Sarpur fyrir janúar, 2023

Krakow dzien czwarty

Síðasti heili dagurinn. 

Morgunmatur klukkan átta að vanda, enn einu sinni vorum við fyrst niður. Höfðum merkt við annars vegar freyðivínsglas og hins vegar nýkreistan appelsínusafa á morgunmatarvalblaðinu daginn áður en það skildist þannig að við fengum bæði hvorttveggja. Ójæja. Mín megin svo hrærð egg með sveppum eins og daginn áður og svo riiiiiisastórar pönnukökur með kotasælufyllingu og hindberjasósu og ferskum hindberjum og brómberjum og það var ekki viðlit að ég næði að klára! 

Klukkan tíu hittist megnið af hópnum og við fullnýttum regnhlífastand hótelsins í göngutúr upp í kastala með Ferenc fararstjóra, (með gráa regnhlíf á mynd) hellirigning sko. Hótelið með stórar bláar regnhlífar til láns svo við þurftum ekki að kaupa, bara ein okkar var með regnhlíf með sér.

Upsagrýla í aksjón:

á kastalatorginu. Þarna eru víst stundum haldnir tónleikar enda flottur hljómburður:

Söfnunarbaukur af flottara taginu. Einhvern veginn verður að reka þessa kastala!

Þá var tekinn rúntur með rafmagnsbílum eins og hafa sést á götum Reykjavíkur, 5-6 manns í bíl, keyrt með leiðsögn um gyðingahverfið, gettóið og hluta miðbæjarins, framhjá meðal annars verksmiðju Schindlers og minnismerki um fólk sem lést í fangabúðum nasista. Mjög áhrifaríkt. Mynd tekin innan gegn um bílrúðuplast á rafbíl og ekki góð.

Við Jón Lárus reyndar sátum afturábak í bílnum sem var pínu skrítið þegar leiðsögnin sagði: Og hér framundan sjáum við… og: Hér á hægri hönd… 

Öll orðin frekar blaut og köld þegar túrnum lauk, komum við á hótelinu og ég skipti um föt og fór í þurran kjól. Munaði öllu. Keypti mér svo húfu með dúski á leið í bæinn. Hef ekki átt húfu með dúski síðan ég var ca sex ára!

Borgari á torginu fyrir okkur Jón og svo fórum við að skoða Maríudómkirkjuna. Merkilegt fannst okkur að þegar við keyptum miða inn í kirkjuna var okkur réttur bæklingur á íslensku. Væntanlega lætur posinn vita hvaðan visakortið er en sölugaurinn þurfti samt ekkert að grafa djúpt eftir íslensku blöðunum. 

En úff! Vá! Ég hef farið í ýmsar kirkjur um ævina en ég held aldrei að ég hafi séð annað eins prjál og skraut og ofhlað! Flott, jújú maður minn og man en ég gat samt ekki annað en hugsað um hvernig almenningur hefði haft það þegar hún var byggð, miðað við að sjá allt gullið og prjálið. Það er svo heldur ekki eins og þetta sé eina kirkjan á svæðinu, í Kraká eru víst einar 165 kirkjur! 

Ég fílaði litla orgelið inni í kór:

Og hér var altaristaflan sem tók 12 ár að smíða.

Þreytan sagði til sín, upp á hótel, komum við í nammibúð og keyptum stóran blandípoka til að taka með heim:

Hótel, orðluskammtur dagsins, steinsofnuðum síðan bæði og vöknuðum ekki fyrr en klukkan var að verða fimm!

Rusluðum okkur á ról undir klukkan sex því við höfðum pantað mat í Pasaz 13, Restaurant 13. Vorum pínu vandræðalega snemma niðri í bæ svo höfðum viðkomu í einni túristabúð með mjög miklu af doppóttum bollum og kökudiskum. Keypti ekkert þó þetta væri ansi flott, farangursheimildin 10 kíló á tösku og rauðvínskaupin voru alveg að slefa upp í kílóin.

Mætt í Pasaz 13. Inn í vínbúðina hjá uppáhalds vínbúðarkonunni okkar sem var mjög glöð að sjá okkur! Það er nefnilega hægt að velja vín í vínbúðinni til að drekka með matnum á veitingahúsinu á staðnum eins og ég nefndi í færslu gærdagsins. Freyðivín frá Baron de Pizzini varð fyrir valinu (ekki Piccini eins og fæst heima heldur Franciacorta). 

Hún fylgdi okkur svo inn á veitingahúsið og reddaði flöskunni fyrir okkur, við tylltum okkur inn við pantaða borðið okkar. Flösku skellt í kælifötu. Pöntuðum okkur bæði nákvæmlega sama matinn, andabringur í foie gras sósu (ha, lúxusdýr? við?) og smjörausið blómkál og það er skemmst frá því að segja að þetta er mögulega ein af þremur topp máltíðum sem við höfum fengið, allavega á veitingahúsum ef ekki bara í allt! Eftir þessu verður reynt að herma! Sáum hvernig var farið að blómkálinu, það var ausið smjöri og ausið og ausið og ausið þar til smjörið var orðið brúnað og blómkálið með. Frá því að við pöntuðum, gegn um að fá vínið í kælifötuna, brauðkörfu með þeyttu sveppasmjöri, amuse bouche (rækjubisque með koníaki og þeyttri mjólk) og allt í miklum rólegheitum var gaurinn að ausa smjöri á blómkálið okkar. Ágætt að vera með þokkalega þolinmæði. 

Kíktum í vínbúðina og kvöddum vinkonu okkar þar með að við kæmum sko alveg örugglega aftur síðar þó við værum að yfirgefa Kraká daginn eftir.

Aftur á hótelið eins og lög gera ráð fyrir. Góður hópur af liðinu var að borða á staðnum, fimm (eða reyndar níu) rétta smakkseðilinn sem við tókum að okkur tveimur dögum fyrr, komin í fyrri desert. Við sögðumst ætla upp að pakka og hvort þau myndu ekki hnippa í okkur þegar þau færðu sig yfir á barinn í lokaspjall. Auðsótt mál, auðvitað.

Enga stund að pakka. Tilkynning um að þau væru að flytja sig. Kíktum út um gluggann, sem vísaði út á veitingastaðinn. Þar sátu þau hin sem fastast í ca 10 mínútur til. Var víst smá flókið að gera upp…

En niður í lokahnykk ferðar (heimferð telst ekki með, mæting 4:45 morguninn eftir í þægilega morgunflugið eins og við þekkjum svo vel heima). Prófuðum vodka með grasbragði sem var alveg merkilega gott. Já og langt og skemmtilegt spjall við dásamlega samferðafólkið okkar!

Flottur barinn á hótelinu og ekki síður loftið!

Upp. Sofa.


bland í poka

teljari

  • 380.650 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa