Zell am See/Krimml Tag dreizehn

Jæja. Næstsíðasti heili dagurinn í ferðinni.

Fjallgönguhatarinn hérna megin var búin að spotta ástæðu til að fara í fjallgöngu. Fossa! Eeeeeeelska fossa, læki, unnir, ár og allt vatnstengt.

Krimmler Wasserfälle, eða Krimmafossar eins og við kölluðum þá (dómarinn í föruneytinu á heimavelli) eru hæstu fossar Evrópu. Í þrennu aðskildu lagi, það hefði reyndar alveg verið hægt að skipta þeim í fleiri hluta.

Lögðum svolítinn spöl frá fossunum. Fundum ekki stæði í skugga. Þarna eru vel skilgreind bílastæði, kostar ekkert að leggja en kostar inn á svæðið. Líka fyrir Austurríkisfólk sjálft. Sem er bara sjálfsagt mál. Stígurinn upp og öll aðstaða pottþétt. Svona ættum við að sjálfsögðu að hafa þetta hér heima líka! Löbbuðum yfir þennan læk, dauðlangaði að dýfa fótunum í en það var hægara sagt en gert. Ekkert hægt að komast niður af brúnni með góðu móti og svo var ég líka í scarpa skónum mínum en ekki sandölunum.

d 13 lækur

Það er hægt að ganga upp með öllum fossunum. Ansi hátt reyndar, ég reiknaði ekki með að fara alla leiðina upp fyrir efsta foss. Reyndar stefndi ekkert okkar á það enda svo sem óþarfi.

Vanari fjallageiturnar voru fljót að komast fram úr okkur hinum en eins og daginn áður gerði það ekki hætishót til. Nóg var til að njóta! Það liggur við að ég kaupi aðgang að WordPress í stað þess að vera á ókeypis útgáfunni til að geta sett inn vídeó af þessum fossum! Hér fyrsta sýnin að neðsta fossi:

d 13 fyrsti foss í fjarska

Regnbogar galore:

d 13 fyrsti regnbogi

þessir minntu pínulítið á neðri fossana við Fjallfoss/Dynjanda, bara meiri gróður og reyndar talsvert vatnsmeiri:

d 13 tveir fossar

Það voru einar 11 stöðvar til að stoppa, taka myndir, baða sig í úðanum, á leið upp. Oft hægt að fara aðeins nær fossunum, stígar og handrið eins og þurfti. Stundum tröppur.

d 13 meiri regnbogi

Ég stoppaði í 1170 metrum, fannst þetta bara orðið ágætt tramp, komin upp fyrir fyrsta foss og með frábært útsýni að öðrum fossi. Hafði ekki tekið eftir því hver byrjunarhæðin var. Hún var nefnilega 1070 metrar svo þetta var bara 100 metra hækkun. Sagði Jóni að halda bara áfram upp og ná þeim hinum, ég myndi bara sitja og bíða eftir þeim og njóta útsýnisins.

Nema hvað. Eftir smástund kemur sms frá Ástráði. „Erum á veitingastaðnum fyrir ofan 2. foss í 1250 metrum. Komið þið upp eða pikkum við ykkur upp á leið niður?“

Ég. Hmm. Hlýt nú að ráða við 80 metra til! Rétt ríflega eina Hallgrímskirkju! Sendi til baka. „Jón gæti verið að nálgast en ég stoppaði en ég ætla samt að halda áfram“.

Svo ég trampaði af stað stíginn. Mætti Jóni við 1210 metra útsýnispallinn, hann hafði farið upp fyrir foss 2 en ekki rekist á þau hin og kom niður aftur. Við sáum húsið fyrir ofan okkur og héldum áfram upp.

Upp fyrir útsýnispall í 1245 metra hæð. Hmmmm! Það voru EKKI bara 5 metrar eftir!

Laug að mér bannsettur! Veitingahúsið var í 1306 metrum, ekki 1250! Svo hann gabbaði mig til að ganga meira en tvöfalt hærra en þar sem ég stoppaði.

Ekki að ég yrði fúl sko! Mjög sátt við sjálfa mig.

Fann alveg fyrir göngunni en svo á veitingastaðnum gat ég samt alveg hlaupið upp tröppurnar eins og ég er vön. Allt önnur áreynsla og ég mikið vanari henni.

Fengum okkur að borða þarna uppi, eitt snitselið til. Og franskar. Reitaði ekki mynd.

Þarna sést efsti fossinn frá útsýnispalli við veitingastaðinn:

d 13 fjarski

Elskidda!

Niður aftur. Náðum að halda í við þau hin í þetta skiptið. Fórum líka niður tvo eða þrjá svona smástíga nær fossunum, sem við höfðum sleppt á uppleiðinni.

Fékk spurninguna hvort ég myndi ekki örugglega breytast í fjallageit. Harðneitaði því að sjálfsögðu en svo er ég nú samt ekki aaaalveg viss þrátt fyrir allt. Sérstaklega miðað við fjallgöngutæknina sem ég lærði þarna.

Bíllinn var svo sjóðandi heitur þegar við komum í hann að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa því. Eyrún hafði skilið símann sinn eftir í bílnum, ekki nennt að labba með hann og hann alveg: „Ég verð að kólna! ég er hættulega heitur!“ Við Jón áttum flösku með sódavatni. Ég skal alveg segja ykkur að 45° sódavatn (ágiskun, en það var mikið heitara í bílnum en í 35° fyrir utan) er veeeeerulega óspennandi drykkur!

Loftkælingin bjargaði bæði síma og okkur. Vatnið var ekki drukkið!

Vel líft í húsinu þrátt fyrir loftkælingarleysi. Smá forréttur heima á verönd og svo tókum við leigubíl í suðurþorpið þar sem við Jón Lárus höfðum spottað tælenskt veitingahús þegar við villtumst fram og til baka að leita að bakaríi nokkrum dögum áður (steingleymdi að skrifa það í blogg þess dags!)

d 13 ban thai

Var að spá í pad thai núðlur en rak svo augun í önd í rauðu karríi, mikinn uppáhaldsrétt. Hann var merktur hot. Ég kallaði í þjónustustelpuna og spurði how hot is your hot? Hún fór að hlæja og sagði European hot. Ég: Ok, það gengur!

þetta var svo alls ekkert of sterkt, bara ljómandi passlegt. Man veit bara aldrei hvað þetta þýðir, thai hot gæti verið fullmikið fyrir mig þó ég sé með þokkalega mikið þol.

Gott var það allavega.

d 13 önd

Snilldardagur. Einn þriggja toppa í ferðinni að mínu mati. Úrslitin í keppninni og svo Aïda voru eina sem gátu keppt við þessa stórkostlegu fossa.

 

2 Responses to “Zell am See/Krimml Tag dreizehn”


  1. 1 Ella 2019-07-20 kl. 08:57

    Afskaplega hljómar þetta vel!!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s




bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júlí 2019
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: