Sarpur fyrir júní, 2010

Dagur #17 sem aldrei átti að vera með

Vaknaði klukkan rúmlega miðnætti og trúði ekki mínum eigin augum, ekki séns að ég ætlaði að hætta að sofa þá. Sem betur fer gat ég sofnað aftur. Gæti vel vanist þessu king size plús rúmi þarna, við hefðum getað sofið í T mynstri ef við hefðum viljað.

Vöknuðum svo um fjögurleytið, auðvitað algerlega stálslegin. Held ég hafi aldrei nokkurn tímann verið svona hress að vakna í flug þar sem ég þurfti að vera mætt klukkan eldsnemma. Borðuðum stórfurðulegan morgunmat, antipasti og súkkulaðibúðing en tókum kjúklingaspjótin með okkur í nesti.

Lestirnar voru ekki byrjaðar að ganga svona snemma, hvorki flugvallarlestin né tube þannig að við hringdum í concierge og báðum um að pantaður yrði leigubíll fyrir okkur. Ekki málið, hringt á herbergið eftir 10 mínútur þegar leigubíllinn mætti á svæðið. Það er sko ekkert hægt að ganga milli Terminal 1 og 5, ekki innangengt og bara alveg þokkalega langt. 10 mínútna bíltúr, ég hefði ekki viljað reyna að rata sjálf þarna á flugvallarsvæðinu, endalausar spakettíflækjur. Leigubíllinn skilaði okkur svo fyrir framan innritun á Terminal 1.

Inn fórum við og lentum í gamaldags langri röð fyrir innskráningu. Maður er orðinn svo góðu vanur, með að geta skráð sig inn á netinu eða með sms, eða þá að fara í innskráningarvélar á vellinum og geta bara hent töskunum í þar til ætlað hlið en þarna var ekki um neitt af þessu að ræða, aukaflug sem var ekki á netinu (að við fengjum séð), engar innskráningarvélar fyrir Icelandair á svæðinu og ekkert baggage drop hlið, bara tvö hlið að sinna heilli vél. Stóðum í biðröðinni í rúman hálftíma, þá tók við önnur röð í vegabréfaskoðun og síðan enn ein fyrir öryggisathugun. Þegar við komumst loksins inn á völlinn sjálfan var nánast komið að því að fara út að hliði. Náðum þó að kaupa okkur eina viskíflösku (Macallan er hætt að fást í fríhöfninni heima og reyndar í ríkinu líka að ég veit best) og smá Thorntons súkkulaði.

Rákumst á Mc Laren bíl útstilltan, auðvitað tók ég mynd af Mc Laren aðdáandanum með bílnum. Verst að geta ekki sest upp í…

Löbbuðum að því er virtist endalausa ranghala út að hliði 52, þar smá bið og síðan öllum smalað í rútu sem keyrði okkur að vélinni. Okkur Jóni Lárusi þótti reyndar flugferð upp á tvo tíma og 40 mínútur svo stutt að það tæki því varla að stíga upp í vélina.

Af stað, mikið hlökkuðum við nú til að komast heim. Keyptum okkur rauðvínsglas í vélinni (hei, klukkan var 5 síðdegis að okkar líkamsklukku!) og borðuðum kjúklingaspjótin sem voru eftir af kvöldmatnum okkar óétna daginn áður.

Svo bara lesið og horft á Bjarnfreðarson fram eftir flugi.
Lent klakklaust í Keflavík, elsku Fífa sótti okkur á völlinn, mikið hrikalega var gott að komast heim!

Dagur #16. Nei, ekki heim.

Svaf ekki sérlega vel, var alltaf að vakna þarna í Londonfluginu, Dottaði þó alltaf á milli. En fluginu miðaði vel og ekkert var minnst á ösku í tilkynningum frá áhöfn vélarinnar fyrr en rétt í lokin þegar við þurftum að taka aukahring vegna þess að völlurinn var rétt nýopnaður og biðröð var af vélum til lendingar.

hringsól

spes að sjá ísland á arabísku:

Lentum áfallalaust, meira að segja óvenju mjúklega. Út fórum við. Þá tók nú við vesen dauðans.
Auðvitað hafði fluginu okkar verið aflýst eins og ég var ansi hrædd um . Ekki einu sinni flogið til Akureyrar. Við lentum í þvílíkum vandræðum með að finna út úr málunum, fórum fyrst þar sem var merkt Upplýsingar, það reyndust bara vera innritunarborð, stelpan sem sat undir Icelandair merkinu vissi gersamlega ekkert í sinn haus, sú sem sat við hliðina á henni undir Aer Lingus merki virtist voða hjálpleg og sagði að við ættum að fara á hlið númer 14 til að fá meiri upplýsingar. Hlið númer 14 var bara óvart ekkert til á terminal 1. Bara hlið 1-12 og svo 16-29 og upp úr eitthvað, 60 minnir mig. Fórum aftur til hennar – ha, ó þá hafa þeir breytt þessu eitthvað…
Vísaði okkur fram að öryggishliði og þar fundum við loksins mann sem gat leiðbeint okkur. Sagði okkur að fara gegn um vegabréfaskoðun og inn að farangursrúlluböndum, þar ætti dótið okkar að koma úr því flugið hefði verið fellt niður. Við þangað, enginn farangur reyndar en töluðum við alveg ógurlega almennilegan mann í týnds farangurs afgreiðslubás sem þjónustar Icelandair. Hann ráðlagði okkur að bíða 10-15 mínútur, við biðum reyndar alveg vel það en eftir tæpan hálftíma kom hann til okkar aftur þar sem ekkert gerðist og fékk farangursmiðana okkar. Hringdi í Etihad og þeir höfðu þá haldið töskunum eftir þar sem fluginu var aflýst. Ekki veit ég hvernig þeir ætluðu síðan að vita með hvaða vél við færum heim, en jæja, töskurnar fundust allavega. Sá almennilegi fór út í eigin persónu og tók á móti töskunum fyrir okkur og kom með inn á vagni. Sagði okkur síðan hvert við ættum að fara og við hverja ættum að tala í framhaldinu. Reyndist lítil afgreiðslulúga við innskráningarborð fyrir Icelandair, þar var líka hinn indælasti maður sem skráði okkur í fyrsta flug morguninn eftir (krossa putta að Eyjó hagi sér) og sagði að við ættum að tala við hótelbókunarfólk á hæðinni fyrir ofan, Icelandair myndi svo borga hótelið, þar sem við vorum búin að tékka okkur inn eiga þeir að bera ábyrgð á því.

Við upp, það var þvílíkt vesen að finna hótel, gaurinn missti af allavega tveimur herbergjum sem hann ætlaði að bóka vegna þess að hann vildi vera viss um að við gætum tékkað okkur strax inn, þyrftum ekki að bíða til klukkan tvö eða eitthvað (hrollur!) og það tók tíma að ná í afgreiðsluborðin á hótelunum. Tókst samt á endanum, fengum alveg tígrisdýrt herbergi á hóteli samföstu Terminal 5. Ég held að við höfum einu sinni gist í svona fínu herbergi áður. Risastórt með lötustrákastólum og baðsloppum og baðkari sem átti greinilega að nota, ekki sem sturtubotn, meira að segja sjónvarp við endann (ekki nýttist það nú, þetta var kaldasta heitt bað sem ég hef tekið – himneskt samt) en frítt net, neeeeiiii! Gat nú verið.

Þetta hér var fögur sjón:

stóra rúmið
ég gæti vel vanist svona rúmi…

Skutumst í bæinn (tja, skutumst, tók klukkutíma með tube hvora leið) og fengum okkur að borða á breskum pöbb, ekki frítt net þar heldur en fínn pöbbamatur. Var allt í einu ekkert viss um hvort maður ætti að tipsa á pöbbum þannig að ég sendi einum af bretlandssérfræðingum familíunnar sms – jú hann vildi meina að maður gerði slíkt, þegar maður fengi sér að borða. Skildum samviskusamlega eftir 2 pund. Næsta sem við reyndum var Starbucks, keyptum okkur risastóran tebolla (ég) og oggupínulítinn espressobolla (Jón Lárus), ég var of þreytt og dösuð til að nenna að draga upp vídjóvélina til að taka mynd af Litla og Stóra bolla, ásamt sitthvorri brúnkunni en auðvitað þurfti maður síðan að vera með eitthvað Starbuckskort, notendanafn og lykilorð til að tengjast netinu sem kaffihúsið lofaði á miða á hurðinni. Great! Skutumst í Marks&Sparks og keyptum eitthvað smotterí til að hafa á hótelinu og tókum tube aftur upp á Heathrow. Var sídottandi í lestinni, vildi til að Terminal 5 var endastöðin annars hefði ég verið skíthrædd um að fara of langt.

Hótelherbergið var himnaríki að koma inn í, keyptum klukkutíma netaðgang og kíktum örstutt og svo bara í bólið þó klukkan væri bara um sjö – okkar líkamsklukka sagði 5 næsta morgun. Reyndist síðan þrautin þyngri að ná í restina af netklukkutímanum – reyndar bara ekki hægt, það var þó hægt að kaupa sér klukkutíma af neti á ástralska talsvert ekki jafnfína eða dýra hótelinu. Spes.

Ljósin á okkur slökknuðu rétt upp úr sjö, náðum ekki einu sinni að borða Marks&Sparks kvöldmatinn (ólífur og þistilhjörtu í brine, 4 grillpinnar af kjúklingi og 2 box af súkkulaði- og vanillubúðingi). Bara hrundum útaf.

Dagur #15. Óvissa

Vöknuðum einhvern tímann um morguninn við morgunmat, tveir tímar í lendingu í Abu Dhabi. Ótrúlegt hvað manni fannst stutt eftir. Stórskrítnar pönnukökur, litlar og hnausþykkar í morgunmat, sá eftir að hafa ekki beðið frekar um eggjaköku með osti, sem einnig var í boði. Jógúrtið, með hunangskeim og fersku ávextirnir voru samt fínir.

Lent í Abu Dhabi, hálfsúrt að lenda tvisvar þar en geta samt eiginlega ekki sagst hafa stigið á asíska grund þar sem flugvöllurinn er jú alþjóðlegt svæði. Tókum völlinn ágætlega út í fyrra skiptið þannig að eftir að hafa velt fyrir okkur hvort við ættum að fara eitthvað í lounge sem við áttum rétt á (samt ekki glerfína Etihad lánsið) ákváðum við að fara frekar út að hliði og eiga fínheitin eftir ef fluginu seinkaði.

Leist ekkert á að flugi til Dublin hafði samkvæmt töflunni verið frestað um heila 24 tíma!

Komumst í frítt net úti við hlið eins og í fyrra skiptið, hvernig væri nú að fleiri flugvellir tækju þetta upp? Alveg er ég handviss um að vestrænn flugvöllur sem tæki upp á að gefa netaðgang myndi snarhækka á vinsældaskalanum. Tókst að skrifa status á fb sem bróðir minn misskildi sem svo að við yrðum væntanlega föst þarna í Abu Dhabi.

Við hliðið var hins vegar fljótlega hleypt inn og rifið af brottfararspjaldi, gerði mann pínu bjartsýnni. Sá hins vegar á yr.no að Keflavíkurflugvelli yrði væntanlega lokað um morguninn. Urðum síðan þokkalega vongóð þegar okkur var hleypt út í vél. Fyrir framan okkur á ganginum var gersamlega pissfullur náungi, hékk ekki á löppunum, datt á vesalings fólkið sem gekk fyrir framan hann. Sem betur fer sat hann ekki sérlega nálægt okkur, sáum hann samt. Varaði flugfreyjurnar við honum og fékk þakkir fyrir. Vélin gersamlega troðfull, ekkert hægt að komast í tómar sætaraðir til að leggja sig. Magnað að þegar þarna var komið fannst okkur 8 tíma flugið sem framundan væri hreint ekkert langt, miðað við 15 tíma var það auðvitað alveg rétt. Já við flugum semsagt af stað vesturúr.

Sofnuðum fljótlega eftir hmm, morgunmat? Nei, kvöldskatt var það víst í þetta sinnið.

Dagur #15 Lagt af stað heim

Ætluðum að reyna að sofa út en auðvitað tókst það ekki, heimleiðin leit ansi illilega út fyrir að verða erfiðari en leiðin út, fyrir utan að vera að fljúga á móti háloftavindum þannig að langa flugið yrði 15 tímar í stað 14 á útleiðinni, ja þá var náttúrlega málið með Eyjó gamla og öskuspána. Skrifaði á smettið að mér litist lítið á öskurspá dagsins. London lokað á mánudag fram á þriðjudag og svo myndi Kef loka á þriðjudaginn. Úff.

Allavega, síðasti morgunmatarskammturinn á hótelinu, í boði Kjartans reyndar, ekki veit ég hvers vegna okkur var ekki skammtaður morgunmatarmiði fyrir brottfarardegi en einhverja morgna hafði Kjartan ekki notað sína (hann þurfti alltaf að mæta á einhverja fundi í bítið en ekki við). Fékk mér ristað brauð með sultu, (eftir enska morgunmatinn sem var standard), ég held þetta sé fyrsta skipti sem ég borða ristað brauð með sultu í áratugi. Það er að segja þegar enginn ostur er með. Ástralir eru ekki mikið fyrir osta hvað þá skinku eða annars konar kjötálegg í morgunmat, finnst það út í hött. Skrítið.

Upp að pakka, reyndum að ferðast sem allra léttast inn í vél auðvitað. Höfðum alveg 2 tíma í pakk, tók auðvitað ekki nema kortér, nýttum tímann sem við áttum eftir á netinu og drifum síðan í að skrá okkur út. Hafði hringt eitt innansvæðissímtal, ekki kostaði það nú mikið, heil 90 sent.

Tókum leigubíl út á völl, munaði nánast engu að gera það eða taka hótelskutlu. Hinn almennilegasti bílstjóri, bauð okkur upp á hraðbrautina (dýrari kostur) eða íbúðahverfi, við vorum ekkert að flýta okkur þannig að við tókum ódýrari kostinn. Komum í góðum tíma á völlinn, ekki kunna Ástralir enn á innritunarsjálfsala en röðin var ekki löng þegar hleypt var að.

Fína gengið á fyrsta og viðskiptafarrými fékk rauða og gyllta dregla og mikið fínni biðraðastaura og –snúrur en við hinir ræflarnir auðvitað.

Í vegabréfaskoðuninni þurfti ég að segja Eyjafjallajökull fyrir stúlkuna á vaktinni, ég veit ekki hvort hún hefði hleypt mér út annars.

Ekkert sérlega margt fólk í flugstöðinni, við fundum flugvallarveitingastað með alveg gríðarlega þægilegum stólum. Hlömmuðum okkur auðvitað þar, keyptum eitthvað smotterí og treindum þar til við sáum að hliðið hafði verið opnað.

Jón Lárus
ég

Miðað við stærðina á vélinni leist mér ekkert illa á að það yrði gott pláss í vélinni en það reyndist síðan aldeilis ekki, því miður. Nánast fullsetin vél, enginn séns á að geta lagt sig neitt. Súrt að hljóðið var bilað í afþreyingarkerfinu bæði í mínu sæti og Jóns, þannig að við gátum ekki horft á neinar myndir eða þætti.

flugvélin

Leggurinn: Sydney-Alice Springs-Singaraja-Jakarta-Kuala Lumpur-Bengaluru-Abu Dhabi. Steinsofnuðum bæði, þrátt fyrir leiðindagaura fyrir aftan okkur sem hlógu hástöfum og fífluðust, hentu milli sín koddum og fleira löngu eftir að ljósin höfðu verið slökkt í vélinni. Óþolandi lið.

Dagur #14. Síðasti heili dagurinn.

Vöknuðum um hálfsjö, kíkti á símann minn og Freyja hafði sent sms, alveg alsæl með kengúrumyndina. Vel þess virði að hafa farið í garðinn bara fyrir þetta Awwwwww! sms. Maður var nú farinn að hlakka allrækilega til að sjá krakkana aftur.
Ekki get ég sagt að við höfum ekki verið farin að vera oggulítið stressuð um hvort við gætum flogið alla leið heim daginn eftir (já og þar á eftir). Búin að vera að sjá “cancelled” merkingar á fluginu á vellinum heima. Leist allavega lítið á að teppast í Abu Dhabi, en London leit nú út fyrir að vera opinn.
Jón Lárus skokkaði út að höfn og hringinn í kring um óperuhúsið, alveg væri ég til í að vera bitin af svona skokkbakteríu en því miður er ég víst alveg laus við það. Eftir morgunmat drifum við okkur út á markað og keyptum smá nammi og síðustu gjafirnar handa krökkunum ásamt að taka nokkrar myndir, sá svo eftir myndatökuna að það mátti víst ekki taka myndir þarna inni. Hvers vegna veit ég ekki, ekki mikið um hernaðarleyndarmál þarna.


Flott fiskborð


Þarna er eins gott að passa puttana, þó krabbarnir séu bundnir saman er fólk varað við að taka þá sjálft, maður á að biðja um aðstoð.

Tókum síðan monorailhring (einteinungur sem gengur hringinn í miðbænum, samt ekki út að Circular Quay), út á næstu stöð við Sjóminjasafnið. Jón hafði frétt af vínsmakki í flottri búð ekki langt frá Darling Harbour. Fórum þangað en smakkið reyndist ekki sérlega spennandi, japanskt smakk, alveg 2 hvítvín og annað eins af rauðu en heill hellingur af saketegundum. Leist lítið á það, smökkuðum þessi 4 léttvín og löbbuðum svo aftur í bæinn.

Þarna sáum við samt gígantíska flösku af Chateau d’Yquem sætvíni, þessi myndi örugglega duga sem desertvín í 100 manna veislu.

Í austurlenska smakkpakkanum áttum við eftir Víetnam. Á einu litlu svæði rétt hjá hótelinu okkar fundum við eina 5 víetnamska staði – leist ekki sérlega vel á 3, einn var stappfullur þannig við bökkuðum út en í þeim fimmta var pláss. Skemmst frá því að segja að þarna var einn albesti matur sem við höfum fengið alla ferðina, Thit kho to. Svínakjöt í karamellusósu, trúið því eða ekki. Segi ekki að það slái út kengúruna og krókódílinn daginn áður en þetta var alveg ótrúlega gott. Þegar búin að finna uppskrift til að prófa, netið rokkar.

Hótel í smástund, tékklistinn yfir það sem við ætluðum að gera var nánast fullviðmerktur þannig að nú var bara spurning um að rölta út og njóta lífsins. Fórum út í Hyde Park sem er taaaaaaaalsvert mikið minni en nafni hans í London, lögðumst þar í grasið í sólinni með bækurnar okkar. Held við höfum náð að vera svona hálftíma í garðinum áður en okkur var orðið of kalt (tíminn er samsvarandi miðjum nóvember hérna).

„Nóvember“ eður ei, nóg af blómstrandi plöntum samt:

Gengum svo bara um í góða stund, keyptum okkur brauð og smotterí til að eiga uppi á hóteli í kvöldmatinn. Smástund þangað þar til tími var kominn til að klára tékklistann – út í garð hjá lestarstöðinni og reyna að sjá Suðurkrossinn.
Það gekk upp, þó garðurinn væri nú full vel upplýstur fyrir stjörnuskoðun. Hefði verið best að sjá stjörnur uppi í Bláfjöllum en það kvöld var því miður skýjað, frekar súrt.
Hótel, kvöldmatur á herberginu og smá net – Jón Lárus fylgdist með tímatökum í Formúlunni á netinu. Sofa.

Myndirnar í þessari færslu eru ekki alveg af venjulegum kaliber, ég er ekki búin að fá iPhoto upp aftur né neitt annað myndvinnsluforrit og hlóð bara smámyndum inn á Flickr. Þarf að kíkja á þetta betur…

kvusslax!

allt að bila hjá mér, fyrst hrynur vökvastýrið í bílnum, ég þori ekki að keyra hann nokkurn skapaðan hlut nema upp á verkstæði á mánudagsmorguninn, hitt og þetta sem getur hafa komið upp, svo allt í einu í dag (tja, gær) tekur elsku tölvan mín upp á því að henda út öllum forritum hverju nafni sem þau nefnast. Finder virkar reyndar sem betur fer þannig að ég (held allavega) að mér hafi tekist að bjarga öllum gögnum, var reyndar með megnið af þeim afritað en geri slíkt ekki alveg daglega.

Elsku besta systir mín lánar bílinn sinn (takk Hallveig mín), mágurinn skutlaðist eftir mér til að redda (takk líka Jón), ircfélagar hjálpa með tölvuna – vonandi virkar það.

Á meðan hertek ég tölvuna hennar Fífu, vill til að hún er í kórferðalagi um helgina og tók vélina ekki með.

Krossið putta fyrir okkur að þetta verði minna en hellings vesen…

Dagur 13. Loksins kengúrur.

Steinsváfum til hálfátta, hrikalega gott. Jón Lárus tók morgunskokkið í rólegheitunum (HAHAHAHA, held hann gæti ekki skokkað rólega þó hann reyndi) ég í sturtu á meðan. French toast í morgunmatnum, það var nýjung.

Þennan daginn bara skyldum við ná að sjá kengúrur. Það hreinlega gengur engan veginn að koma til Ástralíu og sjá ekki þjóðardýrið, þjóðarblómið sáum við daginn áður. Úrkula vonar um að sjá þær lausar í náttúrulegu umhverfi en langaði ekki sérstaklega í dýragarðinn fórum við milliveg, lítinn dýragarð í úthverfi Sydneyborgar. Út á lestarstöð, keyptum miða fram og til baka til Pennant Hills og strætó þaðan. Gekk reyndar ekki alveg þrautalaust, metró tafðist um meira en hálftíma, fyrst vegna slyss á farþega á stöð einhvers staðar á undan, svo breyttist það í dauðsfall og endaði á lögregluaðgerðum, ófagurt. Lentum einu sinni í svipuðu í Kaupmannahöfn, frekar óhugnanlegt.

Ferðin gekk síðan ágætlega þegar við loksins komumst af stað. Lestin fór yfir Hafnarbrúna, því miður var ég ekki nógu fljót upp með vídjóvélina, hefði verið gaman að ná bút þar. Einni mynd náði ég nú samt.

Lestarferðin tók tæpan klukkutíma. Fórum vitlausu megin út úr stöðinni í Pennant Hills og fundum ekki strætóstoppustöðina en sem betur fer kom það ekki að sök, náðum samt vagninum þegar við vorum búin að átta okkur á málinu. Væri reyndar synd að segja að merkingar í og við lestirnar séu góðar, engin kort né listi inni í vögnunum um hvert lestin sé að fara né stoppustöðvar á leiðinni, frekar óskýrar merkingar á brautarpöllunum, litakóðar jú á leiðunum en alls ekki nógu vel nýttir. Kannski fara hönnuðir kerfisins þarna álíka oft með lestum og stjórnendur Strætó í Rvk stíga upp í strætisvagna.

Litli dýragarðurinn virtist fremur févana, svolítill skortur á umhirðu en dýrunum virtist líða vel að maður fengi séð, þokkalega stór svæði sem þau höfðu og skuggsæl svæði sem þau gátu leitað skjóls. Þarna mátti bæði klappa kengúrum og kóalabangsa, feldurinn á kengúrunum var mýkri, það hefði ég ekki ímyndað mér.

Tók slatta af myndum, þar af nokkrar á símann til að geta sent Freyju, hún var búin að biðja um að við sendum kengúrumynd til sín.


Þessi mynd af símanum fór til Freyju.

Kláruðum dýragarðinn og þurftum síðan að bíða smástund eftir strætó til baka. Sá runna sem mig langar óhemju í, í garðinn minn (hugsa að familían fari að hlæja að myndinni)

Til baka með strætó og lest, fórum tveimur stöðvum fyrr út þar sem við ætluðum ekki alla leið á hótelið strax heldur út að borða í Circular Quay (sem mig minnir ég hafa verið búin að tala um að sé alls ekkert hringlaga). Þorbjörn bróðir og Helga mágkona höfðu eindregið mælt með að við settumst niður á kínverskt veitingahús við Circular, með útsýni yfir að óperuhúsinu og fengjum okkur að borða.

Enduðum reyndar á veitingahúsinu við hlið þess kínverska, búandi í Kínahverfinu miðju höfðum við jú borðað austurlenskan mat nær alla dagana þannig að þarna þegar við fórum einna fínast út að borða fengum við okkur ástralskan mat. Jón Lárus fékk sér Barramundifisk, hafði alltaf langað að bragða slíkan en ég fékk kengúru og krókódíl á kartöflubeði og með bearnaisesósu.

Alveg fáránlega gott og auðvitað gríðarleg stemning að sitja á útiveitingahúsi með útsýni yfir frægasta og mögulega flottasta óperuhús í heimi.
Þannig að ég sá og borðaði kengúru sama daginn. Krókódíllinn bragðaðist svo eins og kjúklingur…

Eftir mat gengum við síðan yfir í Óperuhúsið, ætluðum að taka þar rúnt með leiðsögumanni en hneyksluðumst á verðinu og tókum Bryson á þetta, tímdum því ekki. Því miður voru engar óperusýningar allan tímann sem við vorum þarna, ég hefði mikið frekar tímt að borga mig inn á flotta sýningu en að borga 4000 kall á manninn fyrir að fara í göngutúr um húsið og heyra enga tónlist nema þá kannski af upptöku. Nei takk – maður verður bara að fara aftur til Ástralíu og fara á almennilega sýningu í húsinu.

Skroppið í aðal vínbúðina, sem var ekki langt frá Circular, keyptar 2 flöskur af víni sem var komið í algjört uppáhald, Jón Lárus segir betur frá því hér:

Sydneyjarferja frá Circular yfir í Darling Harbour, stoppað á 3 stöðum á leiðinni, farið að skyggja, skemmtilegt. Hér sést mynd af innganginum í Luna Park, aðalskemmtigarð Sydney.

Unaðslegt að sigla þarna um kvöldið, ég held að höfnin og allt það svæði sé það sem heillar mig mest við Sydney. Ótrúlega margar víkur og vogir, eyjar og strendur og allt svo hreint, eitthvað.

Hótel, net, bók og rauðvín í vatnsglasi, bara einn heill dagur eftir.

Dagur 12. Bláfjöll

Þennan dag skyldi smalast upp í lest í tvo tíma og Bláfjöll staðarins, Blue Mountains, heimsótt. Þau bera nafnið af algerlega óskyldri ástæðu og Bláfjöll Íslands, hinum bláleitu Eukalyptustrjám sem vaxa þar úti um allt. Reyndar eru það eiginlega dalirnir frekar en fjöllin sjálf sem eru bláir.

En best að fara ekki fram úr sér, lestarferðin var svo sem ekki viðburðarík, við sáum meira út úr efri hæðinni á tveggja hæða lestinni en ég var hrædd um, munandi eftir löngum lestarferðum í Evrópu þar sem ekkert sást út um gluggana nema tré nánast alla leiðina. Útsýnið reyndist oft á tíðum ljómandi fallegt þó ekki í bæjunum þar sem lestarteinarnir liggja iðulega gegn um iðnaðarhverfi, hafi maður séð umhverfi lestarstöðvar teinamegin einhvers staðar hefur maður séð þau öll.

Komum upp í Leura í Blue Mountains upp úr ellefu, þar tók maður að nafni Paul Simpson á móti okkur og keyrði á kaffihús þar sem við áttum stefnumót við Jo Truman, kærustuna hans. Þetta fólk höfðum við semsagt hitt á tónleikum sunnudaginn áður og tekið tali. Hann er músíkáhugamaður mikill en spilar ekki sjálfur, snemmeftirlaunaður, hún talsvert þekkt söngkona í nútímatónlist, bjó og vann lengi vel í Evrópu en saknaði heimalandsins og flutti til baka fyrir fjórum árum. Þau höfðu boðist til að fara með okkur í túristaferð um helstu staði á þessu svæði í Bláfjöllum.

Jo

Paul

Eftir kaffið þeirra og tebollann minn á kaffihúsinu lögðum við í hann. Kíktum reyndar fyrst í ógurlega skemmtilega litla bóka- og diskabúð, Paul benti mér á disk með verkum Zoltán Kodály, alveg án þess að vita hvað ég held mikið upp á hann – keypti diskinn prontó, keyptum líka kort með mynd eftir Jo, hún selur svona kort í þessari búð og reyndar víðar á svæðinu. Síðan tók the bush við.

skógarstígur

Gengum góðan spöl út í skóginn þar til allt í einu blasti við risastórt gljúfur fullt af skógi, fengum sögur af því að fólk hefði týnst þarna og því trúi ég bara ansi hreint vel. Rosalegar vegalengdir og trén há þannig að engin leið að oríentera sig. Það er víst hægt að fá einhvers konar gps beacon til að láta vita af sér ef maður týnist en ekki allir hafa vit á því. Frekar en að allir hafi vit á því að vera almennilega búnir á hálendi Íslands. Venjuleg gps tæki virka ekki sérlega vel þarna undir trjákrónunum.

dalir

Allt fullt af eukalyptustrjám og tetrjám og auðvitað alls konar öðrum plöntum, til dæmis þjóðarblómi Ástrala. Það má sjá hér ásamt lýsingu:


(tekið skal fram að þetta er ekki eðlileg rödd Pauls heldur er hann hér að ýkja ástralska hreiminn…)

Keyrðum aðeins lengra og fórum þar á meiri túristastað, Echo Point, náðum smá ekkói, þar var allt morandi í túristum hins vegar. Samt flott. Einn útsýnisstað í viðbót sáum við, nánast ekkert fólk þar á ferli, þar var líka túristasenter með sögu fjallanna, skemmtilegt að lesa. Kom mér verulega á óvart að það er svo mikil mengun í vatninu alla leið þarna uppfrá að það er engan veginn óhætt að drekka vatn úr ám eða lækjum án þess að sjóða það og setja hreinsitöflur. Mikill er máttur mannsins!

Þetta er mikið skógareldasvæði, Jo og Paul útskýrðu fyrir okkur að eukalyptustrén spreyi um sig olíu þannig að þegar eldur kviknar er eldsmatur gríðarmikill, jafnvel loftið fyrir ofan trén logar. Þess vegna getur eldurinn farið fáránlega hratt um og fólk þarf að vera mjög svo vart um sig á svæðinu. Sumar plönturnar þarna hreinlega þurfa eld til að geta fjölfaldað sig, það er alveg magnað.

Hafði vonast til að koma auga á kengúrur en þær var hvergi að sjá. Þær eru víst feimnar og hvekktar á mannfólkinu (sló óvart inn mannfólinu og var alvarlega að hugsa um að láta það bara standa) þarna að maður þarf að vera mjög heppinn til að sjá þær. Það er víst reyndar öðruvísi innar í landinu, í Canberra og á sléttunum til dæmis en þangað komumst við ekki. Leit út fyrir að við myndum bara ekki sjá eina einustu kengúru í ferðinni. Ekki gott.

Fórum og fengum okkur hádegismat á sveitakrá, hrikalega góða borgara og ekki síðri ís, við laumuðumst til að borga hádegismatinn fyrir gestgjafa okkar, við hávær mótmæli þeirra þegar þau föttuðu það. En minna gat maður nú ekki gert!

Í lok heimsóknarinnar fórum við öll heim til Paul, hlustuðum á frábæra músík í tja kannski bestu græjum sem ég hef séð í heimahúsi, SuperAudiodæmi. (hmm svona þegar ég hugsa út í það þá minnir mig að heimabíómagnarinn okkar ráði við SuperAudio – en væntanlega eigum við ekki diskaspilara, þarf að tékka á því hvort þarf sérstaka spilara eða hvort magnarinn sé aðalmálið). Lýsti fyrir okkur hátölurum frá sama fyrirtæki og magnarinn okkar (Musical Fidelity, breskar græjur) sem væru víst æðislegir en kostuðu “bara” rúmlega 12.000 pund. (sirka tvær og hálf milljón). Ég myndi kaupa mér nýrri bíl ef ég ætti tvær og hálfa…

Paul og Jo keyrðu okkur svo í veg fyrir lestina og við kvöddum þau með virktum, ég sendi þeim síðan diska með íslenskri tónlist (reyndar akkúrat búin að útbúa pakkann – fer í póst á morgun).

Takeout á malasískum veitingastað og upp á herbergið okkar kalda og klakafulla. Náðum nú samt strax upp hita. Ferðasaga, net og sofa.

rakst á

snilldar ljóð á vafrinu um lýðnetið. Spurning um að taka þetta til sín, já sem flestir jafnvel?

Somebody said that it couldn’t be done,
But, he with a chuckle replied
That “maybe it couldn’t,” but he would be one
Who wouldn’t say so till he’d tried.
So he buckled right in with the trace of a grin
On his face. If he worried he hid it.
He started to sing as he tackled the thing
That couldn’t be done, and he did it.

Somebody scoffed: “Oh, you’ll never do that;
At least no one has done it”;
But he took off his coat and he took off his hat,
And the first thing we knew he’d begun it.
With a lift of his chin and a bit of a grin,
Without any doubting or quiddit,
He started to sing as he tackled the thing
That couldn’t be done, and he did it.

There are thousands to tell you it cannot be done,
There are thousands to prophesy failure;
There are thousands to point out to you one by one,
The dangers that wait to assail you.
But just buckle it in with a bit of a grin,
Just take off your coat and go to it;
Just start to sing as you tackle the thing
That “couldn’t be done,” and you’ll do it.
~Edgar Albert Guest

Dagur #11. Brunabjallan

Sváfum út, vöknuðum ekki fyrr en hálfátta bæði tvö, fyrsta skipti í allri ferðinni sem við fengum almennilegan nánast óslitinn svefn heila nótt. Og styttist í brottför, auðvitað.

Hefðum kannski sofið enn lengur hefði ekki brunabjallan í hótelinu farið af stað þarna klukkan hálfátta, við auðvitað hoppuðum í fötin og hrifsuðum veskin og ætluðum út en þá þagnaði bjallan þannig að við fórum niður í morgunmat í staðinn. Veltum fyrir okkur hvort við ættum að þora að taka lyftuna, það er enginn almennur stigagangur á hótelinu, bara brunastigar og svo lyfta. Enduðum á að hætta á lyftuna. Sáum tvo slökkvibíla með blikkandi ljós fyrir utan, út um gluggann í morgunmatnum, bjallan fór aðeins aftur í gang en hótelstaffið í morgunmatnum var hið rólegasta þannig að við vorum ekkert að rjúka alla leið út á götu. Mætti halda að maður væri á Íslandi.

Bláfjallaferðin frestaðist fram á fimmtudaginn, þessi dagur færi í safna- og garðaskoðun. Fórum í Australian Museum og sáum stórkostlega sýningu um risaeðlur og um dýra- og fuglalíf Ástralíu. Snilldar gagnvirkt borð með upplýsingum um hættuleg dýr sem virtust stökkva upp að fólki. Hrikalega flott.

Japanskur hádegismatur, skemmtilegt hlaðborð, ég hef ekki áður séð viðvörun á hlaðborði að ef maður taki sér meira en maður geti borðað þurfi að borga aukalega. Sniðugt.

Svo tókum við annan rúnt í Grasagarðinum. Ég gæti sett upp hálftíma myndasýningu bara með myndunum þaðan. Gríðarlega skrítið að sjá allar þessar plöntur, maður verður bara hissa að sjá einhverja þekkta. Nema reyndar slatti af blómum sem eru stofublóm hérna heima. Sáum rósmarínrunna sem er svipað stór þeim sem við eigum í forstofuglugganum, hann er reyndar alveg magnað stór.

Hljómar eins og við höfum ekki gert nokkurn skapaðan hlut þennan dag en klukkan var nú samt orðin rúmlega þrjú þegar þarna var komið. Maður verður alltaf svo þreyttur í fótunum á svona borgaplampi, ákváðum að drífa okkur upp á hótel, þrjár búðir í leiðinni, keyptum stórt púsluspil með heimskorti handa Finni og eina bók, við áttum nefnilega svo fáar…

Skiptum milli okkar síðasta klukkutímanum, algerlega skítkalt inni á hótelherberginu, Ástralir eru örugglega eins og Bretar, byrja ekki að hita húsin fyrr en einhvern ákveðinn dag, alveg sama hvort kalt er eða heitt úti. Svo sem ekkert ískalt, 11-19° úti þennan dag en munaði samt alveg nokkrum °, hafði verið alveg upp í 26° dagana á undan. Stakk tölvunni heitri undir sængina mína til að halda heitu, meðan við skruppum út að borða.

Tælenskur staður varð fyrir valinu þetta kvöldið, búandi í Kínahverfinu miðju notuðum við tækifærið að taka út mismunandi asíska matargerð. Búin með kínverskt, japanskt, malasískt, suðurkóreskt, tælenskt í kvöld, víetnamskt og mögulega tævanskt eftir. Skemmtilegt. Höfðum hins vegar hvergi séð ástralska staði, ítalskt, spænskt, þýskt, meira að segja breskt og portúgalskt en enga surf’n’turf staði eða þá kengúrukjöt og krókódíla. Skrítið.
Á þessum greinilega vinsæla tælenska stað (stappfullt á miðvikudagskvöldi) urðum við að prófa pad-thai núðlur og sveimérþá ef Krúa er ekki bara betra! Ísinn og kaffið voru hins vegar snilld.

Upp á hótel og í náttföt, skriðum beina leið undir sæng og teppi, tölvan hafði haldið heitu fyrir mig. Var að spá í að ná mér niðri á hótelinu fyrir kuldann og fara í karbað alla dagana sem eftir væri…

rigningrill

Í dag er frumburðurinn sjálfráða, tíminn flýgur víst svolítið hratt.

Ekki var það nú eingöngu þess vegna sem við ákváðum að grilla í dag, við Jón Lárus höfðum samþykkt að sýna mat í grillblaði Vikunnar sem er á leiðinni út. Þegar ég hafði játað þessu við hana Gurrí mína uppgötvaði ég að þó við séum óhemju dugleg að prófa nýja rétti og prófa okkur áfram með ýmsan mat erum við ekki sérlega tilraunaglöð við grillið. Oftast grillum við lambalundir, bara með salti og pipri, bakaðar kartöflur og laukur með, stundum borgara eða pylsur, stundum fisk, yfirleitt afskaplega einfalt. Eins og er svo sem oft best.

Það er samt kannski ekki nógu spennandi til að gefa sem uppskrift í grillblaði. Lagðist í netrannsóknir, fann eina uppskrift sem mér leist á, hnikaði henni nú talsvert til samt svo ég stæli ekki beint og við prófuðum þetta um daginn. Reyndist mjög gott.

Svo hringdi ljósmyndarinn í morgun og spurði hvenær hann gæti komið og tekið mynd. Jújú, í kvöld, allt í fína með það, klukkan 6 skyldi hann koma.

Hjólaði í snilldar veðri út í Melabúð og keypti lambakótilettur, átti allt í löginn (þegar blaðið kemur út verður uppskriftinni velt út á Brallið). Heim, blanda lög, settist aftur við tölvuna og veit ekki fyrr en það er farið að hellirigna.

Nújæja, skúrin gengur yfir. Jón Lárus kemur heim um hálfsexleytið og hendir yfir kolunum, tíu mínútum eða svo seinna mætir síðan ljósmyndarinn. Og næsta skúr.

Ekki dugði að bíða, kolin orðin grá, við út, tekin af okkur mynd úti í garði í hellirigningunni og svo grilluðum við í sameiningu, Jón Lárus á grillinu og ég með regnhlífina fyrir ofan.

Stundum væri ég til í að eiga ekki svona kreppugrill…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2010
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa