Morgunmatur, aldrei þessu vant (hissa?) Reyndar byrjaði dagurinn heldur fyrr, ég vaknaði um hálfáttaleytið og kíkti á veðurspána. Hún var talsvert mikið betri en hún hafði litið út kvöldið áður. Þá var spáin upp á 15° og 80% líkur á regni. Þarna var regnspáin búin að frestast til klukkan fjögur, hitastigið hækka um tvær til þrjár gráður og jafnvel myndi sólin láta sjá sig aðeins.
Ég fletti þá upp á leiðum til að komast út á Howth tangann norðan við Dublin. Sýndist einfaldast að ganga í veg fyrir lestina, um hálftíma gang en öðru eins vorum við nú orðin vön þessa daga. Strætókerfið í borginni er nefnilega ekki gott net heldur frekar eins og krakkar teikna sól, með geisla út í allar áttir og svo alltaf lengra og lengra á milli eftir því sem utar dregur. (Reyndar svolítið eins og heima, hafið þið þurft að fara í strætó frá Grafarvogi í Hafnarfjörð?)
Leyfði Jóni að sofa í klukkutíma til en hann var sáttur þegar hann vaknaði og sá spá og plan.
Eftir morgunmat og dittósturtu röltum við austurúr og komumst á lestarsporið hjá Clontarf stöðinni ríflega hálftíma síðar. Veður gott, engin þörf á jakka!


Lestin, tja hvernig eru lestir? Keyrandi í frekar óspennandi umhverfi milli húsa og stöðvarnar álíka.
En þessi lest, Dart, var reyndar snyrtileg og fín og fljót í förum svo við lentum sirka kortéri síðar á Howth. Stefnan var á garð, Ardán Garden sem við höfðum einhvern veginn náð að gúgla okkur fram til að væri spennandi. Strætó þangað var um 22 mínútum síðar, smá rölt út á bryggju og til baka og viðkoma í hraðbanka þar sem ég var ekki viss um að fólkið sem ætti þennan prívat garð tæki kort. Sem reyndist alveg hárrétt. Hér útsýni af bryggjunni:

og hér kort af höfðanum:

Strætó hringaði tangann. Við orðin smá svöng eftir röltið sáum veitingastað þar sem hann endaði (strætó sko) og kíktum inn. Opnar eftir kortér. Nújæja förum þá í garðinn. Fundum leiðina en þá hringir Hallveig systir í mig til að ráðfæra sig smá og þegar það samtal var búið voru bara 5 mín í opnun. Ok við þangað (sérstaklega þar sem við áttum síðan pantað borð á veitingahúsi klukkan fimm og það hefði verið kjánalegt að fara að borða hádegismat kannski um tvöleytið).
Reyndist frábær ákvörðun, við höfðum lofað konunum tveim sem við spjölluðum við á tónleikunum kvöldið áður að fá okkur fisk og franskar ef við færum til Howth, Jón pantaði sér þannig en mér leist betur á krækling í hvítvínssósu. Og svei mér þá ef ég hef bara nokkurn tímann fengið betri krækling á ævinni, og hef ég þó smakkað slíkt góðgæti víða! Þegar ég var búin með kræklinginn bað ég meira að segja um skeið til að klára sósuna. Skrifaði á Tripadvisor um þennan stað, eins og reyndar fleiri veitingahús í ferðinni og síðan hótelið.

Garður reyndist yndislegur, ekki risastór en svakalega margar flottar plöntur.




Hjónin sem eiga og reka garðinn voru hin elskulegustu og voru impóneruð yfir því að við kæmum alla leið frá Íslandi, vissu ekki til þess að Íslendingar hefðu heimsótt sig áður. Furðuðu sig á að við hefðum fundið þennan garð á gúglinu, nokkuð sem var líka eiginlega tilviljun. Töluðu um að langa að fara til Íslands en minntust samt ekkert á norðurljós, mesta furða.
Eftir garðheimsóknina ákváðum við að vera ekkert að fara í veg fyrir strætó enda ekki nema um hálftíma gangur eða svo yfir höfðann og að lestarstöðinni. Fín ákvörðun, veðrið ljómandi og nánast allt niður á við. Þurftum samt að ganga á götunni, þarna voru bókstaflega engar gangstéttir, fyrr en nær dró bænum. Mættum samt bara tveimur bílum alla leiðina niður höfðann þannig að það gerði svo sem ekkert til. Hér er útsýni yfir höfða við Höfða.

Þetta skilti skil ég alls ekki bara! Það leit ekki út fyrir að neitt hefði máðst af því, það var bara svona. Heimsendi eftir 50 metra?

og þessa flottu turna á turni rákumst við á á leiðinni niður í bæinn:

Lestin í miðborgina, ósköp þægileg og lítt til frásagnar frekar en fyrr um daginn. Komum ekkert við á hótelinu, enda hefði það verið verulega úr leið. Vorum komin í bæinn klukkutíma áður en við áttum pantað á veitingastaðnum.
Og hvað gerir maður þá? Nú döh, pöbb! Vorum reyndar góða stund að finna slíkan sem okkur litist á, á leiðinni frá lestarstöðinni inn að aðalgötunum. Enduðum hér, mjöööög flott en áttu reyndar ekkert þannig spennandi bjór. Ég fékk mér reyndar bara kaffi.

Reyndar urðum við (les Jón) fyrir smá vonbrigðum með bjórúrvalið í ferðinni nema reyndar á Porterhouse. Flestar krárnar voru alveg með 16 krana en af þeim voru alltaf tveir Guinness og tveir Heineken og svo voru þarna Carlsberg, Coors Light og einhverjir álíka óspennandi drykkir. Það hlýtur að vera að það séu síðan til einhverjir barir með míkróbrugghúsabrugg en við allavega römbuðum ekki á þá.
Þá var það The Church. Veitingastaðurinn ansi flottur. Kokkteilarnir líka.



Þarna var mjög mikil breidd í vali, ekki alveg eins elegant seðill og á Winding Stair. Ég endaði á að kaupa mér bara vængi sem voru þarna á appetizer hluta seðilsins og það reyndist feikinógur kvöldmatur. Þetta verður semsagt síðasta matarmyndin úr þessari matarmiklu ferð. Jón fékk sér grísarif og var mjög sáttur.

Eitt var merkilegt þarna. Við höfðum tekið eftir því á Winding Stair að þar var hægt að fá Roederer Cristal á um 200 evrur. Keyptum ekki en fannst ekki dýrt, þetta verð er ekki langt frá útsöluverði, mjög lítil álagning. Í The Church kostaði Cristalinn heldur meira fyrir nú utan að vera vitlaust stafsettur, tvö af þremur nöfnum.

Þessi dagur var eiginlega hápunktur dvalarinnar, Howth höfðinn er mjög flottur og ég væri alveg til í að fara þangað aftur, t.d. til að sjá flotta kletta ekki langt frá veitingahúsinu sem við borðuðum á, náðum því bara ekki í þetta skiptið.
Heim á hótel, pakkað niður og fylgst með hvort flugið okkar, morguninn eftir væri ekki enn á áætlun, hefði verið heldur verra ef það hefði frestast hvað þá verið fellt niður þar sem Freyja okkar var að útskrifast síðdegis sama dag frá HÍ og við ætluðum að hýsa veisluna! Ég ætla ekki að skrifa heimferðardagsfærslu en skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir mannfæð á Dublinarflugvelli var flugið nokkurn veginn á áætlun, Fífa okkar og Carlos sóttu okkur út á völl (takk elskurnar!) og veislan small Írlandsbloggi lokið, næst væntanlega Kraká í haust. Till then.
Nýlegar athugasemdir