Sarpur fyrir 11. júní, 2009

Dagur 4 – Frjáls dagur í Prag

Tja frjáls að mestu leyti, reyndar æfing um morguninn, ekki alveg til tólf, of margar sem þurftu á svona að halda:

Unglingarnir fengu 250 czk til framfæris þennan dag, þar sem enginn sameiginlegur kvöldmatur var á planinu. Fannst þær vera ríkar. Við fullorðna gengið fórum á pizzustað skammt frá hótelinu (samt ekki þennan með perranum). Fékk mér calzone (lokaða) með sveppum, beikoni og brokkólí, ég hef aldrei fengið brokkólí á pizzu áður. Var allt í lagi en fjögurra osta pizzan bóndans var samt betri.

Tók til í Prag, sá lausan rennustein og gatið sem hann hafði verið í. Tróð steininum í gatið og hoppaði smá. Prag í lagi aftur.

Fundum loksins bar sem selur Master og átti hann til. Stúlkan harðneitaði að selja okkur glas samt, ekkert auðvelt að komast yfir þessi glös, þau voru ekki til í fyrirtækisbúðinni í Plzen í fyrra og liggja greinilega ekki á lausu á pöbbum heldur. Hmm!

Aftur á hótelið til að ganga frá reikningnum, hótelið var mjög ódýrt en samt hef ég aldrei nokkurn tímann borgað svona háa upphæð en fengið svona pínulitla kvittun (það má margfalda tékknesku krónuna með um það bil 7):

Hittum Þóri ræðismann til að ganga frá því sem hann hafði lagt út (tryggingu fyrir hótelinu). Spjölluðum við hann góða stund, enda hinn skemmtilegasti maður. Búinn að minnka aðeins við sig, hættur með Restaurant Reykjavík, rekur núna Haagen-Dazs ísbúð, því miður var hún lokuð vegna stækkunar annars hefði ég bókað verið fastagestur.

Við rákumst varla á stelpurnar allan þennan dag.

Fórum svo tvö í langan göngutúr, niður að á, gengum framhjá þessari styttu:

hún er reyndar enn flottari upplýst að kvöldi.

Við Fílharmóníuhöllina í Prag var reynt að ota að okkur auglýsingu um tónleika, svona nobody’s favourites, Árstíðirnar eftir Vivaldi, Eine kleine Nachtmusik, best of boring. Sagði að nei, ef þeir hefðu nú verið að bjóða upp á almennilegt prógramm, einhverja stóra flotta sinfóníu eða kannski einhverja spennandi tékkneska músík hefðum við örugglega látið freistast. Maðurinn með auglýsinguna sagðist skilja okkur afskaplega vel. Plakatið við höllina var orðið gamalt og snjáð, ég hef á tilfinningunni að þetta prógramm sé spilað nánast á hverju kvöldi, allavega utan áskriftartímabils. Grey hljóðfæraleikararnir hljóta að vera orðnir alveg hroðalega leiðir á þessu. Nákvæmlega sama prógramm og var veifað framan í okkur fyrir þremur árum þegar við komum síðast til Prag.

Settumst á bekk í sólinni, hlýjasti dagur ferðarinnar, eina skiptið sem ég var fegin að setjast í skuggann. Fínt útsýni að kastalanum:

Vorum að spá í að setjast á útiveitingahús við ána og fá okkur eitthvað að borða, en hávaðatónlist fældi okkur frá. Hvað er með að hafa svona muzak í gangi þegar væri bara svo gott að geta hlustað á niðinn í ánni og fuglasönginn?

Yfir á hinn bakkann, slepptum kastalaskoðun að þessu sinni (reyndar, þar sem þetta var þriðja ferðin okkar til Prag gátum við sleppt alveg túristapakkanum sem var ágætt, alveg nóg að gera slíkt í fyrsta skiptið. Á einum stað var hægt að ganga alla leið niður að ánni, frekar næs.

Fundum okkur síðan veitingahús með Master, önnur tilraun að því að kaupa glas. Snitsel og franskar, fengust ekki kartöflukökurnar sem voru svo góðar í Plzen (Bramborák), gott samt. Bauð Jóni að kaupa handa honum efsta desertinn (hann borðar ekki hindber, eitt af afskaplega fáu sem honum þykir vont):

Svo fór að rigna. Bannað að þynna Master!

Glasið fengum við síðan að kaupa, 200 czk, með því skilyrði að það hyrfi skyndilega ofan í pokann hjá okkur. Ekki vandamálið. Reikningur, borguðum, fórum, uppgötvuðum að við höfðum væntanlega verið snuðuð um 150 czk. Héldum að þeir væru hættir þessu, þegar við komum fyrst, árið 1991 þurfti maður að passa sig þvílíkt á veitingastöðum, sama hvaða smáviðvik var gert fyrir mann, alltaf rukkað sérstaklega. Ó vell, glasið fengum við allavega.

Heim yfir Karlsbrú, frekar óspennandi í rigningu og þar fyrir utan var verið að gera við hana þannig að hálf brúin var þakin stillönsum og girt af. Gott að vera búin að skoða brúna, enda mjög flott þegar hún er í lagi.

Upp á hótel aftur, helltum smá rauðvíni í Masterglasið og annað sem við höfðum keypt í túristabúllu fyrr um daginn. Kláraði Rauðbrystinginn eftir Jo Nesbø og bóndinn kláraði Stieg Larsson númer 2.

Síðar um kvöldið kom stór hópur kórsins syngjandi eftir götunni. Einhverjar af stærri stelpunum heyrðu í þeim og ákváðu að hrekkja þær smá, helltu yfir þær vatni. Hefðuð átt að heyra skrækina, auðvitað náði ég þessu ekki sjálfu á band en rauk út í glugga og tók tvo búta rétt á eftir.

og svo:

Ekki mikið síðar dreif að 4-5 lögregluþjóna – liðið var fljótt að láta sig hverfa…

krossið putta

fyrir fyrramálið fyrir mig, takk (ekkert hættulegt í gangi – bara hlutur sem ég vona að gangi upp…)


bland í poka

teljari

  • 373.924 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa