Sarpur fyrir desember, 2004

Nýi Maltbjórinn frá Agli er bara ári góður. Nær e…

Nýi Maltbjórinn frá Agli er bara ári góður. Nær ekki alveg Andechs, uppáhalds bjórnum mínum ever, en þar sem hann fæst ekki hér, og kemur ekki til þess að fást hér í fyrirsjáanlegri framtíð (þolir ekki flutning né geymslu neitt sérstaklega vel) er gott að finna eitthvað sem minnir mann á hann. Bara vonandi að þetta haldi áfram að fást.

Nei, ég er ekki farin að ganga á birgðirnar fyrir aðra nótt, þessi var keyptur sérstaklega fyrir kvöldið í kvöld 😉

Ég skil ekki hvað fólk þarf alltaf að andskotast ú…

Ég skil ekki hvað fólk þarf alltaf að andskotast út í að áhersla í fréttum hér um þessa hrikalegu atburði í Indlandshafi sé á þá Íslendinga sem eru týndir. Þetta hefur ekkert með það að gera að Íslendingar séu neitt merkilegri en Indónesar eða Balíbúar eða allir hinir sem lentu í þessu heldur er þetta fyrir þá fjölmörgu landsmenn sem eru ættingjar og vinir þessarra landa okkar sem voru á svæðinu.

Maður hefur annars samviskubit yfir að finna ekki meira til með fólkinu en svo að hátíðahöld halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Í þessum skrifuðum orðum fer ég nú og hringi í 907-2020. Hvet lesendur til hins sama, hafi þeir ekki gert það nú þegar.

4 1/2 kíló af ossobuco sneiðum komin í hús ásamt l…

4 1/2 kíló af ossobuco sneiðum komin í hús ásamt lifandis býsnum af risottogrjónum, parmaosti og fleiru. Spennandi að búa til svona stóra skammta, við höfum yfirleitt verið með stóra steik í þessum stórboðum.

Keypti hins vegar ekkert snakk fyrir gamlárskvöld, treysti á gestina með það (hint, hint ;-)) Gummi mágur á reyndar sjoppu í Garðabæ og er vanur að koma með helling. Kannski maður kaupi nú samt bjór fyrir byrjun nýja ársins.

Splæsum þremur megaflöskum í partíið, geri aðrir betur. Einni sauternes, einni Barolo og einni góðri kampavín. Spennó.

já og svo vann ég Jón Lárus í Trivial í gærkvöldi,…

já og svo vann ég Jón Lárus í Trivial í gærkvöldi, gerist sko ekki oft, verð að monta mig smá! Hei, Hallveig, er Trivial frá mér heima hjá þér? Fundum ekki nema þessi 2 elstu en eigum pottþétt eitt í viðbót.

Fórum á vínkynningu í gærkvöldi, hann Arnar hjá Ví…

Fórum á vínkynningu í gærkvöldi, hann Arnar hjá Vínum og mat bauð upp á smökkun rándýrra ástralskra vína í samvinnu við Jóa í Ostabúðinni, var með eðalfínar snittur og svo ost hrærðan upp með gráfíkjum og frystan. Snilldarkvöld, ekki ódýrt en vel þess virði. Maður hefði aldrei tímt að kaupa sér neitt af þessum vínum ósmökkuð en við erum að hugsa um að panta amk eina ef ekki fleiri flöskur. Líka búin að ákveða að skipta um forrétt á gamlárskvöld…

Smá öppdeit á sjónvarpssögurnar, tækið svínvirkar …

Smá öppdeit á sjónvarpssögurnar, tækið svínvirkar núna. Það sem betra er (hmm, eða verra, kannski?) er að núna geta sjónvarpið og dvd tækið alveg talað saman, hef ekki heyrt eitt hikst í hljóðinu síðan tækið kom úr seinni viðgerðinni. Betra, jú það er náttúrlega aðallega betra en þetta bendir nú til þess að heilinn hafi allan tímann verið eitthvað bilaður, nokkuð sem þeir hjá Öreind (eða Örend eins og þeir heita á okkar bæ núna) sóru fyrir þegar við vorum að reyna að fá gert við þetta hljóðvesen – á meðan tækið var ennþá í ábyrgð.

Veit ekki hvort ég á að telja það betra eða verra að hafa splæst í heimabíó út af þessu.

Nú er orðið jólalegt í Reykjavíkinni, 3 dögum of s…

Nú er orðið jólalegt í Reykjavíkinni, 3 dögum of seint.

Er með krampa í skafhendinni eftir að hafa skafið af einum og hálfum bíl, fyrst skófum við Jón Lárus af okkar, fórum svo út á flugvöll til að sækja bílinn hans Óla, ég skóf alein af honum. Erfitt að slá á lyklaborðið með litlafingri.

Svo verður borðað heima í kvöld, fyrsta skiptið í 4 daga. Búin að vera jólaboð til skiptis hjá foreldrum okkar, mamma og pabbi bæði á aðfangadag og svo í gær. Ekkert smá. Við eigum okkar boð eftir, ekkert að brjóta hefðirnar svona að ástæðulausu. Alltaf með boð á gamlárskvöld fyrir báðar fjölskyldurnar. Minnir mig á, þarf að hringja í Nóatún og panta kjötið.


bland í poka

teljari

  • 371.383 heimsóknir

dagatal

desember 2004
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa