Afmælisleyniferð til München, Tag zwei

Miðvikudagurinn byrjaði á því að við átum afganginn frá afganska staðnum daginn áður. Já eða reyndar eiginlega bara kjötið sem eftir var. Brauðið var orðið seigt. En við erum búin að finna uppskrift og ætlum að prófa að baka svona brauð, já og búa til svona keböb. Þorbjörn, áttuð þið ekki einhver mökk fín kebabaspjót sem við gætum fengið lánuð? Við ætlum að birgja okkur upp af kryddum á morgun og koma með heim (svo finnum við þau reyndar alveg bókað í Istanbúl eða Fisku, en það gerir ekkert til)

Þetta var ekki alveg nægur morgunmatur svo við fórum út á horn og fengum okkur kaffi og morgunmatarsamloku. Samanburðurinn við Fosshótel var ekki alveg réttlátur því morgunmaturinn er ekki innifalinn hér svo við fengjum kannski bara tvær og hálfa nótt fyrir þessa einu uppi í Reykholti.

pínu þurrar samlokur, fínn espresso, sætur kaddl!

Stefnan var tekin á Andechsklaustur-og-brugghús, eiginlega pílagrímsferð. Marta frænka kynnti okkur fyrir Andechs doppelbock dunkel þegar við komum hér fyrir þessum nær 35 árum og hann er búinn að vera í uppáhaldi hjá okkur síðan. Mjög góður bjór og þó við höfum síðan reyndar dottið aðeins dýpra í sérbjórana, sérstaklega þá belgísku þá stendur þessi enn fyrir sínu. Veðrið var dýrð og dásemd, 18° og sól. Hefði meira að segja getað tekið tásumynd til að stríða Seðlabankanum.

Lestarstöðin er í þægilegu göngufæri og við tókum S-bahn til smábæjarins Herrsching og strætó þaðan alla leið upp í klaustur. Lestin mjög fín og ekki margt fólk:

Komin uppeftir, um hálftólf og byrjuðum auðvitað á því að kaupa okkur bjór. Nei tvo. Nei þrjá! Hádegismaturinn var bjór og risastór pretzel og reyndar tvær reyktar pylsur sem ég tók ekki mynd af.

Allavega feikinóg af kolvetnum! Og D-vítamíni.

Sátum þarna dágóða stund í sólinni, ég færði mig til undir sólhlífinni til að passa að brenna ekki, auðvitað höfðum við ekki hugsað út í að taka með sólarvörn. Sólhlífarnar þarna voru af stærra taginu. Við vorum ekki alveg viss hvort þetta væru eldflaugar eða sólhlífar:

Keyptum okkur tvö bjórglös í minjagripaskúrnum, það var ekki tekið við kortum þar en greinilega voru fleiri en við að lenda í veseni með það því það var hraðbanki á svæðinu. Nei við stálum ekki krúsunum sem við drukkum úr! öll (umm allavega langflest) okkar meira en 100 bjórglasa í safninu eru heiðarlega fengin. Enda var fólk þarna varað við, ekki fara með bjórkrúsirnar út, það er þjófnaður og verður kærður til lögreglu!

Þetta páskalega blómabeð var á strætóstoppistöðinni:

Röltum aðeins um í kring um klaustrið, fórum ekki inn og heldur ekki í rúntinn í brugghúsinu, það er nóg að fara slíkan rúnt einu sinni. Bjór er ekki bruggaður á svo marga mismunandi vegu að það sé eitthvað sérlega nýtt fyrir manni.

Þarna höldum við okkur hafa séð Zugspitze, hæsta tind Þýskalands, frá klausturhæðinni:

og klaustrið er alveg flott líka

Rétt misstum af sama strætó til baka svo við fórum aðeins aðra leið, örlítið lengri en ekki síður skemmtilega.

Hótel, smá hvíld. Út aftur rétt undir sex, höfðum mælt okkur mót við Auði frænku sem býr í München. Vorum byrjuð á þýskri matar- og drykkjarhefð þennan dag og um að gera að halda slíku áfram. Leigubíll takk. Nýju sandalarnir sem ég splæsti í fyrir ferð og var búin að ganga smá til voru farnir að taka smá toll, second skin alveg að gera sig.

Fórum öll þrjú í schnitzel. Jón Lárus er mikill schnitzelmaður og fær sér alltaf slíkt þegar það er í boði í vinnunni og sá fram á það að vera úthýst úr mötuneytinu ef hann færi til Stóra Schnitzellands (ok Austurríki er líka mikið í schnitzelunum en Þýskaland er óneitanlega stærra) og segði frá því að hann hefði ekki fengið sér slíkt!

Auður er alltaf svo ánægð þegar fólk kemur til hennar, einhvern veginn alltaf skyldan á henni og fjölskyldu að hitta allt gengið þegar þau koma til Íslands. Svo þetta var alveg ógurlega gaman. Og díses hvað þessi snitsel voru stór! Ekki fræðilegur að neitt okkar kláraði. Svo nú eru hvítir pappírspokar með kjötsneiðum í ísskápunum á hótelinu og heima hjá henni!

Mikið kjaftað enda Auður með skemmtilegri konum! Takk fyrir hittið og þartilnæst. Hjartaímótíkon!

Rigning á leið heim. Ekki snarbrjálað úrhelli og þrumur og eldingar en samt alveg rigning og rok, svona Reykjavíkurslagviðri (nema ekki kalt). Ég hafði haft einhvern vara á mér og kippt með heiðgulu regnhlífinni sem við keyptum í einhverri utanlandsferðinni (mögulega Berlín) og sem býr núna í ferðatöskunni svo við þurfum ekki alltaf að kaupa okkur nýja þegar okkur kemur á óvart að það rigni stundum líka í útlöndum. Svo já hún var með í ferðinni og líka með í kvöld. Kom í góðar þarfir. Við ætluðum að veiða leigubíl heim á hótel en það var fátt um fína drætti þarna nálægt veitingahúsinu svo við enduðum á því að fara samferða Auði í U-bahn á aðallestarstöðina. Troðningur af fólki og ýtnu mér tókst að komast inn í vagninn en ekki þeim (sjáið svo fyrir ykkur NEIIIII svipinn gegn um rúðuna á lestarhurðinni). Svo sem enginn heimsendir samt, sendi Jóni á Signal að ég myndi bara bíða á Hauptbahnhof eftir þeim. Örfáum mínútum seinna birtust þau svo og Auður lóðsaði okkur upp á yfirborð rétta leið, það eru endalausir út-og inngangar úr kerfinu þarna. Sögðum skilið við hana og röltum upp á hótel. Náttfötin og græni vettlingurinn tékk. Já og regnhlíf í þurrki inni í sturtuklefa!

2 Responses to “Afmælisleyniferð til München, Tag zwei”


  1. 1 George Chave 2024-03-28 kl. 13:32

    I really thought the umbrellas WERE rockets when I first saw the picture! Looks like you’re having lovely weather in Munich.


Færðu inn athugasemd




bland í poka

teljari

  • 380.668 heimsóknir

dagatal

mars 2024
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa