Sarpur fyrir febrúar, 2008

púsluspil

Í fyrramálið er fyrst kammeræfing hjá Freyju (9:30-10:15), svo langar Finn til að kíkja á kóræfingu (10:30-12:00, ekki víst að það gangi upp, reyndar), þá er dósasöfnun hjá kórnum hennar Freyju (mæting 11:00), Fífa á að mæta á kammersveitaræfingu líka klukkan 11:00 í Norræna húsinu, tónleikar hjá henni klukkan 14:00. Svo langar mig ógurlega til að kíkja í morgunmat á Sunnuflötina, Þorbjörn í bænum og ma&pa bjóða í morgunmat. Sé ekki alveg hvernig það á að geta gengið upp, því miður. Nóg að reyna að púsla hinu dótinu.

Fífu finnst reyndar að það sé kominn desember aftur, fernir tónleikar næsta hálfa mánuðinn og æfingar fyrir það allt saman. Kammertónleikar á morgun, tvennir Ungfóníutónleikar í næstu viku og strengjasveitartónleikar vikuna þar á eftir. Ég var reyndar búin að fá frí fyrir hana í strengjasveit eftir jól, út af samræmdu prófunum, en fiðluvinkonurnar hálfneyddu hana til að koma aftur, vantaði svo marga. Ekki smá sem þessir krakkar hafa mikið að gera!

flott sýning

fór á mjög skemmtilega myndlistarsýningu áðan, Hjördís I. Ólafsdóttir sýnir vatnslitamyndir og klippta ketti í litlum sal í Bókasafni Seltjarnarness. Mæli hiklaust með henni (og ekki bara vegna þess að Hjördís er móðursystir mín, sko).

Keypti meira að segja eina mynd, hlakka til að fá hana. Hmm, spurning hvar hún gæti hangið?

cello challenge

fann þetta hjá henni Elfu Rún, nokkuð skondið. Gekk svipað og henni, mamma er víst bara stolt af mér…

ofvirk ruslasía

Ruslasían hjá Vodafóni át heil fimm bréf sem hún átti ekki að taka, í nótt og morgun. Þar á meðal sitt eigið viðvörunarbréf, um að bréf hefðu stoppað í síunni (eitt af þremur slíkum núna í dag).

Ráðlegg þeim lesendum sem eru hjá Vodafone að skoða viðvörunarbréfin vel núna.

ég held

að það sé partí hér uppi á lofti.

Best að drösla sér niður hæð, fara að sofa og þakka fyrir það að í mínu gamla hljóðbæra húsi skuli vera heil hæð á milli, sem við ráðum.

Ekki að það séu oft partí uppi, en kemur nú fyrir samt. Annars er hann Gunni hér uppi á lofti þvílíkur munsturnágranni að eftir öðru eins mætti lengi leita…

óvenju góð

brandarasíðan í danska kellingablaðinu sem ég keypti mér áðan (les það fyrir uppskriftirnar, skoh…!)

Einu sinni var hægt að taka gamlar kvenmannsnærbuxur og nota þær sem afþurrkunarklúta.

Nú má nota þær sem tannþráð…

fjármálaspekúlasjónir

útskýrðar á tæplega 9 mínútum.

fundið hjá Kalla.

krakkarnir laus

krónísku eyrnabörnin mín, þau tvö yngri, fengu clean bill of health hjá eyrnalækninum í gær, þurfa ekki einu sinni að mæta í tékk framar.

Ekkert smá gott.

Freyja þarf reyndar að fara af og til og láta hreinsa út, eyrun fyllast alltaf af merg. Í ættinni. En það er auðvitað ekkert mál í samanburði við hitt.

frábært

komin nettengd tölva í stofuna mína í Hafnarfirði. Nú þarf ég eiginlega að læra almennilega á nýja gmailpóstinn minn svo ég geti búið til póstlista og sett tónheyrnarkrökkunum fyrir í tölvupósti. Engar afsakanir framar – ég var veik og vissi ekki hvað átti að gera heima…

Svo auðvitað hægt að finna skemmtilega hluti á netinu til að sýna þeim, búa til verkefni á netinu, fletta upp upplýsingum, jámm, allt þetta venjulega.

Og drepa tímann á meðan krakkarnir eru í prófi – eins og ég er að gera akkúrat núna…

lió

prosím o potvrzení,

ze prijedete s tvojí kamarádkou-skladatelkou na koncert 25.6.2008

jámm, tónleikarnir með verkinu mínu í Tékklandi verða væntanlega þann 25. júní í ár. Þá er að setja sér deadline fyrir verkið og drífa í að klára.

Hlakka gríðarlega til að fara til Tékklands aftur. Og þá til Plzen, bara að passa sig að drekka ekki yfir sig af dökka Budvarnum, sem sveimérþá gæti talist uppáhaldsbjórinn minn. Ótrúlega lítið framleitt af honum reyndar, við fundum hann hvergi í Prag fyrir tveimur árum, hvar sem við leituðum. En í Plzen hlýtur hann að vera á annarri hverri krá.

Hópurinn sem er að panta frá mér er mjög fínn, Íslandstengingin er Eydís Franzdóttir sem spilar með þeim, hafa haldið tónleika hér, fyrir nokkrum árum. Þetta verður ekki lítið skemmtilegt.

ég fékk ekkert að spila

á æfingunni í kvöld. Bara ekki einn einasta tón.

Kom svo sem ekki til af góðu, þar sem stjórnandinn var lasinn í kvöld og ég fékk að stjórna. Það er reyndar ekki leiðinlegt, bara hreint ekki. Hugsa nú að ég hefði kannski ekki treyst mér til þess svona óundirbúið, nema vegna þess að ég þekki verkið út og inn – (reyndar í örlítið annarri útgáfu), líklega betur en nokkur hinna í hljómsveitinni. Verkið er Sjö orð Krists á krossinum eftir Haydn, alveg hreint magnað stykki, líkist eiginlega frekar Beethoven en þeim hugmyndum sem fólk hefur almennt um Haydn. Leyndi á sér, blessaður. Þetta verk er til í heilum þremur útgáfum, ein er fyrir strengjakvartett, önnur fyrir litla hljómsveit (sú sem við erum að flytja) og síðan fyrir kór, einsöngvara og stærri hljómsveit, Hljómeyki flutti það með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1991 og ég hef haldið mjög upp á það síðan.

Gat tekið síðasta kaflann (bráðhraður Presto) hægt og rólega, svona til að spilarar vissu nú hvernig hann ætti að hljóma, á frumlestri í síðustu viku gat maður eiginlega ekki einu sinni fylgt nótunum eftir með augum og heila, hvað þá spilað. Hreinsaði líka upp 2-3 staði sem ég vissi að myndu reynast snúnir. Bara hið besta mál.

Vona nú samt að Óliver verði orðinn góður af pestinni næst. Pestir eru leiðinlegar.

samkeppni

humm, ekki fylgist maður með, ég var að frétta það núna að í gangi er samkeppni um nafn á tónlistarhúsið. Spurning um að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug (alls ekki má koma fram neitt – ráðstefnu – neitt, takk)

Annars sé ég grunninn og rúmlega það hér út um gluggann á Sölvhólsgötunni. Inspírasjón?

hafði vit á

þrátt fyrir alla syfjuna að undirbúa mig fyrir morgundaginn að hluta. Síðasta þriðjudag var ég fram til 10 mínútur yfir 10 að klára tímaplan og yfirferð (byrja að kenna hálfellefu). Ekki skemmtilegt að vera í svoleiðis stressi.

En sofa núna, ég nenni eiginlega engan veginn að svíða í augun af syfju allan daginn á morgun líka. Og hljómsveitaræfing annað kvöld, meira að segja.

óttalegur

mánudagur í mér, skil þetta ekki alveg. Ég sem svaf svo vel um helgina. Alveg að fara yfirum úr syfju hér og á eftir að kenna 4 tíma og fara svo á tónleika hjá Fífu í kvöld, hún er að spila kafla úr Mozartkonsert á skólatónleikum í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Kannski ég ætti að loka augunum í þessar 8 mínútur fram að næsta tíma? Humm?

mátti reyna

Sýnist vera

meiningin að selja húsið hér á bak við. Vinir okkar, Þogga og Bjöggi, löngu flutt suður í Reykjanesbæ, vilja selja blessaðan hjallinn. 16,5 millur, trænger til en kærlig hånd myndi Daninn segja, útleggst kannski hér sem: Tilvalið fyrir handlagna?

Fínasta útsýni úr eldhúsinu, ekki satt?

Reyndar er kjallaraíbúðin í húsinu á sölu á sama tíma, ekkert verð sett á hana reyndar. Vantar bara miðhæðina, ef einhver er til í að kaupa allan pakkann (helst rífa og setja sætan lítinn lystigarð í staðinn… hei, maður má nú láta sig dreyma!)

en hvar var

„Space-Time continuum rift“ takkinn?

sumarbústaðarferð

þessir Samskipabústaðir eru bara tær snilld, fórum síðdegis á föstudaginn upp eftir, buðum engum með okkur í þetta sinn, bara fjölskyldan. Slöppuðum fullkomlega af.

Fallegt þarna uppfrá.

Við Fífa að leggja kapla

og krakkarnir fóru í heita pottinn, Finnur hélt lengst út.

Hálfskammarlegt að segja frá því, en playstationtölvan var tekin með – aðallega til að geta spilað dvd diska, en auðvitað laumuðust 2 leikir með í pokanum, hér keppa feðgarnir í Formúlu 1 leik

Ekki fór nú allur tíminn í tölvuleik samt, krakkarnir hálfsáu eftir að hafa ekki tekið sleða eða þoturassa með. Seinna, bara.

Gersamlega nauðsynlegt að komast aðeins í burtu, svona af og til…

já og ég vann – samkvæmt honum Óskari

ekki sem verst, Ítalarnir virðast hafa kunnað að meta hvað ég tók mikinn þátt í leiknum/listaverkinu eða hvað ég á nú að kalla það.

Bara mjög gaman að þessu, vona bara að það stoppi…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

febrúar 2008
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
242526272829  

sagan endalausa