Sarpur fyrir 8. júlí, 2019

Salzburg, sechster und letzter Tag

Jæja. Þá fór að líða að lokum frækinnar ferðar Dómkórsins til Saltborgar. Einn heill dagur var þó eftir. Heilmikil dagskrá.

Fyrst ber að telja mætingu í messu í Dómkirkjunni í Salzburg. Við ættum að vera vön dómkirkjum. Þessi var þó talsvert ólík okkar fögru litlu kirkju í miðborg Reykjavíkur, risastór og gríðarlega mikill hljómburður. Væri reyndar alveg til í þennan hljómburð hjá okkur!

Í kirkjunni eru að mér taldist heil sex orgel! Tja reyndar held ég nú að sum þeirra séu samtengd og hægt sé að spila á þau frá einum hljómborðshub. Líka eins gott.

Tók eina panoramíska frá sjónarhorni kórsins:

d 6 panorama

Þarna vorum við semsagt að safna okkur saman, 300 manns plús, til að flytja Krýningarmessu Mozarts í kaþólskri messu í Dómkirkjunni. Með hljómsveit og sólistum og stjórnandanum síðan í gær. Þurftum ekki að vera í kórfötum, hamingjunni sé lof!

Mér tókst að koma mér fyrir upp við súlu svo ég gat hallað mér upp að henni. Sem var ágætt. Þetta var semsagt ekki bara hin ca. 17 mínútna Krýningarmessa heldur voru messuhlutarnir fluttir eins og þeir áttu að koma fyrir inni í kaþólsku messunni. Og ekkert var slegið af henni. Svör og sálmar og prédikun og altarisganga (troðfull risastór kirkja og 95% fóru til altaris!) og reykelsi. Ó svo mikið af reykelsi!

mér finnst það eigi að nútímavæða þetta og koma með reykvélar í staðinn eins og eru í leikhúsum. Ekki eins vond lykt og fólk þyrfti ekki að hósta svona mikið!

En Mozart stóð fyrir sínu og klukkutíma og tuttugu mínútum síðar komumst við út úr kirkjunni. Ætlaði ekki að finna Jón Lárus í mannþrönginni en rötuðum saman um síðir.

Rúv hringdi og ég fékk smá pláss fyrir pistil í hádegisfréttum. Besta mál.

Hádegismatur og rólegheitarölt í smá stund og svo mæting hálffjögur fyrir örstutta tónleika í sömu Dómkirkju. Höfðum fengið leyfi fyrir 20 mínútna tónleikum, svona til að rúnna af ferðina. Þarna safnar kórinn sér saman fyrir tónleikana.

d 6 fyrir tónleika

Fluttum þarna ein 6 lög af prógramminu okkar. Engar upptökur held ég en það var unaðslegt að syngja músíkina þarna inni. Enduðum á Himnasmið í hálfgerðu óleyfi því 20 mínúturnar okkar voru búnar.

Þar með var formlegri söngdagskrá ferðarinnar lokið.

Kvöldið yrði klárað öll saman. Fyrst fordrykkur uppi í hlíð með útsýni:

d 6 útsýni

Eyrún hélt smá tölu og afhenti okkur nokkrum í undirbúningnum smá þakklætisvott, Kári hélt líka þakkarræðu og svo var bara skálað og skálað aftur og skálað enn. Ekki veitti af!

 

Svo var lokakvöldverðurinn, haldinn á Sternbräu, veitingahúsi sem Sólrún hafði unnið á þegar hún dvaldi í Salzburg, örfáum árum fyrr! Þríréttað, ljómandi og gaman!

Borðfélagar:

ég veit ekki hvað presturinn var að segja þarna en það hefur verið alveg mökk fyndið!

d 6 presturinn með þetta

Ekki vorum við ein í salnum. Við hliðina á okkur sat nefnilega einn kóranna, háskólakórinn frá Singapúr. Við ákváðum að blanda við þau geði og syngja hvort fyrir annað og syngja saman allt sem við mögulega gætum kunnað. Enduðum meira að segja á að dreifa nótum að Himnasmið og þau lásu af blaði. Ótrúlega skemmtilegt og yndislegt og er það ekki akkúrat þetta sem svona mót ganga út á? Að blanda geði og röddum við fólk frá öllum heiminum! Never mind verðlaun og viðurkenningar.

Eitthvað var fólk síðan frameftir á hótelbarnum að spila og syngja. Ekki ég. Ég veit ekki hvenær ég var síðast svona mikill félagsskítur að þessu leyti eins og í þessari ferð. Gæti haft með það að gera að ég svaf ekki nógu vel, náði um fjögurra og hálfs tíma svefni á nóttu að meðaltali alla ferðina. Veit ekkert hvers vegna, rúmin voru fín, ég vaknaði bara alltaf milli fjögur og fimm.

Steinsofnaði allavega um leið og höfuðið datt á koddann. Hvílík kórferð! Og ekki var nú samt allt úti því daginn eftir skyldi haldið í frí.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

júlí 2019
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa