Archive for the 'tölvur' Category

botnfraus

hjá mér tölvan áðan, kisa settist á lyklaborðið og sat þar örugglega í mínútu, þegar ég kom aftur hreyfðist hvorki mús né skrifaðist af lyklaborði.

Kannski hún ætti frekar að heita Morri en Loppa?

vá hvað

ég er gríðarlega ánægð með sjálfa mig núna – ákvað að gera úrslitatilraun til að setja inn íslenska stafi í Finale, neyddist til þess nefnilega fyrir nokkru síðan þegar vélin mín hrundi, að uppfæra stýrikerfið í snjóhlébarðann (Snow Leopard, nýjasta Makkastýrikerfið). Hingað til hefur engum tekist að ná íslensku stöfunum inn, en eftir smá fikt, reyndar minna en ég hélt, gekk þetta bara í gegn. Ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar stafirnir birtust í textaboxinu (maður skrifar textann yfirleitt fyrst inn í box og límir síðan undir nóturnar frekar en að skrifa beint í nóturnar. Hljómar asnalega en er samt talsverður kostur, hægt er að taka texta úr öðrum skjölum og líma inn í textaboxið og eiga aðeins við hann þar, frekar en að slá allt beint inn. Það er reyndar líka hægt að skrifa beint undir nóturnar ef vill). Allavega komu stafirnir í textaboxið, ég hélt niðri í mér andanum meðan ég límdi hann síðan við nóturnar, en þeir héldust inni. Alla leið yfir í prentun og .pdf skjal.

Jei!

sá yngsti

hér á bæ er að safna sér fyrir Nintendo DS leikjatölvu, hrikalega er þetta dót dýrt! 36 þúsund fyrir vélina og auðvitað fylgir enginn leikur eða neitt. Ekki eru þeir nú ódýrir heldur.

Gengur frekar hægt að safna, hann fær 500 krónur á viku í vasapening, á nú þegar 15 þúsund. Búinn að biðja um peninga í jólagjöf…

lyklaborðið mitt

gafst upp í morgun. Reyndar orðið frekar gamalt, ég fékk að mig minnir ekki nýtt lyklaborð með þessari vél, sem er nú orðin að verða tveggja og hálfs árs. Lengi búið að vanta á það vinstri hástafatakkann, spurning hvort ég geti vanið mig á að nota hann aftur, var alltaf farin að nota þann hægri, líka þegar ég hef verið á vélum þar sem allt í lagi er með báða takka. Svo var borðið líka stundum farið að pota inn auka bilum, þar til í morgun að biltakkinn virkaði bara alls ekki. Alveg í svona 5 mínútur. Var búin að bölva þessu og búin að klippa út bil til að líma (það er talsvert pirrandi) en eftir smástund bara gafst blessað borðið alveg upp.

Hjólaði út í apple og fjárfesti í nýju lyklaborði, flatt og voða fínt. Hitt er í uppþvottavélinni í augnablikinu (nei, ekkert uppþvottaefni, já ég hef bjargað borðum amk. tímabundið með þessu, bara passa að þorni vel). Nei er ekki enn farin að nota vinstri hástafatakkann.

Nú langar mig út – en ekki alveg strax, morgunninn fór fyrir lítið í samningu.

Smári

með áhugaverðan póst, hér. Lesa.

fjárfesti*

í vídjótökuvél um daginn, þegar vídjófídusinn á myndavélinni minni bilaði, efast um að það svari kostnaði að gera við hann og ég var hvort sem er hundpirruð á honum þar sem hann tekur bara 3 mínútur, ekki hægt að stilla á lengra myndskeið.

Komst að því þegar ég kom heim að það gæti verið bögg að samhæfa vélina makkanum, hvað er með að hafa ekki hugbúnað fyrir hvorttveggja með svona vélum? Fann væntanlega út úr því, hægt að hlaða niður plástri til að láta iMovie lesa merkin frá vélinni.

Ætlaði svo að reyna þetta í dag en þá þarf að tengja græjuna framhjá batteríi í gegn um hleðslutækið til að hlaða inn á tölvu og ekki nóg með það heldur þarf batteríið að vera í hleðslutækinu að ég best sjái. Og ég vil láta batteríið klárast áður en ég hleð það.

Skilur þetta annars einhver?

Sem sagt, þó ég viti að þið bíðið öll með öndina í hálsinum eftir myndum frá tónleikunum hennar Fífu í dag – það verður því miður að bíða smá ennþá…

*afsakið að ég skuli nota þetta ljóta orð.

hér hefur

ýmislegt gerst í dag.

Búið að hengja upp nýtt fatahengi í forstofuna (jólagjöf okkar til okkar sjálfra), losa eina hundleiðinlega stíflu í rennu, leggja eitt stykki línu og tvo tengla, taka til í svefnherberginu (löngu tímabært), búa til jólaís, hengja upp gardínu í herbergi stráksa og svo stendur til að hengja upp nýjar í stofunni líka – búin að eiga þær síðan í sumar. Já og klára að pakka þremur gjöfum sem fara austur á Egilsstaði á morgun.

Svo náði ég að klúðra vafranum hjá mömmu, en sem betur fer hef ég aðgang að bestu nethjálp landsins, takk strákar, aftur, fyrir að redda mér fyrir horn. Og meira að segja hjálpa með vandann sem ég settist við vélina hennar mömmu til að laga.

miðborgarkortið

jæja, smá jólagjöf í formi úttektar fékk maður í Suzuki, örfáa þúsundkalla sem við máttum velja um hvort væru í formi Miðborgarkorts eða Kringlukorts einhvers.

Klárt ég valdi miðborgina, enda fer ég ekki í Kringluna nema í ítrustu neyð.

Maður þarf að virkja kortið á vefsíðu, ég ætlaði þangað núna, nema hvað, ég fékk svona kort í fyrra þannig að ég átti aðgang fyrir.

Með aðgangsorði

Sem ég auðvitað man ekki fyrir fimmeyring. Búin að prófa þau sem mér dettur í hug, ekkert virkar.

En á blessaðri síðunni er hvergi hnappurinn: Gleymt lykilorð, eða neitt álíka. Dæmigert. Og skrifstofa kortsins lokaði klukkan sex. Reyndar opið á morgun.

Hvað er með að hafa ekki svona hnapp? Hvernig á maður að muna lykilorð sem maður notar einu sinni á ári?

Beats me.

firefox

er tekinn upp á því að vera alltaf hrynjandi hjá mér. Grrr. Bara byrjaði á því í gær, hefur aldrei látið svona áður. Vorum ekkert að sækja nýja uppfærslu eða neitt. Glatað.

arrg

já, þetta er prívat og persónulegt arrg, ekkert með kreppu að gera.

er orðin svo pirruð á Finale, aðalforritinu mínu, á nýjustu útgáfuna en get ekki stofnað ný skjöl í því, þarf alltaf að vinna frá template sem er hundpirrandi. Svo það sem er verra, forritið helst ekki opið þegar farið er milli notenda á tölvunni, slekkur alltaf á sér. Autosave virkar ekki nægilega vel heldur.

Sýnist stefna í að ég þurfi að læra á Sibelius. Tja, ókei, þarf eiginlega að læra á það hvort sem er, en tími ekki að kaupa það…

skanni

búin að vera lengi að hugsa um að kaupa mér skanna, lét verða af því í dag, svona áður en verðið á þeim rýkur upp úr öllu valdi. Hér er græjan, víst mjög fínn myndaskanni, enda er það líka aðalmálið. Maður er víst smátíma að læra á hann, best að gera bara helling og glás til að byrja með (pabbi, þarf að fá slatta af myndunum þínum) til að maður þurfi ekki að rifja upp hvernig á að nota græjuna í hvert skipti.

En fyrst þarf að finna pláss fyrir hann. Ekki séns að Kubburinn víki ofan úr hillu. Frekar að hætta að vera með bunka af dóti bak við skjáinn. Hmm.

frost

Erum enn að taka til í bókahillunni í skrifstofunni, í dag geisladiskahillan, mátti henda slatta af diskum, gömlum útgáfum af forritum og fleiru. Einn disk setti ég í drifið, á honum myndir frá leikskólanum hans Finns. Ekki gott mál, þvílíkur Mjallhvítardiskur, ég held að ég hafi aldrei lent í jafn illilegu tölvufrosti, allavega ekki síðan OSX

Reyndi að endurræsa, ekkert gekk, fann ekki gat til að stinga inn bréfaklemmu, fór í lappann að leita, þá fann ég að það er víst gat, maður þarf að draga niður lokið af diskdrifinu handvirkt. Veit ekki hvað tók langan tíma að vasast með þetta.

Það er búið að henda þessum diski…

metsókn

Firefox stefndi á að ná metsókn á forriti í dag, glænýrri útgáfu af forritinu, þann 17. júní 2008.

Ekki veit ég hvort það náðist (eða jú, en enn svolítið langt frá markmiðinu, samt alveg nokkrar klst. eftir í ‘Meríkunni)

Allavega náði ég í mitt eintak (þitt líka, hér? eða þá á firefox.com, ef hinn virkar ekki) og sveimérþá, íslensku stafirnir virka, árans Finale nær ekki að klúðra þeim. Ég er búin að vera hundpirruð yfir að geta ekki notað Firefox, að mörgu leyti er hann mun betri en Safari.

Breytir reyndar ekki því hvað árans ruv.is er mikið IE miðað DRASL! segi frá því síðar.

var að velta

fyrir mér hvort ég ætti að taka lappann með. En nei, nenni því ómögulega, er ekki viss um að maður komist í net í vélinni (og ef það er hægt er það bókað dýrt) eða þá á hótelinu. Nevermænd, ég ætti að lifa af netlaus fram á þriðjudag. Kortið í myndavélinni er risastórt þannig að ég þarf ekki að hafa tölvuna með sem geymslu, nei, bækur og krossgátur, þaðheldégnú.

þetta

hér finnst mér fyndið…

heppni

já, mín megin, verulega heppin að hafa ekki beðið með að hjóla í tryggingarnar og kaupa tölvuna, Nanna óheppnari. Efast um að næsta sending verði jafn ódýr.

Ætli þjónustuleysið hafi eitthvað með þetta að gera…?

ný tölva

Gamla tölvan hennar Fífu datt í gólfið um daginn og skjárinn á henni eyðilagðist. Sem betur fer erum við með innbúskaskótryggingu þannig að viðgerðin á henni fæst bætt. Fengum það útborgað, bættum við sjálfsábyrgð og 15 þúsund kalli og keyptum nýja. Gamla druslan, með svörtum flekkjum á skjánum, dugar mér í LHÍ, ætlum ekki að henda henni. Nú eru semsagt 4 tölvur hér heima, 5 ef við teljum leikjatölvuna með.

Tölvuvædd fjölskylda, eða hvað?

spurning um nýjan skjá?

verð að viðurkenna að mig langar í þennan:

fleiri myndir hér

b-vítans búálfarnir

nú hafa þeir þurft að nota hleðslutæki á iBook, getum ekki hlaðið tölvuna unglingsins. Ég er gersamlega handa- og fótalaus í kennslunni í lhí tölvulaus þannig að ég fór með hana niðureftir upp á von og óvon að fá lánað hleðslutæki.

Það tókst sem betur fer, enda eru eiginlega allir í lhí á makka.

Hinsvegar er þetta bara fáránlegt, ekki svo margir staðir sem maður myndi setja svona hleðslutæki. Urrgh.

svo er nú spurningin hvað ég geri þegar Fífa þarf að fara að nota vélina í skólanum (væntanlega á næsta ári). Hummm.

hananú, þá er litli gaur

mættur á msn. Hlaut að koma að því. Búinn að vera að væla um það í nokkra daga, hann hefur voða gaman af því að tala við bottana sem Freyja er með inni hjá sér og svo gæti reyndar bara verið afskaplega sniðugt að geta náð í hann, vitandi að hann er eiginlega alltaf í tölvunni…

Efast samt um að nokkrir af vinum hans séu með svona, en hei, ekkert slæmt að vera fyrstur.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa