Archive for the 'kennslan' Category

silast í jólafrí

smátt og smátt, kúrsarnir í LHÍ búnir í ár, fyrir utan tónsmíðaeinkatímana, Messías búinn (muuuu, reyndar) ásamt tónleikum áhugamannabandsins, get ekki verið með í verkefnum kammerkórs Dóm núna fyrir jólin þannig að er komin í bæði kór- og hljómsveitarfrí. Semsagt eiginlega bara kennslan eftir hádegi á mánudögum og miðvikudögum eftir, fyrir utan íhlaupavinnu ýmiss konar.

Þýðir reyndar eiginlega bara að ég hef smá tíma núna til að setja kraft í tónsmíðaverkefnið fyrir Fílharmoníu. Sem er hið besta mál. Búin með (og búin að skila) upphafs- og lokaköflum, annar kaflinn mjög langt kominn og þriðji líka en tveir nánast alveg eftir.

Annars bara heitt kakó, maltesín og smákökur frá Fróni frænda og jólakort frá Knúzinu.

þegar maður

er svona upptekinn í einhverju eins og vígslu þessa langþráða húss með tónleikunum á morgun, hinn og hinn (já og 13. líka) ásamt listráðsfundum og fleiru er venjulega vinnan þvílíkt að þvælast fyrir manni. Finnst gersamlega fáránlegt að þurfa að kenna á morgun og hvað eru þessir tónsmíðanemar að vilja upp á dekk með að heimta tímana sína??? (humm, kannski gáfulegt reyndar að athuga hvort sá sem á að koma í fyrramálið sé til í fimmtudagsmorguninn í staðinn, reyndar).

En ætli maður láti sig nú ekki hafa það samt. Reyndar er morgundagurinn næstsíðasti kennsludagurinn í Hafnarfirði fyrir sumarfrí, fyrir utan reyndar síðustu vikuna þar sem verða upptökupróf fyrir þá sem þurfa og svo auðvitað frágangur. Sama gildir í Suzukiskólanum, kenni þar næsta mánudag. Svo bara sólbað á pallinum eþaggi? Eða allavega bjór og útiarinn.

útskriftir

eru á fullu í Listaháskólanum þessa dagana, kemst á allt allt of fáa tónleika en reyni að redda því með að gerast fiðluleikari á gamals aldri og stökkva á spilamennsku þar sem mér býðst. Útskriftarnemarnir hafa ekki verið neitt voðalega fúlir yfir því reyndar, enda oft erfitt að veiða hljóðfæraleikara, það er ofgnótt af tónsmíðanemum í deildinni en ekki alveg eins mikið af hljóðfæraleikurum enda eru þau flest eins og útspýtt hundskinn á þessum tíma árs að reyna að halda sína eigin lokatónleika annarinnar plús spila á öðrum hvorum tónsmíðatónleikum. Þannig að fleiri puttar sem geta stutt á strengi eru vel þegnir.

Hvort maður hefur tíma í þetta, það er hins vegar allt annar handleggur á allt öðrum manni. En skemmtilegt er það.

Samæfing kóra í fyrramálið, hlakka til að hitta Óperukórinn sem mun syngja með okkur í Hörpu í þessari viku.

étið

páskaeggsræfillinn minn, númer 4, náði að klárast í dag. Voðalega stolt af sjálfri mér hvað mér tókst að treina það lengi. Þar til ég mundi eftir því að ég er reyndar ekkert sérlega mikill nammigrís. Savoury, that’s me.

Úrbeinuðum kalkún í fyrsta skipti fyrir fjölskylduveislu á páskadag, fuglinn er bráðfyndinn svona flatur. Þarf að henda inn myndum.

Skrítið annars að byrja að kenna aftur, það er svo stutt eftir af skólunum mínum fram að sumarfríi að mér fannst varla taka því, gæti eiginlega ekki verið að það væri venjulegur kennsludagur. Ekkert eftir nema skrifleg tónheyrnarpróf í næstu viku (argh, á eftir að setja inn einkunnir! reminder to self í fyrramálið!).

Næsta vika verður hektísk, þrennir tónleikar í Hörpu og æfingar fyrir þá. Get ekki beðið.

jútjúbið

leita nú að skemmtilegum klippum til að sýna krökkunum mínum í Hafnarfirði á nammideginum þeirra á eftir.

Jamm, við erum með nammidag í tónfræðinni líka, sem þýðir að í stað þess að enginn mæti í tímann síðustu vikuna mæta alltaf allir.

Í Suzuki spilum við tónfræðispil og krakkarnir læra alltaf helling á því, Suz krakkar eru öll til dæmis með áttundaheitin á tæru, það eru svo auðveld og algeng stig að fá. Hafnarfjarðarbekkirnir eru hins vegar flestir stærri þannig að það er ekki eins auðvelt að koma því við að spila. Eigum reyndar einn leik sem stórir bekkir geta spilað en það er bara vesen að starta honum, þarf að setja upp skjávarpa í stofunum og ég og skjávarpi og windows erum ekki góðir vinir.

Þannig að skemmtilegar og helst fræðandi þínrörklippur verða væntanlega málið í dag.

Apakattaeyja

Var með krakkana í Finns bekk í tónfræðinni í formgreiningu í dag. Lét þau greina þriðja kaflann úr E-dúr fiðlukonsert Bachs, þetta líka fína rondóform (sonurinn fattaði það, mamman montin).

Frekar auðgreinanlegt form, ABACADAEA þar sem A hlutinn kemur alltaf eins, tutti í hljómsveitinni en B-E kaflarnir eru grand sólókaflar hjá einleiksfiðlunni.

Auðvitað fóru krakkarnir að reyna að lesa eitthvað út úr stöfunum…

(og þið sem hélduð að ég væri að lýsa Íslandi með titlinum, vaþaggi???)

uppskeruhátíðin

það er alltaf gaman á tónsmíðatónleikum í Listaháskólanum en ég er bara ekki frá því að mér hafi aldrei þótt jafn skemmtilegt og áðan, 10 krakkar að sýna afrakstur haustsins, 11 ólík verk, þar af lengsta örverk sem ég hef á ævi minni vitað.

Kærar þakkir fyrir mig krakkar, bæði tónskáld og flytjendur, nú er að vona að hinn helmingurinn (tónleikarnir á morgun) verði jafn skemmtilegir. Hlakka verulega til. Hef ekki áhyggjur af vöntun á sköpunarkrafti, ónei nóg af honum.

að vanda

er ekkert svo erfitt að fara að kenna aftur – ekki verra þar sem nettengingin í Suzukiskólanum er búin að hegða sér óvenju vel í dag, lítið um að ég detti úr sambandi.

Verð samt að viðurkenna að það er ágætt að LHÍ byrjar ekki fyrr en eftir viku, nema reyndar einkatíminn.

Kóræfing í kvöld, fljótlega tónleikar í Skálholti með uppáhaldsverkum, hlakka verulega til. Óttusöngvarnir eru náttúrlega tóm snilld, hefði reyndar alveg verið til í að syngja allt verkið á ný, vonandi aftur síðar.

tepoki dagsins í húsi.

lengd

sko

það er voðalega gott að vera bara að kenna 3 daga í viku. Algjör snilld reyndar.

En að allar kvöldæfingar þurfi endilega að vera á kennsludögunum – það er svolítið magnað.

Tebolli eftir nánast stanslausa 12 1/2 tíma törn er vel þeginn…

fjúkk!

Finnur var með frábæran kennara í fyrra og hitteðfyrra í skólanum. Einn besta kennara sem mín börn hafa haft. Hún er ekki útskrifuð úr kennaranáminu þannig að skólastjóra var settur stóll fyrir dyrnar með að ráða hana áfram, núna eru eingöngu kennarar með full réttindi að kenna í grunnskólum Reykjavíkur (amk. þar sem slíkir fást til starfa). Hroðalega súrt.

Ég var dauðhrædd um að hann fengi ákveðinn kennara sem Freyja hafði einu sinni – en hann er sloppinn. Vonandi er nýi kennarinn hans góður, þó ég geti ekki ímyndað mér að hún eigi séns í Drífu, hennar verður sárt saknað.

Bannsett skriffinnska!

síðasti áfangi að sumarfríi

aaaalveg að klárast, bara raða nokkrum prófum í möppu og svo er tónheyrnarliðið að koma í kaffihúsatíma, síðasti tími vetrarins alltaf þannig. Algjört æði. Verst að það gengur enn ekki alveg nógu vel með kammerverkið – er að hugsa um að hafa tvo kafla, langt komin með annan en óttalega hugmyndasnauð með hinn. Og ætlaði að skila núna í maí…

seinni prófadagur

í suz í dag og síðasti dagurinn sem ég kenni framhaldsstigið þar (erum að leggja það niður, of fáir krakkar, of dýrt. Muu. Heldur lengra eftir í Hafnarfirði, við kennum nánast fram til mánaðamóta.

er að hlusta

á beina útsendingu frá útskriftartónleikum Listaháskólans, hún Eydís mín Ýr er að útskrifast á víólu og ég sá fram á að ná ekki í Salinn fyrir klukkan átta. En það er gaman að hlusta á netinu, ég hef ekki verið dugleg að hlusta á þessar útsendingar frá skólanum, það eru líka nemendur mínir sem sjá um þær þannig að það er ágætt að fylgjast með þeim líka.

stöðupróf

ætti að varða við lög að hafa stöðupróf klukkan níu á laugardagsmorgni eftir árshátíð…

eða nei annars, þetta var allt í lagi og flestir krakkarnir komu ágætlega út. Líst vel á hópinn, verst við getum ekki tekið þau öll inn.

oooooog…

þriðjudagsfrí í höfn. Snilld.

nú þarf ég bara að fara yfir nokkur örstutt hrynpróf og svo ganga frá einkunnum.

svakalega er stutt

eftir af skólaárinu! Síðasti þriðjudagurinn í LHÍ á morgun, (á reyndar eftir að halda eitt námskeið þar), svo bara þrír tímar eftir í Suzuki fram að vorprófum, sem taka tvær vikur, þá upptökuprófdagur og svo sumarfrí.

Ekki að það sé sumarlegt úti.

En nei, ég er ekki að kvarta…

frjáls mæting

hjá nemendum mínum í Hafnarfirði í dag og auðvitað sit ég hér og enginn mætir. Nema ein er búin að melda sig í síðasta tímann.

Mér finnst sjálfsagt að gefa krökkunum frjálsa mætingu á öskudaginn, þetta er eini dagurinn sem þau sjálf eiga, allir aðrir frídagar eru ekki síður stílaðir á fullorðna. Að skylda börnin til að mæta síðan í tónfræðitíma er hreinlega hundraðogellefta meðferð á ungviði. Yfirleitt arfaslæm mæting og þau sem mæta eru samviskusömu duglegu krakkarnir sem hefðu síst þurft á því að halda (akkúrat svoleiðis hjá samkennara mínum hér í dag, tveir mættir af tólf). Mun hreinlegra að láta þau vita að þau megi koma ef þau vilji en það sé ekki skylda.

En ég er að minnsta kosti búin að sitja hér megnið af deginum og vafra á netinu. Spilaði einn tölvuleik áðan og er núna að hlusta á Sjostakovitsj á jútjúb. Þægilegasti dagur.

til umhugsunar

fyrir alla kennara, sérstaklega:

jæja

hálfskrítið bara að kenna eftir þessa snilldarhelgi.

Önnin er annars hálfnuð í Listaháskólanum. Og mér sem finnst við bara rétt nýbyrjuð. Sérverkefnavika í næstu viku, og Myrkir músíkdagar líka. Ætli maður reyni ekki að vera duglegur að mæta í ár, allavega þrennir tónleikar sem ég er alveg ákveðin að sækja, í fyrra var ég lasin nánast alla hátíðina (krossum putta).

aaaaalveg

að verða búin með tíu vikna önnina í Listaháskólanum. Síðasti tíminn í Tónheyrn 1 hefst eftir 10 mínútur. Hálfsúrt samt að þurfa að koma og kenna 1 tíma í næstu viku, þarf að bæta upp.

Hef reyndar aldrei lent í því áður að þurfa að bæta svona mikið upp, þessi tími er reyndar vegna jarðarfarar sem ég varð að vera viðstödd, en í Hafnarfirði frestaði ég tveimur tímum um daginn, út af útskriftinni hans Finns úr 2. víólubókinni og svo varð ég að sleppa einum degi í Suzuki þegar við vorum í Berlín (mental note to self – muna að klára ferðasöguna). Minnsta málið að bæta upp hér, Hafnarfjarðarkrakkana kalla ég væntanlega saman um einhverja helgi en Suzuki, hmm, ég nenni eiginlega ekki að hafa heilan aukakennsludag þann 22. desember…


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa