Sarpur fyrir 27. maí, 2008

dagur #5 – heimferð

eins gott að klára þetta áður en ég legg af stað í næstu ferð (í fyrramálið, sko)

Vaknað (nú, skrítið…), síðasti morgunmatarskammtur, upp að pakka, tókst að troða öllu draslinu í töskuna, mesta furða reyndar, 6 flöskur úr Lavinia í tveimur kössum, slatti af gjöfum, þó mér tækist að gleyma bolnum hennar Fífu og einu öðru í poka bak við tjöldin í herberginu. Lok og læs – opna aftur, gleymdi að tæma ísskápinn (nokkrir ostar, gesiérkrukka og pylsa, eins gott). Taskan níðþung, auðvitað, ég var handviss um að þurfa að borga hellings yfirvigt.

Tékkað út, ég hafði notað eitt ítem úr minibarnum, einn lítinn 1664 bjór, kostaði heilar 3.50 evrur, borgaði, fékk útprentaða kvittun á þykkan ljósgulan rifflaðan gæðapappír, alveg hugsa ég að blaðið hafi verið bjórsins virði. Diljá hafði drukkið eina hálfslíters vatnsflösku, okkur fannst svolítið skondið að hann kostaði 8 evrur, jafnvel þótt hann væri stærri en bjórinn.

Hér sjást Ásdís og Mary bíða eftir nokkrum hinna í lobbíinu.

Stærsti hluti hópsins tölti síðan niður að óperutorgi, þar sem hægt var að taka rútu á flugvöllinn. Nokkrar ákváðu samt að taka leigubíl, nenntu ekki niðureftir. Veðrið var mjög fínt og allir með töskur á hjólum, þannig að göngutúrinn var nú ekki sérlega erfiður. Rútan stóð síðan þarna tilbúin fyrir okkur, rúlluðum af stað og þrátt fyrir að rútan fari á átján mismunandi terminala 2 áður en hún stoppar við terminal 1 þar sem við fórum, hittum við náttúrlega hinar í innrituninni, múhaha. Slapp við yfirvigt, var ekki nema kílói yfir, fjúkkitt.

Einhvern veginn tókst mér að missa af hvar maður setti umslagið með taxfree dótinu þannig að umslagið kom með mér heim. Vill til að ég er að fara út aftur. Sýnist reyndar að maður hljóti að skila taxfree kvittuninni áður en maður fer inn í gegn um tékk, sérkennilegt það.

Eitthvað var lítið af búðum niðri, það við sáum, þannig að við fórum bara upp, þar hlyti að vera eitthvað taxfree verslunarsvæði og kannski veitingastaðir. Olli hinsvegar þvílíkum vonbrigðum, búðin oggupínulítil og ómerkileg, ég hafði ætlað að kaupa gauloises fyrir þennan vin, reiknaði með að það hlytu nú að fást franskar sígarettur á vellinum, en nei, breskar og bandarískar. Undarlegt. Þarna var líka einn ræfils kaffibar með einum afgreiðslumanni fyrir margar vélar sem voru að fara. Ásdís var ekki alveg sátt við þetta, enda er hún með platínukort og á rétt á að fara í lounge. Við vorum líka búin að sjá miklu flottari búðir annars staðar á vellinum. Hún spurði hvort hún mætti ekki fara þar inn, en fékk þau svör að þar sem við séum í Schengen, fáum við bara litla og ómerkilega búð og ekkert fínt svæði til að bíða eftir vélinni.

Get bara ómögulega skilið hvað það kemur málinu við, ef einhver veit röksemdafærslu fyrir þessu má hann/hún gjarna láta mig vita.

Nú, keypti samt einn ost í pínubúðinni, þrátt fyrir að hafa verið settur í „lofttæmdar“ umbúðir tókst mér að finna lyktina af honum alla ferðina. Afsakaði mig við sessunaut minn en sem betur fór hafði hún ekki tekið eftir neinu (þetta var sami osturinn og ég tók síðan með mér í ostapartíið góða).

Leifsstöð gekk fyrir sig eins og venjulega, keypt ein gin og smá nammi, ætt í rauða hliðið og borgað af aukavíninu – dettur ekki í hug að svindla á því, hreint ekki svo mikið sem maður þarf að borga ef maður er með þokkaleg vín með sér (borgar sig samt ekki að kaupa tveggja evru ruslvín, þá er maður farinn að borga fáránlega mikið miðað við gæði á víninu). Tollvörðurinn var vinalegur og skemmtilegur, það er yfirleitt bara mjög fínt að eiga við þá í rauða hliðinu.

Fékk far með Arnheiði í bæinn ásamt Önnu og Bryndísi, hún hafði geymt bílinn á vellinum, síðan með Önnu, hennar maður kom að ná í hana til Bryndísar og ég fékk að fljóta með vestureftir. Takk stelpur, og takk fyrir ferðina, allir vinnufélagar. Sérstakar þakkir til Örnólfs og Helgu sem komu heim með bolinn minn og:

hnífapörin sem ég keypti – í sætu búðinni…

illt

í hálsinum, nei ekki inni í hálsi heldur með svona tak vinstra megin eins og ég hafi sofið asnalega. Nema ég byrjaði í gær og er verri í dag – eða var það þegar ég vaknaði í nótt við hálfgerða martröð, dreymdi íbúð og sjávardýr, meðal annars fullt af risastórum humrum, einn gígantískan krabba og tvær sjávarskjaldbökur með slönguhausa. Endaði á því að önnur (örugglega baneitraða) skjaldbakan stökk á mig og beit mig vinstra megin í hálsinn, þá náttúrlega vaknaði ég og var illt. Tók verkjatöflu, verstur fjárinn að eiga ekki íbúfen bara parkódín, held það sé ekkert vöðvaslakandi. Þarf að kaupa vöðvaslakandi…


bland í poka

teljari

  • 374.138 heimsóknir

dagatal

maí 2008
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa