Sarpur fyrir 9. júní, 2009

nauts!

nú eru spammararnir alveg á hælunum á mér, ég farin að fá spam á tékknesku!

Dagur 2. Messa og tónleikar

Eftir allt of örfárra klukkutíma svefn var ræsing. Stelpurnar áttu að syngja í messu klukkan tíu, við létum ræsa morgunmatarliðið út fyrir okkur hálftíma áður en morgunmaturinn byrjar venjulega á hótelinu (hálfníu, þarna er greinilega ekki gert ráð fyrir að gisti fólk sem er að gera annað en slæpast í Prag).

Á morgunmatarborðinu var bæði kókópöffs (eftirlíking) og Nutella (alveg ekta) við mikinn fögnuð ungviðisins. Fyrir okkur hin, brauð, ostar, sultur, skinkur og pylsur, hunang, jógúrt og múslí, já alveg ljómandi morgunmatur.

5-7 mínútna gangur í kirkjuna (nefndi ég í gær að hótelið var mjög vel staðsett, bara svona þriggja mínútna gangur á torgið í gamla miðbænum). Upphitun, ekki veitti af, enda kalt í kirkjunni.

Messan sungin, sálmar á tékknesku, við bara með sálmabækur og sungum með. Mjög vel tekið undir, sem betur fer, full kirkja fólks. Stelpurnar fengu að syngja 3 númer, ég tók aðeins undir í Ég vil lofa, 1. sópran hafði ekki náð alveg upp í upphituninni. Það var samt eiginlega engin þörf á því í messunni sjálfri, enda raddirnar vaknaðar.

Ég ætla aldrei að kvarta undan lengd á messum hér heima framar. Þessi var nánast tveir klukkutímar, löng ræða og heillöng altarisganga. Var með bók með mér og laumaðist til að líta í hana á meðan ræðan var, enda skildum við auðvitað ekki eitt aukatekið orð.

Eftir messu fórum við Jón Lárus með Þóri ræðismanni að útbúa miða með auglýsingum fyrir tónleikana um kvöldið. Komum við á Starbucks, þar er nothæft kakó. Vorum svo heillengi að vesenast með að búa til miðana, fyrst kunni ekkert af okkur að taka skjáskot á Windoze, þeas. bara bút af skjánum (vorum að búa til kort með kirkjunni merktri inn á til að hafa á miðanum), endaði á því að henda minni litlu vél í samband, ná í mynd og senda Þóri í tölvupósti til að færa milli véla. Vesen punktur cz. Gekk samt á endanum, síðan sátum við þrjú og klipptum niður miða, gerðum 3 á hvert A4 blað. Út úr þessu komu um 400 miðar.

Við vorum alveg hálftíma seinni en við ætluðum upp á hótel að hitta mannskapinn. Gerði reyndar ekkert til, Jónsi kórstjóri notaði tækifærið og messaði yfir mannskapnum.

Nú, í bæinn að syngja, ákváðum nokkra túristastaði, Karlsbrú, við klukkuturninn, torgið, stoppuðum á 3-4 stöðum og sungum. Alls staðar þar sem stelpurnar sungu dreif að fullt af fólki og miðarnir voru rifnir út.

Svo var hópnum sleppt lausum og við Jónarnir fórum og fengum okkur gígantíska hamborgara og dökkan Bud (ekki Jónsi reyndar, prinsípp að fá sér ekkert í glas fyrir tónleika, en hann fékk að smakka hjá okkur).

Upp á hótel, við rígfullorðna fólkið (lýsing ræðismannsins) fékk sérherbergi, alveg ljómandi gott, verð að viðurkenna að ég var pínu fegin. Eiginlega slatta, enda lagði ég mig og steinsofnaði í smástund, ég hefði held ég ekki séð mig geta sofnað í kojunni inni hjá stelpunum, auðvitað stanslaus umgangur og ekki hefði ég kunnað við að segja þeim að steinþegja og halda sig úti frá sínu eigin herbergi svo ég gæti sofið. Nibb. Á meðan ég lagði mig fór Jón Lárus út að skoða umhverfið (les leita að uppáhaldsbjórnum okkar, Master). Fann eina krá með slíkan á krana.

(þetta er reyndar sá millidökki, hann er ekki alveg eins góður – en samt! Þessi bjór er ekki framleiddur á flöskum, bara krana. Frekar töff)

Jónsi hringdi í mig frá kirkjunni, stelpurnar höfðu átt að koma með kórdiska með sér til að selja eftir tónleikana en allar sem ein gleymdu því. Ég fór inn í gamla herbergið okkar, fannst ég vera eins og innbrotsþjófur að róta í töskunum (sorrí stelpur), hafði eina 15 diska upp úr krafsinu og kom með þá á tónleikana. Seldist einn diskur – reyndar sá eini sem seldist í ferðinni. En við gáfum nú reyndar nokkra líka.

Tónleikarnir voru flottir, betri en heima, ekki alveg fullsetið en ekkert skammarlega fátt heldur.

Eftir tónleika var búið að redda mat fyrir hópinn á staðnum sem hét einu sinni Reykjavík. Mátti velja um hamborgara eða þá tékkneskan matseðil. 16 borgarar fuku, nánast akkúrat helmingur lagði í tékkneska matinn. Sveik ekki, við JLS fengum okkur bæði steikta svínaskanka með súrum gúrkum, piparrótarmauki, sinnepi og gríðargóðu brauði. Algjör snilld. Nokkrar af stelpunum fengu sér bjór, þarna er löglegur áfengisaldur 18 ára þannig að það var lítið hægt að segja við því, svo lengi sem ekkert óhóf var í gangi. Reyndi ekkert á það, ósköp rólegar.

Sátum áfram í góða stund og spjölluðum eftir að stelpurnar fóru í bæinn. Tókum auðvitað loforð af þeim að ferðast um í hópum og ekki fara út fyrir alfaraleið. Allt í fína.

Upp á hótel, nánast engar stelpur mættar þangað, ekki nokkrar áhyggjur af þeim. Tékknesk þjóðlagatónlist inn um gluggann hjá okkur og auðvitað heilmikill hljóðheimur. Heyrðum í hreinsunarbíl fara framhjá, kom ekki á óvart enda göturnar meira og minna tandurhreinar. Sumar borgir mættu taka Prag sér til fyrirmyndar…

hrikalega

er þúrörið stundum lengi að taka við sér, ég sendi inn 3 myndbönd úr ferðinni fyrir klukkan 2 í dag (klukkan er núna 7), 2 eru komin í gegn en eitt rúllar bara ennþá og bíður.

tiltekt

ætluðum að fara að taka aðeins til í íbúðinni í dag (hún er viðbjóður, hreinn og tær – drasl úti um allt og skíturinn, maður minn!) en einhvern veginn breyttist það í ‘taka til í bókahillunum’ tiltekt. Reyndar alveg þörf á því, glás af bókum sem lágu ofan á þeim lóðréttu og svo keyptum við jú bæði allar þessar bækur sem ég talaði um hér nokkrum færslum neðar, plús síðan þrjár í viðbót.

Tja fjórar, en bara þrjár eftir af þeim ennþá. Farið nánar í það síðar í ferðasögunni.

Allavega, tókst reyndar að raða úr öllum töskum og svolítið minna drasl en það sér ekki sérlega mikið á óhreinindunum. Kemur allt saman.

dagur 1. Þangað

Keppnisferð Grallara til Olomouc í Tékklandi, maí-júní 2009

Dagbók skal haldin að vanda. Hefði verið hægt samhliða en meira gaman eftirá, lengir ferðina og þá þarf ég heldur ekki að fylla litlu vélina af myndum og þannig. Höldum vananum, mjaka þessu inn eftirá. Engar myndir fyrsta daginn, mynda- og vídjóvélarnar voru ekki dregnar upp fyrr en daginn eftir.

Sveimérþá, hvað á eiginlega að þýða að boða kórinn inn í kirkju klukkan 4 að nóttu þegar mæting á völlinn er 05:20? Það tekur ekki alveg tvo tíma og 20 mínútur að keyra til Kebblaíkur. (tja, miðað reyndar við ýmsar tímasetningar í ferðinni er þetta væntanlega ekki alvitlaust). Daginn áður, þegar Jón Lárus flaug út á sama tíma höfðum við sett klukkuna á 4:05, sko til að vakna, ekki mæta neinsstaðar…

Rétt mundi eftir að henda niður hlussumillistykkinu fyrir myndavélarhleðslutækið, er með breskri kló. Hvert ég henti því niður var aftur góð spurning (er ekki enn búin að finna það þó ég sé komin heim).

Köttsa hafði ekki kúrt uppi í hjá mér um nóttina eins og hún er vön, heldur ekki Fífu né tómu rúmunum krakkanna, ekki uppi í sófa eða í körfunni í þvottahúsinu. Hmm! Leist ekki á að fara af stað og halda að kisa væri týnd! Sem betur fer sýndi hún sig áður en við Fífa fórum af stað svo við gátum klappað henni smá. Vorum búin að fá riseigandann til að sjá um hana, þar til krakkarnir gætu tekið við eftir helgina.

Nújæja, af stað skyldi haldið, ekki gengi ef fararstjórinn væri (mikið) seinni en kórinn út á völl. Tókst auðveldlega, við Fífa vorum búnar að ganga frá bílnum á rándýra gæslustæðið og tékka okkur inn þegar kórinn og kórstjórinn sýndu sig á svæðinu. Gekk nokkuð átakalaust að fá sæti í vélinni, reyndar skil ég ómögulega fídusinn við sjálfsinnritun þegar maður þarf síðan að standa í sömu röð og hinir til að skila töskunum. Sáum ekkert borð sem var bara baggage drop off, allir fóru í aðalröðina.

Byrjaði áætlun: Láta Fífu í friði.

Venjuleg aðalfundarstörf – neinei fríhafnarstörf, varla þörf á að telja upp, kaupa sjampó og rauðvínsflösku, eitthvað að lesa, danskt kellingablað til að eiga eitthvað að sofna yfir, heitt súkkulaði og croissant á Kaffitári. Súkkulaðið þar er drekkandi ef maður biður um smá salt samanvið og sleppir rjómanum. Enginn Mokkastandard samt, ónei.

Flug ekki viðburðaríkt, Æslander hætt að dæla í mann ókeypis mat og lánar ekki teppi lengur. Við Fífa vorum með nesti en ég splæsti á mig teppi og uppblásnum kodda, kom sér síðan oft vel í ferðinni, hellings rútuferðir. Steinsofnaði undir teppinu. Gott.

Lent í Frankfurt, Jón Lárus og Grétar bílstjóri tóku á móti okkur. Grétar hafði keyrt með okkur áður, þegar Hljómeyki fór í keppnina í Riva del Garda, níu árum fyrr. Ætluðum að stoppa og fá okkur kvöldmat í Plzen en enduðum á að stoppa á landamærastöð. Það var vesen. Enginn hraðbanki! Hvað er með að hafa engan hraðbanka? Vildi til að við JLS höfðum keypt slatta af evrum sem okkar eigin gjaldeyri og þær voru notaðar til að kaupa mat ofan í allt liðið. Eins gott. Settum hámark á hópinn, 100 tékkneskar krónur fyrir mat og drykk á mann. Fékk skrítnasta svínasnitsel ævinnar, ekkert panerað og með sirka hálfum lítra af sveppasósu. Hreint ekki bragðvont samt, súrkál og soðið franskbrauð með.

Áfram til Prag, Þórir ræðismaður tók á móti okkur og lóðsaði áfram, gistum á hosteli í miðbænum, kojur og læti (jámm kojur og jámm læti, við JLS vorum í 12 manna herbergi með yngstu stelpunum í hópnum. Ég er eiginlega orðin of gömul fyrir svona). Þegar allir voru komnir í þessi 4 herbergi sem hópurinn hafði (Jónsi kórstjóri fékk sérherbergi reyndar – það var eitt af þessum fjórum) fór Þórir með okkur í smá rúnt um miðbæinn svo stelpurnar myndu fá pínu hugmynd um hvert skyldi halda þegar þær fengju lausan tíma. Þaddna er H&M, hér er MacDonalds – og svo framvegis.

Einn bjór + með Jónsa í lokin og svo bólið. Stelpurnar í okkar herbergi voru örugglega álíka fúlar að hafa okkur með og við að vera í flatsæng, mesta furða að þær kvörtuðu ekki. Fóru hins vegar að æfa raddirnar sínar þar til ég þaggaði niður í þeim, enda klukkan orðin hálfeitt, mæting fyrir æfingu og messu snemma morguninn eftir og við væntanlega ekki ein á hótelinu.

Gott að fara að sofa. Hvenær er það ekki, annars?


bland í poka

teljari

  • 374.138 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa