Archive Page 2

Salzburg/Zell am See, Tag sieben

Þá var bara að kveðja kórgengið, flest hrúguðust inn í rútu til München en nokkur voru á leið sitt í hverja áttina. Þar á meðal við.

Sat niðri í morgunmat og spjallaði við fólkið þar til tími var kominn að veifa heimförum bless og óska góðrar ferðar.

Þá bara sturta, hrúga farangri niður í töskurnar, tékka okkur út af hótelinu, taka bíl út á Salzburgerflugvöll þar sem við höfðum pantað bílaleigubíl. Gekk allt að óskum, slyngur sölumaður á bílaleigunni freistaði okkar með uppfærslu á bíl og tryggingum og þannig löguðu og við féllum fyrir því öllu með glans. Geggjaður Audi a6 skutbíll ekki alveg eins glænýr og Volvóinn sem við höfðum verið á tveim árum fyrr í DK en samt ekki keyrður nema um 7000 km.

Lagt íann:

 

ferðafélagarnir og kagginn. Ekki sem verst. Hreint ekki sem verst!

Eitt pit stop og þá komum við til Zell am See. Byrjuðum á skrifstofunni til að fá lykla að Chalet over the Lake, villunni sem við höfðum leigt. Já eða skíðakofanum, eða einhvers staðar þar á milli.

Hentum af okkur dóti upp í hús og skutumst niður í miðbæ Zell til að fá okkur að borða. Pizzustaður einn ágætur og þessi kom í heimsókn á borðið:

d 7 fugl

Líka farið í búð til að kaupa nöktustu nauðsynjavörur, hvítt, rautt, freyði og já einhvern smá morgunmat!

Aftur upp í hús. Það reyndist ljómandi. Tandurhreint og fínt og allt inni var alveg eins og á myndunum. Útiborðið og bekkirnir voru hins vegar orðin svolítið meðtekin.

Þar fundu gaurarnir verkefni ferðarinnar:

 

Sést kannski ekki en það er semsagt verið að hreinsa borðið með skel af pistasíu! Það var mjög mikill munur á borðinu eftir vikuna…

En útsýnið! Útsýnið maður minn og man!

d 7 útsýni

Er leið að kvöldi fórum við síðan í einn fjölmargra göngutúra niður í miðbæ Zell. Þetta skiptið á stíg upp í fjallshlíð.

d 7 Jón á stígnum

Útsýnið ekki af lakara taginu af stígnum heldur:

d 7 útsýni af stíg

flottur klettaveggur:

d 7 klettaveggur

og þessi litli félagi elti okkur smáspöl:

d 7 kisi

Vikan lofaði heldur betur góðu!

Salzburg, sechster und letzter Tag

Jæja. Þá fór að líða að lokum frækinnar ferðar Dómkórsins til Saltborgar. Einn heill dagur var þó eftir. Heilmikil dagskrá.

Fyrst ber að telja mætingu í messu í Dómkirkjunni í Salzburg. Við ættum að vera vön dómkirkjum. Þessi var þó talsvert ólík okkar fögru litlu kirkju í miðborg Reykjavíkur, risastór og gríðarlega mikill hljómburður. Væri reyndar alveg til í þennan hljómburð hjá okkur!

Í kirkjunni eru að mér taldist heil sex orgel! Tja reyndar held ég nú að sum þeirra séu samtengd og hægt sé að spila á þau frá einum hljómborðshub. Líka eins gott.

Tók eina panoramíska frá sjónarhorni kórsins:

d 6 panorama

Þarna vorum við semsagt að safna okkur saman, 300 manns plús, til að flytja Krýningarmessu Mozarts í kaþólskri messu í Dómkirkjunni. Með hljómsveit og sólistum og stjórnandanum síðan í gær. Þurftum ekki að vera í kórfötum, hamingjunni sé lof!

Mér tókst að koma mér fyrir upp við súlu svo ég gat hallað mér upp að henni. Sem var ágætt. Þetta var semsagt ekki bara hin ca. 17 mínútna Krýningarmessa heldur voru messuhlutarnir fluttir eins og þeir áttu að koma fyrir inni í kaþólsku messunni. Og ekkert var slegið af henni. Svör og sálmar og prédikun og altarisganga (troðfull risastór kirkja og 95% fóru til altaris!) og reykelsi. Ó svo mikið af reykelsi!

mér finnst það eigi að nútímavæða þetta og koma með reykvélar í staðinn eins og eru í leikhúsum. Ekki eins vond lykt og fólk þyrfti ekki að hósta svona mikið!

En Mozart stóð fyrir sínu og klukkutíma og tuttugu mínútum síðar komumst við út úr kirkjunni. Ætlaði ekki að finna Jón Lárus í mannþrönginni en rötuðum saman um síðir.

Rúv hringdi og ég fékk smá pláss fyrir pistil í hádegisfréttum. Besta mál.

Hádegismatur og rólegheitarölt í smá stund og svo mæting hálffjögur fyrir örstutta tónleika í sömu Dómkirkju. Höfðum fengið leyfi fyrir 20 mínútna tónleikum, svona til að rúnna af ferðina. Þarna safnar kórinn sér saman fyrir tónleikana.

d 6 fyrir tónleika

Fluttum þarna ein 6 lög af prógramminu okkar. Engar upptökur held ég en það var unaðslegt að syngja músíkina þarna inni. Enduðum á Himnasmið í hálfgerðu óleyfi því 20 mínúturnar okkar voru búnar.

Þar með var formlegri söngdagskrá ferðarinnar lokið.

Kvöldið yrði klárað öll saman. Fyrst fordrykkur uppi í hlíð með útsýni:

d 6 útsýni

Eyrún hélt smá tölu og afhenti okkur nokkrum í undirbúningnum smá þakklætisvott, Kári hélt líka þakkarræðu og svo var bara skálað og skálað aftur og skálað enn. Ekki veitti af!

 

Svo var lokakvöldverðurinn, haldinn á Sternbräu, veitingahúsi sem Sólrún hafði unnið á þegar hún dvaldi í Salzburg, örfáum árum fyrr! Þríréttað, ljómandi og gaman!

Borðfélagar:

ég veit ekki hvað presturinn var að segja þarna en það hefur verið alveg mökk fyndið!

d 6 presturinn með þetta

Ekki vorum við ein í salnum. Við hliðina á okkur sat nefnilega einn kóranna, háskólakórinn frá Singapúr. Við ákváðum að blanda við þau geði og syngja hvort fyrir annað og syngja saman allt sem við mögulega gætum kunnað. Enduðum meira að segja á að dreifa nótum að Himnasmið og þau lásu af blaði. Ótrúlega skemmtilegt og yndislegt og er það ekki akkúrat þetta sem svona mót ganga út á? Að blanda geði og röddum við fólk frá öllum heiminum! Never mind verðlaun og viðurkenningar.

Eitthvað var fólk síðan frameftir á hótelbarnum að spila og syngja. Ekki ég. Ég veit ekki hvenær ég var síðast svona mikill félagsskítur að þessu leyti eins og í þessari ferð. Gæti haft með það að gera að ég svaf ekki nógu vel, náði um fjögurra og hálfs tíma svefni á nóttu að meðaltali alla ferðina. Veit ekkert hvers vegna, rúmin voru fín, ég vaknaði bara alltaf milli fjögur og fimm.

Steinsofnaði allavega um leið og höfuðið datt á koddann. Hvílík kórferð! Og ekki var nú samt allt úti því daginn eftir skyldi haldið í frí.

Salzburg, fünfter Tag

Seinni keppnisdagur. Öll þurftu að vakna íðilhress eftir þunga daginn á undan. Veit ekki betur en það hafi bara tekist ágætlega sko.

Allavega mættum við glaðlegu fólki í morgunmatnum og tókum svo velflest bíla niður í Mozarteum til að mæta þar klukkan 9:30. Aftur var rekistefna um hvar við gætum verið en nú fengum við að fara upp á loft í mjög flottan sal til að hita upp. Helga Rut og Jón Svavar tóku upphitun með glans.

 

 

Flokkur fyrir trúarlega tónlist beið.

Þar sungum við:

Ave verum corpus eftir William Byrd

Bogoroditse dévo eftir Sergei Rakhmaninov

Ave maris stella eftir Trond Kverno

Sálm 150 eftir undirritaða

Tókst verulega vel, fannst mér!

Keppni búin. Að við héldum, en reyndar vonuðum ekki. Jón Lárus sat og hlustaði á næsta kór, Raffles Singers og sagði þegar hann kom út að þau væru nú ansi hreint öflug samkeppni svo við reiknuðum ekki með að vinna flokkinn (né hinn flokkinn, þau kepptu líka þar). En mætti vonast til að komast samt í lokakeppnina. Vorum samt langt frá því viss um það, miðað við gæði kóranna í keppninni.

Eftir riðilinn fengum við að komast aftur í svarta salinn til að renna yfir úrslitalögin. Svona just in case. Tókum klukkutíma þar í bráðnhita.

Það átti síðan að vera æfing fyrir Krýningarmessu Mozarts (sem flestallir kórarnir tækju þátt í flutningi á daginn eftir) klukkan þrjú. Ég hafði ekki reiknað með að fara aftur upp á hótel, var bara með mér auka föt fyrir þá æfingu og rölt en hinn helmingurinn af síamsfjórburunum vildi fara á hótelið og skipta um föt. Svo við Jón Lárus fórum bara að fá okkur að borða, enduðum á franska staðnum aftur. Cassoulet í þetta skiptið.

d 5 cassoulet

Verulega gott!

Í miðri máltíð kom sms frá Kára: VIÐ ERUM KOMIN Í ÚRSLIT!!! (og þetta á síðuna strax á eftir):

Screenshot 2019-07-06 23.00.31

ég hoppaði upp úr stólnum og hnefann upp í loft. Jesssssss!!!

Hafði alveg reiknað með að fá gullviðurkenningar, jafnvel í báðum flokkum, það er svona semístandard í þessum keppnum, gull fyrir góða frammistöðu, silfur fyrir sæmilega og brons fyrir ömurlega. Í Riva fengu allir kórarnir gull eða silfur nema einn fékk brons. Hann var skelfilegur! Það er alltaf svolítið fyndið þegar kórar koma svo heim og monta sig af gulli og silfri. Við í Hljómeyki náðum einu sinni silfri í einum riðli í kórakeppninni í Tours í Frakklandi. Hún er metnaðarfyllri en flestar þessar keppnir og það var reyndar enginn kór sem vann gull í þeim riðli heldur deildum við öðru sætinu með einum öðrum kór svo við vorum í raun í silfursæti og fengum peningaverðlaun. Svo komum við heim og sögðum frá þessu en ég fékk spurningu hvort „þetta hefði nú nokkuð verið neitt alvöru silfur“. Sem það var, en fólk sem þekkir til keppnanna hélt bara að við værum að monta okkur af afskaplega litlu tilefni eins og flest.

Allavega. Að komast í úrslitakeppnina var alvöru! Kári hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að taka útvarpsviðtal um þennan árangur. Jújú til í það! Við Jón Lárus plöntuðum okkur í rólegt horn á Wein und Co vínbarnum að bíða eftir símtali. Gengið mitt kíkti þar við og fór síðan aftur þegar æfingin fyrir Krýningarmessuna nálgaðist. Ekkert kom símtalið. Biðum í tvo tíma, ég missti af æfingunni en það gerði svo sem ekkert til. Verra að geta ekki fengið sér vínglas á þessum fína bar, úrslitin voru jú um kvöldið svo vín var ekki í boði. Ég veit ekki alveg hvað ég pantaði mér mörg vatnsglös samt.

d 5 ég

Þarna sat ég og beið!

Gafst upp um hálffimmleytið og við röltum inn í Mozarteum. Þar var æfingin við það að klárast og misdisgruntled kórfólk kom út, þau höfðu ekki verið sérlega sátt við stjórnandann sem stóð þarna og gerði lítið úr söngvurunum, sagði að það væri eins og hann væri kominn í leikskóla, hermdi eftir söngstílnum í háðstóni og hvað veit ég?

Þarna hófst hins vegar hin vandræðalegasta sena í sambandi við lokakeppnina. Við vorum beðin um að mæta klukkan 17:00 til að æfa og fengjum að komast að á sviði 17:40. Leist ekkert á þetta! Við vorum búin að æfa þetta í drep, meira að segja fyrr um daginn líka og svo voru nær öll búin að syngja úr sér allt vit á Krýningarmessuæfingu. (Nema reyndar áðurnefnd Raffles Singers, sem höfðu ekki skráð sig í Krýningarmessuna).

Fólk þurfti að nærast bæði vökva og allskonar svo hópurinn dreifðist út um allt, á næstu kaffihús, upp á hótel, þá kom upp að við kæmumst inn í sal strax, út voru send skilaboð á fólk að koma strax, það þýddi auðvitað ekki nokkurn hlut. Fullt af liði (meðal annars við Jón) hékk bara í anddyrinu á Mozarteum þennan tíma. Sungum svo úrslitalögin tvö auðvitað klukkan 17:40 eins og alltaf hafði staðið til! En náðum samt einbeitingunni nokkuð vel á strik aftur sem betur fer. Á meðan á þessu stóð var Kári að ræða við dómnefndina í keppninni, það er standard að það sé fundur stjórnenda og dómnefnda.

Lokakeppni-slash-tónleikar klukkan sjö. Sjö kórar í úrslitum, við sungum næstsíðust. Vel heitt í sal.

Mjög flottir kórar! Alls konar kórar. Ungmennakór, suðurafrískur kór með etníska músík, norskur kvennakór með konum á öllum aldri, háskólakór frá Singapúr, glee club kór frá Filippseyjum, við og svo Raffles Singers (sem er líka frá Singapúr).

Hver kór söng tvö lög. Við sungum:

O magnum mysterium eftir Morten Lauridsen

Eg vil lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur

O magnum fannst mér alls ekki ganga nógu vel! Byrjunartónninn ekki pottþéttur (erfið byrjun reyndar en við eigum að geta betur) og annar staður sem var ekki nógu góður. Súrt. Svo reyndar þegar ég hlusta á upptökuna þá er hún bara hreint ljómandi, þrátt fyrir þessa tvo smástaði. Tær og tandurhrein.

Burtséð frá því að það skipti svo á endanum ekki nokkru lifandis máli því við vorum alls ekki dæmd eftir þessum úrslitalögum heldur eingöngu lögunum í flokkunum. Hefðum átt að vera aaaaðeins stressaðri!

Þegar allir kórarnir sjö höfðu lokið söng sínum var heillöng, já sko mökk löng, athöfn með verðlaunaafhendingu og kynningu á dómnefnd, framkvæmdaaðilum og kórum og kórstjórum, allir kórstjórar keppninnar (ekki bara þeirra sjö kóra sem voru í úrslitum) komu á svið og öll fengu viðurkenningarskjöl og verðlaun og alltsaman. Auðvitað mikið klappað fyrir hverjum. Héldum að þetta ætlaði aldrei að verða búið!

En, út úr þessu kom, gullviðurkenning í flokki III fyrir fyrri keppnisdag, A1, gullviðurkenning í flokki V fyrir seinni keppnisdag, eingöngu Raffles Singers náðu betri árangri en við og þau eru alveg frábær, engin skömm að vinna þau ekki. Við massasátt!

d 5 verðlaun

Þarna sést Kári ásamt einum dómaranna, honum Fassbender sem hélt mikið upp á okkur.

 

 


Stjórnandi Krýningarmessunnar var einn dómaranna líka og hann var alveg voðalega ánægður með okkur. Fyrirgafst misheppnaða fyndnin á æfingunni nokk vel.

Dómararnir voru líka sérstaklega ánægðir með verk Jakobs Gruchmann, enda væntanlega orðnir ansi hreint þreyttir að hlusta á Ave verum corpus eftir Mozart og Locus iste eftir Bruckner!

Þegar við loksins komumst út stefndi fereykið á austurlenskan (nei ekki austurrískan þaddna!) veitingastað sem Jón Lárus hafði spottað fyrir okkur. Við vorum skíthrædd um að hafa misst af matnum en það var þó ekki búið að loka eldhúsinu þegar við skreiddumst þangað inn klukkan hálftíu.

d 5 önd

Önd á grænmetisbeði fyrir mig. Og hvítvín. Og fullt fullt af vatni!

Hótel. Hótelbar. Stutt samt. Dauð úr þreytu! Sofa!

Salzburg vierter Tag

Vaknað snemma, þéttur dagur framundan. Náðum að skjótast í verslunarmiðstöðina eftir morgunmat, þetta leyndist í matvörubúðinni:

d 4 einstök

Komum líka við í skóbúð og keyptum okkur bæði skó, Jón Lárus strigaskó og ég féll fyrir sandölum. Sem ég tók meðvitaða áhættu að fara í, í bæinn. Reyndist mistök.

Svona var veðrið þegar við lögðum í hann. Kristín Björg, Hildur og Þorleifur kórfélagar í góðum gír niðri í bæ.

d 4 sól

Við áttum 20 mínútna æfingu í Mozarteum konsertsalnum klukkan 12:20 – 12:40 fyrir báða flokka, mæting hálftólf á svæðið til að vera viss um að við yrðum tilbúin að ganga á svið 50 mínútum seinna. Það gekk. Mesta furða. Að halda saman svona stórum hópi er óttaleg kattasmölun.

Æfingin gekk fínt. Eiginlega fullvel fyrir ýmissa smekk en ég var samt ekki stressuð, við bara kunnum efnið mökk vel og ættum ekki að þurfa að jinxa neitt þó það gengi vel á generalprufu.

Það var alveg mínútutalning á æfingunni. Við byrjuðum á að æfa fyrir Sacred flokkinn sem keppt yrði í daginn eftir. Þar var mitt verk síðast á dagskrá svo ég þurfti að rogast með stóran symbal á fæti til að spila í lokin, söng bæði og spilaði með. Mjög skemmtilegt að ná að hafa symbalinn, það má alveg syngja Sálm 150 án hans en það er óneitanlega meiri flugeldar að hafa hann með.

Eftir æfingu var stímt aftur upp á hótel til að skipta um föt fyrir vináttutónleika í Andräkirche klukkan fjögur, mæting hálf. Ég tók lyftuna upp á herbergi, í fyrsta skipti í ferðinni (ég hleyp alltaf stiga, aðalhreyfingin mín í lífinu), drösluðum meira að segja töskunum upp á fjórðu hæð fyrsta daginn. Plástraði lappirnar í bak og fyrir eftir blessaða sandalana.

Konsertföt og bleikir Scarpa skór? Væri það eitthvað?

d 4 skór

djók en ég fór nú samt í þeim í kirkjuna. Þó við tækjum leigubíl! Aðallega reyndar þar sem það var aftur spáð hellirigningu og konsertsandalarnir mínir eru ekki vatnsheldir. Það fann ég út the hard way í síðustu Hljómeykisferð.

Vináttutónleikar í Andräkirche. Fyrst æfing, vorum ekki búin að syngja neitt þarna. Það var samt auðvelt að syngja sig inn í kirkjuna. Ansi stór og hljómaði mjög vel. Þessi kirkja stendur við Mirabellgarðinn. Furðuleg altaristafla:

d 4 kirkja

Ég er hreinlega ekki viss hvort þetta sé lútersk eða kaþólsk kirkja, allavega ekki ofhlaðin skrauti. Minnist þess þegar við í Hljómeyki sungum í lúterskri kirkju í Austurríki ríflega 21 ári fyrr, þá var mjög mikil áhersla lögð á að við værum ekki með neina kaþólska músík! ekkert Maríuneitt og við þurftum að svara fyrir Heyr himnasmið, að þrátt fyrir að textinn væri elsta þekkta trúarkvæði á Íslandi þá væri lagið eftir son lúterska biskupsins á Íslandi svo þetta hlyti að vera í lagi. Ekkert svona vandamál þarna.

Sungum þarna Sálm 22 eftir ungt austurrískt tónskáld, Jakob Gruchmann. Smá baksaga tengd því.

Í flokki A1, fyrir blandaða kóra, þurfti að vanda að velja tónlist frá ýmsum tímabilum og meðal annars var þar skylda að hafa eitt austurrískt verk. Mér var kippt inn í undirbúningshóp varðandi tónlistarval fyrir keppnina og þegar ég sá þetta tók ég strax þann pól í hæðina að við myndum EKKI syngja Mozart, Bruckner eða neinn annan gamlan dauðan kall! Það bara hlyti að vera hægt að finna verk eftir núlifandi austurrískt tónskáld!

Það reyndist samt þrautin þyngri. Ég held að austurrísk tónskáld séu svolítið bæld af sögunni, skiljanlega, og svo virðast þau ekki sérlega fíkin í að flíka verkunum sínum á netinu. Ég semsagt fann nákvæmlega ekkert spennandi við netleit.

Hafði samband við kunningjakonu, Rósu Kristínu Baldursdóttur, söngkonu sem býr í Salzburg og spurði hvort hún þekkti eitthvað skemmtilegt nýlegt austurrískt kórlag. Hún var ekki með neitt á takteinum (enda ekki beinlínis hennar sérgrein) en hún var til í að auglýsa á sinni facebooksíðu hvort fólk þekkti eitthvað skemmtilegt.

Út úr því kom að Jakob Gruchmann hafði samband við mig. Ungt tónskáld, fæddur 1991 en átti í fórum sínum talsvert af kórtónlist. Sendi mér ein 12-15 lög, missnúin, mér leist best á Sálm 22, hratt og ákaft verk með talkór og hvísli og litlum sólóstrófum en innan tóntegundar. Eiginlega bara nákvæmlega það sem við þurftum, þar sem öll hin verkin í flokknum voru hægferðug og það er nauðsynlegt að sýna að kórinn ráði við mismunandi stíla.

Gruchmann mætti sjálfur í kirkjuna og var ógurlega glaður með okkur. Þetta reyndist vera frumflutningur verksins í a cappella búningi. Kölluðum hann upp á svið eftir verkið að sjálfsögðu!

Fjórir aðrir kórar sungu með okkur á þessum vináttutónleikum, allir góðir nema helst einn, sem reyndist svo ekki vera að taka þátt í keppninni heldur var með einhvers konar hliðarþáttöku, fékk að vera í bæklingnum en var ekki í neinum keppnisflokki. Veit hreinlega ekki hvernig það virkaði. Tveir mjög flottir barnakórar sungu þarna, ég skil reyndar enn ekki hvernig stóð á því að hvorugur þeirra komst í úrslitin.

Lítill tími til að fá sér að borða á milli, áttum að mæta 18:30 í Mozarteum, keppni byrjaði 19:00 og við áttum að vera þriðji kórinn í flokki A1

Það reyndist lítið um pláss fyrir okkur í Mozarteum, fyrst átti að leyfa okkur að vera úti í garði en þá fór auðvitað að rigna, plássið fyrir innan var lítið og á endanum vorum við leidd til baka í anddyrið. Þar hljómaði ágætlega en við þurftum samt helst á því að halda að hafa þögn og einbeitingu. Pínu erfitt að hafa grafarþögn þar sem þetta var auðvitað leiðin inn í húsið fyrir alla hópa og áheyrendur. En við náðum samt þokkalegum fókus.

Upp á gang að raða okkur upp. Töskunum okkar hóps var hrúgað á Jón Lárus sem fór inn að njósna – nei uss! hlusta á hina kórana.

Svo var okkur beint í sal. Við sungum þarna:

Beati quorum via, eftir Charles Villiers Stanford

In Paradisum eftir Karl Jenkins

Sálm 22 eftir Jakob Gruchmann

Lux Aurumque eftir Eric Whitacre

Gekk mjög vel. Gruchmann mætti líka þangað. Mér fannst hans verk ganga enn betur á vináttutónleikunum en það small nú samt alveg ágætlega þarna líka.

Ég held ekki að þetta prógramm hafi verið tekið upp á vídeó, allavega ekki á okkar vegum, við vorum ekki alveg viss um hvort það mætti. Hefði alveg verið í lagi samt. Ég á eftir að henda inn link á Gruchmann úr Andrésarkirkjunni fyrr um daginn en það er ekki komið inn á Youtubesíðu kórsins enn.

Þegar við komum út var rigning. Hellirigning. Þrumur og eldingar! Það var mökk mál að panta leigubíla en það tókst nú samt á endanum. Ekki í boði að labba uppeftir og alls ekki í konsertfötum!

Hér kórgellur, komnar upp á hótel ásamt einkabílstjóra:

d 4 rigning

Þar var semsagt enn hellirigning. Ekki við það komandi að fara eitthvað langt í mat en það var ljómandi fínt grískt veitingahús beint á móti hótelinu (það var ekki veitingahús á hótelinu sjálfu, bara morgunmatur). Við langflest þangað.

Jóni Lárusi tókst að sármóðga þjóninn, við vorum að skoða vínseðilinn og fundum ekkert sem okkur leist á (uss aftur, þarna átti heldur ekki að vera vín! en það var bara ekki hægt annað en að skála smá eftir þennan dag!); hann spurði þjóninn hvort þau væru með austurrísk hvítvín. Þjónninn: Nei við erum bara með grísk vín! Jón: Þá ætlum við að fá bjór! Þjónninn: HRUMPPFFFF! (ekki upphátt samt)

Þetta var samt alveg fínt.

 

 

Jón Lárus bætti síðan fyrir með því að biðja um reikninginn á grísku. Þjónninn fyrirgaf honum alveg!

Yfir götuna aftur, sofa, seinni keppnisflokkurinn yrði strax morguninn eftir.

Salzburg, Tag drei

Þennan dag fór aðeins að draga til tíðinda í keppninni. Samt ekkert voðalega hratt.

Morgunninn frjáls. Sum fóru í Arnarhreiðrið, fjögurra tíma ferð en við vorum ekki á því og fórum frekar í göngutúr um Salzburg með uppáhalds fararstjórunum okkar, þeim Óla og Sólrúnu. Sem mega reyndar alls ekki kalla sig fararstjóra í Salzburg, það þarf próf og leyfi og læti en það má nú rölta með hóp af vinum sínum um borgina og sýna skemmtilega og merkilega staði og það er nú ekki eins og við höfum borgað þeim fyrir!

d 3 gædar við tóbaksbúð

Það þarf auðvitað að segja frá tóbaksbúðunum og klámbúllunum! (ok þarna var líka hægt að kaupa strætómiða)

d 3 gædar í garði

og svo sýna Mirabell garðinn fagra.

Þetta gæti mögulega verið flottasta Makk Dé merki sem ég hef séð!

d 3 mc d merki

Salzborgarbúum er nefnilega ekkert sama um ásýnd borgarinnar og stóra ljóta gula merkið fékk ekki að hanga yfir götuna. Það sást reyndar í glugganum samt en ég tók ekki mynd af því.

Salzburg á sína ástarbrú svipað og París:

d 3 lásabrú

magnað að sjá í fjarlægð, það er eins og brúin sé með glimmeri!

Nújæja. Kóræfing! Það var ekki búið að úthluta okkur æfingarhúsnæði svo við mættum bara á keppnissvæðið. Mozarteum Grosser Saal, fordyri. Þar var smá aðstaða fyrir keppnishaldara og við fengum að vita að við gætum æft í litlum sal sem var í næstu (þó sambyggðu) byggingu.

d 3 merki.jpg

Litli salurinn, svart leikhúsrými og alveg hrottalega heitt! Vatnsbirgðirnar voru fljótar að klárast hjá fólki. Æfðum þarna í ríflega tvo tíma, ég var búin að biðja Kára kórstjóra um að þreyta ekki fólkið um of. Ef við kynnum ekki verkin þá þegar myndi það ekki gerast á þessari æfingu, degi fyrir keppni. Veðurspáin hljóðaði upp á hellirigningu og það var búið að aflýsa skrúðgöngu kóranna sem hafði verið á dagskrá klukkan hálfsex.

Jón Lárus, sem hafði harðneitað að hanga yfir okkur á æfingunni (skrítið!) mætti á svæðið rétt fyrir æfingarlok og hópurinn minn góði fór að finna sér eitthvað að borða og smá að drekka (það sko var að skella á áfengisbann fram að keppni daginn eftir). Enduðum á frönsku bistrói í göngugötunni. Og jújú, hellirigningin mætti á svæðið!

 

Sátum hana af okkur. Ég hafði svo verið beðin um að fara með Kára á móttöku fyrir kórstjóra og einn aðstandanda hvers kórs svo ég stakk þau hin af, þau fóru upp á hótel að skipta um föt fyrir upphafstónleika kvöldsins en ég rölti af stað með google maps til hliðsjónar, aftur niður í Mozarteum. Þóttist rata en þá hitti ég bara á skólann sem er ekki alveg á sama stað, þar var ekkert hægt að fara í gegn, ég var síðan alls ekki búin að óríentera mig nógsamlega á Grosser Saal staðsetningunni og síminn hjálpaði bara afskaplega lítið, sérstaklega þar sem ég gekk eftir þröngum götum þar sem gps merkið var mjög takmarkað. Vildi mér til happs að ég mætti ungri konu með fiðlukassa á bakinu og gat spurt hana hvort ég væri á réttri leið í Grosser Saal. Hún alveg uuuu neiiiiin! og lóðsaði mig á svæðið. Kom kófsveitt í blautum fötum og með blautt hárið á móttökuna þar sem öll hin voru auðvitað í sínu fínasta, norsku konurnar í bunad og hvað veit ég? En það gerði svo sem lítið til. Við Kári gátum spjallað heilmikið við aðstandendur keppninnar og einhverja af dómurunum.

Kórinn mætti til baka á svæðið (í leigubílum, urr! ekki að ég skildi það ekki mjög vel samt). Upphafstónleikar. Þarna vorum við bara áheyrendur. Salurinn geggjaður!

d 3 mozarteum

Fínir kórar! Það voru bara góðir kórar í keppninni, allavega heyrðum við enga lélega. Bara betra, það er lítið varið í að monta sig af góðu gengi þegar keppt er við hópa af lægra kaliberi.

Heim á hótel, laumuðumst í einn drykk uppi á herbergi (uss, ekki segja Kára!) og svo sofa. Mikill dagur í aðsigi.

Salzburg, Tag zwei

Alveg var það nú óvart að við fengjum heilan frídag áður en nokkuð gerðist í kórakeppninni. Keppnin var skráð frá 19. – 23. júní og fararstjórn hafði auðvitað samviskusamlega bókað ferðina frá 18. – 24. til að missa nú ekki af neinu. Það stóð svo ansi lengi á að við fengjum dagskrá frá keppninni og þegar hún loksins barst þá var ekkert um að vera þar þann 19. og hefði vel verið hægt að sleppa því sem var í gangi þann 23. En gerði svo sem ekkert til, það er mjög gott að geta andað aðeins áður en kórprógrammið byrji.

Dagskrárlaust var nú ekki þennan dag samt hjá kórnum.

Ágætis morgunmatur á hótelinu, við Jón Lárus fórum yfirleitt í ensku týpuna, beikon, egg og tilheyrandi. Kaffi frekar vont, safi þokkalegur, brauð óspennandi. Félagsskapur góður.

Við Jón Lárus skottuðumst í verslunarmiðstöð beint gegn hótelinu, keyptum okkur smá bjór, vín og snakk til að eiga á hótelinu. Ég kann vel við minibarísskápa sem er ekki fyllt á. Hraðbanki líka heimsóttur, fyrsta skipti en aldeilis ekki það síðasta í ferðinni.

Klukkan tíu var lagt af stað í ferð um Salzkammergut svæðið eigi langt frá Saltborginni sjálfri. Stefnan var tekin á hinn myndræna bæ Hallstatt. Óli var gæd á leiðinni og sagði okkur frá hinu og þessu, til dæmis þegar honum bauðst að gerast umboðsmaður fyrir Red Bull á Norðurlöndum, frá kunningja sínum sem átti fyrirtækið en fannst það fullmikið vesen svo hann sleppti því.

Kannski hefðum við dvalið á lúxushótelum og ferðast um í einkaþotum í þessari ferð ef hann hefði tekið þessu tilboði.

Red Bull er semsagt frá þessu svæði:

d 2 Red Bull

Þarna eru nautin!

Til Hallstatt komumst við eftir góða stund í akstri. Bílstjórinn reyndist bráðskemmtilegur og reytti af sér brandarana og fróðleiksmolana svo okkar gæd gat slappað af.

Hallstatt er ekki sérlega ófagur á að líta:

d 2 Hallstatt

Örmjóar götur inn í bæinn, auðvitað slatti af sölubásum enda lifir bærinn væntanlega af túristum eins og fleiri bæir og borgir sem við könnumst við. Mér fannst skrítnast að það skyldi yfirleitt vera leyfð bílaumferð yfirleitt (hvar er aðförin?) en það er náttúrlega ekki hægt að banna íbúum að komast heim til sín. Aðföng í búðir og slíkt hefði nú alveg mátt takmarka við snemmmorgna eins og á Laugaveginum samt.

Hádegismatur míns hóps í græna húsinu þarna í baksýn á torginu:

d 2 torg

Kálfasnitsel. Fyrsta snitsel af aaaaansi hreint mörgum í ferðinni. Eina skiptið sem vínarsnitselið var af kálfi sem er auðvitað hið eina rétta. Frekar skrítið. En við komum svo sem ekkert til Vínar í ferðinni svo það fyrirgefst væntanlega.

Annað ansi áhugavert í Hallstatt var grafhýsi með hauskúpum. Það er svo lítið pláss fyrir grafstæði í bænum að sama plássið er notað aftur og aftur og til að minnast fólks voru hauskúpurnar teknar, brennt í þær nafn viðkomandi og þær geymdar. Frekar magnað. Það þurfti ekkert að brýna fólk til að vera ekki með læti inni í grafhýsinu. Það gerðist algerlega sjálfkrafa að við töluðum í lágum hljóðum:

d 2 hauskúpur

Veðrið var stórkostlegt. Sól og passlega heitt, um 27-28 gráður. Búið að spá skúrum og það stóðst gersamlega á endum að þegar við vorum öll komin upp í rútu byrjaði að hellirigna.

Það hafði staðið til að fara líka og skoða kirkjuna í Oberndorf þar sem Heims um ból var samið og frumflutt á sínum tíma. Reyndar er kirkjan ekki til lengur en það var reist minningarkapella um þetta frægasta jólalag í heimi. Það var hins vegar gersamlega brjáluð umferð bæði vegna rigningar og vegaframkvæmda svo bílstjórinn sá fram á að þetta yrði þriggja tíma aukakrókur eða svo. Það leist hvorki honum, leiðsögugenginu okkar né hópnum á svo því var slaufað.

Aftur til Salzborgar. Frír dagur það sem eftir var. Stytt upp í bili og veðrið aftur orðið yndislegt. Fastagengið gekk í bæinn frá hótelinu í rólegheitunum (já það var stytt upp). Skemmtilegir gosbrunnar sem komu beint upp úr göngugötunni. Ég auðvitað þurfti að hlaupa í gegn um þá, gosbrunna- og vatnsblæti á háu stigi!

Pizza í kvöldmatinn. Á torgi handan við ána. Mjög spes staður, ekki eldað þar og ekki einu sinni við hlið torgsins heldur eitthvað þó nokkuð í burtu og sent á svæðið, svona eins og heimsending nema bara ekki heim heldur á torgið.

Heim á hótel. Aðeins dýft sér í innkaup morgunsins en þó ekki djúpt. Skyldur kölluðu daginn eftir.

 

Salzburg Tag eins

nauh haldið þið ekki að það sé ferðablogg. Aftur? Strax?

uh já.

Dómkórinn minn kæri á leið til Saltborgar í kórakeppni. Það er þannig þegar kórar fara í kórakeppni þá er lagt vel í og fullt af æfingum raddæfingum, tækniæfingum, samæfingum, aukaæfingum, allt er þetta ekki til þess gert að kórinn standi sig vel í keppninni þó það mætti halda. Kór verður ekki góður til að standa sig vel í keppni, kór fer í keppni til að verða góður!

Svona svipað og með tunglferðina í BNA

og skilji þau sem vilja!

Allavega.

Vaknað fjögur. Stuð! Freyja skutlar á völl, höfðum lofað að sækja hana Jónínu út í Skerjafjörð, lögðum af stað á sekúndunni hálffimm (ok innan mínútunnar sem sýnir hálffimm á símanum) eins og til stóð. Vorum svo reyndar pínu stund að finna Reynistað en gekk á endanum.

Hittum uppáhalds ferðafélagana í fríhöfninni. (mynd af þeim neðar). Nord skyldi það vera og mímósa. Var búin að vera hálfskrítin í maganum dagana á undan en hann hagaði sér nokkurn veginn þarna.

Flugtíminn stóðst upp á punkt og prik, vorum hálfsúr yfir að vera plantað sitt hvoru megin við gang í röð 12 í vélinni en svo kom í ljós að áðurnefnt uppáhaldsfólk var í röðinni og svo var þetta vél með Saga class svo röð 12 var bara rétt við inngang svo það gerði ekki bofs til.

Í skemmtara vélarinnar reyndist að finna ræmuna Crimes of Grindelwald sem við höfðum misst af í bíó svo megnið af leiðinni fór hjá okkur báðum í að glápa á hana. Svo sem ágætt að hafa sleppt henni í bíó, greinileg millimynd en samt fínt að ná henni. Fyrsta var góð.

Flogið til München og beðið þar lengur en til stóð, þar sem gleymst hafði að koma með annars kyrfilega pantaðan bílstól fyrir hann Hilmar litla, son Guðbjargar sópransólistans okkar. Biðraðir og hætt við biðraðir og aftur biðraðir við einu sjoppuna á svæðinu, frekar mikið óundirbúna fyrir svona hóp.

Rútan var tveggja hæða. Við upp.

Þar var heitt.

Við í rútunni

en það stóð til bóta þegar rútan með fúla bílstjóranum lagði í hann.

Við uppi á lofti höfðum lítið af honum að segja sem betur fer samt.

Nema það að hann var svo fúll að hann ákvað að stoppa ekki fyrir utan innganginn að hótelinu sem hann hefði annars bara mjög vel getað gert (sáum mökk af rútum stoppa þar meðan á dvöl okkar stóð og þau hin voru sótt beint þangað á rútu) heldur stoppaði á þröngri gangstétt hinu megin við hótelið.

Allt gekk þetta nú samt á endanum.

Hótelið alveg ágætt, herbergið okkar Jóns Lárusar vel stórt með sófahorni sem nýttist bara ansi hreint vel í ferðinni.

Sturta og hótelbar.

Hittingur um klukkutíma síðar og stefnt niður í bæ. Þessir ferðafélagar eru ekki af verra taginu!

Salz félagar.jpg

takið eftir snúrusalatinu fyrir aftan, þarna voru rafmagnsstrætóar sem gengu fyrir svona.

Niður í bæ, göngugatan sem við áttum eftir að þekkja ansi vel, yfir ána, fram hjá dómkirkjunni sem við áttum líka eftir að kynnast betur og upp á Stieglkeller eða Stígvélakjallara sem var hæsti kjallari sem ég hef á ævi minni komið í! Fjórða hæð og uppi í hlíð! Hér má sjá útsýnið úr kjallaranum:

Ljómandi matur, þríréttað, við Jón höfðum bæði valið okkur svín með knödel, erum reyndar lítið fyrir knödel en svínið var mjög gott, meyrt og passlega feitt og kryddað, alveg eins og það átti að vera!

Þessir ferðafélagar áttu eftir að koma mjög mikið við sögu!

Salz bestu mín!

Röltum heim, ansi hreint lúin eftir langan dag. Ferðafélagarnir hér fyrir ofan kíktu í heimsókn í sófakrókinn og hvítvínsglas. Svo sofa! Ekki veitti af!


bland í poka

teljari

  • 371.383 heimsóknir

dagatal

mars 2020
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa