Archive for the 'matur og drykkur' Category

páskar

gleðilega páska, nær og fjær.

Páskaegg falin og fundin (nema eitt, leit stendur yfir)

Hafði enga lyst á lakkrísegginu mínu í morgun, eftirstöðvar af pest kannski en eftir brauðsneið með ósköp venjulegu hænueggi stóð það nú til bóta. Ráðist á eggið, fyrsta skipti svei mér þá sem aðaleggið mitt er ekki frá Nóa. Sé ekkert eftir því, súkkulaðið í Góu egginu er alveg ljómandi og allt nammið inni í bara svo mikið betra.

Nammið já…

Borðaði hlaupbangsa úr poka, einn hvítur og svei mér þá ef það var ekki Póló bragð af honum. Ekki súkkulaðikexið, nei nei, heldur eldgamli gosdrykkurinn, Kjarnadrykkur með gervikjörnum. Held ég hafi ekki fundið þetta bragð í minnsta kosti 30 ár.

ég er ekki viss

um að við höfum nokkurn tímann haft eins flottan matseðil í áramótaboði.

Franskt þema, Jón Lárus lýsir því hér.

Vill okkur til afsökunar að haga okkur svona gróðærislega að okkur áskotnuðust bæði trufflur og foie gras. Kálfurinn var síðan keyptur í uppáhalds matarbúðinni okkar.

tónleikarnir

í dag tókust alveg bráðvel, enn alveg í skýjunum. Gunnar Kvaran lék einleik með okkur í Kol Nidrei eftir Bruch, verkið hentar honum fullkomlega, ég hlakka til að heyra upptökuna. Okkur var sagt að við hefðum smitast af spilagleði og innblæstri Gunnars, bara gott mál. Væntanlega er það honum að þakka að húsið var nær fullsetið, óvenju góð mæting.

Pelléas et Mélisande svítan eftir Sibelius er sérkennilegt en magnað tónverk, ég held að við höfum skilað því bara nokkuð vel en mér fannst þó takast enn betur upp í Bruch og svo Schubert sinfóníunni sem ég þekkti reyndar ekkert fyrir.

Kryddlegin hjörtu á eftir, verð að viðurkenna að ég væri alveg til í að fara eitthvert annað næst eftir tónleika. Súpa og salat allt í lagi en ég hef bæði fengið talsvert betri súpur og farið á meira spennandi salatbar. Brauðið og hummusið var samt fínt, hefði þó verið enn betra ef brauðið hefði verið heitt. (jamm, væl punktur is). Og að halda því fram að Polar Beer sé góður bjór – uh nei?!

gleðilegt sumar

Víst ekki laust við að sumar og vetur hafi frosið saman – látum það vita á gott.

Pönnukökurnar komnar á bláröndótta diskinn (sagði víst bláköflóttan á smettinu áðan en það er bara ein blá rönd á þessum). Góður samt. Þeytararnir í uppþvottavélinni, það gæti hafa verið mistök, ungviðið vill pönnukökur NÚNA en mamman segir neibb, ekki fyrr en allt er til og það verður jú að vera þeyttur rjómi, á pönnukökunum á sumardaginn fyrsta er það ekki?

fór

í vínbúð í dag sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Keypti tvo bjóra til að eiga með píadínunum og Útsvari í kvöld (nei nú skrökva ég, bjórinn er búinn en komin með rauðvín í glas fyrir Útsvarið). Þetta heldur ekki í frásögur færandi þó ég sé nú samt að segja frá því.

Allavega.

Á eftir mér kemur eldri kona með vodkaflösku. Fær uppgefið verðið á henni. Segir: Já þeim þykir ekki leiðinlegt að hækka þetta! Afgreiðslumaðurinn tekur undir og konan fer að tala um að hún verði væntanlega að fara að brugga.

Mig dauðlangaði að snúa mér við og spyrja með þjósti hvort þau héldu virkilega að stjórnvöld væru að þessu að gamni sínu?

Væl!

gleðilegt ár

kæru lesendur, takk fyrir frábær samskipti öll þessi bloggár (já og sumir auðvitað mikið lengur).

Ætla ekki í annál, bara hreinlega nenni því ekki. Strengi heldur engin nýársheit frekar en fyrri daginn.

Gamlárskvöld var púra snilld, stórfjölskyldan mætti í matarboð á Njálsgötuna eins og reyndar síðustu 11 ár – fyrir þeim 11 árum þegar Freyja var þriggja ætluðum við sem oft áður í Garðabæinn til momsies & popsies í mat og skaup og flugeldagláp en þá fékk Freyja gubbupest. Var að skríða saman en eiginlega ekki nógu góð til að fara í boð. Frekar en að sleppa öllu saman hringdum við mamma okkur saman og ákváðum að áramótaboðið yrði þetta árið hjá okkur.

Svo var auðvitað svo svakalega mikið fjör og flott uppi við Hallgrímskirkju að það kom ekkert til greina annað en boðið yrði héðan í frá hjá okkur.

Tengdafjölskyldan slóst svo í hópinn árið eftir og síðan þá hafa allir mætt hingað. Egilsstaðafjölskyldan auðvitað ekki eins oft og hinir en þó stundum líka.

Verður nú samt að viðurkennast að lætin á Hallgrímstorgi í ár voru sirka þriðjungur af því sem þau voru fyrir tveimur til þremur árum. Gerir ekki nokkurn hlut til. Flott samt.

Hrátt tvíreykt hangikjöt með melónu og piparrótarsósu í forrétt. Pínu fallegt:

Jamm, Wellingtonsteikin í aðalrétt og Charlotte au chocolat í desert voru alltílæ líka – en ég á ekki myndir af þeim…

hvað segir

þetta manni?

hún frú

Lauga er mætt á svæðið með bændamarkaðinn sinn. Kíktum þangað í gær og keyptum hrrrrikalega góðar risastórar gulrætur, reykta andabringu, hnúðkál og ógurlega gott salat sem heitir strandblaðka.

Þarna fæst auðvitað heilmargt fleira, egg, ís, rabarbari, svínakjöt, olíur og edik og meira að segja handgerðar sápur. Eigendur lofa síðan enn meiri fjölbreytni fljótlega.

Mæli sterklega með markaðnum, hann er á Laugalæk 6, við hlið nýju Ísbúðarinnar og 10-11 hinum megin.
Hér er heimasíðan, kíkið endilega.

óskrifaðar reglur

ef þið hafið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvaða reglur gilda um hvort maður á að taka með sér vínflösku í matarboð, þá eru slíkar reglur í bók eftir Alexander McCall Smith, er að lesa hana á netinu. Bara nokkuð fyndin bók. Kaflinn er hér.

át

fyrst snilldarbrunch hjá góðum netvinum, (takk fyrir mig) og síðan fermingarveisla hjá Klöru frænku – veitingarnar eru nú ekkert slor hjá Sigga og Stefaníu.

Hugsa að við sleppum kvöldmatnum. Ójá. Gat varla hneppt kápunni minni á leið heim úr fermingarveislunni…

kökur

annar tónsmíðanemandinn átti afmæli í dag og kom með köku og kók með í morgun. Svo eftir hádegi kom Freyja heim og vildi endilega fá að baka, fékk það náttúrlega.

Og ég sem er að reyna að byrja haustið á nýjum lífsstíl.

Varð hins vegar fegin þegar báðir einkanemendurnir mínir (sem ég kenni hér heima frekar en niðri í skóla) eru lausir við kattaofnæmi, steingleymdi að spyrja þau að því þegar ég boðaði þau hingað heim.

haustgír

já, maður er hrokkinn í haustgírinn, í matreiðslunni allavega. Fórum í sveppamó #2 í dag, breyttum út af venjunni og höfðum ekki sveppapastað eftir fyrsta sveppatúrinn en það gekk hins vegar upp í dag. Frekar stolt af uppskriftinni þessarri.

Þessi kjúklingur settur á laugardaginn, svo förum við væntanlega til mömmu og pabba í lundaveislu, auðvitað eru síðan berjaskyr og blönduð ber með rjóma búin að vera étin hér með bestu lyst síðustu daga. Rifsberjahlaupið og rabarbarasultan, júneimitt. Fer að koma tími á sólberjasultu, sólberin hafa held ég aldrei verið svona mörg og stór og svört.

Spurning um að hætta bara að borða í september. Nóg étur maður þessa dagana…

sælgæti

í kvöldmatinn, sjá hér. Tommasi pinot grigio hvítvín með, passaði ótrúlega vel með feitu sósunni og þistilhjörtunum. Mmmm!

vín og skel

við Jón Lárus förum yfirleitt einu sinni í mánuði út að borða í hádeginu, eins og ég hef örugglega sagt frá áður, hér. Ætluðum reyndar að sleppa því í þetta skiptið, þar sem við erum jú að fara til Tékklands og svo Kaupmannahafnar eftir rúma viku og munum væntanlega borða eitthvað úti þar.

Nema hvað, inn um tölvupóstlúguna datt e-kortatilboð um tvo fyrir einn á Víni og skel. Við höfum lengi ætlað þangað, reyndar reynt tvisvar, í fyrra skiptið var ekki opið en síðara átti greinilega að vera opið, búið að dúka borð og leggja á, kveikja á kertum og allt – en harðlæst og enginn svaraði banki.

Núna gekk þetta samt fínt, við vorum þarna rétt fyrir klukkan 12, fengum fínt borð og ágætis þjónustu, pöntuðum ekki kjúkling og franskar (enda ekki í boði) heldur krækling og franskar. Það fengum við hins vegar alls ekki. Skelfisksúpa kom á borðið. Ljómandi góð skelfisksúpa og auðvitað borðuðum við hana bara, en létum þó vita að þetta hefði ekki alveg verið pöntunin. Væntanlega misskildi þjónninn okkur, enda talaði hún afskaplega takmarkaða íslensku.

Aldrei vantaði vatn eða brauð á borðið, vel var fylgst með okkur.

Þurftum bara að borga fyrir það sem við pöntuðum, sjálfsagt mál og auðsótt.

Ég get vel mælt með Víni og skel, þjónustan ljómandi fín og maturinn góður. En gerið ykkur skýrt skiljanleg ef þið viljið fá það sem þið pöntuðuð…

lengdur hjólatúr

allt í einu langaði okkur bóndann svo í bjór áðan þegar hann var kominn úr vinnunni. Ákváðum að hjóla út í nýju Vínbúðina í Borgartúninu þegar boltaleikurinn væri búinn. Hjóluðum af stað en auðvitað var klukkan orðin mínútu yfir sex þegar við komum að, búið að loka og verið að ganga frá.

Klárt við „neyddumst“ til að lengja túrinn út í Skeifu, þar sem er opið til átta.

Ja, maður vann allavega fyrir bjórnum…

Snilldar ítalskt salat (úr dönsku blaði reyndar) í kvöldmatinn, spurning um að henda því á brallið. Hmmm.

hressandi

að lesa færslurnar hjá þeim útlendingum sem ég fylgist með á rss í dag – ekki orð um júróvisjón.

Horfðum reyndar á keppnina hjá Hallveigu og Jóni Heiðari (takk fyrir eðalborgara, Jón) en við Jón Lárus skildum krakkana eftir og stungum af í osta- og rauðvínspartí hingað ásamt nokkrum öðrum ircurum og horfðum ekki á stigagjöfina (sem er annars yfirleitt skemmtilegi hlutinn af fyrirbærinu)

Partíið var snilld, við ætluðum rétt aðeins að kíkja í 1-2 tíma en enduðum á því að fara ekki heim fyrr en um hálffjögurleytið um nóttina. Við bóndinn vorum reyndar aðalmengunarvaldar partísins, komum með baneitraðan ost sem ég hafði keypt í Frakklandi og var búinn að vera að menga íbúðina hjá okkur síðan á þriðjudaginn. Unglingarnir hér heima eru sárfegnir að vera lausir við hann úr ísskápnum.

hikk

nei, ekki drukkin, bara með hiksta.

Reyndar fengum við okkur Ruinart kampavín með matnum, ég heimtaði að fá að kaupa hálfflösku af því í Lavinia í París hér fyrir einu og hálfu ári, bara vegna þess að flaskan var svo skelfilega sæt. Jón Lárus dró hana síðan upp áðan og vildi meina að það væri kominn tími, þetta var ekki árgangskampavín og þess utan eldast vín í smærri flöskum auðvitað ekki eins vel og í þeim stóru. Þannig að jú, öndinni var skolað niður með yndislegu Ruinart rósakampavíni.

(þetta er reyndar heilflaska, sú hálfa er talsvert sætari, sjá flöskuna á forsíðunni hjá þeim).

En gott var það…

mikið er skemmtilegt

að bjóða sumu fólki í mat, gestir kvöldsins tóku veeerulega vel til matar síns.  Ekki kvartar maður…

Í dag var annars greinilega verið að opna nýtt Bónus á Fiskislóð. 100 metra frá Krónunni. Ekki sé ég fram á að stíga þar inn fæti, fáránleg staðsetning, greinilega verið að reyna að bregða fæti fyrir vinsæla og flotta búð Krónunnar. Bónus vesturfrá misst stóran spón úr aski þegar hún var opnuð, jú.

2008

Komið nýtt ár, bara. Ekki verst.

Áramótaboðið gekk fínt, bæði forréttur og eftirréttur átust upp til agna en passlega eftir af lambahryggnum fyrir okkur hér heima í kvöld.

Eitthvað fauk af vínföngum líka, bæði með mat og til að skála. Hér er mynd af kampa- og freyðivínslíkunum:

kampavnslk

það fór reyndar mest af því, þar sem boðið var upp á freyðivín með forréttinum, eitt par hélt áfram í kampavíni með matnum (Kristín mágkona þolir illa rauðvín) og svo komu jú áramótin.

Konfektið er hins vegar ekki búið. Sjáum fram á nammiorgíu fram eftir janúar:

namminamminammi

Gleðilegt ár aftur, allir mínir kæru lesendur og takk fyrir þau gömlu.

áramótaboð

komið að því, 21 manns í mat í pínulitlu stofunum okkar, reddum borði með því að taka hurð af hjörum og skella upp búkkum. Gæti þurft að sitja við þrjú borð núna, samt, sjáum til.

Undirbúningur áramótaboðs gengur vel (þó bóndinn sé að reyna að reka mig úr tölvunni). Kartöflur og jarðarber tilskorin, búið að rífa börk af appelsínum og kreista úr þeim safann, næsta verkefni að búa til rasp í fyllinguna og hakka fullt af steinselju.

Nánari lýsing á matseðli birtist á bloggi Jóns Lárusar, varla fyrr en í kvöld samt, þar sem hann er samviskusamari en ég og ætlar ekkert að hanga í tölvunni fyrr en tími er til…


bland í poka

teljari

  • 373.797 heimsóknir

dagatal

desember 2021
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa