Archive for the 'tónlist' Category

Leynivika

Nei ég var ekki leynivinur né átti slíkan en leynigiggin voru tvö þessa viku.

Í hádeginu á miðvikudag var hún Hallveig systir leynigestur hjá Gerrit á hádegistónleikum í Fríkirkjunni. Meðal annars söng hún Ekkóaríuna úr Jólaóratoríu Bachs (maður þorir ekki annað en að nefna höfund, það var jú verið að frumflytja glænýja jólaóratoríu eftir Sigurð Sævarsson í Hallgrími um daginn, en þetta var semsagt úr þeirri þekktu). Þar vantaði ekkóið og ég fékk þann heiður að bergmála. Gríðarlega skemmtilegt að vera leynigestur hjá leynigesti.

Svo í dag, föstudag var annað leynigigg. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kór Áskirkju hafa verið að flytja Messías síðustu daga í Hörpu. Hljómeyki var með í því giggi í fyrra en ekki í ár en þegar til stóð að Sinfónían yrði með flashmob uppákomu í Kringlunni var kallað í Hljómeyki til að taka þátt. Þetta var ógurlega mikið leyndarmál, ég meira að segja neitaði að segja fjölskyldunni frá þar til ég reyndar laumaði þessu út við Jón Lárus í morgun.

Svo kom póstur í dag þar sem lýst var hvernig við skyldum fara að. Tvítekin uppákoma, hljómsveitin laumaðist smátt og smátt inn til að spila Pastoralsinfoniuna úr fyrsta þætti Messíasar, án endurtekninga og síðan tóku kórarnir undir í Hallelújakórnum. Í lokin bættist meira að segja Kór Neskirkju við ofan af svölum.

Allt var þetta tekið upp á vídeó, hlakka til að heyra. Þetta var gríðarlega mikil stemning, eiginlega meiri en ég gerði ráð fyrir, hélt að þetta myndi hverfa upp í Kringlugeiminn en það semsagt gerðist bara ekki neitt og ég fékk þvílíka gæsahúð þegar Neskirkjukórinn þrumaði lokapartinn með okkur ofan af svölum.

Þetta hlýtur að detta inn á youtube, vísa í það þegar það kemur.

Uppfært. Ekki enn á þérröri en hér

og hér líka. Eins og ég sé er hljóðið ekki samferða myndinni en annars skemmtileg myndataka. Takið sérstaklega eftir ræstitækninum!

Þar kom þetta:

Flashmob í Kringlunni

Svíþjóð dagur 1

úff dagur! Illt í tánöglunum. Ekki gott að keyra sig í nýlegum skóm þó þeir séu frá Echo. Hélt að ég hefði verið búin að ganga þá alveg til en það var víst svolítið frá því.

 

Ég var semsagt að fara á Norræna tónlistardaga í Stokkhólmi. Hafði verið í prógrammnefndinni og þá fær maður að fara og fylgjast með hátíðinni. Þrjú íslensk tónskáld áttu verk á hátíðinni, Hafdís Bjarnadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson og Áki Ásgeirsson. Áka verk var reyndar flutt á miðvikudeginum en ríflega helmingur hópsins kom ekki fyrr en á fimmtudegi þannig að við misstum af hans verki og hinum á fyrsta kvöldinu.

 

Jæja, dagurinn byrjaði samt vel lengi fram an af. Vakna klukkan fimmsnemma eða ríflega svo, Kjartan sótti okkur Pétur (framkvæmdastjóra Myrkra músíkdaga og Norrænna tónlistardaga á Íslandi) og Halla. Hafdís og Palli, maðurinn hennar höfðu farið tveimur dögum fyrr og Áki 4-5 dögum.

 

Innritun og smá verslað, ekki mikið samt. Keypti samt tvær bækur. Hafði ekki þorað annað en að vera í lopapeysunni minni þar sem ekki er á vísan að róa með hitastig á þessum tíma. Hún kom sér vel í flugvélinni en var síðan ekki notuð meira alla ferðina nema þá sem rauðvínsflöskuböffer.

 

Kjartan og Pétur voru síðan að flýta sér einhver ósköp á fundi og ruku beint úr vélinni inn í bæ. Höfðu ekki tékkað inn töskur þannig að þeir voru snöggir út í lest. Við Halli vorum hins vegar ekki eins tímabundin, sóttum töskur og tókum síðan lest niður á aðalbrautarstöð. Þar skildi leiðir, ég tók leigubíl á hótelið, tók einn og hálfan óratíma, örugglega álíka lengi og það hefði tekið fyrir mig að labba, hellings umferð og bíllinn mjakaðist varla áfram.

Ekkert var um að vera á hátíðinni fyrr en um kvöldið þannig að ég náði í miðana sem höfðu verið teknir frá fyrir mig. Orðin svöng og ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og fara á MacD og síðan að fara bara í þær útréttingar sem ég ætlaði mér í ferðinni.

 

Inni í þeim var ekki ein einasta H&M ferð. Hin í den islandske delegation sluppu ekki eins vel.

 

Ég fór hins vegar í ríkið með óskalista frá bóndanum. Fékk allt sem á listanum var, þetta fínasta Systembolag á Regeringsgatan. Rambaði síðan á hönnunarbúð og fékk þar jólagjafir handa dætrunum. Frágengið (nú verða þær væntanlega viðþolslausar af forvitni)

 

Aftur á hótelið í góða stund, svo fórum við Pétur til að finna staðinn þar sem kvöldtónleikarnir áttu að vera, Pétur hafði ekki náð í miðana sína þar sem afgreiðslan lokaði snemma, smá klúður en kom reyndar ekki að sök.

Tónleikar/uppákomur kvöldsins voru allar rétt hjá að mestu leyti aflögðu samgöngumannvirki sem heitir Slussen. Ég hafði farið þar og skoðað þegar við vorum að ákveða verkin á hátíðina en tókst samt ekki að ramba á venjúið þrátt fyrir að við leituðum og leituðum. Fyrstu tónleikarnir voru síðan úti, lúðrasveitaverk með 3-4 sveitum hér og þar um svæðið, samanstóð aðallega af nokkrum nótum sem kölluðust á, upp og niður, ég saknaði þess að nýta ekki miðlana betur. Hittum á hin ásamt sænska formanninum sem rataði auðvitað á venjúið. Þar voru þrjú frekar flott vídjóverk ásamt lifandi flytjendum. Slepptum síðustu tónleikunum enda byrjuðu þeir ekki fyrr en hálftólf um kvöldið og dagurinn var orðinn ári langur. Leigubíll upp á hótel og steinsofnaði.

 

Smá brot úr einu verkanna í Slussen klúbbnum:

Dagur #7. Karlovy Vary

Vaknaði eldsnemma. Allt of snemma. Skrifaði dagbókarfærsluna sem birtist í gær. Sofnaði aftur og svaf til níu. Ekki slæmt.

Framan af degi var ekki mikið frásagnarvert, við Jón settumst bara út á svalir og lásum. Það var um 28° hiti en skýjaslæða, hefði eiginlega ekki getað verið mikið þægilegra. Ég lét alveg vera að fá mér bjór þennan daginn enda tónleikar um kvöldið. Eitthvað smá þurftum við að hoppa út og inn með stólana vegna rigningardropa sem duttu af og til.

Skutumst í hádegismat þegar húsbóndinn kom heim eftir hljómsveitaræfingu. Heimtuðum að fá að borga fyrir alla sem borðuðu, maður er svo borinn á höndum sér hérna að maður reynir að gera það sem maður getur.

Aftur út á pall og setið þar þangað til var kominn tími til að finna sig til fyrir tónleika kvöldsins. Í þetta skipti klikkaði ekki kjóllinn. Smá upphitun og svo keyrt yfir í hina hlíðina í nýuppgert listahús. 

Hina hlíðina já, miðbær Karlovy Vary er árfarvegur og ansi mjór, skógi vaxnar hlíðar báðu megin. Hús Miljos og Hönu er á frábærum stað norðan í hlíðinni beint yfir túristamiðbænum. Örugglega rándýrt svæði.

Tónleikahúsið var mjög fallegt og eins og ég sagði, nýuppgert. Becherovkasnafs er framleiddur í Karlovy Vary og verksmiðjan hafði kostað viðgerðirnar á húsinu sem hafði víst verið í ansi mikilli niðurníðslu.

Æfing fyrir tónleika, svo smá bið, leist ekki á að margir myndu koma, 5 mínútum fyrir byrjun sátu bara 8 í salnum en síðan hópaðist að fólk á síðustu stundu og salurinn var svo til fullur. Lítill salur reyndar, bara um 40-50 manns. Tékkarnir sögðu okkur síðan að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem haldnir voru tónleikar í þessum sal (húsið var semsagt ekki listahús áður en það féll í niðurníðslu heldur einhvers konar frístundahús fyrir börn).

Tónleikarnir gengu ljómandi vel, talsvert betur en á Íslandsdeginum.  Fínar undirtektir, mjög skemmtileg upplifun. Dauðsá eftir að vera að fara heim daginn eftir og missa af síðustu tvennu tónleikunum. Við höfðum ekki tíma til að vera alveg tvær vikur en hefðum alveg getað tekið helgina inn í og farið heim á mánudegi. Athugunarleysi. Síðustu tónleikarnir yrðu í Bayreuth, hinni miklu Wagnerborg, heiður að fá verkið sitt flutt þar í tónleikaröð og ég hef ekki einu sinni komið þangað!
Blóm og fuglsstytta eftirá, sérstaklega viðeigandi þar sem við enduðum á að syngja Lítill fugl eftir Fúsa, gaf Hönu blómin mín svo þau gætu notið. Heimboð hjá slasaða sellistanum, skálað í Plzensku freyðivíni og spjallað fram á nótt – skildum auðvitað lítið þar sem megnið fór fram á tékknesku. Gæti vel hugsað mér að læra málið, eftir 5 ferðir til Tékklands er maður aðeins byrjaður að grípa. Og nei, þetta verður ekki síðasta ferðin!

Annar kaflinn úr Strengjakvartett #1

Dagur #3. Tónleikar í Prag

Vöknuðum klukkan 7 en sofnuðum sem betur fer aftur – 5 að íslenskum tíma. Rumskuðum ekki fyrr en klukkan að verða níu og fannst við hafa sofið út. Morgunmatur og svo aðalæfing fyrir tónleikana um kvöldið. Gekk fínt. Hádegismatur, steiktar svínasneiðar og síðan bakaðar í rjómaosta/ostasósu með kúmeni. Afskaplega gott (já þetta blogg fjallar semsagt aðallega um músíkina og matinn í ferðinni, ekki endilega í þeirri röð).

Langur bíltúr til Prag, þarna vorum við 7 plús selló og hin hljóðfærin í bílnum. Fyrst var sellóinu troðið ofan á þær þrjár sem sátu fyrir aftan bílstjórann en síðan tók Martin fyrstifiðluleikari sem sat frammi í við hlið Miljos það og setti fyrir framan sig. Ekki það þægilegasta en við komumst jú öll með tölu til Prag. Þarna varð nú þrengst í bílnum.

Tónleikarnir þennan dag (16. júní, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn) voru partur af stórum Íslandsdegi sem var haldinn í borgarbókasafni Prag. Það reyndist vera rétt hjá hótelinu sem við gistum á í Gradualekórferðinni þremur árum fyrr. 

Jana hafði verið hrædd um að það kæmi enginn á Íslandsdaginn því það var svo góð spá að allir myndu bara fara upp í sveit og enginn nenna að hanga inni í dimmum sal allan daginn. Þar reyndist hún hins vegar ekki sannspá því uppselt var á daginn og stappfullt í salnum. Við hlustuðum á part af fyrirlestri og skildum auðvitað ekki bofs, sáum hins vegar myndasýningu sem Palli stjórnaði, fyrst af húsum og graffitíi í Reykjavík og síðan af ferðaklósettum úti um landið. Fyndið. Flest pínulítil og í laginu eins og A. Það hefur verið heilmikil vinna að hreinlega finna öll þessi klósett. Palli átti heiðurinn af Reykjavíkurmyndunum en Jana hinum.

Þá tók við jarðfræðifyrirlestur um   Ísland en þá gáfumst við nú upp og fórum út, enda skildum við ekkert.  Einn og hálfur tími í tónleikana, sem voru lokapunktur Íslandsdagsins. Við Jón Lárus röltum í bæinn, það var allt of heitt til að vera í sólinni þannig að við fundum útiveitingahús og pöntuðum okkur bjór (Jón þeas, ég vildi ekki drekka neitt áður en ég syngi) og ísrétt (semsagt ég).

Þá var komið að tónleikunum. Afskaplega lítið pláss baksviðs, eitt þröngt herbergi til að skipta um föt. Uppgötvaði að ég hafði ekki pakkað niður tónleikakjólnum, hafði fundið hann til, brotið saman og sett í poka en ekki hafði pokinn ratað í bakpokann. Vildi til að ég var í nýja sumarkjólnum og það varð bara að duga – hefði ég verið í stuttbuxum og bol hefði ég orðið að fara og kaupa mér eitthvað dress. Sem hefði pottþétt verið taaaaaaalsvert dýrara í miðborg Prag en í Plzen. Úff já.

Tónleikarnir voru ógurlega skemmtilegir, verkin hvert öðru áheyrilegri (montin ég, nei nei!) Kannski eitthvað rati á þigrörið, þarf að fá leyfi hjá öllum fyrst. Tékkneska verkið eftir son slasaða sellóleikarans var hreint ekki síst og miðað við að hann er bara 18 ára var það aldeilis magnað. Sönglögin tókust fínt, svona flest allavega. Mjög gaman. Eydís kynnti á tékknesku og maður skildi bara nöfnin á lögunum.

Pöbbamatur og einn bjór og svo keyrt til Karlovy Vary. Vorum ekki komin þangað fyrr en að verða eitt um nóttina, við hrundum beina leið í bólið.

Dagur #2. Plzen-Karlovy Vary

Eftir morgunverðarhlaðborð hjá Jönu vorum við sótt af Miljo og Eydísi. Keyrðum fyrst á gamlar slóðir í Plzen á æfingu þar sem ég fékk að heyra kvartettinn í fyrsta skipti, öðruvísi en sem midi skrá úr tölvunni. Ekki hægt að líkja því saman hvað live flutningur er mikið flottari, ég var bara nokkuð ánægð með árangurinn. Fínir spilarar, hafði ekki nema nokkrar smá athugasemdir fyrir þau. Æfðum líka íslensku lögin sem ég hafði hamast við að útsetja dagana áður en við fórum út Þrjú þjóðlög og þrjú kompóneruð lög, (átti reyndar tvö þeirra útsett fyrir). Hrikalega gaman að fá að syngja með þessum fínu músíköntum.

Miljo bauð upp á hádegismat á stað þar sem matseðillinn var eingöngu á tékknesku – tók smástund að átta sig á því hvað var í boði og samt kom maturinn mér á óvart þegar hann kom. Ekki sem verstur matur, kjúklingasnitsel með frönskum og mjög góðu hrásalati og rifnum gulrótum.

Eftirá átti svo að æfa hin verkin á efnisskránni, eitt tékkneskt og eitt annað íslenskt, óbókvintett eftir Sigurð Sævarsson. Við ákváðum að rölta frekar um í Plzen og rifja upp miðbæinn, ekki ástæða til að sitja yfir þeim meðan þau æfðu.

Byrjaði á að hoppa inn í búð og kaupa mér þennan sumarkjól sem ég fann ekki í Danmörku, í stað uppáhalds kjólsins míns sem rifnaði uppi í Skálholti í fyrra. Átti eftir að koma sér vel.

 

Á torginu var alveg ógurlega skemmtilegur markaður, ég reyndar dauðsá eftir að vera búin að borða. Fáránlega mörg spennandi tjöld með alls konar pylsum og steikum og mismunandi útgáfum af kartöflum og svo auðvitað bjór og ís og nammi. Keyptum risastór regnbogahlaupstykki til að fara með heim og gefa krökkunum.

Leituðum og leituðum að Master bjórnum, firnadökkur bjór frá Urquell brugghúsinu sem er staðsett í Plzen. Hvergi fannst hann. Í staðinn var tekinn einn dökkur Kozel á Svejk veitingastaðnum (frekar óspennandi) og svo röltum við til að hitta á kvartettinn. Tróðum okkur 6 og sellói , fiðlum, víólu og töskunum okkar í tæplega 8 manna Peugeot/Golf/Égveitekkihvaðblöndu Miljos og keyrðum til Karlovy Vary sem yrði bækistöð okkar þessa viku. Hana, kona Miljos tók á móti okkur með kostum og kynjum, inniskóm og kvöldmat. Í Tékklandi er sá siður að allir fara úr skónum en húsráðendur útvega inniskó fyrir gestina. Skemmtilegt.

Einnig þarna sátum við góða stund og spjölluðum yfir rauðvíni sem Miljo kom með í kút frá Spáni. Skiptumst á að sýna myndir af krökkunum okkar og húsunum okkar (sumarhúsi þeirra). Óttalega var nú svo samt gott að fara að sofa í stóra herberginu sem okkur var úthlutað.

ólíkt hefst maður að

á síðustu tveimur vikum, tónleikar með Sólstöfum, Mozart/Hummel/Haydn, Howard Shore (LordOfTheRings), svo byrjuðum við í kvöld á alrómantísku prógrammi (Sibelius/Schumann/Tjækofskí) og á mánudaginn verða það Schütz og Hassler. Já og Britten og þaðan af nýrra í hinum kórnum.

Tæpast hægt að halda því fram að fjölbreytnin sé ekki í fyrirrúmi. Og engin ástæða til að láta sér leiðast í vinnunni.


(hotlinka hér í mynd Godds – vonandi í lagi!)

hlustun

já ég var að leita að lagi á itunes áðan, fann það eftir heiti og setti í gang. Eins og staðan var á forritinu. Nú er ég búin að hlusta á Does Your Mother Know með Abba, Domine Jesu Christe eftir Durufle, Dominus a dextris tuis eftir Händel, Don Juan, sinfónískt ljóð eftir Richard Strauss, Don’t Go Away með Zombies, Don’t Let Me down með Ampop, Don’t Let Me Down með Bítlunum, Don’t Stand So Close To Me með The Police, Don’t Stop Me Now með Queen, Don’t Stop The Music með Jamie Cullum, Don’t stop till you ge enough með Michael Jackson, Don’t You Forget About Me með Simple Minds, Down By the Riverside með Golden Gate Quartet – en stræka á Down Home Girl með Rolling Stones. Enda eru þeir leiðinlegir.

Frekar áhugavert að hlusta eftir titlum. Ekki leiðist manni.

ánægð

já ég er gríðaránægð með upphaf Myrkra, fallegir gítartónleikar í hádeginu, skemmtileg blanda úr tónleikum hátíðarinnar í Víðsjá (58’08 og áfram) í dag og glæsilegir Sinfóníutónleikar. (linkur kemur þegar hann dettur inn hjá RÚV) Sérstaklega er ég hæstánægð með að nú virðist aftur vera farið að mega skrifa skemmtilega tónlist, nefni þar til sögunnar Huga Guðmunds og kennara hans frá Kaupmannahöfn, Hans Abrahamsen.

Á morgun kennir ýmissa grasa, Guðrún Jóhanna og Javi með hádegistónleika, Duo Landon klukkan þrjú (flytja meðal annars fiðludúetta undirritaðrar), Nordic Affect klukkan fimm, (verk Huga frá í útvarpinu flutt aftur), Caput með portrettónleika Önnu Þorvalds klukkan átta, Áshildur og mikið fleiri flautur klukkan tíu (heyrðu já, bráðskemmtilegt verk af þeim tónleikum var líka flutt í Víðsjánni, í lokin) og að síðustu Duo Harpwerk klukkan miðnætti með glæný verk eftir nemendur Listaháskólans og fleiri. (kannski hefði ég eiginlega átt að telja það með laugardagstónleikunum, fræðilega séð kominn laugardagur auðvitað).

Ég mun semsagt búa í Hörpu á morgun. Gott að fólk er hætt að taka sig endalaust alvarlega í faginu mínu og það má semsagt taka mark á manni þó maður sé ekki grafalvarlegur og depressífur!

Áramótaglaðningur

fyrir þá sem enn lesa, Álfareiðin í flutningi jólakvartettsins Rúdolfs.

Messías

var víst búin að lofa og hér efndir þó seint sé.

Messías í flutningi Hljómeykis, Kórs Áskirkju og Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 2. des verður í kvöld klukkan 19.00 á rás 1.

Hlusta má hér.

Uppáhalds atriðið

á Jólasöngvum Langholtskóra er hér, nýsett inn, njótið:

flottasta jólalagið

í heimi in my not so very humble opinion er þetta hér. Englar og hirðar (Angyalok és pástorok) eftir Zoltán Kodály. Ég get ómögulega skilið hvers vegna íslenskir barna- og kvennakórar eru ekki með það á fastri jólatónleikadagskrá. (Nobili – PLÍÍÍS!?!)

Þessi flutningur er af jólaplötu Skólakórs Garðabæjar, litlu krakkarnir í yfirröddinni voru orðnir svolítið þreyttir í upptökunni en annars mjög flott. Hér er svo annar:

talandi um fjölhæfni

hjá kórnum þá eru verkefni Hljómeykis í vetur eftirfarandi:

Október: Nordic Music days (ný norræn kórtónlist)
Nóvember: Todmobile tónleikar (rokktónlist)
Desember: Messías eftir Handel (barokktónlist)
Febrúar: LOTR sinfónían (kvikmyndatónlist)
Mars: Hassler og Schütz (renaissance)
Maí: Rómeó og Júlía eftir Berlioz (rómantíska tímabilið)

Þurfum helst að troða einhverri klassík í janúar eða apríl til að vera með megnið af tónlistarsögunni.

fullorðnast

já börnin manns eru víst að fullorðnast, eiginlega hraðar en ég vildi.

Fífa og kórinn hennar eru farin til Manchester að halda tónleika með Björk og bandi, sjá hér. Fór á generalprufuna hér heima um daginn og þetta verður gríðarlega flott, reyndar eiginlega aðgengilegasta músík frá Björk í talsverðan tíma, ég upplifði þetta sem einhvers konar punkt sem músíkin hennar síðastliðin ár safnast í.

Nokkrir tónleikar úti, síðan verða vonandi tónleikar hér í haust og svo getur verið að þær fái að fara með í framhaldstúrinn, þar verða New York, Ríó, Róm og Japan ef ég man rétt. Á allt samt eftir að koma í ljós.

Allavega er stóra barnið mitt komið í atvinnumannapakkann, verður núna burtu í heilan mánuð. Tómlegt hér heima en mikið hrikalega held ég að þetta verði gaman hjá þeim.

ofneysla

jámm, þessa dagana er ofneysla í gangi hér á bæ. Sænskum nútímaverkum í tugatali mokað inn þar til þau buna aftur út um eyrun.

Undirrituð er semsagt að fara til Svíþjóðar og velja verk á hátíð.

Um hálfsjöleytið í dag var ég komin með svo mikið nóg að mig langaði mest til að stroka þau öll út. Það væri hins vegar verulega óréttlátt því ég er búin að hlusta á mörg fín. Slatti eftir enn sem verða víst að klárast í vikunni, fer út á sunnudaginn kemur.

Hlustaði á Rammstein til að hreinsa hugann (nú líður væntanlega yfir nokkra lesendur).

Svo datt inn ræma af uppáhalds teiknimyndaseríunni minni:

Var að hugsa um

að leyfa öðrum að komast að í húsinu langþráða núna um helgina. Tókst ekki alveg, hlustaði á litlusystur vígja Kaldalón í gær og laumaðist að heyra yngri dótturina syngja í Silfurbergi áðan. Annars er nú spurning um að okkar fjölskylda sé búin að vera nægilega frek á tímann þarna alveg í bili.

Þvílík örtröð fólks niðurfrá báða dagana. Bílum lagt auðvitað gersamlega úti um allt, þetta var ekki alveg eins svakalegt og menningarnótt eða þorláksmessa en def næsti bær við. Öngþveiti á götunum, ösnuðumst til að fara að versla vestur á Granda og festumst auðvitað, bæði á leiðinni þangað og heim aftur (Bilbo kvót hvað?)

Silfurberg er ekki besti salurinn, skil ekki alveg hvers vegna allir þessir mislitlu krakkar fengu ekki Norðurljósin en væntanlega hefur meiningin verið að vígja alla salina. Kannski hefði verið hægt að hafa eina opna ráðstefnu? Stelpurnar voru allavega flottar, sungu tvö lög bæði útsett af mér…

milli funda

kennslu og æfinga tók ég eitt skutl, sækja Finn í afmæli í Keiluhöllina og keyra Freyju á kóræfingu inn í Langholt. Á leiðinni Rondó eins og venjulega (FM 87,7 – algengasta stillingin í bílnum). Yfir geislanum hjá þeim Fauré Requiem, sem Freyja er nýbúin að spila með áhugamannabandinu og neskórnum.

Ekki óeðlilegt, stöðin keyrir sig jú mikið til á klassískum standördum.

Nema núna. Einhver hafði nefnilega ýtt á random á spilaranum og kaflarnir voru í rammvitlausri röð. Spes.

Rondó stóð reyndar undir nafni um daginn, heyrði Strengjaserenöðu Tjækofskís þrisvar sama daginn.

alveg er ég viss um

að fullt af Neiurum er búið að fela mig á smettinu, búin að vera allt of aktíf að plögga já í málinu sem má ekki nefna.

En nóg um það, bloggið á að vera frísvæði.

Byrjuðum á Béfætinum, níundu sinfóníunni á æfingunni á mánudaginn var. Við Hljómeykisfyrstusóprönur fundum tæpast fyrir hæðinni enda í fínu formi eftir Schnittke. Hlakka annars verulega til að fara á fyrstu æfingu í Hörpu eftir rétt ríflega mánuð. Fór þangað um daginn að skoða, Eldborgin er að verða ansi hreint flott bara, myndin sem ég tók var því miður ónýt en þetta svæði verður líka skemmtilegt:

Svo stendur til að endurtaka Schnittke, erum að reyna að koma saman dagsetningu (plís plííís!). Það var ótrúlega magnað að flytja þetta, ég er búin að setja þrjá af fjórum köflum á netið. Hér fer sá fyrsti. Tek samt fram að það að horfa og hlusta á upptökur af þessu er ekkert nálægt upplifuninni af tónleikum, fullt af fólki sem kom í Guðríðarkirkju er búið að segjast koma aftur í bænum. Ein keyrði meira að segja upp í Skálholt daginn eftir fyrri tónleikana og hlustaði á þá síðari.

Já, kaflinn…

að afloknum

fyrstu Myrkum músíkdögum sem ég kem að sem hluti stjórnar Tónskáldafélagsins. Gersamlega búin á því eftir helgina, sautján tónleikar og aðrar uppákomur plús svo móttökur og tvö partí svona frekar langt fram á nótt. Að minnsta kosti var ekki fræðilegur að ég vaknaði til að mæta í spriklið á mánudagsmorgninum. Og tek ég þó fram að ég er ekki nægur masókisti til að vera klukkan eldsnemma, 10:15 er feikinógu snemmt fyrir slíkar píningar.

Hátíðin gekk allavega gríðarlega vel, mjög fjölbreyttir tónleikar með alls konar músík, langoftast mjög vel sótt, helst að það hafi virkað hálftómlegt á tónleikunum okkar í Hljómeyki í Neskirkju – en hún er reyndar ansi stór, hefðum við verið í Listasafninu hefði verið ágætlega setið.

Svo er víst bara að byrja að undirbúa Norræna tónlistardaga sem verða hér á landi í haust. Þar er undirrituð víst titluð aðstoðarverkefnisstjóri – og það verður ekki minni hátíð en sú sem nú var að klárast…

stend á haus

í Myrkum músíkdögum, hátíðin byrjaði í dag og þó ég sé nú ekki formlega í framkvæmdanefnd hennar þá er ýmislegt um að hugsa og svona sem stjórnarmaður í Tónskáldafélaginu mæti ég nú á alla þá tónleika sem ég mögulega næ.

Mæli annars með hátíðinni, sýnist hún verða gríðarlega fjölbreytt og skemmtileg, heimasíðan er hér, kíkið endilega!


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa