Archive for the 'matur' Category

grænmetisæturnar gabbaðar

Síðastliðið sumar buðum við hér heima nýsjálenskum merkismanni sem var í heimsókn á landinu í hádegismat og spjall. Kunningi minn hafði áhuga á að hitta manninn og spurði hvort hann mætti koma líka, þá ásamt Bandaríkjamanni sem var í heimsókn hjá honum og síðan syni hans.

Sjálfsagt mál, the more the merrier.

Pælum svolítið í hvað við eigum að hafa í matinn, Nýsjálendingar eiga lamb og fisk jafngott og við (eins gott að Jón Bjarnason og Guðni Ág lesi ekki bloggið mitt!) þannig að varla þætti honum nýnæmi í slíku. Ákveðum að hafa piadine, ítalskar pönnukökur sem við gerum og höldum mikið upp á. Aðalskyndibiti Emilia Romagnahéraðsins.

Fólkið mætir á svæðið, við erum búin að gera pönnukökudeigið og rúlla út kökunum þannig að þær eru tilbúnar til steikingar. Við bjóðum upp á tvenns konar fyllingar, annars vegar parmaskinku, mozzarella og klettasalat og svo hins vegar gullost og hunang. Ég tel þetta upp fyrir fólkið og þeir bandarísku biðja báðir um ostinn því þeir séu grænmetisætur og borði alls ekki kjöt (nokkuð sem þeir höfðu ekki tilkynnt um fyrirfram – eins gott að ég var ekki með lamb eða fisk).

Píadínurnar líka feikivel, allir borða með bestu lyst og biðja um meira. Sá bandaríski hrósar kökunum og spyr hvað sé í þeim. Ég: Já þær eru mjög einfaldar, bara hveiti, salt, vatn og… Olía! Olía!

Þeir voru sem sagt búnir að úða í sig svínafeitinni sem verður að vera í þessum kökum til að bæði bragð og áferð sé rétt. Og alveg pottþétt án þess að verða meint af. Ég fattaði þetta alls ekki fyrr en ég fór að lýsa innihaldinu.

En þeir geta sjálfum sér um kennt að láta ekki vita fyrirfram.

étið

páskaeggsræfillinn minn, númer 4, náði að klárast í dag. Voðalega stolt af sjálfri mér hvað mér tókst að treina það lengi. Þar til ég mundi eftir því að ég er reyndar ekkert sérlega mikill nammigrís. Savoury, that’s me.

Úrbeinuðum kalkún í fyrsta skipti fyrir fjölskylduveislu á páskadag, fuglinn er bráðfyndinn svona flatur. Þarf að henda inn myndum.

Skrítið annars að byrja að kenna aftur, það er svo stutt eftir af skólunum mínum fram að sumarfríi að mér fannst varla taka því, gæti eiginlega ekki verið að það væri venjulegur kennsludagur. Ekkert eftir nema skrifleg tónheyrnarpróf í næstu viku (argh, á eftir að setja inn einkunnir! reminder to self í fyrramálið!).

Næsta vika verður hektísk, þrennir tónleikar í Hörpu og æfingar fyrir þá. Get ekki beðið.

pylsur, beikon…

Fagna innilega nýjustu viðbót í matarmenningu Reykvíkinga, hef lengi pirrast yfir því að það sé ekki hægt að fá almennilegt beikon hér og ef nýjar pylsur komu á markaðinn voru það nánast undantekningarlaust afbrigði af vínarpylsum.

En ekki lengur.

Eins og fólk hefur kannski séð er komin þessi frábæra búð á Laugalækinn, gourmethorn Reykjavíkur, þar eru fyrir Frú Lauga (fastur viðkomustaður nú þegar) og fínasta ísbúð ásamt bakaríi. Núna hefur semsagt bæst við búð með alvöru kjötvörum, margar tegundir af pylsum bæði ferskum og reyktum, til að borða heilar eða í sneiðum, nokkrar mismunandi skinkutegundir og beikonið! maður minn! þykkar handskornar vel reyktar sneiðar og þarna er sko ekki vatnssprautað.

Það besta er að þetta er ekki einu sinni neitt sérlega dýrt. Beikonið til dæmis kostar ekki nema 1963 krónur kílóið.

Nei, ég á ekki hlut í búðinni þó ég sé að auglýsa – en ég vil veg hennar sem allra mestan svo hún fari nú örugglega ekki á hausinn. Hef reyndar ekki stórar áhyggjur af því, alltaf þegar ég hef komið er alveg slatti af fólki þar inni (nema reyndar einu sinni þegar ég datt inn klukkan 11 um morgun og spjallaði góða stund við annan eigandann).

Sjá nánar hér.

besti bógur ever

jamm, vorum með marokkóskan lambabóg í matinn, tókst ótrúlega vel. Henti uppskriftinni á brallið, hér ef einhver vill kíkja.

Veit samt ekki hvort ég þori í leikfimina í fyrramálið eftir þessa svakalegu helgi. Rauðvín á föstudaginn, samlokur frá Saffran (NAMMI) í hádeginu á laugardag, snilldar matarboð á laugardagskvöldinu (takk fyrir okkur enn og aftur bfrb).

Og svo þetta í dag, úff…

bleikt ekki samt .is

er í æsvei banni eins og ýmsir.

bara smella inn jái, það heldégnú…

mikið þarf annars að hugsa um eitthvað annað til að lifa hér af!

var boðið í þemamatarboð um daginn, upp úr myndinni um Júlíurnar tvær. Snilldarboð með bleiku þema, nánast allur matur og allt var bleikt og/eða rautt.

Nokkrar myndir fylgja og það má öfundast…


fordrykkur


rósagrautur


borðskreyting


aðalrétturinn


milliréttur


eftirréttur (hvers vegna fundu þær ekki bleika sítrónu? skil ekkert í þessu!)


og kaffi og konfekt.

Verst að myndirnar eru teknar á símann og eru ekki alveg nógu góðar. Verður að hafa það bara.

óli bróðir vann

humarsúpan hans í gær var mun betri en mín um daginn…

Hef á tilfinningunni að ég hafi brúnað skeljarnar of lengi, það var orðið beiskt bragð að súpunni, reyndar sama bragð og maður man eftir af svona gamaldags humarsúpum sem maður hefur fengið hundrað sinnum sem forrétt á árshátíðum og álíka. Ekki alveg minn tebolli. Tókst líka að afstýra koníaksslysi, hvað er með þetta koníak-saman-við-humarsúpur? Koníak er fínt, sama með súpuna en ekki saaaaman! Allavega hefur maður oft fengið súpu þar sem kokkurinn hefur ætlað að gera vel og slett fullmiklu koníaki saman við – humarbragðið er svo fíngert að það þarf nánast ekkert koníak til að drekkja því. Sem er synd.

Svo verður ein humarsúpan til í matinn næstu helgi, þá er það sprenglærður kokkur í vinahópnum sem eldar, verulega spennandi að bera saman.

Prófa allavega næst að steikja skeljarnar í ofni eins og Óli gerði í gær, í stað þess að brúna þær svona vel í potti eins og um daginn. Já og takk fyrir mig í gær annars.

(sést ekki greinilega að maður er í átaki að léttast…?)

yfirgengilegur lúxus

já, fórum alveg langt fram úr því sem við nokkurn tímann gerðum fyrir hrun og vorum með trufflusveppi í matinn fyrir familíuna í gærkvöldi. Tja, vorum með trufflusveppi í matnum, reyndar, ég held að ekki nokkur manneskja hafi svonalagað sem uppistöðu í rétti. Enda held ég reyndar ekki að það væri sérlega gott, allt allt of bragðmikið og sérstakt.

Kálfakjöt varð fyrir valinu og já, verst að hafa fengið smekk fyrir svona fokdýru hráefni (nei við keyptum þetta ekki, okkur áskotnaðist dós eftir krókaleiðum).

Uppskriftin er allavega á Brallinu. Fáránlega gott.

sushi partí

annað skipti hjá sushivinahópnum í kvöld. Frábært. Hittumst klukkan rúmlega þrjú og hömuðumst við að smíða maki, nigiri og sashimi í tonnavís (tja allavega svona þriðjungi meira en við fjórtán torguðum)

Höfðum skipt með okkur verkum, eða allavega að koma með það sem til þurfti, grjónið (að eigin sögn) kom með það sem viðáttiaðéta og flestöll áhöldin, við hin fisk og grænmeti. Fundum út að í stað tveggja og hálfs kílós af fiski myndi eitt og hálft væntanlega duga og 13 bollar af hrísgrjónum var OF MIKIÐ.

En hei, við eigum í nesti á morgun…

rigningrill

Í dag er frumburðurinn sjálfráða, tíminn flýgur víst svolítið hratt.

Ekki var það nú eingöngu þess vegna sem við ákváðum að grilla í dag, við Jón Lárus höfðum samþykkt að sýna mat í grillblaði Vikunnar sem er á leiðinni út. Þegar ég hafði játað þessu við hana Gurrí mína uppgötvaði ég að þó við séum óhemju dugleg að prófa nýja rétti og prófa okkur áfram með ýmsan mat erum við ekki sérlega tilraunaglöð við grillið. Oftast grillum við lambalundir, bara með salti og pipri, bakaðar kartöflur og laukur með, stundum borgara eða pylsur, stundum fisk, yfirleitt afskaplega einfalt. Eins og er svo sem oft best.

Það er samt kannski ekki nógu spennandi til að gefa sem uppskrift í grillblaði. Lagðist í netrannsóknir, fann eina uppskrift sem mér leist á, hnikaði henni nú talsvert til samt svo ég stæli ekki beint og við prófuðum þetta um daginn. Reyndist mjög gott.

Svo hringdi ljósmyndarinn í morgun og spurði hvenær hann gæti komið og tekið mynd. Jújú, í kvöld, allt í fína með það, klukkan 6 skyldi hann koma.

Hjólaði í snilldar veðri út í Melabúð og keypti lambakótilettur, átti allt í löginn (þegar blaðið kemur út verður uppskriftinni velt út á Brallið). Heim, blanda lög, settist aftur við tölvuna og veit ekki fyrr en það er farið að hellirigna.

Nújæja, skúrin gengur yfir. Jón Lárus kemur heim um hálfsexleytið og hendir yfir kolunum, tíu mínútum eða svo seinna mætir síðan ljósmyndarinn. Og næsta skúr.

Ekki dugði að bíða, kolin orðin grá, við út, tekin af okkur mynd úti í garði í hellirigningunni og svo grilluðum við í sameiningu, Jón Lárus á grillinu og ég með regnhlífina fyrir ofan.

Stundum væri ég til í að eiga ekki svona kreppugrill…

er nú ekki fullsnemmt

að byrja að selja páskaegg í janúar?

Í Nóatúni áðan, við kassann, var semsagt kassi af páskaeggjum númer eitt frá Nóa. Á kassanum stóð Gleðilega páska.

Jáneitakk!

Reyndar hefur síðan fyrir jól verið hægt að fá páskaegg frá (að ég held) Mónu frekar en Góu – reyndar undir nafninu jólakúlur. Keypti ekki þannig…

sushiklaufar

við Fífa, enda í fyrsta sinn sem við gerum þetta alveg sjálfar og einar. Vont var þetta ekki en ekki alveg eins glæsilegt og þegar við vorum með meistarana með okkur forðum daga. Reyndar stefnt á annað meistarasushi fljótlega eftir áramót, hlakka ekki smá til.

Engar myndir í þetta sinn :þ

íslensk alvöruskinka

já, svona til að borða, ekki ljóshærð og feik brún, fundum svoleiðis í Frú Laugu í gær. Er frá kjötvinnslu sem heitir Krás, í Laxárdal (fyrir utan Selfoss, ekki fyrir norðan). Einhverra hluta vegna heitir þetta salsa skinka, ég næ ekki alveg upp í það, en hún er jafn góð og fínar skinkur úr góðum þýskum kjötborðum.

Hlaut að vera hægt að framleiða góða vöru hér, ég hef aldrei skilið hvers vegna megnið af niðursneiddri skinku sem fæst hér er óæt. Mæli allavega með að lesendur prófi.

grameðluostur

gömul vinkona mín kom hér í mat um daginn, hún hafði með sér danskan ost sem er algjört æði, ekki Gamle Ole né heldur Gamle Oles Farfar, þessi er samt ekki ólíkur, heitir Gamle Svend.

Af honum er ekki beinlínis ilmur.

Fyrst kom Freyja með táfýluostanafnbótina en svo í gær fussaði hún og sveiaði yfir fýlunni af grameðluostinum atarna.

En hún borðaði hann nú samt bráðinn út á gratíneruðu lauksúpuna í kvöld og fannst góður.

snareldun

Hljómsveitaræfingin hjá Finni fór hálftíma fram úr áætlun (á þetta til hún Ewa blessunin), ég sat og beið eftir honum, stelpurnar á leið í óperuna í kvöld þannig að ég var að verða pínu stressuð. Æfing búin klukkan kortér fyrir sex, búið að setja fram kex, safa og mandarínur eftir æfingu, Finnur náttúrlega varð að fá sér svoleiðis, ég pakka og hrifsa drenginn heim, komin klukkan sex. Fífa var reyndar búin að búa til tortilludeig, ég tek til við að hakka lauk og ólífur og hvítlauk og blaðlauk og jalapenos, steikt ásamt hakki og tómatjukki og tacokryddi á pönnu, Freyja reif bita af osti, hitað í ofni, búið til guacamole (rétt mundi eftir avocadoinu tilbúnu úti í glugga) steiktar tortillur á píadínupönnunni góðu (Fífa rúllar út), passar nákvæmlega að hakkjukkið pípir þegar ég steiki síðustu tortilluna, borðað, gengið frá, uppþvottavél sett af stað, þurrkað af borðinu, sest við tölvuna. Klukkan er sjö.

Miðað við alveg frá grunni (mínus deigið), ekki slæmt, ekki slæmt!

(já, Jón Lárus er semsagt í viðskiptavinahófi Samskipa – annars hefði ég örugglega ekki þurft að gera neitt af þessu…)

mætti halda

að ég sé rauðhærð, allavega er búinn að vera þvílíkt – tja ekki sparka-í-Hildigunni dagur en allavega vera-fyrir-og-svína-á-Hildigunni dagur. Allt frá því á leiðinni vestur í Neskirkju í morgun, heim aftur, inn í Hafnarfjörð, meira að segja í Fjarðarkaupum tókst fólki alveg þvílíkt að þvælast fyrir mér á leiðinni inn í búð. Og ég sem er búin að þurfa að keyra svo MIKIÐ í dag.

En það fer að verða búið. Eitt skutl í viðbót, ná í Finn í hljómsveit en svo bara elda og kannski rauðvínsglas í kvöld. Er að pæla í þessari uppskrift, hljómar vel…

núna hugsa

ég um mat og texta til skiptis nema þegar ég rugla því tvennu saman og syng: Reynið að hafa á túnfiskgeisla hönd!

ber, sveppir og svelti

er ekki eitthvað furðulegt við að fara í berjamó og sveppamó og svo nánast beint á fund til að hvetja mann til að borða lítið og hreyfa sig helling?

Það var allavega dagurinn hér.

Svo á morgun byrjar púlið – og svo æfingar í leikhúsinu. Jámm, ég er að fara að taka nokkrar sýningar fyrir Væluna í Söngvaseið. Klikkað spennandi, hlakka ekki smá mikið til.

fer ég til berja

fagran sunnudag…

lerki

fengum snilldarsendingu frá Egilsstöðum, hann Þorbjörn bróðir minn kom færandi hendi með sveppi sem hann og Helga mágkona höfðu tínt handa okkur, nóg af þeim fyrir austan núna (mig laaaangar að skjótast austur…) Takk takk fyrir okkur!

Í gærkvöldi sátum við og hreinsuðum og gerðum að:


Kassinn nær fullur


Finnur duglegur


Á pönnunni


og Jón Lárus lætur ekki sitt eftir liggja.

25 múffuform af frosnum steiktum lerkisveppum, ekki sem verst. Spurning samt um að kíkja eftir furusveppum líka?

velti fyrir mér

hvernig í ósköpunum ég muni koma rifsberjahlaupskrukkunum mínum (með sultunni sem ég á eftir að gera) fyrir í ísskápnum. Inn í hann eru nú komnar 10 stórar rabarbarasultukrukkur. Svona tvöfalt magn á við það sem ég hef gert áður.

Velti einnig fyrir mér hvernig við eigum að koma allri þessari sultu í lóg. Baka pönnukökur, hafa lambalæri og kótilettur og kjötbollur og svo framvegis.

En rifsberjahlaup skal nú samt gert líka.

Og svo þarf að fara að kíkja í sveppamó og berjamó.

Mig vantar greinilega aukaísskáp. Mamma og pabbi, er pláss í ykkar? (borgað í sultu…)


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa