Sarpur fyrir ágúst, 2011

ég er ekki viss um

að Íslendingar séu þvílíkir þumbar og dónar eins og af er látið.

Hún Sylvia, vinkona mín, myndlistarkona og ljóðskáld með meiru er með sýningu í Galleríi Ófeigi þessa dagana. Hún kom til okkar í mat í kvöld og meðal ótalmargs annars sem við ræddum um var viðmót.

Hún er búin að vera hér í um mánuð. Með sýningu á Skólavörðustíg. Er búin að dreifa fleiri hundruð miðum með smá plöggi á myndlistarsýningu og staðsetningu. Viðtökurnar: Jú, Íslendingar taka við, brosa, horfa í augun á henni. Koma svo eða koma ekki á sýninguna, skiptir minna máli. Bandarískir túristar, svipað. Evrópskir túristar: Horft með fyrirlitningarsvip, annað hvort sópað burtu eða tekið við spjaldi og hent á götuna.

Auðvitað eru þetta alhæfingar og ekki algilt en samkvæmt henni er munurinn of mikill og greinilegur til að það sé bara tilviljun.

Mér fannst ekkert vont að heyra þetta – kannski eigum við ennþá séns!?

Afmælistónleikarnir

Nýkomin heim frá Egilsstöðum, Þorbjörn bróðir varð fertugur í sumar og lengi var búið að plana að halda afmælistónleika undir merkjum Sumartóna í Egilsstaðakirkju. Fyrst var held ég meiningin að það væru bara Þorbjörn sjálfur og svo Hallveig systir sem héldu tónleika en síðan kom upp sá möguleiki að við systkinin, sem erum jú öll söngmenntuð og störfum (mismikið þó) við söng, gæfum bróður vorum söng í afmælisgjöf. Tónleikaröðin myndi greiða píanista sem spilaði með okkur.

Til stóð að tónleikarnir yrðu 30. júní, daginn eftir afmælið sjálft. Búið var að bóka þennan líka æðislega píanóleikara og við nokkurn veginn búin að velja lög, aríur, dúetta og fleira. Þá kom fyrsta babbið í bátinn, lýst hér.

Batinn tók talsverðan tíma, (sem betur fer er hann fullur núna, hamingjunni sé lof) þannig að ekkert vit var í að halda tónleikum og veislu til streitu. Töluðum okkur saman og fundum út að eini möguleikinn væri um miðjan ágúst. Sextándi varð fyrir valinu, vegna ýmissa ástæðna, þeirrar kannski helstrar að Torvald sem sér um sumartónaröðina var að fara til útlanda daginn eftir en líka vegna þess að Hallveig verður með tónleika á menningarnótt og vildi ekki vera of nálægt henni. Þá hófst leit að nýjum meðleikara því okkar kona var auðvitað búin að lofa sér á þeim tíma. Töluðum við alla sem okkur mögulega kom í hug að gætu tekið svonalagað að sér með stuttum fyrirvara. Leitin gekk takmarkað vel þar til Þorbjörn auglýsti á flettismettinu. Þá kom strax ein sem var spennt fyrir þessu. Við tókum vel í það, héldum fund með henni og afhentum nótur.

Viku síðar kom síðan í ljós að þarna hafði hún reist sér hurðarás um öxl. Nánast ekki spilað neitt af þessu áður og sumt var vægast sagt snúið þó það kannski liti einfalt út. Fyrir píanóleikara sem er ekki í fullri þjálfun – já þetta var semsagt einum of. Hún bauðst reyndar til, ef við ekki fyndum neinn annan, að hætta við sumarfrísferðina sína og æfa sig dag og nótt fram að tónleikum. Við vildum nú samt reyna frekar að finna aðra lausn.

Allt í uppnámi aftur. Þar til Kristín mágkona, kona Óla bróður stakk upp á að hann hringdi í vin sinn og meðleikara, hljómsveitarstjórann og píanistann Peter Ford, sem hann hafði margoft unnið með, við sæktum semsagt píanóleikara alla leið til Bretlands. Peter brást glaður við og var til í að spila fyrir farmiða og uppihaldi (takktakktakk!).

Síðan kom nú það alvarlegasta upp á. Besti vinur hennar Hallveigar (og auðvitað vinur okkar allra) lést við köfun á Eyrarsundi. Minningarathöfn um hann var haldin, jú 16. ágúst. Klukkan 15:00 og tónleikarnir voru settir klukkan 20:00. Ekki kom annað til greina en Hallveig væri við athöfnina (reyndar þótti okkur öllum hræðilega sárt að geta ekki verið þar líka). Þetta átti nú samt að geta gengið upp, Hallveig flaug í bæinn að morgni þess sextánda og átti flug til baka klukkan 18:00.

Nema hvað upp úr hádeginu fær hún sms frá Flugfélagi Íslands um seinkun á fluginu til klukkan 20:30! Það var víst fótboltalið að spila leik á Eskifirði og þeir þurftu að ná fluginu í bæinn. Og auðvitað kom engan veginn til greina að áhöfn og vél biðu á Egilsstaðavelli frekar en Reykjavík. Fótbolti náttúrlega gengur fyrir öllu…

Tónleikunum frestað til klukkan 21:15 og prógrammið stokkað upp þannig að Hallveig yrði ekkert fyrr en eftir hlé. Auglýstum seinkunina á netinu og í útvarpinu og hringdum og sendum sms til allra sem okkur datt í hug að myndu mögulega ætla að koma á tónleikana. Um 30 manns mættu samt á svæðið klukkan átta.

Hringdum í flugfélagið upp úr klukkan hálfníu og vélin hafði farið í loftið 8 mínútum eftir áætlaðan tíma. Ekki mátti nefnilega fara út í Egilsstaðavélina fyrr en Grænlandsvél sem lenti rétt á undan hafði tæmt sig (grrr – gat það lið ekki beðið í 5 mínútur úr því þessi vél var tveimur og hálfum tíma of sein þá þegar???) Hallveig og stúlka sem hafði líka farið í minningarathöfnina, ætlaði á tónleikana og var með bílinn sinn úti á velli höfðu látið taka frá sæti númer 1a og 1b, voru hvorug með farangur til að bíða eftir svo þær gátu rokið beint úr vélinni upp í kirkju.

Hófum tónleikana, enn pínu stressuð. Húsfyllir í kirkjunni. Í hléi mætti Hallveig á svæðið, svippaði sér í tónleikapilsið (var fulltónleikadressuð fyrir utan það) – og við gátum klárað.

Þrátt fyrir þetta ótrúlega hindrunarhlaup voru tónleikarnir mjög skemmtilegir, allavega fyrir okkur – og Peter píanóleikari stóð sig stórkostlega! Kærar þakkir.

Fleiri myndir hér.

án titils

Lauffallið ristir rauðar rúnir í þokuna hljóð orð leita hvíldar angist og ást leita einskis og alls hjá þér móðir eilíf og söm

hvert lauf hvert ljóð.

Snorri Hjartarson


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

ágúst 2011
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa