Sarpur fyrir 29. maí, 2010

Dagur #8. Síðasti í hátíð

Vaknað eldsnemma (þeas Jón Lárus vaknaði klukkan sjö og vakti mig hálfátta), morgunmatur og tekið sig til fyrir ferð út á strönd, hittumst 8 stykki niðri í anddyri og tókum tvo leigubíla á hina frægu Bondi strönd.

Ég held ég hafi aldrei komið á svona frábærlega flotta strönd áður, enda telst þetta víst ein af tíu bestu ströndum í heimi – ekki veit ég nú svo sem samt hvernig slíkt er mælt. Um kílómetra löng, 100-150 metra breið og tandurhrein, ekki arða af drasli. Sjórinn líka ótrúlega hreinn, sérstaklega miðað við að þetta er inni í miðri stórborg. Víst fullt af svona ströndum þarna. Sandurinn var pínu kaldur, enda ekki nema 17 gráðu hiti til að byrja með, mér finnst samt betra að hafa sandinn aðeins of kaldan en allt of heitan.

Sjórinn var yndislegur, ekkert sérlega heitur en svo sem bara svipaður hiti og í ítalskri sundlaug, pínu kalt að koma ofan í en vandist eins og skot. Svíinn í hópnum var mesta kuldaskræfan.

Anna, lókal kona sem var viðloðandi hátíðina var okkur þarna til aðstoðar, lánaði brimbretti og hjálpaði til – Kjartan var ansi hreint lunkinn á brettinu, við Jón Lárus vorum bæði búin að prófa minna og breiðara bretti og ætluðum að fá Önnu síðan til að hjálpa okkur með það stærra en þá lenti hún í smá óhappi, var reyndar gríðarlega heppin að tveir úr hópnum tóku eftir því að hún hafði flækst í snúrunni sem festir brettið við fótinn á manni og redduðu henni upp úr. Hver veit hvernig hefði farið, hún fékk talsvert högg á höfuðið og var ansi aum í smá tíma. Jafnaði sig samt vel, sem betur fór. En við eigum semsagt eftir að prófa almennilegt bretti.


nokkrir úr hópnum á leið út í öldurnar

Einum fremur bragðlausum ís síðar tókum við leigubíl upp á hótel ásamt flestum hinna, þau voru að fara heim til Evrópu en við á tónleika, rútan frá hótelinu átti að leggja af stað klukkan eitt. Kvöddum Kjartan með virktum í anddyrinu, öfundaði hann hreint ekki af því að vera að fara heim og það í óöruggt flug, dauðkveið fyrir því að festast kannski í Abu Dhabi ef ekki yrði flogið til London. Við ákváðum nú að hafa áhyggjur af því síðar, Eyjó gamli hefði nú viku til að jafna sig smá.

Tónleikarútan, sama gamla skrapatólið og hafði verið hópferðafarartæki allan tímann, lagði af stað upp úr eitt í unaðslegu veðri, hitinn hafði með morgninum mjakast upp í um 23 gráður og sólin skein í heiði. Ríflega klukkutíma akstur upp í Bláfjöll, þar komumst við næst kengúrum sem við höfðum gert (skilti við vegina um kengúruumferð). Þetta voru þeir tónleikar sem ég hafði hlakkað einna mest til, náttúrlega fyrir utan mína eigin tónleika. Kammerkór Sydneyborgar með spennandi prógramm.


Mjög flott orgel var í kirkjunni.

Það klikkaði heldur aldeilis ekki, gríðargóðir tónleikar. Ég ákvað strax að reyna að útvega nótur að einu verkinu eftir Ross Edwards, kíkja í tónverkamiðstöð Ástralíu og athuga hvort þau ættu verkið.
Í hléi tókum við fólk tali og sem oftar þurftum við að segja frá hvaðan við kæmum og hvað við ætluðum að gera í vikunni sem eftir væri. Fólkið reyndist hið almennilegasta (eins og reyndar nánast allir Ástralir sem við hittum) og buðu okkur að fara með okkur í útsýnisferð um Bláfjöll, þyrftum bara að koma okkur þangað uppeftir með lestinni. Ekki spurning að við tókum þau á orðinu, fengum netfang og símanúmer til að vera í sambandi síðar í vikunni.

Rúta aftur á hótelið, steinsofnuðum bæði á leiðinni. Þeir segja að það taki sólarhring fyrir klukkutímann að tímajafna sig fullkomlega, samkvæmt því náðu flestir ráðstefnugestirnir því alls ekki en við ekki fyrr en á fimmtudegi í seinni vikunni.

Út í kvöldmat, ákváðum að fara eitthvað austurlenskt út að borða enda hótelið í miðju kínahverfinu. 50 metra frá innganginum duttum við niður á kóreskan veitingastað sem okkur leist vel á, þar á matseðli var fyrirbæri sem heitir Dolson Bibimbap sem ég hafði aldrei heyrt um nema í leiknum Restaurant City sem ég spila á smettinu. Varð auðvitað að panta mér hann, því miður náði ég ekki að taka mynd af honum áður en þjónninn hrærði öllu saman, hann er borinn fram mjög flottur, allt grænmetið og kjötið sitt í hverju lagi í skálinni, hrá eggjarauða í miðju og svo er sett matskeið eða svo af rauðri kryddsósu og allt hrært saman á borðinu. Mjög góður matur.


Dolsot bibimbap.

Jón pantaði sér rétt sem hét Sewoo bokkumbap en það var talsvert venjulegri réttur, steikt hrísgrjón með grænmeti og rækjum. Líka mjög fínt. Fengum nokkra forrétti í skálum en þjónustan var svo hröð þarna að okkur vannst enginn tími til annars en rétt að smakka á þeim.
Pakksödd upp á hótel að slaka á eftir langan og mikinn dag. Jón Lárus skaust síðan út til að athuga hvort Formúlukeppni helgarinnar væri send út á næsta sportbar, það reyndist ekki vera, tveir risaskjáir, á öðrum vélhjólakappakstur og hinum ástralskt rugby. Keypum okkur sólarhringsaðgang að netinu á hótelinu (með aumingjalegu 200 Mb niðurhali inniföldu) til að hann gæti fylgst með tölulegu upplýsingunum – og ég kíkt svo á netið á eftir.


Formúlufíkill í aksjón.

Sérkennilegt, stundum er maður þreyttur en ekkert syfjaður, efast ekkert um að margir lesendur kannist við þann pakka, að farast úr þreytu en geta ekki sofnað. Þessi öfuga tilfinning – að vera syfjuð en ekki þreytt er frekar ný fyrir mér. Eiginlega bara mjög þægileg tilfinning, nema reyndar þegar maður vill ómögulega sofna, eins og stundum á tónleikunum í vikunni, það var bara ekkert við augnlokin ráðið. Gersamlega slökkt á manni.


bland í poka

teljari

  • 380.721 heimsóknir

dagatal

maí 2010
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa