Vaknaði klukkan rúmlega miðnætti og trúði ekki mínum eigin augum, ekki séns að ég ætlaði að hætta að sofa þá. Sem betur fer gat ég sofnað aftur. Gæti vel vanist þessu king size plús rúmi þarna, við hefðum getað sofið í T mynstri ef við hefðum viljað.
Vöknuðum svo um fjögurleytið, auðvitað algerlega stálslegin. Held ég hafi aldrei nokkurn tímann verið svona hress að vakna í flug þar sem ég þurfti að vera mætt klukkan eldsnemma. Borðuðum stórfurðulegan morgunmat, antipasti og súkkulaðibúðing en tókum kjúklingaspjótin með okkur í nesti.
Lestirnar voru ekki byrjaðar að ganga svona snemma, hvorki flugvallarlestin né tube þannig að við hringdum í concierge og báðum um að pantaður yrði leigubíll fyrir okkur. Ekki málið, hringt á herbergið eftir 10 mínútur þegar leigubíllinn mætti á svæðið. Það er sko ekkert hægt að ganga milli Terminal 1 og 5, ekki innangengt og bara alveg þokkalega langt. 10 mínútna bíltúr, ég hefði ekki viljað reyna að rata sjálf þarna á flugvallarsvæðinu, endalausar spakettíflækjur. Leigubíllinn skilaði okkur svo fyrir framan innritun á Terminal 1.
Inn fórum við og lentum í gamaldags langri röð fyrir innskráningu. Maður er orðinn svo góðu vanur, með að geta skráð sig inn á netinu eða með sms, eða þá að fara í innskráningarvélar á vellinum og geta bara hent töskunum í þar til ætlað hlið en þarna var ekki um neitt af þessu að ræða, aukaflug sem var ekki á netinu (að við fengjum séð), engar innskráningarvélar fyrir Icelandair á svæðinu og ekkert baggage drop hlið, bara tvö hlið að sinna heilli vél. Stóðum í biðröðinni í rúman hálftíma, þá tók við önnur röð í vegabréfaskoðun og síðan enn ein fyrir öryggisathugun. Þegar við komumst loksins inn á völlinn sjálfan var nánast komið að því að fara út að hliði. Náðum þó að kaupa okkur eina viskíflösku (Macallan er hætt að fást í fríhöfninni heima og reyndar í ríkinu líka að ég veit best) og smá Thorntons súkkulaði.
Rákumst á Mc Laren bíl útstilltan, auðvitað tók ég mynd af Mc Laren aðdáandanum með bílnum. Verst að geta ekki sest upp í…
Löbbuðum að því er virtist endalausa ranghala út að hliði 52, þar smá bið og síðan öllum smalað í rútu sem keyrði okkur að vélinni. Okkur Jóni Lárusi þótti reyndar flugferð upp á tvo tíma og 40 mínútur svo stutt að það tæki því varla að stíga upp í vélina.
Af stað, mikið hlökkuðum við nú til að komast heim. Keyptum okkur rauðvínsglas í vélinni (hei, klukkan var 5 síðdegis að okkar líkamsklukku!) og borðuðum kjúklingaspjótin sem voru eftir af kvöldmatnum okkar óétna daginn áður.
Svo bara lesið og horft á Bjarnfreðarson fram eftir flugi.
Lent klakklaust í Keflavík, elsku Fífa sótti okkur á völlinn, mikið hrikalega var gott að komast heim!
Nýlegar athugasemdir