Sarpur fyrir 26. maí, 2008

dagur #4

Vaknað fyrst við áminningu um söngtíma klukkan 8, honum var nú reyndar sleppt, svolítið langt að skjótast, þá aftur klukkan 8:45 með andfælum, hélt að klukkan væri 9:15 og við Elín höfðum mælt okkur mót við Bryndísi og Hönnu niðri í morgunmatarsal klukkan 9 til að taka daginn snemma. Hefðum svo alls ekkert þurft að vera svona snemma á ferðinni, þar sem búðin sem átti að vera fyrsti áfangi á leiðinni niður í bæ opnaði náttúrlega ekkert fyrr en 10.

Enn var stímt í sætu búðina, því auðvitað var það hún, (hmm, ég held að ég hafi gleymt einu úr henni á hótelinu, fattaði það í gær, spurning hvort Örnólfur og frú hafi fengið það ásamt bolnum hennar Fífu sem mér tókst að gleyma líka – tjöldin á hótelherberginu gátu falið helling af dóti).

Síðasta ferð upp í topp á Printemps, reyndar tvær, fyrst á útsýnispallinn (með stoppi á ferðatöskuhæðinni til að sýna stelpunum bakpokann sem ég var nærri búin að kaupa en tímdi síðan ekki)

svo upp austan megin í flottu hvelfinguna þar sem veitingastaðurinn er,

fengum okkur hádegismat þar ásamt hvítvínsglasi (ég) og arfavondum mexíkóskum bjór með tequilabragði (þær). Ég fegin.

Nú, eftir þessi smástopp, meira sightseeing, tókum þriðja rúntinn með rútu, fórum síðan á kaffihús til að klára að smakka franska bakkelsið sem var skylda að taka út í ferðinni. Ég fékk mér eina köku og kakó (fínt kakó, NB, sterkt og gott og alvöru súkkulaði) en hinar tvær sem voru með í för fengu sér tvær og hálfa á mann. (ókei, ég fékk smábita af nokkrum tegundunum) Hélt að augun ætluðu út úr litlu mjóu frönsku stelpunni sem afgreiddi, vonandi hélt hún að við værum Kanar…

Höfðum mælt okkur mót við eina til í Madeleine kirkjunni klukkan fimm, þar sem á sama tíma hér heima hófst jarðarför fyrrverandi samkennara okkar sem lést viku áður en við fórum út. Við kveiktum á kertum fyrir hana elsku Noru okkar og sátum í góða stund í kirkjunni. Stundum vonar maður að til séu æðri máttarvöld, sé svo þá er hún núna á betri stað. Hvíl í friði.

Eftir þessa stuttu kyrrðar- og minningarstund lá leiðin í eina alflottustu vínbúð sem við höfum augum litið, Lavinia. Upprunalega spænsk búð en með útibú í París. Afhentur innkaupalistinn sem við Jón höfðum sett saman hér heima (tja, aðallega hann, reyndar), nær allt reyndist til, hefði eiginlega þurft kerru til að koma flöskunum upp á hótel en Hanna reyndist betri en engin og hjálpaði mér að burðast með þær. Níðþungt, ég var skíthrædd um að ég þyrfti að borga þvílíka yfirvigt í flugvélinni.

Hótel, sturta og punta sig upp, leiðin lá á Moulin Rouge. Allir í sitt fínasta púss – svínvirkaði, ein klipin í rassinn í metró, önnur fingurkoss og nokkur úllöllu fuku í kring um okkur.

Þar skyldi farið á sýninguna sem stendur nú yfir þar, Féerie (ætlaði að tengja á wmp síðuna en það virkar ekki), ógurlega flotta sýningu, litskrúðið nær ótrúlega mikið, dansarnir flottir, kannski fullmikið af berbrjósta dönsurum sem pirruðu suma aðra meira en mig, en það hefði verið flottara ef strákarnir hefðu ekki alltaf verið svona ógurlega fullklæddir á móti. Reyndar fannst mér milliatriðin eiginlega skemmtilegri en dansarnir, fimleikafólk að balancera, búktalari og svo hrikalega fyndinn jongleur (hvað heitir það nú aftur á íslensku?) Vel þess virði að fara á kabarettinn þó það sé bara fyrir hann.

Auðvitað biðum við eftir aðal can-can dansinum við Offenbach, jújú, hann var til staðar en samt eiginlega við eitthvað Offenbach remix, fannst það nú eiginlega ekki bæting á músíkinni. En dansinn var flottur.

Reyndar þótti mér eitt hallærislegt við sýninguna, með henni fylgdi hálf kampavínsflaska á mann en það var ekki komið á borðið til okkar og flöskurnar opnaðar, hvað þá að hellt væri í glösin fyrir okkur, þurftum að sjá um slíkt sjálf. Fyrir svona dýra sýningu finnst manni alveg að það mætti þjóna örlítið betur. Ekki það, ég kann alveg að opna kampavínsflöskur og sá um það fyrir okkar borð, Hanna vinnur stundum sem þjónn og sá um hin borðin tvö. Síðan var kona sem stóð (tja, sat til að byrja með) fyrir aftan eitt okkar borða, hún lifði sig þvílíkt inn í sýninguna að hún stóð upp og argaði á fullu í örugglega hálftíma. Örnólfur greyið var kominn með hellu fyrir eyrun og höfuðverk af þessu í lokin. Ekkert þýddi að reyna að ná augnsambandi við hana, gersamlega úti á þekju. Ewa hvessti augun á manninn sem var með henni, þar til hann spurði: Do you have a problem? Hún: You are my problem. Hann yppti bara öxlum og gerði ekkert í málinu. Maður hefði nú haldið að þjónar myndu kannski koma og reyna að lempa manneskjuna aðeins til.

Heim á hótel var haldið, einhverjir gengu, sumir aftur í metró (ég þar á meðal). Nokkrir hittust aftur uppi á herbergi hjá okkur Elínu, ekki samt lengi enda síðasta kvöldið.

óhugnanlegt 2

og ég er ansi hrædd um að þetta sé ekki grínsíða. Því miður.


bland í poka

teljari

  • 375.038 heimsóknir

dagatal

maí 2008
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa