Zell/Kitzsteinhorn/Berchtesgaden/Zell čtrnáct

ok djók Tag vierzehn!

Lokadagurinn!

því lítið yrði gert síðasta daginn, bara pakkað saman á íslenskum morgunflugstíma og keyrt til München.

Allavega. Dagur tekinn snemma því tvennt planað sem hvorttveggja gæti tekið smá tíma.

Kitzsteinhorn. Jökullinn þeirra í Zell, já og svo sem í Salzburgarhéraði öllu. Ætluðum upp á topp. Ekki á skíði, það var ekki búið að opna held ég, stóð til í lok vikunnar. Enda ekki með skíðagræjur né búnað (ég er víst búin að taka áskorun Tobba bró um skíðaferð í Bláfjöll í vetur. Er þegar farin að klóra mér í kolli með útbúnað).

Þetta var pínu hátt. Þarna sést ekki í topp:

d 14 neðanfrá.jpg

langt frá því reyndar.

Þarna þurfti að fara með þremur mismunandi og ólíkum kláfum alla leið upp. Sá fyrsti var mjög svipaður þeim sem við höfðum farið með í tvær fyrri fjallaferðirnar. Númer tvö var hringlaga, semsagt setið í hring en þó líka dæmigerður kláfur þar sem húsin fara bara hring og hoppað er út og inn.

Það hefði mátt skipta um plexígler í honum, pínu rispað útsýni.

d 14 úr kláfi

Síðasti kláfurinn var allt öðruvísi. Hann var mannaður og fór bara á 20 mín fresti eða svo. Tveir kláfar í gangi, upp og niður á sama tíma. Við þurftum að bíða í 8 mínútur eftir kláf. Á leið upp var hann troðfullur. Fá sæti, aðallega staðið. Við stóðum.

Þetta var pínu hátt!

smá fjallavatn á leiðinni upp:

d 14 vatn

Fundum fyrir hæðinni, þurftum að skokka upp eina hæð frá þar sem lyftan lenti og upp á útsýnispallinn. Ég man aldrei áður eftir því að hafa orðið móð að hoppa upp tröppur eina hæð.

d 14 fannir

Ég myndi nú frekar kalla þetta fannir en jökul, kannski er það bara ég. Þarna var verið að útbúa skíðasvæði fyrir opnun laugardaginn eftir.

En þetta var nú samt mitt hæðarmet á landi.

d 14 hæðarmet

Margir fjallstoppar:

d 14 tindanöfn

Dvöldum svolitla stund uppi við útsýnið, rándýr kaffibolli og deildum kökusneið á veitingahúsinu uppi á toppi og svo kláfurinn gripinn niður aftur.

Reyndist tómur fyrir utan okkur fjögur. Skil ekkert hvað varð um allt hitt fólkið!

Niður heilu og höldnu. Næsta ævintýri.

Reyndist endasleppara. Við höfðum ákveðið að skjótast yfir landamærin til Þýskalands og kíkja á Arnarhreiðrið, einhver höfðu jú gert það frá kórferðinni í Salzburg en ekki við.

Svona var útsýnið úr bílnum á leiðinni:

d 14 rigning!

nánast alla leiðina reyndar! Líka endalausar framkvæmdir og umweg og ljós sem hleyptu umferðinni aðra leið í einu svo þetta tók talsverðan tíma.

Komum til Berchtesgaden þar sem við héldum að Arnarhreiðrið væri. Það var ekki alveg þar. Lítið um leiðbeiningar enda eru Þjóðverjar lítið fyrir að flíka gaurnum, það var búið að leggja bílastæði yfir bönkerinn hans í Berlín og skilti voru fá og lítil. Þarna líka.

Kominn tími á hádegismat. Settumst á veitingahús, undir stórri sólhlíf, eiginlega skýli og pöntuðum okkur mat. Jón fékk riiiiisastóran svínaskanka með heilum blómkálshaus í meðlæti:

d 14 skanki

og við hin eitthvað minna!

Ekki var okkur nú samt sætt lengi undir sólhlífinni stóru. Það fór að rigna. Hellirigna. Ruglhellirigna! Þrumur og eldingar á fullu. Var samt allt í lagi í svolitla stund en síðan fóru að koma fossar ofan af tjaldinu hér og hvar og bætti talsvert í vind svo okkur var öllum smalað inn á veitingastaðinn til að klára að borða. Var sem betur fer nóg pláss.

Út í bíl. Ég tók við að keyra. Óríentering. Vinur Eyrúnar og Ástráðs býr í þessum bæ og hefði pottþétt komið með okkur og sagt til nema hann var á mótorhjólaferðalagi í norðurÞýskalandi.

Leiðsögukerfið í bílnum var í tómu tjóni og sagði mér að keyra inn í einhverja innkeyrslu hjá einhverju fólki (nei ég hlýddi ekki) svo google maps var tekið í notkun. Virkaði mikið betur.

Komumst við þokkalegan leik upp að stað þar sem var hægt að leggja til að taka síðan rútu og svo lyftu upp í hreiðrið sjálft.

Þar var bara svo mikið þrumuveður og helltúrfötu að við hreinlega hættum við. Enda hefði ekki verið neitt útsýni þarna uppi.

Svo ég keyrði bara sem leið lá til baka til Zell.

Gegn um öll umwegin og umferðarstýringuna.

Eitt skipti tóku back seat drivers af mér völdin og sögðu mér að beygja út af hringtorgi annars staðar en ég vildi skv skiltum. Auðvitað hefði ég átt að fara mína leið! sem var „rétta“ leiðin en þetta reyndist samt ekki leiðinleg leið. Örmjór sveitavegur í kannski 10 kílómetra, engin umferð og engin ljós og þarna var líka stytt upp og bara ansi skemmtilegt. Engar myndir. Ég var að keyra!

Heim til Zell. Upp í hús, skipta um föt, einn drykkur og svo í kvöldmat, ekki veitti af eftir leitina að Arnarhreiðrinu og alla keyrsluna. Við Jón höfðum rekið augun í veitingastað sem var bókstaflega þriggja mínútna gangur frá húsinu. Kíktum á tripadvisor og sáum bara raving reviews. Þau hin, jújú alltílæ, kíkjum á þetta, hálftortryggin á tripadvisor skrifara. Ég þykist samt kunna að lesa úr slíkum, enda skrifa ég sjálf á tripadvisor og það er eiginlega bara mjög augljóst hvort þar eru ekta skrif eða ekki. Þetta leit mjög vel út.

Gengum í gegn um kirkjugarð sem var beint fyrir neðan og til hliðar við húsið okkar. Það er reyndar smá saga að segja frá þessum kirkjugarði. Húsið sem við leigðum er örugglega ekki mikið leigt, allavega ekki að sumri til (og veit ekki með vetur heldur) þar sem það var bara ein umsögn um það á vefsíðunni. Viðkomandi hafði bara gefið húsinu tvær stjörnur. Við skildum lítið í þessu þar sem þetta leit ansi vel út (hægt að skoða hérna) en þegar við lásum umsögnina, sem er á spænsku, var húsinu hrósað upp í topp en einn risastór galli! Það er STÓR KIRKJUGARÐUR við hlið hússins! við alveg: nú, það ættu allavega að vera rólegir nágrannar! Veit ekki hvort viðkomandi var svona hjátrúarfullur eða draughræddur. Ég er búin að skrifa umsögn (undir Jóns nafni reyndar) og gaf 5 stjörnur, smotteríið sem vantaði upp á var ekki heillar stjörnu í mínus virði.

Kirkjugarðurinn reyndist alveg yndislegur! sem við vorum jú búin að spotta en höfðum samt aldrei gengið almennilega gegn um hann. Mjög vel hirtur og gríðarfallegur:

d 14 kirkjugarður

og hér sést húsið okkar upp frá garðinum:

d 14 slotið frá kirkjugarði

Nújæja. Veitingahúsið. Seewirt heitir það. Þetta reyndist fullsorgleg endurtekning á lokadeginum okkar í París árið 2012 þar sem við ákváðum að borða á hverfisveitingahúsinu síðasta kvöldið og það reyndist langbesta matarupplifunin. Þannig var það nefnilega einmitt þarna. Lokakvöldið. Langstyst frá. Langbest. Sló út Savoy hótelmatinn um allavega heila stjörnu ef ekki tvær!

Pöntuðum okkur bara aðalrétt og desert. Þetta kom sem amuse-bouche:

d 14 forréttur

rjómaostakrem með vorlauksklippum, karsa, radísum og örþunnum stökksteiktum baguettesneiðum. Namm!

Öllum hafði okkur litist best á langsteiktar nautakinnar með hindberjum í balsamedikslegi ásamt kartöflufrauði. Sveik sko sannarlega heldur ekki!

d 14 nautakinnar

Mismunandi eftirréttir, frá einni ískúlu upp í þetta svakalega créme brulée!

d 14 créme brulée

sem sást eiginlega ekki í fyrir gúmmulaði ofan á!

Og þarna toppaði ég sjálfa mig í matarklámmyndunum! Sorrí. En hvílík máltíð!

Röltum upp í hús í húminu. Kominn tími á að pakka. Lagt yrði snemma af stað til München daginn eftir.

Stórkostleg ferð að verða búin. Bestu ferðafélagar sem hægt er að hugsa sér. Takk fyrir okkur, elsku þið!

0 Responses to “Zell/Kitzsteinhorn/Berchtesgaden/Zell čtrnáct”  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
bland í poka

teljari

  • 375.561 heimsóknir

dagatal

júlí 2019
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa


%d bloggurum líkar þetta: