Sarpur fyrir 3. júlí, 2019

Salzburg, Tag zwei

Alveg var það nú óvart að við fengjum heilan frídag áður en nokkuð gerðist í kórakeppninni. Keppnin var skráð frá 19. – 23. júní og fararstjórn hafði auðvitað samviskusamlega bókað ferðina frá 18. – 24. til að missa nú ekki af neinu. Það stóð svo ansi lengi á að við fengjum dagskrá frá keppninni og þegar hún loksins barst þá var ekkert um að vera þar þann 19. og hefði vel verið hægt að sleppa því sem var í gangi þann 23. En gerði svo sem ekkert til, það er mjög gott að geta andað aðeins áður en kórprógrammið byrji.

Dagskrárlaust var nú ekki þennan dag samt hjá kórnum.

Ágætis morgunmatur á hótelinu, við Jón Lárus fórum yfirleitt í ensku týpuna, beikon, egg og tilheyrandi. Kaffi frekar vont, safi þokkalegur, brauð óspennandi. Félagsskapur góður.

Við Jón Lárus skottuðumst í verslunarmiðstöð beint gegn hótelinu, keyptum okkur smá bjór, vín og snakk til að eiga á hótelinu. Ég kann vel við minibarísskápa sem er ekki fyllt á. Hraðbanki líka heimsóttur, fyrsta skipti en aldeilis ekki það síðasta í ferðinni.

Klukkan tíu var lagt af stað í ferð um Salzkammergut svæðið eigi langt frá Saltborginni sjálfri. Stefnan var tekin á hinn myndræna bæ Hallstatt. Óli var gæd á leiðinni og sagði okkur frá hinu og þessu, til dæmis þegar honum bauðst að gerast umboðsmaður fyrir Red Bull á Norðurlöndum, frá kunningja sínum sem átti fyrirtækið en fannst það fullmikið vesen svo hann sleppti því.

Kannski hefðum við dvalið á lúxushótelum og ferðast um í einkaþotum í þessari ferð ef hann hefði tekið þessu tilboði.

Red Bull er semsagt frá þessu svæði:

d 2 Red Bull

Þarna eru nautin!

Til Hallstatt komumst við eftir góða stund í akstri. Bílstjórinn reyndist bráðskemmtilegur og reytti af sér brandarana og fróðleiksmolana svo okkar gæd gat slappað af.

Hallstatt er ekki sérlega ófagur á að líta:

d 2 Hallstatt

Örmjóar götur inn í bæinn, auðvitað slatti af sölubásum enda lifir bærinn væntanlega af túristum eins og fleiri bæir og borgir sem við könnumst við. Mér fannst skrítnast að það skyldi yfirleitt vera leyfð bílaumferð yfirleitt (hvar er aðförin?) en það er náttúrlega ekki hægt að banna íbúum að komast heim til sín. Aðföng í búðir og slíkt hefði nú alveg mátt takmarka við snemmmorgna eins og á Laugaveginum samt.

Hádegismatur míns hóps í græna húsinu þarna í baksýn á torginu:

d 2 torg

Kálfasnitsel. Fyrsta snitsel af aaaaansi hreint mörgum í ferðinni. Eina skiptið sem vínarsnitselið var af kálfi sem er auðvitað hið eina rétta. Frekar skrítið. En við komum svo sem ekkert til Vínar í ferðinni svo það fyrirgefst væntanlega.

Annað ansi áhugavert í Hallstatt var grafhýsi með hauskúpum. Það er svo lítið pláss fyrir grafstæði í bænum að sama plássið er notað aftur og aftur og til að minnast fólks voru hauskúpurnar teknar, brennt í þær nafn viðkomandi og þær geymdar. Frekar magnað. Það þurfti ekkert að brýna fólk til að vera ekki með læti inni í grafhýsinu. Það gerðist algerlega sjálfkrafa að við töluðum í lágum hljóðum:

d 2 hauskúpur

Veðrið var stórkostlegt. Sól og passlega heitt, um 27-28 gráður. Búið að spá skúrum og það stóðst gersamlega á endum að þegar við vorum öll komin upp í rútu byrjaði að hellirigna.

Það hafði staðið til að fara líka og skoða kirkjuna í Oberndorf þar sem Heims um ból var samið og frumflutt á sínum tíma. Reyndar er kirkjan ekki til lengur en það var reist minningarkapella um þetta frægasta jólalag í heimi. Það var hins vegar gersamlega brjáluð umferð bæði vegna rigningar og vegaframkvæmda svo bílstjórinn sá fram á að þetta yrði þriggja tíma aukakrókur eða svo. Það leist hvorki honum, leiðsögugenginu okkar né hópnum á svo því var slaufað.

Aftur til Salzborgar. Frír dagur það sem eftir var. Stytt upp í bili og veðrið aftur orðið yndislegt. Fastagengið gekk í bæinn frá hótelinu í rólegheitunum (já það var stytt upp). Skemmtilegir gosbrunnar sem komu beint upp úr göngugötunni. Ég auðvitað þurfti að hlaupa í gegn um þá, gosbrunna- og vatnsblæti á háu stigi!

Pizza í kvöldmatinn. Á torgi handan við ána. Mjög spes staður, ekki eldað þar og ekki einu sinni við hlið torgsins heldur eitthvað þó nokkuð í burtu og sent á svæðið, svona eins og heimsending nema bara ekki heim heldur á torgið.

Heim á hótel. Aðeins dýft sér í innkaup morgunsins en þó ekki djúpt. Skyldur kölluðu daginn eftir.

 


bland í poka

teljari

  • 375.416 heimsóknir

dagatal

júlí 2019
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa