dagur í dag, fyrst kom hann Bjarni litli hennar Hafdísar í prufupössun, þar sem Fífa ætlaði að sjá um gutta á meðan á tónleikum stæði, þá hjólatúr inn í Laugardal, brutum reglur grasagarðsins með því að hjóla í gegn (sáum ekki neitt skilti með bannmerki við aðalinnganginn, þrátt fyrir að skima, svo var skilti vestast þar sem við fórum út). En við vorum reyndar ekki fyrir neinum. Rok í rétta átt, auðvelt að hjóla heim. Mættum þessum bloggara ásamt dóttur á Snorrabrautinni á leiðinni heim.
Þá tónleikar, 15.15 í Norræna húsinu, meðal annars frumflutt útskriftarverkefni fyrrnefndrar Hafdísar frá LHÍ, megaflott verk sem Caput átti fullt í fangi með að flytja (að Guðna stjórnanda sögn, ekki að það heyrðist nokkurn hlut á flutningnum). Annað á tónleikunum sönglög eftir stórtenór og sópran, verk fyrir flautu, píanó og slagverk eftir ungt rúmenskt tónskáld og sveitadansar eftir kennara úr sveit. Allt flott. Sveitadansarnir ekki dæmigert Caputfóður, en sveimérþá ef þau gátu ekki svingað.
Komst ekki í partíið eftir tónleikana (muuu) þar sem ég þurfti að rjúka beint á kóræfingu, kom meira að segja hálftíma of seint, 15.15 eru yfirleitt ekki nema klukkutími og ég hafði reiknað með að ná þessu nákvæmlega, en þá voru þessir einn og hálfur í staðinn. Og endað á verkinu hennar Hafdísar, þannig að ég hafði ekki séns á að laumast út milli verka, þegar aðalstykkið var síðast. Oh well.
Æfingin gekk mjög vel, bara, Óttusöngvarnir alveg að smella saman. Organistinn mætti í dag og spilaði með okkur, en við erum enn ekki farin að heyra einsöngvarana, sellóið og slagverkið. Get ekki beðið fram á föstudag, þegar þetta kemur allt saman.
Endaði síðan á stjórnarfundi Hollvinafélags Sumartónleika í Skálholtskirkju. Drög komin að dagskrá sumarsins, margt mjög spennandi. Fáið örugglega að heyra af því þegar nær dregur og búið er að negla þetta fastar.
ussuss, ein löng færsla. Og ég sem hefði örugglega getað bútað þetta niður í fleiri…
Nýlegar athugasemdir