Archive Page 2

Salzburg Tag eins

nauh haldið þið ekki að það sé ferðablogg. Aftur? Strax?

uh já.

Dómkórinn minn kæri á leið til Saltborgar í kórakeppni. Það er þannig þegar kórar fara í kórakeppni þá er lagt vel í og fullt af æfingum raddæfingum, tækniæfingum, samæfingum, aukaæfingum, allt er þetta ekki til þess gert að kórinn standi sig vel í keppninni þó það mætti halda. Kór verður ekki góður til að standa sig vel í keppni, kór fer í keppni til að verða góður!

Svona svipað og með tunglferðina í BNA

og skilji þau sem vilja!

Allavega.

Vaknað fjögur. Stuð! Freyja skutlar á völl, höfðum lofað að sækja hana Jónínu út í Skerjafjörð, lögðum af stað á sekúndunni hálffimm (ok innan mínútunnar sem sýnir hálffimm á símanum) eins og til stóð. Vorum svo reyndar pínu stund að finna Reynistað en gekk á endanum.

Hittum uppáhalds ferðafélagana í fríhöfninni. (mynd af þeim neðar). Nord skyldi það vera og mímósa. Var búin að vera hálfskrítin í maganum dagana á undan en hann hagaði sér nokkurn veginn þarna.

Flugtíminn stóðst upp á punkt og prik, vorum hálfsúr yfir að vera plantað sitt hvoru megin við gang í röð 12 í vélinni en svo kom í ljós að áðurnefnt uppáhaldsfólk var í röðinni og svo var þetta vél með Saga class svo röð 12 var bara rétt við inngang svo það gerði ekki bofs til.

Í skemmtara vélarinnar reyndist að finna ræmuna Crimes of Grindelwald sem við höfðum misst af í bíó svo megnið af leiðinni fór hjá okkur báðum í að glápa á hana. Svo sem ágætt að hafa sleppt henni í bíó, greinileg millimynd en samt fínt að ná henni. Fyrsta var góð.

Flogið til München og beðið þar lengur en til stóð, þar sem gleymst hafði að koma með annars kyrfilega pantaðan bílstól fyrir hann Hilmar litla, son Guðbjargar sópransólistans okkar. Biðraðir og hætt við biðraðir og aftur biðraðir við einu sjoppuna á svæðinu, frekar mikið óundirbúna fyrir svona hóp.

Rútan var tveggja hæða. Við upp.

Þar var heitt.

Við í rútunni

en það stóð til bóta þegar rútan með fúla bílstjóranum lagði í hann.

Við uppi á lofti höfðum lítið af honum að segja sem betur fer samt.

Nema það að hann var svo fúll að hann ákvað að stoppa ekki fyrir utan innganginn að hótelinu sem hann hefði annars bara mjög vel getað gert (sáum mökk af rútum stoppa þar meðan á dvöl okkar stóð og þau hin voru sótt beint þangað á rútu) heldur stoppaði á þröngri gangstétt hinu megin við hótelið.

Allt gekk þetta nú samt á endanum.

Hótelið alveg ágætt, herbergið okkar Jóns Lárusar vel stórt með sófahorni sem nýttist bara ansi hreint vel í ferðinni.

Sturta og hótelbar.

Hittingur um klukkutíma síðar og stefnt niður í bæ. Þessir ferðafélagar eru ekki af verra taginu!

Salz félagar.jpg

takið eftir snúrusalatinu fyrir aftan, þarna voru rafmagnsstrætóar sem gengu fyrir svona.

Niður í bæ, göngugatan sem við áttum eftir að þekkja ansi vel, yfir ána, fram hjá dómkirkjunni sem við áttum líka eftir að kynnast betur og upp á Stieglkeller eða Stígvélakjallara sem var hæsti kjallari sem ég hef á ævi minni komið í! Fjórða hæð og uppi í hlíð! Hér má sjá útsýnið úr kjallaranum:

Ljómandi matur, þríréttað, við Jón höfðum bæði valið okkur svín með knödel, erum reyndar lítið fyrir knödel en svínið var mjög gott, meyrt og passlega feitt og kryddað, alveg eins og það átti að vera!

Þessir ferðafélagar áttu eftir að koma mjög mikið við sögu!

Salz bestu mín!

Röltum heim, ansi hreint lúin eftir langan dag. Ferðafélagarnir hér fyrir ofan kíktu í heimsókn í sófakrókinn og hvítvínsglas. Svo sofa! Ekki veitti af!

Barcelona dia cinc

Lokadagur og heim. Sólarupprásin af fallegra taginu:

Barcelona morgunsól

Flugið okkar var ekki fyrr en seinnipartinn og það átti að pikka okkur upp á hótelinu hálffjögur og keyra út á völl. Tékkað út fyrir klukkan tólf eins og venjan er. Við nenntum nú ómögulega að vera eitthvað að hanga á hótelinu til að tékka okkur út á lokasekúndunni svo eftir morgunmat og sturtu rusluðum við saman herberginu og skiluðum lykilkorti um hálftíu.

Stefnan tekin á skólann hennar Fífu, rétt til að sjá nú hvernig þetta hefði litið út hjá henni. Skólinn hennar heitir IAAC eða Institute for Advanced Architecture of Catalonia og deildin heitir Master in design for emergent futures og hefur með að gera hinar og þessar leiðir til að finna út og dreifa vitneskju um hvernig þetta mannkyn getur haldið áfram að búa á þessum hnetti.

Fífa hafði ekki mikinn tíma til að sýna okkur en smá gátum við nú séð frá því sem bekkurinn hennar var að gera. Mjög fjölbreytt. Hún er að vinna lokaverkefni tengt microbiome og hvernig bakteríuflóran er okkur nauðsynleg. Asnaðist ekki til að taka neinar myndir á svæðinu.

Kvöddum hana síðan í þetta skiptið, sakn þar til í haust!

Þá bara lokatúristapakkinn. Fórum og fengum okkur að borða á einu fjölmargra smátorga. Mest óspennandi matur ferðarinnar. Meritar ekki lýsingu. Ég var búin að finna út að allir sumarkjólarnir mínir væru orðnir meira og minna blettóttir, trosnaðir og jafnvel götóttir svo ég var á höttunum eftir einum eða tveimur. Og svo þurftum við að fara í vínbúðina frá laugardeginum til að sækja pöntunina sem við höfðum lagt inn.

Gekk allt saman upp. Enduðum niðri á höfn.

Barcelona höfn

Hafnarsvæðið er rosalega skemmtilegt orðið. Því var umbylt algerlega fyrir ólympíuleikana, eins og reyndar ansi miklu af borginni, hún var tekin mjög vel í gegn. Þessi göngubrú er að ég held frá þeim tíma.

Þarna rétt fyrir innan bendir Krissi Kól út á haf.

Barcelona Krissi Kól

Lokabjór og tapas á hótelveitingahúsinu, voðalega stressaður þjónn sem náði ekki pöntuninni minni svo við Jón deildum bara kolkrabbanum sem hann hafði pantað, inn á hótelið, endurraða í ferðatöskuna (vínflöskur niður, síðar leggings og jakkar upp).

Mundum eftir tax free nótunni úr vínbúðinni og gátum nokkurn veginn fengið okkur að borða á flugvellinum fyrir endurgreiðsluna.

Flug heim ágætt, á tíma og lentum meira að segja 10 mín fyrir áætlun. Höfðum flogið út með Norwegian en heim með Vueling. Bæði fín.

Fékk fyrirspurn þegar ég var komin heim, hvernig var Barcelona? ég: Svipuð og Róm. hann: ha? (mjööög ólíkar borgir auðvitað). Ég: Já, sko, sama tilfinningin og þegar ég kom fyrst til Rómar, hvers vegna hef ég aldrei komið hingað áður? og hvenær get ég komið aftur?…

Barcelona dia quatre

Jæja. Sunnudagur. Síðasti heili dagurinn í Barcelona að þessu sinni. Skyldi skiptast milli Suzukigengisins og Fífu.

Bakpokarnir höfðu svínvirkað um nóttina, bólgan var alveg horfin og ég fann mjög lítið fyrir fætinum. Eins gott!

Þennan morgun var á ferðaplani að fara í hop-on-hop-off tveggja hæða strætó með kennurunum. Það var ekkert minna en frábært. Fyrir utan að ég steingleymdi hattinum mínum inni á hótelherbergi og var skíthrædd um að skaðbrenna í hársverðinum! Slapp reyndar til en ég setti rútubæklinginn upp á haus þegar við vorum lengi utan skugga.

Það er nefnilega merkilega skemmtilegt að fara í svona ferð. Sjónarhornið er allt annað en frá götu. Ég hef takmarkaða þolinmæði fyrir heyrnartólunum sem mani (sic) er skammtað við kaup á miðum í rútuna. In-ear heyrnartól nefnilega passa ómögulega í eyrun á mér, detta endalaust úr ef ég held þeim ekki hreinlega í með höndunum. Sem ég nenni ekki. Jón setti sín í og heyrði hvað var sagt og hlustaði svo á skelfilega muzakið milli merkilegu staðanna. Ég bara horfði og naut.

Sjáið þið bara hvað við vorum meðetta:

Barcelona - við

Eftir hringinn, sem teygðist reyndar á upp í úthverfi, örugglega aðallega til að geta keyrt fram hjá heimavelli Börsunga var planið að kíkja á útitónleika hjá honum Jesúsi frá föstudeginum. Ein úr hópnum var búin að spyrja um leiðbeiningar hvernig við kæmumst þangað best af hringnum. Bílstjórinn alveg: Jájá, best að klára hringinn og fara svo út á næstu stoppustöð. Þá eruð þið komin á götuna. Við hlýddum þessu samviskusamlega! Eeen! jújú við vorum komin á götuna. Tónleikarnir voru við númer 30. Stoppustöðin var sirka rétt hjá númer 230. Ég skýt á að við höfum þurft að ganga 3 kílómetra! Eins gott að hnéð hagaði sér!

Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að setjast niður og fá okkur að borða og drekka þegar við loksins kæmumst á áfangastað. Það reyndist hins vegar ekki alveg málið, enginn matur á staðnum, bara lítill bar og við komumst ekki einu sinni fyrir á borðunum fyrir utan en það voru reyndar dregin út nokkur hænuprik (les barstólar) og hvítvín/bjór/vatn fengum við. Tónleikarnir mjög skemmtilegir reyndar.

En við vorum orðin svöng. Við Jón Lárus mundum eftir að hafa labbað fram hjá veitingahúsi með álitlegum tapas seðli rétt á undan. Hópurinn (eða reyndar það sem eftir var af honum, nokkur höfðu átt pantað borð á veitingastað og stungu af áður en tónleikar kláruðust) röltu þangað. Þá reyndist þetta einn af þessum týpísku katalónsku stöðum – sem hljómar svo sem ekki illa nema þeir hafa tendens til að vera með spilakassa. Og það langaði okkur ekki! Ekki spennandi stemning.

Við vorum komin ekki sérlega langt frá hótelinu, örstutt frá enda Paral·lel strætis. Löbbuðum til baka í áttina að honum, semsagt aftur fram hjá pöbbnum, þá var Jesús sestur með velfortjent bjórkrús. Þökkuðum honum kærlega fyrir tónleikana og hann spurði hvað við værum að fara að gera. Við: BORÐA! hann: Það er verslunarmiðstöð hér rétt hjá, farið endilega þangað og upp á þak, þar er fullt af skemmtilegum veitingastöðum og snilldar útsýni yfir borgina! Við þangað! Reyndist hið alskemmtilegasta. Greinilega fjölskylduvænir staðir, frekar mikill hávaði en hellings stemning. Barcelona er reyndar mjög fjölskylduvæn borg, leikvellir úti um allt og ekki fitjað upp á nef þó fólk sé með börn hvar sem er. Besta mál.

Við Jón Lárus deildum djúpsteiktum sjávarréttum. Ekki verst. Hreint ekki sem verst:

Barcelona - sjávarréttir

Þau hin voru með alls konar annað, við vorum sérstaklega hrifin af djúpsteiktum eggaldinsneiðum með hunangi. Þurfum að gera tilraunir með þetta allt saman!

Röltum þakhringinn eftir mat. Útsýni til dæmis svona:

Barcelona höll

Endinn á Paral·lel var einmitt við þetta torg. Við höfðum séð gosbrunn í gangi þegar við vorum að koma inn í verslunarmiðstöðina (sem var NB með mögulega lengstu rúllustigum sem ég hef séð! kannski fyrir utan einhverjar stöðvar í London Underground) en þegar við komum út aftur var búið að slökkva á honum svo við slepptum að labba upp að höllinni. Ég er sko með gosbrunnablæti! (viðvörun til fólksins sem við erum að fara að ferðast með eftir eina og hálfa viku! Eyrún og Ástráður take note!)

En semsagt. Beint upp á hótel þar sem við ætluðum að hitta Fífu aftur. Stóðst eiginlega á endum, við vorum komin rétt á undan henni.

Búið að þrífa herbergið. Ekki í frásögur færandi. Og þó!

Ég hafði sett mynd á Instagram fyrsta kvöldið. Life Hack. Taka með sér drusluvínglös á hótel. Má skilja eftir.

Barcelona - full glös

Eins og fólk veit þá er ekki boðið upp á almennileg glös á hótelherbergjum. Tja allavega hótelherbergjum sem venjulegt fólk tímir að nýta sér. Tannburstaglösin eru misskemmtileg sem hugguleg vínglös að kvöldi (já eða um miðjan dag þess vegna). Og í öllum lifandis bænum, þvoið þau áður en þið drekkið úr þeim! Fréttum af herbergisstarfskrafti á góðu hóteli sem var kennt að þurrka úr tannburstaglösunum með skítugu handklæðunum frá fyrri notanda herbergis! But I digress!

Allavega höfðum við komið með glös með okkur. Lítil og ræfilsleg en mátti notast við þau og endalaust betri en tannburstaglösin. Þó þau væru reyndar úr gleri á þessu hóteli (voru einnota úr þunnu bláu plasti í París fyrir ári). Þau höfðu fengið að vera í friði fram að þessu. Því þarna, þegar við komum upp á herbergi voru glösin HORFIN! Við skildum ekkert! Þarna var alveg dót sem hefði verið meira vit í að stela, líkjörsflaska til dæmis, sem við höfðum ekki læst inni í peningaskáp, nei tvær glasadruslur hurfu! Var ég búin að taka það fram að við skildum ekkert?

Og við neyddumst til að drekka fína rósacavað úr þessu: (já við vorum búin að þvo glasið).

Barcelona tannburstaglas

Ímyndið ykkur okkur, vínsnobbarana! Og grey Fífa þurfti að fá sinn skammt úr (þó glærum) kaffibolla!

Hneyksluðumst á þessu góða stund! Sátum svo líka lengi vel og spjölluðum alveg hneykslunarlaust. Vorum í góðum tíma, ekki stóð annað til þennan dag en að fá okkur ís og svo var planið að fara í matarboð til fjölskyldu sem reyndist Fífu alveg frábærlega þegar hún kom fyrst til Barcelona, leyfðu henni að gista og redduðu henni herbergi til leigu í vetur.

Niður í lobbí, sirka tveim tímum seinna, urðum jú að klára cavað! Ekki myndi það geymast!

Ég var alveg ákveðin í því að kvarta yfir vínglasahvarfinu. Sveif á afgreiðsluna og sagði okkar farir ekki sléttar! Manngreyið alveg haaaaa??? voruð þið með ykkar eigin glös? þrifafólkið nefnilega hefur fyrirmæli um að taka öll glös sem ekki fylgja herbergjunum því þau hafi alveg bókað verið fengin lánuð á veitingastað hótelsins (sem ég hef satt að segja oft gert og skilið svo bara eftir á herberginu þegar ég tékka mig út). Hann hafði bara aldrei heyrt um að fólk kæmi með glös með sér. Baðst margfaldlega afsökunar og ætlaði að leita glösin uppi!

Hlógum að þessu alla leið út á Römblu.

Ís. Reyndar eini ísinn í ferðinni, mesta furða. Ég fékk mér ís með bökuðum eplum. Hreint ekki sem verst.

Ætluðum að vera komin til Lolu og Luis klukkan átta og ekki vildum við vera of snemma á ferðinni svo við tókum þetta bara rólega. Lína tvö yfir í Poblenou þar sem Fífa býr líka.

Það væru engar ýkjur að segja að tekið hafi verið höfðinglega á móti okkur. Yndislegt lið! Luis talar eingöngu spænsku og katalónsku og Jón Lárus fékk fína æfingu í spænskunni sinni og ég skildi ekkert! (ok smá en bara gegn um ítölskuna) En það gerði ekki spor til. Lola talaði ensku og krakkarnir þeirra líka.

Luis er í katalónsku löggunni, Guardia Urbana. Sem sagt götulögreglu Barcelona. Í Barcelona eru svo starfandi Mossos d’Esquadra sem er landslögregla Katalóna, Guardia Civil herlögregla Spánar þrátt fyrir nafnið, (hlutverk hennar innan Katalóníu var að hluta til yfirtekið af Mossos en hún sér samt um landamæragæsluna ennþá) Guardia Maritima sem er hafnarlögreglan og svo er Policia Nacional, Spánarlögreglan, sem inniheldur meðal annars antiterror squads og það voru þau sem voru send á mótmælin í kring um kosningarnar hvort Katalónía ætti að verða sjálfstæð. Sem var tekið eins fáránlega illa á og mögulegt var! Og svo fyrir utan þessi fyrirbæri er líka sérstök spillingarlögregla, SVA, Servicio de Vigilancia Aduanera.

En ég held samt að Rannsóknarrétturinn sé ekki til lengur.

Allavega sátum við í góða stund úti á svölum. Í komplexinu er þetta:

Barcelona sundlaug

sem var ansi mikill lifesaver fyrir dótturina í hitanum í haust sem leið.

Þetta var í matinn:

Barcelona fondue

ostafondue í aðalrétt og alls konar tapasdæmi, takið sérstaklega eftir brauðinu sem er neðst í miðið, grillað brauð með tómat og kryddi, sérkatalónskur skyndiréttur sem var iðulega í boði.

Spjallað lengi frameftir. Okkur var ráðlagt að taka bara leigubíl upp á hótel, langþægilegast þegar klukkan væri orðin þetta margt og Raval ekki besti staðurinn ef fólk væri ekki fullkomlega óríenterað/liti út fyrir að vera túristar. Og leigubílar ekki dýrir. Ég spurði hvort þau myndu hringja á bíl. Hringja? ha? hvers vegna? Luis fer bara með ykkur út og veifar bíl! Sem reyndist eiginlega auðveldara en meira að segja þau héldu, það var akkúrat bíll að skila af sér fólki nánast beint fyrir utan. Fífu höfðu þau ekki nokkrar áhyggjur af, að labba heim til sín 10 mínútna spöl, enda ekki í Raval.

(ég held nú samt að við hefðum ekki lent í neinum vandræðum sko, svo slæmt var hverfið nú ekki…)

Bíllinn samt ekkert dýr og ansi hreint þægilegt að vera keyrt upp að dyrum.

Á herberginu fundum við svo þessi:

barcelona glösin hrein

Tandurhrein…

Barcelona dia tres

Þriðja daginn vöknuðum við vel fyrir klukkan sjö og gátum ómögulega sofnað aftur. Mættum í morgunmatinn klukkan kortér yfir sjö. Örnólfur og Helga Steinunn strengjakennarar og -leikarar voru álíka morgunhanar og tylltu sér hjá okkur. Besta mál. Mættum svo aðeins fleirum þegar við vorum búin með rólegheitamorgunmat og á leiðinni upp á áttundu – nei úpps tíundu hæð.

Héngum bara uppi á herbergi þar til matarmarkaðurinn væri við það að rúlla upp hlífum. Meiningin var að vera með Fífu megnið af deginum en hún gat ekki hitt okkur fyrr en um tvöleytið svo við ákváðum að kíkja á matarmarkaðinn. Hann er með þeim flottari sem ég hef séð, satt að segja. Tók ekki mikið af myndum þar samt.

 

Settumst á einn af frekar fáum stöðum þar sem hægt var að tylla sér og borða, glas af cava og bestu patatas bravas í ferðinni. Ef ekki þær bestu þá allavega flottasta framreiðslan (ok þær voru líka bestar)

barcelona patatas bravas

Patatas bravas er semsagt steiktar kartöflur með tvenns konar sósum, aioli og spicy mæó. Mjög algengt á tapas seðlum. Fengum okkur slíkt nokkrum sinnum í ferðinni, fjórum sinnum að mig minnir. Oftast hrúga af öbblum með aiolíinu undir og spæsí mæóinu sprautað í listrænar rendur yfir en þetta var langflottast. Útskornar kartöflur!

Barcelona er auðvitað meðal annars þekkt fyrir að vera heimaborg Gaudi, eins frumlegasta og flottasta arkitekts sögunnar. Við áttum eftir að skoða slatta af húsum frá honum en þetta, sem hýsir Gaudi safnið var rétt hjá hótelinu og við vorum alltaf að labba fram hjá því:

Barcelona Gaudi íshús

Þetta líta út eins og risa ísar þarna uppi á þaki en ég held nú samt ekki að það sé meiningin.

Af matarmarkaði stefndum við á vínbúð sem Jón Lárus var búinn að spotta Framhjá þessum skemmtilegheitum fyrst samt, ásamt því að rekast alveg óvænt á ferðafélaga, Steingrím gítarkennara, Kolbrúnu konu hans og Þórunni Huldu píanókennara sem voru á leiðinni á flamencosýningu.

Barcelona pálmatorg

Barcelona svalirBarcelona mandarínur

Ekki alveg eins skemmtilegt var að mér tókst að missa algerlega jafnvægið og hrynja fram fyrir mig, var eitthvað að glápa upp í loftið á flott hús og steig niður í lægð í gangstéttinni, svona trjábeð. Hruflaði mig ansi illa á báðum hnjám og öðrum olnboga og fékk smá sjokk, hélt reyndar fyrst að ég hefði meitt mig í framan líka en það slapp til. Haltraði að næsta útiveitingahúsi og bað Jón panta fyrir mig sódavatn, aðallega til að hreinsa, og setti plástur sem hann var með í veskinu á versta hruflið. Ég er líka vön að vera með plástur í veskinu en hafði gleymt að endurnýja síðast þegar ég þurfti að nota hann. Vorum svo með plástrapakka uppi á hóteli fyrir hin sárin, slyppi til þangað til við kæmum þangað.

Það er reyndar fyndið (já eða ekki) að ég er alls ekkert vön því að vera svona mikill klaufi en í síðustu kennaraferð (Berlín með LHÍ kennurunum) datt ég líka og hruflaði þá reyndar bara hnéð. Væntanlega þetta með að vera að glápa svona mikið upp fyrir mig. Skamm borgir með að vera svona flottar!

Gat alveg gengið áfram, kláruðum vínbúðarheimsóknina (keyptum smotterí og pöntuðum eina flösku sem Jón hafði haft augastað á en var ekki til í búðinni, myndi vera reddað á mánudeginum). Heim á hótel. Silfurplástrarnir í töskunni reyndust óklipptir svo við báðum Fífu koma með skæri sem var auðsótt mál.

Dóttla mætti á svæðið. Hnéð með minni hruflunni var farið að bólgna upp. Gat samt alveg labbað. Verst þegar ég var búin að hvíla mig og var að byrja en svo varð það allt í lagi.

Treysti mér samt til að labba alla leið að þekktustu Gaudi húsunum. Svona með því að setjast nokkrum sinnum á bekki á leiðinni. Já og fá okkur að borða. Engar matarklámmyndir samt þó það hafi verið alveg ljómandi.

En húsin voru æði! La Pedrera að utan og innan og flottasti ljósastaur sem ég hef séð.

 

Ekkert sár á nefi. Svei mér þá!

Barcelona ég

Eftir þetta innlit í La Pedrera var hnéð á mér farið að mótmæla svolítið, (les bólgna einhvern slatta), svo við tókum metró upp á hótel. Fífa var að halda upp á afmælið sitt með bekkjarfélögunum um kvöldið svo hún kvaddi okkur og tók línu tvö en við línu þrjú inn í El Raval.

Smá hvíld, svo vorum við að spá í að fara eitthvað í mat en hnéð mótmælti enn ákveðnar þannig að við enduðum á að borða á hótelveitingastaðnum. Sem var alveg ljómandi, paella með humri og ágætis cava, eini gallinn var að það voru sjónvarpsskjáir þar sem var verið að sýna úrslitaleikinn í evrópsku meistaradeildinni. Það var ekki hljóð á, sem betur fer en svona skjáir eru samt ansi hreint miklir athyglisþjófar. Og okkur gat ekki staðið meira á sama um leikinn…

 

En þetta var nú samt fínt!

Aftur upp á herbergi. Hnédruslan öskraði, hvernig sem ég reyndi að snúa mér í rúminu. Þar til mér datt í hug að reyna að hækka undir hana, líka til að minnka bólguna. Reyndist alveg málið. Hrúgaði undir fótinn báðum tölvubakpokunum okkar og sitt hvorum púðanum úr rúminu.

Net fram að því að það slokknaði á mér eftir daginn!

 

Barcelona segon dia

Annar dagurinn var þrælplanaður og undirlagður í vinnu. Sem var ljómandi. Kannski minna spennandi blogglega séð nema fyrir þau sem voru með. Og þó!

Við Jón Lárus vöknuðum um hálfníuleytið og höskuðum okkur niður í morgunmat. Ljómandi morgunverðarborð, enskur, continental, salt og sætt, mjög gott nýbakað brauð, álegg af hinu og þessu tagi, ferskir ávextir, jógúrt og morgunkorn, allt mögulegt. Þurrkaðir rabarbarar á eftirréttaborðinu – nei djók, churros, Jón hafði rekið augun í churros stað daginn áður og spurði Fífu hvað væri með þessa fylltu rabarbara!

Kaffið leit ekki vel út. Frekar óárennilegar kaffivélar en það kom á óvart og var vel drykkjarhæft. Svona miðað við útlit vélanna.

Og svo var hægt að fá mímósu í morgunmatnum! Cavaflöskur og appelsínusafi og freyðivínsglös!

Við kennararnir og einn maki vorum með þvílíkt prógramm þennan föstudag. Jón Lárus hafði harðneitað að taka þátt í vinnudeginum, langaði frekar að njóta dagsins með dótturinni og borginni. Hann hefði nú samt haft ansi hreint gaman af því að koma á fyrsta hlutann, við þurftum bara að labba þriggja mínútna leið frá hótelinu í konservatorí þar sem við hittum Oriol Sana, fiðlukennarann sem hafði planað prógramm dagsins fyrir okkur. Hann hafði komið því til leiðar að við fengjum að hlusta á útskriftarverkefni nokkurra jazzfiðlara. Það var alveg svakalega skemmtilegt! Krakkarnir höfðu gríðarlega mismunandi stíl, sum klassískir jazzarar, önnur þjóðlagaskotin og sum meira freejazz. Oriol bauð okkur öllum upp á kaffi í skólakantínunni. Það reyndist eitt besta kaffið í ferðinni:

IMG_0006

Svolítið meira spennandi en espressóinn úr vélinni um morguninn, þó hann væri allt í lagi.

Mér varð samt svolítið kalt þarna og fór út til að hlýja mér (já). Þetta er ekki besta hverfið í Barcelona. Reyndar eiginlega það versta, sagði Fífa okkur. El Raval, milli Paral∙lel strætis og Römblunnar. Fór upp fyrir skólann, inn á lítið torg/garð fyrir ofan. Þar reyndist vera fullt af lögreglufólki frá Guardia Urbana (ég á eftir að segja aðeins betur frá lögreglunni á svæðinu síðar) sem var greinilega að taka til á torginu, samt í mestu rólegheitum. Tjald í eigu heimilislausrar konu stóð þar og hún að taka það saman en samt án þess að lögreglan virkaði neitt ógnandi, slatti af fýrum sem voru greinilega vanir því að þurfa að hreinsa draslið sitt frá og virtust þekkja lögreglufólkið. Bara svona: Æ fólk, hér er að verða aðeins of druslulegt, eruð þið til í að taka aðeins til? Þarna voru líka nokkrar konur að leika við hundana sína og eitthvað af fólki með börn í kerrum. Ekkert óþægilegt við andrúmsloftið þrátt fyrir lögregluna. Og sólin hlýjaði mér þar til ég var til í að fara inn á tónleikana/prófið aftur.

WordPress leyfir ekki lengur að ókeypis aðgangurinn embeddi vídeó svo ég ætla ekki að setja inn það sem ég tók af tónleikunum en þeir voru semsagt samt geggjaðir.

Þegar þeim lauk þökkuðum við spilurunum kærlega fyrir. Þau voru líka ansi hreint glöð að hafa okkur því það hafði fækkað í áheyrendahópnum eftir því sem leið á tónleikana, sérstaklega fækkaði um spilara sem voru með fiðlurunum í böndunum, svolítið „ok ég er búin með mitt gigg og þarf að fara“, þó fiðluleikararnir 6 eða 7 væru sjálfir allan tímann að hlusta á samnemendur sína munaði um að hafa 12 stykki sem sátu og hlustuðu allan tímann.

Þá leiddi Oriol okkur út á metróstöð, klippikort keypt fyrir hópinn fram og til baka til L’Hospitalet, smábæjar, svona Garðabæjarúthverfis þar sem seinni hluti vinnudagsins færi fram. Já eða nei, sko, L’Hospitalet byggðist mikið upp af roma fólki og þar er gríðarlega blönduð byggð af alls konar fólki, mikið til innflytjendum frá öllum heimshornum. Semsagt alls ekki Garðabær á neinn hátt!

Byrjuðum á því að fara í skólann sem við vorum að heimsækja:

IMG_0010

Aðallega til að henda af okkur hljóðfærum og töskum fyrir þau sem voru með slíkt meðferðis.

Þaðan 10 mínútna gangur að veitingahúsi hvar Oriol hafði pantað fyrir okkur mat. Mjög spes, í anddyri íþróttahallar mikillar en samt alveg þokkalegasta veitingahús og fólk í nágrenninu kom greinilega mikið þarna að borða. Gæti reyndar samt verið vegna þess að það var eiginlega ekkert annað veitingahús á svæðinu.

Mest spennandi rétturinn sem við höfðum fengið að velja úr hét gilt head. Við höfðum ekki græna glóru um hvað það væri, nema að það var einhver fiskur.

Svona leit hann út:

IMG_0012

Svolítið út eins og glorified gullfiskur.

Aftur í skólann. Fengum fyrirlestur um hvað hann snérist um. Í þessum smábæ fá allir yngri grunnskólanemendur listkennslu. Tvisvar í viku, einn fámennan hóptíma og svo stærri hóptíma. Inni í grunnskólunum. Við höfðum labbað fram hjá einum skóla, í honum var aðallega kenndur dans en líka þjóðlagatónlist. Í öðrum skóla var kenndur jazz, með áherslu á improvisation, í enn öðrum klassík með heilli sinfóníuhljómsveit. Skólinn er með þessu aktíft að berjast gegn aðskilnaði þjóðfélagshópa og blanda öllum hópum saman gegn um listnám. Stórkostlegt starf sem mætti ná lengra upp í aldur (eftir 12 ára verða fjölskyldurnar að borga fyrir að börnin fái að halda áfram í námi og það er ekki boðið upp á einkatíma en það gerist samt ansi hreint margt).

Eftir kynninguna voru síðan tónleikar þar sem þrír aldursflokkar nemenda sýndu getu sína í impró. Þrír kennarar tóku þátt, þar á meðal einn þeirra sem hafði spilað með fiðlurunum fyrr um daginn, strákur að nafni Jesús (nódjók) sem greip í alls konar hljóðfæri og náði ógurlega vel til krakkanna.

Ég var alveg að sofna á tímabili, langur og heitur dagur, hellings labb og þvælingur og alveg smá vín með hádegismatnum. Hristi það samt af mér.

Í lokahópnum var einn ansi efnilegur strákur, 12-13 ára sem spilaði á fiðlu. Hann minnti mig alveg ótrúlega mikið á son vinafólks míns í Bandaríkjunum, álíka gamall, alveg sami augnsvipurinn, brosið og líkamsbygging og holdning. Sá spilar einmitt líka á fiðlu. Þegar tónleikarnir voru búnir og við vorum að spjalla saman fór ég til hans og spurði hvort hann talaði ensku, Já eitthvað smotterí, kom í ljós. Sagði honum frá tvífaranum í BNA. Honum og foreldrunum þótti þetta mjög fyndið. Þau sögðu mér að hann hefði farið á námskeið til Lilju Hjalta í Englandi. Sniðugt, sagði ég, elsta dóttir mín var einmitt í námi hjá henni!

Nema hvað. Þau fóru út, við stóðum áfram í góða stund yfir pica pica, spænsku snakkborði, ólífum, pylsu- og skinkubitum, kexi, kæfu og sultu sem tóku mig alveg yfir í jólahlaðborðsfíling, hvítu og rauðu eins og öll vildu. Yfir þessu nefni ég við einn kennarann að ég hafi verið að tala við þetta fólk. Kennarinn: Já, þau! Mamma stráksins er mjög mikilvæg kona hér um slóðir. Hún er deildarforseti í arkítektúrháskólanum. Ég: Haaaa? Í alvöru? Dóttir mín er þar í háskólanum…! Þessi sem var í fiðlunámi hjá Lilju!

Nema hvað, þegar við komum út, eftir örugglega allavega hálftíma, standa þau enn þar á spjalli við annað fólk. Ég svíf auðvitað á hana og segi tenginguna. Hún er jafn hissa og ég, og skrifar niður nafn og tölvupóst og segir að Fífa skuli endilega hafa samband við sig ef eitthvað vanti.

Sem er andskotanum magnaðra! Hvað er með að droppa frá Íslandi til milljónaborgar í Katalóníu og lenda akkúrat á tengingu sem gæti nýst dóttur minni? Hvort sem kemur nú eitthvað út úr því!

Nújæja. Heim á hótel, Alveg búin eftir daginn.

Svona var stemningin síðkvölds yfir borginni frá hótelglugganum:

IMG_0952

 

Barcelona primer dia

Suzukiskólaheimsóknarferð til Barcelona. Undirrituð hefur aldrei farið til Spánar fyrr og það er gaman að byrja heimsóknina í Katalóníu.

Freyja skutlaði á völlinn þessi elska. Flugið ekki fyrr en klukkan níu svo það má kalla það þægilegt morgunflug án gæsalappa. Vöknuðum upp úr hálfsex sem er alveg þolanlegt. Reykjanesið skartaði sínu allra fegursta, heiður himinn og blankalogn á leiðinni.

Endurnýjaði símann minn í Elko. Minn var orðinn allavega 5 ef ekki 6 ára og orðinn ansi hreint leiðinlegur svo einn kassi með æfón XR lenti ofan í tösku.

Maginn á mér var eitthvað að ybba sig svo matarlystin var lítil. Hafði mig þó í að fá mér freyðivín og eggjaköku á Nord (já það hjálpaði).  Ég fékk mjög asnalegt glas með freyðaranum! Engin almennileg hrein til:
IMG_1091

Diljá kom og settist hjá okkur, hafði ekki fundið hópinn og var fegin að sjá okkur. Við sátum í rólegheitunum smástund eftir að Go to Gate merkið var komið, aldrei þessu vant, venjulega erum við með þeim fyrstu til að rjúka upp og út að hliði en ákváðum að taka Hallveigu systur á þetta, hún er mun afslappaðri en við, og þurfa ekki að standa upp á endann í hálftíma við hliðið eins og venjulega. Þau hin voru samt orðin óróleg og sendu sms bæði á mig og Diljá. En auðvitað var þetta samt bara mjög fínt, við enduðum á að labba bara aftarlega í röðina og nánast beint út í vél.

Steinsofnaði í fluginu. Ótrúlega vel þegið. Svaf samt ekkert alla leiðina, tók alveg smá tíma í að æfa texta fyrir Salzburgerkeppnina hjá Dómkórnum í júní (já það verður bloggað um þá ferð líka)

IMG_1096

Barcelona tók vel á móti okkur líka, sól og 22° hiti. Gersamlega ídeal! Tekið á móti hópnum á flugvellinum og við teymd í rútu sem keyrði okkur á hótelið.

Lítið mál að skrá okkur inn, við Jón Lárus lentum í herbergi á allra efstu hæð, áttundu hæð sem er í raun sú tíunda, ekki nóg með að Katalóníubúar kunni ekki að telja og byrji á núlltu hæð heldur bæta þau við hæð E áður en þau byrja á einum! (ok það er alveg ágætis röksemdafærsla til fyrir að hafa jarðhæð númer núll en þessi E er ekki að gera sig!)

Upp á herbergi, koma okkur örlítið fyrir og svo út. Vorum snyrtilega veidd af flinkum veiðara inn á veitingahús beint fyrir utan, sem reyndist svo vera samtengt hótelinu og keyra þar morgunmatinn. Ljómandi bjór, ólífur, patatas bravas og kjúklingavængir. Vildum ekki borða mikið því Fífa var búin að panta fyrir okkur borð á uppáhalds tapasstaðnum sínum um kvöldið.

Já því auðvitað er Fífan mín í Barcelona!

Hún mætti síðan upp á hótel og dró okkur upp að Diagonal stræti (hver vill veðja að Joanne Rowling þekki til í Barcelona og hafi fengið hugmyndina að Diagon Alley þar?)

Tapasstaðurinn snilld. Við skildum takmarkað í matseðlinum svo við báðum bara Fífu panta fyrir okkur uppáhalds matinn sinn. Hún veit okkar smekk. Ólífur fylltar með ansjósum, mismunandi tapas brauðsneiðar, eggaldin, sveppir, hinn og þessi ostur kann ekki að nefna þetta allt saman og sleppti matarmyndunum í þetta sinn en gott var þetta allt saman.

Skemmtilegt að þarna var vín í tunnum og fólk getur komið með flöskur og fengið áfyllingu. Á myndina vantar tunnuna næst til vinstri sem á stendur Priorat sem er uppáhalds héraðið okkar:

IMG_1098

Nei ég er samt ekki að tala fyrir að slíkt verði tekið upp heima!

Hundþreytt tókum við lestina aftur upp á hótel, kvöddum Fífu sem fór heim til sín, hún myndi hitta pabba sinn daginn eftir á meðan ég væri pikkföst í starfsdegi með Suz kennurunum mínum yndislegu!

Kolding, ottende og allersidste dag. Hjem.

Jæja. Heim. Ekki líklegt að við myndum dvelja meira í Kolding. Fífa að flytja sig um set til að taka mastersnám í Barcelona. Atli yrði eftir að klára sitt nám.

Vaknað um morguninn og ruslað saman dótinu okkar, lítið mál. Fórum á stúdentagarðana og ræstum krakkana. Við vorum að taka tvær stórar töskur með dóti frá Fífu heim.

Strætó út á völl. Hljómar eins og enn ein boring leiðin en eitt mjög fyndið kom upp. Við vorum búin að raða öllum töskunum okkar fjögurra plús þeim tveim frá Fífu í stöðuplássið fyrir miðjum strætó. Settumst síðan í sætin þar beint fyrir ofan.

Nema hvað, ekki höfðum við raðað þeim nógu þétt til að þær tylldu á sínum stað. Fljótlega eftir að við höfðum komið okkur fyrir þurfti bílstjórinn að bremsa frekar snöggt – og töskurnar okkar, allar með tölu, rúlluðu hver eftir annarri, fremst í vagninn og stóðu þar eins og þær væru að glápa á bílstjórann. Sem betur fer hafði hún húmor fyrir þessu, reyndar skellti allur vagninn upp úr! Við líka. Vildi óska að ég hefði verið með símann uppi við og náð af þessu vídeói.

Sóttum þær og skorðuðum nú kyrfilega í plássinu.

töskurnar

Ég hafði verið búin að átta mig á því fyrr í ferðinni að mér hafði láðst að kaupa töskukvóta til baka. Svo við byrjuðum á því þegar við komum á völlinn að bæta við kvóta. Það var ódýrara en við héldum. Ætluðum samt að taka eins mikið inn og við gætum, allar litlar töskur sem mætti fara með í handfarangur. Nema hvað, það var ekki hægt að innrita sig sjálf í kassa svo við þurftum að fara á innritunarborð. Þar var hinn almennilegasti maður sem bauð okkur að tékka inn töskurnar okkar allar með tölu þrátt fyrir að vera ekki búin að borga fyrir inntékkað. Vélin ekki full og nóg pláss í lestinni. Þáðum það með þökkum.

Flugið var ósköp þægilegt og ekki frásagnarvert og sama gilti með Leifsstöð og heimferð. Góð ferð.

Kolding den syvende og næstsidste dag. Endnu ingenting.

Jamm. Slökun enn og aftur. Snilldarveður, svona þegar við nenntum að rífa okkur á fætur og fara út. Ekkert prógramm planað frekar en fyrri daginn (ýkjulaust, daginn áður)

Finnur ætlaði reyndar að kaupa sér leikjatölvu og Atli tók hann að sér upp úr hádegi þegar hann losnaði úr vinnunni, gaurarnir fóru í Elgiganten (Elko heitir Rafrisinn þarna úti í DK). Við Jón og stelpurnar pökkuðum aftur í bakpoka og fórum í garðinn góða við vatnið:

Systur í garði

Systur njóta lífsins!

Finnur og Atli mættu á svæðið að góðri stundu liðinni. Við hin vorum búin að sökkva okkur niður í bækur þangað til. Hvorugur þeirra gauranna er sérlegur áhugamaður um sól svo við tolldum ekki mjög lengi á svæðinu eftir að þeir komu. Vorum reyndar líka hin alveg búin að fá nægju okkar af að sitja í sólbaði. Hefði mögulega hjálpað að hafa sundlaug (já eða kannski sundföt, sundlaug svæðisins var jú ekki langt frá).

Komum við í bestu ísbúð Kolding á hinni stuttu leið upp á hótel. Varla hægt að kalla það krók. Þokkalegur ís. Fékk mér sjeik sem var reyndar allt of þunnur. En hei. Ís!

Hótel. Annar fótboltaleikur (einu sinni fórum við til Parísar og lentum þar óvart á kafi í sumarólympíuleikum. Þarna var hinstrakeppni í fótbolta). Mér var svo gersamlega algerlega sama hver ynni.

Pizzur um kvöldið á stað sem var tengdur Madkælderen þar sem Atli er á samning. Fengum pláss úti á terrasse og ágætis pizzur.

 

 

Heim. Sofa. Heimferð daginn eftir.

Tilbage til Kolding den sjette dag. Næsten ingenting

Sunnudagur í Kolding við vatnið. Geggjað veður, 27 stiga hiti og sól. Kom að því!

Við gerðum eiginlega ekkert þennan dag. Slökun par excellence. Við skruppum í Føtex og keyptum bjór, ekki þennan samt:

Brynhildarbjór

duttum svo bara í garð og rósavín, tókum með okkur glös í garðinn við vatnið. Eins og hefur komið fram áður á þessari síðu þá erum við ekkert mikið fyrir að drekka vínið okkar úr vondum glösum.

Á leið úr Føtex sá ég loks þennan svan, þau hin voru löngu búin að taka eftir honum. Applebúð með forljótum glugga“skreytingum“ á jarðhæð. Ætti að banna þetta! og er ég þó Applekona út í fingurgóma!

Svanurinn

En garðurinn sveik ekki:

Garðmynd 1

né heldur útsýnið til kastalans:

Kastalinn

Við höfðum þegar við komum þarna síðast fundið okkur fínan stað milli trjáa og runna til að setja niður picnicteppi í skugga fíns eikartrés en þarna fundum við bara alls ekki staðinn! Skildum ekki neitt í neinu en Fífa fræddi okkur þá á því að svæðinu hafði verið breytt, runnarnir okkar rifnir upp og tréð höggvið til að gera pláss fyrir framlengingu á sundlaugarsvæði staðarins sem var þarna beint fyrir sunnan. Gerði svo sem ekkert til, bekkirnir sem við fundum aðeins lengra borguðu alveg fyrir möguleikann á picnicteppi. Samt spes. Ekkert skemmtilegt picnicsvæði þarna eftir við suðurenda svæðisins.

Føtexgóss í kvöldmatinn ásamt rósavínsflösku sem ekki hafði klárast á föstudeginum. Ekki slæmt. Gæti verið verra. Horft á einhvern leik á hótelinu. Íslendingar dottnir út. Antisportistinn man ómögulega hvaða leikur það var, horfði samt frekar en að vera ógurlegur félagsskítur. Saadan er det bare.

Einhverjir flutningar stóðu yfir í húsinu á móti. Kona og köttur fylgdust vel með því sem var að gerast:

Kona og kisa í glugga

 

Kolding – nej Århus, den femte dag

Dag fimm var stefnan sett á Árósaheimsókn. Mamma og pabbi fóru til Kaupmannahafnar í veg fyrir flugið þennan dag og komu ekki með okkur til Árósa. Við Jón Lárus höfðum komið einu sinni þangað áður en samt eiginlega ekki að marka því við fórum ekkert niður í miðbæ, gistum bara hjá vinkonu ferðafélaga í úthverfi, vorum á Danmerkurtúr frá Kaupmannahöfn á námsárunum. Þetta hefur verið sumarið 1991 svo það var ekki beinlínis stutt síðan við komum á svæðið.

En nú skyldi bætt úr því. Hittum Fífu og Atla á lestarstöðinni í Kolding og tókum lestina norðurúr. Finnur baðst undan Árósaferð, langaði bara til að hvíla sig í rólegheitum einn dag. Það var látið eftir honum.

aperolsett

Þetta Aperol Spritz sett fékkst á lestarstöðinni. Við keyptum ekki.

Lestarferðin, tæpur klukkutími, stoppað á öllum krummaskuðunum, svo sem ekki í sérlegar frásögur færandi.

Komin til Árósa, smástund að oríentera okkur á lestarstöðinni, hvar skyldi farið út til að hitta á miðbæinn, þó Fífa hefði komið þangað áður. Tókst nú samt.

Öll orðin svöng. Fórum á matartorg ekki ósvipað mathöllinni á Hlemmi. Þar fékk fólk sér hitt og þetta, ég ætlaði að fá mér andaborgara en á endanum var ekkert kjöt til á borgarabúllunni annað en svín. Og ég sem er eiginlega alveg hætt að borða svín. Nennti samt ekki í aðra röð svo tosað svín í borgarabrauði og sætkartöflufranskar skyldi það vera. Alveg ágætt. Hin fengu sér mexíkóskt og danskt og austurlenskt og ég klikkaði alveg á að taka myndir!

Aftur út á göngugötu. Veðrið var alveg ljómandi (enda spáin betri fyrir Árósa en Kolding, hluti ástæðunnar fyrir að við færðum okkur til þennan dag), mestan part sól. Freyja var að spá í að kaupa sér hlaupaskó og þau fóru flest inn í íþróttavörubúð, ég settist bara úti enda hef ég alveg mínus áhuga á íþróttavörubúðum. Ekki leist Freyju á neina af skónum svo þau komu bara út aftur og við héldum áfram.

Gengum út að listasafni borgarinnar, risastóru húsi sem skartar regnbogahring Ólafs Elíassonar á þakinu.

Regnbogahringur

Þetta er reyndar alls ekki listasafnshúsið en hringurinn sést vel.

Okkur dauðlangaði til að fara upp og ganga hringinn með litaða glerinu en það var ekki í boði að fara bara upp heldur eingöngu að kaupa sér aðgang að safninu og við hvorki tímdum því (alls ekki ódýrt) né tímdum að eyða þessum góða veðurdegi inni á listasafni. Svo við horfðum bara á listaverk Ólafs utanfrá.

Þá lá leiðin í Pakhus 64, listamannakollektíf þar sem einir 8 listamenn og tveir arkítektar reka saman vinnustofurými og kaffihús.
Manngengt þak

Þarna var hægt að ganga uppi á þaki. Mjög skemmtilegt útsýni að ofan (myndin af regnbogahringnum var tekin þaðan)

Þessar brauðristar voru snilld:

brauðristar

Í beinu framhaldi af svæðinu var að finna hálfgerða Kristjaníu, heilmikið hippasvæði þar sem allt angaði af marijúana og bönd spiluðu úti um allt, það var gaman að kíkja þangað en okkur fannst við samt vera allt of miklir túristar að kíkja á skrítnu hippana og fórum frekar fljótt út af svæðinu. Þetta var samt magnað að rekast á, hef ekki séð svona nokkuð ansi lengi:

hjólalás

Áfram rölt, nú var stefnt á eitthvað kaffihús þar sem átti að fást alveg ógurlega gott kaffi. Það reyndist smá göngutúr, ekki að við værum að flýta okkur samt. Krakkarnir fengu sér kaffi en okkur Jón Lárus langaði meira í bjór/hvítvínsglas svo við fórum út á meðan og leituðum að pöbb. Það reyndist hægara sagt en gert. Ekkert sem okkur leist á nema einn þokkalegur en þar fyrir utan var eitthvað band að spila alveg rosalega háværa músík (sem hvorugt okkar kunni að meta) svo við enduðum á því að bíða bara eftir krökkunum og fá okkur bara drykk þegar við kæmum aftur niður á göngugötu.

Það stóðst síðan auðvitað. Fundum ágætis stað. Engin mynd.

Ég hoppaði inn í apótek til að kaupa mér lesgleraugu í stað þeirra sem brotnuðu í París. Nei ég var ekki búin að vera gleraugnalaus í marga daga (úff) en annað parið sem ég átti voru þröng og ég fékk hausverk af þeim og hin rispuð. Hoppið tók samt óratíma, fann fín gleraugu en það tók hálfvitalega langan tíma að fá afgreiðslu! Þoldi það samt því ég hafði bara hvergi annars staðar fundið neina gleraugnastanda.

Þau hin biðu sallaróleg úti á torgi í sólinni.

Dómkirkja þeirra Árósinga er ekkert lítil eða ljót:

Systur og dómkirkja

Hér sjást systurnar og rétt í kollinn á Atla, fyrir framan kirkjuna.

Orgelið – okkur vantar svona klukku fyrir ofan orgelið í Dómkirkjunni svo prestarnir geti séð ef þau eru búin að tala of lengi!

orgel og klukka

Þá var þetta nú bara að verða ágætt, búin að vera á röltinu mestan part dagsins og kominn tími á að koma okkur til baka til Kolding.

Lestarferðin ekki meira í frásögur færandi en þangað.

Heim á hótel, rólegheitakvöld með bækur og vonda netið á íbúðahótelinu (hvað er með það?)

Kolding den fjerde dag, med blomster og mad

Síðasti dagurinn sem við hefðum mömmu og pabba hjá okkur, þau flugu til og frá Köben og komu degi fyrr en við svo þau áttu þennan lokadag í Kolding.

Stefnan var sett á blómagarðinn á svæðinu. Svona þegar Fífa myndi vakna eftir útskriftarpartíið. Ekki snemma. Rólegheit frameftir morgni á hótelinu þar til heyrðist frá henni. Atli var að vinna.

Við Jón, Freyja og Finnur röltum svo yfir í íbúð til Fífu með viðkomu í búð til að skila pantflöskum og kaupa hænsnasalat, sem er eiginlega einu fastainnkaupin okkar Jóns í búðum í DK. Svona salöt fást ekki hér, veit ekki hvers vegna. Tja nema stundum þegar Hagkaup eru með danska daga. Danir kunna hins vegar ómögulega að búa til almennileg laxasalöt!

Þaðan gengum við sem leið lá sirka tvo og hálfan kílómetra í blómagarðinn. Höfðum verið í sambandi við mömmu og pabba sem treystu sér ekki alveg í svona langa göngu. Hringdum þegar við nálguðumst garðinn og þá röltu þau út til að veiða sér leigubíl á svæðið.

Okkur tókst nú samt að vera svolítið á undan svo við tylltum okkur á veitingahúsið á svæðinu í einn bjór eða svo. Fengum mjög dæmigerðan rauðköflóttan danskan dúk á borðið þó við segðumst ekkert þurfa slíkt fínerí.

Mamma og pabbi mætt. Kaffi og bjórglas handa þeim. Pabbi togaði dúkinn til, svo hann næði aðeins inn á borðið sem þau drógu til, til að vera með okkur. Jón Lárus hélt að hann væri að fá aðsvif þegar allt í einu voru rauðhvítu köflurnar komnar á hreyfingu fyrir framan hann!

Ég skaust svo inn þegar öll voru búin með drykki og laumaðist til að borga fyrir mömmu og pabba líka, fyrir utan mitt gengi. Var fegin því, síðar um daginn!

 

Inn í garðinn fórum við, mamma og pabbi voru búin að kaupa sig inn og svo komum við aðeins seinna og konan í afgreiðslunni: ha líka Íslendingar? jújú skildi það betur þegar ég sagði henni að við værum öll í einum hóp, Krakkarnir fengu fínan námsmannaafslátt.

Fyrst í lítinn dýragarð þar sem var hægt að sjá hina og þessa fugla og furðudýr og svo kiðlinga og alpacadýr. Freyju var ekki alveg sama eins og sjá má hér!

Grasagarðurinn státaði af alveg ótrúlega fallegum rósagarði!

Þarna var líka hið fallegasta smáhúsasafn. Lego hvað? Kolding endurgert í miniature á alveg magnað flottan hátt! Pínulitlir múrsteinar brenndir og púslað saman.

Það var lítið að gera svo við fengum rúnt um vinnustofurnar með áhugasömum safnverði. Þar sáum við brennsluofninn í gangi og þessa oggulitlu múrsteina koma út úr lítilli vél og bíða svo brennslu. Hvert hús tekur mörg ár í vinnslu og er ótrúleg fínvinna. Veit ekki hvort ég hefði þolinmæðina í þetta!

Amma og afi tóku svo bíl aftur til baka en við hin gengum í íbúðina til Fífu, komum við í bakaríi og fengum okkur snarl hjá Fífu. Svo splittaðist hópurinn niðri í bæ, flest ætluðu á enska pöbbinn til að horfa á Ísland spila við Nígeríu en við Finnur íþróttaáhugaleysingjarnir fórum bara upp á hótel. Um kvöldið stóð til að fara fínt út að borða á besta staðinn í Kolding þar sem Atli er á námssamning og ætlaði að elda ofan í okkur það besta sem Kolding hefur upp á að bjóða.

Leikurinn fór eins og hann fór. Við Finnur vorum sátt inni á hóteli hvort í sinni tölvunni. Röltum okkur síðan stystu leið upp í Koldinghus þar sem Madkælderen, veitingastaðurinn hans Atla er. Tekið á móti okkur með spurningu um hvort við ættum pantað borð og á hvaða nafni þá. Jaaa, Atli! men vær så særlig velkomne!

Hin birtust stuttu síðar, fyrst Jón Lárus, Fífa og Freyja og svo amma og afi. Maturinn? Magnifico! Takk Atli! sem var allsráðandi í eldhúsinu þetta kvöldið, honum til aðstoðar var bara annar nemi sem var annars aðallega búinn að vera á hádegisvaktinni svo hann var bara í að hlýða því sem Atli skipaði honum fyrir.

Þetta fengum við að borða:

Matseðill

Það er skemmtilegt við þennan stað að yfirkokkurinn býr ekki aleinn til alla réttina og skipar svo öllum fyrir heldur er sest niður í hverjum mánuði og öll sem vinna við eldamennskuna fá að koma með sitt innlegg í hvernig matseðill næsta mánaðar muni vera samansettur. Og svona var semsagt júnímánuður. Þau bjóða bara upp á svona smakkseðil, ekki hægt að panta mismunandi rétti af seðli. Með í pakka hvers kvölds er síðan vín eins og hver getur í sig látið, þrjár tegundir af hvítu, rósa og rauðu. Þau sem ekki vilja vín fá sérstakan safaseðil, Finnur var í þeim pakka, þó hann sé löglegur í drykkju í Danmörku hefur hann samt engan áhuga á víni svo hann fór í safapakkann. Þar kenndi ýmissa grasa. Bókstaflega! Skrítnasti safinn sem hann drakk var úr ferskum grænum baunum. Ekki að allra smekk en okkur (hinum) fannst hann alveg merkilega góður!

Yndislegt kvöld, myndirnar mínar allar mjög grainy og asnalegar svo engar myndir þarna neðan úr kjallaranum.

Áður en við fórum, laumaðist pabbi fram og borgaði pakkann fyrir okkur öll saman, okkur alveg að óvörum.

Takk fyrir okkur, elsku Atli Már og pabbi og mamma! ❤

 

Kolding, så kom dag tre

Þá var komið að aðaldeginum. Útskriftinni sjálfri. Fífa var nefnilega að ljúka námi í samskiptahönnun (communication design) frá Designskolen Kolding. Sem var aðalástæðan fyrir þessari ferð okkar til Danmerkur í þetta skipti.

Rólegheit fram eftir morgni. Skotist í búð eftir bjór og öðrum lífsnauðsynjum. Ammaogafi höfðu lofað að splæsa sushi í kvöldmat fyrir okkur öll með tölu svo ekki þyrftum við víst að elda.

Upp úr hádeginu röltum við yfir í íbúð til Fífu. Atli var í skólanum en ætlaði að reyna að ná heim fyrir útskrift.

Á leiðinni löbbuðum við í gegn um þessi glænýju gríðarflottu göng. Hægblikkandi ljós og ambient músík við Kolding Å.

göng

Gólfið mjúkt, úr einhvers konar gúmmíi og á væntanlega að þola flóð.

Atli náði heim fyrir athöfn með blómvönd og freyðivínsflösku og svo trömpuðum við öll yfir götuna og fengum okkur sæti í anddyri skólans þar sem athöfnin fór fram.

Mikið vildi ég gefa fyrir að útskriftir hér heima væru svona afslappaðar. Fyrst almennur söngur. Svo ávarp rektors. Sungið aftur. Síðan útskriftin sjálf. Fjórir bekkir að útskrifast, á meðan brautskráningarkandídatar komu sér upp á svið voru nöfnin þeirra lesin upp, svo fengu þau öll blóm, flottan risalauk. Einn almennur söngur til viðbótar. Freyðivín og jarðarber. Tók þrjú kortér!

Þetta yndi, eftir útskrift:

Fífa eftir útskrift 2

og með systkinum sínum:

systkinin

Stöldruðum við í góða stund, Fífa þurfti auðvitað að spjalla heilmikið við bekkjarsystkini sín.

Í rólegheitunum til baka, skálað í meira freyðivíni uppi á þaki á stúdentagarðinum:

skálað á þaki

lagað kaffi í furðulegri græju:

kaffigræja

og svo fórum við í hótelíbúðina. Stelpurnar fóru út og pöntuðu einhver lifandis ósköp af sushi á sushistað rétt hjá hótelinu. Það tæki klukkutíma að afgreiða en það var svo sem ekki eins og við værum að flýta okkur.

Klikkuðum á því að afpanta sojasósu með sushiinu:

sojasósur

sem var slæmt því við ætluðum alls ekki að vera með svona soju, krakkarnir áttu fína sem þau höfðu komið með frá Japan. Sóunin! Atli reyndar sagðist taka hana að sér og koma í einhvers konar notkun.

Sátum fram eftir kvöldi, Fífa og Atli stungu af í útskriftarpartí, mamma og pabbi sátu síðan í góða stund með okkur áður en þau fóru á sitt hótel.

Góður dagur.

 

Kolding så den anden dag

Vöknuðum eftir ágætis svefn í íbúðinni. Viftan var hins vegar algjör lifesaver, án hennar hefði ekki verið líft í svefnherberginu.

Atli var upptekinn fram eftir degi en Fífa kom um hádegisbilið. Við Jón skutumst út í búð eiginlega bara til að kaupa hádegismat handa okkur, ekkert vit var í að fara í einhver innkaup fyrir íbúðarhótelið og þurfa fyrst að drösla því öllu til Fífu og Atla og síðan á hótelið klukkan þrjú, þegar við gætum tékkað okkur inn.

Lítið að frétta þennan dag, Freyja átti flug frá Amsterdam seinnipartinn. Hún þurfti reyndar að fljúga gegn um París til að komast til Kolding, frekar miklir krókar en þetta var ódýrast. Hefði reyndar eiginlega samt verið þess virði að borga aðeins meira og geta flogið beint, hundleiðinlegt að dröslast og skipta um flug og allt saman.

Hringdi í mömmu. Hún og pabbi nefnilega voru líka í Kolding til að vera við útskriftina hennar Fífu. Mamma var alveg hroðalega glöð að heyra í mér því síminn hennar hafði verið að stríða henni og henni ekki tekist að hringja í nokkra manneskju, voru ekki með heimilisfangið hennar Fífu og höfðu meira að segja látið sér detta í hug að rölta um stúdentaíbúðahverfið til að sjá hvort þau fyndu nafnið hennar á dyrabjöllu. Það hefði nú ekki gengið vel, skal ég segja ykkur!

Allavega ákváðum við að hittast um kvöldið á íbúðahótelinu og borða öll saman kvöldmat.

Klukkan þrjú röltum við yfir á Kolding Apartment Hotels við vatnið. Við höfðum verið höndum seinni að panta íbúð sem sneri að vatninu svo við fengum íbúð við götu en það gerði svo sem ekkert til. Ágætlega hugguleg íbúð nema það var pissufýla af sófanum! Foj! Fór niður og kvartaði og það var leyst úr því prontó, fengum nýjan alveg eins nema án fýlu.

Finnur fann sér strax stað fyrir sjálfan sig og tölvuna sína. Uppi í koju og ofan á fataskáp:

Finnur og vélin í koju

Heimsóttum Føtex, Koldingútibú uppáhalds búðakeðjunnar okkar í Danmörku. Keyptum í matinn, nautasteik og aspas og kartöflusalat og rósavín. Blandað salat og tapasblöndu af ólífum og fylltum piprum og álíka handa grænmetisætunni. Og salt. Ekkert slíkt í hótelinu. Pipar fengum við lánaðan hjá Atla, sem henti líka í dressingu á salatið handa okkur.

Öll mætt á svæðið. Mamma og pabbi knúsuðu gengið. Matur ljómandi og einhver ókjör af rósavíni innbyrt. Jóni Lárusi hafði einhvern veginn tekist að missa alveg af því hvað ferskur smjörsteiktur aspas er svakalega góður. Það var sandur í salatbakkanum, ekki mjög spennandi! Held hann hafi bara verið á grænkálinu svo það var hægt að borða hitt.

Þreytt. Sofa. Engin vifta né loftkæling en hægt að hafa opna glugga og það dugði nokkurn veginn. Ágætis rúm.

Kolding lige den første dag

Ekki er það nú oft sem við Jón látum ekki líða nema viku milli utanlandsferða. Parísarferð rétt yfirstaðin og þá var kominn tími á mikið lengur planaða ferð til að vera við útskriftina hennar Fífu okkar úr samskiptahönnun við Kolding Designskole.

Ferðin byrjaði vel. Eða þannig. Freyja hafði ætlað með okkur en ein besta vinkona hennar, hún Khadija hafði unnið íslandsmeistaramót kaffibarþjóna og var einmitt að fara að keppa á alþjóðamótinu í Amsterdam þennan dag þannig að Freyja hafði breytt flugmiðanum sínum til að geta farið að styðja hana.

Við höfðum ætlað að fara bara öll saman á bílnum og við hin að hinkra bara 40 mín aukalega á vellinum þó flugið okkar væri aðeins seinna. Við Jón Lárus og Finnur fengum síðan sms um miðja nótt upp á að fluginu okkar væri frestað, fyrst til ellefu og síðan til tólf. Freyju flug var hins vegar á tíma.

Rútufyrirtækin klippa greinilega á netsölu tveimur til þremur tímum fyrir brottför viðkomandi rútu svo Freyja gat ekki fest sér rútumiða þegar hún vaknaði. Keyrði hana í veg fyrir rútuna, Jón Lárus kom með, í því falli að það þyrfti mögulega að keyra hana út á völl, vildi ekki að ég þyrfti að keyra sársyfjuð út á völl og alein til baka. En til þess kom ekki, nóg var af sætum í rútunni bara ef keypt var á staðnum.

Heim aftur. Steinsofnuðum bæði, þó við værum bæði á því að það yrði ekkert hægt að sofna aftur.

Vaknað um sjöleytið. Finnur fékk sjokk og hélt við værum búin að missa af fluginu!

Það vorum við samt alls ekki. Mæting tíu svo við vorum í góðum tíma. Smurðar flatkökur með osti í nesti eins og við eigum vanda til.

Út um níu, þorðum ekki að vera síðar, meiri umferð en venjulega þegar mæting er fimm fyrir flug sjö. Bensín á Atlantsolíu í Kaplakrika (samkeppnisstöð vegna Costco bensíns) og svo út eftir. Jón lagði meðan við Finnur kláruðum inntékk og skelltum töskunum okkar (matrúshkutöskunum, taska innan í tösku því Fífa ætlaði að senda dót með okkur heim) á baggage drop. Mjög þægilegt og ekki nokkur lifandis bið.

Innritun fín. Ekki Segafredo frekar en síðast. Langaði ekki í smørrebrød á Nord. Þriðji Lagardére staðurinn prófaður, þokkalegustu kjúklingaborgarar og franskar. Synd að segja að umhverfið sé huggulegt samt. Ég væri hreinlega til í BörgerKing eða MakkDé á svæðið. Sveimérþá! Þar veit fólk alveg að hverju það gengur.

En það var skálað í þessu, ástæðan gefin upp síðar. Enn smá leyndó.IMG_0402

Jón tók í fyrsta skipti eftir VíÆPí hliðunum í flugstöðinni, A1 og A2. Hver flýgur eiginlega á þeim hliðum? Olíufurstar í einkaheimsókn?

Go to gate. A14. Allt of snemmt kallað út. Á A gangi er hvergi hægt að setjast niður svo fólk plantaði sér bara strax í röðina. Og stóð þar. Von úr viti. Upp á endann. Loksins var byrjað að hleypa fólki inn í vél. Þó gleymdist að ýta á Boarding takkann, það stóð enn Go to gate á skiltinu lengi eftir að röðin var farin að mjakast inn.

Mikið sem ég myndi ekki sakna þessa. Hitastig 9°C.

IMG_0403

Vélin fór ekki nema 10 mín síðar í loftið en lofað hafði verið í seinkunartilkynningunni. Mesta furða!

Fengum stelpu sem var að ferðast ein og var í röðinni okkar til að færa sig í gluggasæti svo Finnur gæti setið með okkur í röðinni. Besta mál.

Hlustaði á 3. sinfóníu Mahlers á leiðinni út. Var í skemmtaranum, mesta furða. Stutt flug en löng sinfónía. Tíminn er afstæður.

Lent í Bílalundi. Eða var það biðlund? Þurftum allavega að sýna smá biðlund. Töskurnar okkar mættu svikalaust á svæðið (reyndar ekki á bandinu sem var merkt frá Íslandi en sosum ekkert mál þegar þær byrjuðu að dælast upp á þarnæsta bandi og fólk sá) en svo var það bið eftir strætó númer 166 sem stoppar beint fyrir utan flugstöðina og færir okkur ýkjulaust beint fyrir utan dyrnar hjá Fífu og Atla. Við erum að tala um innan við 100 metra frá stoppustöð. Tekur klukkutíma og var bara næs, með útsýni yfir danska akra og engi.

Loks var beygt fyrir horn hjá Kolding Designskole. Þar beið Fífa okkar á stoppustöðinni til að lóðsa okkur heim til sín.

Þessi stendur fyrir utan stúdentagarðana:

IMG_0407

Það tók alveg tvær mínútur eða svo og þar beið Atli með mat handa okkur. Sátum í góða stund í góðu yfirlæti og svo fóru þau tvö í gistingu, höfðu eftirlátið okkur sína íbúð þessa nótt þar sem pantanir okkar á íbúðahóteli og flugi stóðust ekki á (höfðum verið búin að panta hótel fyrir þó nokkru síðan en þegar átti að fara að panta flugið munaði fáránlega miklu að fljúga frá þriðjudegi til þriðjudags en miðvikudagsdittó svo þau redduðu málinu svona. Lokadagurinn í hótelinu var bara afskrifaður. Reyndar, þar sem á að skila þessu hótelherbergi fyrir tíu um morguninn var svo sem bara allt í lagi að eiga aukadaginn þar og vera í rólegheitunum.

Slaka og sofa.

 

 

 

París Dóm ferð, cinquième jour

Kemur ekki leiðinlega heimferðarfærslan í lokin? Það verður jú að binda endahnút á þetta allt saman.

Sofna hálfþrjú og vakna sjö pínu þunn, hvernig hljómar það? illa? Mesta furða samt hvað ég var hress. Er hægt að venja sig á að sofa lítið?

Kannski sveif ég bara enn á euphoriu dagsins áður en ég var allavega eiginlega stálslegin og tilbúin í heimferð. Hefði samt verið ótrúlega gott að eiga einn heilan dag eftir tónleika áður en haldið væri heim. Athuga það næst, það er jú ekkert mál að fresta um dag. Já eða meira. Næsta kórferð er plönuð að ári í kórakeppni í Austurríki. (nei ekki ein af þessum sem allir kórarnir fá annað hvort silfur eða gull og monta sig svo af verðlaunum þegar heim er komið!) Og þegar fólk er komið þangað er jú upplagt að leigja sér bíl og keyra niður til Ítalíu til dæmis. Mmmm, Ítalía! orðið meira en tvö ár síðan hún var heimsótt. Það er of langt.

Það var ansi lítið tekið af myndum þennan dag svo ekki verður færslan skrautleg.

Lokamorgunmatur á hótelinu. Ávaxtaskálin sem ég nefndi fyrsta morguninn hafði ekkert sýnt sig aftur. Heldur ekki þennan morgun. Annars engar fréttir af morgunmatnum nema að þar var skemmtilegt fólk, að vanda. Það er bara skemmtilegt fólk í þessum kór. Einhver höfðu haft vit á því að framlengja ferðina en ekkert þeirra ætlaði nú samt að dvelja áfram á þessu hóteli.

Tékkað út í góðum tíma og við settumst niður í lobbí til að bíða eftir rútunni. Fólk hafði sett farangurinn við dyrnar en þar byrjaði líka halli til að hjólastólar kæmust niður. Ætli hafi ekki verið komnar sirka 8 töskur þarna þegar Páll bassi ætlaði að bæta sinni við og allt klabbið rann af stað. Stefndi í farangursstórslys nema ég náði að rétta út höndina og stöðva þetta í fæðingu. Frekar fyndið.

Rútan mætt. Betra pláss í þessari, það þurfti ekki að hlaða þriðjungi tasknanna inn í bíl.

Heldur fljótari út á völl en þaðan og á hótelið nokkrum dögum fyrr. Fólk búið að tékka sig inn en á þessum velli virtist það ekki skipta nokkru máli, öfugt við á CDG þar sem var sér röð fyrir inntékkað fólk. Ég hef nú samt á tilfinningunni að tékkinn fyrirfram hafi flýtt fyrir röðinni, hún gekk allavega ágætlega hratt fyrir sig.

Reyndi að fá Jón Lárus til að samþykkja að við fengjum okkur að borða fyrir utan hlið, þar voru mikið fleiri veitingahús en hann vildi endilega bara fara í gegn og vera búinn að því. Sem var svo sem líka ágætt, maður er alltaf slakari eftir þær biðraðir og rífuppúrtöskum og ves.

Bakpokinn minn fór í sér tékk, væntanlega hafa öryggisverðirnir hikstað á sleglinum sem ég tók með, svona í því tilfelli að það yrði hægt að redda suspended cymbal fyrir Sálm 150, það nefnilega á helst að vera slíkur í verkinu, ég fékk slagverksstrák til að spila það með okkur í Hallgrímskirkju á upphitunartónleikunum áður en við fórum út en það má alveg flytja verkið án symbals og það tókst semsagt ekki að redda slíkum í París. Fékk töskuna afhenta án athugasemdar þegar liðið í tékkinu var búið að virða fyrir sér slegilinn nægilega vel.

Hefði samt verið gott að borða fyrir utan því veitingahúsið inni var óttalega óspennandi. Fengum okkur einhverjar frekar bragðlausar grillaðar bagettur, rósavínsglas og ég keypti mér sítrónujógúrt sem ég hefði alveg getað sleppt.

Jón Lárus fór síðan og leitaði upp lounge. Það var hins vegar ljómandi. Það er alveg fáránlega gott að komast í þögn frá ysnum (er þetta orð til með ákveðnum greini í þágufalli eiginlega?) á flugvöllum. Og að hlaða símann. Sátum þar í rólegheitum í klukkutíma eða svo í félagsskítamode.

Niður að hliði þegar tími var kominn til. Vélin reyndist ein af þessum glænýju Boeing 737 Max sem Icelandair var að kaupa um daginn.

IMG_0387

Ferðakortið í skemmtaranum var samt bilað svo það var ekki hægt að fylgjast með hvert við vorum komin. Ég ætla ekki að klikka á því næst að taka með Sennheiserana mína en ekki snúruna í þá eins og ég gerði núna! Ekki það ég svaf mestalla leiðina sem betur fer.

Jón keypti sér dólgatvennu:

IMG_0381

en lét samt ekkert flugdólgslega.

Öll vélin þurfti að fara út að framan þó við fengjum ekki rana. Frekar mikið stórfurðulegt því það voru settar tröppur upp við vélina að aftan en það var ekki opnað þeim megin samt. Líka bilað?

Mér finnst að rútur úr vélum sem fá ekki að tengjast við inngöngurana eigi að fá að lenda mikið nær miðju flugstöðvar í stað þess að vera hlaðið inn algerlega úti á enda, við ystu hlið. Það hlýtur að vera hægt að koma því þannig fyrir.

Var skíthrædd um að það yrði eitthvað vesen á vellinum heima, búin að heyra of margar sögur af rugli með farangur, allur farangurinn úr öllum vélunum yrði á öllum böndum og tómt kaos. Það varð samt ekkert þannig. Þegar ég var búin að kaupa eitrið mitt í fríhöfninni (nei ekki tóbak eða áfengi, ég er að tala um lakkrís!) röltum við inn að bandi en allt í einu tók Jón Lárus á rás, hafði séð töskuna okkar vera komna næstum því inn aftur til að fara hringinn á bandinu. Náði henni!

Liðið okkar og já, meira og minna allt gengið knúsað og kysst, sem betur fer var kórinn ekki kominn í sumarfrí (æfing á miðvikudaginn var og sungið við hátíðarmessu á morgun 17. júní). Samt fráhvarfseinkenni!

Ég er kyrfilega kattamegin í tilverunni. Gæti örugglega kallast crazy cat lady nema ég á bara einn kött, ekki marga. Ég verð samt að fá að segja dæmisögu sem ég heyrði einu sinni sem stangast kannski pínulítið á við lífsviðhorfið mitt.

Þegar fólk eignast barn, þá fær það iðulega hvolp. Sem snýst í kring um það. Mammamammamamma, pabbipabbipabbi, best í heimi, aðdáunin óskilyrt og endalaus.

Svo verða börnin að unglingum. Þá breytast þau í ketti. Hrumpf! Jú ég skal samþykkja að eiga hjá þér húsaskjól og fá að éta en ekki halda að þú hafir eitthvað yfir mér að segja! (ókei staðalímyndir, kettir eru sko ekkert svona í alvöru, löngu sannað. Unglingar ekki endilega alltaf heldur. Samt nær því en kettirnir).

Svo þegar þú heyrir setninguna: Æ mamma, sestu, ég skal færa þér kaffið! þá veistu að þú ert búin að fá hvolpinn þinn aftur!

Freyjan mín sótti okkur út á völl. Með bananamúffur sem hún hafði bakað og kalt vatn með ísmolum í, í einangrunarbrúsa, handa okkur. Hún er best ❤

Svo beið fullur kassi af þessu mín heima. Næsta verkefni í hinum kórnum. Life goes on!

IMG_0382

Skref? nah.

París Dóm ferð, quatrième jour

Þá rann upp bjartur og fagur tónleikadagur. Ég held ég hafi ekkert nefnt í þessum færslum að það hafði verið spáð regni meira og minna allan tímann en á meðan við vorum þarna ýttist regnspáin alltaf lengra og lengra á undan okkur, eina rigningin sem kom var þarna kvöldið áður og svo ekkert fyrr en við vorum kyrfilega búin að skrá okkur inn á flugvöllinn á brottfarardegi.

Ekki kvarta ég!

Tókum því rólega, morgunmatur, sturta og afslöppun þar til kæmi að því að gera sig til fyrir tónleika. Undir ellefu röltum við niður í lobbí, hittum þar Eyrúnu og Ástráð og ákváðum að deila með þeim leigubíl niður í Latínuhverfi þar sem kirkjan stendur. Ekkert vit í að þreyta okkur söngvarana, átök dagsins biðu. Leigubíllinn minnti á þá bresku, stór bíll sem hefði tekið allavega 6 manns og fólk sat gegnt hvert öðru aftur í bílnum. Hin þægilegasta ferð, lítil umferð á þessum tíma dags og viku. Út við Panthéon, kirkjan er bara þar við hliðina. Vel þess virði að kíkja inn ef fólk er á ferðinni.

Enn ein veitingahússheimsóknin. Fengum okkur flest salade périgourdine, semsagt salat frá héraðinu Périgord sem er draumahéraðið okkar Jóns að heimsækja síðan við fengum meyrasta og besta kjöt ævinnar, andahjörtu ættuð þaðan í boði Parísardömunnar í ferðinni 2012. Í salatinu voru andafóörn og bringur það sem var kjötkyns. Þetta var afskaplega gott. Ekkert okkar kórgengisins fékk sér vott af áfengi auðvitað, ekki fyrir konsert! Jón gat fengið sér bjór og gerði það líka. Ætti að ráða við að ýta á upptökutakkann á vídjóvélinni, sem var hans hlutverk á tónleikunum. Ég tók loforð af okkur hinum að ná honum eftir tónleika, þá skyldum við sko skála!

Mæting í kirkjuna hálfeitt. Orgelið skartaði sínu fegursta í sólinni.

IMG_0370

Upphitun í rólegheitunum, pallar settir saman – já ég er ekki búin að tala neitt um kórpallana! Þeir voru leigðir af pallaleigu, ekkert ódýrir en miðað við það sem við erum vön voru þeir frekar fornfálegir. Ég á ekki mynd af þeim, spurning um að reyna að finna slíka. Öruggir voru þeir þó en það tók óratíma að setja saman og taka sundur. Þetta þurftum við að gera fyrir og eftir báðar æfingarnar og svo tónleikana. Vildi til að í föruneytinu var Eyþór Árnason sviðsstjóri í Hörpu, fagmaður fram í fingurgóma í svona vinnu og verkstýrði hann hópnum af alkunnri snilld.

Edit. Fékk mynd af pöllum og pallameistara:

Eyþór og pallarnir

Tónleikarnir voru klukkan þrjú. Getum ekki sagt að kirkjan hafi verið stappfull enda allt of gott veður en það voru þó þarna að minnsta kosti ríflega hundrað manns að hlusta. Gekk feikivel. Ég get víst ekki deilt vídeóum til afspilunar hér á síðunni því ég er bara með ókeypis wordpress og þau eru hætt að styðja það nema fólk kaupi sér aðgang en ég get jú vísað í þau og hér koma nokkur:

Ubi caritas, eftir Duruflé

Sálmur 150 eftir sjálfa mig (jájá, það má nú pínu mont)

Englar hæstir, uppáhalds Þorkelssálmurinn minn!

Kári stjórnandi og einsöngvararnir, Sigríður Ósk og Jón Svavar stóðu sig öll með mestu prýði.

Get því miður ekki hlekkjað á Duruflé Requiemkafla þar sem við erum ekki komin með  leyfi frá organistanum til að setja það á netið. Efast ekkert um að leyfið fáist þegar til kemur, því hann var svo glaður með okkur að hann talaði um að koma til Íslands og spila með okkur einhvern tímann!

Kirkjuvörðurinn fúli frá fyrsta deginum fékk svo þvílíka uppreisn æru! Þegar tónleikarnir voru búnir ætlaði hann ekki að verða eldri, hann var svo hrifinn af þessu hjá okkur. Sagði að það væri til upptaka með Duruflé sjálfum að stjórna og frú Duruflé við orgelið og þetta hefði bara verið alveg eins gott hjá okkur og flutningurinn hefði verið ótrúlega franskur. Hann hélt svo áfram að skella stólum illúðlega í gólfið en honum fyrirgafst nú samt hitt og þetta, þrátt fyrir hranalegheitin.

Ég á eftir að lifa leeengi á þessum tónleikum.

kocc81rmynd-4.jpg

Nújæja. Er ekki annars aðalatriðið á tónleikadag að skála? – neidjók, en það skiptir samt heilmiklu máli að taka kúfinn af tónleikaspennunni og slaka á.

Við áttum pantaðan mat tæpum tveimur tímum seinna, veitingahúsin þarna opna ekkert fyrir kvöldmat fyrr en klukkan sjö, við höfðum reyndar getað hnikað opnun til hálfsjö í húsinu sem við höfðum pantað hjá, fyrir svona stóran hóp er það nú hægt. En fram að því var spurning um að skála. Og það gerðum við svikalaust!

IMG_0376

IMG_0375

Ása Briem bættist þarna í fereykið sem var annars orðið frekar samhangandi í ferðinni. Rósakampavín skyldi það vera í boði undirritaðrar. Hópurinn sat annars meira eða minna allur þarna á tveimur samliggjandi krám, og glösum var lyft oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en ekki oftar en góðu hófi gegndi samt.

Þegar klukkan nálgaðist hálfsjö gekk hópurinn sem leið lá að veitingahúsinu Bouillon Racine sem ég veit ekki hvort er kennt við Jean Racine sem Fauré skrifaði um svo ógnarfallegt lag. Staðurinn er ótrúlega fallegur, ef ég þekki rétt þá er þarna art nouveau stíll sem er í raun frekar sjaldgæfur því hann varð ekki langlífur, stríðið breytti stemningu og smekk. Virkilega þess virði að fara þangað og borða.

Ég mæli samt með því að fara ekki í alveg svona stórum hópi! Yfirþjóninum leist ekkert á að leyfa öllum að panta vín af seðli og ákvað að bjóða upp á sérstakt víntilboð, hvíta flösku og rauða flösku per þrjá gesti. Við Jón ákváðum að fara frekar í freyðivínið sem við vorum búin að sjá á seðli. Það var allt í góðu. Tilboðið var hins vegar ekki tilbúnara en svo að þjónarnir byrjuðu á því að koma með súpuna áður en nokkurt vín kom á borð. Löngu áður en nokkurt vín kom á borð. Um var að ræða tvær kaldar súpur sem við höfðum mátt velja milli, gazpacho og svo avocadosúpu með lauk og geitaosti og basilolíu:

IMG_0385

Furðulegur matur. Ekki vondur, alls ekki, en skrítinn. Ég kláraði ekki af mínum diski. Takið annars eftir hnífapörunum. Geggjuð!

Vildi til að það var ekki hætta á að súpan kólnaði þar sem það leið áreiðanlega kortér þar til vín kom á borðið. Útskýringarlaust var á okkar borð strax borin fram ein rauð og ein hvít flaska, sett sitt hvoru megin á borðið (við vorum átta við borðið svo þetta var fyrir sex okkar, sem höfðu pantað tvö tilboð). Hvers vegna ekki komu tvær hvítar hef ég ekki ímyndunarafl til að skilja. Hinn endinn á borðinu byrjaði semsagt á rauðvíni með súpunni, en þegar við spurðum þá höfðu öll sex átt að fá sér úr hvítu flöskunni sem var sett okkar megin. Alveg án þess að það væri neitt útskýrt að önnur hvít kæmi eftir smástund svo þessari ætti að deila.

Hlógum slatta að ruglinu. Við Jón Lárus náttúrlega drukkum okkar fína freyðara truflunarlaust.

Ingunn og Þröstur sátu á móti okkur. Með skemmtilegra fólki!

IMG_0382

og við hornborðið var stuð:

IMG_0380

Úr rættist og aðalréttur var borinn fram. Langflest höfðu pantað sér andalæri. Reyndust gríðarlega ljúffeng og ekki nokkurn hlut furðuleg. Klikkaði á að taka matarklámmynd af öndinni! Rauðvínið, já og freyðivínið smellpassaði með.

Ræður og skálar og Pétur Húni tróð upp með sínar matarvísur, með alveg óþarfri afsökun til okkar Skúla og Jóns Lárusar og Jóns Svavars sem hefðu jú heyrt þær áður. Hann gerir þetta svo fjári vel drengurinn að það gerir ekki spor til að heyra oft!

Í desert hafði ég pantað mér rétt sem heitir fljótandi eyja. Þeyttar eggjahvítur á vanillusúpu. Þessi eyja var ansi hreint ferköntuð:

IMG_0386

en alveg svakalega góð!

Við náðum að syngja nokkur lög, ég hélt við værum farin að pirra fólk í kringum okkur þar sem við vorum ekki ein á staðnum en það var öðru nær, við þurftum að taka aukalag. Kórinn þyrfti annars að kunna fleiri stuðlög fyrir svona tilefni!

Þrælflókið reyndist að borga vínið, maturinn var borgaður í heild og það var einfalt en þjónarnir höfðu ekki nokkra yfirsýn yfir vínpantanirnar. Á seðilinn okkar Jóns var til dæmis sett heil rauðvínsflaska aukalega og ég held alveg örugglega að ég hefði tekið eftir því ef ég hefði drukkið hálfa rauðvínsflösku í viðbót við hálfu freyðivínsflöskuna. Sveimérþá! Eitthvað stóð víst út af í lokin en ég er eiginlega viss um að það var ekki vegna þess að eitthvert okkar hefði reynt að koma sér undan að borga, ég skrifa það alveg bókað á stjórnleysið og vandræðaganginn í vínþjónaliðinu.

Út af veitingahúsinu um tíuleytið eða svo. Við vorum alls ekki hætt að fagna. Sungum eitt eða tvö lög úti á götu fyrir utan meðan fólk tíndist út eins hratt og því gekk að fá að borga fyrir vínið. Ekki sáum við fúllyndi á nokkurri manneskju yfir því, hins vegar stungust hausar út um glugga á mörgum hæðum á mörgum húsum og fylgdist fólk glatt með þessum ofurkáta hópi.

Næsti pöbb, stór staður, gátum öll setið þar úti, þar var sungið meira og meira og troðið upp, Einn makinn í ferðinni, hann Óli-hennar-Mörtu tók opinbert inntökupróf í kórinn og byrjar í haust, Skúli söng lagið sitt um gúmmístígvélin alveg án þess að afsaka sig við okkur sem hefðum heyrt það áður, Ragnar söng Bjórkjallarann og við gauluðum þýðinguna mína á Champs Elysées, lagi Joe Dessin, þýðinguna gerði ég fyrir árshátíð kórsins í vor og hún var hálfgert einkennislag okkar þarna úti. Fólk stoppaði í hrönnum fyrir utan og mikið tekið af vídjóum, ég hugsa að við höfum að minnsta kosti tvöfaldað áheyrendahópinn frá kirkjunni þarna um kvöldið.

Lestin upp á hótel um hálfeittleytið. Og við vorum enn ekki búin að fagna nóg. Við Jón buðum genginu okkar og tveimur til, Kristínu Björgu og Sif, sem höfðu verið samferða í lestinni í herbergispartí og héldum þar vöku fyrir næsta herbergi með kjaftagangi, hlátrasköllum og almennum óspektum til klukkan tvö. Þá vorum við (flest) hrunin en eitthvað af kórliðinu hélt þó lengur út. Mér finnst samt ekkert slæmt úthald hjá okkur gamlingjunum að partíast frá fimm til tvö! Og svona til að róa fólk (les aðallega mömmu) þá, þrátt fyrir allar þessar lýsingar á glasalyftingum og óspektum þá sást í raun ekki vín á nokkurri manneskju, enginn var með læti, leiðindi eða vesen. Bara gaman.

Ræfilgangur í skrefunum þennan daginn. Bara 8076. Klikkuðum á því að fara á stað sem við gætum dansað. Eða nei, það hefði ekkert verið hægt að toppa þennan dag! Hamingjan!

París Dóm ferð, troisième jour

Þriðja daginn skiptist hópurinn niður. Við Jón Lárus vorum búin að lofa að fara með þau sem vildu, að ganga Promenade plantée, plöntugönguleið sem ég lýsi hér. Liggur frá því utan við Périférique og alla leið að Bastillutorginu. Slatti ætlaði með okkur, annar heldur stærri hópur ætlaði með leiðsögukonu gærdagsins í Mýrina og eitthvað af fólki ætlaði bara að eiga rólegan morgun heima. Nú eða fara á markað eða hvað veit ég?

Lögðum í hann upp úr tíu. Tókum metro niður á Nation torgið. Vissum nokkurn veginn hvert við ætluðum að ganga til að grípa leiðina. Síminn hans Jóns var í rugli svo kortið virkaði ekki nógu vel. Við gengum og gengum og vorum alveg steinhætt að skilja í þessu. Vorum komin nánast niður að Signu þegar við fundum eitthvað sem leit út eins og aflagða upphækkaða lestarsporið sem leiðin liggur á. En þá komumst við alls ekki upp. Skildum gersamlega ekki neitt í neinu, við vorum komin mikið lengra en vissum fyrir víst að við hefðum ekki gengið undir neina upphækkun. Skoðuðum kort og klóruðum okkur í hausnum. Fundum átt til að fara í, götu sem átti að liggja alveg meðfram leiðinni. Upp tröppur, þar var ekkert nema aðrar götur.

Vindur þá að sér okkur maður sem sér á okkur vandræðaganginn og spyr hvort við séum að leita að einhverju sérstöku. Jújú, Promenade plantée. Ekki málið, segir gaurinn og bendir okkur að fara áfram eftir þarnæstu götu og beygja fyrir horn og þar væri stígurinn. Við vorum orðin ansi þvæld og nokkur okkar ákváðu bara að fara upp í lest og veiða útimarkað sem þau ætluðu líka að ná þennan dag. Þrjú eftir hjá okkur. Enginn kannaðist við að vera fúll enda var þetta alls ekki búinn að vera leiðinlegur göngutúr. Held ég.

Ákváðum að úr því við værum búin að finna þetta, gætum við tekið okkur pásu og fengið okkur að borða. Rötuðum inn á líbanskt veitingahús, Beyit Jedo, sem ég gæti bara vel ímyndað mér að hafi verið besta veitingahúsið í ferðinni, allavega pottþétt það óvænt-besta.

 

Þrjóski hópurinn! Kristín Björg og systkinin Helga Dögg og Sissi. Sem minnir mig á að ég steingleymdi í færslu gærdagsins að nefna að við Sissi, sem er samtónfræðinörd, eyddum allri leigubílaferðinni upp á hótel um kvöldið í að tala um hvað Duruflé skrifaði stundum undarlegan hryn og hvernig væri hægt að skrifa hann á mikið gegnsærri hátt!

Ég er almennt frekar lítið fyrir hummus en úff hvað það var gott þarna! Lamb, kjúklingur og falafel pottþétt. Og espressoinn! Eina virkilega góða kaffið sem ég smakkaði í París í þessari ferð, sveimérþá!

 

Mæli með þessu!

Nújæja, loksins fórum við að finna stíginn. Þá áttuðum við okkur loksins á hvað hafði farið svona illa með okkur. Stígurinn er alls ekki allur upphækkaður. Við höfðum gengið yfir hann á breiðri brú, hálftíma inn í tveggja tíma göngutúrinn meðan við vorum að leita að honum. Þegar við gengum hann árið 2012 komum við nokkrum gatnamótum austar að honum og þá var hann kominn upp á hæðir. Ég held ég viti hvers vegna við Jón Lárus erum ekki leiðsögufólk…

Nújæja en hvað hann var fallegur þegar hann loksins fannst. Öll gagntekin. Við vitum þetta þá næst!

 

 

Þessar styttur voru magnaðar:

IMG_0361

og ég veit ekki hver kom þarna með stóru hjólsögina!

IMG_0360

Komin að Bastillutorginu ákváðum við að rölta Rue du Fouberge Saint-Antoine eins og fyrra skiptið eftir þessa sömu göngu (sjá færsluna sem ég vísaði í efst). Mig nefnilega var farið að sárvanta nýja tösku, mín var eiginlega komin í hengla. Ekki fann ég sömu búðina og sú græna var keypt í en tókst samt að finna sæmilegustu skjóðu.

Skildu leiðir með okkur og systkinunum eftir tösku- og skóbúðina. Við Jón höfðum ætlað okkur að tékka á allra allra mesta uppáhalds veitingahúsinu okkar, ekki bara í París heldur bara hvar sem er held ég, Po.za.da (lýsi heimsókninni okkar á hann hér). Klukkan var samt orðin ríflega tvö svo okkur fannst ólíklegt að það væri opið. Þegar við vorum í París 2012 var hann bara opinn í hádeginu og á kvöldin. Svo við settumst bara á hornpöbb og fengum okkur sitt hvorn bjórinn. Þarna voru sams konar Pelforthglös og á staðnum fyrsta daginn. Nú spurði ég að því hvort ég mætti kaupa glas en fékk það ekki, þau áttu ekki mörg. Bögg. Ég sagði þjóninum að fjarlægja tómu glösin svo ég freistaðist ekki til að stinga öðru þeirra ofan í tösku.

Allt í einu heyri ég öskur hinu megin við götuna. Lít upp og sé litla stelpu, svona tveggja ára, hlaupa út á götu og í veg fyrir sendiferðabíl. Hjartað sleppti úr nokkrum slögum! Sem betur fer var sendibílstjórinn, ungur maður sem leit út fyrir að vera frá Alsír eða álíka, með viðbrögðin í lagi og náði að snarstoppa og það amaði ekkert að barninu! Stúlkurnar sem voru með litlu stelpuna voru auðvitað í algjöru áfalli en náðu að jafna sig og setja barnið í kerruna. Á meðan þær voru að bjástra við það komu tvær aðrar stelpur að, þær höfðu alls ekki getað séð atvikið almennilega, að minnsta kosti ekki nærri jafn vel og ég. Þær tóku til við að húðskamma vesalings sendibílstjórann. Sem var algerlega út í hött því hann gat nákvæmlega ekkert að því gert að barnið hljóp í veg fyrir hann og eins og ég sagði áður þá brást hann hárrétt og eldsnöggt við. Hann varð auðvitað alveg öskureiður yfir þessum óverðskulduðu skömmum. Æpti eftir stelpunum tveimur og fór svo áfram yfir gatnamótin. Ég náði að grípa augnaráð hans og gaf honum tvo þumla upp og æpti: Trés bien, trés bien! Hann slakaði sjáanlega á, brosti til mín og keyrði burtu, mikið rólegri.

En úff. Þetta hefði getað farið svo miklu miklu verr!

Þá var það bara lestin upp á hótel. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að gera sömu mistök og daginn áður, að vera búin að ganga mig upp að öxlum fyrir æfinguna. Náði að leggja mig og sofna í klukkutíma sem bjargaði málum algerlega.

Önnur kvöldæfing í kirkjunni beið. Við fórum niður og ætluðum ekkert endilega að veiða eitthvað samferðafólk en þá voru Ástráður, Eyrún og Helga Rut nýfarin út og við hlupum eftir þeim og náðum þeim. Lestin niður á Nation og þaðan að Hótel de Ville með línu 1, þá gengið yfir brýrnar, það var ógurlegur troðningur fyrir framan Notre Dame svo við kræktum fyrir torgið. Já það minnir mig á að við sáum ekki Point Zéro í þessari ferð. Fyrsta skipti í okkar Parísarferðum held ég.

Eitthvað þyrftum við að láta ofan í okkur matarkyns. Úr nógu er nú að velja í Latínuhverfinu. Settumst á Le Saint Severin. Pöntuðum okkur crépes, við Jón með geitaosti (chévre). Það fengum við bara alls ekki heldur eitthvað sem hét forestiere, með kjúklingi og sveppum. Nenntum ómögulega að röfla yfir því, hefðum reyndar alls ekki náð því að fá pöntunina leiðrétta. Frekar slöpp þjónusta, fyrir utan að koma með crépes með rammvitlausum fyllingum þá gekk hún bæði seint og illa. Við Jón urðum eftir til að borga, hin fóru af stað á undan okkur, til að við yrðum nú ekki öll sein á æfinguna.

Það hefði svo auðvitað ekki skipt neinu máli því byrjunin á henni tafðist slatta vegna messu sem var í kirkjunni. Svo ég kom ekkert seint.

3A5DBC67-6820-47FE-A31A-9F2FD13FD193

Horft inn í kórinn. Sko kirkjukórinn. Nei sko kórinn í kirkjunni! nei döh 😮

Æfingin gekk fínt fyrir sig. Þreytan talsvert minni, jafnvel þó ég hefði reyndar gengið miklu meira þennan dag en daginn áður munaði að hafa hvílt um miðjan dag. Ég get enn ekki lýst því hvað er gaman að syngja þarna. Tala nú ekki um að enda á sterkum tóni og hlusta á hann hljóma í óratíma! Við bara verðum að koma þarna aftur. Búin að leggja það fyrir í Hljómeyki líka.

Í færslu morgundagsins koma upptökur, þær eru allar komnar inn á minn jútjúbreikning og ég er að byrja að dæla þeim inn á nýstofnaðan reikning Dómkórsins. Rétt búin að setja upp Hljómeykisreikning og þá ætla ég ekki að byrja á því að hafa allt Dómkórsdótið fast inni á mínum eigin. Því ofvirka ég er auðvitað búin að taka að mér óumbeðin að vídeóast fyrir hann líka eins og ég er búin að gera í Hljómeyki í örugglega 15 ár. (nei SÁ ég er ekki að fara þangað!)

Æfing búin. Við Jón vorum ekki sérlega svöng eftir crépurnar svo við ákváðum að fara ekki að borða með genginu heldur bara upp á hótel. Áttum jú rétt örlítið átekna rauðvínsflösku.

Á leiðinni niður á lestarstöð (hinu megin við Signu, það var allt of flókið og margar skiptingar að taka lestina rétt hjá kirkjunni) fór að rigna. Svo fór að hellirigna. En ég hafði stungið regnhlífinni niður í bakpoka til vonar og vara svo það gerði ekki nokkurn hlut til. Það var ekki kalt og eiginlega bara þó nokkuð rómantískt að labba tvö saman um götur Parísar klukkan hálftólf að kvöldi undir einni skærgulri regnhlíf.

Nú er ég búin að vera að monta mig af heiðarleikanum að ræna ekki bjórglösum. Ég viðurkenni það samt hér og nú að ég rændi tveimur litlum ræfilslegum vínglösum sem geta ekki einu sinni eiginlega kallast rauðvínsglös með neinu réttlæti, daginn áður. Það var bara ekki fræðilegur að drekka rauðvínið okkar úr plasttannburstaglösunum sem hótelið útvegaði. Og enginn hótelbar til að labba „óvart“ út með glös og skilja svo bara eftir við brottför (það telst nú ekki glasastuldur, bara lán). Við höfðum dottið inn í hinar og þessar búðir til að sjá hvort við fyndum glös en hvergi fundið nema í Lavinia og þar kostuðu glösin minnst 8 evrur stykkið og við hreinlega tímdum því ekki fyrir þrjú kvöld.

Hótel. Rauðvín og rólegheit. Sofa.

Skrefatalning dagsins var glæsilegt persónulegt met, allavega síðan ég fékk úrið. Reyndar bara örugglega frá upphafi. 27010 skref! 18 og hálfur kílómetri. Hreyfing í 289 mínútur. Vó!

 

París Dóm ferð, deuxième jour

Fyrstu færsluna skrifaði ég að morgni annars dags á hótelinu. Hina dagana var ekki fræðilegur að splæsa tíma í slíkan óþarfa þannig að best að rusla í færslur núna í kulda og trekki heima á Íslandi (brrr!)

Allavega. Vaknaði fáránlega eldsnemma eins og ég er farin að gera allt of mikið af á þessu miðaldraskeiði. Hálfsjö, semsagt hálffimm á minni líkamsklukku. Skrifaði færslu fyrir daginn áður. Tókst að vekja ekki Jón Lárus fyrr en um áttaleytið en þá var stímt niður í morgunmat.  Hann reyndist bæði góður og tja, minna góður. Kaffið var gersamlega ódrekkandi að mínu mati. Te skyldi það vera restina af ferðinni. Eggjasuðugræja var þarna ágæt og vél til að kreista sinn eigin appelsínusafa var massíf snilld. Einn vondur ostur og einn góður ostur og bakki af einhverju sem ég get svarið að var Bónusskinka! Já eða álíka lúxus. Þennan morgun var skál með niðurskornum ferskum ávöxtum í einhverjum vökva, giska á bara safann af vatnsmelónunum og rauða greipinu helst. Það var ljómandi.

Skutumst út til að taka út eitt Franprix og eitt pínulítið Carrefour rétt hjá hótelinu. Ekki um auðugan garð að gresja. Keyptum þó eina rauðvín fyrir kvöldið og snakkpoka. Mér sýndist ég sjá pakka af espressosúkkulaði en það var þá hylkjapakki fyrir nespressoskömmina.

Þetta listaverk var fyrir neðan hótelhúsalengjuna. Víðar en í Breiðholti sem lífgað er upp á annars niðurnídd hverfi með list!

IMG_0325

Aftur inn á hótel. Þennan morgun var planað að fara í fjögurra tíma túristarútuferð um helstu áfangastaði borgarinnar. Þó við hefðum nú eiginlega verið búin að taka út TúristaParís fyrir nokkuð mörgum árum ákváðum við að fara með, málið var jú að vera með hópnum. Félagsskíta skyldi enginn geta kallað okkur! Jón Lárus er annars ansi góður að blandast í hópa og þarf ekkert endilega að hanga utan í mér þegar við erum að partíast eitthvað með mínum hópum. Kostur atarna.

Nújæja, rútuferðin reyndist bara hin ágætasta. Mér fannst gædinn okkar, Laufey nokkur listfræðingur búsett í París, svolítið lengi í gang en það rættist síðan mjög vel úr og svei mér þá ef við komum ekki á tvo til þrjá staði sem við höfðum ekki vitað af og heyrðum hitt og þetta nýtt. Við erum búin að fara í marga snilldartúra með Kristínu Parísardömu en fólk hefur jú alltaf mismunandi áherslur. Sem er gott.

Gamla Óperuhúsið er svolítið mikið fallegra en það nýja! Ég ætla ekki að birta mynd af því nýja. Var búin að skrifa: Gúglið bara Opera Bastille ef þið viljið sjá ljótt hús! en svo gerði ég það sjálf og myndirnar eru allar frá svo flottum sjónarhornum að þið mynduð ekkert skilja hvað ég er að eipa!

IMG_0326

Lokaklukkutíminn eða svo í ferðinni var samt eiginlega orðinn of mikið. Fjögurra tíma inndæling á efni er ekki alveg málið. Hefði verið fínt að vera þrjá tíma úr því það var ekki hægt að skipta ferðinni í tvennt.

Við vorum löngu búin að ákveða að fara í Lavinia, uppáhalds vínbúðina okkar í París (já og víðar reyndar). Ótrúlega flott vínbúð með stórkostlegu úrvali. Eyrún og Ástráður, kunningjar okkar slógust í för með okkur og við löbbuðum uppeftir, skimandi eftir stað til að fá okkur að borða. Fundum fínan stað með allskonar, Café le Plume, ég fékk alveg ansi hreint gott lamb.

Það er svo eiginlega best af öllu að uppfæra kunningja í vini. ❤

IMG_0335 2

Lavinia var á sínum stað eins og við svo sem vissum. Allt til sem var á innkaupaseðlinum. Keyptum ekki svona:

IMG_0336 2

Okkur dauðlangaði svo að fara á rooftop bar. Við Jón vissum af slíkum á annarri hvorri eða báðum byggingum Galeries Lafayette á Avenue Haussmann. Við þangað. Upp alla rúllustigana á níundu hæð eða svo. Þá var lokað öðru megin á þakinu og hinu megin var band fyrir eins og það væri annað hvort fullt eða alveg að loka. Reyndist hvorttveggja en við náðum nú samt að fá að setjast og fá okkur einn drykk með því fororði að það ætti að loka eftir hálftíma. Gerði ekkert til.

Jón Lárus stímdi svo heim á hótel með Laviniagóssið og harðneitaði að koma aftur til að vera á kóræfingunni. Ekkert skil ég í honum!

Við hin höfðum góðan tíma, fórum niður af þakinu upp úr sex og æfingin átti ekki að byrja fyrr en hálfátta. Ákváðum að labba bara alla leið niður í Latínuhverfi frekar en að taka metró. Mistök! Göngutúrinn var reyndar ljómandi fínn, veðrið geggjað en við vorum þegar búin að ganga alveg slatta, París er stór og þetta er góður spotti.

Hoppaði inn í apótek til að leita mér að nýjum gleraugum, mín höfðu farið í sundur. Var sem betur fer með önnur uppi á hóteli. Fann bara gersamlega forljót gleraugu í mínum styrk svo annað hvort þurfti ég að syngja allt utan að um kvöldið eða þá láta gleraugun mín tolla á öðrum arminum á æfingunni. (ok ég kann prógrammið næææstum því utan að en samt ekki alveg).

Lentum í kirkjunni, inn um hliðardyr, hvílík dásemdarbygging!

IMG_0348

Þarna kom auðvitað gallinn við göngutúrinn í ljós. Við áttum jú eftir að standa upp á endann á tveggja og hálfs tíma æfingu! Verður að viðurkennast að það var örlítið erfitt! Æfingin gekk annars að óskum. Unaður að syngja í kirkjunni, hvílíkur hljómur! Mikill en mjúkur og ótrúlega fókuseraður. Organistinn sem var að spila með okkur var gersamlega frábær, vissum það reyndar fyrir. Vincent Warnier, mjög þekktur franskur organisti sem spilar við þessa kirkju. Smellið endilega á nafnið, þá kemur upp vídeó af honum að impróvisera á orgelið í kirkjunni!

Húsvörðurinn var hins vegar fúll og skellti stólum á fætur á fólki og annað í þeim stíl. Eins og við værum alveg rosalega fyrir honum, að þurfa að vera að æfa þarna! (þetta var NB tíminn sem okkur var úthlutaður í kirkjunni, hefðum sjálf gjarnan viljað vera fyrr um daginn).

Við vorum að flytja Requiem eftir Maurice Duruflé. Unaðslegt stykki. Duruflé var organisti í akkúrat þessari kirkju, St-Etienne-du-Mont í fleiri fleiri áratugi og konan hans, Marie-Madeleine Duruflé, née Chevalier  á eftir honum (og reyndar með honum líka, stundum var hann að stjórna en hún að spila). Hún var ekki síðri spilari en hann, jafnvel betri, til er upptaka af verkinu þar sem hann stjórnar en hún spilar og þetta er gersamlega þrælsnúið stykki fyrir orgelið. Alveg svolítið flókið fyrir kórinn en mjög virtúósískt skrifað fyrir orgelið. Yrði ekki hissa þó hann hefði skrifað partinn fyrir hana.

Æfðum Requiemið með organistanum og a cappella prógrammið á eftir, ég veit ekki um þau hin en mínar lappir voru gersamlega að fara með mig! En söngurinn gekk fínt.

Eftir æfinguna voru öll orðin svöng og við stímdum á torg sem nokkur hinna höfðu setið á fyrir æfingu, þar var slatti af stöðum og við hlytum að geta fundið eitthvað. Nema hvað, þau fyrstu fóru inn á einn staðanna og voru spurð: Borð fyrir fjögur? Þau svara í bríaríi, nei frekar svona fjörutíu! Nema hvað, þjónninn bara: Já ekkert mál, komið bara hingað innar!

Þetta reyndist pottþéttasta þjónusta ferðarinnar. Eldsnöggir þjónar á ferð og flugi og klúðruðu hvorki matar- né drykkjarpöntunum, allt kom hratt og vel. Ég pantaði mér borgara. Hann reyndist reyndar vera með KÓRÍANDER!!! urr! en það var reyndar lítið mál að hreinsa hann af, lá allur á sama stað í lokinu og ég sleppti bara að borða lokið. Borgarinn var annars rosalega góður þegar ég var búin að hreinsa grænu skelfinguna í burtu. Það ætti að skylda veitingastaði til að vara fólk við því að þetta sé í matnum!

Sátum þarna lengi vel, ég var farin að hafa áhyggjur af því að Jón Lárus yrði steinsofnaður þegar ég kæmi loksins heim á hótel því við vorum bara með eitt herbergiskort. Hann var síðan til í að hinkra, þegar ég sendi honum sms um að það færi að styttast í mig.

Nenntum ómögulega að taka lestina austurúr svo leigubíll skyldi það vera, skreiddumst á hótelið klukkan ríflega eitt, alveg að leka niður.

Það fauk ekki mikið af rauðvínsflöskunni sem við höfðum ætlað að drekka um kvöldið. Jón hafði reyndar opnað hana en fékk sér bara eitt glas. Tappi í og sofa!

17211 skref. FittBittinn ánægður með mig!

 

 

 

París Dóm ferð premier jour

Jæja enn eitt ferðabloggið. Nú stefndi Dómkórinn elskulegur í tónleikaferð til Parísar.  Freyja skutlaði foreldrunum í þægilega morgunflugið út á völl gegn því að hafa bílinn meðan við værum í burtu. Þar var bara semímikið kaos, hef séð það verra. Allavega vorum við eldsnögg gegn um baggage drop og öryggistékk. Segafredo fékk að vera í friði, urðum fyrir vonbrigðum þar síðast með óupphitað skinkuhorn í pappírspoka og kaffi/heitt súkkulaði í pappamálum í stað almennilegra bolla. Fyrir valinu varð kaffi og risastór laxasmörrebröd á Nord. Dýrt en alveg ágætt og mjög vel útilátið. Ýmsir kórfélagar tylltu sér hjá okkur og fólk flutti sig svolítið milli sæta, strax byrjað að hrista saman hópinn. Besta mál.  Flug gekk vel, lagt af stað kortéri of seint en samt lent á réttum tíma. Captain Kangaroo var ekki við stýrið svo lendingin var fín. Allir flýttu sér út úr vél og inn í flugstöð til að hafa tíma til að bíða eftir töskum hjá færibandinu. Allur farangur skilaði sér. Út fórum við, enda Orlyflugvöllur ekki staður til að hanga á lengur en þörf er á. Frekar en svo sem flestir flugvellir.

Þurftum að bíða góða stund eftir rútunni sem átti að fara með okkur á hótel, Anna Þóra kórformaður var heillengi í símanum að finna út úr því hvað ylli. Hún reyndist standa og bíða eftir okkur á rammvitlausum stað. Sendi skilaboð til Kristínar Parísardömu sem ætlaði með okkur í göngutúr um Pére Lachaise kirkjugarðinn. Loks kom rútan. Ágætis bíll með loftkælingu (eins gott) sem tók okkur öll (líka eins gott) en farangursplássið var fáránlega lítið, fullt af fólki þurfti að taka töskurnar sínar inn í bílinn. Mjög spes að gera ekki ráð fyrir farangri fyrir alla sem rútan tekur!

IMG_0311

Hótelið reyndist á frekar óspennandi stað, hverfið reyndar í vexti en akkúrat þetta horn á því ekki komið í uppsveifluna. Við höfum svo sem verið á betra hóteli, samt hreint og snyrtilegt. Glatað reyndar að það enginn bar á hótelinu, það er eiginlega svolítið mikilvægt í svona ferðum að geta hist á hótelbarnum á kvöldin. En hótelið var á góðu verði svo það varð bara að afsakast.

Gáfum okkur ríflega klukkutíma til að fá okkur eitthvað smá í svanginn. Við nokkur fundum þokkalegasta veitingastað ekki langt frá hóteli. Pizzur (alltílæ) og salöt (góð). Pelforth brune í geggjuðum glösum. Sá eftir því að hafa ekki sníkt/keypt glas. (nei ég ræni ekki glösum!). Kannski spurning um að fara þangað aftur í ferðinni og bæta úr því.

Til baka á hótelið. Það var nánast heiðskírt og vel hlýtt. Þessu hafði ekki verið spáð! Ég hafði þess vegna ekki tekið með mér sólarvörn. Lapsus maggioris. Kristbjörg kórfélagi reddaði málinu svo sólarexemsjúklingurinn slyppi við roða og kláða.

Parísardaman mætti á svæðið og leiddi okkur að Pére Lachaise. Þar fundum við hin og þessi leiði tónlistarfólks, Chopin og Morrison og Rossini og svo var Heyr himnasmiður sunginn í gegn við gröf Poulencs.

Allt í einu vindur sér að okkur vörður. Þá var klukkan alveg að verða sex og kirkjugarðurinn er bara opinn til klukkan sex! Öfugt við eiginlega alla garðana í París sem loka við myrkur. Við vorum semsagt rekin út úr garðinum. Við vorum þegar þarna var komið sögu öll orðin bæði þyrst og þreytt. Kristín hafði ætlað að fara með okkur áfram í lengri göngu um Bellevillehverfið og segja betur frá hinu og þessu en svo var enginn í stuði til þess, fólk langaði bara að setjast og fá sér bjór eða vínglas.

Dreifðum okkur á nokkur veitingahús á sama horninu, svo var meiningin að fara upp í Montmartre, þau sem vildu. Við höfðum margkomið þangað svo við nenntum ómögulega. Sátum eftir ein 6-7 manns.

Við Kristín:

IMG_0319

Hin skildu ekkert í rólegheitunum í okkur, stóðu og biðu þar til einni hugkvæmdist að koma til baka og spyrja hvað tefði. Höfðu semsagt ekkert áttað sig á að við ætluðum ekki með uppeftir.

Þessum var heitt:

IMG_0316

Við sem eftir vorum röltum okkur í rólegheitunum til baka, fundum snilldarveitingahús á tískugötu og sátum þar lengi vel, í lokin partí og hlátursköst vel fram eftir í einu herberginu.

Eins gott að einn af ókostum hótelsins var ekki hljóðeinangrunin milli herbergja…

13818 skref troðin þennan daginn. Ekki slæmt.

Berlín 2.0. Dagur fjögur

Jæja lokadagurinn rann upp, steinhætt að rigna (tja, humm!), prófuðum annað bakarí í morgunmat, betra en það daginn áður en ekki eins fansí uppsetning.

Upp á hótel aftur og pakka niður í rólegheitunum. Karöflunni pakkað í flugþjónstöskuna eins vel og mögulegt væri og svo allir puttar í kross að hún kæmist heil heim. Ætti að ganga þar sem hún var jú í handfarangri. Hefði aldrei þorað að setja hana í inntékkað! Báðum jökkunum okkar var pakkað utan um. Það var jú sól og hlýtt. Einum bjór hafði okkur ekki tekist að slátra. Kældum í vaskinum. Þýddi lítið.

Lögðumst í bóklestur þar til upp úr ellefu. Tékkinn á netinu fyrir flugið um kvöldið. Fimm evru seðill og koparlita klinkið skilið eftir í tips (ég þoli ekki tips!) Tékkað út. Við vorum búin að borga hótelið fyrirfram þannig að það var ekkert nema skila lyklakortunum. Ætluðum að kaupa okkur kattaraugabol eins og starfsfólkið var í en þeir voru allir uppseldir í öllu nema small. Hvorugt okkar getur notað small. Synd!

bolur.jpg

Jón Lárus var sko búinn að kaupa sér túristabol með Ampelmann, grænum að framan og rauðum á bakinu! En ekki ég og mig langaði í þennan! En small? neeei! Hefðum mögulega getað keypt handa Finni, hann er nógu grannur þó hávaxinn sé. Freyja hefði líka getað notað small.

Fengum að geyma töskuna á hótelinu þar til tími væri kominn til að fara út á völl, um kvöldið. Vorum búin að finna út hvernig væri best að komast úteftir án þess að eiga á hættu að þurfa að bíða klukkutíma eftir lestinni.

Ekki var mikið planað þennan dag, þó ætluðum við að skoða síðasta langa uppistandandi bútinn af Berlínarmúrnum og jafnvel trampa á búnkernum hans Hilla gamla. Röltum niður að Checkpoint og þaðan vestur á bóginn. Sáum Trabantsafnið en nenntum ekki inn. Trabantgarðurinn var líka þarna, einhvers konar skemmtigarður og hægt að fá að keyra í Trabanthalarófu fyrir nokkurt fé. Vorum svo sem ekkert þannig spennt fyrir að taka bíltúr um Berlín. Tókum bara mynd af frekar meðteknu skilti við garðinn og Trabantlimósínu.

trabant limó.JPG

Þessi belgur var aftur kominn á loft, hann blasti við rétt hjá hótelherberginu okkar niðri við jörð í rigningunni og rokinu daginn áður:

veröld á flugi

Hef séð hann áður en aldrei svona í návígi.

Veggbúturinn var markverður. Heilmikil saga sögð þar í máli og myndum. Renndum yfir það meira og minna en tókum engar myndir. Við upphaf og endi göngustígsins var varað við liði eins og við létum gabba okkur í Parísarferðinni. Sáum ekki svoleiðis pakk þarna samt enda hefði það tæpast þýtt þegar var búið að vara svona kyrfilega við þeim!

Þennan stóra Ampelmann sáum við í kyrfilega afgirtum garði á leið frá Veggnum til Búnkersins. Garðurinn leit út fyrir að vera Evrópusambandseitthvað (húsið við hann allavega) en við gátum ómögulega séð hvers vegna hann var svona vel afgirtur! Hefði alveg verið til í að pósa með þessum stóra græna Ampli:

Ampelmann irl

Búnker foringjans var ekkert. Enda hafði hann verið sprengdur í tætlur og yfir honum var bara bílastæði með viðvörun um að þetta væri einkalóð og fólk færi þar inn á eigin áhættu. Jón Lárus skaust nú samt rétt innfyrir. Jú þarna voru reyndar skilti með kortum og slíku. Mikið skil ég annars vel að þetta sé ekki vel auglýst túristaattraksjón í Berlín, gæti ímyndað mér að þarna kæmu nýnasistar í hrönnum í pílagrímaferðir! Good riddance!

Eftir þennan þokkalega göngutúr var stímt á tja, ekki kannski endilega besta en pottþétt fínasta út-að-borða ferðarinnar. Borchardt, staður sem var aðal pleisið í Berlín fyrir einhverjum árum, einn af um það bil fimm veitingahúsum sem poppar fyrst upp þegar fólk stækkar Google Maps kortið, þekkt fyrir besta snitsel í Berlín. Jón Lárus er mikill snitselgaur. Hann kaupir sér nánast aldrei mat í mötuneytinu í vinnunni en þegar er snitsel þá er hans dagur! Þannig að það var skylda að fara á þekktasta snitselstað í Berlín og snappa því til vinnufélaganna! Þannig er það bara!

snitsel.jpg

Hver kann annars trikkið við að húðin á snitselinu verði svona laus frá kjötinu? Ekki ég!

Ég fékk mér nautasteik með bearnaise og kartöfluskífum. Þegar ég pantaði spurðu þjónninn: Medium? ég: Uuuhhh! no! medium rare! Þvuh! lít ég út fyrir að vilja medium steikingu?

Mjööög gott. Nautið var lungamjúkt. Ekki sous vide eldað (sinarnar voru enn á sínum stað) en þegar skorið var fram hjá þeim var kjötið það mjúkt að sous vide hefði ekkert gert fyrir það. Sósan perfekt (ekkert BETRI en heimagerð hjá okkur eða Hallveigu systur! en samt perfect. Not so humble brag!) Skífurnar hins vegar væri ég til í að vita hvernig þau gerðu! Væntanlega tvídjúpsteiktar, ég nenni því aldrei. Sjáið hvað þær eru bognar! skemmtilegt.

steik og bernes.JPG

Búin að borða, hvert langar okkur? Aftur á Linditrjáagötu og nú í hina áttina, að Brandenborgarhliðinu. Inn í Tierpark. Settumst þar á bekk og hlustuðum í góða stund á sellista með rafmagnsselló og looper pedal. Tónlistarkonunni þótti alveg hroðalega fyndið þegar sellistinn setti lúppu í gang og byrjaði að spila Ave María Bach/Gounod. Það virkar EKKI sem lúppa!

Sláturtíð á þennan eina bjór sem hafði orðið eftir og auðvitað var kælingin síðan um morguninn farin veg allrar veraldar. Rann nú ljúflega niður samt.

Leit upp og sagði: Hmm. Það gæti farið að rigna. Eitthvað svo rigningarlegt!

Tierpark

Í Tierpark komu sníkjudýrin með heyrnleysingjaskiltin. Við fussuðum og snerum okkur frá þeim. Skemmtilegra var að sjá kanínur og krakka að leik.

Röltum fram hjá Philharmonie svo við hefðum nú komið þangað í ferðinni. Ekkert um að vera í húsinu og allt harðlæst eins og við svo sem vissum. Hvers vegna ætli húsið sé ekki opið allt árið um kring og tónleikar eða sýningar í gangi, líkt og í Hörpu þrátt fyrir að fílharmónían sjálf sé í sumarfríi?

Við hefðum nefnilega vel getað þegið að fara inn í hús akkúrat þarna. Því auðvitað fór að rigna. Ekki bara dropar heldur næg úrkoma til að við náðum að verða þokkalega blaut í gegn! Og regnhlífin? Ofan í tösku. Uppi á hóteli!

Hálfhlupum út í Sony Center, tæpan hálfan kílómetra frá Philharmonie þegar við sáum að það þýddi lítið að bíða af okkur skúrina undir skýlinu hjá innganginum. Settumst þar úti (Sony Center er yfirbyggt) og pöntuðum okkur sitthvorn drykkinn, enn ekki orðin svöng eftir matinn. Mér var hins vegar hundkalt og engin teppi á stólunum þarna þannig að við fengum að færa okkur inn, á veitingahúsinu.

Teygðum eins og við gátum úr glösunum okkar (sé fyrir mér alveg rosalega langt og mjótt rósavínsglas), tókst að hanga þarna í góða klukkustund yfir drykkjunum. Jón kláraði bjórinn sinn, þjónninn til okkar til að bjóða honum meira, neitakk, já viljið þið þá fá reikninginn? ég var ekkert búin sko! Það var ekki nándar nærri fullt þannig að ekki vorum við að taka upp pláss en út skyldum við um leið og við kláruðum úr því við ætluðum ekki að kaupa meira. Ekki að það gerði svo sem til, ég kláraði mitt bara í rólegheitunum og það var ekkert rekið meira eftir okkur.

Steinhætt að rigna þegar við komum út og allt að þorna. Við líka.

Vorum orðin alveg hugmynda- og nennusnauð þannig að við ákváðum að rölta bara í rólegheitunum inn á hótel, sækja töskuna og finna okkur lestina út á völl. U bahn 6 frá Stadtmittestöð rétt hjá hótelinu yfir á Tempelhof stöðina, þaðan með S bahn til Schönefeld. Tók taaaalsvert styttri tíma en regional lestin sem við tókum frá vellinum í bæinn á mánudeginum.

Svo stuttan tíma reyndar að þegar við ætluðum að fara inn á flugvöllinn fengum við neitun á boarding passanum. Neibb þið getið ekki komist inn á völlinn fyrr en þremur tímum fyrir brottför! Úpps! ríflega hálftími í það!

Þarna var nákvæmlega ekkert við að vera. Spáðum í sveitingahús (svona sveitastílsveitingahús) en þar voru bara til borgarar og pylsur. Okkur langaði ekkert í pylsur og við höfðum borgarana sterklega grunaða að vera úr kjötfarsi!

Rákum síðan augun í mexíkóskan street food vagn. Sitt hver quesadillan, sárfegin að græna salsan með var ekki með kóríander! vondur bjór (Jón sá eftir góða bjórnum sem var slátrað í Tierpark) og ljómandi límonaði handa mér sem hafði lofað að keyra heim frá FLE og engir fleiri drykkir.

Loksins komumst við inn í flugstöðina. Beint í lounge sem ég hafði séð og notað síðast. Ágætis lounge, matur reyndar mjög lítið spennandi en nægir drykkir, heitir og kaldir, áfengir og óáfengir, hægt að hlaða síma, ljómandi rólegt og útsýni yfir völlinn. Það virtist vera hægt að komast út á svalir, sáum ekki hvernig það væri hægt frá lounge og það var alveg pottþétt ekki auðséð frá almenningsrýminu því við sáum bara fátt fólk þar, greinilega samt farþega, með börn og handfarangur með sér. Kannski eitthvað spes lið með sambönd en þó fullmargir til að það væri trúanlegt. Sex til átta sett af fólki úti á svölum. Dýragarður inni í almenningi í flugstöðinni!

Vissum ekki hvað við þyrftum að labba langt út að hliði þannig að við ákváðum að fara strax af stað þegar komið væri Go to gate. Reyndist massíf mistök! Hefðum átt að sitja vel lengur.

Tók í hæsta lagi 10 mínútur að labba að hliðinu. Engin sæti laus. Dettur inn boarding. Allir í röð. Lítt skýrmælt tilkynning í hátalarakerfi. Seinkun. Ótímabundið. Fleh. Slepptum ekki staðnum okkar í röðinni. Stóðum þar í kortér. Það er þreytandi að standa upp á annan endann í kortér. Úr röðinni eins og reyndar flestir aðrir. Enn engin laus sæti. Einhver rak augun í það að það væri brjálað þrumuveður og eldingar og læti fyrir utan. Ah! þar kom ástæðan. Það mátti ekki afferma vélina sem var löngu komin. Í lounge hefðum við verið í stúkusæti til að sjá eldingarnar! Aftur í röðina. Loksins vélin tæmd og við inn.

Klukkutíma seinkun, þó ekki meiri. Kláraði bókina mína á leiðinni heim. Keyrt í sólarupprás móti höfuðstaðnum. Fallegt! Lentum á Njálsgötunni og drusluðum inn töskum nánast á sama tíma sólarhrings og við höfðum lagt af stað fjórum dögum fyrr.

Heim.

Rúm.

Himnaríki!

Til Berlínar verður farið aftur!

Heil 18187 skref. Mikið held ég græjan hafi orðið svekkt með mig þegar ég kom heim. Eeeen þú sem byrjaðir svo veeel! 😦


bland í poka

teljari

  • 375.120 heimsóknir

dagatal

október 2022
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa