að sleppa því að þekkja einhverja tvisvar af þremur skiptum sem mátti – þegar maður er með marga fb“vini“ sem maður þekkir ekki að ráði, eins og ég, er auðvelt að klikka á svonalöguðu.
Bryndís vinkona kom röltandi á tilsettum tíma og við fórum og fengum okkur að borða á ostakökufabrikkunni (hvaðan ætli hamborgaradittó hafi annars stolið nafnhugmyndinni?).
„Oggulítill“ hádegismatarskammtur:

nei, ég kláraði ekki af diskinum, varð jú að hafa pláss fyrir helminginn af þessari:

Nibb, gat ekki klárað helminginn af henni heldur.
Lentum hjá alveg hroðalega ýtnum sléttujárnssölumanni, slétti hárið á mér þannig að það varð sjampóauglýsingaflatt og varð svo frekar móðgaður þegar ég vildi ekki kaupa járnið hjá honum þrátt fyrir 50% off only for you today my friend! Eins gott að vera ekki of mikill sökker.
Smá meira búðavesen, keypti pantanir fyrir stelpurnar. Bryndís fór að leita að ákveðinni búð sem átti að vera í miðstöðinni, vantaði ilmvatnið þaðan, ég hlammaði mér frekar á bekkinn fyrir framan apple búðina til að nýta mér netið. Fór svo að lengja eftir henni eftir svona klukkutíma, búðin hafði ekki fundist en alveg óvart skotist inn í eina til tvær í viðbót.
Orðið ágætt Cambridgemegin, ég hefði reyndar getað hugsað mér að kíkja á háskólasvæðið en eftir að við fórum út um aðalinngang kringlunnar atarna, áttavilltu íslendingarnir beygðu í vitlausa átt og gengum allan hringinn kring um hana, fundum engan leigubíl, enduðum aftur á lestarstöðinni og beint heim í ógurlegu ískrandi skrapatóli. Skiptum yfir í lestina sem við vissum að stoppaði rétt hjá hótelinu og upp. Uppgötvaði að mér hafði einhvern veginn tekist að glutra einum innkaupapokanum, sem betur fer ekki með neinu dýru né merkilegu, smá nammi til að taka með heim, korti fyrir afmælisbarnið og batteríapakka. Néver mænd.
„Rétt aðeins“ út aftur, ég ætlaði að skjótast í vínbúð sem bóndinn var búinn að finna á netinu og átti að vera með gríðargott úrval. Merkt á kortinu alls ekki langt frá hótelinu, fínt mál bara. Bryndís fór í apótek á meðan og ætlaði að gera stórinnkaup, ég sagðist koma við þar á leið til baka og sjá hvort hún væri þar enn.
Upp á State Street, vínbúðin var á númer 29. Leist ekkert á blikuna, sá númer 53, væri ansi langt í búðina en léti mig nú hafa það samt. 53 já, 51 og þar við hliðina 29. Ekkert súrt en frekar óskiljanlegt.
Hefði ég ekki vitað að þetta væri rétta sjoppan hefði mér örugglega aldrei dottið í hug að fara þar inn til að leita að einhverju af viti. Ólíkari búð við til dæmis Lavinia í París er erfitt að ímynda sér. Pínulítil og þröng og dimm uppi, smáskilti sem á stóð: meira úrval niðri. Ég veiði sölumann og segist vera með óskalista og væntanlega þurfi ég að fara niður. Hann fylgir mér niður og til eigandans.
Svona leit út í búðinni, niðri:

ósköp venjulegt, talsvert druslulegra og þrengra uppi en þegar maður snéri sér við var útlitið þetta:

Lítið var reyndar til af listanum en þeir áttu litlabróður eins vínanna og sýndu mér. Ég spyr: Er þetta gott vín? Hann: Ekki hugmynd, við fengum bara einni úthlutað. Ég: Ókei, tek hana!

Ein rósakampavín og tvær hálfflöskur af sauternes, nammi. Út.
Apótekið á leiðinni til baka, ég kíki lauslega inn, sé hvergi vinkonuna, kippi með mér korti, nammi og batteríum í stað þeirra sem ég týndi fyrr um daginn stend við kassann þegar síminn hringir. Hleypi nokkrum fram hjá mér en ákveð síðan að reyna að klára símtalið og afgreiðsluna, legg frá mér símann meðan ég er við kassann, borga og rýk út, tekst að gleyma pokanum með sama dótinu AFTUR, afgreiðslumaður kallar eftir mér hvort ég vilji nú ekki taka vörurnar með, hlátur fyrir aftan mig. Jújú, það vildi ég, kláraði síðan símtalið á leiðinni heim, frekar mikið utan við mig.
Upp á hótel, engin Bryndís. Hmmm. Sendi sms um að ég sé komin upp á herbergi. Svona 2 mínútum seinna stingur hún sér inn um dyrnar alveg í kasti, þá hafði hún verið fyrir aftan mig í röðinni í apótekinu, hlegið að mér að ætla að gleyma sömu vörunum tvisvar sama daginn – og ég tók ekki eftir neinu!
Bjór og fótabað með salti og flögur og kók og súkkulaðiegg í kvöldmat (enn saddar eftir risahádegismatinn á Cheesecake Factory – hvernig eru kvöldmatarstærðirnar þar eiginlega úr því smáskammtarnir eru svona rosalegir?) Fengum síðan heimsókn frá afmælisbarni dagsins og fleirum, svefninn var vel þeginn á réttum tíma.
Nýlegar athugasemdir