Sarpur fyrir 19. júní, 2009

borga – takk!

dagur 8 – Keppnin

Ræsing hálfsjö um morguninn til að vekja raddirnar, hitað vel upp og svo morgunmatur. Fengum upphitunarsal til að renna í gegn um prógrammið, náðum því nærri öllu (höfðum bara hálftíma).

Síðan var haldið til keppni, vorum í góðum tíma. Ég hafði fengið leyfi til að taka upp okkar kór þannig að ég fór inn í sal og setti upp vélina. Við Jón Lárus sátum síðan inni og hlustuðum á fyrsta kórinn í unglingakóraflokkinum. Það var frekar hughreystandi að þau voru ekkert sérlega góð…

Svo komu okkar stelpur og Jónsi inn í sal, tóku sig vel út í sparibúningunum. Sungu fimm lög, hér fáið þið að sjá Nigra sum eftir Pablo Casals, eina lagið með undirleik sem þær sungu í keppninni:

Tókst að mér fannst gríðarvel, sendi þeim thumbs-up eftir mitt lag. Kláruðu og gengu út, við eltum, ekki tími til að hlusta á fleiri kóra. Hleruðum aðeins inn í salinn, heyrðum að næsti kór var ansi góður. Árans.

Jæja, Šárka lóðsaði okkur á næsta stað, kirkjan þar sem við höfðum klifrað upp í turn. Ekki sérlega mikill tími, 40 mínútur frá því kórinn lauk keppni þar til næsta lota hæfist. Einhverjar voru þurrar í kverkum, ég sá fram á að hafa mögulega tíma til að hlaupa í næstu búð og kaupa vatn. Skaust út, fann búð, fann kalt vatn, var ekki með neinn lausan pening, sem betur fer tók búðin kort, debet virkaði ekki, visað tók sinn tíma, ég var að verða ansi stressuð. Loksins rúllaði það í gegn, en þá vildi pinvélin ekki viðurkenna númerið. Held síðan að stelpan á kassanum hafi séð aumur á mér og leyfði mér að krota á miða, enda var þetta ekki sérlega há upphæð – alveg 1 1/2 lítri af vatni.

Hljóp að kirkjunni, snarhægði á mér, faldi vatnið (kom tveimur flöskum í töskuna og einni inn á mig), vissi ekkert hvort mætti koma með vökva þarna inn. Kórinn á undan okkar var að syngja, sem betur fer næstsíðasta lagið sitt, ég hinkraði á meðan þau kláruðu og gat svo laumað einni vatnsflösku í hvern kirkjubekk sem stelpurnar sátu í. Fjúkk!

Svo var komið að þeim, þarna voru líka sungin fimm lög. Tóku aðal kórhittið íslenska, Eg vil lofa eina þá, eftir Báru Gríms. Það var svo flott hjá þeim að ég hendi því hér inn, þrátt fyrir að það hafi akkúrat byrjað sími að hringja í upphafi (grrr):

Hin lögin voru líka mjög flott, ég þóttist þarna heyra nokkur smáatriði sem dómarar gætu mögulega pikkað í, samt. En þó tandurhreint og mjög músíkalskt og mikið flæði.

Hálfgert spennufall eftir báðar keppnirnar, fórum í mat og svo flestar stelpurnar upp á hótel. Við fararstjórar og kórstjóri röltum upp á skrifstofu hátíðarinnar til að athuga hvað enn stæði út af að greiða, það reyndust vera ríflega 55 þúsund tékkneskar krónur eða um 370 þúsund íslenskar.

Hátíðin tók ekki Visakort.

Glúbb!

Þá hófst mesta barátta við hraðbanka sem ég hef vitað. Við vorum með 8 kort sem við gátum tekið út af, sem betur fer rifjaði ég upp PINnúmerið á Landsbankakortinu sem ég nota annars nánast aldrei, þurftum að fara í hraðbanka frá tveimur mismunandi bönkum. Hlýtur að hafa verið fyndið að fylgjast með okkur, fólk örugglega haldið að við héldum að við værum að vinna í peningaspili, þvílíkt var fagnað þegar okkur tókst að taka út peninga. Ég notaði 3 kort, Jón Lárus einnig 3 og Jónsi 2. Magnað. En tókst á endanum.

Aftur upp á skrifstofuna, borguðum, fengum einhvern smá snepil og loforð um almennilega kvittun seinna um daginn. Upp á hótel. Þar hafði einni stelpnanna tekist að brjóta glerborð (reyndar ekki þennan dag), þúsundkall tékkneskar átti að borga fyrir það og ónei, ekki vildi hótelið taka kort fyrir því.

Góð ráð dýr.

Endaði á því að við lögðum peninga inn á reikninginn hennar Fífu og hún kom með okkur og tók út þennan þúsundkall sem þurfti, við hefðum ekki getað kreist meiri safa út úr kortunum okkar þó við gjarnan vildum, þennan daginn.

Klukkan fjögur var stímt í bæinn aftur, þá átti að vera verðlaunatilkynningar og -afhendingar. Vorum komin niðureftir skömmu fyrir afhendingu, þetta fína big-band var að spila á torginu. Stelpurnar fóru auðvitað að dansa, fyrst einar en eftir svona 2-3 lög var torgið orðið fullt af fólki að dansa, smituðu í kring um sig.

Svo var tilkynnt um verðlaun í keppninni, eins og áður hefur komið hér fram fengu stelpurnar gullverðlaun í kirkjutónlistarflokknum en silfur í unglingaflokknum (ég er enn að klóra mér í höfðinu yfir hvar dómararnir gátu skrapað heil 12 stig af kórnum þar – eins og ég sagði fyrr í færslunni fannst mér ganga betur í þeim flokki), silfurverðlaunin voru fyrir 88 stig en í kirkjuflokknum fengu þær heil 96 stig af 100 mögulegum.

Þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina hjá stelpunum!

Hrópað og sungið og dansað, og þegar Jónsi kom niður af sviði með verðlaunin sást ekki í hann fyrir stelpugerinu:

Hér svo mynd af hópnum með bæði verðlaunin:

Eftir fagnaðarlætin, upp á hótel og klára að pakka, henda dótinu út í rútu, fórum á síðustu tónleikana, náðum að hlusta þar á tvo kóra áður en við stungum af – æðislegur matur sem við fengum að þjófstarta á þar sem við urðum að rjúka af stað til Frankfurt ekki síðar en klukkan hálfníu:

Svo tók við ansi hreint löng rútuferð. Jónsi var kvaddur um ellefuleytið, hann fór út við Prag, ekki á leiðinni heim strax. Þó næsti dagur hafi nánast runnið saman við þennan, kemur sér færsla um hann.

Þessi er orðin feikinógu löng…

góður

þessi:


bland í poka

teljari

  • 375.027 heimsóknir

dagatal

júní 2009
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa