Síðastliðið sumar buðum við hér heima nýsjálenskum merkismanni sem var í heimsókn á landinu í hádegismat og spjall. Kunningi minn hafði áhuga á að hitta manninn og spurði hvort hann mætti koma líka, þá ásamt Bandaríkjamanni sem var í heimsókn hjá honum og síðan syni hans.
Sjálfsagt mál, the more the merrier.
Pælum svolítið í hvað við eigum að hafa í matinn, Nýsjálendingar eiga lamb og fisk jafngott og við (eins gott að Jón Bjarnason og Guðni Ág lesi ekki bloggið mitt!) þannig að varla þætti honum nýnæmi í slíku. Ákveðum að hafa piadine, ítalskar pönnukökur sem við gerum og höldum mikið upp á. Aðalskyndibiti Emilia Romagnahéraðsins.
Fólkið mætir á svæðið, við erum búin að gera pönnukökudeigið og rúlla út kökunum þannig að þær eru tilbúnar til steikingar. Við bjóðum upp á tvenns konar fyllingar, annars vegar parmaskinku, mozzarella og klettasalat og svo hins vegar gullost og hunang. Ég tel þetta upp fyrir fólkið og þeir bandarísku biðja báðir um ostinn því þeir séu grænmetisætur og borði alls ekki kjöt (nokkuð sem þeir höfðu ekki tilkynnt um fyrirfram – eins gott að ég var ekki með lamb eða fisk).
Píadínurnar líka feikivel, allir borða með bestu lyst og biðja um meira. Sá bandaríski hrósar kökunum og spyr hvað sé í þeim. Ég: Já þær eru mjög einfaldar, bara hveiti, salt, vatn og… Olía! Olía!
Þeir voru sem sagt búnir að úða í sig svínafeitinni sem verður að vera í þessum kökum til að bæði bragð og áferð sé rétt. Og alveg pottþétt án þess að verða meint af. Ég fattaði þetta alls ekki fyrr en ég fór að lýsa innihaldinu.
En þeir geta sjálfum sér um kennt að láta ekki vita fyrirfram.
Nýlegar athugasemdir