Lokadagurinn. Heim um kvöldið. Flugið okkar var ekki fyrr en sjö um kvöldið þannig að okkur lá ekkert svakalega á að rjúka suður á Kastrup.
Byrjuðum daginn á að hafa samband við tapað-fundið hjá DSB út af blessuðum bakpokanum. Ekkert kom út úr því nema að við ættum að fara á safnpunktinn þeirra á Hovedbanegården. Ákváðum að vera ekkert að þeytast það þarna um morguninn, fara bara frekar fyrr af stað í flugið.
Bryndís og Rein áttu frí þennan dag, svo heppilega vildi til að það var þjóðhátíðardagur Svía. Það er ekki gert neitt sérlega mikið úr honum frekar en reyndar þeim danska en frí var nú samt.
Okkur langaði til að sýna krökkunum Vesturhöfnina, mjög skemmtilegt svæði með (auðvitað alveg rándýrum) íbúðum, bæði í Turning Torso blokkinni frægu og svo bara alls konar skemmtilegum húsum, misþröngum götum, alls konar listaverkum og kaffihúsum, ísbúðum og veitingahúsum. Ísbúðirnar földu sig reyndar ansi vel fyrir okkur.
Gengið að skoða skemmtilegt listaverk með hnöttóttum steinum sem snúast stanslaust í vatnsflaumi. Sá rauði sat reyndar fastur.
Bryndís og Rein þurftu að skreppa frá og við hin röltum um svæðið og fengum okkur síðan hádegismat.
við gamla gengið fengum okkur bæði þetta smurbrauð með laxi, aspas, poached eggi (hvað heitir það nú aftur á íslensku?) og hollandaisesósu. Þið sjáið nú hvað það fór vel í okkur!
Þessa rákumst við síðan á á röltinu – vorum fyrst ekki viss hvort þetta væri stytta en síðan sneri hún höfðinu og horfði á okkur. Dýrka uglur!
Nújæja, þegar sænska gengið hafði lokið sínum erindum komu þau aftur, fundu ísbúð fyrir Finn og keyptu handa honum ís, skutluðu okkur síðan í veg fyrir lestina til Kastrup. Þökkuðum hjartanlega fyrir okkur að sjálfsögðu, höfðingjar heim að sækja!
Ekki gleymdist nein taska í lestinni að þessu sinni! Veeeel passað upp á!
Út á Kastrup. Tékkuðum okkur og töskurnar okkar inn, vorum auðvitað í góðum tíma og nenntum engan veginn að þvælast með allt draslið inn til Hovedbanen og til baka. Né reyndar krakkana, þau fengu bara fyrirmæli um að ráfa um Kastrup og/eða finna sér kaffihús. Enginn svangur enn, annars hefðum við örugglega stýrt þeim á Burger King uppi á annarri hæð. Þessi Burger King er iðulega eina keðjuskyndibitamáltíðin sem við fáum okkur í Danmörku, tja reyndar mögulega fyrir utan Steff-Houlberg, veitingahúsin þegar inn er komið eru bara svo hálfvitalega dýr að það er fínt að fá sér staðlaðan borgara í alrýminu.
En við Jón Lárus semsagt stímdum til Hovedbanen.
Það væri synd að segja að þessi tapað-fundið skrifstofa sé vel merkt á kortunum yfir stöðina. Við vorum góða stund að leita en svo reyndist hún bara vera til hliðar þar sem aðalmiðasalan er, hjá innganginum framan á stöðinni.
Þar var hin alúðlegasta frauka við afgreiðslu. Við lýstum fyrir henni töskunni og að hún væri með Tveimur Tölvum Í! og að Við værum að Fara til Íslands á Eftir! alveg með handapati og látum. Hún pikkaði á tölvuna sína og klóraði sér í hausnum og fann ekkert út úr þessu en sagði síðan: Heyrið þið, komið bara hér til hliðar og ég hleypi ykkur inn í geymsluna fyrir fundna dótið. Jáá góð hugmynd atarna.
Inn til hliðar. Fullt fullt af svörtum tölvubakpokum. Minn er reyndar með upphleyptri grárri rönd og sveimérþá að ég ræki ekki strax augun í akkúrat þannig poka! Þarna! þarna! getur verið þessi! æsingurinn var sko ekkert minni en áður.
Og í þessum bakpoka voru ásamt öðru ein nýleg Macbook pro og einn enn nýrri ThinkPad. Poookinn miiiiinnnn! ég get svarið að ég hoppaði af kæti. Mikið held ég það sé gaman að vinna í svona starfi – þeas. þegar fólk finnur dótið sitt.
Ofboðslega létt tókum við svo lestina til baka á Kastrup. Sameinuðumst krökkunum og fórum í röðina í öryggisleitina, alls ekkert langa né leiðinlega (ekki bara vegna þess hve við vorum í góðu skapi, hún bara var örstutt aldrei þessu vant).
Versluðum ekkert að ráði, splæstum okkur bara í sushi sem reyndist reyndar ekkert gott, ágætis hvítvín samt, Freyja og Emil reyndar tímdu ekki sushiinu og fengu sér pizzu, örugglega mikið betri og allavega talsvert ódýrari.
Flugið lítt frásagnarvert, allar töskur skiluðu sér, klóruðum okkur í hausnum yfir nýju reglunum með áfengiskaup og rauða hliðið, hefðum ekki þurft að klóra okkur í hausnum yfir nýju reglunum með áfengiskaup og rauða hliðið því nýju reglurnar voru alls ekki komnar í gagnið. Magnið okkar slapp aldrei þessu vant, þurftum ekki að borga neitt. Gæti haft eitthvað með Freyju nýorðna tvítuga og eitt sett af leyfi í viðbót.
Heim í seinna lagi, skutluðum Emil heim til sín, kíktum í Hagkaup til að farast ekki úr hungri morguninn eftir, Þorbjörg húspassari kíkti á okkur (takk enn og aftur) og þar með lýkur ferðabloggi í þetta sinn.
Nýlegar athugasemdir